5. námskafli
Athygli beint að Biblíunni
1 Í boðunarstarfinu viljum við beina athygli allra að orði Guðs, Biblíunni. Hún hefur að geyma þann boðskap sem við prédikum, og við viljum að fólk geri sér ljóst að það sem við segjum er ekki frá sjálfum okkur komið heldur Guði. Þeir sem elska Guð treysta Biblíunni. Þegar lesið er úr henni hlusta þeir og taka leiðbeiningar hennar til sín. En þegar þeir sækja sína eigin biblíu og lesa sjálfir eru áhrifin enn meiri. Þegar aðstæður í boðunarstarfinu bjóða upp á það er því gott að hvetja húsráðandann til að sækja sína eigin biblíu og fletta upp ritningarstöðunum með þér. Eins er það á safnaðarsamkomum. Ef allir eru hvattir til að nota Biblíuna eru þeir sem nýlega hafa sýnt áhuga fljótari að átta sig á því að hún er uppspretta trúar okkar, og allir hafa gagn af þeirri auknu áherslu sem fylgir sjónrænum áhrifum.
2 Það auðveldar þér tvímælalaust að ná markmiði þínu með ræðunni ef áheyrendur fylgjast með í sinni eigin biblíu þegar þú lest ritningarstaði, að svo miklu leyti sem því verður við komið. Miklu skiptir að þú hvetjir þá til þess. Á ráðleggingakortinu er þetta kallað „Áheyrendur hvattir til að nota Biblíuna.“
3 Með hvatningu. Ein besta leiðin er að hvetja áheyrendur beinlínis til að nota Biblíuna og sú aðferð er iðulega notuð. Stundum má ná sama árangri með því að segja einfaldlega hvar ritningarstaðirnir eru áður en þú lest þá, til dæmis þannig: „Hugsið um ástandið í bænum meðan við lesum 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.“ Síðan skaltu líta í kringum þig um leið og þú flettir sjálfur upp ritningarstaðnum til að athuga hvort áheyrendur þínir fari eftir hvatningunni. Yfirleitt fletta þeir þá líka upp á ritningarstaðnum.
4 Það er undir ræðumanninum komið að ákveða hvort hann leggur áherslu á einhverja ritningarstaði með því að fá áheyrendur til að fletta þeim upp. Fylgstu með áheyrendum. Vertu vakandi fyrir því hvort þeir fylgja þér eftir. Jafnvel þótt þú þurfir einhverra orsaka vegna að lesa upp ræðu, geturðu oft komið helstu ritningarstöðum þannig á framfæri að áheyrendur fylgist með í biblíum sínum.
5 Með því að gefa tíma til að finna ritningarstaðinn. Það er ekki nóg að segja bara hvar ritningarstaðurinn sé. Ef þú lest hann og ferð síðan beint yfir í þann næsta áður en áheyrendur hafa fundið hann missa þeir kannski móðinn og hætta. Fylgstu með áheyrendum og lestu ritningarstaðinn þegar flestir hafa fundið hann.
6 Yfirleitt er ráðlegt að nefna nógu tímanlega hvaða ritningarstað þú ætlar að vitna í. Þá fer ekki dýrmætur tími til spillis í langar og tíðar þagnir eða óþarft „uppfyllingarefni“ meðan áheyrendur eru að finna staðinn. Þó er viðeigandi málhvíld við hæfi. Á hinn bóginn þarftu að hafa hugfast að sumt af því sem þú segir fer fyrir ofan garð og neðan hjá áheyrendum ef þú nefnir tilvitnunina snemma í kynningu þinni á ritningarstaðnum. Þú þarft því að vera búinn að koma á framfæri því sem snertir rökfærsluna í heild, áður en þú nefnir hvar ritningarstaðurinn sé.
――――◆◆◆◆◆――――
7 Þeir ritningarstaðir, sem notaðir eru í ræðu, eru venjulega kjarni ræðunnar. Rökfærslan er byggð á þeim. Þáttur þeirra í ræðunni er þess vegna undir því kominn á hve áhrifaríkan hátt þeir eru notaðir. Þess vegna er liðurinn „Ritningarstaðir vel kynntir“ á ráðleggingakortinu mjög mikilvægur.
8 Hægt er að kynna, lesa og heimfæra ritningarstað á marga vegu. Tökum dæmi: Stundum er kynning á ritningarstað bæði formáli að lestrinum og heimfærsla, þannig að upplesturinn leggur aðeins áherslu á eða staðfestir það sem sagt hefur verið. Hins vegar eru sumir ritningarstaðir notaðir á mjög áhrifaríkan hátt án nokkurra kynningarorða, eins og til dæmis sem upphafsorð fyrirlestrar.
9 Til að læra að kynna ritningarstaði á árangursríkan hátt skaltu fylgjast með hvernig reyndir ræðumenn fara að. Reyndu að koma auga á mismunandi aðferðir við kynningu ritningarstaðanna. Íhugaðu áhrif þeirra. Þegar þú undirbýrð þínar eigin ræður skaltu íhuga hverju ritningarstaðurinn á að koma til leiðar, sérstaklega ef hann er lykilritningarstaður. Undirbúðu kynningu hans vandlega svo að hann hafi sem mest áhrif. Hér eru nokkrar tillögur:
10 Spurning. Spurningar krefjast svara og örva hugsunina. Láttu ritningarstaðinn og heimfærslu hans koma með svarið. Segjum að þú sért að ræða um blóðgjöf og sért að kynna Postulasöguna 15:28, 29 eftir að hafa sýnt fram á að notkun blóðs sé bönnuð samkvæmt Hebresku ritningunum. Þú gætir kynnt ritningarstaðinn með eftirfarandi formála: „En er þetta bann bindandi fyrir kristna menn? Tökum eftir þessum úrskurði hins stjórnandi ráðs frumkristna safnaðarins sem felldur var undir leiðsögn heilags anda.“
11 Fullyrðing eða meginregla rökstudd með ritningarstað. Tökum dæmi: Í ræðu um lögleysi gætirðu sagt: „Jafnvel val okkar á félögum hefur mikil áhrif á það hvaða augum við lítum rétt og rangt.“ Síðan gætirðu lesið orð Páls í 1. Korintubréfi 15:33 orðum þínum til stuðnings.
12 Vitnað í Biblíuna sem heimild. Við kynningu á ritningarstöðum öðrum en aðlaritningarstöðum gætirðu einfaldlega sagt: „Tökum eftir hvað orð Guðs segir um þetta mál.“ Þetta ætti að nægja til að vekja eftirvæntingu eftir ritningarstaðnum og draga fram skýrar ástæður fyrir notkun hans.
13 Mótsögn. Í ræðu um „helvíti“ gætirðu sagt: „Ef maður á að líða kvalir í eilífum eldi hlýtur það að merkja að hann hafi meðvitund eftir dauðann. En takið eftir hvað Prédikarinn 9:5, 10 segir.“
14 Valmöguleikar. Ef bein spurning eða mótsögn gæti reynst of erfið fyrir ákveðinn áheyrendahóp gætirðu bent á nokkra möguleika og síðan látið ritningarstaðinn og heimfærslu hans svara. Í viðræðum við kaþólskan mann gætirðu viljað nota Matteus 6:9 til að sýna fram á hvers við eigum réttilega að biðja til. Bein spurning eða mótsögn gæti beint huga viðmælanda þíns inn á rangar brautir svo að þú gætir sagt: „Það eru skiptar skoðanir um það hvers við eigum að biðja til. Sumir segja til Maríu, aðrir segja til einhvers ‚dýrlings‘ en sumir segja að við eigum aðeins að biðja til Guðs. Líttu á hvað Jesús sagði.“
15 Sögulegur bakgrunnur. Segjum að þú sért að flytja ræðu um lausnargjaldið og ætlir að nota Hebreabréfið 9:12 til að sýna fram á að Jesús hafi ‚aflað okkur eilífrar lausnar‘ með því að fórna sínu eigin blóði. Þá gætirðu þurft að hafa formála að lestri þínum á ritningarstaðnum til að skýra stuttlega hvað „hið heilaga“ í tjaldbúðinni var sem Páll segir að hafi táknað staðinn sem Jesús gekk inn í.
16 Samhengi. Stundum getur verið gott að kynna ritningarstað með því að nota versin í kring til að benda á umgjörð hans. Þegar þú notar til dæmis Lúkas 20:25 til að sýna fram á þýðingu orðanna ‚gjaldið keisaranum það sem keisarans er,‘ gæti verið gott að útskýra hvernig Jesús notaði mynt með áletrun keisarans eins og frásagan greinir frá.
17 Sambland. Oft er auðvitað hægt að blanda þessum aðferðum saman og það getur verið ágætt.
18 Kynning ritningarstaðar ætti að vekja það mikla eftirvæntingu að áheyrendur fylgist með af athygli þegar hann er lesinn, og hún ætti að beina athygli að ástæðunni fyrir því að þú notar hann.
19 Eftirvænting vakin eftir ritningarstöðum. Hvernig veistu hvort þú hefur vakið eftirvæntingu eftir ritningarstað? Fyrst og fremst af viðbrögðum áheyrenda en einnig með því hvernig þú kynntir hann. Séu áheyrendur eins og í lausu lofti ef þú hættir við að lesa ritningarstaðinn eftir að hafa kynnt hann, eða ef þú lætur spurningu ósvarað í kynningu þinni, þá geturðu verið viss um að þú hafir vakið áhuga á ritningarstaðnum. Auðvitað verður kynningin að vera í samræmi við efnið og ritningarstaðinn sem verið er að kynna. Og annaðhvort verður ritningarstaðurinn sjálfur eða heimfærslan sem fylgir að svara spurningu sem ekki var svarað í kynningunni.
20 Líkja mætti kynningu á ritningarstað við lúðurblástur á undan tilkynningu. Lúðurblásarinn er ekki að boða að hann ætli að leika heila hljómleika heldur eiga líflegir hljómar hornsins að beina áhuga og athygli að tilkynningunni. Þegar ritningarstaðurinn, sem þú valdir, er kynntur á þennan hátt hlusta áheyrendur á hann með ánægju og hafa gagn af.
21 Athygli beint að ástæðunni fyrir notkun ritningarstaðar. Enda þótt láta megi spurningu ósvarað í kynningu ritningarstaðar, ættu engu að síður að koma fram einhver rök fyrir því hvers vegna hann sé viðeigandi og allrar athygli verður. Segjum að þú sért að ræða um jörðina sem ævarandi heimili mannsins og ætlir að lesa Opinberunarbókina 21:3, 4. Þá gætirðu sagt í inngangsorðunum: „Þegar við lesum næsta ritningarstað, Opinberunarbókina 21:3, 4, takið þá eftir hvar tjaldbúð Guðs verður þegar þjáningar og dauði eru liðin tíð.“ Þar með hefurðu bæði vakið eftirvæntingu með því að láta eitthvað ósagt sem fram kemur í ritningargreininni og einnig beint athyglinni að mikilvægasta hluta hennar sem þú getur auðveldlega notað í rökfærslu þinni eftir að hafa lesið hana. Með því að beina athyglinni að raunverulegu innihaldi ritningarstaðarins leggurðu áherslu á mikilvægi orðs Guðs.
[Spurningar]
1, 2. Hvers vegna ættum við að beina athygli áheyrenda að Biblíunni?
3, 4. Hvernig getum við gert það á áhrifaríkan hátt?
5, 6. Hvers vegna er gagnlegt að gefa áheyrendum tíma til að finna ritningarstaði sem við ætlum að lesa?
7-18. Hvaða aðferðir má nota til að kynna ritningarstaði á áhrifaríkan hátt?
19, 20. Hvernig getum við kannað hvort við höfum vakið eftirvæntingu eftir ritningarstaðnum sem við höfum nefnt?
21. Hvers vegna ættum við að beina athyglinni að ástæðunni fyrir því að við vitnum í ritningarstaðinn?