Apríl
Miðvikudagur 1. apríl
Jesús mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ – Matt. 16:23.
Hvað um okkur? Hugsum við eins og Guð eða eins og heimurinn? Við höfum eflaust lagað hegðun okkar að kröfum Guðs. En hvað um hugsanir okkar? Leggjum við okkur fram um að hugsa eins og Jehóva og líta málin sömu augum og hann? Að gera það kostar vissa áreynslu. Hins vegar kostar litla eða enga áreynslu að hugsa eins og heimurinn. Það er vegna þess að andi heimsins er allt í kringum okkur. (Ef. 2:2) Þar að auki getur verið freistandi að hugsa eins og heimurinn því að hann höfðar oft til eigingjarnra hvata okkar. Það er áskorun að hugsa eins og Jehóva en mjög auðvelt að hugsa eins og heimurinn. Ef við leyfum heiminum að móta hugarfar okkar verðum við eigingjörn og finnum til löngunar til að vera siðferðilega óháð Guði. (Mark. 7:21, 22) Það er því nauðsynlegt að við temjum okkur að hugsa um „það sem Guðs er“ en ekki „það sem manna er“. w18.11 18 gr. 1; 19 gr. 3–4
Fimmtudagur 2. apríl
„Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ – Matt. 3:17.
Jehóva lýsti yfir velþóknun sinni á Jesú við þrjú mismunandi tækifæri þegar hann talaði sjálfur af himni. Það hlýtur að hafa verið mjög hvetjandi fyrir Jesú. Um leið og hann hafði verið skírður í ánni Jórdan sagði Jehóva það sem segir í versi dagsins. Að því er virðist var Jóhannes skírari sá eini sem heyrði þetta fyrir utan Jesú. Um ári fyrir dauða Jesú heyrðu síðan þrír af postulunum Jehóva segja um hann: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ (Matt. 17:5) Að lokum, aðeins nokkrum dögum fyrir dauða Jesú, talaði Jehóva aftur til sonar síns af himni. (Jóh. 12:28) Jesús vissi að hans biði niðurlægjandi dauðdagi, að hann yrði álitinn guðlastari. Hann bað samt að vilji Jehóva yrði gerður en ekki sinn eigin. (Matt. 26:39, 42) „Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis.“ Þannig sóttist hann ekki eftir viðurkenningu heimsins heldur aðeins viðurkenningu föður síns. – Hebr. 12:2. w18.07 10–11 gr. 15–16
Biblíulestur vegna minningarhátíðarinnar: (Atburðir eftir sólsetur: 9. nísan) Markús 14:3–9
Föstudagur 3. apríl
„Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér!“ – Lúk. 22:42.
Rétt eftir að Jesús innleiddi kvöldmáltíð Drottins sýndi hann gríðarlegt hugrekki. Hvernig? Hann varð við vilja föður síns, jafnvel þótt hann vissi að hann yrði ákærður fyrir guðlast, sem var skammarlegur glæpur, og líflátinn. (Matt. 26:65, 66) Jesús varðveitti fullkomna ráðvendni til að heiðra nafn Jehóva, styðja drottinvald hans og gera iðrandi mönnum kleift að hljóta eilíft líf. Jesús bjó fylgjendur sína einnig undir það sem þeir þyrftu bráðlega að þola. Jesús sýndi einnig hugrekki með því að einbeita sér að þörfum trúfastra postula sinna í stað þess að hugsa um þær áhyggjur sem hann kann að hafa haft. Hann innleiddi einfalda máltíð eftir að hann lét Júdas fara. Hún myndi minna þá sem yrðu andasmurðir fylgjendur hans á hvaða gagn úthellt blóð hans og hlutdeild þeirra í nýja sáttmálanum gerði. – 1. Kor. 10:16, 17 w19.01 22 gr. 7–8
Biblíulestur vegna minningarhátíðarinnar: (Atburðir dagsins: 9. nísan) Markús 11:1–11
Laugardagur 4. apríl
„Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“ – Jóh. 12:28.
Faðir Jesú svaraði þá frá himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“ Jesús var skelfdur vegna þeirrar miklu ábyrgðar sem hvíldi á honum, að vera Jehóva trúfastur. Hann vissi að hann yrði húðstrýktur og tekinn af lífi á grimmilegan hátt. (Matt. 26:38) Það skipti Jesú mestu máli að gera nafn föður síns dýrlegt. Hann var sakaður um guðlast og hafði áhyggjur af því að dauði sinn myndi kasta rýrð á nafn hans. Rétt eins og Jesús gætum við haft áhyggjur af að nafn Jehóva verði smánað. Kannski er komið fram við okkur af ósanngirni eins og við Jesú. Það getur einnig sett okkur út af laginu þegar andstæðingar bera út lygasögur um okkur. Við gætum hugsað um þá smán sem þessar sögur gera nafni Jehóva. Þá veita orð Jehóva okkur mikla hughreystingu. Jehóva mun alltaf gera nafn sitt dýrlegt. – Sálm. 94:22, 23; Jes. 65:17. w19.03 11–12 gr. 14–16
Biblíulestur vegna minningarhátíðarinnar: (Atburðir dagsins: 10. nísan) Markús 11:12–19
Sunnudagur 5. apríl
Jesús tók að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að líða mikið og verða líflátinn. – Matt. 16:21.
Lærisveinar Jesú trúðu ekki eigin eyrum. Þeir bjuggust við að Jesús myndi endurreisa Ísraelsríkið en nú sagði hann þeim að hann myndi bráðlega þjást og deyja. Pétur postuli var fyrstur til að tjá sig. Hann sagði: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús svaraði: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ (Matt. 16:22–23; Post. 1:6) Með þessum orðum gerði Jesús greinarmun á hugsunum Guðs og hugsunum heimsins sem Satan stjórnar. (1. Jóh. 5:19) Pétur endurspeglaði sérhlífni heimsins. En Jesús vissi að hugarfar föður hans væri annað. Það er greinilegt á svari Jesú að hann hafnaði hugarfari heimsins og valdi hugarfar Jehóva. w18.11 18 gr. 1–2
Biblíulestur vegna minningarhátíðarinnar: (Atburðir dagsins: 11. nísan) Markús 11:20–12:27, 41–44
Mánudagur 6. apríl
Boðið dauða Drottins þangað til hann kemur. – 1. Kor. 11:26.
Hugsaðu þér hvað Jehóva sér þegar milljónir manna um allan heim koma saman til að vera viðstaddar kvöldmáltíð Drottins. Hann sér meira en stóran hóp manna, hann tekur eftir hverjum og einum sem er viðstaddur. Hann sér til dæmis þá sem koma trúfastlega ár eftir ár. Sumir þeirra þurfa jafnvel að þola miklar ofsóknir. Öðrum finnst það skylda sín að mæta á minningarhátíðina þótt þeir sæki ekki reglulega aðrar samkomur. Jehóva tekur líka eftir þeim sem eru að koma í fyrsta sinn, ef til vill fyrir forvitnissakir. Jehóva er vafalaust glaður að sjá svo marga sækja minningarhátíðina. (Lúk. 22:19) En hann hefur meiri áhuga á ástæðunni fyrir komu þeirra. Viljum við óðfús fá kennslu frá Jehóva og söfnuðinum sem hann notar? – Jes. 30:20; Jóh. 6:45 w19.01 26 gr. 1–3
Biblíulestur vegna minningarhátíðarinnar: (Atburðir dagsins: 12. nísan) Markús 14:1, 2, 10, 11; Matteus 26:1–5, 14–16
Minningarhátíð
eftir sólsetur
Þriðjudagur 7. apríl
„Kristur dó fyrir okkur.“ – Rómv. 5:8.
Jesús var ekki aðeins fús til að deyja fyrir lærisveina sína heldur tók hann líka hag þeirra fram yfir sinn eigin hvern einasta dag. Hann gaf sér til dæmis tíma til að vera með fylgjendum sínum þótt hann væri þreyttur eða undir tilfinningalegu álagi. (Lúk. 22:39–46) Og hann einbeitti sér að því sem hann gat gefið, ekki að því sem hann gat fengið. (Matt. 20:28) Við tilheyrum hinu eina sanna kristna bræðralagi og höfum ánægju af að nota eins mikinn tíma og hægt er til að bjóða öðrum að slást í lið með okkur. En okkur er sérstaklega umhugað um að hjálpa trúsystkinum okkar sem eru orðin óvirk. (Gal. 6:10) Við sýnum þeim að við elskum þau með því að hvetja þau til að koma á samkomur, ekki síst á minningarhátíðina. Líkt og Jehóva og Jesús gleðjumst við ákaflega þegar óvirkir snúa aftur til Jehóva. – Matt. 18:14. w19.01 29 gr. 12, 14; 30 gr. 15
Biblíulestur vegna minningarhátíðarinnar: (Atburðir dagsins: 13. nísan) Markús 14:12–16; Matteus 26:17–19 (Atburðir eftir sólsetur: 14. nísan) Markús 14:17–72
Miðvikudagur 8. apríl
Þetta er líkami minn. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans. – Matt. 26:26–28.
Jesús innleiddi minningarhátíðina um dauða sinn. Hann notaði einfaldlega ósýrða brauðið og vínið sem hann hafði við höndina. Jesús sagði postulunum að þetta tvennt táknaði fullkominn líkama sinn og blóð sem hann myndi brátt fórna í þeirra þágu. Líklega kom það postulunum ekkert á óvart hversu einföld þessi athöfn var. Af hverju ekki? Nokkrum mánuðum áður, á þriðja þjónustuári Jesú, heimsótti hann nána vini sína, þau Lasarus, Mörtu og Maríu. Við þessar afslöppuðu aðstæður fór Jesús að kenna. Marta var viðstödd en hún var upptekin við að útbúa stóra máltíð fyrir heiðursgestinn. Þegar Jesús tók eftir þessu leiðrétti hann Mörtu vingjarnlega og hjálpaði henni að skilja að flókin máltíð væri ekki alltaf nauðsynleg. (Lúk. 10:40–42) Og nokkrum klukkustundum áður en Jesús dó fórnardauða fór hann eftir eigin ráðum. Hann hafði minningarmáltíðina einfalda. w19.01 20–21 gr. 3–4
Biblíulestur vegna minningarhátíðarinnar: (Atburðir dagsins: 14. nísan) Markús 15:1–47
Fimmtudagur 9. apríl
„Faðir, ger mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð sem ég hafði hjá þér.“ – Jóh. 17:5.
Jehóva heiðraði Jesú með óvæntum hætti. Hann reisti hann upp, hækkaði hann í tign og gaf honum það sem enginn annar hafði fengið fram að því – ódauðlegt líf á himnum. (Fil. 2:9; 1. Tím. 6:16) Hvílík viðurkenning sem Jesús hlaut fyrir trúfesti sína. Hvað hjálpar okkur að sækjast ekki eftir viðurkenningu þessa heims? Höfum hugfast að Jehóva launar alltaf trúföstum þjónum sínum og veitir þeim viðurkenningu, oft með óvæntum hætti. Hver veit hvaða óvænta blessun bíður okkar í framtíðinni? En núna, meðan við göngum í gegnum erfiðleika og raunir í þessum illa heimi, skulum við stöðugt minna okkur á að heimurinn líður undir lok. (1. Jóh. 2:17) Jehóva, kærleiksríkur faðir okkar, er ekki ranglátur. ,Hann gleymir ekki verki okkar og kærleikanum sem við auðsýnum honum.‘ – Hebr. 6:10. w18.07 11 gr. 17–18
Biblíulestur vegna minningarhátíðarinnar: (Atburðir dagsins: 15. nísan) Matteus 27:62–66 (Atburðir eftir sólsetur: 16. nísan) Markús 16:1
Föstudagur 10. apríl
Ég bið að allir séu þeir eitt. – Jóh. 17:20, 21.
Eining var Jesú ofarlega í huga við síðustu kvöldmáltíðina með postulunum. Þegar hann bað með þeim nefndi hann þá ósk sína að allir lærisveinar hans væru eitt eins og hann og faðir hans eru eitt. Eining þeirra yrði skýr sönnun þess að Jehóva hefði sent Jesú til jarðar til að gera vilja hans. Kærleikurinn myndi einkenna sanna lærisveina Jesú og styrkja eininguna meðal þeirra. (Jóh. 13:34, 35) Það er skiljanlegt að Jesús hafi lagt áherslu á einingu. Hann tók eftir að postularnir voru ekki eins einhuga og þeir hefðu átt að vera. Þetta kvöld fóru þeir enn á ný að „metast um hver þeirra væri talinn mestur“. (Lúk. 22:24–27; Mark. 9:33, 34) Við annað tækifæri höfðu Jakob og Jóhannes beðið Jesú að veita sér virðingarstöður við hlið honum í ríki hans. – Mark. 10:35–40. w18.06 8 gr. 1–2
Biblíulestur vegna minningarhátíðarinnar: (Atburðir dagsins: 16. nísan) Markús 16:2–8
Laugardagur 11. apríl
Maður yfirgefur föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt. – 1. Mós. 2:24.
Jehóva vill að ástin milli hjóna sé sterk og að hún vari alla ævi. (Matt. 19:3–6) Framhjáhald er með því versta sem hægt er að gera maka sínum. Sjöunda boðið af boðorðunum tíu lagði bann við hjúskaparbroti og það af góðri ástæðu. (5. Mós. 5:18) Það er synd „á móti Guði“ og miskunnarlaust gagnvart makanum. (1. Mós. 39:7–9) Sá sem hefur verið svikinn af maka sínum getur verið fjöldamörg ár að jafna sig. Jehóva er einnig mjög annt um velferð barna. Hann gaf foreldrum fyrirmæli um að annast bæði efnislegar og andlegar þarfir barna sinna. Foreldrar áttu að nota hvert tækifæri til að kenna börnunum svo að þau lærðu að elska Jehóva og meta lög hans. (5. Mós. 6:6–9; 7:13) Foreldrar áttu ekki að líta á börnin eins og eign sem þeir máttu vanrækja eða fara illa með. Börnin voru arfur þeirra, gjöf frá Jehóva sem þeim bar að hlúa að. – Sálm. 127:3. w19.02 21 gr. 5, 7
Sunnudagur 12. apríl
Guð mun viðurkenna ráðvendni mína. – Job. 31:6, NW.
Job einbeitti sér að voninni um að Guð myndi launa honum og það hjálpaði honum að vera ráðvandur. Hann trúði því að ráðvendni hans skipti Guð máli. Þótt hann þyrfti að þola miklar raunir var hann fullviss um að Jehóva myndi launa honum að lokum. Sú fullvissa hjálpaði honum að vera ráðvandur. Ráðvendni Jobs gladdi Jehóva svo mikið að hann launaði honum ríkulega þegar hann var enn ófullkominn. (Job. 42:12–17; Jak. 5:11) Og Job á enn ríkulegri laun í vændum. Guð okkar hefur ekki breyst. (Mal. 3:6) Við getum haldið voninni um bjarta framtíð ljóslifandi í hjörtum okkar ef við höfum hugfast að hann hefur mætur á ráðvendni okkar. (1. Þess. 5:8, 9) Stundum gæti þér fundist þú einn á báti í þeim efnum. En þú verður aldrei einn. Þú verður meðal milljóna ráðvandra þjóna Guðs víðs vegar um heiminn. Þannig líkirðu líka eftir trúföstum körlum og konum forðum daga sem voru ráðvönd, jafnvel þótt það kostaði sum þeirra lífið. – Hebr. 11:36–38; 12:1. w19.02 7 gr. 15–16
Mánudagur 13. apríl
„Verið öll samhuga, hluttekningarsöm og elskið hvert annað, verið miskunnsöm, auðmjúk.“ – 1. Pét. 3:8.
Nú þegar minningarhátíðin er að baki er gott að spyrja sig: „Hvernig get ég líkt betur eftir kærleika Jesú? Hugsa ég meira um þarfir trúsystkina minna en mínar eigin? Ætlast ég til meira af trúsystkinum mínum en þau eru fær um eða geri ég mér grein fyrir takmörkum þeirra?“ Líkjum alltaf eftir Jesú og verum „hluttekningarsöm“. Það er ekki ætlast til að við höldum minningarhátíðina um dauða Krists mikið lengur. Þegar Jesús „kemur“ í þrengingunni miklu mun hann safna saman til himna þeim sem eftir eru af „hans útvöldu“ og minningarhátíðin verður ekki lengur haldin. (1. Kor. 11:26; Matt. 24:31) Við getum verið viss um að þjónar Jehóva gleyma ekki þessari einföldu kvöldmáltíð, jafnvel þegar minningarhátíðin verður ekki lengur haldin. Þeir muna eftir henni og tengja hana við mestu hógværð, hugrekki og kærleika sem nokkur maður á jörðinni hefur sýnt. w19.01 25 gr. 17–19
Þriðjudagur 14. apríl
„Þú hefur þóknun á hreinskilni hið innra og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku.“ – Sálm. 51:8.
Skoðum hvernig líkamlegt heilbrigði okkar sýnir fram á mikilvægi þess að vera heilbrigð hið innra. Í fyrsta lagi þurfum við að borða næringarríkan mat og hreyfa okkur reglulega til að halda okkur í góðu formi. Eins þurfum við að neyta næringarríkrar andlegrar fæðu og iðka reglulega trúna á Jehóva til að halda táknrænu hjarta okkar í góðu formi. Við iðkum trúna með því að fara eftir því sem við lærum og segja öðrum frá því sem við trúum. (Rómv. 10:8–10; Jak. 2:26) Í öðru lagi gæti litið út fyrir að við séum í góðu formi þó að við séum í raun veik hið innra. Á svipaðan hátt gætum við haldið að trú okkar sé sterk af því að við höfum góða reglu á þjónustunni við Jehóva. Hins vegar gætu rangar langanir verið að skjóta rótum innra með okkur. (1. Kor. 10:12; Jak. 1:14, 15) Við verðum að muna að Satan vill smita okkur af hugsunarhætti sínum. w19.01 15 gr. 4–5
Miðvikudagur 15. apríl
„Far þú og ger hið sama.“ – Lúk. 10:37.
Við getum spurt okkur: Geri ég hið sama? Líki ég eftir miskunnsama Samverjanum? (Lúk. 10:30–35) Gæti ég gert betur í að sýna miskunn í verki með því að hjálpa þeim sem þjást? Gæti ég til dæmis boðið eldri trúsystkinum, ekkjum og þeim sem eiga ekki fjölskyldu í sannleikanum aðstoð? Get ég átt frumkvæðið að því að ,hughreysta ístöðulitla‘? (1. Þess. 5:14; Jak. 1:27) Við njótum gleðinnar af að gefa þegar við erum miskunnsöm við aðra. Auk þess vitum við að það gleður Jehóva. (Post. 20:35; Hebr. 13:16) Davíð konungur sagði um þann sem sinnir þörfum annarra: „Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu.“ (Sálm. 41:2, 3) Við hljótum einnig miskunn Jehóva ef við sýnum öðrum samúð en miskunn hans gerir okkur kleift að njóta eilífrar hamingju. – Jak. 2:13. w18.09 19 gr. 11–12
Fimmtudagur 16. apríl
„Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ – Jes. 41:10.
Trúföst systir, sem heitir Yoshiko, fékk slæmar fréttir. Læknirinn hennar sagði að hún ætti aðeins fáeina mánuði eftir ólifaða. Hvernig brást hún við? Yoshiko fór að hugsa um eitt uppáhaldsversið sitt sem er vers dagsins. Hún hélt ró sinni og sagði síðan lækninum að hún væri ekki hrædd vegna þess að Jehóva héldi í hönd hennar. Þessi kæra systir okkar fann hughreystingu í þessum orðum og hjálp til að treysta Jehóva fullkomlega. Þetta vers getur einnig hjálpað okkur að vera róleg þegar við stöndum frammi fyrir miklum prófraunum. Jehóva fól Jesaja að skrifa þessi orð til að hugga Gyðingana sem áttu eftir að verða fluttir í útlegð til Babýlonar. En Jehóva lét ekki varðveita orðin aðeins fyrir Gyðingana í útlegðinni heldur fyrir alla þjóna sína eftir þann tíma. (Jes. 40:8; Rómv. 15:4) Við lifum núna á ,örðugum tíðum‘ og þurfum þess vegna meira en nokkru sinni fyrr á þeirri uppörvun að halda sem við finnum í Jesajabók. – 2. Tím. 3:1. w19.01 2 gr. 1–2
Föstudagur 17. apríl
„Ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað.“ – 1. Kor. 7:15.
Hjón, sem slíta samvistum, eru eftir sem áður gift. Það fylgja því ýmsir erfiðleikar að vera aðskilin. Páll postuli nefndi ástæðu fyrir því að hjón haldi saman. Hann skrifaði: „Vantrúaði maðurinn er helgaður af konunni og vantrúaða konan er helguð af bróðurnum. Annars væru börn ykkar óhrein en nú eru þau hrein.“ (1. Kor. 7:14) Þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður hafa margir trúir þjónar Guðs ákveðið að vera áfram með maka sínum sem er ekki í trúnni. Þeir eru ánægðir að hafa gert það, sérstaklega ef maki þeirra varð síðar meir vottur Jehóva. (1. Kor. 7:16; 1. Pét. 3:1, 2) Í söfnuðinum um allan heim eru ótal dæmi um farsæl hjónabönd. Eflaust eru mörg hamingjusöm hjón í söfnuðinum þínum. Það er vegna þess að eiginmennirnir eru trúir bræður sem elska konurnar sínar og þær virða þá og elska sömuleiðis. Öll sýna þau að hægt er að halda hjónabandið í heiðri. – Hebr. 13:4. w18.12 14 gr. 18–19
Laugardagur 18. apríl
Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden og setti þar manninn sem hann hafði mótað. – 1. Mós. 2:8.
Eden merkir „unaður“ og þessi garður var sannarlega unaðslegur. Þar var næga fæðu að finna, fallegt landslag og friður milli manna og dýra. (1. Mós. 1:29–31) Hebreska orðið fyrir „garð“ er þýtt paraʹdeisos á grísku. Í alfræðibók eftir M’Clintock og Strong segir um paraʹdeisos: „Þegar grískur ferðamaður heyrði orðið sá hann fyrir sér stóran garð varinn gegn skemmdum, ósnortna náttúrufegurð með tignarlegum trjám sem bera mörg hver ávöxt og stórar hjarðir antilópna eða fjár ráfa um við bakka tærra lækja.“ (Samanber 1. Mósebók 2:15, 16.) Guð setti Adam og Evu í þess konar paradís. En þau misstu þann heiður þegar þau óhlýðnuðust Guði. Hvorki þau né afkomendur þeirra fengu að búa í paradísinni. (1. Mós. 3:23, 24) En þótt enginn hafi búið í þessum garði virðist vera að hann hafi verið til allt fram að flóðinu mikla á dögum Nóa. w18.12 3–4 gr. 3–5
Sunnudagur 19. apríl
Ég er Drottinn, sem kenni þér það sem gagnlegt er. – Jes. 48:17.
Foreldrar gera sitt besta til að kenna börnum sínum góð gildi. Ef börnin ákveða að fara eftir þeim gildum, sem foreldrar þeirra kenndu þeim, er ólíklegra að þau taki ákvarðanir sem þau sjá eftir seinna. Þannig komast þau hjá óþarfa erfiðleikum og áhyggjum. Líkt og góðir foreldrar vill Jehóva að börn sín eigi innihaldsríkt líf. (Jes. 48:18) Hann gefur okkur því meginreglur um siðferði og framkomu við aðra og býður okkur að líta slík mál sömu augum og hann og hafa sömu gildi. Þetta eru ekki of þröngar skorður heldur hjálpar okkur að taka skynsamlegri ákvarðanir. (Sálm. 92:6; Orðskv. 2:1–5; Jes. 55:9) Það hjálpar okkur að taka ákvarðanir sem stuðla að hamingju en gerir okkur jafnframt kleift að blómstra sem einstaklingar. (Sálm. 1:2, 3) Það er bæði gagnlegt og eftirsóknarvert að hugsa eins og Jehóva. w18.11 19–20 gr. 7–8
Mánudagur 20. apríl
„Þeir hallmæla ykkur.“ – 1. Pét. 4:4.
Ef við viljum ganga í sannleikanum megum við ekki láta undan þrýstingi frá öðrum. Samband okkar við fjölskylduna og aðra sem eru ekki vottar breyttist þegar við kynntumst sannleikanum. Kannski voru sumir umburðarlyndir en aðrir algerlega á móti trú okkar. Fjölskyldan, vinnufélagar og skólafélagar gætu reynt að fá okkur til að taka þátt í hátíðahöldum. Hvernig getum við verið staðföst þegar þrýst er á okkur til að taka þátt í siðum og hátíðum sem eru ekki Jehóva til lofs? Það getum við með því að hafa hugfast hvernig Jehóva lítur á slíka siði. Einnig getur verið gagnlegt að skoða efni í ritunum okkar þar sem fjallað er um uppruna vinsælla hátíða og hátíðisdaga. Þegar við minnum okkur á biblíuleg rök fyrir því að við tökum ekki þátt í slíkum hátíðum verðum við enn sannfærðari um að við göngum á þeim vegi sem „Drottni þóknast“. (Ef. 5:10) Ef við treystum á Jehóva og sannleiksorð hans óttumst við ekki álit annarra. – Orðskv. 29:25. w18.11 11 gr. 10, 12
Þriðjudagur 21. apríl
„Drottinn var með honum. Allt sem hann tók sér fyrir hendur lét Drottinn lánast honum.“ – 1. Mós. 39:23.
Þegar lífið tekur óvænta stefnu gætu áhyggjur um framtíðina dregið úr okkur allan þrótt. Það hefði getað hent Jósef. En í staðinn ákvað hann að nýta aðstæður sínar sem best og gefa Jehóva þannig eitthvað til að blessa. Þótt hann væri í fangelsi lagði hann sig allan fram um að sinna vel þeim verkefnum sem fangelsisstjórinn fól honum, rétt eins og hann gerði þegar hann vann fyrir Pótífar. (1. Mós. 39:21, 22) Við gætum, líkt og Jósef, lent í aðstæðum sem við höfum litla eða enga stjórn á. Við gefum Jehóva hins vegar eitthvað til að blessa ef við erum þolinmóð og leggjum okkur fram um að nýta aðstæður okkar sem best. (Sálm. 37:5) Stundum gætum við vissulega orðið ,efablandin‘ en við munum aldrei ,örvænta‘, eins og Páll postuli orðaði það. (2. Kor. 4:8) Jehóva verður með okkur, sérstaklega ef við einbeitum okkur að þjónustunni við hann. w18.10 29 gr. 11, 13
Miðvikudagur 22. apríl
„Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ – Hebr. 6:10.
Hvernig líður þér þegar einhver sem þú þekkir og virðir gleymir hvað þú heitir eða jafnvel þekkir þig ekki? Það getur gert okkur döpur. Ástæðan er sú að við höfum öll eðlilega löngun til að hljóta viðurkenningu. En við viljum ekki aðeins að fólk viti hver við erum heldur líka hvers konar manneskjur við erum og hverju við höfum áorkað. (4. Mós. 11:16; Job. 31:6) Eins og aðrar eðlilegar langanir gæti þessi þrá eftir viðurkenningu þó brenglast vegna ófullkomleikans eða orðið óeðlilega mikil. Við gætum farið að þrá óhóflega athygli frá öðrum. Heimur Satans ýtir undir löngun í frægð og frama en það beinir athyglinni frá þeim sem verðskuldar viðurkenningu og tilbeiðslu, Jehóva Guði, himneskum föður okkar. – Opinb. 4:11. w18.07 7 gr. 1–2
Fimmtudagur 23. apríl
„Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ – 1. Jóh. 5:19.
Það kemur því ekki á óvart að Satan og illir andar hans hafi þau áhrif á menn í valdastöðum að þeir ljúgi. (1. Tím. 4:1, 2) Trúarleiðtogar, sem ljúga, eru sérstaklega sekir vegna þess að þeir stofna framtíð þeirra sem trúa lygunum í hættu. Það getur kostað menn eilífa lífið að trúa falskenningu og gera eitthvað sem Guð fordæmir. (Hós. 4:9) Jesús vissi að trúarleiðtogar á fyrstu öld voru sekir um slíkar blekkingar. Hann sagði þeim berum orðum: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar og þegar það tekst gerið þér hann hálfu verra vítisbarn [sem verðskuldar eilífa tortímingu] en þér sjálfir eruð.“ (Matt. 23:15) Jesús fordæmdi þessa leiðtoga falstrúarbragða og sagði að þeir ,ættu djöfulinn að föður, sem var manndrápari frá upphafi‘. – Jóh. 8:44. w18.10 7 gr. 5–6
Föstudagur 24. apríl
Sæl eruð þér þá er menn smána yður og ofsækja mín vegna. – Matt. 5:11.
Hvað á Jesús við? Hann heldur áfram: „Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.“ (Matt. 5:12) Þegar postularnir voru barðir og þeim skipað að hætta að prédika ,fóru þeir glaðir burt frá ráðinu‘. Þó að þeir nytu að sjálfsögðu ekki þjáninganna af svipuhöggunum voru þeir „glaðir yfir því að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú“. (Post. 5:41) Þjónar Jehóva nú á dögum þola einnig þjáningar og erfiðleika með gleði vegna nafns Jesú. (Jak. 1:2–4) Við höfum ekkert frekar ánægju af þjáningum en postularnir. En Jehóva getur hjálpað okkur að halda út með hugrekki ef við erum ráðvönd í prófraunum. Þegar við njótum velþóknunar „hins sæla Guðs“ getum við notið hamingju þrátt fyrir trúarofsóknir eða andstöðu heima fyrir. – 1. Tím. 1:11, Biblían 1912. w18.09 21 gr. 18–20
Laugardagur 25. apríl
„Dýrasta hnossið er mæða og hégómi.“ – Sálm. 90:10.
Vegna þeirra ,örðugu tíða‘ sem við lifum á þjást margir tilfinningalega og fjöldi fólks er við það að gefast upp. (2. Tím. 3:1–5) Talið er að fleiri en 800.000 manns stytti sér aldur á ári hverju – að meðaltali einn á hverjum 40 sekúndum. Og því miður hafa nokkrir vottar Jehóva bugast undan álaginu og svipt sig lífi. Mörg trúsystkini okkar glíma við erfiðar aðstæður og þurfa á kærleika okkar að halda þó að þau séu ekki við það að gefast upp. Sum þeirra þurfa að þola ofsóknir og háð. Það er talað illa um önnur trúsystkini okkar á vinnustað eða þau stöðugt gagnrýnd. Enn önnur eru uppgefin eftir mikla yfirvinnu eða tímapressu í vinnunni. Og sum þurfa að glíma við erfiðar aðstæður heima fyrir, ef til vill vegna þess að þau eru gagnrýnd af maka sem er ekki í trúnni. Þessar aðstæður og fleiri gera það að verkum að margir í söfnuðinum eru úrvinda – líkamlega og tilfinningalega. w18.09 13 gr. 3, 5
Sunnudagur 26. apríl
„Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra að börnin mín hlýði sannleikanum.“ – 3. Jóh. 4.
Foreldrar í söfnuðinum vinna með Jehóva þegar þeir hjálpa börnum sínum að setja sér markmið í þjónustunni við hann. Mörg börn, sem hafa fengið slíka hvatningu, hafa síðar meir ákveðið að þjóna í fullu starfi langt frá heimaslóðunum. Sum þeirra eru trúboðar, aðrir eru brautryðjendur þar sem mikil þörf er á boðberum og enn aðrir þjóna á Betel. Fjarlægðin gerir það kannski að verkum að fjölskyldan getur ekki hist eins oft og hún vildi. Fórnfúsir foreldrar hvetja samt börnin sín til að halda áfram að þjóna Jehóva þar sem þau eru. Hvers vegna? Það gleður foreldrana mikið að vita að börnin setji hagsmuni Guðsríkis í fyrsta sæti. Mörgum þeirra líður ef til vill eins og Hönnu sem sagðist hafa ,gefið‘ Jehóva Samúel, son sinn. Þeim finnst mikill heiður að fá að vinna með Jehóva á þennan hátt. Þeir gætu ekki hugsað sér neitt betra. – 1. Sam. 1:28. w18.08 24 gr. 4
Mánudagur 27. apríl
„Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki.“ – Matt. 19:23.
Jesús sagði ekki að það yrði ómögulegt. Hann sagði: „Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki.“ (Lúk. 6:20) Það þýðir þó ekki að allt fátækt fólk hafi hlustað á Jesú og hlotið sérstaka blessun. Margt fátækt fólk gaf boðskap hans engan gaum. Staðreyndin er sú að við getum ekki dæmt um það hve sterkt samband fólk á við Jehóva út frá efnislegum eigum þess. Meðal þjóna Jehóva eru bræður og systur sem eru rík og önnur sem eru fátæk. En þau elska Jehóva og þjóna honum af heilu hjarta. Biblían hvetur þau sem eru rík til að „treysta Guði“ en ekki „fallvöltum auði“. (1. Tím. 6:17–19) Hún varar jafnframt alla þjóna Guðs, bæði ríka og fátæka, við því að elska peninga. (1. Tím. 6:9, 10) Þegar við lítum trúsystkini okkar sömu augum og Jehóva freistumst við ekki til að dæma þau eftir því sem þau eiga eða eiga ekki. w18.08 10–11 gr. 11–12
Þriðjudagur 28. apríl
„Gefið ykkur því Guði á vald.“ – Jak. 4:7.
Við viljum sýna Jehóva að við erum innilega þakklát fyrir þann heiður að fá að tilheyra honum. Að vígjast honum er besta ákvörðun sem við getum tekið því að þannig viðurkennum við að hann á okkur. Við tökum einarða afstöðu gegn því sem Jehóva hatar. Og við elskum og virðum trúsystkini okkar þar sem þau tilheyra Jehóva líka. (Rómv. 12:10) Biblían lofar að Jehóva muni ekki yfirgefa fólk sitt. (Sálm. 94:14) Það er óhagganleg trygging. Jehóva snýr aldrei baki við okkur, sama hvaða erfiðleikum við verðum fyrir. Jafnvel dauðinn getur ekki gert okkur viðskila við kærleika hans. (Rómv. 8:38, 39) „Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins.“ (Rómv. 14:8) Við hlökkum ákaflega til þess dags þegar Jehóva reisir upp trúfasta vini sína sem hafa dáið. (Matt. 22:32) En við njótum líka ríkulegrar blessunar núna. Biblían segir: „Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði, þjóðin sem hann valdi sér til eignar.“ – Sálm. 33:12. w18.07 26 gr. 18–19
Miðvikudagur 29. apríl
„Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp.“ – 1. Kor. 10:23.
Sumar ákvarðanir snúast um persónuleg mál eins og menntun og atvinnu og því gæti sumum fundist að þeir ættu að hafa frelsi til að velja það sem þeim sýnist svo framarlega sem það brýtur ekki gegn samvisku þeirra. Ef til vill hafa þeir í huga það sem Páll skrifaði kristnum mönnum í Korintu varðandi mat: „Hvers vegna skyldi samviska annars manns geta heft frelsi mitt?“ (1. Kor. 10:29) Vissulega höfum við frelsi til að taka eigin ákvarðanir varðandi þessa hluti en við verðum þó að muna að frelsið er skilyrðum háð og að allar ákvarðanir okkar hafa einhverjar afleiðingar. Af þeirri ástæðu sagði Páll það sem kemur fram í versi dagsins. Þetta sýnir okkur fram á að þó að við höfum frelsi til að taka eigin ákvarðanir í persónulegum málum er ýmislegt sem skiptir mun meira máli en hvað við viljum sjálf. w18.04 10 gr. 10
Fimmtudagur 30. apríl
„Snúið aftur til mín, þá sný ég aftur til ykkar.“ – Mal. 3:7.
Vottur Jehóva nú á dögum gæti sagst tilbiðja Jehóva en á sama tíma gert hluti sem hann hatar. (Júd. 11) Kannski gælir hann við siðlausa draumóra, elur á græðgi eða ber kala til trúsystkinis. (1. Jóh. 2:15–17; 3:15) Slíkur hugsunarháttur getur orðið til þess að hann syndgi. Vel má vera að á sama tíma sé hann virkur í boðuninni og sæki samkomur að staðaldri. Þótt annað fólk viti ekki hvernig við hugsum og hegðum okkur sér Jehóva allt. Það fer ekki fram hjá honum ef við þjónum honum ekki af öllu hjarta. (Jer. 17:9, 10) Jehóva gefst þó ekki auðveldlega upp á okkur. Ef við förum út á ranga braut hvetur hann okkur til að snúa aftur til sín. Jehóva veit að við þurfum að glíma við veikleika. En hann vill að við höfnum því sem er illt. (Jes. 55:7) Ef við gerum það stendur hann með okkur og styrkir okkur andlega, tilfinningalega og líkamlega þannig að við getum sigrast á syndugum tilhneigingum okkar. – 1. Mós. 4:7. w18.07 18 gr. 5–6