Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • es25 bls. 26-36
  • Mars

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Mars
  • Rannsökum Ritningarnar daglega – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Laugardagur 1. mars
  • Sunnudagur 2. mars
  • Mánudagur 3. mars
  • Þriðjudagur 4. mars
  • Miðvikudagur 5. mars
  • Fimmtudagur 6. mars
  • Föstudagur 7. mars
  • Laugardagur 8. mars
  • Sunnudagur 9. mars
  • Mánudagur 10. mars
  • Þriðjudagur 11. mars
  • Miðvikudagur 12. mars
  • Fimmtudagur 13. mars
  • Föstudagur 14. mars
  • Laugardagur 15. mars
  • Sunnudagur 16. mars
  • Mánudagur 17. mars
  • Þriðjudagur 18. mars
  • Miðvikudagur 19. mars
  • Fimmtudagur 20. mars
  • Föstudagur 21. mars
  • Laugardagur 22. mars
  • Sunnudagur 23. mars
  • Mánudagur 24. mars
  • Þriðjudagur 25. mars
  • Miðvikudagur 26. mars
  • Fimmtudagur 27. mars
  • Föstudagur 28. mars
  • Laugardagur 29. mars
  • Sunnudagur 30. mars
  • Mánudagur 31. mars
Rannsökum Ritningarnar daglega – 2025
es25 bls. 26-36

Mars

Laugardagur 1. mars

„Vonin bregst okkur ekki.“ – Rómv. 5:5.

Nýi heimurinn er enn ókominn. En hugleiðum sumt sem er fyrir hendi – stjörnurnar, trén, dýrin og fólk. Enginn efast um að þetta sé allt saman til en það hefur samt ekki alltaf verið það. Þetta er til vegna þess að Jehóva skapaði það. (1. Mós. 1:1, 26, 27) Guð okkar hefur líka áformað að koma á nýjum heimi og hann stendur við það sem hann hefur sagt. Í nýja heiminum fær fólk að búa við fullkomna heilsu að eilífu. Á tilsettum tíma Guðs verður nýi heimurinn jafn raunverulegur og alheimurinn er núna. (Jes. 65:17; Opinb. 21:3, 4) Notum þau tækifæri sem við höfum til að styrkja trú okkar núna. Glæðum þakklæti okkar fyrir lausnargjaldið. Hugleiðum mátt Jehóva. Og leggjum stund á það sem styrkir sambandið við hann. Þá verðum við meðal þeirra „sem vegna trúar og þolinmæði erfa það sem lofað hefur verið“. – Hebr. 6:11, 12. w23.04 31 gr. 18, 19

Sunnudagur 2. mars

„Sagði ég þér ekki að þú myndir sjá dýrð Guðs ef þú tryðir?“ – Jóh. 11:40.

Jesús lítur upp og fer upphátt með bæn. Hann vill gefa Jehóva allan heiðurinn af því sem gerist næst. Hann kallar: „Lasarus, komdu út!“ (Jóh. 11:43) Og Lasarus gengur út úr gröfinni! Jesús hefur gert það sem sumir héldu að væri ómögulegt. Þessi frásaga styrkir trú okkar á upprisuna. Hvernig þá? Munum eftir loforðinu sem Jesús gaf Mörtu: „Bróðir þinn mun rísa upp.“ (Jóh. 11:23) Jesús hefur eins og faðir hans löngun og mátt til að standa við það loforð. Tár hans gefa til kynna sterka löngun hans til að afmá dauðann og sorgina sem hann veldur. Og þegar Lasarus gekk út úr gröfinni sannaðist að Jesús hefur mátt til að reisa dána til lífs. Og gleymum ekki því sem Jesús minnti Mörtu á í versi dagsins. Við höfum góða ástæðu til að treysta því að loforð Guðs um upprisuna rætist. w23.04 11–12 gr. 15, 16

Mánudagur 3. mars

„Jehóva er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.“ – Sálm. 145:18.

Við gætum þurft að breyta því hvernig við biðjum þegar við skiljum betur hver vilji Jehóva er. Við megum ekki gleyma að Jehóva hefur fyrirætlun og hann lætur hana fram ganga á þeim tíma sem hann hefur ákveðið. Þessi fyrirætlun felur meðal annars í sér að binda algerlega og endanlega enda á öll vandamál sem valda svo miklum þjáningum núna – vandamál eins og náttúruhamfarir, veikindi og dauða. Jehóva uppfyllir fyrirætlun sína fyrir tilstilli ríkis síns. (Dan. 2:44; Opinb. 21:3, 4) En þangað til leyfir hann að Satan stjórni heiminum. (Jóh. 12:31; Opinb. 12:9) Ef Jehóva færi að leysa vandamál mannkyns núna gæti litið út fyrir að stjórn Satans væri vel heppnuð að einhverju leyti. Við þurfum því að bíða eftir að Jehóva uppfylli sum loforð, en það þýðir ekki að við fáum enga hjálp þangað til. Jehóva mun hjálpa okkur. w23.05 8 gr. 4; 9–10 gr. 7, 8

Þriðjudagur 4. mars

„Þá vitið þið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.“ – Kól. 4:6.

Hvað getum við gert til að hjálpa öðrum að hafa gagn af minningarhátíðinni? Það fyrsta er auðvitað að bjóða þeim. Auk þess að bjóða fólki sem við hittum í boðuninni getum við hugsað til ættingja, vinnufélaga, skólafélaga og fleiri sem við myndum vilja bjóða. Ef við höfum ekki nóg af prentuðum boðsmiðum getum við sent fólki hlekk á rafræna útgáfu. Hver veit hversu margir þiggja boðið? (Préd. 11:6) Höfum í huga að þeir sem við bjóðum geta verið með spurningar – sérstaklega ef þeir hafa aldrei komið á samkomu hjá okkur. Það er gott að gera ráð fyrir spurningum og vera undirbúinn að svara þeim. Eftir að áhugasamir hafa sótt minningarhátíðina gætu þeir haft fleiri spurningar. Við viljum gera allt sem við getum til að hjálpa fólki með rétt hugarfar að njóta góðs af minningarhátíðinni, jafnt fyrir, meðan á henni stendur og eftir hana. – Post. 13:48. w24.01 12 gr. 13, 15; 13 gr. 16

Miðvikudagur 5. mars

„Þið eruð gufa sem sést um stutta stund en hverfur svo.“ – Jak. 4:14.

Í Biblíunni er að finna átta frásögur af fólki sem var reist aftur til lífs á jörð. Hvernig væri að skoða hverja frásögu vandlega? Reyndu að koma auga á hvað þær kenna okkur. Hugsaðu um hvernig hver þeirra sýnir löngun Guðs og mátt til að vekja dána til lífs. Og hugleiðum umfram allt mikilvægasta dæmið um upprisu – upprisu Jesú. Munum að hún var staðfest af hundruðum sjónarvotta og gefur okkur því traustan grundvöll til að byggja trú okkar á. (1. Kor. 15:3–6, 20–22) Við erum þakklát Jehóva fyrir loforð hans um upprisuna. Við getum verið viss um að loforðið rætist vegna þess að Jehóva hefur bæði löngun og mátt til að efna það. Verum staðráðin í að styrkja trú okkar á þessa dýrmætu von. Þá verður samband okkar við Jehóva enn nánara og það er eins og hann segi við hvert og eitt okkar: „Ástvinir þínir munu rísa upp!“ – Jóh. 11:23. w23.04 8 gr. 2; 12 gr. 17; 13 gr. 20

Fimmtudagur 6. mars

Gakktu hógvær með Guði þínum. – Míka 6:8.

Hógværð og auðmýkt eru skyldir eiginleikar. Hógværð felur í sér að sjá sjálfan sig í réttu ljósi og virða takmörk sín. Auðmjúkur maður virðir aðra og lítur á þá sem sér meiri. (Fil. 2:3) Hógvær manneskja er líka auðmjúk. Gídeon var hógvær og auðmjúkur. Þegar engill Jehóva sagði honum að hann hefði verið valinn til að frelsa Ísrael frá hinum öflugu Midíanítum sagði þessi hógværi maður: „Ætt mín er ómerkilegasta ættin í Manasse og ég er lítilmótlegastur í fjölskyldu föður míns.“ (Dóm. 6:15) Honum fannst hann óhæfur í þetta verkefni en Jehóva vissi betur. Með hjálp Jehóva leysti Gídeon verkefnið vel af hendi. Öldungar gera sitt besta til að sýna hógværð og auðmýkt í öllu. (Post. 20:18, 19) Þeir gorta hvorki af hæfileikum sínum né því sem þeir áorka. Þeir rífa sig ekki heldur niður vegna galla sinna eða mistaka. w23.06 3 gr. 4, 5

Föstudagur 7. mars

„Hann mun kremja höfuð þitt.“ – 1. Mós. 3:15.

Meira en þúsund ár eru þangað til höfuð Satans verður kramið. (Opinb. 20:7–10) Samkvæmt Biblíunni eru magnaðir atburðir í vændum áður en það gerist. Þjóðirnar munu lýsa yfir ‚friði og öryggi‘. (1. Þess. 5:2, 3) Þrengingin mikla hefst síðan „skyndilega“ þegar þjóðirnar ráðast á fölsk trúarbrögð. (Opinb. 17:16) Eftir það kveður Jesús upp dóm yfir mannkyninu og skilur sauðina frá geitunum. (Matt. 25:31–33, 46) Satan situr ekki aðgerðalaus á meðan. Hann hatar þjóna Jehóva svo mikið að hann æsir upp bandalag þjóða, sem í Biblíunni er kallað Góg í landinu Magóg, til að ráðast á sanna tilbiðjendur hans. (Esek. 38:2, 10, 11) Á ákveðnum tíma mun þeim sem eru eftir á jörðinni af hinum andasmurðu vera safnað saman til að fara til himna þar sem þeir berjast með Kristi og himneskum hersveitum hans í Harmagedónstríðinu, lokakafla þrengingarinnar miklu. (Matt. 24:31; Opinb. 16:14, 16) Síðan hefst þúsundáraríki Krists. – Opinb. 20:6. w23.10 20–21 gr. 9, 10

Laugardagur 8. mars

„Ég, þjónn þinn, hef óttast Jehóva frá unga aldri.“ – 1. Kon. 18:12.

Margir þjónar Guðs búa í löndum þar sem starfsemi okkar er bönnuð. Þeir sýna veraldlegum yfirvöldum viðeigandi virðingu en rétt eins og Óbadía gefa þessi dýrmætu trúsystkini Jehóva það sem honum ber – skilyrðislausa hollustu! (Matt. 22:21) Þau sýna að þau óttast Guð með því að hlýða honum frekar en mönnum. (Post. 5:29) Þau gera það með því að halda áfram að boða fagnaðarboðskapinn og með því að koma saman svo lítið beri á. (Matt. 10:16, 28) Þeim er umhugað um að trúsystkini þeirra fái þá andlegu fæðu sem þau hafa svo mikla þörf fyrir. Skoðum reynslu Henris, en hann býr í landi í Afríku þar sem starfsemi okkar var bönnuð um tíma. Meðan á banninu stóð bauðst Henri til að dreifa andlegri fæðu til trúsystkina sinna. Hann skrifaði: „Ég er feiminn að eðlisfari … Jehóva … gaf mér það hugrekki sem ég þurfti.“ Sérðu sjálfan þig fyrir þér jafn hugrakkan og Henri? Þú getur verið það ef þú ræktar með þér heilnæman guðsótta. w23.06 15 gr. 9; 16 gr. 11

Sunnudagur 9. mars

„Syndin kom inn í heiminn með einum manni.“ – Rómv. 5:12.

Þegar Adam og Eva gerðu uppreisn gæti virst sem Satan hefði tekist að setja á hliðina fyrirætlun Guðs um að fylla jörðina af fullkomnu, hlýðnu fólki. Hann gæti hafa hugsað sem svo að Jehóva væri í klípu. Hann hélt kannski að Jehóva tæki Adam og Evu af lífi og skapaði önnur fullkomin hjón í staðinn til að standa við fyrirætlun sína. En ef Guð hefði gert það hefði Djöfullinn ásakað hann um að vera lygari. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva hafði sagt Adam og Evu að afkomendur þeirra myndu fylla jörðina, eins og kemur fram í 1. Mósebók 1:28. Eða kannski að Jehóva myndi leyfa Adam og Evu að eignast ófullkomna afkomendur sem gætu aldrei náð fullkomleika. (Préd. 7:20; Rómv. 3:23) Þá hefði Djöfullinn vafalaust sakað Jehóva um mistök. Hvers vegna? Vegna þess að þá myndi sú fyrirætlun Guðs að fylla paradísarjörð af fullkomnum, hlýðnum afkomendum Adams og Evu ekki verða að veruleika. w23.11 5–6 gr. 15, 16

Mánudagur 10. mars

„Gangið ekki lengra en skrifað er.“ – 1. Kor. 4:6.

Jehóva gefur okkur skýra leiðsögn í orði sínu og fyrir milligöngu safnaðar síns. Við höfum enga ástæðu til að bæta við leiðbeiningarnar sem hann sér okkur fyrir. (Orðskv. 3:5–7) Við göngum því ekki lengra en það sem stendur í Biblíunni eða búum til reglur fyrir trúsystkini okkar um það sem er einkamál hvers og eins. Satan notar ‚innantómar blekkingar‘ og „hugmyndafræði heimsins“ til að afvegaleiða fólk og sundra því. (Kól. 2:8) Á fyrstu öld var þetta meðal annars heimspeki byggð á hugmyndum manna, kenningum Gyðinga sem voru ekki byggðar á Biblíunni og þeirri hugmynd að kristnir menn þyrftu að fylgja Móselögunum. Þetta voru allt blekkingar því að það dró athygli fólks frá uppsprettu viskunnar, Jehóva. Nú á dögum notar Satan fjölmiðla og samfélagsmiðla til að dreifa samsæriskenningum og falsfréttum sem stjórnmálaleiðtogar koma á framfæri. w23.07 16 gr. 11, 12

Þriðjudagur 11. mars

„Hversu mikil eru verk þín, Jehóva, hve djúpar hugsanir þínar!“ – Sálm. 92:5.

Jehóva brást við uppreisn Satans og fyrstu mannanna á þann hátt að það hefur örugglega gert Satan orðlausan. Í stað þess að reynast lygari reyndist Jehóva sannorður með því að leyfa Adam og Evu að eignast börn. Og Jehóva sýndi að ef hann segist ætla að gera eitthvað getur ekkert stöðvað hann. Hann sá til þess að fyrirætlun sín yrði að veruleika með því að sjá fyrir „afkomanda“ sem myndi bjarga hlýðnum afkomendum Adams og Evu. (1. Mós. 3:15; 22:18) Ráðstöfun Jehóva um lausnargjaldið hlýtur að hafa komið Satan í opna skjöldu! Hvers vegna? Vegna þess að hún byggist á óeigingjörnum kærleika. (Matt. 20:28; Jóh. 3:16) Hann er eiginleiki sem hinn sjálfselski Satan hefur ekki til að bera. Hverju kemur lausnargjaldið til leiðar? Í lok þúsund áranna munu fullkomnir, hlýðnir afkomendur Adams og Evu búa á paradísarjörð, alveg eins og Jehóva áformaði í upphafi. w23.11 6 gr. 17

Miðvikudagur 12. mars

„Guð mun dæma.“ – Hebr. 13:4.

Við höldum í heiðri lög Jehóva um heilagleika lífs og blóðs. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva segir að blóð tákni lífið, sem er dýrmæt gjöf frá honum. (3. Mós. 17:14) Þegar Jehóva gaf mönnum leyfi til að borða kjöt af dýrum tók hann það fram að þeir mættu ekki borða blóðið. (1. Mós. 9:4) Hann endurtók þessi fyrirmæli þegar hann lét Ísraelsmenn fá Móselögin. (3. Mós. 17:10) Og hann lét stjórnandi ráð á fyrstu öld fyrirskipa öllum kristnum mönnum að ‚halda sig frá blóði‘. (Post. 15:28, 29) Við hlýðum þessum fyrirmælum staðfastlega þegar við tökum ákvarðanir varðandi læknismeðferð. Við víkjum ekki heldur frá háum siðferðisstaðli Jehóva. Páll notar áhrifaríkt myndmál þegar hann segir okkur að ‚deyða‘ jarðneskar tilhneigingar, það er að segja, að leggja hart að okkur að losa okkur við rangar holdlegar langanir. Við forðumst að horfa á eða gera nokkuð sem gæti leitt okkur út í kynferðislegt siðleysi. – Kól. 3:5; Job. 31:1. w23.07 15 gr. 5, 6

Fimmtudagur 13. mars

„Að lokum opnaði hann sig fyrir henni.“ – Dóm. 16:17.

Var Samson svo blindaður af ást að hann gat ekki séð hvað Dalíla var að gera? Það kemur ekki fram í frásögunni en Dalíla hélt áfram að spyrja Samson hvað gerði hann svona sterkan og að lokum gaf hann eftir og sagði henni það. Því miður urðu mistök Samsonar til þess að hann missti kraft sinn og viðurkenningu Jehóva um tíma. (Dóm. 16:16–20) Samson mátti þola sársaukafullar afleiðingar þess að treysta Dalílu frekar en Jehóva. Filistear handtóku hann og blinduðu. Hann var fangelsaður í Gasa og var látinn mala korn þar. Síðan var hann niðurlægður þegar Filistear söfnuðust saman til að halda hátíð. Þeir færðu Dagón falsguði sínum mikla fórn, rétt eins og hann hefði gefið Samson í hendur þeirra. Þeir tóku Samson úr fangelsinu og fóru með hann í veisluna til að „skemmta fólkinu“ – gera grín að honum. – Dóm. 16:21–25. w23.09 5–6 gr. 13, 14

Föstudagur 14. mars

„Reynið að gera það sem er gott í augum allra manna.“ – Rómv. 12:17.

Vinnufélagi eða skólafélagi spyr okkur kannski um skoðun okkar á málum sem tengjast siðferði. Þá virðum við skoðanir hans en gerum jafnframt okkar besta til að verja afstöðu okkar. (1. Pét. 3:15) Það er oft gagnlegt að líta á spurninguna sem tækifæri til að skilja hvað skiptir hann máli, frekar en árás eða ögrun. Óháð því hvers vegna er spurt ættum við að svara mildilega og vinsamlega. Það gæti fengið hann til að endurmeta viðhorf sitt. Ef vinnufélagi spyr til dæmis hvers vegna við höldum ekki upp á afmæli gætum við spurt okkur: Veltir hann fyrir sér hvort við megum ekki gera okkur dagamun? Við gætum kannski dregið úr áhyggjum hans með því að láta hann vita að við kunnum að meta áhuga hans á starfsfélögum. Það gæti skapað tækifæri til að ræða á rólegum nótum það sem Biblían gefur til kynna í sambandi við afmæli. w23.09 16–17 gr. 10, 11

Laugardagur 15. mars

Gætið að ykkur til að leiðast ekki afvega af villu þessara illu manna og falla frá staðfestu ykkar. – 2. Pét. 3:17.

Það er mikill heiður að mega nota þann tíma sem eftir er til að boða fólki af öllum þjóðum trúna. Pétur postuli hvetur okkur til að hafa dag Jehóva „stöðugt í huga“. (2. Pét. 3:11, 12) Hvernig förum við að því? Með því að hugleiða – á hverjum degi, ef það er hægt – þá blessun sem nýr heimur mun færa okkur. Sjáðu sjálfan þig fyrir þér anda að þér hreinu og fersku lofti, borða næringarríkan mat, taka á móti ástvinum sem koma í upprisunni og fræða fólk sem lifði fyrr á öldum um uppfyllingu biblíuspádóma. Slík hugleiðing hjálpar okkur að varðveita eftirvæntinguna og fullvissuna um að stutt sé í endi þessa heims. Við vitum þetta um framtíðina og látum því ekki ‚leiðast afvega‘ af falskennurum. w23.09 27 gr. 5, 6

Sunnudagur 16. mars

„Hlýðið foreldrum ykkar í samræmi við vilja Drottins því að það er rétt.“ – Ef. 6:1.

Ungt fólk er umkringt jafnöldrum sem eru „óhlýðnir foreldrum“. (2. Tím. 3:1, 2) Hvers vegna vilja margir þeirra ekki hlýða? Sumum finnst foreldrar sínir vera hræsnisfullir. Foreldrar ætlast stundum til að börnin sín geri eitthvað sem þeir gera ekki sjálfir. Aðrir líta á ráð foreldranna sem úrelt, óhentug eða of ströng. Ef þú ert ungur að árum, líður þér þá stundum þannig? Mörgum finnst erfitt að hlýða boði Jehóva í versi dagsins. Hvað getur hjálpað þér að gera það? Þú getur lært hlýðni af bestu fyrirmyndinni – Jesú. (1. Pét. 2:21–24) Hann var fullkomin manneskja en átti ófullkomna foreldra. Jesús sýndi þeim samt virðingu, jafnvel þegar þeir gerðu mistök og misskildu hann stundum. – 2. Mós. 20:12. w23.10 7 gr. 4, 5

Mánudagur 17. mars

„Fyrri lagaboð voru felld úr gildi því að þau voru vanmáttug og gagnslaus.“ – Hebr. 7:18.

Páll postuli útskýrði að fórnirnar sem lögin kváðu á um gætu ekki hreinsað menn algerlega af synd. Fyrir vikið höfðu lögin verið „felld úr gildi“. Því næst kenndi Páll þeim dýpri sannindi. Hann minnti trúsystkini sín á ‚betri von‘ byggða á fórn sem gæti hjálpað þeim að ‚nálgast Guð‘. (Hebr. 7:19) Páll útskýrði fyrir hebreskum trúsystkinum sínum hvers vegna tilbeiðsla þeirra væri langtum æðri tilbeiðslunni sem þeir höfðu áður stundað. Tilbeiðsla Gyðinga samkvæmt lögmálinu var aðeins „skuggi þess sem átti að koma en Kristur er veruleikinn“. (Kól. 2:17) Skuggi er aðeins óljós mynd þess sem hann fellur af. Tilbeiðsluform Gyðinga til forna var aðeins skuggi af þeim veruleika sem síðar kom í ljós. Við þurfum að skilja fyrirkomulag Jehóva til að fyrirgefa syndir svo að tilbeiðsla okkar sé honum þóknanleg. w23.10 25 gr. 4, 5

Þriðjudagur 18. mars

„Á tíma endalokanna mun konungur suðursins stimpast við hann og konungur norðursins mun geysast á móti honum.“ – Dan. 11:40.

Í Daníel 11. kafla er talað um tvo konunga, eða stjórnmálaöfl, sem berjast um heimsyfirráð. Þegar við berum þennan spádóm saman við aðra í Biblíunni sjáum við að „konungur norðursins“ er Rússland og bandamenn hans og að „konungur suðursins“ er ensk-ameríska heimsveldið. Þjónar Guðs sem búa á svæði undir stjórn ‚konungs norðursins‘ þurfa að þola beinar ofsóknir af hans hendi. Sumir vottar hafa verið barðir og fangelsaðir fyrir trú sína. Ofsóknir ‚konungs norðursins‘ hafa ekki hrætt bræður okkar og systur heldur byggt upp trú þeirra. Hvernig stendur á því? Þau vita að ofsóknir á hendur þjónum Guðs uppfylla spádóm í Daníelsbók. (Dan. 11:41) Að vita það getur líka hjálpað okkur að halda von okkar sterkri og vera trúföst Jehóva. w23.08 11 gr. 15, 16

Miðvikudagur 19. mars

„Sá sem snertir ykkur snertir augastein minn.“ – Sak. 2:8.

Jehóva er næmur á tilfinningar okkar og vill vernda okkur vegna þess að hann elskar okkur. Það hryggir hann að sjá hryggð okkar. Þess vegna getum við beðið: „Varðveittu mig eins og augastein þinn.“ (Sálm. 17:8) Augað er viðkvæmt og dýrmætt. Þegar Jehóva líkir okkur við augastein sinn er því eins og hann segi: Hver sem skaðar ykkur, fólk mitt, skaðar það sem er mér dýrmætt. Jehóva vill að þú sért fullviss um að hann elski þig persónulega. En hann veit að vegna fortíðar okkar getum við efast um að hann elski okkur. Og aðstæður okkar núna fá okkur kannski til að efast um að Jehóva elski okkur. Hvað getur styrkt þetta traust? Skoðum hvernig Jehóva lætur í ljós kærleika sinn til Jesú, hinna andasmurðu og okkar allra. w24.01 27 gr. 6, 7

Fimmtudagur 20. mars

„Guð hélt hendi sinni yfir okkur og verndaði okkur fyrir árásum óvina.“ – Esra. 8:31.

Esra hafði séð hvernig Jehóva studdi þjóna sína á erfiðum tímum. Áratugum áður, eða árið 484 f.Kr., bjó Esra líklega í Babýlon þegar Ahasverus konungur gaf út tilskipun um að útrýma Gyðingum úr persneska heimsveldinu. (Est. 3:7, 13–15) Esra var í lífshættu! Þegar Gyðingar heyrðu um þessa ógn föstuðu þeir og syrgðu „í öllum skattlöndunum“, vafalaust til að biðja Jehóva um leiðsögn. (Est. 4:3) Hugsa sér hvernig Esra og öðrum Gyðingum hefur liðið þegar taflið snerist þeim í óhag sem höfðu lagt á ráðin um að útrýma þeim! (Est. 9:1, 2) Það sem Esra upplifði á þessum erfiða tíma gæti hafa búið hann undir prófraunir síðar meir og hefur trúlega byggt upp traust hans á að Jehóva geti verndað fólk sitt. w23.11 17 gr. 12, 13

Föstudagur 21. mars

Guð álítur mann réttlátan óháð verkum hans. – Rómv. 4:6.

Páll postuli var aðallega að tala um „verk byggð á lögunum“ sem voru gefin Ísraelsmönnum. (Rómv. 3:21, 28) Á dögum Páls virðast sumir kristnir Gyðingar hafa átt erfitt með að skilja að ekki þurfti lengur að halda Móselögin. Páll notaði þess vegna Abraham sem dæmi til að sýna fram á að „verk byggð á lögunum“ væru ekki nauðsynleg til að vera réttlátur í augum Guðs. Trú væri hins vegar nauðsynleg. Þessi vitneskja er hvetjandi vegna þess að hún auðveldar okkur að sjá að gott samband við Guð er okkur innan seilingar. Við getum verið Guði þóknanleg ef við ræktum trú á Guð og Jesú Krist. Á hinn bóginn eru verkin sem eru til umræðu í 2. kafla Jakobsbréfsins ekki „verk byggð á lögunum“ heldur verk sem þjónar Jehóva vinna í daglega lífinu. (Jak. 2:24) Slík verk leiða í ljós hvort kristinn maður trúi á Guð í raun. w23.12 3 gr. 8; 4–5 gr. 10, 11

Laugardagur 22. mars

„Maðurinn er höfuð konu sinnar.“ – Ef. 5:23.

Systur sem eru að hugsa um að ganga í hjónaband ættu að vanda val sitt á maka. Ekki gleyma að þú þarft að fylgja forystu mannsins sem þú velur að giftast. (Rómv. 7:2; Ef. 5:33) Spyrðu þig: Er hann þroskaður kristinn maður? Er Jehóva í fyrsta sæti í lífi hans? Tekur hann skynsamlegar ákvarðanir? Getur hann viðurkennt mistök sín? Sýnir hann konum virðingu? Er hann fær um að styðja mig andlega, efnislega og tilfinningalega? Ef þú vilt fá góðan eiginmann verður þú að sjálfsögðu að vera efni í góða eiginkonu. Góð kona er félagi eigimanns síns og „getur stutt“ hann. (1. Mós. 2:18) Og þar sem hún elskar Jehóva stuðlar hún að því að eiginmanni hennar sé sýnd virðing. (Orðskv. 31:11, 12; 1. Tím. 3:11) Þú getur búið þig undir þetta hlutverk með því að styrkja kærleika þinn til Jehóva og hjálpa öðrum í fjölskyldunni og söfnuðinum. w23.12 22–23 gr. 18, 19

Sunnudagur 23. mars

„Ef einhvern á meðal ykkar skortir visku ætti hann ekki að gefast upp á að biðja Guð um hana.“ – Jak. 1:5.

Jehóva lofar að gefa okkur þá visku sem við þurfum til að taka góðar ákvarðanir. Við þurfum sérstaklega á visku frá honum að halda þegar við tökum ákvarðanir sem hafa áhrif á okkur alla ævi. Hann gefur okkur líka kraft til að halda út. Rétt eins og í tilfelli Páls postula gefur Jehóva okkur kraft til að halda út í erfiðleikum. (Fil. 4:13) Hann notar meðal annars andlega fjölskyldu okkar. Nóttina áður en Jesús fórnaði lífi sínu bað hann innilega til Jehóva. Hann sárbað hann að hlífa sér við þeirri smán að vera dæmdur fyrir guðlast. En í stað þess að gera það hjálpaði Jehóva honum með því að senda bróður hans frá andaheiminum til að styrkja hann. (Lúk. 22:42, 43) Jehóva getur líka hjálpað okkur með símtali eða heimsókn frá bróður eða systur sem uppörvar okkur. Við getum öll verið vakandi fyrir tækifærum til að styrkja trúsystkini með ‚uppbyggjandi orðum‘. – Orðskv. 12:25. w23.05 10–11 gr. 9–11

Mánudagur 24. mars

Haldið áfram að uppörva og styrkja hvert annað. – 1. Þess. 5:11.

Óvirk trúsystkini sem sækja minningarhátíðina hafa ef til vill óttast að fá ekki góðar móttökur. Forðumst því að stilla þeim upp við vegg með því að spyrja þau óþægilegra spurninga eða segja eitthvað sem gæti sært þau. Þau eru bræður okkar og systur. Það gleður okkur að tilbiðja Guð með þeim á nýjan leik. (Sálm. 119:176; Post. 20:35) Það er ekki að furða að Jesús skuli hafa beðið okkur að halda minningarhátíð um dauða sinn á hverju ári. Við gerum sjálfum okkur og öðrum gott á marga vegu með því að gera það. (Jes. 48:17, 18) Kærleikur okkar til Jehóva og Jesú vex. Við sýnum hversu þakklát við erum fyrir það sem þeir gerðu fyrir okkur. Við styrkjum sambandið við trúsystkini okkar. Og við getum kannski hjálpað öðrum að koma auga á hvernig þeir geti líka hlotið þá blessun sem lausnargjaldið getur veitt þeim. Við skulum því gera okkar ýtrasta til að vera undirbúin fyrir minningarhátíð þessa árs – mikilvægasta viðburð ársins. w24.01 14 gr. 18, 19

Þriðjudagur 25. mars

Ég, Jehóva, vísa þér veginn. – Jes. 48:17.

Hvernig leiðbeinir Jehóva okkur? Fyrst og fremst í orði sínu, Biblíunni. En hann leiðbeinir okkur líka fyrir milligöngu manna. „Hinn trúi og skynsami þjónn“ gegnir því hlutverki að sjá okkur fyrir andlegri fæðu sem hjálpar okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Matt. 24:45) Jehóva leiðbeinir okkur líka fyrir atbeina annarra hæfra manna. Farandhirðar og safnaðaröldungar sjá okkur fyrir uppörvun og leiðbeiningum sem geta hjálpað okkur á erfiðum tímum. Við erum innilega þakklát fyrir áreiðanlegar leiðbeiningar á þessum erfiðu síðustu dögum. Þær hjálpa okkur að varðveita vináttuna við Jehóva þannig að við getum haldið okkur á veginum til lífsins. En stundum gæti okkur þótt erfitt að fylgja leiðsögn Jehóva, sérstaklega þegar hún kemur fyrir milligöngu manna. Þegar það gerist þurfum við sérstaklega að treysta Jehóva, að hann leiði þjóna sína og að það sé alltaf til góðs að fylgja leiðbeiningum hans. w24.02 20 gr. 2, 3

Miðvikudagur 26. mars

„Elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“ – 1. Jóh. 3:18.

Við getum styrkt kærleika okkar til Guðs með því að vera iðin við að rannsaka orð hans. Þegar þú lest í Biblíunni skaltu reyna að koma auga á hvað hún segir þér um Jehóva. Spyrðu þig: Hvernig sýnir þessi frásaga að Jehóva elskar mig? Hvað er að finna hér sem gefur mér ástæðu til að elska Jehóva? Önnur leið til að styrkja kærleika okkar til Jehóva er að úthella reglulega hjarta okkar í bæn til hans. (Sálm. 25:4, 5) Jehóva svarar bænum okkar. (1. Jóh. 3:21, 22) Við ættum líka að styrkja kærleika okkar til annarra. Nokkrum árum eftir að Páll postuli gerðist kristinn hitti hann ungan mann að nafni Tímóteus. Tímóteus elskaði Jehóva og hann elskaði fólk. Páll sagði við Filippímenn: „Ég hef engan [Tímóteusi] líkan, engan sem mun láta sér eins einlæglega annt um velferð ykkar.“ (Fil. 2:20) Kærleikur Tímóteusar til bræðra og systra hafði greinilega mikil áhrif á Pál. Söfnuðirnir sem Tímóteus þjónaði hlökkuðu eflaust til heimsókna hans. – 1. Kor. 4:17. w23.07 9 gr. 7–10

Fimmtudagur 27. mars

Ég mun aldrei yfirgefa þig. – Hebr. 13:5.

Áður en Ísraelsþjóðin kom inn í fyrirheitna landið dó Móse. Voru þjónar Guðs í reiðileysi þegar þessi trúfasti maður var ekki lengur meðal þeirra? Nei. Jehóva sá fyrir þeim svo framarlega sem þeir voru trúfastir. Áður en Móse dó sagði Jehóva honum að útnefna Jósúa til að leiða þjóð sína. Móse hafði þjálfað Jósúa í mörg ár. (2. Mós. 33:11; 5. Mós. 34:9) Þar að auki voru margir hæfir menn sem tóku forystuna – höfðingjar yfir þúsund, hundrað, fimmtíu og jafnvel tíu. (5. Mós. 1:15) Það var vel séð um þjóð Guðs. Svipaða sögu var að segja á þeim tíma þegar Elía tók forystu í tilbeiðslunni á Jehóva. Hann hafði leitt Ísraelsþjóðina í sannri tilbeiðslu í mörg ár. En sá tími kom að Jehóva gaf honum annað verkefni suður í Júda. (2. Kon. 2:1; 2. Kron. 21:12) Var trúfast fólk í tíuættkvíslaríkinu Ísrael yfirgefið? Nei. Elía hafði þjálfað Elísa um árabil. Jehóva hélt áfram að framkvæma vilja sinn og annaðist trúfasta tilbiðjendur sína. w24.02 5 gr. 12

Föstudagur 28. mars

„Hegðið ykkur áfram sem börn ljóssins.“ – Ef. 5:8.

Kristnir menn í Efesus höfðu tekið á móti ljósi sannleikans í orði Guðs. (Sálm. 119:105) Þessir Efesusmenn höfðu sagt skilið við falska trúariðkun og siðlausa hegðun. Þeir höfðu farið að ‚líkja eftir Guði‘ og gerðu sitt besta til að tilbiðja Jehóva og gleðja hann. (Ef. 5:1) Á líkan hátt vorum við í trúarlegu og siðferðilegu myrkri áður en við kynntumst sannleikanum. Sum okkar héldu hátíðir falstrúarbragðanna og önnur stunduðu siðlausan lífsstíl. En þegar við kynntumst mælikvarða Jehóva um rétt og rangt gerðum við breytingar. Við fórum að breyta lífi okkar í samræmi við réttlátar kröfur hans. Árangurinn er sá að við njótum góðs af því á marga vegu. (Jes. 48:17) Við mætum samt áfram áskorunum. Við þurfum að halda okkur frá myrkrinu sem við yfirgáfum og ‚hegða okkur áfram sem börn ljóssins‘. w24.03 21 gr. 6, 7

Laugardagur 29. mars

Við skulum halda áfram á þeirri braut sem við erum á, óháð því hvaða framförum við höfum tekið. – Fil. 3:16.

Þér finnst þú kannski ekki tilbúinn fyrir vígslu og skírn. Þú átt ef til vill eftir að gera breytingar í lífi þínu til að fylgja mælikvarða Jehóva, eða þér finnst þú þurfa meiri tíma til að styrkja trú þína. (Kól. 2:6, 7) Það tekur nemendur mislangan tíma að styrkja sambandið við Jehóva og það er ekki á neinum ákveðnum aldri sem unga fólkið er tilbúið að láta skírast. Reyndu að meta hvaða andlegum framförum þú getur tekið miðað við eigin getu en ekki í samanburði við aðra. (Gal. 6:4, 5) Haltu áfram að hafa það sem markmið að vígja líf þitt Jehóva þótt þú áttir þig á því að þú sért ekki tilbúinn enn þá. Biddu Jehóva að blessa viðleitni þína til að gera allar þær breytingar sem eru nauðsynlegar. (Fil. 2:13) Þú getur verið viss um að hann heyri bænir þínar og bregðist við þeim. – 1. Jóh. 5:14. w24.03 5 gr. 9, 10

Sunnudagur 30. mars

„Þið eiginmenn skuluð vera skynsamir í sambúðinni við konur ykkar.“ – 1. Pét. 3:7.

Eitt sinn var Sara miður sín og sagði Abraham frá því og ásakaði hann jafnvel fyrir það. Abraham vissi að Sara var undirgefin eiginkona sem studdi hann. Hann hlustaði á hana og reyndi að finna lausn á málinu. (1. Mós. 16:5, 6) Hvað lærum við? Eiginmenn, þið hafið vald til að taka ákvarðanir fyrir fjölskylduna. (1. Kor. 11:3) En það er kærleiksríkt að hlusta af athygli og taka tillit til skoðunar eiginkonunnar áður en þið takið ákvörðun, sérstaklega ef hún hefur áhrif á hana. (1. Kor. 13:4, 5) Við annað tækifæri ákvað Abraham að taka vel á móti óvæntum gestum. Hann bað Söru að hætta því sem hún var að gera og baka stóran skammt af brauði. (1. Mós. 18:6) Hún brást skjótt við og studdi ákvörðun Abrahams. Eiginkonur, þið getið líkt eftir Söru með því að styðja ákvarðanir eiginmanns ykkar. Þannig styrkið þið hjónaband ykkar. – 1. Pét. 3:5, 6. w23.05 24–25 gr. 16, 17

Mánudagur 31. mars

Viskan sem kemur ofan að er fús til að hlýða. – Jak. 3:17.

Eftir að Gídeon var útnefndur dómari reyndi á hlýðni hans og hugrekki. Hann fékk það erfiða verkefni að eyðileggja altari föður síns sem var tileinkað Baal. (Dóm. 6:25, 26) Síðar, eftir að hann hafði safnað saman her, var honum tvisvar sagt að fækka hermönnum. (Dóm. 7:2–7) Að lokum var honum sagt að ráðast á herbúðir óvinanna um miðja nótt. (Dóm. 7:9–11) Öldungar ættu að vera ‚fúsir til að hlýða‘. Hlýðinn öldungur fer fúslega eftir því sem Biblían segir og leiðbeiningum frá söfnuði Guðs. Hann er öðrum fordæmi til eftirbreytni. En það getur reynt á hlýðni hans. Honum gæti til dæmis þótt erfitt að halda í við nýjar leiðbeiningar. Hann gæti stundum velt því fyrir sér hvort ákveðnar leiðbeiningar séu raunhæfar eða skynsamlegar. Eða hann gæti verið beðinn um að taka að sér verkefni sem gæti stefnt frelsi hans í hættu. Hvernig geta öldungar líkt eftir hlýðni Gídeons í slíkum aðstæðum? Hlusta vandlega á leiðbeiningar og fylgja þeim. w23.06 4–5 gr. 9–11

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila