Geta menn leyst vandann með samningum?
SVO LANGT aftur í tímann, sem sögur greina frá, hafa samningar og sáttmálar þjóða í milli verið brotnir vegna eigingjarnra þjóðarhagsmuna. Og auk þess hafa þeir ekki komið í veg fyrir styrjaldir.
„Alla tíð síðan menn fóru að hópast saman í ættflokka,“ segir Lawrence W. Beilenson í bók sinni The Treaty Trap, „hafa friðarsamningar haldist í hendur við styrjaldir. Þó er töframáttur merkimiðanna slíkur að ómeðvitað setja menn friðarsamninga í samband við frið og vöntun á þeim í samband við styrjöld. Þetta hefur komið sumum söguskýrendum til að fullyrða að skynsemin segi okkur að treysta verði á samninga til að koma í veg fyrir styrjaldir, úr því að þær eru orðnar slík helför sem raun ber vitni. Það er þó ekki sjálfsögð ályktun af forsendunum. Kjarnorkustyrjöld yrði hörmuleg ógæfa, en aðeins reynsla sögunnar fær úr því skorið hvort samningar koma í veg fyrir styrjöld.“
Endast milliríkjasamningar?
Sagan sýnir að samningar þjóða í milli koma ekki í veg fyrir hernað. „Allar þjóðir hafa reynst ábyggilegar í því að rifta samningum,“ segir Beilenson. Og þótt almennir borgarar geti látið framfylgja úrskurðum dómstóla innan landamæra sinnar þjóðar, þegar brotinn hefur verið samningur sem þeir áttu aðild að, er annað uppi á teningnum þegar samningar þjóða í milli eru brotnir. Stundum er jafnvel gripið til hernaðar í því skyni að knýja fram efndir á samningnum og bætur.
Alþjóðlegir dómstólar hafa ekki heldur getað útkljáð deilur og viðhaldið friði í heiminum. Alþjóðadómstóllin (ein stofnana Sameinuðu þjóðanna með aðsetur í Haag) getur til dæmis ekki framfylgt ákvörðunum sínum. Þess í stað verður hann að treysta á almenningsálit og siðferðilegar fortölur. Margar þjóðir hafa jafnvel neitað að viðurkenna að dómstóllinn hafi lögsögu í deilum þjóða í milli. Og samkvæmt reglum Alþjóðadómstólsins sjálfs getur þjóð hafnað lögsögu hans með því að tilkynna það áður en mál gegn henni er þingfest.
Vandinn verður en flóknari við það að þjóðir eru sérstaklega viðkvæmar fyrir öllu sem haft getur áhrif á fullveldi þeirra. Þær eru því afskaplega varkárar þegar þær gera samninga við aðrar þjóðir og nota oft orðalag sem gefur þeim færi á vanefndum ef þeim finnst gengið á fullveldið sitt. „Milliríkjasamningar eru oft óljóst orðaðir,“ segir The Encyclopedia Americana. „Túlkunarreglurnar eru óteljandi . . . Þó er engin almennt viðurkennd leið til að beita þeim rétt. . . . Þess vegna verða deilur um rétta túlkun, og klögumál ganga á víxl um samningsrof.“ Charles de Gaulle, fyrrum forseti Frakklands, komst einu sinni svo að orði: „Milliríkjasamningar eru eins og ungar konur og rósir. Þeir endast svo lengi sem þeir endast.“ Síðan vitnaði hann í Les Orientales eftir Victor Hugo og bætti við: „Æ, hvað ég hef séð margar ungar stúlkur deyja.“
Einkenni okkar hættulegu tíma
Því var spáð í Biblíunni endur fyrir löngu að á okkar tímum myndu ráða ríkjum hrokafullir, eigingjarnir menn, ófúsir til sátta og óhaldinorðir. Í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5 lesum við: „Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskyn guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!“
Hinir ‚síðustu dagar‘ hófust á þessari öld — árið 1914 með fyrri heimstyrjöldinni — og standa enn. Mannkynssagan hefur fært óyggjandi sönnur á sannleiksgildi biblíuspádómsins. Felmtri slegnar vegna stríðsins mikla, eins og það var þá kallað, freistuðu þjóðirnar þess að gera milliríkjasamninga sem komið gætu í veg fyrir aðra styrjöld af slíkri stærðargráðu. Fyrir stríðið var hvorki til sáttmáli sem lagði algert bann við styrjöld né nokkur stofnun sem hefði það hlutverk að tryggja frið. Veraldarleiðtogar reyndu því að gera sáttmála milli þjóða sem tryggði heimsfriðinn.
Sáttmáli Þjóðabandalagsins var loforð þess efnis að aðildarríkin skyldu styðja og vernda hvert annað og ekki fara í stríð nema í sjálfsvörn, og þá því aðeins að fyrst yrði reynt að útkljá deiluna fyrir Bandalagsráðinu og þriggja mánaða umþóttunartími látinn líða. Hann tók gildi árið 1920. Locarno-samningnum, sem tóku gildi árið 1926, var fagnað meðal Evrópuþjóða sem „sigri friðar og öryggis.“ Parísarsáttmálinn, einnig þekktur sem Kellogg-Briandsáttmálinn, hafnaði því að „gripið yrði til styrjaldar.“ Hann átti að verða marghliða sáttmáli opinn öllum þjóðum til fullgildingar. Hann var formlega birtur árið 1929 og alls undirrituðu hann 63 þjóðir sem féllust á að leysa deilur sínar aðeins eftir „friðsamlegum leiðum.“ Fjöldi annarra samninga og sáttmála var gerður á því tímabili, og kom það mörgum til að halda að styrjaldir myndu heyra fortíðinni til. En ekki leið á löngu þar til flestar þessara þjóða voru komar út í nýja heimsstyrjöld.
Geta menn þá tryggt frið með samningum og sáttmálum? Saga mannkynsins og atburðirnir í heiminum svara því neitandi! Beilenson segir:„ Eftir eyðileggingu fyrri heimsstyrjaldarinnar reistu stjórnmálamenn stærstu pappírsbyggingu í friðarskyni sem gerð hefur verið. Hún kom hvorki í veg fyrir að milliríkjasamningar væru tortryggðir og lítilsvirtir í sama mæli og á öðrum tímum sögunnar, né hina gífurlegu eyðileggingu síðari heimsstyrjaldarinnar né aðrar smærri stryjaldir síðan. Þrátt fyrir sáttmála Sameinuðu þjóðanna hélst sundrung þjóðanna.“
Núna er enginn almennur friðarsáttmáli til, því að mannkynið er ‚ósáttfúst‘ eins og Biblían sagði fyrir um, og heimurinn lifir í stöðugum ótta. Þýðir það að engin von sé um að hættunni verði bægt frá? Ef til er einhver lausn, hver er hún þá?