Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.3. bls. 8-12
  • ‚Kepptu að markinu‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • ‚Kepptu að markinu‘
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Rétt hugarfar
  • Þjónusta veitt þrátt fyrir erfiðleika
  • Hindranir yfirstignar
  • Keppið að markinu!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Hafið sama hugarfar og Kristur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Taktu framförum með því að líkja eftir Páli
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
  • ‚Gangið reglufastir eftir þessari sömu venju‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.3. bls. 8-12

‚Kepptu að markinu‘

„Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu.“ — Filippíbréfið 3:13, 14.

1, 2. (a) Hvernig var Sál frá Tarsus falin þjónusta við orðið og hver var hún? (b) Hvernig brást hann við því?

ÞEGAR Sál frá Tarsus var á leið til Damaskus í því skyni að ofsækja kristna menn leiftraði um hann ljós af himni og hann heyrði rödd segja: „‚Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?‘ En hann sagði: ‚Hver ert þú, herra?‘ Þá var svarað: ‚Ég er Jesús, sem þú ofsækir. En statt upp og gakk inn í borgina, og þér mun verða sagt, hvað þú átt að gjöra.‘“ — Postulasagan 9:3-6.

2 Hvers vegna lét Jesús Sál frá Tarsus verða fyrir þessu? Jesús greindi lærisveininum Ananíasi frá því: „Þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels.“ Hlýðinn fór Ananías af stað, lagði hendur yfir Sál og sagði: „Drottinn hefur sent mig, Jesús, sá er birtist þér á leið þinni hingað. Þú átt að fá aftur sjón þína og fyllast heilögum anda.“ (Postulasagan 9:15, 17) Jafnskjótt og hann hafði endurheimt sjónina var hann skírður og fór að hafa samfélag við kristna söfnuðinn í Damaskus. Nú, skírður kristinn þjónn orðsins, fór hann strax að prédika af kappi fagnaðarerindið um Jesú, son Guðs, meðal Gyðinganna. — Postulasagan 9:20-22.

3, 4. (a) Hvernig mat Páll þjónustu sína? (b) Hvað var ólíkt með viðhorfum Páls og safnaðarins í Efesus?

3 Þessi kostgæfi þjónn orðsins er þekktari sem Páll postuli. Hann fór alltaf fögrum orðum um þjónustu sína og þá óverðskulduðu náð sem honum var sýnd. „Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.“ (1. Tímóteusarbréf 1:12-14) Já, hann mat þjónustu sína mikils. — Rómverjabréfið 11:13; 2. Korintubréf 4:7.

4 Slík ummæli Páls lýsa hversu mikils hann mat þjónustu sína alla tíð. Hann komst ekki í það ástand sem eitt sinn var í sönuðinum í Efesus, en við hann sagði Jesús: „Það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika.“ (Opinberunarbókin 2:4) Þess í stað hafði Páll markið fyrir augunum og viðhélt sömu kostgæfni og eldmóði í þjónustunni og hann hafði í fyrstu í Damaskus.

5. Hvernig getum við hvatt aðra eftir að hafa þjónað Jehóva um árabil?

5 Eftir að Páll hafði verið trúfastur, kristinn þjónn orðsins um áratuga skeið notaði hann ævi sína og reynslu til að hvetja samþjóna sína í söfnuðinum í Filíppí til að þeir gæfust ekki upp. Hefur þér ekki venjulega þótt mjög athyglisvert að heyra hvernig einhver kynntist sannleikanum og varð þjónn orðsins? Notar þú þá sögu sjálfs þín og ár í trúfastri þjónustu sem vígður kristinn þjónn orðsins, til að uppörva og hvetja aðra?

6. Hvað átti Páll að baki sem Gyðingur?

6 Í bréfi sínu til Filippímanna gat Páll vikið að ævi sinni meðan hann hafði iðkað trú Gyðinga. Hann sagði: „Ef einhver annar þykist geta treyst ytri yfirburðum, þá get ég það fremur. Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, farísei í afstöðunni til lögmálsins, svo ákafur, að ég ofsótti [söfnuðinn]. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus.“ — Filippíbréfið 3:4-6.

7. Hvers vegna sneri Páll baki við þessu og hvað ávann hann með því?

7 Með þetta að bakhjarli hefði Páll getað orðið margra efinslegra gæða aðnjótandi sem Gyðingur. En hann hélt áfram: „En það, sem mér var ávinningur, met ég núna vera tjón sakir Krists. Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp, . . . Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans og samfélag písla hans með því að mótast eftir honum í dauða hans. Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum.“ (Filippíbréfið 3:7-11) Þessi orð lýsa algerri trú á Krist Jesú og ráðstafanir Jehóva Guðs. Ert þú líkur Páli í því að láta ekki löngun í frama eða efnalegan ávinning ráða lífi þínu?

Rétt hugarfar

8. (a) Hvað sagði Páll um markið þegar hann hafði verið lengi í þjónustunni? (b) Hvernig geta orð Páls í 1. Korintubréfi 9:24-27 ræst á okkur?

8 Gat Páll, eftir að hafa þjónað Guði í marga áratugi, hætt að keppa að marki sínu? Hann skrifaði Filippímönnum: „Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.“ (Filippíbréfið 3:13, 14) Hann hafði þegar skapað sér gott nafn í hinni kristnu þjónustu og þolað margt, og hann skrifaði Filippímönnum þessi orð meðan hann var í fangelsi í Róm. Enn var þjónusta hans þó ekki á enda. Ætti hann að hljóta verðlaunin, sem stóðu til boða þeim sem þjónuðu í kristna söfnuðinum á fyrstu öld, það er að segja ‚verðlaunin á himnum sem Guð hafði kallað þá til fyrir Krist Jesú,‘ þá varð hann að halda áfram að keppa að marki sínu. Þetta er rétt sjónarmið allra kristinna manna, hvort heldur þeir hafa von um líf í framtíðinni á himnum eða jörð. Einn og sérhver ætti að skoða stöðu sína og hugsanagang til að kanna hvort hann meti í raun að verðleikum þjónustuna sem honum hefur verið falin samkvæmt fyrirkomulagi Guðs.

9. Hvaða þroskað hugarfar getum við haft?

9 Páll greinir frá því hvert skuli vera viðhorf þroskaðs kristins manns: „Þetta hugarfar skulum vér því allir hafa, sem fullkomnir [„þroskaðir,“ NW; „þroskaðir . . . í trúnni,“ Lifandi orð] erum.“ Og ef þér hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera yður þetta.“ (Filippíbréfið 3:15) Kristilegur þroski leiðir til velgengni. Í honum felst að feta í fótspor Krists Jesú sem lauk farsællega þeirri þjónustu sem honum var falin hér á jörð. Jesús gat beðið til föður síns: „Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna. Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.“ — Jóhannes 17:4, 5.

10. Hvað fleira má segja um hið góða hugarfar Krists til þjónustunnar við Jehóva?

10 Ef við eigum að þóknast Jehóva Guði og hljóta fyrir það að launum eilíft líf verðum við að hafa sama hugarfar og Kristur Jesús. Páll vissi það og sagði: „Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra.“ (Filippíbréfið 2:5-9) Jesús hafði svo sannarlega rétt hugarfar! Getum við líkt eftir honum? Að leitast við að gera vilja Guðs í auðmýkt mun alltaf vera til blessunar. Þegar verkefni er innt af hendi skilar það góðum árangri.

11. Hvað ættu þeir sem eru andlega sterkir og þroskaðir að gera?

11 Með hliðsjón af því sem Páll skrifaði má ætla að sumir í söfnuðinum í Filippí hafi enn þurft að kappkosta að ná kristilegum þroska. Páll átti frumkvæðið að því að hvetja og hjálpa þeim. Í flestum söfnuðum nú á tímum er að finna þá sem eru sterkir í trúnni og þá sem hafa einhvern veikleika. Hinir sterkari ættu, eins og Páll, að uppörva og hvetja aðra. Kristur Jesús gerði margt og mikið til að styrkja þá sem voru þurfandi andlega, og með því setti hann kristnum mönnum fordæmi. „Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku og hugsa ekki um sjálfa oss. Sérhver af oss hugsi um náungann og það sem honum er gott og til uppbyggingar. En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú, til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors, Jesú Krists.“ — Rómverjabréfið 15:1, 2, 5, 6.

12. Hvernig ættum við að líta á verðlaunin sem Guð mun gefa?

12 Þegar Páll var að styrkja trú kristinna manna í Róm benti hann á að ‚náðargjöf Guðs væri eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.‘ (Rómverjabréfið 6:23) Í þjónustutíð sinni hafði Jesús líka margt og mikið um eilíft líf að segja. Það eru stórfengleg laun sem Guð býður þjónum sínum. Guð vill að þjónar hans hafi augun á verðlaununum, því að það hvetur þá til að vera trúfastir. Þegar við gerum það sýnum við sterka trú á fyrirheit hans. Á okkar kristnu samkomum höfum við tækifæri til að tala oft um launin sem Jehóva gefur hinum trúföstu.

Þjónusta veitt þrátt fyrir erfiðleika

13. Hvaða þátt á Ritningin í réttu hugarfari okkar?

13 Rétt viðhorf eða hugarfar mun reynast ómetanlegt í þjónustu okkar nú á síðustu dögunum. Þótt sumir kunni að glata þeim kærleika, sem þeir höfðu í fyrstu, megum við vera einráðin í að það hendi okkur aldrei. Sjálf Ritningin er okkur hjálp til þess. (Rómverjabréfið 15:4) Með því að nema hana eignumst við von. Ert þú innilega þakklátur Jehóva fyrir Ritninguna og hið marga sem skráð er í henni um trúfasta þjóna Jehóva svo sem Pál postula?

14. Hvernig varðveitti Páll sinn jákvæða hug þrátt fyrir erfiða lífsreynslu?

14 Hvað myndum við gera ef við hefðum sjálf reynt það sem Páll nefnir í 2. Korintubréfi 11:23-28? Hvers vegna gafst Páll ekki upp? Vegna þess að hann hafði markið í huga. Við getum orðið fyrir ýmsu svipuðu. Þó verðum við að halda áfram að keppa að marki okkar, verðlaununum sem Guð býður okkur. Þegar Páll skrifaði Filippímönnum kom hinn jákvæði hugsunarháttur hans fram þegar hann nefndi að hann væri í fangelsisfjötrum til varnar fagnaðarerindinu. (Filippíbréfið 1:7, 16) Hann skildi hvers vegna hann var þarna. Það er þýðingarmikið þegar slík prófraun kemur yfir okkur. Enn fremur vitum við að Jehóva getur notað okkur til að bera vitni, sér til lofs.

15. (a) Hvers vegna þurfti að hvetja söfnuðinn í Filippí og hvað sagði Páll honum til uppbyggingar? (b) Hvernig hafði söfnuðurinn í Róm brugðist við fangelsun Páls?

15 Filippímenn urðu fyrir einhverjum prófraunum svipuðum þeim sem Páll gekk í gegnum í Róm. Hann skrifaði: „Nú eigið þér í sömu baráttu sem þér sáuð mig heyja og heyrið enn um mig.“ (Filippíbréfið 1:30) Við þessar kringumstæður gat Páll skrifað þeim hvatningarorð. Hann sagði að fagnaðarerindið væri orðið kunnugt meðal lífvarðarsveitarinnar. Boðskapur kristninnar hafði meira að segja borist inn á heimili keisarans, og þar höfðu sumir tekið kristna trú. Söfnuðurinn í Róm brást rétt við aðstæðunum og varð ekki kjarklaus eða óttasleginn þótt Páll væri í fangelsi. Þess í stað var hann önnum kafinn við verkið sem Jehóva vildi láta vinna, og sýndi enn meira hugrekki í að tala orð Guðs óttalaust. — Filippíbréfið 1:12-14; 4:22.

16. Hvað þurfum við sérstaklega að gera þegar andstaða mætir okkur?

16 Þegar mótspyrna mætir okkur er til mikils gagns að varðveita einingu kristna safnaðarins. Páll lagði þunga áherslu á einingu og samheldni. (Filippíbréfið 1:27-2:4) Á slíkum tímum þarf trúin að birtast í því sem við segjum hvert við annað, til að við gefumst ekki upp í kapphlaupi okkar að markinu. Þá þarf að sýna kærleikshug og lítillæti og gera hvert öðru gott, vinna að því sem er bræðrum okkar til hagsbóta. — Samanber Filippíbréfið 2:19-21.

Hindranir yfirstignar

17. Hvers vegna ættum við ekki að gefast upp í kapphlaupi okkar að markinu þegar heilsan veldur erfiðleikum?

17 Epafrodítus var náinn samverkamaður Páls. Vegna þjónustunnar við Drottin var hann að dauða kominn, en ekkert bendir til að heilsufar hans hafi komið honum til að missa sjónar á markinu framundan. (Filippíbréfið 2:25-30) Í 2. Korintubréfi 12:7 nefnir Páll að sér hafi verið gefinn „fleinn í holdið.“ Vera má að hann eigi þar við einhvern augnasjúkdóm. Hann bað þess að þessi „fleinn“ yrði frá honum tekinn en það var ekki veitt honum. En Páll hafði markið í huga og það hjálpaði honum að keppa að því þrátt fyrir alla líkamlega kvilla. Þótt hann hefði sína veikleika gat hann haldið áfram með hjálp Krists Jesú. — 2. Korintubréf 12:9.

18. Hvernig sýndi Páll gott jafnvægi í sambandi við efnisleg gæði?

18 Í bréfinu til Filippímanna (4:11-13) minntist hann einnig á daglegar nauðsynjar. Skortur getur verið prófraun fyrir kristinn mann á það hvort hann gefist upp í kapphlaupi sínu að markinu, eða sýnir þroska í því hvernig hann tekur á vandanum og heldur áfram í þjónustunni. (Samanber Postulasöguna 18:1-4) Hvort sem Páll bjó við þröngan kost eða ríkulegan gekk þjónustan fyrir. Þegar hann hafði allsnægtir notaði hann ekki tækifærið til að eyða miklum tíma í lífsins lystisemdir heldur hélt áfram að keppa að markinu og verðlaununum.

19. Hvað er okkur ráðlagt í Filippíbréfinu 4:6, 7 þegar við þörfnumst hjálpar? Hvaða árangri skilar það?

19 Páll tíundaði ekki allt sem hent gæti kristinn mann í lífinu. Þegar hins vegar eitthvað kemur upp sem getur rekist á við þjónustuna ættum við sem þroskaðir kristnir menn að snúa okkur til Jehóva í bæn eins og mælt er með í Filippíbréfinu 4:6, 7. Þá mun Jehóva gefa okkur hugarfrið, hjálpa okkur að hugsa skýrt og aðstoða við að yfirstiga vandann þegar við höldum áfram að vera trúir þjónar hans. Bænin hjálpar okkur að viðhalda trúnni og halda áfram að keppa að markinu.

20. (a) Hvernig er fordæmi þeirra sem hafa verið lengi trúfastir í sannleikanum okkur til hvatningar? (b) Hvað ættum við að gera? Hvers vegna?

20 Þeir eru margir sem tilheyra söfnuðunum núna og hafa þjónað Jehóva í marga áratugi. Allir hafa þeir gengið í gegnum prófraunir þegar þeir hafa gegnt þjónustu sinni. En Jehóva hefur hjálpað þeim og þess vegna halda þeir áfram að keppa að markinu og verðlaununum. Við erum Jehóva þakklát að á okkar tímum skuli, eins og á fyrstu öldinni, vera til bræður og systur sem eru til fyrirmyndar í þolgæði, trúfesti í þjónustunni við Guðsríki og því að hafa verðlaunin í sjónmáli. Þeir sem eru ungir eða nýir á ‚veginum‘ hafa gott af því að skoða sögu Páls postula eða trúfastra þjóna í söfnuði nútímans, og sjá hvernig þeir hafa yfirstigið vandamál sín. (Postulasagan 9:2; Hebreabréfið 13:7) Megum við öll nota sérhvert tækifæri til að hvetja hvert annað til að halda þolgóð út í þjónustunni, sem við höfum tekist á hendur, og keppa sem einn maður að markinu sem Jehóva hefur gefið okkur. Með því að gera það eigum við í vændum að þjóna Jehóva Guði að eilífu í hamingjuríku samfélagi við þá sem eru trúfastir. — Filippíbréfið 3:13-16.

Minnisatriði

◻ Hvað átti Páll að baki í lífinu og hvernig notaði hann það til að hvetja bræður sína?

◻ Hvernig lýsa fordæmi Krists Jesú og Páls því hvert sé þroskað, kristilegt hugarfar?

◻ Hvernig getum við sýnt einingu okkar þegar andstaða mætir okkur?

◻ Hvers vegna verðum við að halda áfram að keppa að markinu?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila