Hjálp til að taka viturlegar ákvarðanir
ALICE tók óskynsamlega ákvörðun sem hafði hörmulegar afleiðingar fyrir hana. „Ég sleit mig burt frá Jehóva og skipulagi hans,“ segir hún. Hún sneri að vísu við aftur en það tók hana meira en 13 ár — „ömurleg ár“ eins og hún kallar þau.
Kristinn maður ætti ekki að vanmeta hve hættulegt er að taka óviturlegar ákvarðanir í tengslum við þjónustuna við Guð. Hættan er ekki fólgin í því að taka að yfirlögðu ráði ranga ávörðun eftir að hafa hugleitt staðreyndir sem að málinu snúa, heldur frekar að taka skyndiákvarðanir byggðar á tilfinningu augnabliksins. Þegar tilfinningarnar villa okkur sýn og ófullkomið hjarta hefur óheppileg áhrif á hugsunina getur það leitt yfir okkur alls konar tjón og erfiðleika.
„Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það.“ (Jeremía 17:9) Biblían segir okkur þó hvernig við getum verndað okkur. „Speki mun koma í hjarta þitt,“ segir hún, „og þekking verða sálu þinni yndisleg.“ (Orðskviðirnir 2:10, 11) En hvernig fáum við viskuna til að taka sér bólfestu í hjörtum okkar?
Lærðu af fortíðinni
Reyndu að setja þig í spor þjóna Guðs forðum daga sem áttu við að glíma svipaðar þrengingar og þú. Setjum til dæmis sem svo að einhverjar aðstæður í kristna söfnuðinum valdi þér áhyggjum. Reyndu þá að rifja upp svipaðar aðstæður sem Biblían greinir frá.
Reyndu til dæmis að sjá fyrir þér kristna söfnuðinn í Korintu á fyrstu öld. Ímyndaðu þér að þú hafir verið kristinn maður í tvö til þrjú ár og tilheyrir þeim söfnuði. Það var ólýsanleg gleði fyrir þig að kynnast sannleikanum á þeim 18 mánuðum sem Páll postuli dvaldi þar! En núna hefur ýmislegt farið úrskeiðis.
Einingu safnaðarins stafar ógn af tilhneigingu til klíkumyndunar og sundurlyndis. (1. Korintubréf 1:10, 11) Andi safnaðarins er í alvarlegri hættu vegna þess að siðleysi er umborið. (1. Korintubréf 5:1-5) Hið góða mannorð safnaðarins er að spillast sökum þess að einstaklingarnir innan hans leggja klögumál sín hver gegn öðrum fyrir veraldlega dómstóla. — 1. Korintubréf 6:1-8.
Gerðu þér líka í hugarlund að þú sért órólegur út af því að sumir í söfnuðinum eru sífellt að munnhöggvast um hluti sem í raun skipta ósköp litlu máli. (Samanber 1. Korintubréf 8:1-13.) Þú ert leiður yfir deilum, öfund, reiði og ruglingi sem þú sérð í söfnuðinum. (2. Korintubréf 12:20) Nokkrir hrokafullir einstaklingar gera kristnum bræðrum sínum lífið leitt með ýmsum óréttmætum kröfum. (1. Korintubréf 4:6-8) Það særir þig að heyra hvernig sumir draga jafnvel í efa stöðu Páls og vald, bera hann röngum sökum og gera gys að honum fyrir að vera ekki mikill ræðusnillingur. (2. Korintubréf 10:10; 12:16) Þú hefur áhyggjur af að þeir sem halda opinskátt fram sínum eigin skoðunum geti grafið undan trú safnaðarins á grundvallarkenningar kristninnar. — 1. Korintubréf 15:12.
Þú þarft að taka ákvörðun
‚Svona má þetta ekki vera,‘ stynur þú. ‚Hvers vegna gera öldungarnir ekkert í málinu? Það er eitthvað alvarlegt að í söfnuðinum.‘
Hvað myndir þú gera? Flytja frá Korintu og telja þér trú um að betra sé að þjóna Guði annars staðar? Kæmist þú að þeirri niðurstöðu að best væri að hætta algerlega samneyti við kristna bræður þína? Myndir þú láta þessi vandamál draga úr gleði þinni og trúartrausti til þess að Jehóva Guð og Jesús Kristur séu við völd? Myndir þú byrja að kvarta og gagnrýna og draga í efa að hvatir kristinna bræðra þinna séu hreinar? Myndir þú draga úr þátttöku þinni í prédikunarstarfinu og hugsa með þér að það þjóni litlum tilgangi að beina áhugasömu fólki til slíks safnaðar?
Það er auðvelt núna að skoða málið yfirvegað og segja að þú hefðir ákveðið að sýna söfnuði Guðs hollustu þrátt fyrir galla hans. En ef þú stæðir í slíkum sporum núna, gætir þú þá varðveitt skýra hugsun og ró í hjarta þér? Myndir þú taka sömu ákvörðun núna eins og þú hefðir gert í þá daga?
Notfærðu þér viturleg ráð
Þeir kristnu menn í Korintu, sem ákváðu að halda sér fast við söfnuðinn, tóku viturlega ákvörðun. Þeir hugsuðu eins og Pétur hafði gert mörgum árum áður. Þegar sumir lærisveinanna yfirgáfu Jesú sagði Pétur: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“ (Jóhannes 6:68, 69) Augljóst er að við njótum góðs af heilræðum skipulags Guðs aðeins ef við höldum okkur nærri því.
Í nýjum söfnuðum, eins og í Korintu til forna, er ekki óalgengt að mannlegur ófullkomleiki valdi erfiðleikum sem kalla á skýrar leiðbeiningar og alvarlegar áminningar. Þegar Páll leiðbeindi kristnum mönnum í Korintu hafði hann samt í huga að langflestir þeirra voru enn sem fyrr ‚elskaðir‘ bræður. (1. Korintubréf 10:14; 2. Korintubréf 7:1; 12:19) Hann gleymdi ekki að Jehóva veitir óverðskuldaða náð og fyrirgefningu þeim sem bregðast jákvætt við handleiðslu hans. — Sálmur 130:3, 4.
Að sjálfsögðu eru menn mislengi að viðurkenna og breyta eftir leiðbeiningum, sem þeir fá, því að kristni söfnuðurinn dregur til sín alls konar fólk. Orsakirnar fyrir því eru margar. Sumar breytingar eru erfiðari en aðrar. Auk þess er líkamlegt og hugarfarslegt atgervi manna, umhverfi, uppruni og kringumstæður ólíkar. Því er hyggilegt að vera ekki of gagnrýninn og muna að „kærleikur hylur fjölda synda“! (1. Pétursbréf 4:8) Þegar allt kemur til alls eru Jehóva og sonur hans fúsir til að umbera mannlegan ófullkomleika og vanþroska í sínum söfnuði og við ættum að vera sama sinnis. — 1. Korintubréf 13:4-8; Efesusbréfið 4:1, 2.
Ef þú hefðir verið í söfnuðinum í Korintu til forna og hlýtt á kærleiksrík en ákveðin heilræði Páls, hefðir þú minnst þess að Kristur, höfuð kristna safnaðarins, hefur mikinn áhuga á velferð hans. (Matteus 28:20) Það hefði styrkt traust þitt til loforðs Jesú um að varðveita einingu fylgjenda sinna þegar þeir notfærðu sér hjálp ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47; Efesusbréfið 4:11-16) Já, og orð Páls hefðu hjálpað þér að halda gleði þinni og jafnvægi jafnvel við erfiðar kringumstæður. Þú hefðir treyst því að Guð myndi gefa þér nægan styrk til að takast á við hverja þá erfiðleika sem hann leyfði um stundarsakir.
Með þessu er ekki verið að segja að kristinn maður ætti að vera aðgerðarlaus ef eitthvert slæmt ástand þróast í söfnuðinum. Í Korintu létu þroskaðir karlmenn eins og Stefanas, Fortúnatus, Akkaíkus og einhverjir úr fjölskyldu Klóe til sín taka. Ljóst er að þeir vöktu athygli Páls á ástandinu. (1. Korintubréf 1:11; 5:1; 16:17) Þeir treystu að hann myndi síðan gera það sem gera þyrfti. Kostgæfni vegna réttlætisins kom þeim ekki til að missa trúartraust sitt á forystu Krists eða „illskast við [Jehóva].“ — Orðskviðirnir 19:3.
Ef við erum kostgæf vegna réttlætisins mun okkur ekki einu sinni detta í hug að draga úr hlut okkar í því verki, sem Guð hefur falið okkur, að prédika fagnaðarerindið. Slíkt myndi bera vott um að við bærum ekki næga umhyggju fyrir öðrum og auk þess værum við ekki að gera það sem Kristur vill að við gerum. „Þess vegna, mínir elskuðu bræður,“ sagði Páll, „verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.“ — 1. Korintubréf 15:58.
Vertu ekki fávís um vélráð Satans
Stundum getur verið erfiðara að þola vandamál í söfnuðinum, eins og voru í Korintu, heldur en beinar ofsóknir. Satan færir sér slíkar kringumstæður í nyt í því skyni að fá okkur til að taka rangar ákvarðanir sem myndu snúa okkur burt frá Jehóva. En okkur ‚er ekki ókunnugt um vélráð Satans.‘ — 2. Korintubréf 2:11.
Páll sagði kristnum mönnum í Korintu að þeir gætu haft gott af því að athuga frásagnir af því sem henti þjóna Guðs forðum daga. „Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði,“ sagði hann um Ísraelsmennina, „og það er ritað til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir.“ (1. Korintubréf 10:11) Eins getum við líka haft gott af því að skoða gaumgæfilega sögu frumkristna safnaðarins. Til dæmis getum við íhugað það sem gerðist í Korintu. Ef við hugleiðum hvernig við hefðum tekið réttar ákvarðanir, hefðum við verið uppi þá, hjálpar það okkur að forðast rangar ákvarðanir núna.
Alice segir um fyrstu samkomu sína í Ríkissalnum eftir hin 13 „ömurlegu ár“ sem hún var fjarverandi: „Ég þorði varla að segja nokkuð því að ég óttaðist að ég myndi bresta í grát. Ég var komin heim aftur — í alvöru. Ég trúði því varla.“ Vertu því staðráðinn í því að standa við þína réttu ákvörðun um að yfirgefa aldrei skipulag Jehóva, óháð því hvaða vandamál kunna að koma upp! Þú munt njóta ríkulegrar blessunar í samfélagi við fólk Guðs. Og þessar blessanir munu aldrei taka enda. — Orðskviðirnir 2:10-15, 20, 21.