Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 nóvember bls. 16-21
  • Jesús er samúðarfullur æðstiprestur okkar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jesús er samúðarfullur æðstiprestur okkar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ÁSTKÆR SONUR GUÐS KEMUR TIL JARÐAR
  • JESÚS SÝNIR FÓLKI SAMKENND
  • LÍKJUM EFTIR ÆÐSTAPRESTI OKKAR
  • ÆÐSTIPRESTUR OKKAR GETUR HJÁLPAÐ ÞÉR
  • Hvað lærum við af lausnargjaldinu?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Síðustu fjörutíu dagar Jesú á jörðinni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Jehóva „læknar hina sorgmæddu“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 nóvember bls. 16-21

NÁMSGREIN 46

SÖNGUR 17 „Ég vil“

Jesús er samúðarfullur æðstiprestur okkar

„Æðstiprestur okkar er ekki þannig að hann geti ekki haft samúð með okkur í veikleika okkar.“ – HEBR. 4:15.

Í HNOTSKURN

Jesús er besti æðstiprestur sem hugsast getur vegna þess að hann hefur samúð með okkur og getur hjálpað okkur á marga vegu.

1, 2. (a) Hvers vegna sendi Jehóva son sinn til jarðar? (b) Hvað skoðum við í þessari námsgrein? (Hebreabréfið 5:7–9)

FYRIR um það bil 2.000 árum sendi Jehóva Guð son sinn til jarðar, en hann var það dýrmætasta sem hann átti. Hann gerði það meðal annars til að leysa mannkynið undan bölvun syndar og dauða og til að bæta að fullu þann skaða sem Satan olli. (Jóh. 3:16; 1. Jóh. 3:8) Jehóva vissi líka að líf Jesú hér á jörðinni myndi búa hann undir að verða samúðarfullur og umhyggjusamur æðstiprestur okkar. Jesús byrjaði að gegna þessu hlutverki eftir að hann skírðist árið 29.a

2 Í þessari námsgrein skoðum við hvernig reynsla Jesú af því að vera maður á jörðinni gerði að verkum að hann var vel í stakk búinn til að þjóna sem samúðarfullur æðstiprestur. Þegar við skiljum betur hvernig Jesús var „fullkomnaður“ fyrir þetta hlutverk auðveldar það okkur að nálgast Jehóva, sérstaklega þegar við erum niðurdregin vegna synda okkar eða veikleika. – Lestu Hebreabréfið 5:7–9.

ÁSTKÆR SONUR GUÐS KEMUR TIL JARÐAR

3, 4. Hvað þýddi það fyrir Jesú að koma til jarðar og hvernig var líf hans hér á jörð?

3 Mörg okkar hafa þurft að takast á við miklar breytingar í lífinu, eins og til dæmis að flytja burt frá fjölskyldu og vinum. Það getur verið mikil áskorun. En ekkert okkar hefur gert jafn miklar breytingar á lífi sínu og Jesús. Hann var fremstur allra engla Jehóva á himnum. Hann var umvafinn kærleika Jehóva og þjónaði alltaf við „hægri hönd“ hans með gleði. (Sálm. 16:11; Orðskv. 8:30) En eins og segir í Filippíbréfinu 2:7 afsalaði hann sér öllu fúslega. Hann yfirgaf háa stöðu á himnum og kom til að búa meðal ófullkominna manna á jörð.

4 Hugsaðu líka um fyrstu æviár Jesú. Hann fæddist inn í fátæka fjölskyldu. Við vitum það vegna þess að foreldrar hans höfðu aðeins efni á að gefa tvo smáfugla að fórn eftir að hann fæddist. (3. Mós. 12:8; Lúk. 2:24) Þegar hinn illi Heródes konungur frétti af fæðingu hans reyndi hann að drepa hann. Fjölskyldan þurfti að flýja þessa ógn og hún bjó sem flóttafólk í Egyptalandi um tíma. (Matt. 2:13, 15) Hvílík breyting á lífi Jesú frá því hann var á himnum!

5. Hverju tók Jesús eftir hér á jörðinni og hvernig var reynsla hans góður undirbúningur fyrir hlutverk hans sem æðstiprestur? (Sjá einnig mynd.)

5 Þegar Jesús var á jörðinni sá hann þjáningar allt í kringum sig. Hann upplifði ástvinamissi, en fósturfaðir hans, Jósef, féll trúlega frá. Á þjónustutíð sinni komst hann í kynni við holdsveika, blinda, fatlaða og foreldra sem höfðu misst börnin sín og hann fann til með þeim. (Matt. 9:2, 6; 15:30; 20:34; Mark. 1:40, 41; Lúk. 7:13) Hann sá vissulega þjáningarnar á jörðinni þegar hann var á himnum en sem maður gat hann betur sett sig í spor fólks sem þjáðist. (Jes. 53:4) Nálægð hans við fólk gerði honum kleift að skilja betur tilfinningar þess, vonbrigði og sársauka. Og sjálfur reyndi hann á eigin skinni hvernig það er að vera þreyttur, sorgmæddur og angistarfullur.

Hópur fólks umkringir Jesú og sárbænir hann að lækna mein sín. Hann teygir sig samúðarfullur til veikburða aldraðs manns og heldur um hendur hans.

Jesús hafði sterka samkennd með fólki og fann til með þeim sem þjáðust. (Sjá 5. grein.)


JESÚS SÝNIR FÓLKI SAMKENND

6. Hvað lærum við af myndmáli Jesaja um samkennd Jesú með fólki? (Jesaja 42:3)

6 Alla þjónustutíð sína sýndi Jesús djúpa samkennd með þeim sem farið var illa með. Þannig uppfyllti hann spádóm. Í Hebresku ritningunum er þeim sem eru farsælir stundum líkt við vel vökvaðan garð eða stór og stæðileg tré. (Sálm. 92:12; Jes. 61:3; Jer. 31:12) En hinum fátæku og undirokuðu er líkt við brákaðan reyr og rjúkandi lampakveik sem enginn hefur not fyrir. (Lestu Jesaja 42:3; Matt. 12:20) Jesaja spámanni var innblásið að nota þetta myndmál til að segja fyrir hvernig Jesús myndi sýna almúgafólki sem aðrir fyrirlitu kærleika og samkennd.

7, 8. Hvernig rættist spádómur Jesaja á Jesú?

7 Guðspjallaritarinn Matteus yfirfærði orð Jesaja á Jesú. Hann sagði: „Hann brýtur ekki brákaðan reyr og slekkur ekki á rjúkandi kveik.“ Jesús gerði mörg kraftaverk í þágu þeirra sem voru kúgaðir og án vonar. Einn af þeim var maður altekinn holdsveiki. Honum hlýtur að hafa liðið eins og hann hefði enga von um að fá lækningu og geta verið með fjölskyldu sinni og vinum. (Lúk. 5:12, 13) Annað dæmi er maðurinn sem var heyrnarlaus og málhaltur. Ímyndaðu þér hvernig honum hefur liðið að sjá aðra eiga líflegar samræður sem hann gat ekki tekið þátt í. (Mark. 7:32, 33) En þar með er ekki öll sagan sögð.

8 Á dögum Jesú trúðu margir Gyðingar því að þeir sem voru veikir eða fatlaðir væru það vegna synda þeirra sjálfra eða foreldra þeirra. (Jóh. 9:2) Þessi ranghugmynd gerði það að verkum að þeim fannst þeir einskis virði. Jesús uppfyllti spádóm Jesaja þegar hann læknaði þá sem þjáðust og opnaði augu þeirra fyrir því að Guð elskaði þá. Hvaða fullvissu veitir þetta okkur?

9. Hvernig sjáum við af Hebreabréfinu 4:15, 16 að æðstiprestur okkar hefur samúð með ófullkomnu fólki?

9 Lestu Hebreabréfið 4:15, 16. Við getum verið viss um að Jesús sé alltaf samúðarfullur gagnvart okkur. Hvað felur það í sér? Gríska orðið sem er þýtt að „hafa samúð“ merkir að upplifa sársauka og sorg annarra í eigin hjarta. Það er áhugavert að Páll notar sama gríska orð í Hebreabréfinu 10:34 til að sýna að við setjum okkur í spor þeirra sem sitja í fangelsi. Frásögur Biblíunnar af kraftaverkum Jesú leiða í ljós hve djúpa samúð hann hafði með þeim sem þjáðust. Hann læknaði fólk ekki bara af skyldukvöð. Honum þótti innilega vænt um fólk og hann vildi hjálpa því. Þegar hann læknaði holdsveika manninn hefði hann til dæmis getað gert það úr fjarlægð en frásagan segir að hann hafi snert hann. Kannski hafði enginn snert hann í mörg ár. Og hann sýndi heyrnarlausa manninum nærgætni með því að taka hann afsíðis, úr hávaðanum, þegar hann gaf honum heyrnina aftur. Það er líka eftirtektarvert hvernig hann brást við þegar kona sem hafði lifað syndugu líferni þvoði fætur hans með tárum sínum. Farísei nokkur var með fordóma gagnvart konunni en Jesús kom henni til varnar og ávítaði faríseann harðlega. (Matt. 8:3; Mark. 7:33; Lúk. 7:44) Jesús sniðgekk ekki þá sem voru alvarlega veikir eða höfðu syndgað gróflega. Hann tók þeim opnum örmum og sýndi þeim sannan kærleika. Við getum treyst því að hann sé jafn samúðarfullur gagnvart okkur.

LÍKJUM EFTIR ÆÐSTAPRESTI OKKAR

10. Hvernig getum við hjálpað heyrnarlausum og blindum? (Sjá einnig myndir.)

10 Við viljum feta í fótspor Jesú og sýna öðrum kærleika, samkennd og umhyggju. (1. Pét. 2:21; 3:8) Við getum ekki læknað blinda og heyrnarlausa en við getum hjálpað þeim að kynnast Jehóva. Nú er til dæmis hægt að fá biblíutengd rit á yfir 100 táknmálum. Rit á blindraletri eru gefin út á yfir 60 tungumálum. Og myndböndin okkar með hljóðlýsingum eru gefin út á yfir 100 tungumálum. Allt þetta er gert til að hjálpa blindum og heyrnarlausum að nálgast Jehóva og son hans.

Myndir: 1. Bræður og systur syngja á táknmáli á safnaðarsamkomu fyrir heyrnarlausa. 2. Blind systir les Biblíuna á blindraletri.

Biblíutengt efni er til á meira en 1.100 tungumálum.

Til vinstri: Til á meira en 100 táknmálum.

Til hægri: Til á meira en 60 tungumálum á blindraletri.

(Sjá 10. grein.)


11. Hvernig endurspeglar söfnuður Jehóva umhyggju Jesú fyrir fólki af mismunandi uppruna? (Postulasagan 2:5–7, 33) (Sjá einnig myndir.)

11 Söfnuður Jehóva kappkostar að hjálpa fólki af alls konar bakgrunni að nálgast Jehóva. Eftir upprisu sína úthellti Jesús heilögum anda yfir lærisveina sína á hvítasunnuhátíðinni svo að allir sem voru þar saman komnir gætu heyrt fagnaðarboðskapinn „á sínu máli“. (Lestu Postulasöguna 2:5–7, 33.) Söfnuðurinn gefur út biblíutengd rit á meira en 1.100 tungumálum undir forystu Jesú og sum þessara tungumála eru aðeins töluð af fáum. Tökum sem dæmi sum frumbyggjamál sem töluð eru í Norður- og Suður-Ameríku en aðeins fáir tala þau. Ritin okkar hafa verið þýdd á yfir 160 þessara tungumála til að tryggja að sem flestir hafi aðgang að fagnaðarboðskapnum. Ritin okkar hafa líka verið þýdd á yfir 20 rómísk mál. Mörg þúsund manns sem tala þessi tungumál hafa farið að þjóna Jehóva.

Myndir: 1. Systir af frumbyggjaættum í Ameríku heldur brosandi á biblíu á sínu tungumáli. 2. Systir af Rómauppruna og dóttir hennar hlusta glaðar á dagskrá á móti.

Til vinstri: Til á meira en 160 tungumálum frumbyggja í Ameríku.

Til hægri: Til á meira en 20 rómískum tungumálum.

(Sjá 11. grein.)


12. Hvaða aðra hagnýtu hjálp sér söfnuður Jehóva fyrir?

12 Auk þess að sjá til þess að fólk fái að heyra fagnaðarboðskapinn skipuleggur söfnuður Jehóva neyðaraðstoð fyrir fórnarlömb náttúruhamfara. Þúsundir bræðra og systra bjóða sig fram til að hjálpa trúsystkinum í neyð. Söfnuðurinn sér líka fyrir látlausum samkomustöðum til að tilbiðja Jehóva og kynnast kærleika hans betur.

ÆÐSTIPRESTUR OKKAR GETUR HJÁLPAÐ ÞÉR

13. Á hvaða vegu hjálpar Jesús okkur?

13 Jesús er góði hirðirinn og gefur gaum að andlegum þörfum hvers og eins okkar. (Jóh. 10:14; Ef. 4:7) Stundum líður okkur eins og brákuðum reyr eða rjúkandi kveik vegna aðstæðna okkar. Við gætum kannski misst kjarkinn vegna alvarlegra veikinda, persónulegra mistaka eða ágreinings við einhvern í söfnuðinum. Við erum kannski föst í vandamálum okkar og eigum erfitt með að hugsa um framtíðarvonina. Mundu að Jesús sér allt sem þú ert að kljást við og skilur hvernig þér líður. Hann ber umhyggju fyrir þér og vill hjálpa þér. Hann getur til dæmis gefið þér heilagan anda til að efla þig þegar þú ert veikburða. (Jóh. 16:7; Tít. 3:6) Hann getur líka notað öldungana og önnur trúsystkini í söfnuðinum til að hvetja þig, styðja og hjálpa. – Ef. 4:8.

14. Hvað getum við gert þegar við erum kjarklítil?

14 Ef kraftur þinn hefur dvínað eða þér finnst þú vera að niðurlotum kominn skaltu hugleiða hlutverk Jesú sem æðstaprests. Mundu að Jehóva sendi hann ekki aðeins til jarðar til að gefa líf sitt sem lausnargjald heldur líka svo að hann gæti betur skilið vandamál ófullkominna manna. Þegar syndir okkar og veikleikar draga úr okkur kjarkinn er Jesús fús til að rétta okkur hjálparhönd. – Hebr. 4:15, 16.

15. Hvað hjálpaði bróður sem hafði villst frá söfnuði Jehóva að snúa til baka?

15 Jesús leiðbeinir líka fólki sínu við að hjálpa þeim sem hafa villst frá hjörð Jehóva að snúa aftur. (Matt. 18:12, 13) Stefanob hefur reynslu því. Hann ákvað að koma á samkomu eftir að hafa verið viðskila við söfnuðinn í 12 ár. „Mér fannst þetta ofboðslega erfitt en mig langaði að þjóna Jehóva ásamt bræðrum mínum og systrum á nýjan leik,“ segir hann. „Öldungarnir sem funduðu með mér tóku vel á móti mér. Stundum var ég mjög niðurdreginn yfir því sem ég hafði gert og langaði að gefast upp. En bræðurnir minntu mig á að Jehóva og Jesús vildu að ég héldi áfram. Þegar ég var tekinn inn í söfnuðinn aftur sýndi hann mikinn kærleika, bæði mér og fjölskyldu minni. Konan mín þáði biblíunámskeið með tímanum og núna þjónum við Jehóva saman sem fjölskylda.“ Umhyggjusamur æðstiprestur okkar hlýtur að vera mjög ánægður þegar hann sér bræður og systur hjálpa þeim sem iðrast að snúa aftur til safnaðarins.

16. Af hverju ertu þakklátur fyrir að hafa svona samúðarfullan æðstaprest?

16 Þegar Jesús var hér á jörðinni hjálpaði hann fjölda fólks sem var hjálparþurfi. Við getum verið þess fullviss að hann styðji okkur hvenær sem við þurfum á honum að halda. Í nýja heiminum sem nálgast óðum mun hann hjálpa mannkyninu að losna algerlega undan áhrifum syndar og ófullkomleika. Við getum verið Jehóva Guði okkar innilega þakklát. Hann sýndi mikinn kærleika og miskunn þegar hann skipaði son sinn sem samúðarfullan æðstaprest okkar!

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvernig var reynsla Jesú á jörðinni undirbúningur til að þjóna sem æðstiprestur okkar?

  • Hvernig uppfyllti Jesús Jesaja 42:3?

  • Hvernig hjálpar Jesús okkur sem æðstiprestur nú á dögum?

SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar

a Þú getur lært meira um hvernig Jesús kom í stað æðstaprests Gyðinga í greininni „Metum mikils að tilbiðja Jehóva í andlegu musteri hans“ í Varðturninum í október 2023, bls. 26, gr. 7–9.

b Nafni hefur verið breytt.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila