Örvænting í algleymingi
ÉG MYNDI fagna því að sjá heimsfrið meðan ég lifi,“ sagði ungur háskólanemi, „en ég veit að það eru hreinir draumórar vegna þess að hatrið í heiminum er svo mikið.“ Ert þú sama sinnis? Finnst þér ástand heimsmála vonlaust?
Slík svartsýni er ekki tilefnislaus. Ástand heimsmála er á hættustigi séð frá mörgum hliðum. Sjálfri tilveru mannkynsins er ógnað. Verið er að menga andrúmsloftið, fæðuna og vatnið með ógnvekjandi hraða. Efnahagsástand versnar og glæpir aukast upp úr öllu valdi svo að margir óttast stöðugt um líf sitt og eigur. Ólga og spenna í heiminum er meiri en áður hefur þekkst.
Enn meiri óróa veldur sú ógnun að heiminn megi gereyða með kjarnorkuvopnum. Það vofir stöðugt yfir því að styrjaldir og átök halda áfram án nokkurra merkja um að þeim sé að linna. Annar háskólanemi lét svo í ljós örvæntingu margra: „Einstaklingurinn virðist eiginlega ekkert geta gert til að koma í veg fyrir kjarnorkustyrjöld.“
Jafnvel þótt afstýra mætti kjarnorkustyrjöld stendur mannlegri tilveru ógn af hinni gífurlegu fjölgun mannkynsins. „Jarðarbúum fjölgar linnulaust og svo ört að árið 2000 — eftir aðeins 16 ár — mun heimurinn með sínum milljörðum til viðbótar vera ófær um að sjá fyrir nægilegum matvælum og orku, að ekki sé minnst á atvinnu, húsnæði, menntun og heilsugæslu,“ sagði tímaritið Parade á síðasta ári. „Og það sem gerst gæti þegar kemur fram á miðbik 21. aldar (þegar börn, sem fæðast á þessum áratug, komast yfir miðjan aldur) er ógerlegt að ímynda sér.“
Ár hvert deyja milljónir manna vegna hins hrikalega matvælaskorts sem er í mörgum löndum þriðja heimsins. Sérfræðingur við þá deild bandarísku manntalsstofunnar, sem annast rannsóknir á alþjóðamálum, segir: „Verði ekki gripið skjótt til alþjóðlegra aðgerða til að draga úr mannfjölgun sé ég fram á að stjórnkerfin leggi upp laupana.“ Samfara því að auðlindir og nauðsynjar þverra sjá menn fram á útbreidda vannæringu og sjúkdóma, stórfellda mannflutninga, meiriháttar hungursneyðir, innanlandsátök eða jafnel stríð.
Vaxandi úlfúð manna á meðal og eigingirni vekur þó litla von um að menn muni útkljá ágreiningsmál sín á heilbrigðan og vinsamlegan hátt. Aflsmunur er látinn ráða og ofbeldi hin venjulega leið til að viðra klögumálin, jafnt raunveruleg sem ímynduð. „Gamaldags“ verðmæti bræðralags, umhyggju og virðingar fyrir öðrum virðast nær óþekkt í okkar heimi núna. Eins og Biblían sagði fyrir ríkir nú ‚angist þjóða, ráðalausra, og menn gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.‘ — Lúkas 21:25, 26.
‚En þegar þroskaðir menn gera sér ljóst að allsherjartortíming blasir við hljóta þeir nú að setjast niður og semja til að tryggja frið og velsæld í heiminum,‘ segir þú kannski. Þótt slíkt virðist ákjósanlegt, er það raunhæf von? Hvað sýnir saga mannkyns?