Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w24 október bls. 24-29
  • Við getum sigrast á efasemdum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Við getum sigrast á efasemdum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • SIGRASTU Á EFASEMDUM
  • ÞEGAR ÞÚ EFAST UM AÐ JEHÓVA HAFI ÁHUGA Á ÞÉR
  • ÞEGAR ÞÚ EFAST UM FYRRI ÁKVARÐANIR
  • ÞEGAR ÞÚ EFAST UM AÐ ÞÚ KOMIR AÐ GAGNI Í ÞJÓNUSTU JEHÓVA
  • Ákvarðanir sem sýna að við reiðum okkur á Jehóva
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
  • Mundu að Jehóva er „lifandi Guð“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Jehóva „læknar hina sorgmæddu“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
w24 október bls. 24-29

NÁMSGREIN 43

SÖNGUR 90 Gefum gætur hvert að öðru

Við getum sigrast á efasemdum

„Sannreynið allt.“ – 1. ÞESS. 5:21.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvernig við getum sigrast á efasemdum sem gætu haft áhrif á þjónustu okkar við Jehóva.

1, 2. (a) Hvaða efasemdir gætu þjónar Jehóva þurft að glíma við? (b) Hvað skoðum við í þessari námsgrein?

VIÐ þurfum öll einhvern tíma að glíma við efasemdir,a hvort sem við erum ung eða gömul. Ímyndum okkur til dæmis ungan vott sem efast um að Jehóva hafi áhuga á honum. Hann er því ekki viss hvort hann ætti að láta skírast. Hugsum okkur líka miðaldra bróður sem valdi ungur að láta þjónustu Jehóva hafa forgang í lífinu frekar en veraldleg markmið. Núna þegar hann er eldri á hann kannski bara rétt fyrir nauðsynjum og veltir því fyrir sér hvort hann hafi valið rétt. Sjáum fyrir okkur eldri systur sem hefur ekki mikla orku. Hún er kannski niðurdregin vegna þess að hún getur ekki lengur gert það sem hún gat áður. Hefur þú einhvern tíma spurt: Tekur Jehóva eftir mér? Hafa fórnirnar sem ég hef fært fyrir Jehóva verið þess virði? Kem ég enn þá að gagni í þjónustu Jehóva?

2 Ef við hunsum slíkar efasemdir geta þær veikt sambandið við Jehóva. Í þessari námsgrein skoðum við meginreglur í Biblíunni sem gagnast okkur ef við efumst um (1) að Jehóva hafi áhuga á okkur, (2) að ákvarðanir okkar áður fyrr hafi verið góðar eða (3) að við komum enn þá að gagni í þjónustu Jehóva.

SIGRASTU Á EFASEMDUM

3. Hver er ein leið til að sigrast á efasemdum?

3 Ein leið til að sigrast á efasemdum er að leita svara við spurningum okkar í orði Guðs. Þegar við gerum það styrkjum við traust okkar til Jehóva og sambandið við hann og erum betur í stakk búin til að ‚standa stöðug í trúnni‘. – 1. Kor. 16:13.

4. Hvernig sannreynum við allt? (1. Þessaloníkubréf 5:21)

4 Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:21. Tökum eftir að Biblían hvetur okkur til að sannreyna allt. Hvernig gerum við það? Við getum gengið úr skugga um að það sem við trúum sé sannleikur með því að bera það saman við það sem segir í Biblíunni. Tökum sem dæmi ungu manneskjuna sem efaðist um að hún væri einhvers virði í augum Guðs. Ætti hún að láta þar við sitja? Nei, hún ætti að ‚sannreyna allt‘ með því að komast að því hvernig Jehóva hugsar.

5. Hvernig „hlustum“ við á svör Jehóva við spurningum okkar?

5 Þegar við lesum í orði Guðs „hlustum“ við á það sem Jehóva segir við okkur. En til að fá álit hans á vangaveltum okkar þurfum við að leggja eitthvað á okkur. Við þurfum að finna og rannsaka ákveðin biblíuvers til að finna svör við þeim spurningum sem við kunnum að hafa. Við getum gert það með því að notfæra okkur þau hjálpargögn sem söfnuður Jehóva sér okkur fyrir. (Orðskv. 2:3–6) Við getum beðið Jehóva um leiðsögn og hjálp til að skilja sjónarmið hans í málinu. Síðan getum við leitað að meginreglum Biblíunnar og leiðbeiningum sem eiga við okkar aðstæður. Það getur líka verið gagnlegt að lesa biblíufrásögur af einstaklingum sem stóðu frammi fyrir svipuðum aðstæðum.

6. Hvernig eru safnaðarsamkomur gagnlegar til að sigrast á efasemdum?

6 Við „hlustum“ líka á Jehóva á safnaðarsamkomum. Ef við mætum reglulega getur það sem kemur fram í ræðu eða svörum áheyrenda verið nákvæmlega það sem við þurfum til að sigrast á efasemdum. (Orðskv. 27:17) Skoðum nokkrar efasemdir sem við gætum haft og hvernig við getum sigrast á þeim.

ÞEGAR ÞÚ EFAST UM AÐ JEHÓVA HAFI ÁHUGA Á ÞÉR

7. Hverju gætu sumir velt fyrir sér?

7 Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvort Jehóva taki eftir þér? Ef þér finnst þú vera lítils virði gæti tilhugsunin um að vera vinur skapara alheimsins virst óraunhæf, langt utan seilingar. Davíð konungi gæti hafa liðið þannig. Hann undraðist að Jehóva tæki eftir mönnunum og spurði: „Jehóva, hvað er maðurinn að þú gefir honum gaum, sonur dauðlegs manns að þú sýnir honum áhuga?“ (Sálm. 144:3) Hvar finnum við svar við þessari spurningu?

8. Hverjum tekur Jehóva eftir samkvæmt 1. Samúelsbók 16:6, 7, 10–12?

8 Það er auðséð af Biblíunni að Jehóva tekur eftir þeim sem virðast lítils virði í augum manna. Jehóva sendi til dæmis Samúel til Ísaí til að smyrja einn af sonum hans til konungs í Ísrael. Ísaí kallaði á sjö af átta sonum sínum til að hitta Samúel en sleppti þeim yngsta, Davíð.b En samt var það Davíð sem Jehóva kaus. (Lestu 1. Samúelsbók 16:6, 7, 10–12.) Jehóva sá hvaða mann Davíð hafði að geyma. Hann vissi að þessi ungi maður elskaði sig mjög mikið.

9. Hvernig geturðu verið viss um að Jehóva hafi áhuga á þér? (Sjá einnig mynd.)

9 Veltu því fyrir þér hvernig Jehóva hefur þegar sýnt að hann taki eftir þér. Hann býðst til að gefa þér ráð sem eru sérsniðin að þörfum þínum. (Sálm. 32:8) Hvernig getur hann það nema hann þekki þig vel? (Sálm. 139:1) Þú sannfærist um að Jehóva hafi áhuga á þér þegar þú fylgir ráðum hans og kemst að því hversu gagnleg þau eru. (1. Kron. 28:9; Post. 17:26, 27) Jehóva tekur eftir því sem þú leggur á þig til að þjóna honum. Hann sér eiginleika þína og vill vera vinur þinn. (Jer. 17:10) Það gleður hann mjög ef þú vilt þiggja boð hans. – 1. Jóh. 4:19.

Ung systir sinnir sjálfsnámi. Hún er með opna biblíu á borðinu og horfir á töfluteikningu í spjaldtölvu.

„Ef þú leitar [Jehóva] lætur hann þig finna sig.“ – 1. Kron. 28:9. (Sjá 9. grein.)c


ÞEGAR ÞÚ EFAST UM FYRRI ÁKVARÐANIR

10. Hvaða spurning gæti vaknað þegar við hugsum um ákvarðanir sem við tókum áður fyrr?

10 Sumir gætu leitt hugann að ákvörðunum sem þeir tóku áður og velt fyrir sér hvort þær hafi verið réttar. Þeir kusu kannski að hætta í vellaunuðu starfi eða slepptu því að stofna eigið fyrirtæki til að geta þjónað Jehóva af meiri krafti. En nú er liðinn tími, kannski nokkrir áratugir. Þeir sjá ef til vill að sumir sem þeir þekkja og tóku aðra stefnu virðast nú í góðum efnum og njóta þægilegs lífs. Þeir fara því að velta fyrir sér hvort fórnirnar sem þeir færðu hafi verið þess virði. Eða urðu þær til þess að þeir misstu af tækifærum?

11. Hvað angraði ritara Sálms 73?

11 Ef slíkar vangaveltur leita á þig er gott að skoða hvernig ritara Sálms 73 leið. Hann tók eftir því hvernig annað fólk naut lífsins, var heilbrigt, efnað og virtist áhyggjulaust. (Sálm. 73:3–5, 12) Þegar hann hugsaði um þetta fannst honum það sem hann lagði á sig til að þjóna Jehóva vera tilgangslaust. Hann „þjáðist allan daginn“ vegna þessara neikvæðu hugsana. (Sálm. 73:13, 14) Hvernig tókst hann á við þessar vondu tilfinningar?

12. Hvernig tókst ritari sálmsins á við áhyggjur samkvæmt Sálmi 73:16–18?

12 Lestu Sálm 73:16–18. Sálmaritarinn fór í helgidóm Jehóva. Þar gat hann hugsað skýrt. Hann áttaði sig á að þótt líf sumra gæti virst auðvelt væri framtíðarvon þeirra ótrygg. Þannig öðlaðist hann hugarfrið, vitandi að besta ákvörðunin fælist í því að setja Jehóva í fyrsta sætið í lífinu. Fyrir vikið var hann ákveðinn í að halda áfram að þjóna Jehóva. – Sálm. 73:23–28.

13. Hvernig geturðu fundið hugarfrið ef þú sérð eftir fyrri ákvörðunum? (Sjá einnig mynd.)

13 Þú getur fengið hugarfrið eins og sálmaskáldið með því að lesa í orði Guðs. Rifjaðu upp allt það góða sem þú átt, þar á meðal fjársjóðinn á himnum og mundu að þeir sem þjóna ekki Jehóva eru án hjálpar hans. Þeir reiða sig ef til vill algerlega á það sem þeir fá út úr lífinu núna vegna þess að þeir eiga enga framtíðarvon. En Jehóva hefur lofað þér blessun í framtíðinni sem er stórkostlegri en þú getur ímyndað þér. (Sálm. 145:16) Og mundu líka að þú getur ekki vitað hvernig líf þitt hefði orðið ef þú hefðir tekið aðra stefnu. Eitt er víst, þeir sem taka ákvarðanir byggðar á kærleika til Guðs og náungans missa ekki af neinu sem veitir varanlega hamingju.

Bróðir sér sjálfan sig fyrir sér í paradís á meðan hann þvær glugga í verslun. Hann ímyndar sér sig ásamt konunni sinni með hjólbörur fullar af ávöxtum og dádýr eru á beit.

Sjáðu sjálfan þig fyrir þér í paradís. (Sjá 13. grein.)d


ÞEGAR ÞÚ EFAST UM AÐ ÞÚ KOMIR AÐ GAGNI Í ÞJÓNUSTU JEHÓVA

14. Í hvaða aðstæðum eru sumir og hvað gætu þeir efast um?

14 Sumir þjónar Jehóva finna fyrir áhrifum ellinnar, glíma við slæma heilsu eða búa við fötlun. Þeir gætu farið að efast um að þeir séu dýrmætir í augum Jehóva. Þeir spyrja sig ef til vill: Kem ég enn að gagni í þjónustu Jehóva?

15. Hvað var ritari Sálms 71 sannfærður um?

15 Ritari Sálms 71 hafði svipaðar áhyggjur. Hann bað til Jehóva: „Yfirgefðu mig ekki þegar þróttur minn þrýtur.“ (Sálm. 71:9, 18) Sálmaritarinn var samt viss um að Jehóva myndi leiðbeina honum og styðja ef hann héldi áfram að þjóna honum af trúfesti. Sálmaskáldið hafði séð og reynt að það gleður Jehóva þegar þjónar hans gera sitt besta þrátt fyrir takmörk sín. – Sálm. 37:23–25.

16. Hvernig koma hinir öldruðu að gagni í þjónustu Jehóva? (Sálmur 92:12–15)

16 Ef þú ert aldraður skaltu horfa á aðstæður þínar frá sjónarhóli Jehóva. Hann getur hjálpað þér að dafna í trúnni þótt aldur eða heilsa hamli þér. (Lestu Sálm 92:12–15.) Einbeittu þér að því sem þú getur gert í stað þess að einblína á það sem þú getur ekki. Þú getur verið fyrirmynd fyrir aðra með trúfesti þinni og sýnt öðrum persónulegan áhuga. Þú getur sagt frá því hvernig Jehóva hefur stutt þig í gegnum árin og hvaða loforð Biblíunnar þú hlakkar til að rætist. Og ekki vanmeta áhrif innilegra bæna í þágu annarra. (1. Pét. 3:12) Við höfum öll eitthvað fram að færa sem Jehóva og aðrir kunna að meta.

17. Hvers vegna ættum við ekki að bera okkur saman við aðra?

17 Ef þú ert vonsvikinn yfir því að geta ekki gert meira í þjónustu Jehóva máttu vera viss um að hann kann vel að meta það sem þú leggur af mörkum. Þér hættir kannski til að bera þig saman við aðra. Forðastu það! Jehóva ber okkur ekki saman við aðra. (Gal. 6:4) Sem dæmi gaf María Jesú mjög dýra ilmolíu. (Jóh. 12:3–5) En fátæka ekkjan í musterinu gaf tvo smápeninga sem voru mjög lítils virði. (Lúk. 21:1–4) Jesús bar þessar tvær konur ekki saman. Í augum hans sýndu þær báðar trú. Jehóva faðir hans kann sannarlega að meta allt sem þú gerir vegna hollustu þinnar og kærleika til hans, hversu smátt sem það er í þínum augum.

18. Hvernig getum við sigrast á efasemdum? (Sjá einnig rammann „Orð Jehóva getur hjálpað þér að sigrast á efasemdum“.)

18 Við þurfum öll einhvern tíma að glíma við efasemdir. En eins og við höfum séð getur orð Guðs, Biblían, hjálpað okkur að sigrast á þeim. Gerðu þitt besta til að finna svör við spurningum þínum. Þannig styrkirðu fullvissu þína og vinnur bug á efasemdum. Jehóva þekkir þig persónulega og ber umhyggju fyrir þér. Hann kann vel að meta fórnir þínar og launar þér. Þú getur verið viss um að hann elskar alla trúfasta þjóna sína og veitir þeim athygli.

Orð Jehóva getur hjálpað þér að sigrast á efasemdum

  • Jehóva hefur áhuga á þér

    „Vertu ekki hræddur því að ég er með þér. Hafðu ekki áhyggjur því að ég er Guð þinn. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ – Jes. 41:10.

    „Ég, Jehóva, er Guð þinn sem kenni þér það sem er þér fyrir bestu og vísa þér veginn sem þú átt að ganga.“ – Jes. 48:17.

  • Jehóva metur mikils ákvörðun þína að þjóna honum

    „Sonur minn, ef hjarta þitt verður viturt þá gleðst ég í hjarta mínu.“ – Orðskv. 23:15.

    „Látið ekki ást á peningum stjórna lífi ykkar heldur látið ykkur nægja það sem þið hafið. Hann hefur sagt: ‚Ég mun aldrei snúa baki við þér og aldrei yfirgefa þig.‘“ – Hebr. 13:5.

  • Jehóva kann að meta allt sem þú getur gert fyrir hann.

    „Hver og einn á að koma með gjöf í samræmi við þá blessun sem Jehóva Guð þinn hefur veitt honum.“ – 5. Mós. 16:17.

    „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið sýnduð nafni hans með því að þjóna hinum heilögu eins og þið gerið enn.“ – Hebr. 6:10.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvernig vitum við að Jehóva hefur áhuga á okkur?

  • Hvernig ættum við að takast á við efasemdir um fyrri ákvarðanir?

  • Hvað ættum við að gera ef við efumst um að við komum að gagni í þjónustu Jehóva?

SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum

a ORÐASKÝRING: Í þessari námsgrein ræðum við um efasemdir sem eru sprottnar af óvissu um hvort við séum einhvers virði í augum Jehóva og hversu góðar ákvarðanir við höfum tekið. Hér er ekki átt við þær efasemdir sem Biblían nefnir í tengslum við skort á trú á Jehóva og loforð hans.

b Biblían segir ekki nákvæmlega hversu gamall Davíð var þegar Jehóva valdi hann en hugsanlega var hann enn þá táningur. – Sjá Varðturninn 1. september 2011 bls. 29, gr. 2.

c MYND: Ung systir reynir að finna út hvert sjónarmið Jehóva er með því að lesa í Biblíunni.

d MYND: Bróðir vinnur erfiðisvinnu til að sjá fyrir fjölskyldu sinni en hugsar um hvernig lífið verður í paradís.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila