Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 nóvember bls. 10-15
  • Varðveittu gleðina þegar þú annast ástvin

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Varðveittu gleðina þegar þú annast ástvin
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVERS VEGNA GETUR VERIÐ ERFITT AÐ VERA GLAÐUR ÞEGAR MAÐUR ANNAST AÐRA?
  • HVERNIG ER HÆGT AÐ VARÐVEITA GLEÐINA?
  • HVERNIG GETA AÐRIR HJÁLPAÐ?
  • Viðhaltu gleðinni á efri árum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Jehóva er okkar „mesta gleði“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Svaraðu eftirfarandi spurningum
    Dagskrá svæðismóts með farandhirði 2025-2026
  • Að annast hina öldruðu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 nóvember bls. 10-15

NÁMSGREIN 45

SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum

Varðveittu gleðina þegar þú annast ástvin

„Þeir sem sá með tárum uppskera með gleðisöng.“ – SÁLM. 126:5.

Í HNOTSKURN

Í þessari námsgrein fáum við tillögur um hvernig við getum viðhaldið gleðinni þegar við önnumst aldraðan eða veikan ástvin.

1, 2. Hvernig lítur Jehóva á þann sem annast veikan eða aldraðan einstakling? (Orðskviðirnir 19:17) (Sjá einnig myndir.)

„VIÐ hjónin höfum verið gift í meira en 32 ár,“ segir bróðir frá Kóreu sem heitir Jin-yeol. „Ég hef annast konuna mína síðustu fimm árin. Hún er með parkinsonsveiki og á mjög erfitt með að hreyfa sig. Ég elska hana og annast með glöðu geði. Hún dvelur heima og sefur í sjúkrarúmi. Ég sef í rúmi við hliðina á henni og við höldumst í hendur á meðan við sofum.“

2 Ert þú í þeirri stöðu að annast einhvern sem þú elskar, eins og foreldri, maka, barn eða vin? Ef svo er gerirðu það örugglega með ánægju. Og þú annast ástvin þinn líka vegna þess að þú vilt sýna Jehóva hollustu. (1. Tím. 5:4, 8; Jak. 1:27) En þetta er ekki alltaf auðvelt. Þér finnst kannski enginn skilja hvernig þér líður. Þú brosir innan um aðra en þeir vita ekki að þér líður stundum mjög illa. (Sálm. 6:6) Þótt aðrir viti ekki hvað þú ert að glíma við þá veit Jehóva það alltaf. (Samanber 2. Mósebók 3:7.) Hann tekur eftir tárum þínum og fórnum. (Sálm. 56:8; 126:5) Hann kann að meta allt sem þú gerir fyrir ástvin þinn. Hann álítur sig vera í skuld við þig og lofar að umbuna þér. – Lestu Orðskviðina 19:17.

Myndir: Umönnunaraðilar við mismunandi aðstæður. 1. Systir gefur rúmfastri, aldraðri móður sinni að borða. 2. Systir hjálpar manni sínum sem er í hjólastól að fara í skóna. 3. Móðir setur hjálm á ungan son sinn áður en hann spilar fótbolta með pabba sínum. 4. Bróðir heimsækir aldraðan bróður og biður með honum.

Ert þú að annast einhvern sem þér þykir vænt um? (Sjá 2. grein.)


3. Hvaða erfiðleika kunna Abraham og Sara að hafa upplifað þegar þau önnuðust Tera?

3 Biblían segir frá mörgum körlum og konum sem önnuðust sína nánustu. Abraham og Sara önnuðust Tera föður sinn þegar þau fóru frá Úr. Hann var þá um 200 ára gamall. En þrátt fyrir háan aldur fór hann með þeim. Þau ferðuðust um 960 kílómetra til Haran. (1. Mós. 11:31, 32) Abraham og Söru var án efa annt um Tera en við getum samt ímyndað okkur hversu krefjandi hefur verið að annast hann, sérstaklega á ferðarlögum. Þau ferðuðust líklega á úlföldum eða ösnum en það hefur mögulega verið mjög erfitt fyrir Tera. Trúlega hafa þau stundum verið mjög þreytt, jafnvel úrvinda. En það leikur enginn vafi á því að Jehóva hefur gefið þeim þann styrk sem þau þurftu. Hann mun styðja og styrkja þig, rétt eins og hann hjálpaði Abraham og Söru. – Sálm. 55:22.

4. Hvað er til umfjöllunar í þessari námsgrein?

4 Gleði getur hjálpað þér að halda áfram að annast ástvini þína. (Orðskv. 15:13) Mundu að þú getur varðveitt gleðina jafnvel þótt lífið sé erfitt. (Jak. 1:2, 3) Hvernig fer maður að því? Ein leið er að biðja Jehóva að hjálpa okkur að vera jákvæð. Í þessari námsgrein skoðum við fleira sem hægt er að gera til að vera glaður. Við skoðum líka hvað aðrir geta gert til að hjálpa þeim sem sinna umönnun. Fyrst skulum við líta á hvað við getum gert til að varðveita gleðina og af hverju það getur verið erfitt.

HVERS VEGNA GETUR VERIÐ ERFITT AÐ VERA GLAÐUR ÞEGAR MAÐUR ANNAST AÐRA?

5. Hvers vegna þurfa þeir sem annast aðra að viðhalda gleðinni?

5 Ef við missum gleðina þegar við önnumst aðra getum við auðveldlega orðið úrvinda. (Orðskv. 24:10) Þegar við erum þreytt erum við ef til vill ekki jafn elskuleg og fús að hjálpa eins og við vildum vera. Hvers vegna getur verið erfitt að vera glaður þegar við sinnum umönnun?

6. Hvers vegna brenna sumir út sem annast aðra?

6 Þú ert kannski úrvinda af þreytu. Systir sem heitir Leah segir: „Það getur tekið mikið á tilfinningalega að annast aðra, jafnvel á góðum degi. Mér líður oft eins og ég hafi ekkert eftir til að gefa í lok dagsins. Stundum get ég ekki einu sinni svarað textaskilaboðum.“ Öðrum finnst erfitt að fá næga hvíld eða smá frí frá umönnuninni. Systir sem heitir Inés segir: „Ég fæ ekki nógu góðan svefn. Ég vakna oft á nóttunni á tveggja tíma fresti til að annast tengdamömmu mína. Og við hjónin höfum ekki getað farið í frí í mörg ár.“ Sumir hafa ekki getað tekið þátt í félagslífi eða tekið að sér verkefni í söfnuðinum vegna þess að ástvinir þeirra þurfa á þeim að halda allan sólarhringinn. Fyrir vikið eru þeir kannski einmana og finnst þeir fastir í aðstæðunum.

7. Hvers vegna upplifa sumir sektarkennd eða sorg?

7 Þú upplifir kannski sektarkennd eða sorg. Systir sem heitir Jessica segir: „Mér finnst erfitt að sætta mig við eigin takmörk. Ég fæ sektarkennd þegar ég geri eitthvað fyrir sjálfa mig og mér finnst ég eigingjörn.“ Sumir fá sektarkennd yfir því að þeir eru ósáttir við aðstæður sínar. Aðrir hafa áhyggjur af því að þeir geri ekki nógu mikið til að hjálpa ástvini sínum. Enn aðrir finna fyrir sektarkennd vegna þess að þeir segja eitthvað særandi við ástvin sinn í stundarpirringi. (Jak. 3:2) Sumir upplifa sorg vegna þess að þeim finnst þeir hafa misst ástvin sem eitt sinn var hraustur og lífsglaður. Systir sem heitir Barbara segir: „Eitt það erfiðasta er að horfa upp á hvernig manneskjunni sem ég elska hrakar dag frá degi.“

8. Hvaða áhrif hefur það á suma þegar aðrir tjá þakklæti sitt?

8 Þér gæti liðið eins og það sem þú gerir sé tekið sem sjálfsögðum hlut. Kannski er það vegna þess að þú færð sjaldan þakkir eða hrós fyrir það sem þú gerir og fórnirnar sem þú færir. Það getur verið mjög hvetjandi þegar aðrir þakka þér fyrir það sem þú leggur á þig. (1. Þess. 5:18) Systir sem heitir Melissa segir: „Ég græt stundum vegna þess að ég er svo búin á því og vonsvikin. En þegar þau sem ég annast þakka mér fyrir það sem ég geri líður mér svo miklu betur. Það hjálpar mér að hafa orku fyrir næsta dag og halda áfram að annast þau.“ Bróðir sem heitir Ahmadu útskýrir hvernig honum líður þegar honum er tjáð þakklæti. Þau hjónin annast unga, flogaveika frænku sem býr hjá þeim. Hann segir: „Þótt hún skilji ekki fyllilega hversu stórar fórnir við þurfum að færa til að annast hana fyllist ég gleði þegar hún tjáir okkur þakklæti sitt eða skrifar með óskýrum stöfum: Ég elska ykkur.“

HVERNIG ER HÆGT AÐ VARÐVEITA GLEÐINA?

9. Hvernig getur sá sem annast aðra verið hógvær?

9 Vertu hógvær. (Orðskv. 11:2) Við höfum öll takmarkaðan tíma og orku. Þú þarft því að setja mörk. Stundum þarftu að segja nei og það er ekkert að því. Það sýnir að þú ert hógvær. Ef aðrir bjóðast til að hjálpa þér skaltu þiggja það með glöðu geði. Bróðir sem heitir Jay segir: „Við getum bara gert svo og svo mikið í einu. Ef þú ert meðvitaður um takmörk þín og virðir þau áttu auðveldara með að varðveita gleðina.“

10. Hvað er mikilvægt að skilja þegar maður annast aðra? (Orðskviðirnir 19:11)

10 Sýndu skilning. (Lestu Orðskviðina 19:11.) Ef þú ert skilningsríkur áttu auðveldara með að halda ró þinni þegar ástvinur þinn segir eða gerir eitthvað óvinsamlegt. Þú reynir að skilja hvers vegna hann hagar sér eins og hann gerir. Sum veikindi gera það að verkum að fólk hagar sér ekki eins og það átti að sér. (Préd. 7:7) Sá sem er venjulega hlýr og hugulsamur getur orðið deilugjarn og önugur. Og hann getur orðið kröfuharður, gagnrýninn og óánægður með það sem aðrir eru að reyna að gera fyrir hann. Ef þú ert að annast einhvern sem er með alvarlegan sjúkdóm gæti verið gagnlegt fyrir þig að lesa þér til um hann. Því betur sem þú skilur veikindi hans því auðveldara áttu með að tengja hegðun hans við veikindin en ekki persónuna. – Orðskv. 14:29.

11. Hvað er mikilvægt að taka sér tíma til að gera á hverjum degi ef maður annast aðra? (Sálmur 132:4, 5)

11 Taktu þér tíma til að styrkja vináttuna við Jehóva. Stundum þarftu að ýta einhverju til hliðar til að sinna því sem skiptir meira máli. (Fil. 1:10) Eitt af því er að styrkja sambandið við Jehóva. Davíð konungur setti tilbeiðsluna á Jehóva í fyrsta sæti í lífinu. (Lestu Sálm 132:4, 5.) Þú þarft líka að forgangsraða og taka frá tíma á hverjum degi til að lesa í Biblíunni og biðja. Systir sem heitir Elisha segir: „Ég hef varðveitt gleðina með því að biðja og hugleiða hughreystandi sálma. Bænin er líflína fyrir mig. Ég bið til Jehóva mörgum sinnum á dag til að hafa hugarró.“

12. Hvers vegna þarftu að taka þér tíma til að hugsa um heilsuna?

12 Taktu þér tíma til að sinna heilsunni. Þeim sem eru önnum kafnir – eins og þeim sem annast aðra – getur fundist erfitt að borða heilsusamlega vegna þess að þeir hafa lítinn tíma til að kaupa ferska matvöru eða elda næringarríkan mat. Gott mataræði og regluleg hreyfing eru nauðsynleg fyrir líkamlega og andlega heilsu. Nýttu því vel þann takmarkaða tíma sem þú hefur og sinntu heilsunni vel. (Ef. 5:15, 16) Reyndu að sjá til þess að þú fáir nægan svefn. (Préd. 4:6) Rannsóknir gefa til kynna að svefn geti hjálpað heilanum að losa sig við eiturefni. Læknisfræðileg grein segir að nægur svefn dragi auk þess úr kvíða og geri fólki kleift að halda ró sinni í erfiðum aðstæðum. Það er líka mikilvægt fyrir þig að gefa þér tíma til að gera eitthvað skemmtilegt. (Préd. 8:15) Systir segir hvað hjálpar henni að varðveita gleðina: „Þegar veðrið er gott og sólin skín reyni ég að nota tækifærið og fara út. Og að minnsta kosti einu sinni í mánuði reyni ég að taka dag til að gera eitthvað skemmtilegt með vinkonu minni.“

13. Hvers vegna er gott fyrir okkur að hlæja? (Orðskviðirnir 17:22)

13 Varðveittu kímnigáfuna. (Lestu Orðskviðina 17:22; Préd. 3:1, 4) Að hlæja er bæði gott fyrir huga og líkama. Þegar maður annast aðra er ekki óalgengt að hlutirnir fari öðruvísi en maður áætlaði. En ef þú getur hlegið að því sem fer úrskeiðis áttu trúlega auðveldara með að takast á við það. Og ef þú getur hlegið með þeim sem þú hjúkrar getur það styrkt tengslin á milli ykkar.

14. Hvernig getur það hjálpað að tala við traustan vin?

14 Talaðu við traustan vin. Þótt þú gerir þitt besta munu aðstæðurnar stundum vera yfirþyrmandi. Þá getur verið gott fyrir þig að tala við góðan vin um líðan þína – einhvern sem dæmir þig ekki og bregst ekki of hart við. (Orðskv. 17:17) Þegar hann hlustar og uppörvar þig gæti það verið einmitt það sem þig vantar til að endurheimta gleðina. – Orðskv. 12:25.

15. Hvernig getur það veitt þér gleði að hugsa um vonina?

15 Ímyndaðu þér hvernig líf ykkar verður í paradís. Minntu þig á að núverandi hlutverk er tímabundið og að hjúkra öðrum var ekki það sem Jehóva ætlaði mönnunum upphaflega að gera. (2. Kor. 4:16–18) „Hið sanna líf“ er ekki enn þá orðið að veruleika. (1. Tím. 6:19) Það getur veitt þér mikla gleði að tala við ástvin þinn um það sem þið ætlið að gera saman í paradís. (Jes. 33:24; 65:21) Systir sem heitir Heather segir: „Ég segi oft við ástvini mína sem ég annast að bráðlega munum við sauma saman, hlaupa saman og hjóla saman. Við eigum eftir að baka brauð og elda mat fyrir ástvini okkar sem koma í upprisunni. Við þökkum síðan Jehóva fyrir vonina sem við eigum.“

HVERNIG GETA AÐRIR HJÁLPAÐ?

16. Hvernig getum við hjálpað öðrum í söfnuðinum sem hjúkra ástvini? (Sjá einnig mynd.)

16 Við getum hjálpað trúsystkini að fá þá hvíld sem það þarf. Við sem erum í söfnuðinum getum boðist til að leysa bróður eða systur af með því að verja tíma með hinum veika. Þannig fá þau tíma til að sinna eigin málum og hvíla sig. (Gal. 6:2) Sumir bræður og systur hafa búið til dagskrá til að mæta þessari þörf. Systir sem heitir Natalya og annast lamaðan eiginmann sinn segir: „Bróðir í söfnuðinum heimsækir manninn minn einu sinni eða tvisvar í viku. Þeir boða trúna saman, tala saman og horfa jafnvel saman á bíómynd. Þetta eru dýrmætar samverustundir fyrir manninn minn og gefa mér tíma til að gera eitthvað fyrir sjálfa mig eins og að fara í göngutúr.“ Sumir í söfnuðinum gætu jafnvel boðist til að leysa trúsystkini af yfir nótt svo að það geti fengið góðan nætursvefn.

Tvær systur heimsækja aldraða systur til að sú sem annast hana geti farið út. Hún kveður þær glöð í bragði.

Hvernig geturðu stutt einhvern sem annast vin eða ættingja? (Sjá 16. grein.)a


17. Hvaða hjálp getum við veitt á safnaðarsamkomum?

17 Við getum hjálpað á safnaðarsamkomum. Þeir sem annast veika ættingja fá kannski lítið út úr safnaðarsamkomum og mótum vegna þess að athyglin fer í að hugsa um þann veika. Aðrir í söfnuðinum geta stundum boðist til að sitja hjá hinum veika á samkomu, allan tímann eða hluta úr dagskránni. Ef hinn veiki kemst ekki frá heimilinu væri hægt að bjóðast til að koma heim til hans og tengjast samkomunni. Þá getur sá sem annast hann mætt á samkomu í ríkissalnum.

18. Hvað fleira getum við gert fyrir þá sem hjúkra ættingjum sínum?

18 Hrósum þeim og biðjum fyrir þeim. Öldungar ættu reglulega að taka sér tíma til að hvetja þá sem annast aðra. (Orðskv. 27:23) Og hverjar svo sem aðstæður okkar eru getum við öll í söfnuðinum verið óspör á að hrósa þeim. Við getum líka beðið Jehóva um að halda áfram að styrkja þau og hjálpa þeim að viðhalda gleðinni. – 2. Kor. 1:11.

19. Hvers getum við hlakkað til?

19 Bráðlega mun Jehóva þerra burt tár allra sem þjást. Veikindi og dauði verða ekki framar til. (Opinb. 21:3, 4) „Þá stekkur hinn halti eins og hjörtur.“ (Jes. 35:5, 6) Fylgifiskar ellinnar og sársaukinn sem það kostar að annast ástvini sem eru veikir verður hluti af ‚hinu fyrra sem verður ekki minnst framar‘. (Jes. 65:17) En þangað til þessi dásamlega von rætist getum við treyst því að Jehóva sé með okkur. Ef við höldum áfram að biðja um styrk mun hann hjálpa okkur „að halda út í öllu með þolinmæði og gleði“. – Kól. 1:11.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvers vegna geta þeir sem sinna umönnun misst gleðina?

  • Hvernig geta þeir sem sinna umönnun viðhaldið gleðinni?

  • Hvernig geturðu stutt þá sem annast aðra?

SÖNGUR 155 Gleðigjafi minn

a MYND: Tvær ungar systur heimsækja aldraða systur til að sú sem annast hana geti farið í göngutúr.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila