Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 nóvember bls. 22-27
  • „Þú ert mjög dýrmætur“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Þú ert mjög dýrmætur“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVERNIG SÝNDI JESÚS FÓLKI FRAM Á AÐ ÞAÐ VAR MIKILS VIRÐI?
  • SJÁUM OKKUR EINS OG JEHÓVA SÉR OKKUR
  • Jehóva „læknar hina sorgmæddu“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Jehóva ber innilega umhyggju fyrir þér
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Síðustu fjörutíu dagar Jesú á jörðinni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 nóvember bls. 22-27

NÁMSGREIN 47

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig

„Þú ert mjög dýrmætur“

„Þú ert mjög dýrmætur.“ – DAN. 9:23, neðanmáls.

Í HNOTSKURN

Námsgreinin sýnir þeim sem hafa lágt sjálfsmat fram á að Jehóva metur þá mikils.

1, 2. Hvað getur hjálpað okkur að vera viss um að við séum dýrmæt í augum Jehóva?

Á MEÐAL dýrmætra þjóna Jehóva hafa sumir lítið álit á sjálfum sér. Ef til vill er ástæðan sú að einhver hefur komið mjög illa fram við þá. Ert þú einn af þeim? Ef svo er, hvernig geturðu verið fullviss um að þú sért dýrmætur í augum Jehóva?

2 Það gæti verið gott fyrir þig að hugleiða frásögur í Biblíunni sem kenna okkur hvernig Jehóva vill að komið sé fram við fólk. Sonur hans, Jesús, kom fram við fólk af virðingu og góðvild. Með því sýndi hann að bæði hann og faðir hans meta mikils auðmjúkt fólk sem finnst það ekki mikils virði. (Jóh. 5:19; Hebr. 1:3) Í þessari námsgrein skoðum við: (1) hvernig Jesús sýndi fólki að það er sannarlega dýrmætt í augum Jehóva og (2) hvernig við getum sannfært okkur sjálf um að Jehóva meti okkur mikils. – Hag. 2:7.

HVERNIG SÝNDI JESÚS FÓLKI FRAM Á AÐ ÞAÐ VAR MIKILS VIRÐI?

3. Hvernig kom Jesús fram við fólk í Galíleu sem leitaði til hans?

3 Á þriðju boðunarferð Jesú í Galíleu hópaðist fólk að honum til að hlusta á hann og fá lækningu meina sinna. Jesús veitti því athygli að „það var hrjáð og hrakið eins og sauðir án hirðis“. (Matt. 9:36, sjá skýringar í námsbiblíunni á tungumáli sem þú skilur.) Trúarleiðtogarnir litu niður á almúgann og kölluðu hann jafnvel bölvaðan. (Jóh. 7:47–49, skýring í námsbiblíunni.) En Jesús kom fram við fólk af góðvild og virðingu með því að taka sér tíma til að kenna því og lækna það. (Matt. 9:35) Og til að geta hjálpað enn fleirum þjálfaði hann lærisveina sína til að taka þátt í boðun trúarinnar og gaf þeim vald til að lækna veika. – Matt. 10:5–8.

4. Hvað lærum við af því hvernig Jesús kom fram við auðmjúkt fólk sem hlustaði á hann?

4 Með því að koma fram við áheyrendur sína af virðingu og umhyggju sýndi Jesús að hann og faðir hans meta mikils þá sem oft er litið niður á í samfélaginu. Ef þú þjónar Jehóva og finnst þú lítils virði skaltu íhuga hvernig Jesús kom fram við auðmjúkt fólk sem vildi læra af honum. Það getur hjálpað þér að sjá að þú ert dýrmætur í augum Jehóva.

5. Lýstu aðstæðum konu sem Jesús hitti í Galíleu.

5 Jesús kenndi ekki bara hópum fólks heldur hjálpaði líka einstaklingum. Þegar hann sinnti boðuninni í Galíleu hitti hann konu sem hafði þjáðst af óeðlilega miklum blæðingum í 12 ár. (Mark. 5:25) Samkvæmt Móselögunum var hún óhrein og hver sem snerti hana varð líka óhreinn. Það hlýtur að hafa takmarkað samskipti hennar mjög við aðra. Auk þess gat hún ekki tilbeðið Jehóva í samkunduhúsinu og á hátíðum ásamt öðrum. (3. Mós. 15:19, 25) Hún hefur örugglega þjáðst bæði líkamlega og tilfinningalega. – Mark. 5:26.

6. Hvað gerði konan með blæðingarnar til að fá lækningu?

6 Þessi þjáða kona vildi að Jesús læknaði sig. En hún bað hann ekki um að gera það. Hvers vegna ekki? Ef til vill fannst henni niðurlægjandi að gera það. Og kannski óttaðist hún að Jesús myndi hafna sér vegna þess að hún kom á meðal fólks þótt hún væri óhrein. Hún snerti því rétt svo yfirhöfn hans í þeirri trú að það myndi lækna hana. (Mark. 5:27, 28) Henni varð að trú sinni – hún læknaðist. Jesús spurði síðan hver hefði snert hann og hún gaf sig fram og játaði að hafa gert það. Hvernig brást Jesús við þessu?

7. Hvernig kom Jesús fram við þessa örvingluðu konu? (Markús 5:34)

7 Jesús sýndi konunni góðvild og virðingu. Hann veitti því athygli að hún var „hrædd og skjálfandi“. (Mark. 5:33) Hann talaði því hughreystandi við hana og kallaði hana jafnvel ‚dóttur‘. Þannig sýndi hann henni ekki bara virðingu heldur líka kærleika og góðvild. (Lestu Markús 5:34.) Þetta er eina skiptið þar sem kemur fram í Biblíunni að Jesús hafi ávarpað konu ‚dóttur‘. Hann notaði þetta hlýlega orð líklega við þessar aðstæður vegna þess að hann fann að konan var mjög óttaslegin. Við getum rétt ímyndað okkur hversu góð áhrif þetta hefur haft á hana. Ef Jesús hefði ekki huggað hana og hughreyst hefði hún kannski orðið líkamlega heilbrigð en farið burt full af sektarkennd. Jesús hjálpaði henni þess í stað að sjá sig eins og hún raunverulega var – dýrmæt dóttir föðurins á himnum.

8. Hvaða erfiðleika þurfti systir frá Brasilíu að glíma við?

8 Nú á dögum þurfa sumir þjónar Guðs að glíma við heilsuvandamál sem orsaka að þeim finnst þeir einskis virði. Mariaa er brautryðjandi frá Brasilíu. Þegar hún fæddist vantaði á hana báða fætur og vinstri hönd. Hún segir: „Mér var stanslaust strítt í skóla. Ég var uppnefnd af skólafélögunum og það særði mig. Og stundum kom fjölskyldan þannig fram við mig að mér fannst ég einskis virði.“

9. Hvað hjálpaði Mariu að skilja að hún er dýrmæt í augum Jehóva?

9 Hvað hjálpaði Mariu? Þegar hún varð vottur Jehóva eignaðist hún trúsystkini sem hughreystu hana og hjálpuðu henni að sjá sjálfa sig eins og Jehóva sér hana. Hún segir: „Minnisbókin mín rúmar ekki nöfn allra þeirra sem hafa hjálpað mér! Ég þakka Jehóva af öllu hjarta fyrir þá yndislegu fjölskyldu sem söfnuðurinn er.“ Trúsystkini Mariu hjálpuðu henni að finna hversu dýrmæt hún er í augum Jehóva.

10. Hvaða vandamál þjakaði Maríu Magdalenu? (Sjá einnig myndir.)

10 Skoðum hvernig Jesús hjálpaði öðrum einstaklingi – Maríu Magdalenu. Hún var haldin sjö illum öndum. (Lúk. 8:2) Hún hagaði sér trúlega undarlega af þeim sökum og fólk hefur forðast hana. Á þessum tíma í lífi hennar hlýtur hún að hafa upplifað höfnun, óöryggi og vanmáttarkennd. Jesús rak trúlega út af henni andana sem ásóttu hana og hún gerðist trúfastur lærisveinn hans. Á hvaða fleiri vegu sýndi Jesús Maríu Magdalenu fram á að hún væri dýrmæt í augum Guðs?

Myndir: 1. Jesús tekur eftir hversu illa Maríu Magdalenu líður þar sem hún krýpur í dimmu húsasundi. 2. María Magdalena glöð með Jesú og hópi annarra lærisveina.

Hvernig fullvissaði Jesús Maríu Magdalenu um að hún væri dýrmæt í augum Jehóva? (Sjá 10. og 11. grein.)


11. Hvernig sýndi Jesús Maríu Magdalenu fram á að hún væri dýrmæt í augum Guðs? (Sjá einnig myndir.)

11 Jesús bauð Maríu Magdalenu að slást í för með sér á boðunarferðum sínum.b Fyrir vikið hélt hún áfram að læra þegar hún hlustaði á hann kenna öðrum. Jesús birtist henni sama dag og hann var reistur upp frá dauðum. Hún var með fyrstu lærisveinunum sem hann talaði við á þeim degi. Hann fól henni jafnvel að segja postulunum frá því að hann væri upprisinn. Allt þetta hefur trúlega opnað augu hennar fyrir því að Jehóva áliti hana dýrmæta. – Jóh. 20:11–18.

12. Hvað gerði það að verkum að Lidiu fannst hún einskis virði?

12 Margir eru í svipuðum sporum og María Magdalena og glíma við höfnunartilfinningu. Lidia er systir frá Spáni. Hún segir að mamma hennar hafi hugsað um að fara í fóstureyðingu á meðan hún gekk með hana. Mamma hennar vanrækti hana þegar hún var lítið barn og svívirti hana. Lidia segir: „Markmið mitt í lífinu var að fá viðurkenningu og ást annarra. Ég óttaðist að enginn myndi elska mig vegna þess að mamma hafði fullvissað mig um að ég væri vond manneskja.“

13. Hvað sýndi Lidiu að hún væri dýrmæt í augum Jehóva?

13 Þegar Lidia lærði sannleikann hjálpaði bænin, sjálfsnám og falleg orð og verk trúsystkina henni að átta sig á að hún væri dýrmæt í augum Jehóva. Hún segir: „Maðurinn minn segir oft að hann elski mig. Hann minnir mig aftur og aftur á góða eiginleika mína. Aðrir góðir vinir gera það líka.“ Dettur þér einhver í hug sem hefði þörf á að sjá hversu dýrmætur hann er í augum Jehóva?

SJÁUM OKKUR EINS OG JEHÓVA SÉR OKKUR

14. Hvað lærum við í 1. Samúelsbók 16:7 um það hvernig Jehóva horfir á fólk? (Sjá einnig rammann „Hvers vegna metur Jehóva þjóna sína mikils?“)

14 Mundu að Jehóva sér þig ekki eins og fólk í heiminum sér þig. (Lestu 1. Samúelsbók 16:7.) Margir dæma aðra eftir útliti, þjóðfélagsstöðu eða menntun. En það gerir Jehóva ekki. (Jes. 55:8, 9) Í staðinn fyrir að nota mælikvarða heimsins til að meta eigin verðleika skaltu nota mælikvarða Jehóva. Þú gætir lesið frásögur í Biblíunni sem sýna að Jehóva mat mikils fólk sem efaðist stundum um sjálft sig, eins og Elía, Naomí og Hanna. Þú gætir líka skrifað niður það sem þú hefur upplifað og staðfestir að Jehóva elskar þig og metur mikils. Auk þess geturðu fundið upplýsingar í ritum okkar um sjálfsvirðingu og sjálfsmat.c

Hvers vegna metur Jehóva þjóna sína mikils?

Jehóva skapaði mennina mjög ólíka dýrunum. Hann gerði okkur þannig úr garði að við gætum kynnst honum og orðið vinir hans. (1. Mós. 1:27; Sálm. 8:5; 25:14; Jes. 41:8) Það eitt og sér er gild ástæða til að hafa heilbrigt sjálfsmat. En við höfum enn ríkari ástæðu til finnast við mikils virði ef við leitumst við að nálgast Jehóva, helgum honum líf okkar og hlýðum honum. Þá erum við sannarlega dýrmæt í augum Guðs okkar og skapara. – Jes. 49:15.

15. Hvers vegna var Daníel „dýrmætur“ í augum Jehóva? (Daníel 9:23, neðanmáls)

15 Minntu þig á að trúfesti þín gerir þig dýrmætan í augum Jehóva. Á ákveðnum tímapunkti í lífi Daníels spámanns, mögulega þegar hann var að nálgast tírætt, var hann „örþreyttur“ og niðurdreginn. (Dan. 9:20, 21) Hvernig uppörvaði Jehóva hann? Hann sendi engilinn Gabríel til að minna Daníel á að hann væri „dýrmætur“ og að hann hefði heyrt bænir hans. (Lestu Daníel 9:23 og neðanmáls.) Hvers vegna var Daníel svona dýrmætur í augum Guðs? Það var meðal annars vegna þess að hann elskaði réttlæti og var trúfastur. (Esek. 14:14) Jehóva sá til þess að þessi frásaga yrði hluti af Biblíunni til að veita okkur huggun. (Rómv. 15:4) Hann hlustar líka á þínar bænir og metur þig mikils fyrir að gera rétt og þjóna honum trúfastlega. – Míka 6:8, neðanmáls; Hebr. 6:10.

16. Hvað getur auðveldað þér að sjá Jehóva sem ástríkan föður?

16 Líttu á Jehóva sem föður sem elskar þig. Hann vill hjálpa þér en ekki finna að þér. (Sálm. 130:3; Matt. 7:11; Lúk. 12:6, 7) Að hugleiða þetta hefur hjálpað mörgum sem hafa lágt sjálfsmat. Tökum Michelle, systur frá Spáni, sem dæmi. Henni fannst hún einskis virði eftir að hafa þolað svívirðingar eiginmanns síns í mörg ár. Hún segir: „Þegar mér finnst ég einskis virði ímynda ég mér að Jehóva beri mig í fanginu þar sem ég finn ást og öryggi.“ (Sálm. 28:9) Lauren er systir frá Suður-Afríku. Hún segir við sjálfa sig: „Fyrst Jehóva dró mig til sín með strengjum kærleikans, hefur haldið mér nálægt sér í öll þessi ár og jafnvel falið mér að kenna öðrum, þá hlýtur hann að álíta mig dýrmæta og koma að gagni.“ – Hós. 11:4.

17. Hvað getur sannfært þig um að þú hafir velþóknun Jehóva? (Sálmur 5:12) (Sjá einnig mynd.)

17 Þú getur verið viss um að þú hafir velþóknun Jehóva. (Lestu Sálm 5:12.) Davíð líkti velþóknun Jehóva við skjöld sem verndar réttlátt fólk. Ef þú ert sannfærður um að þú hafir velþóknun Jehóva og stuðning getur það varið þig gegn þeirri hugsun að þú sért einskis virði. Hvernig geturðu verið fullviss um að þú hafir velþóknun Jehóva? Eins og við höfum séð kemur það fram í orði hans. Auk þess notar hann öldungana, nána vini og aðra til að minna þig á að þú sért dýrmætur í augum hans. Hvernig ættum við að bregðast við slíkri uppörvun?

Systir brosir þegar hún er á leið úr ríkissal til að boða trúna með annarri systur sem heldur um öxl hennar.

Við hugsum síður að við séum einskis virði ef við munum að Jehóva hefur velþóknun á okkur. (Sjá 17. grein.)


18. Hvers vegna ættirðu að taka við hrósi?

18 Ekki hafna einlægu hrósi frá þeim sem þekkja þig og elska. Mundu að Jehóva getur notað þá til að sannfæra þig um velþóknun hans. Michelle, sem áður er minnst á, segir: „Smátt og smátt er ég farin að trúa því fallega sem aðrir segja við mig. Það er erfitt en ég veit að Jehóva vill að ég geri það.“ Umhyggjusamir öldungar hafa líka hjálpað Michelle mikið. Hún er nú brautryðjandi og vinnur sem sjálfboðaliði í hlutastarfi á Betel.

19. Hvers vegna geturðu verið þess fullviss að þú sért dýrmætur í augum Jehóva?

19 Jesús minnir okkur hlýlega á að faðir okkar á himnum meti okkur mikils. (Lúk. 12:24) Við getum því verið örugg um að Jehóva álíti okkur dýrmæt. Við skulum aldrei gleyma því. Og gerum okkar besta til að hjálpa öðrum að gera sér grein fyrir hversu dýrmætir þeir eru í augum Guðs.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvernig sýndi Jesús fólki fram á að það væri dýrmætt í augum Guðs?

  • Hvernig hjálpaði Jesús konunni sem var með stöðugar blæðingar?

  • Hvað getur hjálpað okkur að sjá okkur með augum Jehóva?

SÖNGUR 139 Sjáðu sjálfan þig í nýja heiminum

a Sumum nöfnum hefur verið breytt.

b María Magdalena var ein af konunum sem ferðuðust með Jesú. Þær sáu fyrir þörfum hans og postulanna með eigum sínum. – Matt. 27:55, 56; Lúk. 8:1–3.

c Sjá sem dæmi 24. kafla bókarinnar Nálgastu Jehóva. Þú getur líka lesið ritningarstaði og frásögur Biblíunnar í kaflanum „Efasemdir“ í bókinni Biblíuleiðarvísir fyrir daglegt líf.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila