Námskafli 20
Ritningarstaðir vel kynntir
BIBLÍAN er grundvöllur fræðslunnar sem veitt er á safnaðarsamkomum. Biblíutextar eru líka kjarninn í því sem við segjum í boðunarstarfinu. Gildi þeirra í umræðunni er hins vegar að nokkru leyti undir því komið hve vel þeir eru kynntir.
Það er ekki nóg að nefna aðeins ritningarstaðinn og hvetja síðan viðmælanda eða áheyrendur til að fylgjast með þegar þú lest hann. Reyndu að ná tveim eftirfarandi markmiðum þegar þú kynnir ritningarstað: (1) Að vekja eftirvæntingu og (2) vekja athygli á því hvers vegna þú notar textann. Hægt er að ná þessum markmiðum á marga vegu.
Varpaðu fram spurningu. Þetta er mjög áhrifarík aðferð ef svarið liggur ekki í augum uppi þegar í stað. Reyndu að orða spurninguna þannig að hún veki áheyrendur til umhugsunar. Þetta gerði Jesús. Farísearnir komu til hans í musterinu til að prófa fyrir opnum tjöldum hve góðan skilning hann hefði á Ritningunni. Jesús spurði þá: „Hvað virðist yður um Krist? Hvers son er hann?“ „Davíðs,“ svöruðu þeir. Þá spurði hann: „Hvernig getur þá Davíð, innblásinn andanum, kallað hann drottin?“ Síðan vitnaði hann í Sálm 110:1. Faríseana setti hljóða en mannfjöldinn hlýddi með ánægju á Jesú. — Matt. 22:41-46.
Í boðunarstarfinu gætirðu kynnt ritningarstað með spurningum sem þessum: „Bæði ég og þú heitum eitthvað. En heitir Guð eitthvað? Við fáum svar við því í 2. Mósebók 6:3.“ „Verður nokkurn tíma ein stjórn yfir öllu mannkyni? Sjáðu svarið í Daníel 2:44.“ „Segir Biblían eitthvað um það ástand sem er í heiminum núna? Taktu eftir lýsingunni í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5 og berðu hana saman við ástandið eins og það er núna.“ „Heldurðu að þjáningar og dauði heyri einhvern tíma sögunni til? Svar Biblíunnar er að finna í Opinberunarbókinni 21:4, 5.“
Í ræðu er hægt að beita spurningum til að hvetja áheyrendur til að sjá ritningartexta í nýju ljósi, jafnvel texta sem þeir þekkja vel. En tekst það? Það er að nokkru leyti undir því komið hvort spurningarnar, sem þú varpar fram, vekja áhuga þeirra eða ekki. Jafnvel þótt áheyrendur hafi áhuga á efninu getur hugurinn reikað þegar þú lest ritningartexta sem þeir eru margbúnir að heyra. Þú getur komið í veg fyrir það með því að úthugsa málið nógu vel til að gera kynninguna áhugaverða.
Bentu á vandamál. Þú gætir bent á vandamál og síðan vakið athygli á ritningarstað sem segir eitthvað um lausnina. Gættu þess þó að lofa áheyrendum ekki meiru en þeir fá. Eitt vers gefur oft ekki nema hluta af lausninni. Þú gætir beðið áheyrendur að hugleiða, á meðan þú lest versið, hvaða leiðbeiningar það gefi um viðbrögð við umræddu ástandi.
Eins gætirðu gert grein fyrir meginreglu um guðrækilega breytni og síðan notað frásögu í Biblíunni til að sýna fram á hve viturlegt það sé að fylgja henni. Ef ritningartextinn inniheldur tvö (eða kannski fleiri) tiltekin atriði sem tengjast viðfangsefninu nota sumir ræðumenn þá aðferð að biðja áheyrendur um að taka sérstaklega eftir þeim. Ef ákveðið vandamál virðist vera of flókið fyrir vissan áheyrendahóp geturðu örvað hugsunina með því að benda á nokkrar mögulegar lausnir og láta síðan ritningartextann og skýringuna á honum benda á réttu lausnina.
Vísaðu í Biblíuna sem örugga heimild. Sértu nú þegar búinn að vekja athygli á viðfangsefninu og nefna eitt eða fleiri sjónarmið gagnvart því gætirðu einfaldlega kynnt ritningarstað með því að segja: „Taktu eftir hvað orð Guðs segir um þetta mál.“ Þannig sýnirðu fram á myndugleika þess efnis sem þú ætlar að lesa.
Jehóva notaði menn eins og Jóhannes, Lúkas, Pál og Pétur til að skrifa ýmsar biblíubækur. En þeir voru aðeins ritarar; Jehóva er höfundurinn. Það er ekki sami krafturinn í því að kynna ritningartexta með orðunum: „Pétur skrifaði,“ eða: „Páll sagði,“ eins og að benda á textann sem orð Guðs, einkum ef viðmælandi eða áheyrendur eru lítt kunnugir Biblíunni. Athygli vekur að í vissum tilfellum sagði Jehóva Jeremía að kynna yfirlýsingar sínar með orðunum: „Heyrið orð Drottins.“ (Jer. 7:2; 17:20; 19:3; 22:2) Hvort sem við notum nafn Jehóva eða ekki til að kynna ritningarstaði ættum við, áður en við ljúkum máli okkar, að reyna að benda á að Biblían hafi að geyma orð Guðs.
Taktu mið af samhenginu. Skoðaðu samhengið áður en þú ákveður hvernig þú kynnir ritningarstað. Stundum gætirðu nefnt samhengið beint en stundum geturðu nýtt þér það á annan hátt. Myndirðu til dæmis kynna orð hins guðhrædda Jobs með sama hætti og orð falskra huggara hans? Postulasagan er skrifuð af Lúkasi en hann vitnar í orð annarra, til dæmis Jakobs, Péturs, Páls, Filippusar, Stefáns og engla, auk Gamalíels og fleiri Gyðinga sem voru ekki kristnir. Hverjum ætlarðu að eigna textana sem þú vitnar í? Og mundu líka að Davíð orti ekki alla sálmana og Salómon skrifaði ekki alla Orðskviðina. Jafnframt er gott að vita hvern eða hverja biblíuritarinn er að ávarpa og hvert umræðuefnið er.
Notfærðu þér ítarefni. Það er sérstaklega áhrifaríkt ef þú getur sýnt fram á að aðstæðurnar á þeim tíma, sem frásögn Biblíunnar fjallar um, séu áþekkar þeim aðstæðum sem þú ert að ræða um. Í öðrum tilvikum er ítarefni nauðsynlegt til að skilja ákveðinn texta. Segjum til dæmis að þú ætlir að nota Hebreabréfið 9:12, 24 í ræðu um lausnargjaldið. Þá gæti verið nauðsynlegt fyrir þig að koma með stutta skýringu á innsta rými tjaldbúðarinnar sem táknar, eins og versin sýna, staðinn þangað sem Jesús fór er hann steig upp til himna. En hafðu ítarefnið ekki svo mikið að það skyggi á textann sem þú ert að kynna.
Til að læra að kynna ritningarstaði betur skaltu fylgjast með hvernig reyndir ræðumenn fara að. Taktu eftir mismunandi aðferðum sem þeir beita og íhugaðu áhrif þeirra. Þegar þú semur ræður sjálfur skaltu koma auga á lykilritningarstaðina og ígrunda sérstaklega hverju á að koma til leiðar með hverjum ritningarstað. Úthugsaðu vandlega hvernig þú kynnir hvern um sig þannig að hann hafi sem mest áhrif. Með reynslunni geturðu farið að nota sams konar aðferðir við að kynna alla ritningarstaði sem þú vitnar í. Því betur sem þú kynnir ritningarstaðina, þeim mun meiri athygli beinir þú að orði Guðs.