Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w23 júní bls. 14-19
  • Hvers vegna ættum við að óttast Jehóva?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvers vegna ættum við að óttast Jehóva?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR AÐ ÓTTAST GUÐ?
  • VIÐ GETUM LÆRT AÐ ÓTTAST GUÐ
  • VERUM HUGRÖKK EINS OG ÓBADÍA
  • VERUM TRÚ EINS OG JÓJADA ÆÐSTIPRESTUR
  • VERUM EKKI EINS OG JÓAS KONUNGUR
  • Jehóva launar hugrekki
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
  • Þið unga fólk – hvernig verður líf ykkar?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Jehóva blessar og verndar þá sem eru hlýðnir
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Umgöngumst þá sem elska Jehóva
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2019
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
w23 júní bls. 14-19

NÁMSGREIN 27

Hvers vegna ættum við að óttast Jehóva?

„Þeir sem óttast Jehóva verða nánir vinir hans.“ – SÁLM. 25:14.

SÖNGUR 8 Jehóva er hæli okkar

YFIRLITa

1, 2. Hvað þurfum við að gera ef við viljum vera nánir vinir Jehóva samkvæmt Sálmi 25:14?

HVAÐA eiginleikar skipta máli þegar þú vilt varðveita gott samband við einhvern? Þú myndir líklega segja að góðir vinir ættu að elska hver annan og styðja. Þú myndir líklega ekki hugsa um ótta sem mikilvægan eiginleika í sambandi góðra vina. En eins og kemur fram í biblíuversinu sem þessi grein byggist á þurfa þeir sem vilja vera nánir vinir Jehóva að óttast hann. – Lestu Sálm 25:14.

2 Við þurfum að varðveita djúpa virðingu fyrir Jehóva, óháð því hversu lengi við höfum þjónað honum. En hvað felst í því að óttast Jehóva? Hvernig getum við lært að óttast hann? Og hvað getum við lært um guðsótta af hallarráðsmanninum Óbadía, Jójada æðstapresti og Jóasi konungi?

HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR AÐ ÓTTAST GUÐ?

3. Útskýrðu hvað getur valdið ótta og hvernig ótti getur verndað okkur.

3 Við gætum fundið fyrir ótta ef okkur finnst hætta á að verða fyrir skaða. Slíkur ótti getur verið af hinu góða vegna þess að hann knýr okkur til að breyta skynsamlega. Við göngum ekki of nálægt klettabrún af ótta við að falla fram af. Ótti við að verða fyrir skaða getur fengið okkur til að flýja hættulegar aðstæður. Ótti við að spilla vináttu við einhvern sem okkur þykir vænt um forðar okkur frá því að segja eða gera nokkuð óvingjarnlegt.

4. Hvers konar ótta við Jehóva vill Satan að við höfum?

4 Satan vill að fólk hræðist Jehóva. Hann kemur á framfæri hugmyndinni sem Elífas setti fram – að Jehóva sé hefnigjarn og reiður Guð sem ekki er hægt að þóknast. (Job. 4:18, 19) Satan vill að við hræðumst Jehóva svo að við hættum að þjóna honum. Við þurfum að rækta með okkur heilnæman ótta við Guð til að forðast þá gildru.

5. Hvað felur það í sér að óttast Guð?

5 Sá sem ber djúpa virðingu fyrir Jehóva elskar hann og vill ekki gera neitt sem myndi spilla sambandinu við hann. Jesús bjó yfir slíkum guðsótta. (Hebr. 5:7) Hann var ekki sjúklega hræddur við Jehóva. (Jes. 11:2, 3) Hann elskaði hann innilega og vildi hlýða honum. (Jóh. 14:21, 31) Rétt eins og Jesús berum við virðingu og lotningu fyrir Jehóva vegna þess að hann er kærleiksríkur, vitur, réttlátur og máttugur. Við vitum líka að Jehóva elskar okkur innilega og að viðbrögð okkar við leiðsögn hans snerta hann. Við getum glatt hann eða sært. – Sálm. 78:41; Orðskv. 27:11.

VIÐ GETUM LÆRT AÐ ÓTTAST GUÐ

6. Hvernig getum við lært að óttast Guð? (Sálmur 34:11)

6 Guðsótti er ekki meðfæddur eiginleiki, við þurfum að rækta hann. (Lestu Sálm 34:11.) Við getum gert það meðal annars með því að skoða sköpunarverkið. Því betur sem við sjáum visku Jehóva, mátt hans og djúpan kærleika til okkar í „verkum hans“ þeim mun dýpri verður virðing okkar fyrir honum og kærleikurinn til hans. (Rómv. 1:20) Systir sem heitir Adrienne sagði: „Viska Jehóva sem birtist í sköpunarverkinu vekur hjá mér undrun og hjálpar mér að skilja að hann veit hvað er mér fyrir bestu.“ Hún hugleiðir þetta reglulega og hefur komist að þessari niðurstöðu: „Hvers vegna ætti ég að gera nokkuð sem myndi skemma samband mitt við Jehóva, uppsprettu lífs míns?“ Hvers vegna ekki að taka þér tíma í vikunni til að hugsa um eitthvað í sköpunarverki Jehóva? Það mun auka virðingu þína fyrir Jehóva og styrkja kærleikann til hans. – Sálm. 111:2, 3.

7. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að rækta með okkur heilnæman guðsótta?

7 Við getum líka ræktað með okkur guðsótta með því að biðja reglulega. Því oftar sem við gerum það því raunverulegri verður Jehóva okkur. Við erum minnt á hversu máttugur hann er í hvert skipti sem við biðjum hann um styrk til að halda út í prófraunum. Þegar við þökkum honum fyrir son hans minnum við okkur á kærleika hans til okkar. Og þegar við leitum til Jehóva með vandamál minnir það okkur á hvað hann er vitur. Slíkar bænir auka virðingu okkar fyrir honum. Og þær styrkja þann ásetning okkar að forðast hvaðeina sem myndi skemma sambandið við hann.

8. Hvernig getum við varðveitt guðsótta?

8 Við getum viðhaldið guðsóttanum með því að rannsaka Biblíuna með það að markmiði að læra af bæði góðum og slæmum fordæmum. Við skulum ræða um tvo trúfasta þjóna Jehóva – Óbadía, hallarráðsmann Akabs konungs, og Jójada æðstaprest. Síðan skoðum við hvaða lærdóm við getum dregið af breytni Jóasar Júdakonungs sem byrjaði vel en yfirgaf síðar Jehóva.

VERUM HUGRÖKK EINS OG ÓBADÍA

9. Hvaða áhrif hafði guðsótti Óbadía á hann? (1. Konungabók 18:3, 12)

9 Biblían kynnir Óbadíab til sögunnar með þessum orðum: „Óbadía bar djúpa lotningu fyrir Jehóva.“ (Lestu 1. Konungabók 18:3, 12.) Hvaða áhrif hafði guðsóttinn á hann? Vegna guðsóttans var hann heiðarlegur og áreiðanlegur. Fyrir vikið fól konungur honum umsjón með konungsfjölskyldunni. (Samanber Nehemíabók 7:2.) Guðsóttinn gerði Óbadía líka einstaklega hugrakkan – en það var eiginleiki sem hann þurfti mjög á að halda. Hann var uppi meðan hinn illi konungur Akab ríkti, en „í augum Jehóva var [hann] verri en allir forverar hans“. (1. Kon. 16:30) Jesebel eiginkona hans tilbað Baal og hataði Jehóva svo mikið að hún reyndi að þurrka út sanna tilbeiðslu úr norðurríkinu Ísrael. Hún lét jafnvel drepa marga spámenn Guðs. (1. Kon. 18:4) Óbadía þjónaði Jehóva sannarlega á erfiðum tímum.

10. Hvernig sýndi Óbadía einstakt hugrekki?

10 Hvernig sýndi Óbadía einstakt hugrekki? Þegar Jesebel tók að leita uppi spámenn Jehóva til að taka þá af lífi faldi Óbadía 100 þeirra „í tveim hellum, 50 í hvorum, og sá þeim fyrir brauði og vatni“. (1. Kon. 18:13, 14) Jesebel hefði örugglega drepið hinn hugrakka Óbdía ef hún hefði komist að þessu. Hann var auðvitað mannlegur og vildi ekki deyja. En hann elskaði Jehóva og þá sem þjónuðu honum meira en eigið líf.

Bróðir kemur á heimili hjóna sem eru líka vottar. Hann gefur manninum prentaða útgáfu af riti meðan konan stendur á verði við innganginn á heimili þeirra.

Bróðir sýnir hugrekki þegar hann dreifir andlegri fæðu til trúsystkina enda þótt starfsemi okkar sé bönnuð. (Sjá 11. grein.)d

11. Hvernig líkjast þjónar Guðs nú á dögum Óbadía? (Sjá einnig mynd.)

11 Margir þjónar Guðs búa í löndum þar sem starfsemi okkar er bönnuð. Þeir sýna veraldlegum yfirvöldum viðeigandi virðingu en rétt eins og Óbadía gefa þessi dýrmætu trúsystkini Jehóva það sem honum ber – skilyrðislausa hollustu! (Matt. 22:21) Þau sýna að þau óttast Guð með því að hlýða honum frekar en mönnum. (Post. 5:29) Þau gera það með því að halda áfram að boða fagnaðarboðskapinn og með því að koma saman svo lítið beri á. (Matt. 10:16, 28) Þeim er umhugað um að trúsystkini þeirra fái þá andlegu fæðu sem þau hafa svo mikla þörf fyrir. Skoðum reynslu Henris, en hann býr í landi í Afríku þar sem starfsemi okkar var bönnuð um tíma. Meðan á banninu stóð bauðst Henri til að dreifa andlegri fæðu til trúsystkina sinna. Hann skrifaði: „Ég er feiminn að eðlisfari. Þess vegna er ég sannfærður um að það var djúp virðing mín fyrir Jehóva sem gaf mér það hugrekki sem ég þurfti.“ Sérðu sjálfan þig fyrir þér jafn hugrakkan og Henri? Þú getur verið það ef þú ræktar með þér heilnæman guðsótta.

VERUM TRÚ EINS OG JÓJADA ÆÐSTIPRESTUR

12. Hvernig sýndu Jójada æðstiprestur og eiginkona hans Jehóva einstaka trúfesti?

12 Jójada æðstiprestur óttaðist Jehóva og hann var fyrir vikið trúfastur og studdi sanna tilbeiðslu. Það kom skýrt í ljós þegar Atalía dóttir Jesebelar sölsaði undir sig hásætið í Júda. Fólk hafði góða ástæðu til að óttast Atalíu. Hún var svo miskunnarlaus og valdasjúk að hún reyndi að útrýma allri konungsættinni – sínum eigin sonarsonum! (2. Kron. 22:10, 11) Einn af þeim, Jóas, komst lífs af vegna þess að Jósabat eiginkona Jójada bjargaði honum. Þau hjónin földu barnið og önnuðust það. Með því hjálpuðu Jójada og Jósabat til við að varðveita konungsætt Davíðs. Jójada var trúfastur Jehóva og lét ekki Atalíu hræða sig. – Orðskv. 29:25.

13. Hvernig sýndi Jójada hollustu sína enn og aftur þegar Jóas var sjö ára?

13 Þegar Jóas var sjö ára sannaði Jójada enn og aftur hollustu sína við Jehóva. Hann gerði áætlun. Ef hún tækist yrði Jóas konungur, en hann var réttmætur arftaki Davíðs. Ef hún mistækist myndi Jójada að öllum líkindum týna lífi. Áætlunin gekk eftir með blessun Jehóva. Með stuðningi foringjanna og Levítanna gerði Jójada Jóas að konungi og lét taka Atalíu af lífi. (2. Kron. 23:1–5, 11, 12, 15; 24:1) Hann gerði síðan „sáttmála milli Jehóva og konungsins og þjóðarinnar um að hún skyldi áfram vera þjóð Jehóva“. (2. Kon. 11:17) Hann „skipaði einnig hliðvörðunum að taka sér stöðu við hliðin að húsi Jehóva svo að enginn sem væri óhreinn á einhvern hátt kæmist inn“. – 2. Kron. 23:19.

14. Á hvaða hátt var Jójada sýndur heiður fyrir að heiðra Jehóva?

14 Jehóva hafði áður sagt: „Ég heiðra þá sem heiðra mig.“ Hann launaði Jójada sannarlega. (1. Sam. 2:30) Saga Jójada er til dæmis í Biblíunni svo að við getum lært af henni. (Rómv. 15:4) Og þegar Jójada dó var honum sýndur sá einstaki heiður að vera grafinn í „Davíðsborg, hjá konungunum, því að hann hafði gert margt gott í Ísrael fyrir hinn sanna Guð og hús hans“. – 2. Kron. 24:15, 16.

Guðsótti okkar ætti að knýja okkur, eins og Jójada æðstaprest, til að vera trúföst og koma trúsystkinum til hjálpar. (Sjá 15. grein.)e

15. Hvað getum við lært af frásögunni af Jójada? (Sjá einnig mynd.)

15 Frásagan af Jójada getur hjálpað okkur öllum að rækta með okkur guðsótta. Umsjónarmenn safnaðarins geta líkt eftir Jójada með því að vera vakandi fyrir því að vernda hjörð Guðs af trúfesti. (Post. 20:28) Hinir eldri geta lært af Jójada að þegar þeir óttast Jehóva og eru trúfastir getur hann notað þá til að framkvæma vilja sinn. Hann ýtir þeim ekki til hliðar. Hinir ungu geta lært af því hvernig Jehóva kom fram við Jójada og líkt eftir honum með því að sýna hinum eldri virðingu, sérstaklega þeim sem hafa þjónað Jehóva trúfastir í mörg ár. (Orðskv. 16:31) Og við getum öll lært af foringjunum og Levítunum sem studdu Jójada. Styðjum þá „sem fara með forystuna“ með því að hlýða þeim. – Hebr. 13:17.

VERUM EKKI EINS OG JÓAS KONUNGUR

16. Hvað sýndi að Jóas konungur var veikgeðja?

16 Jójada hafði jákvæð áhrif á Jóas konung. (2. Kon. 12:2) Það varð til þess að hinn ungi konungur vildi gleðja Jehóva. En eftir dauða Jójada hlustaði Jóas á fráhverfa höfðingja með þeim afleiðingum að hann og þegnar hans fóru „að tilbiðja helgistólpana og skurðgoðin“. (2. Kron. 24:4, 17, 18) Þótt þetta hafi sært Jehóva mikið hélt hann áfram að senda „spámenn til þeirra til að snúa þeim aftur til sín … en þeir vildu ekki hlusta“. Þeir neituðu jafnvel að hlusta á Sakaría son Jójada sem var ekki aðeins spámaður Jehóva og prestur heldur líka frændi Jóasar. Jóas konungur gekk svo langt að drepa Sakaría þótt hann ætti fjölskyldu hans svo mikið að þakka. – 2. Kron. 22:11; 24:19–22.

17. Hvernig fór fyrir Jóasi?

17 Jóas viðhélt ekki heilbrigðum ótta við Jehóva og það fór ekki vel fyrir honum. Jehóva hafði sagt: „Þeir sem fyrirlíta mig verða einskis metnir.“ (1. Sam. 2:30) Fámennur her Sýrlendinga sigraði síðar ‚gríðarstóran her‘ Jóasar og ‚skildi hann eftir illa særðan‘. Eftir að Sýrlendingar fóru drápu þjónar Jóasar hann fyrir að hafa drepið Sakaría. Þessi vondi konungur var ekki einu sinni álitinn verður þess að vera jarðaður „í gröfum konunganna“.c – 2. Kron. 24:23–25.

18. Hvernig getum við forðast að vera eins og Jóas samkvæmt Jeremía 17:7, 8?

18 Hvað getum við lært af frásögunni um Jóas? Hann var eins og tré með grunnar rætur sem reiddi sig á stuðningsstaur. Þegar staurinn, Jójada, var ekki lengur til staðar og vindar fráhvarfs blésu valt Jóas um koll. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að guðsótti okkar byggist ekki einvörðungu á góðum áhrifum trúsystkina, þar á meðal ættingja. Til að vera andlega sterk til langs tíma litið verðum við að styrkja kærleika okkar til Jehóva og virðingu fyrir honum með reglulegu sjálfsnámi, íhugun og bæn. – Lestu Jeremía 17:7, 8; Kól. 2:6, 7.

19. Hvers krefst Jehóva af okkur?

19 Jehóva ætlast í raun ekki til mikils af okkur. Það sem hann krefst af okkur er dregið saman í Prédikaranum 12:13. Þar segir: „Berðu djúpa virðingu fyrir hinum sanna Guði og haltu boðorð hans því að það er allt og sumt sem til er ætlast af manninum.“ Þegar við óttumst Guð getum við staðist prófraunir og staðið trúföst eins og Óbadía og Jójada. Ekkert getur þá spillt vináttu okkar við Jehóva.

MANSTU?

  • Hvað merkir það að óttast Jehóva?

  • Hvað getum við lært af Óbadía hallarráðsmanni og Jójada æðstapresti?

  • Hvernig getum við forðast að vera eins og Jóas konungur?

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

a Hugtakið „ótti“ hefur breiða merkingu eins og það er notað í Biblíunni. Miðað við samhengið getur það átt við um hræðslu, virðingu eða lotningu. Ráðin í þessari námsgrein sýna hvernig við getum ræktað með okkur þess konar ótta sem hjálpar okkur að vera hugrökk og trúföst í þjónustunni við föður okkar á himnum.

b Ekki sami maður og Óbadía spámaður sem var uppi öldum síðar og skrifaði bókina sem ber nafn hans.

c Matteus 23:35 segir að Sakaría hafi verið sonur Barakía. Sumir telja að Jójada kunni að hafa heitið tveim nöfnum eins og dæmi eru um í Biblíunni (berið saman Matteus 9:9 og Markús 2:14), eða þá að Barakía hafi verið afi Sakaría eða eldri forfaðir.

d MYNDIR: Þessi sviðsetta mynd sýnir bróður dreifa andlegri fæðu þegar starfsemi okkar er bönnuð.

e MYNDIR: Yngri systir lærir af eldri systur hvernig á að boða trúna í síma. Eldri bróðir sýnir hugrekki þegar hann boðar trúna meðal almennings. Reyndur bróðir býðst til að þjálfa aðra í viðhaldi ríkissalar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila