NÁMSGREIN 8
SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs
Fylgjum alltaf leiðsögn Jehóva
„Ég, Jehóva … vísa þér veginn.“ – JES. 48:17.
Í HNOTSKURN
Í þessari námsgrein sjáum við hvernig Jehóva leiðbeinir þjónum sínum nú á dögum og hvaða blessunar við njótum þegar við fylgjum leiðsögn hans.
1. Hvers vegna ættum við að fylgja leiðbeiningum Jehóva? Lýstu með dæmi.
ÍMYNDAÐU þér að þú hafir villst í stórum skógi. Allt í kringum þig eru hættur: villt dýr, skordýr sem bera sjúkdóma, eitraðar plöntur og grýtt landsvæði. Þú værir mjög þakklátur ef þú hefðir reyndan leiðsögumann sem þekkti hætturnar og hvernig hægt væri að forðast þær. Heimurinn er eins og þessi skógur. Hætturnar sem ógna sambandi okkar við Jehóva leynast alls staðar. En við höfum fullkominn leiðsögumann – Jehóva. Hann leiðbeinir okkur þannig að við komumst fram hjá hættunum og á ákvörðunarstaðinn – eilíft líf í nýjum heimi.
2. Hvernig leiðbeinir Jehóva okkur?
2 Hvernig leiðbeinir Jehóva okkur? Fyrst og fremst í orði sínu, Biblíunni. En hann leiðbeinir okkur líka fyrir milligöngu manna. „Hinn trúi og skynsami þjónn“ gegnir því hlutverki að sjá okkur fyrir andlegri fæðu sem hjálpar okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Matt. 24:45) Jehóva leiðbeinir okkur líka fyrir atbeina annarra hæfra manna. Farandhirðar og safnaðaröldungar sjá okkur fyrir uppörvun og leiðbeiningum sem geta hjálpað okkur á erfiðum tímum. Við erum innilega þakklát fyrir áreiðanlegar leiðbeiningar á þessum erfiðu síðustu dögum. Þær hjálpa okkur að varðveita vináttuna við Jehóva þannig að við getum haldið okkur á veginum til lífsins.
3. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?
3 En stundum gæti okkur þótt erfitt að fylgja leiðsögn Jehóva, sérstaklega þegar hún kemur fyrir milligöngu manna. Hvers vegna? Leiðbeiningarnar sem þeir gefa eru okkur kannski ekki að skapi. Okkur gæti líka þótt þær óskynsamlegar og að þess vegna gætu þær ekki verið frá Jehóva. Þegar það gerist þurfum við sérstaklega að treysta Jehóva, að hann leiði þjóna sína og að það sé alltaf til góðs að fylgja leiðbeiningum hans. Til að hjálpa okkur að styrkja það traust skoðum við í þessari námsgrein (1) hvernig Jehóva leiðbeindi þjónum sínum á biblíutímanum, (2) hvernig hann leiðbeinir okkur nú á dögum og (3) hvernig við njótum góðs af því að fylgja alltaf leiðsögn hans.
Jehóva hefur leiðbeint þjónum sínum fyrir milligöngu fulltrúa sinna á jörð frá fornu fari og fram á okkar dag. (Sjá 3. grein.)
JEHÓVA LEIÐBEINDI ÍSRAELSÞJÓÐINNI
4, 5. Hvernig sýndi Jehóva að hann leiðbeindi Ísraelsþjóðinni fyrir milligöngu Móse? (Sjá mynd.)
4 Jehóva útnefndi Móse til að leiða Ísraelsþjóðina út úr Egyptalandi. Og hann gaf þjóðinni skýra sönnun fyrir því að hann leiðbeindi henni fyrir atbeina Móse. Hann sýndi það með skýstólpa á daginn og eldstólpa á nóttinni. (2. Mós. 13:21) Móse fylgdi stólpanum sem leiddi hann og Ísraelsmenn að Rauðahafinu. Þjóðin fylltist skelfingu þegar hún virtist innikróuð milli hafsins og egypska hersins sem veitti henni eftirför. Fólkið áleit það mistök hjá Móse að fara með þjóðina að Rauðahafinu. En það voru ekki mistök. Jehóva hafði leitt þjóðina þangað fyrir milligöngu Móse. (2. Mós. 14:2) Guð frelsaði hana síðan með stórkostlegum hætti. – 2. Mós. 14:26–28.
Móse treysti á skýstólpann til að leiða þjóna Guðs um óbyggðirnar. (Sjá 4. og 5. grein.)
5 Í 40 ár eftir þetta treysti Móse því að Guð notaði skýstólpann til að leiða þjóðina um óbyggðirnar.a Um tíma setti Jehóva stólpann þar sem Ísraelsmenn gátu séð hann, fyrir ofan tjald Móse. (2. Mós. 33:7, 9, 10) Jehóva talaði úr skýstólpanum við Móse sem kom síðan skilaboðunum til fólksins. (Sálm. 99:7) Ísraelsmenn gátu greinilega séð að Jehóva leiðbeindi þeim fyrir milligöngu Móse.
Móse og Jósúa arftaki hans. (Sjá 5. og 7. grein.)
6. Hvernig brugðust Ísraelsmenn við leiðsögn Jehóva? (4. Mósebók 14:2, 10, 11)
6 Því miður hunsuðu flestir Ísraelsmenn skýrar sannanir fyrir því að Móse væri fulltrúi Jehóva. (Lestu 4. Mósebók 14:2, 10, 11.) Ítrekað neituðu þeir að viðurkenna að Jehóva leiðbeindi þeim fyrir milligöngu Móse. Fyrir vikið fékk þessi kynslóð Ísraelsmanna ekki að ganga inn í fyrirheitna landið. – 4. Mós. 14:30.
7. Nefndu dæmi um þá sem fylgdu leiðsögn Jehóva. (4. Mósebók 14:24) (Sjá einnig mynd.)
7 Sumir Ísraelsmenn fylgdu þó leiðsögn Jehóva. Sem dæmi sagði hann: „Kaleb … fylgdi mér heils hugar.“ (Lestu 4. Mósebók 14:24.) Guð umbunaði Kaleb og leyfði honum jafnvel að velja svæði í fyrirheitna landinu til að búa á. (Jós. 14:12–14) Næsta kynslóð sýndi gott fordæmi í að fylgja leiðsögn Jehóva. Jósúa tók við af Móse sem útnefndur leiðtogi Ísraelsmanna og „þeir báru mikla virðingu fyrir honum meðan hann lifði“. (Jós. 4:14) Jehóva blessaði þá og gaf þeim landið sem hann hafði lofað þeim. – Jós. 21:43, 44.
8. Útskýrðu hvernig Jehóva leiðbeindi þjónum sínum á tímum konunganna. (Sjá einnig mynd.)
8 Mörgum árum síðar gaf Jehóva þjónum sínum dómara til að leiðbeina þeim. Eftir það, á tímum konunganna, útnefndi Jehóva spámenn til að gefa þjónum sínum leiðbeiningar. Trúfastir konungar fylgdu ráðum spámannanna. Davíð konungur tók auðmjúkur við leiðréttingu frá Natan spámanni. (2. Sam. 12:7, 13; 1. Kron. 17:3, 4) Jósafat konungur treysti Jahasíel spámanni, fylgdi leiðsögn hans og hvatti Júdamenn til að ‚treysta spámönnum Guðs‘. (2. Kron. 20:14, 15, 20) Þegar Hiskía konungur varð óttasleginn leitaði hann til Jesaja spámanns. (Jes. 37:1–6) Þegar konungarnir fylgdu leiðsögn Jehóva nutu þeir blessunar og þjóðin verndar. (2. Kron. 20:29, 30; 32:22) Það hefði átt að vera öllum augljóst að Jehóva leiðbeindi þjónum sínum fyrir atbeina spámannanna. En flestir konunganna og Ísraelsmanna höfnuðu samt spámönnum Jehóva. – Jer. 35:12–15.
Hiskía konungur og Jesaja spámaður. (Sjá 8. grein.)
JEHÓVA LEIÐBEINDI FRUMKRISTNA SÖFNUÐINUM
9. Fyrir milligöngu hverra leiðbeindi Jehóva þjónum sínum á fyrstu öld? (Sjá einnig mynd.)
9 Jehóva stofnaði kristna söfnuðinn á fyrstu öld. Hvernig leiðbeindi hann frumkristnum mönnum? Hann útnefndi Jesú sem höfuð safnaðarins. (Ef. 5:23) En Jesús talaði ekki beint við hvern og einn lærisvein til að leiðbeina honum. Hann valdi postulana og öldungana í Jerúsalem til að taka forystuna. (Post. 15:1, 2) Og öldungar voru útnefndir til að leiðbeina söfnuðunum. – 1. Þess. 5:12; Tít. 1:5.
Postularnir og öldungarnir í Jerúsalem. (Sjá 9. grein.)
10. (a) Hvernig brugðust flestir frumkristnir við leiðbeiningunum sem þeir fengu? (Postulasagan 15:30, 31) (b) Hvers vegna höfnuðu sumir fulltrúum Jehóva á biblíutímanum? (Sjá rammann „Sumir hafa hafnað skýrum sönnunum“.)
10 Hvernig brugðust kristnir menn á fyrstu öld við leiðbeiningunum? Flestir fylgdu fúslega leiðbeiningunum sem þeir fengu. ‚Þeir glöddust yfir hvatningunni.‘ (Lestu Postulasöguna 15:30, 31.) En hvernig hefur Jehóva leiðbeint þjónum sínum á síðari tímum?
JEHÓVA LEIÐBEINIR OKKUR NÚ Á DÖGUM
11. Nefndu dæmi um hvernig Jehóva hefur leiðbeint þeim sem taka forystuna á síðari tímum.
11 Jehóva heldur áfram að leiða þjóna sína. Hann hefur gert það fyrir milligöngu orðs síns og sonar síns, höfuðs safnaðarins. Sjáum við enn sönnun fyrir því að Guð haldi áfram að skipa menn sem fulltrúa sína? Já. Skoðum hvað átti sér stað á síðari hluta nítjándu aldar. Charles Taze Russel og félagar hans áttuðu sig á því að árið 1914 yrði mikilvægt ár í tengslum við Guðsríki. (Dan. 4:25, 26) Þeir komust að þessari niðurstöðu eftir að hafa rannsakað Biblíuna og spádóma hennar. Leiðbeindi Jehóva þeim í rannsóknarvinnunni? Það er alveg greinilegt. Atburðirnir árið 1914 staðfestu að Guðsríki hafði verið stofnsett. Fyrri heimsstyrjöldin braust út og í kjölfarið fylgdu drepsóttir, jarðskjálftar og hungursneyðir. (Lúk. 21:10, 11) Jehóva hjálpaði þjónum sínum sannarlega fyrir milligöngu þessara einlægu manna.
12, 13. Hvaða ráðstafanir voru gerðar til að auka boðunina og kennsluna meðan síðari heimsstyrjöldin geisaði?
12 Hugleiddu líka hvað gerðist meðan síðari heimsstyrjöldin stóð yfir. Eftir að hafa rannsakað Opinberunarbókina 17:8 drógu ábyrgir bræður á aðalstöðvunum þá ályktun að Harmagedón myndi ekki fylgja í kjölfar stríðsins heldur tiltölulega friðsamt tímabil sem opnaði möguleika á aukinni boðun trúarinnar. Fyrir vikið setti söfnuður Jehóva á laggirnar Biblíuskólann Gíleað til að þjálfa trúboða til að boða trúna og kenna víða um lönd, enda þótt sú ákvörðun hafi getað virst óhagkvæm á þeim tíma. Trúboðar voru jafnvel sendir meðan stríðið geisaði. Þar að auki skipulagði trúi þjónninn „námskeið í guðveldisþjónustu“b til að þjálfa alla í söfnuðunum til að verða betri í boðuninni og kennslunni. Með þessu móti voru þjónar Guðs búnir undir það verk sem var fram undan.
13 Það er augljóst að Jehóva leiðbeindi þjónum sínum á þessum erfiða tíma. Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa þjónar Jehóva í mörgum löndum notið friðar og frelsis til að boða fagnaðarboðskapinn. Starfsemi þeirra hefur blómstrað.
14. Hvers vegna getum við treyst leiðsögn sem kemur frá söfnuði Jehóva og útnefndum öldungum? (Opinberunarbókin 2:1) (Sjá einnig mynd.)
14 Nú á dögum halda bræður í hinu stjórnandi ráði áfram að leita leiðsagnar Krists. Þeir vilja að leiðbeiningarnar sem þeir gefa bræðrum endurspegli viðhorfin á himni. Og þeir fela farandhirðum og öldungum að sjá söfnuðunum fyrir leiðsögn.c Útnefndir öldungar eru í ‚hægri hönd‘ Krists. (Lestu Opinberunarbókina 2:1.) Öldungarnir eru að sjálfsögðu ófullkomnir og gera mistök. Móse og Jósúa gerðu stundum mistök og postularnir líka. (4. Mós. 20:12; Jós. 9:14, 15; Rómv. 3:23) En við sjáum greinilega að Jesús leiðbeinir hinum trúa þjóni og útnefndum öldungum og hann mun gera það áfram „alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar“. (Matt. 28:20) Við höfum sannarlega ástæðu til að treysta leiðsögninni sem hann veitir fyrir atbeina þeirra sem eru útnefndir til að taka forystuna.
Stjórnandi ráð nútímans. (Sjá 14. grein.)
VIÐ NJÓTUM GÓÐS AF ÞVÍ AÐ FYLGJA LEIÐSÖGN JEHÓVA
15, 16. Hvað lærum við af þeim sem hafa fylgt leiðsögn Jehóva?
15 Við njótum jafnvel blessunar Jehóva strax þegar við fylgjum leiðsögn hans. Andy og Robyn tóku til sín hvatninguna um að einfalda lífið. (Hebr. 13:5) Fyrir vikið gátu þau hjálpað til við byggingarverkefni á vegum safnaðarins. Robyn segir: „Við höfum stundum búið mjög þröngt og oft án þess að hafa eldhús. Og ég þurfti að selja fullt af tækjum sem ég notaði í tengslum við ljósmyndun, sem ég hef mikinn áhuga á. Ég gat ekki tára bundist. En ég var ákveðinn í að horfa fram á við, rétt eins og Sara eiginkona Abrahams gerði.“ (Hebr. 11:15) Hvernig nýttist þessi reynsla Andy og Robyn? Robyn segir: „Það veitir okkur mikla lífsfyllingu að vita að við höfum gefið Jehóva allt sem við höfum. Þegar við vinnum það starf sem Jehóva hefur falið okkur fáum við sýnishorn af því hvernig lífið í nýja heiminum verður.“ Andy er á sama máli og segir: „Við erum hamingjusöm vegna þess að við gefum allan tíma okkar og krafta í þjónustu Jehóva.“
16 Hvernig nýtist það okkur á fleiri vegu að fylgja leiðsögn Jehóva? Eftir að Marcia útskrifaðist úr framhaldskóla tók hún til sín hvatninguna um að gerast brautryðjandi. (Matt. 6:33; Rómv. 12:11) Hún segir: „Mér bauðst skólastyrkur til að fara í fjögurra ára háskólanám. En ég vildi gera meira fyrir Jehóva þannig að ég ákvað að fara í iðnnám sem gerði mér kleift að sjá fyrir mér sem brautryðjandi. Þetta er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég nýt þess að starfa sem brautryðjandi. Ég hef sveigjanlegan vinnutíma og get því unnið hlutastarf á Betel og gert ýmislegt annað fyrir Jehóva.“
17. Hvernig nýtist það okkur á fleiri vegu að fylgja leiðsögn Jehóva? (Jesaja 48:17, 18)
17 Stundum fáum við leiðbeiningar sem vara okkur við efnishyggju og öðru sem gæti orðið til þess að við brytum lög Guðs. Það er okkur líka til góðs á þessum sviðum að fylgja leiðsögn Jehóva. Við varðveitum hreina samvisku og sleppum við mörg vandamál. (1. Tím. 6:9, 10) Fyrir vikið getum við þjónað Jehóva af heilu hjarta og öðlumst gleði og innihaldsríkt líf. – Lestu Jesaja 48:17, 18.
18. Hvers vegna ætlar þú að halda áfram að fylgja leiðsögn Jehóva?
18 Jehóva heldur vafalaust áfram að veita okkur leiðsögn fyrir tilstilli manna í þrengingunni miklu og áfram í þúsundáraríkinu. (Sálm. 45:16) Munum við halda áfram að fylgja leiðbeiningunum jafnvel þegar það krefst þess að við gerum eitthvað annað en við myndum sjálf kjósa? Það verður auðveldara að gera það þá ef við fylgjum leiðsögn Jehóva núna. Við skulum því alltaf fylgja leiðsögn hans, líka þeim leiðbeiningum sem hann veitir fyrir milligöngu manna sem eru útnefndir til að gæta okkar. (Jes. 32:1, 2; Hebr. 13:17) Og þegar við gerum það getum við algerlega treyst leiðsögumanni okkar, Jehóva, sem forðar okkur frá andlegri hættu alla leið á ákvörðunarstaðinn – eilíft líf í nýjum heimi.
HVERJU SVARAR ÞÚ?
Hvernig leiðbeindi Jehóva Ísraelsþjóðinni?
Hvernig leiðbeindi Jehóva kristnum mönnum á fyrstu öld?
Hvernig njótum við góðs af því að fylgja leiðbeiningum Jehóva?
SÖNGUR 48 Göngum með Jehóva dag hvern
a Jehóva útnefndi líka engil „sem fór á undan Ísraelsmönnum“ til að leiða þjóðina inn í fyrirheitna landið. Engillinn var greinilega Mikael, sem er nafn Jesú þegar hann þjónar sem leiðtogi allra englanna. – 2. Mós. 14:19; 32:34.
b Síðar þekkt sem Boðunarskólinn. Nú á dögum er hann hluti af samkomunni í miðri viku.
c Sjá rammann „Hlutverk hins stjórnandi ráðs“ í Varðturninum febrúar 2021, bls. 18.