-
Hvernig lítur Guð á stríð?Varðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 1
-
-
FORSÍÐUEFNI
Hvernig lítur Guð á stríð?
Hvernig myndir þú svara þessari spurningu? Margir telja að Guð leggi blessun sína yfir stríð. Þeir hugsa að fyrst Guð hafi fyrirskipað tilbiðjendum sínum fyrr á tímum að taka þátt í stríðum, eins og frásögur Biblíunnar staðfesta, hljóti hann að hafa velþóknun á þeim. Aðrir benda á að Jesús, sonur Guðs, hafi kennt fylgjendum sínum að elska óvini sína. (Matteus 5:43, 44) Þeir álykta því sem svo að á einhverjum tímapunkti hafi viðhorf Guðs til styrjalda breyst og að nú hafi hann vanþóknun á þeim.
Hvað heldur þú? Styður Guð hernað? Ef svo er, með hverjum tekur hann þá afstöðu í styrjöldum nú á dögum? Svarið við þessum spurningum gæti breytt afstöðu þinni til stríðs. Ef þú vissir til dæmis að Guð legði blessun sína yfir tiltekið stríð og styddi sömu aðila og þú, værirðu líklega sáttur við afstöðu þína og öruggur um sigur. Hvernig liði þér hins vegar ef þú kæmist að því að Guð styður hinn aðilann? Líklega myndirðu endurskoða afstöðu þína til málsins.
En annað og meira er í húfi. Það getur haft áhrif á viðhorf þitt til Guðs að vita hvernig hann lítur á stríð. Ef þú tilheyrir þeim gríðarlega fjölda sem hefur upplifað þjáningar og sársauka vegna styrjalda manna þarftu án efa að fá eftirfarandi spurningum svarað: Hvetur Guð til stríðsátaka eins og sumir telja? Leyfir hann eða stuðlar jafnvel að þeim þjáningum sem fylgja styrjöldum? Eða er hann aðgerðarlaus og stendur á sama um þá sem þjást?
Það kemur þér kannski á óvart að svör Biblíunnar eru býsna ólík þessum skoðunum. Þar að auki lítur Guð sömu augum á stríð núna og hann gerði áður. Skoðum nánar hvað Biblían segir um það hvernig Guð leit á stríð til forna og á fyrstu öldinni þegar Jesús var hér á jörð. Það hjálpar okkur að skilja hvernig Guð lítur á stríð nú til dags og hvort þau eigi eftir að fylgja mannkyninu um alla framtíð.
-
-
Viðhorf Guðs til stríðs til fornaVarðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 1
-
-
FORSIÐUEFNI | HVERNIG LÍTUR GUÐ Á STRÍÐ?
Viðhorf Guðs til stríðs til forna
Fólkið var kúgað og þjakað. Það bað stöðugt til Guðs um frelsun en ekkert gerðist – að minnsta kosti ekki strax. Þetta var Ísraelsþjóðin, fólk Guðs til forna. Þjóðin var í ánauð hins öfluga stórveldis Egypta. (2. Mósebók 1:13, 14) Í áraraðir biðu Ísraelsmenn þess að Guð frelsaði þá undan harðstjórn Egypta. Að lokum rann upp tími Guðs til að grípa í taumana. (2. Mósebók 3:7-10) Í Biblíunni segir að Guð hafi sjálfur háð stríð gegn Egyptum. Hann herjaði á Egyptaland með mörgum skelfilegum plágum og tortímdi síðan konungi Egypta og her hans í Rauðahafinu. (Sálmur 136:15) Jehóva Guð reyndist þjóð sinni máttug „stríðshetja“. – 2. Mósebók 15:3, 4.
Að Guð skyldi sjálfur heyja stríð gegn Egyptum sýnir að hann hefur ekki vanþóknun á öllum stríðum. Stundum sendi hann þjóð sína, Ísrael, í stríð. Hann fyrirskipaði þeim til dæmis að heyja stríð gegn Kanverjum sem voru ákaflega grimmir. (5. Mósebók 9:5; 20:17, 18) Hann leiddi líka Davíð, konung Ísraels, í stríð gegn hinum harðúðugu Filisteum. Guð lét Davíð meira að segja í té hernaðaráætlun sem tryggði honum sigur í stríðinu. – 2. Samúelsbók 5:17-25.
Þessar frásögur Biblíunnar leiða í ljós að þegar þjóðir, sem voru sérlega illar, ógnuðu Ísraelsmönnum gaf Guð þeim fyrirmæli um að fara í stríð til þess að vernda þjóðina og varðveita sanna tilbeiðslu. En taktu eftir að það var þrennt sem einkenndi þau stríð sem Guð leyfði.
GUÐ EINN ÁKVAÐ HVERJIR ÁTTU AÐ TAKA ÞÁTT Í STRÍÐI. Eitt sinn sagði Guð við Ísraelsmenn: „Þið eigið ekki að berjast.“ Hvers vegna áttu þeir ekki að gera það? Guð ætlaði sjálfur að heyja stríðið fyrir þá. (2. Kroníkubók 20:17; 32:7, 8) Hann gerði það margoft, líkt og í dæminu sem minnst er á í byrjun greinarinnar. En stundum fyrirskipaði hann Ísraelsþjóðinni til forna að berjast í stríði. Hann lagði blessun sína yfir stríð sem voru háð til að taka fyrirheitna landið til eignar og verja það. – 5. Mósebók 7:1, 2; Jósúabók 10:40.
GUÐ EINN ÁKVAÐ HVENÆR HALDA ÆTTI ÚT Í STRÍÐ. Þjónar Guðs áttu að bíða þolinmóðir þar til tilsettur tími Guðs kæmi til að ráðast gegn illsku og kúgun þjóðanna umhverfis þá. Þangað til máttu þeir ekki ákveða sjálfir að leggja út í hernað. Þegar þeir óhlýðnuðust þeim fyrirmælum misstu þeir velþóknun Guðs. Í Biblíunni kemur reyndar fram að þegar Ísraelsmenn fóru í hernað, sem Guð hafði ekki leyft, voru afleiðingarnar oftast hörmulegar.a
Þó að Guð hafi háð stríð gegn Kanverjum þyrmdi hann sumum, eins og Rahab og fjölskyldu hennar.
GUÐ GLEÐST EKKI YFIR DAUÐA MANNA, JAFNVEL EKKI RANGLÁTRA MANNA. Jehóva Guð er uppspretta lífsins og skapari mannkyns. (Sálmur 36:10) Hann vill því ekki að nokkur maður deyi. En því miður brugga margir illráð gegn öðrum, kúga þá og jafnvel myrða. (Sálmur 37:12, 14) Til að stöðva slík illskuverk heimilaði Guð stundum þjóð sinni að heyja stríð gegn illvirkjunum. En jafnvel þó að hann hafi í gegnum tíðina látið Ísraelsmenn heyja slík stríð var hann „miskunnsamur og ... þolinmóður“ gagnvart þeim sem kúguðu þjóð hans. (Sálmur 86:15) Áður en Ísraelsmenn réðust inn í borg áttu þeir til dæmis að „bjóða henni friðarskilmála“ svo að íbúarnir hefðu tækifæri til að breyta hegðun sinni og komast hjá stríði. (5. Mósebók 20:10-13) Þannig sýndi Guð að honum „þóknast ekki dauði guðlausra, heldur að hinn guðlausi hverfi frá breytni sinni og lifi“. – Esekíel 33:11, 14-16.b
Eins og fram hefur komið leit Guð á stríð sem gilda leið til að binda enda á illsku og kúgun til forna. En það var Guð – ekki mennirnir – sem hafði réttinn til að ákveða hvenær ætti að halda út í slík stríð og hverjir tækju þátt í þeim. Guð var þó langt frá því að vera herskár og blóðþyrstur. Reyndar hatar hann ofbeldi. (Sálmur 11:5) En breyttist viðhorf Guðs til stríðs þegar Jesús Kristur, sonur hans, hóf þjónustu sína hér á jörð á fyrstu öld?
a Til dæmis biðu Ísraelsmenn eitt sinn ósigur þegar þeir lögðu út í stríð við Amalekíta og Kanverja þegar Guð hafði sagt þeim að gera það ekki. (4. Mósebók 14:41-45) Mörgum árum síðar hélt Jósía konungur í stríð án leyfis frá Guði og sú fljótfærni kostaði hann lífið. – 2. Kroníkubók 35:20-24.
b Ísraelsmenn buðu Kanverjum ekki friðarsáttmála áður en þeir réðust gegn þeim. Hvers vegna ekki? Kanverjar höfðu fengið 400 ár til að snúa frá vondum vegum sínum. Þegar Ísraelsmenn hófu stríð gegn þeim var kanverska þjóðin óforbetranleg í illsku sinni. (1. Mósebók 15:13-16) Það átti því að afmá hana með öllu. En nokkrir Kanverjar, sem bættu ráð sitt, fengu þó að halda lífi. – Jósúabók 6:25; 9:3-27.
-
-
Viðhorf Guðs til stríðs á fyrstu öldVarðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 1
-
-
FORSIÐUEFNI | HVERNIG LÍTUR GUÐ Á STRÍÐ?
Viðhorf Guðs til stríðs á fyrstu öld
Fólkið var kúgað og þjakað. Án efa báðu Gyðingar á fyrstu öld oft til Guðs um frelsun ekki síður en forfeður þeirra. Í þetta skipti voru þeir undir ánauð Rómaveldis. Þá heyrðu þeir fregnir af Jesú. Skyldi hann vera hinn fyrirheitni Messías? Eðlilega bundu margir vonir sínar við að „hann væri sá er leysa mundi Ísrael“ undan oki Rómverja. (Lúkas 24:21) En engin hjálp barst. Þess í stað réðust rómverskar hersveitir inn í Jerúsalem árið 70 e.Kr. og lögðu borgina og musterið í rúst.
Hvers vegna gerðist það? Af hverju barðist Guð ekki fyrir Gyðingana eins og hann hafði gert fyrr á tímum? Hvers vegna heimilaði hann þeim ekki að fara í stríð til að losna undan oki Rómverja? Hafði viðhorf Guðs til stríðs breyst? Nei. En viðhorf Guðs til Gyðinganna hafði breyst. Þeir höfðu hafnað því að Jesús, sonur Guðs, væri Messías. (Postulasagan 2:36) Ísraelsþjóðin glataði þar með sérstöku sambandi sínu við Guð. – Matteus 23:37, 38.
Guð verndaði ekki lengur Gyðingaþjóðina og fyrirheitna landið. Hún gat ekki framar með réttu talið sig hafa stuðning eða samþykki Guðs fyrir því að heyja stríð. Eins og Jesús hafði sagt fyrir var blessun Guðs og velþóknun hans færð frá Ísraelsþjóðinni yfir á nýja andlega þjóð sem síðar í Biblíunni er kölluð „Ísrael Guðs“. (Galatabréfið 6:16; Matteus 21:43) Söfnuður andasmurðra kristinna manna reyndist vera hin andlega þjóð Guðs. Þeim var sagt berum orðum á fyrstu öldinni: „Þið ... eruð nú orðin ,Guðs lýður‘.“ – 1. Pétursbréf 2:9, 10.
Barðist Guð fyrir kristna menn á fyrstu öld til að frelsa þá undan kúgun Rómverja fyrst þeir voru núna „Guðs lýður“? Eða heimilaði hann þeim að berjast gegn kúgurum sínum? Nei. Hvers vegna gerði hann það ekki? Þegar Guð segir að stríð skuli háð ákveður hann hvenær það skuli háð, eins og fram kom í greininni á undan. Guð barðist ekki fyrir kristna menn á fyrstu öld og heimilaði þeim ekki heldur að fara í stríð. Tími Guðs til að ráðast gegn illsku og kúgun var greinilega ekki runninn upp á fyrstu öld.
Líkt og þjónar Guðs til forna urðu kristnir menn á fyrstu öld að bíða þar til tími Guðs kæmi til að binda enda á illsku og kúgun. Þangað til höfðu þeir ekki leyfi til að ákveða upp á sitt eindæmi að fara í stríð gegn óvinum sínum. Jesús Kristur undirstrikaði þetta í kennslu sinni. Til dæmis hvatti hann fylgjendur sína aldrei til að taka þátt í hernaði heldur sagði við þá: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“ (Matteus 5:44) Hann sagði fyrir að rómverskar hersveitir myndu ráðast inn í Jerúsalem og að lærisveinar hans ættu að flýja en ekki að vera um kyrrt og berjast. Þeir hlýddu þessum fyrirmælum. – Lúkas 21:20, 21.
Þar að auki skrifaði Páll postuli undir innblæstri: „Leitið ekki hefnda sjálf ... eins og ritað er: ,Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Drottinn.“ (Rómverjabréfið 12:19) Páll vitnaði þarna í orð Guðs sem rituð voru mörgum öldum áður í 3. Mósebók 19:18 og 5. Mósebók 32:35. Eins og fram kemur í greininni á undan hefndi Guð þjóna sinna til forna meðal annars með því að hjálpa þeim í stríðum gegn óvinum þeirra. Orð Páls sýna fram á að viðhorf Guðs til stríðs hafði ekki breyst. Á fyrstu öldinni leit Guð enn á stríð sem gilda leið til að hefna þjóna sinna og binda enda á alls kyns illsku og kúgun. En líkt og til forna ákvað Guð sjálfur hvenær stríð skyldu háð og hverjir tækju þátt í þeim.
Guð gaf kristnum mönnum á fyrstu öldinni augljóslega ekkert leyfi til að heyja stríð. En hvað um okkar tíma? Hefur Guð heimilað einhverjum hópi fólks nú á dögum að fara í stríð? Eða er tími Guðs runninn upp til að grípa inn í og heyja stríð fyrir þjóna sína? Hvernig lítur Guð á stríð nú á dögum? Síðasta greinin í þessari greinaröð svarar því.
-
-
Viðhorf Guðs til stríðs nú á dögumVarðturninn (almenn útgáfa) – 2016 | Nr. 1
-
-
FORSIÐUEFNI | HVERNIG LÍTUR GUÐ Á STRÍÐ?
Viðhorf Guðs til stríðs nú á dögum
Fólk er kúgað og þjakað nú á dögum. Margir þrábiðja Guð um lausn undan þjáningum og spyrja sig hvort þær taki nokkurn tíma enda. Hlustar Guð á bænir þeirra um hjálp? Og hvað um þá sem fara í stríð til að losna undan kúgun? Styður Guð hernað þeirra og lítur á hann sem réttlætanlegan?
Harmagedónstríðið mun binda enda á allar styrjaldir.
Eitt megum við vera viss um: Guð tekur eftir þjáningum fólks og ætlar að gera eitthvað í málinu. (Sálmur 72:13, 14) Í orði sínu lofar Guð ,að veita þeim sem þrengingu líða, hvíld‘. Hvenær verður það? „Þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með máttugum englum sínum. Hann ... hegnir þeim sem þekkja ekki Guð og þeim sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ (2. Þessaloníkubréf 1:7, 8) Í framtíðinni opinberast Jesús í ,stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ sem í Biblíunni er einnig kallað Harmagedón. – Opinberunarbókin 16:14, 16.
Í því stríði lætur Guð ekki menn heldur son sinn, Jesú Krist, ásamt öðrum máttugum andaverum heyja stríð gegn hinum illu. Þessar himnesku hersveitir munu binda enda á alla kúgun. – Jesaja 11:4; Opinberunarbókin 19:11-16.
Viðhorf Guðs til stríðs hefur ekkert breyst. Hann lítur enn á stríð sem gilda leið til að binda enda á illsku og kúgun. En eins og hingað til hefur Guð einn rétt til að ákveða hvenær slík stríð skuli háð og hverjir taki þátt í þeim. Eins og fram hefur komið hefur Guð ákveðið að stríðið gegn illskunni og til að hefna hinna kúguðu verði háð í framtíðinni af Jesú Kristi, syni hans. Það merkir að stríð, sem háð eru nú á dögum, hafa ekki velþóknun Guðs, sama hversu göfug ástæða virðist vera fyrir þeim.
Lýsum þessu með dæmi: Tveir bræður byrja að rífast og slást meðan faðir þeirra er að heiman. Þeir gera hlé á slagsmálunum til að hringja í pabba sinn. Annar bróðirinn sakar hinn um að hafa byrjað slagsmálin en hinn segist hafa verið beittur órétti. Báðir biðla til pabba síns og vonast eftir að hann taki afstöðu með sér. Eftir að hafa hlustað á þá báða segir faðirinn þeim hins vegar að hætta að slást og bíða eftir að hann komi heim og geri út um málið. Í stutta stund bíða bræðurnir. Fljótlega eru þeir þó farnir að slást aftur. Þegar faðirinn kemur heim er hann óánægður með báða synina og refsar þeim fyrir að hafa ekki hlýtt sér.
Stríðandi þjóðir biðla oft til Guðs um stuðning. En Guð tekur ekki afstöðu í styrjöldum sem háðar eru nú á dögum. Þess í stað segir skýrt í orði hans, Biblíunni: „Gjaldið engum illt fyrir illt“ og „leitið ekki hefnda sjálf“. (Rómverjabréfið 12:17, 19) Auk þess hefur hann kunngert mönnunum að þeir eigi að bíða þolinmóðir eftir að hann taki í taumana, en það mun hann gera í Harmagedónstríðinu. (Sálmur 37:7) Þegar þjóðir heims bíða ekki eftir að Guð skerist í leikinn og grípa þess í stað sjálfar til vopna lítur Guð á stríð þeirra sem yfirgengilega ósvífni og hefur vanþóknun á þeim. Í Harmagedónstríðinu mun Guð láta reiði sína í ljós og útkljá deilur þjóða í eitt skipti fyrir öll. Þá „stöðvar [hann] stríð til endimarka jarðar“. (Sálmur 46:10; Jesaja 34:2) Harmagedónstríðið mun binda enda á allar styrjaldir.
Endir allra styrjalda er aðeins ein þeirra mörgu blessana sem ríki Guðs mun færa mönnunum. Jesús talaði um þessa stjórn í bæn sem er flestum kunn: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Guðsríki stöðvar ekki aðeins styrjaldir heldur afmáir það einnig illskuna sem er orsök styrjalda.a (Sálmur 37:9, 10, 14, 15) Það er því ekki að undra að fylgjendur Jesú skuli hlakka ákaflega til þeirra blessana sem ríki Guðs færir þeim. – 2. Pétursbréf 3:13.
En hversu langt er þess að bíða að ríki Guðs bindi enda á þjáningar, kúgun og illsku? Uppfylling á spádómum Biblíunnar benda til þess að við lifum „á síðustu dögum“ þessa heimskerfis. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5)b Brátt mun ríki Guðs binda enda á þessa ,síðustu daga‘ í Harmagedónstríðinu.
Eins og fram kom fyrr í þessari grein munu þeir sem ákveða að „hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú“ farast í þessu lokastríði. (2. Þessaloníkubréf 1:8) Mundu samt að Guði þóknast ekki dauði nokkurs manns, jafnvel ekki þess rangláta. (Esekíel 33:11) „Hann vill ekki að neinn glatist“ í þessu lokastríði og þess vegna sér hann til þess að fagnaðarerindið um Jesú Krist sé „prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það“. (2. Pétursbréf 3:8, 9; Matteus 24:14; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Já, vegna boðunarstarfs Votta Jehóva út um allan heim fær fólk tækifæri til að kynnast Guði, hlýða fagnaðarerindinu um Jesú og sjá þann dag þegar stríð heyra sögunni til.
a Ríki Guðs mun einnig afmá dauðann, óvin mannkyns. Guð mun reisa ótalmarga upp frá dauðum, þar á meðal marga sem í gegnum tíðina hafa fallið í stríðum. Nánari upplýsingar er að finna í 7. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.
b Hægt er að fá frekari upplýsingar um síðustu daga í 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían?
-