Fjórða Mósebók
27 Dætur Selofhaðs+ gengu nú fram. Selofhað var sonur Hefers, sonar Gíleaðs, sonar Makírs, sonar Manasse, af ættum Manasse sonar Jósefs. Dætur hans hétu Mahla, Nóa, Hogla, Milka og Tirsa. 2 Þær gengu fyrir Móse, Eleasar prest, höfðingjana+ og allan söfnuðinn við inngang samfundatjaldsins og sögðu: 3 „Faðir okkar dó í óbyggðunum en var þó ekki með hópnum sem tók höndum saman gegn Jehóva, þeim sem studdu Kóra,+ heldur dó hann vegna eigin syndar. En hann átti enga syni. 4 Á nafn föður okkar að hverfa úr ættinni bara af því að hann átti engan son? Gefið okkur landareign meðal föðurbræðra okkar.“ 5 Móse lagði þá mál þeirra fyrir Jehóva.+
6 Jehóva sagði við Móse: 7 „Dætur Selofhaðs hafa rétt fyrir sér. Gefðu þeim landareign, erfðahlut meðal föðurbræðra sinna og láttu erfðahlut föður þeirra ganga til þeirra.+ 8 Segðu Ísraelsmönnum: ‚Ef maður deyr án þess að eiga son skal erfðaland hans ganga til dóttur hans. 9 Ef hann á enga dóttur skuluð þið gefa bræðrum hans erfðaland hans. 10 Ef hann á enga bræður skuluð þið gefa föðurbræðrum hans erfðaland hans. 11 Og ef faðir hans á enga bræður skuluð þið gefa erfðalandið nánasta ættingja hans og hann skal taka það til eignar. Þetta skal vera lagaákvæði hjá Ísraelsmönnum eins og Jehóva hefur gefið Móse fyrirmæli um.‘“
12 Síðan sagði Jehóva við Móse: „Farðu upp á Abarímfjall+ og horfðu yfir landið sem ég ætla að gefa Ísraelsmönnum.+ 13 Þegar þú hefur séð það muntu safnast til fólks þíns*+ eins og Aron bróðir þinn+ 14 því að þið gerðuð uppreisn gegn skipun minni þegar fólkið kvartaði við mig í óbyggðum Sin. Þið helguðuð mig ekki frammi fyrir fólkinu þegar ég gaf því vatn.“+ (Þetta eru Meríbavötn+ við Kades+ í óbyggðum Sin.)+
15 Þá sagði Móse við Jehóva: 16 „Jehóva, þú sem gefur öllum mönnum lífsanda,* viltu skipa mann yfir fólkið, 17 mann sem fer fyrir því út og inn aftur og leiðir það út og leiðir það inn þannig að fólk Jehóva verði ekki eins og sauðir án hirðis.“ 18 Jehóva svaraði Móse: „Sæktu Jósúa Núnsson og leggðu hendur yfir hann,+ en hann er dugmikill maður.* 19 Leiddu hann síðan fyrir Eleasar prest og allt fólkið og skipaðu hann leiðtoga að þeim ásjáandi.+ 20 Veittu honum nokkuð af valdi þínu*+ svo að allir Ísraelsmenn hlusti á hann.+ 21 Hann skal snúa sér til Eleasars prests sem á að leita leiðsagnar Jehóva með úrím+ fyrir hans hönd. Að skipun hans skulu þeir ganga út og að skipun hans skulu þeir ganga inn, hann og allir Ísraelsmenn með honum, allt fólkið.“
22 Móse gerði eins og Jehóva hafði gefið honum fyrirmæli um. Hann sótti Jósúa og leiddi hann fyrir Eleasar prest og allt fólkið, 23 lagði hendur yfir hann og skipaði hann leiðtoga+ eins og Jehóva hafði sagt fyrir milligöngu Móse.+