Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 maí bls. 8-13
  • Leitum huggunar hjá Jehóva

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Leitum huggunar hjá Jehóva
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • JEHÓVA FYRIRGEFUR OKKUR
  • JEHÓVA GEFUR OKKUR VON
  • JEHÓVA SEFAR ÓTTA OKKAR
  • Jehóva „læknar hina sorgmæddu“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Við erum aldrei ein
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Ákvarðanir sem sýna að við reiðum okkur á Jehóva
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 maí bls. 8-13

NÁMSGREIN 20

SÖNGUR 7 Jehóva er styrkur okkar

Leitum huggunar hjá Jehóva

„Lofaður sé … faðir innilegrar samúðar og Guð allrar huggunar.“ – 2. KOR. 1:3.

Í HNOTSKURN

Við getum lært ýmislegt af því hvernig Jehóva huggaði Gyðinga í útlegðinni í Babýlon.

1. Hvernig var líf Gyðinga í útlegðinni í Babýlon?

ÍMYNDAÐU þér hvernig Gyðingum í útlegð í Babýlon hefur liðið. Þeir sáu heimaland sitt lagt í rúst. Þeir voru teknir frá heimilum sínum og fluttir til ókunnugs lands vegna synda sinna og forfeðranna. (2. Kron. 36:15, 16, 20, 21) Í útlegðinni gátu þeir lifað tiltölulega eðlilegu lífi. (Jer. 29:4–7) En líf þeirra var ekki auðvelt og alls ekki það líf sem þeir hefðu kosið sér. Hvernig leið þeim? Einn af trúföstu útlögunum sagði: „Við fljót Babýlonar sátum við og grétum þegar við minntumst Síonar.“ (Sálm. 137:1) Gyðingarnir þörfnuðust huggunar, en hvar var hana að finna?

2, 3. (a) Hvað gerði Jehóva fyrir Gyðingana í útlegðinni? (b) Um hvað er fjallað í þessari námsgrein?

2 Jehóva er „Guð allrar huggunar“. (2. Kor. 1:3) Hann er kærleiksríkur Guð og hefur yndi af því að hugga alla sem nálgast hann. Jehóva vissi að sumir í útlegðinni myndu taka við aga hans og snúa aftur til hans. (Jes. 59:20) Meira en 100 árum fyrir útlegðina innblés hann Jesaja spámanni að skrifa bók sem ber nafn hans. Hvers vegna gerði hann það? Jesaja segir: „‚Huggið fólk mitt, huggið það,‘ segir Guð ykkar.“ (Jes. 40:1) Jehóva sá Gyðingunum í útlegðinni fyrir þeirri huggun sem þeir þurftu með skrifum spámannsins.

3 Við þurfum líka stundum á huggun að halda eins og útlagarnir. Í þessari námsgrein fjöllum við um þrennt sem Jehóva gerði til að hugga útlagana: (1) Hann lofaði að fyrirgefa þeim sem iðruðust, (2) hann gaf þjónum sínum von og (3) hann sefaði ótta þeirra. Skoðum aðeins nánar hvernig við getum notið góðs af huggun Jehóva.

JEHÓVA FYRIRGEFUR OKKUR

4. Hvernig sýndi Jehóva að hann er miskunnsamur Guð? (Jesaja 55:7)

4 Jehóva er „faðir innilegrar samúðar“. (2. Kor. 1:3) Hann sýndi fram á þetta þegar hann lofaði að fyrirgefa iðrunarfullum Gyðingum í útlegðinni. (Lestu Jesaja 55:7.) Hann sagði: „Í tryggum kærleika miskunna ég þér að eilífu.“ (Jes. 54:8) Hvernig sýndi Jehóva miskunn? Gyðingar sem þjóð þurftu að þjást vegna afleiðinga verka sinna en Jehóva lofaði að þeir þyrftu ekki að vera í Babýlon til frambúðar heldur aðeins um takmarkaðan tíma. (Jes. 40:2) Það hlýtur að hafa verið mikil huggun fyrir iðrunarfulla Gyðinga að heyra þetta.

5. Hvers vegna höfum við enn ríkari ástæðu en útlagarnir til að trúa á miskunn Jehóva?

5 Hvað lærum við? Jehóva er tilbúinn til að fyrirgefa þjónum sínum ríkulega. Nú á dögum höfum við jafnvel enn meiri ástæðu til að trúa því. Við vitum hvað Jehóva hefur gert til að fyrirgefa syndir okkar. Hundruðum ára eftir að Jesaja bar fram spádóma sína sendi Jehóva elskaðan son sinn til jarðar til að sjá öllum iðrunarfullum syndurum fyrir lausnargjaldi. Á grundvelli þessarar fórnar er hægt að ‚afmá syndir‘ – þurrka þær algerlega út. (Post. 3:19; Jes. 1:18; Ef. 1:7) Við þjónum sannarlega miskunnsömum Guði!

6. Hvers vegna er gott fyrir okkur að beina athyglinni að miskunn Jehóva? (Sjá einnig mynd.)

6 Innblásin orð Jehóva í Jesaja 55:7 geta veitt okkur huggun ef við erum yfirkomin af sektarkennd. Sum okkar halda ef til vill áfram að finna til sektarkenndar vegna þess sem við gerðum áður, jafnvel eftir að við höfum iðrast. Það á sérstaklega við ef við glímum enn við erfiðleika vegna mistaka okkar. En við getum verið viss um að Jehóva hefur fyrirgefið okkur ef við höfum játað syndir okkar og leiðrétt stefnuna. Þegar Jehóva fyrirgefur kýs hann að minnast ekki framar synda okkar. (Samanber Jeremía 31:34.) Hann rifjar ekki upp fyrri syndir okkar og við ættum ekki heldur að gera það. Það sem skiptir máli í augum Jehóva er hvað við gerum núna, ekki þau mistök sem við gerðum áður. (Esek. 33:14–16) Og fljótlega mun miskunnsamur faðir okkar veita okkur varanlegt frelsi frá afleiðingum mistaka okkar.

Bróðir gengur öruggur í bragði. Innfelldar myndir: Þær sýna hvað hann var vanur að gera áður og það sem hann gerir núna. Fyrri ósiðir: 1. Hann spilaði ofbeldisfulla tölvuleiki. 2. Hann drakk í óhófi og reykti. 3. Hann horfði á óviðeigandi efni í tölvunni. Það sem hann gerir núna: 1. Hann þrífur ríkissalinn. 2. Hann talar við eldri systur. 3. Hann fer í boðunina.

Það sem skiptir máli í augum Jehóva er hvað við gerum núna, ekki þau mistök sem við gerðum áður. (Sjá 6. grein.)


7. Hvað getur hvatt okkur til að leita hjálpar ef við höfum syndgað alvarlega?

7 Hvað ættum við að gera ef við erum þjökuð af sektarkennd af því að við höfum ekki játað alvarlega synd? Biblían hvetur okkur til að leita hjálpar öldunganna. (Jak. 5:14, 15) Okkur gæti þótt erfitt að viðurkenna það sem við höfum gert rangt. En ef við iðrumst og munum að Jehóva og þeir sem hann hefur útnefnt til að hjálpa okkur eru miskunnsamir getur það auðveldað okkur að leita til þeirra. Bróðir að nafni Arthura var með mjög slæma samvisku. Skoðum hvernig miskunn Jehóva veitti honum huggun. „Í um ár féll ég í þá gryfju að horfa á klám,“ segir Arthur. „En eftir að hafa hlustað á ræðu sem fjallaði um samviskuna játaði ég synd mína fyrir konunni minni og öldungunum. Ég fann fyrir mjög miklum létti en var enn mjög dapur vegna þess sem ég hafði gert. Öldungarnir minntu mig á að Jehóva hafði ekki hafnað mér og að hann agar okkur vegna þess að hann elskar okkur. Orð þeirra uppörvuðu mig og hjálpuðu mér að sjá mig eins og Jehóva sér mig.“ Núna er Arthur brautryðjandi og safnaðarþjónn. Það er mjög uppörvandi til þess að vita að Jehóva sýnir okkur miskunn þegar við iðrumst.

JEHÓVA GEFUR OKKUR VON

8. (a) Hvaða von veitti Jehóva Gyðingum í útlegðinni? (b) Hvaða áhrif hafði vonin sem Jehóva gaf iðrunarfullum Gyðingum samkvæmt Jesaja 40:29–31?

8 Staða Gyðinganna í útlegðinni var vonlaus frá sjónarhóli manna. Babýlonska heimsveldið var þekkt fyrir að neita að sleppa föngum sínum. (Jes. 14:17) En Jehóva gaf fólki sínu von. Hann lofaði að frelsa fólk sitt og ekkert gat stöðvað það. (Jes. 44:26; 55:12) Í augum Jehóva var Babýlon eins máttlaus og ryklag. (Jes. 40:15) Það þarf bara að blása á það og þá er það farið. Hverju breytti vonin fyrir útlagana? Hún veitti huggun. En hún gerði meira en það. Jesaja skrifaði: „Þeir sem vona á Jehóva fá nýjan kraft.“ (Lestu Jesaja 40:29–31.) Vonin gat endurnært þá og þeir myndu „svífa hátt á vængjum eins og ernir“.

9. Hvaða ástæðu höfðu útlagarnir til að treysta loforðum Jehóva?

9 Jehóva gaf líka útlögunum ástæðu til að treysta loforðum sínum. Þeir þekktu spádómana sem höfðu ræst. Þeir vissu að Assýringar höfðu sigrað Norðurríkið Ísrael og tekið fólk til fanga. (Jes. 8:4) Þeir urðu vitni að því þegar Babýloníumenn lögðu Jerúsalem í rúst og tóku íbúana til fanga. (Jes. 39:5–7) Þeir höfðu frétt af því þegar Sedekía konungur var blindaður og færður til Babýlonar. (Jer. 39:7; Esek. 12:12, 13) Allt sem Jehóva hafði sagt rættist. (Jes. 42:9; 46:10) Þetta hlýtur að hafa styrkt trú þeirra á að Jehóva myndi frelsa þá eins og hann hafði lofað.

10. Hvernig getum við verið vonglöð á þessum síðustu dögum?

10 Hvað lærum við? Þegar við erum niðurdregin getur vonin huggað okkur og gefið okkur nýjan kraft. Við lifum á erfiðum tímum og eigum við öfluga óvini að etja. En örvæntum ekki. Jehóva hefur gefið okkur dásamlega von um eilíft líf við frið og öryggi. Við þurfum að halda voninni lifandi í huga og hjarta. Annars gæti hún dofnað eins og fallegt landslag sem verður óskýrt þegar við horfum á það út um óhreinan glugga. Hvernig getum við haldið „glugganum hreinum“, það er að segja voninni bjartri? Með því að taka okkur reglulega tíma til að hugleiða hversu dásamlegt lífið í nýja heiminum verður. Við getum lesið greinar, horft á myndbönd og hlustað á lög sem fjalla um vonina. Og við getum talað við Jehóva í bæn um paradísarloforðin sem við bíðum spennt eftir að rætist.

11. Hvað hjálpar langveikri systur að fá nýjan kraft?

11 Langveik systir sem heitir Joy sækir huggun og styrk í vonina. Hún segir: „Þegar mér finnst vandamálin yfirþyrmandi segi ég Jehóva frá innstu tilfinningum mínum því að ég veit að hann skilur mig. Jehóva hefur svarað bænum mínum með því að gefa mér ‚kraftinn sem er ofar mannlegum mætti‘“. (2. Kor. 4:7) Joy sér líka sjálfa sig í nýja heiminum þegar enginn mun segja: „Ég er veikur.“ (Jes. 33:24) Við getum líka fengið nýjan kraft ef við úthellum hjarta okkar fyrir Jehóva og höfum vonina skýrt í huga.

12. Hvaða ástæður höfum við til að treysta loforðum Jehóva? (Sjá einnig mynd.)

12 Jehóva hefur gefið okkur margar ástæður til að treysta loforðum sínum rétt eins og hann gaf Gyðingum í útlegðinni. Tökum sem dæmi spádómana sem hafa ræst. Við sjáum til dæmis ensk-ameríska heimsveldið sem er „að sumu leyti sterkt og að sumu leyti veikt“. (Dan. 2:42, 43) Við heyrum einnig af ‚jarðskjálftum á einum stað eftir annan‘ og tökum þátt í að boða öllum þjóðum fagnaðarboðskapinn. (Matt. 24:7, 14) Þessir spádómar og margir aðrir styrkja trú okkar á að hughreystandi loforð Jehóva verði að veruleika.

Systir les og hugleiðir biblíuspádóm. Innfelldar myndir: 1. Hjón standa við ritatrillu og ræða við mann. 2. Faðir og sonur horfa á eyðileggingu af völdum náttúruhamfara. 3. Steinn lendir á fótum líkneskisins sem Nebúkadnesar dreymdi og lýst er í 2. kafla Daníelsbókar. 4. Fólk nýtur lífsins í paradís á jörð.

Spádómar sem við sjáum uppfyllast nú á dögum gefa okkur ástæðu til að treysta loforðum Jehóva. (Sjá 12. grein.)


JEHÓVA SEFAR ÓTTA OKKAR

13. (a) Hvaða erfiðleikum myndu Gyðingar standa frammi fyrir þegar þeir yrðu frelsaðir? (b) Hvernig huggaði Jehóva útlagana eins og kemur fram í Jesaja 41:10–13?

13 Enda þótt Jehóva huggaði útlagana með dásamlegri von vissi hann að þeir myndu mæta erfiðleikum þegar þeir yrðu frelsaðir. Jehóva hafði sagt að við lok útlegðarinnar myndi sigurvegari leggja nágrannaþjóðirnar í rúst og ógna Babýlon. (Jes. 41:2–5) Þyrftu Gyðingarnir að hafa áhyggjur? Löngu áður en þetta gerðist gaf Jehóva Ísrael, fólki sínu, hughreystingu. Hann sagði: „Vertu ekki hræddur því að ég er með þér. Hafðu ekki áhyggjur því að ég er Guð þinn.“ (Lestu Jesaja 41:10–13.) Hvað átti hann við með orðunum: „Ég er Guð þinn“? Hann var ekki að minna Gyðinga á að tilbiðja sig, þeir vissu að það var nauðsynlegt. Hann var að minna þá á að hann var enn þá með þeim. – Sálm. 118:6.

14. Hvernig sefaði Jehóva ótta útlaganna enn frekar?

14 Jehóva sefaði líka ótta útlaganna með því að minna þá á ótakmarkaðan kraft sinn og þekkingu. Hann hvatti Gyðingana í útlegðinni til að virða fyrir sér stjörnuhimininn. Hann sagði þeim ekki bara að hann hefði skapað stjörnurnar heldur að hann þekkti þær allar með nafni. (Jes. 40:25–28) Hversu miklu frekar þekkir hann alla þjóna sína með nafni! Og fyrst Jehóva hefur mátt til að skapa stjörnurnar hefur hann tvímælalaust kraft til að hjálpa þjónum sínum. Gyðingarnir í útlegðinni höfðu enga ástæðu til að vera óttaslegnir.

15. Hvernig bjó Guð Gyðingana í útlegðinni undir það sem var fram undan?

15 Jehóva bjó fólk sitt líka undir það sem var fram undan. Í fyrri hluta Jesajabókar hafði Jehóva sagt við þjóð sína: „Farðu … inn í innstu herbergi þín og lokaðu á eftir þér. Feldu þig stutta stund þar til reiðin er liðin hjá.“ (Jes. 26:20) Gyðingarnir hlýddu líklega þessum leiðbeiningum þegar Kýrus konungur réðst á Babýlon. Grískur sagnfræðingur til forna segir að þegar Kýrus kom inn í Babýlon hafi hann „gefið [hermönnum sínum] fyrirskipun um að drepa alla sem voru utandyra“. Við getum rétt ímyndað okkur hversu hræddir íbúar Babýlonar hafa verið. En trúlega hefur Gyðingunum verið þyrmt vegna þess að þeir hlýddu fyrirmælum Jehóva.

16. Hvers vegna ættum við ekki að hafa of miklar áhyggjur af framtíðinni? (Sjá einnig mynd.)

16 Hvað lærum við? Bráðlega verður mesta þrenging í sögu mannkynsins. Þegar hún hefst verður fólk almennt ráðvillt og óttaslegið. En ekki þjónar Jehóva. Við vitum að Jehóva er Guð okkar. Við verðum algerlega örugg um að „björgun [okkar] er skammt undan“. (Lúk. 21:28) Jafnvel þegar bandalag þjóða ræðst á okkur sýnum við hugrekki. Jehóva mun veita okkur vernd fyrir milligöngu engla og leiðbeiningar sem bjarga lífi okkar. Hvernig fáum við þessar leiðbeiningar? Við þurfum að bíða og sjá. Líklega fáum við þær fyrir milligöngu safnaðanna. Þeir eru ef til vill „herbergin“ sem veita okkur skjól. Hvernig búum við okkur undir það sem er fram undan? Við þurfum að styrkja tengslin við bræður okkar og systur, hlýða fúslega leiðbeiningum safnaðarins og efla sannfæringu okkar um að Jehóva leiði söfnuðinn. – Hebr. 10:24, 25; 13:17.

Bræður og systur lesa í Biblíunni saman í herbergi í þrengingunni miklu. Þau horfa út um glugga og einn bróðirinn bendir á næturhimininn.

Með því að hugleiða mátt og getu Jehóva til að bjarga okkur þurfum við ekki að vera óttaslegin í þrengingunni miklu. (Sjá 16. grein.)b


17. Hvernig geturðu leitað huggunar hjá Jehóva?

17 Jehóva sá Gyðingunum í útlegðinni í Babýlon fyrir huggun þótt lífið væri ekki auðvelt hjá þeim. Hann gerir það sama fyrir okkur. Haltu áfram að leita huggunar hjá Jehóva sama hvað framtíðin ber í skauti sér. Treystu á hans ríkulegu miskunn, haltu voninni lifandi og mundu að þú hefur ekkert að óttast með Jehóva Guð þér við hlið.

HVERNIG VEITA ÞESSI BIBLÍUVERS ÞÉR HUGGUN?

  • Jesaja 55:7

  • Jesaja 40:29–31

  • Jesaja 41:10–13

SÖNGUR 3 Von okkar, athvarf og öruggt traust

a Sumum nöfnum hefur verið breytt.

b MYND: Lítill hópur bræðra og systra safnast saman. Þau eru sannfærð um að Jehóva hefur bæði mátt og getu til að vernda fólk sitt hvar sem það býr á jörðinni.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila