Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.1. bls. 24-29
  • Öfgalaus gleðskapur í brúðkaupsveislum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Öfgalaus gleðskapur í brúðkaupsveislum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hóf er nauðsynlegt
  • Hver á að fara með stjórninn?
  • Hverjir verða þar
  • Öllum hjálpað til að gleðjast
  • Sýndu trú þína með lífsstefnu þinni
    Námsgreinar úr Varðturninum
  • Kristin brúðkaup sem gleðja
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Heiðvirð brúðkaup frammi fyrir Guði og mönnum
    Námsgreinar úr Varðturninum
  • Spurningakassinn
    Ríkisþjónusta okkar – 2008
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.1. bls. 24-29

Öfgalaus gleðskapur í brúðkaupsveislum

1, 2. (a) Hvers vegna ættum við að gefa gaum veisluhöldum samfara brúðkaupum nú á tímum? (b) Hversu nauðsynleg eru veisluhöld?

ÞÚ HEFUR líklega séð nægileg sönnunnargögn um að sá spádómur sé að rætast að á „síðustu dögum“ muni menn ‚elska munaðarlífið meira en Guð.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1-4) Þessa sjást glögg merki í því hvernig margir líta á brúðkaupsveislur og hegða sér í þeim.a Hvernig ættum við að líta á brúðkaupsveislur? Ættu kristnir menn að forðast að halda eða sækja þær? Er kjarninn í þessu versi kannski sá að við þurfum að forðast eitt og annað ef við ætlum að ‚elska Guð‘?

2 Óháð því hversu algengt það er í byggðarlaginu að halda hóf strax að hjónavígslunni lokinni skyldar Ritningin kristna menn alls ekki til þess. Sum brúðhjón vilja frekar koma saman með nánustu ættingjum eða fáeinum mjög nánum vinum, ef til vill að njóta með þeim góðrar máltíðar. En að halda eða sækja brúðkaupsveislu getur ekki sem slíkt verið lagt að jöfnu við að ‚elska munaðarlífið,‘ því að Jesús og lærisveinar hans vor viðstaddir slíka veislu í Kana.

3. Hversu algengar voru brúðkaupsveislur á tímum Biblíunnar?

3 Brúðkaup er gleðilegur atburður fyrir brúðhjónin, ættingja þeirra og vini. Gleðilegar brúðkaupsveislur hafa löngum verið haldnar. (1. Mósebók 29:21, 22; Dómarabókin 14:3, 10, 17) Þar eð Gyðingar voru vel kunnir brúðkaupsveislum gat Jesús notað þær í þremur dæmisögum sínum. (Matteus 22:2-14; 25:1-13; Lúkas 14:7-11) Jafnvel í síðustu bók Biblíunnar stendur: „Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins.“ — Opinberunarbókin 19:9.

4. Hvernig hafa margar brúðkaupsveislur verið?

4 Þjónar Guðs í fortíðinni — þeirra á meðal Jesús og lærisveinar hans — gátu skemmt sér á öfgalausan hátt í brúðkaupsveislum. Þúsundir kristinna manna á okkar tímum hafa líka gert það. Ættingi, sem ekki var í trúnni, en var í brúðkaupsveislu í Suður-Afríku sagði: „Ég vissi ekki að vottarnir hefðu svona skemmtileg brúðkaup. Við erum þreytt á öllum þessum drykkjuskap og háværri tónlist sem viðgengst í brúðkaupsveislum nú til dags.“ Fjöldamörg kristin samkvæmi myndu verðskulda svipað hrós.

5. Hvers konar vandamál hafa komið upp?

5 En þrýstingur frá heiminum til þess að ‚elska munaðarlífið‘ er mikill. Þess vegna hafa ýmsir kristnir öldungar skýrt svo frá:

Margir notfæra sér [brúðkaupsveislur] til að slaka hressilega á. Þeir hugsa með sér að tækifærin séu ekki svo mörg, svo að þeir vilja hafa sem mest út úr þeim og rasa svolítið út, gefa lausan tauminn löngunum sem haldið er í skefjum á öðrum tímum. Það er engin furða að andrúmsloftið skuli vera hömlulaust. — Frá Evrópu.

Brúðkaupsfagnaður virðist fólginn í ræðu, smá matarbita og síðan dansi fram undir morgun. Sumum finns að í samkvæmum geti þeir drukkið meira en endranær, og þeir drekka oft of mikið. — Frá Rómönsku-Ameríku.

Í brúðkaupsveislum er stundum „dansað fram í dögun.“ Sum þessara samkvæma eru í sannleika veraldleg — hávær með stífri drykkju og veraldlegum dansi. Margir reyna að sýnast fyrir öðrum með því að klæðast dýrum fatnaði og koma með marga bjórkassa. — Frá Afríku.

Hóf er nauðsynlegt

6. Hvað getum við lært um veislur hjá Gyðingum af athugasemd sem gerð var í Kana?

6 Flestir vita að í brúðkaupsveilsunni í Kana breytti Jesús vatni í vín. En mundu þó þetta: „Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, . . . Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: ‚Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir.‘“ (Jóhannes 2:9, 10) Hann sagði ekki að gestirnir í þessari veislu hafi verið orðnir „ölvaðir.“b Meira að segja er óhugsandi að Jesús hefði lagt blessun sína yfir drykkjuskap og gert illt verra með því að búa til meira vín. Samt sem áður vissi þessi maður að óhófleg drykkja var algeng í brúðkaupsveislum meðal Gýðinga.

7. Hvað ættu kristnir menn að íhuga í sambandi við að bera fram áfengi?

7 Oft forðast gestgjafar að bera fram áfengi sökum þess hversu ofneysla er algeng, og til að freista ekki nokkurs af gestunum sem kann að hafa átt við vandamál að stríða í því efni. Vissir bræður í Afríku hafa jafnvel sagt að það hafi stuðlað að „hreinu kristnu brúðkaupi“ að hafa ekkert áfengi á boðstólum. Og þar sem almenningsálitið er gegn því að kristnir menn neyti áfengis kann að vera ráðlegt að bjóða alls ekki upp á áfenga drykki. (Rómverjabréfið 14:20, 21) Þó þarf að vega hlutina og meta öfgalaust. Spyrðu sjálfan þig: Var veislan, sem Jesús var viðstaddur, ‚óhrein‘ vegna þess að vín var borið fram? Biblían fordæmir drykkjuskap, ekki hóflega neyslu áfengis. — Orðskviðirnir 23:20, 21; 1. Pétursbréf 4:3.

8, 9. (a) Hvernig er hægt að gæta þess að neysla verði hófleg, ef boðið er upp á áfengi? (b) Hvað sagði einn öldungur um þetta vandamál?

8 Ef brúðhjón vilja bjóða veislugestum upp á áfengi er hyggilegt og hugulsamt af þeim að gefa því hæfilegan gaum að þess sé neytt í hófi. (1. Tímóteusarbréf 3:2; Matteus 23:25) Hvernig var til dæmis gestunum í Kana borið vínið? Að því er virðist af ‚þjónunum.‘ (Jóhannes 2:5, 9) Brúðhjónin geta því falið einhverjum að bera fram áfengið (og ef til vill að takmarka hversu mikið hver gestur fær). Að sjálfsögðu ættu í öllum kristnum samkvæmum að vera óáfengnir drykkir fyrir þá sem vilja þá heldur eða ættu að forðast áfengi.

9 Öldungur í Mið-Ameríku sagði: „Það hefur verið vandamál að boðin eru of fjölmenn, þannig að ógerlegt er að fylgjast með öllum sem eru viðstaddir. Stundum hefur veraldlegt fólk gerst boðflennur í veislunum, haft með sér áfengi og valdið hneyksli.“ Hver mun fylgjast með að allt fari vel fram? Hversu margir munu vera viðstaddir? Hvað mun fara fram í slíkum veislum?

Hver á að fara með stjórninn?

10. Hvað kemur fram í Biblíunni sem getur stuðlað að betri umsjón í veislum?

10 Í veislunni í Kana var „veislustjóri.“ (Jóhannes 2:9) Í veislum á okkar dögum mætti líka fela hæfum bróður, sem hefur sterka ábyrgðartilfinningu, að hafa umsjón. Ef hann veit hér um bil hverjar eru óskir brúðhjónanna, getur hann gefið fyrirmæli tónlistarmönnum, þjónum og öðrum, eða þá ráðfært sig við þau og síðan farið eftir því. Það getur falið í sér að hafa yfirumsjón með þeim sem taka á móti gestum á veislustað. Í sameiningu ættu þeir að geta aðstoðað gestina og tekið hugsanlegar ‚boðflennur‘ réttum tökum. Í sambandi við slíka umsjón er gott að gefa því gaum hvernig fór í dæmisögu Jesú fyrir gesti sem sýndi algert virðingarleysi í brúðkaupsveilsu. — Matteus 22:11-13.

11. Hvað ætti að hafa í huga við val á þeim sem mun hjálpa brúðhjónunum að stýra því sem fram fer?

11 Í mörgum veraldlegum samkvæmum kemur umsjónarmaður salarins eða stjórnandi hljómsveitar fram sem eins konar skemmtistjóri. Hann þekkir kannski hinn venjulega gang mála og hefur tilbúinn einhvern ræðustúf eða nokkrar tvíræðar skrýtlur. En ef þú vilt að veislan sé í samræmi við kristnar meginreglur, myndir þú þá láta einhvern veraldlegan mann — sem er hvorki andlegur bróðir þinn né einn úr fjölskyldu þinni — ávarpa gesti þína eða vera í sviðsljósinu? Myndi það samræmast því ráði að ‚gera öllum gott og einkum trúbræðrum þínum?‘ — Galatabréfið 6:10.

12. Hvað má ráða af Biblíunni um það hver sé fyrst og fremst ábyrgur fyrir því sem fram fer í brúðkaupsveislu?

12 Stundum hjálpa foreldrar brúðarinnar eða brúðgumans brúðhjónunum með því að greiða kostnaðinn af veisluhöldunum. Foreldrunum kann því að finnast að þeir eigi að ráða miklu um hverjum verður boðið, hvers konar matur og drykkur verður á borðum eða hvernig dagskráin á að vera. Biblían segir ekki hver bar kostnaðinn af veislunni í Kana, en hún segir okkur að ‚veislustjóri hafi kallað á brúðgumann‘ þegar mikilvægt atriði kom upp. (Jóhannes 2:9) Í brúðkaupsveislu er brúðguminn hið biblíulega höfuð nýstofnaðar fjölskyldu. (Efesusbréfið 5:22, 23) Þess vegna þarf fyrst og fremst hann að taka á sig ábyrgðina á því hvað fer fram og hvað ekki, enda þótt hann ætti af kærleika að taka tillit til óska brúðar sinnar á þessum sérstaka degi og fjölskyldna þeirra beggja.

Hverjir verða þar

13. Hversu fjölmennar voru brúðkaupsveislur á tímum Biblíunnar?

13 Við vitum ekki hversu fjölmennar brúðkaupsveislur voru á tímum Biblíunnar. Í brúðkaupsveislu Samsonar voru foreldrar hans, 30 kunningjar brúðarinnar og líklega aðrir vinir eða ættingjar. (Dómarabókin 14:5, 10, 11, 18) Gestirnir í brúðkaupsveislum Gyðinganna voru trúbræður úr sama byggðarlagi, svo og gestkomandi menn. Jesús og lærisveinar hans, sem voru annars staðar að úr Galíleu, fóru í veisluna í Kana. Vínmagnið, sem búið var til, bendir til að hópurinn hafi verið töluvert stór. — Jóhannes 2:1, 2, 6.

14, 15. Hvernig hafa sumir lagt drög að „opnu húsi“ en hvaða vandamál geta komið upp?

14 Siðir og óskir manna er mismunandi og samkvæmi misfjölmenn og ólík eftir því. Sums staðar tíðkast að hafa opið hús, og allir aðrir kristnir menn, sem eru vinir brúðhjónanna, velkomnir. Þeim kann að vera borin smávegis hressing, þótt hugmyndin sé ekki að seðja matarlyst viðstaddra heldur gefa þeim tækifæri til að koma á framfæri heillaóskum og njóta ánægjulegs félagsskapar. Sums staður, þar sem samkvæmi standa opin öllum vinum, tíðkast að gestirnir komi sjálfir með eitthvað matarkyns með sér, svo sem einhvern rétt, drykkjarföng, ábæti eða kökur. Allir sem bjóða sig þannig fram hafa ánægju af að leggja fram sinn skerf, og allir geta notið fjölbreyttrar hressingar án þess að brúðhjónin eða nokkur annar þurfi að axla þunga byrði. — Postulasagan 20:35.

15 Af því sem við lesum í dæmisögum Jesú virðist oft hafa verið boðið upp á myndarlega máltíð í brúðkaupsveislum hjá Gyðingum. (Matteus 22:2; Lúkas 14:8) Það útheimtir auðvitað mikla skipulagningu að bjóða öllum gestum upp á heila máltíð. Móðir í Norður-Ameríku segir frá þessari hryggilegu reynslu:

Þegar kunnugt varð að halda ætti brúðkaup skaut upp kollinum ungt fólk víða að til að geta etið og dansað ókeypis. Á meðan boðsgestir voru í Ríkissalnum fóru aðrir rakleiðis til veislusalarins og röðuðu sér við öll borðin sem voru laus. Ég hefði getað grátið þegar ég kom þangað, því að þar var ekkert pláss. Ég var afskaplega særð yfir því kærleiksleysi að gerast boðflennur í brúðkaupsveilsu og borða matinn sem gestgjafinn hafði borið á borð fyrir nána vini og ættingja.

16. Hvað getum við lært af Biblíunni um brúðkaupsgesti?

16 María, Jesús og lærisveinar hans voru ekki boðflennur í veislunni í Kana; þeim ‚var boðið.‘ (Jóhannes 2:1, 2) Jesús sagði: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups . . .“ (Lúkas 14.8, 9, 16, 17) Í dæmisögunni um brúðkaup konungssonarins talaði Jesús líka um „þá, sem boðnir voru.“ (Matteus 22:3, 9, 10) Auk þess, þegar boðsgestur sýndi virðingarleysi, var þjónum boðið að vísa honum út. Í annarri dæmisögu var fimm meyjum, sem vildu vera viðstaddar brúðkaupsveislu, meinuð innganga. (Matteus 22:11-13; 25.10-12) Það þarf því ekki að sýnast undarlegt ef aðeins boðnir gestir fá að vera viðstaddir, og að þeim beri að vera vel til fara. Og skiljanslegt er að örlæti gestgjafans þurfi ekki að ná til fólks sem hefur fyrst og fremst áhuga á mat og munaði. — Filippíbréfið 3:18, 19; Prédikarinn 5:11.

17. Hvaða vandamál hafa komið upp í sambandi við brúðkaupsveislur?

17 Ef brúðhjónin eða ættingjar þeirra vilja bjóða fjölda gesta upp á heila máltíð getur það kostað talsvert mikið. (Samanber Markús 6:35-37) Þessi frásögn er komin frá eyja í Kyrrahafi:

Tilhneiging er til að leggja of mikið í veisluhöld. Sumir steypa sér í skuldir til að halda stóra og mikla veislu og byrja því búskapinn skuldugir. Oft virðist það vaka fyrir fólki að falla ekki í áliti, svo að það heldur veislu sem það hefur alls ekki efni á.

Það er hyggilegt þegar ung hjón hefja búskap með skuldabagga sem getur valdið spennu í hjónaband þeirra. Og hvernig myndi þeim líða ef þau vissu að foreldrar þeirra ættu í erfiðleikum með að rísa undir miklum tilkosnaði af stórri og fínni veislu? Að sjálfsögðu gæti fólk í heiminum átt til að steypa sér í miklar skuldir til að halda brúðkaupsveislu, vegna löngunar til að sýnast fyrir öðrum eða til að falla ekki í áliti í samfélaginu. (Orðskviðirnir 15.25; Galatabréfið 6:3) En ætti að vera svo um kristna menn í ljósi þess sem við lesum í Lúkasi 12.29-31?

18, 19. (a) Hvers vegna kunna sumir að hafa ákveðið að halda fjölmennar veislur? (b) Hvernig ættum við að bregðast við því ef okkur er ekki boðið í veislu til vinar? (Lúkas 14:12)

18 Sumum hefur gengið það til með tilkomumiklum veisluhöldum að vera ekki eftirbátur annarra eða skara fram úr þeim. Öldungar í Vestur-Afríku hafa látið þessi orð falla:

Sumir eyða miklu fé í hressingar. Sá sem heldur dýrustu brúðkaupsveisluna er hafður til viðmiðunar. Það hefur valdið þeim erfiðleikum sem eru ekki nógu hugrakkir til að vera öðruvísi. Sýndarmennska og sjónarspil með lífsviðurværi sitt getur hneykslað aðra, og það er alls ekki nauðsynlegt að leggja kapp á að vera ekki eftirbátur annarra. — Sjá 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

19 Sumum hefur fundist þeir tilneyddir að halda geysifjölmenna veislu til að móðga engan. Þeir hafa ímyndað sér að væri ákveðnum kunningja ekki boðið myndi hann móðgast. Þess vegna bjóða þeir fleirum en hyggilegt er. En spyrja má í fyllstu hreinskilni hver okkar vildi að vinir okkar væru svo hræddir við að óvirða okkur að þeir steyptu sér frekar út í miklar skuldir, og yrðu kannski að hætta við fulltímaþjónustu þess vegna? Ef okkur er ekki boðið er miklu betra að treysta að þeir hafi vegið og metið allar staðreyndir vandlega, þar á meðal kostnaðinn. Að þeir skuli ekki bjóða okkur getur jafnvel verið merki þess að þeir treysti að við séum þroskaðir og ekki móðgunargjarnir. (Prédikarinn 7:9; 1. Korintubréf 13:4-7) Við getum þrátt fyrir það átt hlutdeild í hamingju þeirra með því að vera viðstödd brúðkaupsræðuna sem er byggð á Biblíunni og er þýðingarmeiri. Ef við mætum það minna en veisluna, gæti þá verið að við værum byrjuð að ‚elska munaðarlífið meira en Guð‘? — 2. Tímóteusarbréf 3:4.

20. Hvers konar athafnir má forðast með því að takmarka fjölda veislugesta?

20 Hóf í stærð veislunnar og kostnaðinum við hana getur líka forðað mönnum frá ýmsu miður æskilegu. Löngunin í peninga hefur til dæmis komið fáeinum til að kaupa sérstakt efni í brúðkaupsklæðin, og biðja síðan þá sem eru í fylgdarliðinu að kaupa það af þeim fyrir hærra verð. Í sumum veislum hafa gestir þurft að „kaupa“ sneið af brúðartertunni eða dans við nýja brúðina, og næla peningum við kjólinn hennar. Slík áhersla á peninga getur líka verið orsökin fyrir því að gestir flagga stundum peningunum sínum með því að kasta peningum til tónlistarmannanna eða með því að gefa stórar gjafir í von um að fá að sitja í hefðarsæti nálægt brúðhjónunum. — Lúkas 14:8-11.

Öllum hjálpað til að gleðjast

21. Hvaða hlutverki gegnir tónlist í brúðkaupsveislum?

21 Frá tímum Makkabeastyrjaldanna er dæmi um að hópur manna ‚með bumbur og hljóðfæri‘ hafi komið til móts við brúðkaupsgöngu sem farin var hjá Gyðingum. (1. Makkabeabók 9:39, Ísl. bi. 1859; samanber Sálm 45:9.) Nú á dögum er líka oft leikin tónlist í brúðkaupsveislum. Hún getur aukið ánægju kristins manns við þetta tilefni — eða dregið úr henni. Hvers vegna getur hið síðarnefnda orðið? Mörg dæmi eru um að tónlistin hafi verið mjög hávær og taumlaus. Sumir tónlistarmenn eru hrifnir af diskótónlist eða þvílíku, eða njóta þess að flíka hæfileikum sínum sem mest má verða. En kristið samkvæmi er ekki rétti staðurinn fyrir slíkt. Geta gestirnir, bæði ungir og aldnir, notið kristilegrar samveru ef tónlistin er svo hávær að ógerlegt er að ræða saman þvert yfir borðið?

22. Hverngi má draga úr vandamálum í tengslum við tónlist?

22 Ljóst er að skipulags og umsjónar er þörf með tónlistinni, sem leikin er í brúðkaupsveislum, einkum ef fengnir hafa verið tónlistarmenn til að leika hana. Æskilegt er að ráða ekki veraldlega tónlistarmenn. Ef fengnir eru launaðir tónlistarmenn ætti brúðguminn eða bróðirinn, sem valinn er til umsjónar, að útskýra greinilega fyrir þeim hvers konar tónlist má leika og hvers konar ekki. (2. Mósebók 32:6, 17, 18) Taka ætti fram við þá að ekkert megi leika að beiðni gestanna án samþykkis brúðguma eða þess sem stýrir veisluhöldum. Sökum þess að vandamál eru algeng að því er varðar eðli og styrk tónlistar hafa mörg brúðhjón kosið að látið leika tónlist af hljómplötum eða tónböndum og valið þá nákvæmlega það sem þau vilja láta leika. Þau hafa falið fullorðnum manni, sem ekki verður auðveldlega fyrir áhrifum af því sem er vinsælt meðal óþroskaðra unglinga, að leika lögin. — 1. Korintubréf 13:11; Hebreabréfið 5:14.

23-25. Hvaða önnur skynsamleg skref má stíga til að tryggja ánægjulega, kristilega samverustund?

23 Kristin brúðhjón vilja að gestir þeirra geti minnst brúðkaupsins með ánægju. Ef leikin er tónlist og/ eða dansað ætti því hvort tveggja að vera í samræmi við kristnar meginreglur. Ef einhverjir eru beðnir að segja fáein orð ættu þeir sem valdir eru og það sem þeir segja að vera sæmandi kristnu samkvæmi.

24 Í dæmisögunni um meyjarnar tíu hófst veislan „um miðnætti“ vegna þess að brúðgumanum og fylgdarliði hafði seinkað. (Matteus 25:5, 6) Í öðru tilviki bendir það sem Jesús sagði um að konungurinn hafi haft veisluföng til reiðu og þjónarnir boðið fólki á vegum úti til veislunnar, til þess að hun hafi verið haldin að degi til. (Matteus 22:4, 9) Á okkar dögum hafa sumar veislur staðið langt fram á nótt og farið eitthvað úr böndum þegar þroskaðir kristnir menn hafa haldið heimleiðis til að fá hæfilegan nætursvefn. Til að koma í veg fyrir það hafa mörg brúðhjón ákveðið fyrirfram hvenær boð þeirra skuli byrja og hvenær það skuli enda. Þá geta allir gert sínar áætlanir, þar á meðal áætlanir um viðeigandi kristilega starfsemi daginn eftir ánægjulegt boð.

25 Brúðkaupsveisla getur verið fyrsta flokks tækifæri til að gera sér glaðan dag á viðeigandi og öfgalausan hátt. En hvaða hlutverki gegnir hún í sambandi við það sem á eftir kemur — sambúð sannkristinna hjóna?

[Neðanmáls]

a Í sumum löndum tíðkast að öllum gestum sé, eftir hjónavígslunathöfnina, boðið upp á léttar hressingar svo sem gosdryggi eða kaffi og kökur. Síðar neyta brúðhjónin, fjölskyldur þeirra og nokkrir vinir brúðkaupsmáltíðar á einkaheimili eða veitingahúsi. Annars staðar tíðkast að halda hóf síðar — hvort sem bornar eru fram léttar veitingar eða veislumatur.

b Af gríska orðinu meþusko sem merkir að „verða drukkinn, ölvaður.“ Sumir orðskýrendur halda því fram að orðið gefi í skyn næga drykkju aðeins til að sljóvga bragðskynið eða gera menn glaða og reifa. Aðrar ritningargreinar styðja ekki þessa skoðun. — Matteus 24:49; Lúkas 12:45; Postulasagan 2:15; Efesusbréfið 5:18; 1. Þessaloníkubréf 5:7.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila