Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w23 maí bls. 26-31
  • Þú getur náð andlegum markmiðum þínum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þú getur náð andlegum markmiðum þínum
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • LÖNGUN ER MIKILVÆG
  • ÞEGAR OKKUR SKORTIR LÖNGUN
  • EKKI LÁTA BAKSLAG DRAGA ÚR ÞÉR KJARK
  • Hvernig setjum við okkur markmið í þjónustu Jehóva og náum þeim?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Unglingar — takið þið framförum í trúnni?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Settu þér það markmið að halda biblíunámskeið
    Ríkisþjónusta okkar – 2007
  • Hvernig geturðu náð andlegum markmiðum þínum?
    Ríkisþjónusta okkar – 2006
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
w23 maí bls. 26-31

NÁMSGREIN 24

Þú getur náð andlegum markmiðum þínum

„Gefumst ekki upp á að gera það sem er gott því að á sínum tíma munum við uppskera ef við missum ekki móðinn.“ – GAL. 6:9.

SÖNGUR 84 Verum framsækin

YFIRLITa

1. Hvað hafa mörg okkar átt í basli með?

HEFURÐU einhvern tíma sett þér andlegt markmið en átt í basli með að ná því?b Ef svo er ertu ekki einn um það. Philip langaði til dæmis að auka gæði bæna sinna og biðja oftar, en hann átti erfitt með að finna tíma til að biðja. Markmið Eriku var að mæta tímanlega í samansafnanir en hún mætti samt yfirleitt of seint. Tomáš reyndi nokkrum sinnum að lesa alla Biblíuna. Hann segir: „Mér fannst einfaldlega ekki gaman að lesa Biblíuna. Ég gerði þrjár tilraunir en gafst alltaf upp í 3. Mósebók.“

2. Hvers vegna ættum við ekki að láta það draga úr okkur kjark ef við höfum ekki náð markmiði okkar?

2 Ef þú hefur þegar sett þér markmið sem þú átt erfitt með að ná skaltu ekki álykta sem svo að þú sért mislukkaður. Oft krefst það tíma og erfiðis jafnvel að ná einföldu markmiði. Sú staðreynd að þú vilt ná markmiði þínu sýnir að þú metur sambandið við Jehóva mikils og vilt gefa honum þitt besta. Jehóva kann að meta það sem þú leggur á þig. Hann ætlast að sjálfsögðu ekki til meira af þér en þú getur gert. (Sálm. 103:14; Míka 6:8) Þú ættir því að setja þér raunhæft markmið í samræmi við það sem aðstæður þínar leyfa. En hvað geturðu gert til að ná markmiðinu? Skoðum nokkrar tillögur.

LÖNGUN ER MIKILVÆG

Maður í litlum bát með seglin upp.

Biddu um meiri löngun. (Sjá 3. og 4. grein.)

3. Hvers vegna er löngun mikilvæg?

3 Það er mjög mikilvægt að þú hafir löngun til að ná markmiði þínu. Sá sem hefur löngun hefur sterka hvöt til að vinna að markmiðum sínum. Líkja má löngun við vind sem knýr seglbát á áfangastað. Ef vindurinn helst stöðugur kemst skútan líklega á leiðarenda. Og ef vindurinn er öflugur kemst hún jafnvel fyrr þangað. Á sama hátt má segja að því meiri löngun sem við höfum því líklegri séum við til að ná markmiðum okkar. „Þegar maður hefur sterka löngun leggur maður meira á sig,“ segir David, bróðir í El Salvador. „Maður vill ekki að neitt komi í veg fyrir að maður nái markmiði sínu.“ Hvað geturðu gert til að hafa sterkari löngun?

4. Hvað getum við beðið um? (Filippíbréfið 2:13) (Sjá einnig mynd.)

4 Biddu um sterkari löngun. Jehóva getur með anda sínum gefið þér löngun til að ná markmiði þínu. (Lestu Filippíbréfið 2:13.) Stundum setjum við okkur markmið vegna þess að við vitum að við ættum að gera það og það er gott og gilt. En okkur skortir kannski löngunina til að ná því. Það átti við um systur í Úganda sem heitir Norina. Hún hafði sett sér það markmið að hefja biblíunámskeið þótt hana skorti löngun vegna þess að henni fannst hún ekki nógu góður kennari. Hvað hjálpaði henni? Hún segir: „Ég bað Jehóva daglega að gefa mér sterkari löngun til að halda biblíunámskeið. Til að vinna í samræmi við bænirnar reyndi ég að bæta kennsluhæfni mína. Löngunin styrktist á fáeinum mánuðum og sama ár hóf ég tvö biblíunámskeið.“

5. Hvað getum við hugleitt sem getur aukið löngun okkar til að ná markmiði?

5 Hugleiddu hvað Jehóva hefur gert fyrir þig. (Sálm. 143:5) Páll postuli hugleiddi einstaka góðvild Jehóva gagnvart honum og það jók löngun hans til að leggja hart að sér í þjónustunni. (1. Kor. 15:9, 10; 1. Tím. 1:12–14) Við fáum líka sterkari löngun til að ná markmiðum okkar eftir því sem við hugleiðum meira það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. (Sálm. 116:12) Skoðum hvað hjálpaði systur í Hondúras að ná markmiði sínu að gerast brautryðjandi. Hún segir: „Ég hugleiddi hversu heitt Jehóva elskar mig. Hann bauð mér í fjölskyldu sína. Hann annast mig og verndar. Að hugleiða þetta dýpkaði kærleika minn til hans og styrkti löngun mína til að gerast brautryðjandi.“

6. Hvað fleira getur hjálpað okkur að auka löngun okkar til að ná markmiði?

6 Beindu athyglinni að árangrinum af því að ná markmiði þínu. Taktu eftir hvað hjálpaði Eriku, sem áður er minnst á, að ná markmiðinu að vera stundvís. Hún segir: „Ég áttaði mig á því að ég missti af svo miklu þegar ég kom of seint í samansöfnun. En með því að mæta snemma gæti ég heilsað bræðrum og systrum og spjallað við þau. Þá gæti ég líka nýtt mér góð ráð sem gætu hjálpað mér að bæta boðun mína og hafa meira gaman af henni.“ Erika einbeitti sér að árangrinum af því að vera stundvís og náði markmiði sínu. Hvaða árangri gætir þú beint athyglinni að? Ef markmið þitt tengist biblíulestri eða bæn skaltu hugsa um hvernig það styrkir samband þitt við Jehóva. (Sálm. 145:18, 19) Ef markmiðið er að rækta kristinn eiginleika skaltu einbeita þér að því hvernig það bætir samband þitt við aðra. (Kól. 3:14) Þú gætir gert lista yfir ástæðurnar fyrir því að þú vilt ná markmiðinu. Skoðaðu síðan listann reglulega. Tomáš, sem áður er minnst á, segir: „Því fleiri ástæður sem ég hef til að ná markmiði, þeim mun ólíklegra er að ég gefist upp.“

7. Hvað hjálpaði Julio og konunni hans að ná markmiði sínu?

7 Verðu tíma með þeim sem hvetja þig áfram. (Orðskv. 13:20) Taktu eftir hvað hjálpaði Julio og eiginkonu hans að ná markmiði sínu að auka þjónustuna. Hann segir: „Við völdum okkur að vinum þá sem studdu markmið okkar og við ræddum markmiðið við þá. Margir þeirra höfðu náð svipuðum markmiðum og gátu gefið okkur góð ráð. Vinir okkar spurðu líka hvernig okkur gengi að ná því og sýndu stuðning þegar við þurftum á því að halda.“

ÞEGAR OKKUR SKORTIR LÖNGUN

Maðurinn á fyrri myndinni að róa bátnum.

Stefndu að markmiði þínu. (Sjá 8. grein.)

8. Hvernig gæti farið ef við ynnum aðeins að markmiði okkar þegar okkur langaði til þess? (Sjá einnig mynd.)

8 Við eigum öll okkar daga þegar okkur skortir áhuga. Þýðir það að við getum ekki unnið að markmiði okkar? Nei. Tökum dæmi: Vindur getur verið sterkt afl sem knýr seglbát á áfangastað. En vindurinn er ekki alltaf jafn sterkur og suma daga er blankalogn. Þýðir það að sá sem siglir komist ekkert áfram? Ekki endilega. Á sumum seglbátum er mótor og á öðrum árar. Sá sem siglir getur nýtt sér það til að komast í átt að áfangastaðnum. Löngun okkar getur verið breytileg eins og vindurinn. Og suma daga höfum við bara enga löngun til að vinna að markmiði okkar. Ef við ynnum að markmiði okkar aðeins þegar okkur langar til þess kæmumst við kannski aldrei á leiðarenda. En rétt eins og sá sem siglir getum við fundið aðrar leiðir til að komast áfram, jafnvel þótt við höfum ekki sterka löngun. Þetta krefst sjálfstjórnar en árangurinn er þess virði. Við skulum skoða hvað er til ráða. En lítum fyrst á spurningu sem gæti vaknað.

9. Er rangt að vinna að markmiði þegar okkur langar ekki til þess? Skýrðu svarið.

9 Jehóva vill að við þjónum honum með gleði og af fúsu geði. (Sálm. 100:2; 2. Kor. 9:7) Ættum við þá að vinna að markmiði okkar ef okkur langar ekki til þess? Skoðum fordæmi Páls postula. Hann sagði: „Ég beiti sjálfan mig hörðu og geri líkamann að þræli mínum.“ (1. Kor. 9:25–27) Páll neyddi sjálfan sig til að gera það sem var rétt þegar hann langaði til að gera eitthvað annað. Var Jehóva ánægður með það sem Páll gerði fyrir hann? Já, svo sannarlega! Jehóva umbunaði honum fyrir erfiði sitt. – 2. Tím. 4:7, 8.

10. Hver er árangurinn af því að vinna að markmiði jafnvel þegar okkur skortir löngun?

10 Jehóva er líka ánægður þegar við vinnum að markmiði okkar þótt okkur langi ekki til þess. Það gleður hann að vita að þótt við gerum það ekki alltaf af áhuga á markmiðinu sjálfu gerum við það af því að við elskum hann. Jehóva blessar okkur fyrir það sem við leggjum á okkur rétt eins og hann blessaði Pál. (Sálm. 126:5) Og þegar við finnum fyrir blessun Jehóva getur löngunin kviknað. Lucyna er systir frá Póllandi. Hún segir: „Stundum langar mig bara ekkert í boðunina, sérstaklega þegar ég er þreytt. En gleðin sem ég fæ af því að fara er stórkostleg gjöf.“ Skoðum hvað við getum gert þegar okkur skortir löngun.

11. Hvernig getur Jehóva hjálpað okkur að rækta með okkur sjálfstjórn?

11 Biddu um sjálfstjórn. Sjálfstjórn er hæfileikinn til að stjórna eigin tilfinningum og verkum. Oft er talað um að sjálfstjórn hjálpi manni að halda aftur af sér að gera eitthvað slæmt. En við þurfum líka á sjálfstjórn að halda til að gera það sem er gott, sérstaklega þegar það er erfitt eða okkur langar ekki til þess. Mundu að sjálfstjórn er hluti af ávexti andans. Biddu því Jehóva um heilagan anda til að hjálpa þér að rækta með þér þennan mikilvæga eiginleika. (Lúk. 11:13; Gal. 5:22, 23) David, sem áður er minnst á, segir hvernig bænin hjálpaði honum. Hann vildi hafa betri reglu á sjálfsnámi sínu. Hann segir: „Ég bað Jehóva að hjálpa mér að rækta með mér sjálfstjórn. Með hjálp hans tókst mér að koma á góðri dagskrá fyrir sjálfsnámið og hafa það reglulega.“

12. Hvernig tengist meginreglan í Prédikaranum 11:4 andlegum markmiðum?

12 Bíddu ekki eftir fullkomnum aðstæðum. Meðan þessi heimur stendur verða aðstæður aldrei fullkomnar. Ef við bíðum eftir þeim náum við kannski aldrei markmiði okkar. (Lestu Prédikarann 11:4.) Bróðir sem heitir Dayniel segir: „Fullkomnar aðstæður eru ekki til. Við búum til bestu aðstæðurnar með því einfaldlega að hefjast handa.“ Paul er bróðir í Úganda. Hann nefnir aðra ástæðu fyrir því að við ættum ekki að slá hlutunum á frest: „Þegar við byrjum þrátt fyrir erfiðar aðstæður gefum við Jehóva eitthvað til að blessa.“ – Mal. 3:10.

13. Hvaða kosti hefur það að byrja á því að setja sér lítil markmið?

13 Byrjaðu smátt. Okkur skortir kannski löngun af því að það virðist svo erfitt að ná markmiðinu. Þá gæti verið ráð að skipta markmiðinu niður í minni markmið. Ef markmið þitt er að vinna í einhverjum eiginleika hvers vegna ekki að byrja að sýna hann í einhverju smáu? Ef markmið þitt er að lesa alla Biblíuna gætirðu ákveðið að lesa í styttri tíma í einu. Tomáš, sem er minnst á í byrjun greinarinnar, átti erfitt með að ná markmiði sínu að lesa Biblíuna á einu ári. Hann segir: „Ég fattaði að ég hafði ætlað mér of mikið. Ég ákvað því að reyna aftur og í þetta skiptið las ég minni hluta á hverjum degi og hugleiddi hann. Þá fór ég að hafa ánægju af lestrinum.“ Þegar ánægja Tomášar jókst fór hann að lesa lengur í einu. Að lokum kláraði hann alla Biblíuna.c

EKKI LÁTA BAKSLAG DRAGA ÚR ÞÉR KJARK

14. Hvað getur gert okkur erfiðara fyrir að ná markmiðum okkar?

14 Hversu mikla löngun og sjálfstjórn sem við höfum gætum við því miður upplifað bakslag. „Óvæntir atburðir“ geta til dæmis rænt okkur tíma sem við þurfum til að vinna að markmiði okkar. (Préd. 9:11, neðanmáls) Við gætum lent í erfiðleikum og misst kjarkinn og orðið máttlítil. (Orðskv. 24:10) Ófullkomleikinn gæti gert okkur erfitt fyrir að ná markmiði okkar. (Rómv. 7:23) Eða við erum kannski bara þreytt. (Matt. 26:43) Hvað getur hjálpað okkur þegar við eigum slæman dag?

15. Þýðir bakslag að okkur hafi mistekist? Skýrðu svarið. (Sálmur 145:14)

15 Mundu að bakslag þýðir ekki að þér hafi mistekist. Biblían segir að við megum búast við því að lenda aftur og aftur í erfiðleikum. En hún lætur líka skýrt í ljós að við getum staðið upp aftur, sérstaklega með hjálp Jehóva. (Lestu Sálm 145:14.) Philip, sem minnst er á fyrr í greininni, metur ekki árangur eftir því hversu oft hann fellur heldur eftir því hversu oft hann kemur sér aftur á rétt spor. David, sem áður er vitnað í, segir: „Ég reyni að líta ekki á það sem hindranir þegar ég fæ bakslag heldur sem tækifæri til að sýna Jehóva hversu heitt ég elska hann.“ Með því að halda áfram að reyna að ná markmiði þínu, jafnvel þegar það er erfitt, sannarðu fyrir Jehóva að þú viljir gleðja hann. Það hlýtur að gleðja hann mikið að sjá þig halda áfram að vinna að markmiði þínu.

16. Hvað getum við lært af bakslagi?

16 Reyndu að læra af bakslaginu. Veltu því fyrir þér hvað orsakaði það og spyrðu sjálfan þig: „Get ég breytt einhverju til að forðast að endurtaka það?“ (Orðskv. 27:12) Stundum gæti bakslagið hins vegar gefið til kynna að markmiðið hafi ekki verið eins raunhæft og þú hélst. Ef sú er raunin skaltu endurmeta markmiðið til að sjá hvort það sé raunhæft í þínu tilfelli.d Jehóva álítur ekki að þér hafi mistekist ef þú nærð ekki markmiði sem var óraunhæft fyrir þig. – 2. Kor. 8:12.

17. Hvers vegna ættum við ekki að gleyma því sem við höfum þegar áorkað?

17 Mundu eftir því sem þú hefur þegar áorkað. Biblían segir: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar.“ (Hebr. 6:10) Þú ættir ekki heldur að gera það. Rifjaðu upp það sem þú hefur nú þegar áorkað, eins og að eignast vináttusamband við Jehóva, segja öðrum frá honum eða láta skírast. Þú getur haldið áfram að vinna að núverandi markmiði þínu rétt eins og þú hefur unnið að og náð andlegum markmiðum hingað til. – Fil. 3:16.

Sami maðurinn í bátnum horfir á höfrunga stökkva meðan sólin sest.

Njóttu ferðarinnar. (Sjá 18. grein.)

18. Hverju ættum við að muna eftir þegar við vinnum að markmiði okkar? (Sjá einnig mynd.)

18 Með hjálp Jehóva geturðu náð markmiði þínu rétt eins og siglingamaður sem kemst á áfangastað. En mundu að margir sem sigla njóta líka ferðarinnar. Reyndu líka alltaf að sjá hvernig Jehóva hjálpar þér. Það veitir þér meiri ánægju þegar þú vinnur að markmiði þínu. (2. Kor. 4:7) Ef þú gefst ekki upp muntu njóta enn meiri blessunar. – Gal. 6:9.

ÞEGAR VIÐ VINNUM AÐ ANDLEGU MARKMIÐI:

  • Hvernig getum við fengið sterkari löngun til að ná því?

  • Hvað getum við gert þegar okkur skortir löngun?

  • Hvernig ættum við að líta á bakslag?

SÖNGUR 126 Vakið, standið stöðug, verið styrk

a Við erum reglulega hvött til að setja okkur andleg markmið. En hvað ef við höfum þegar verðugt markmið sem við eigum í basli með að ná? Í þessari námsgrein verður fjallað um nokkrar tillögur sem geta hjálpað okkur að ná markmiðum okkar.

b ORÐASKÝRING: Andlegt markmið getur falið í sér allt sem þú leitast við að bæta eða áorka til að þjóna Jehóva betur og gleðja hann. Þú gætir til dæmis sett þér það markmið að þroska með þér kristinn eiginleika eða bæta þig í biblíulestri, sjálfsnámi, boðuninni eða á einhverju öðru sviði tilbeiðslunnar.

c Sjá bókina Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum, bls. 10–11, gr. 4.

d Hægt er að fá frekari upplýsingar í greininni „Gerðu sanngjarnar kröfur til sjálfs þín og haltu gleðinni í þjónustu Jehóva“ í Varðturninum 15. júlí 2008.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila