FIMMTA MÓSEBÓK
1 Móse talaði til alls Ísraels í óbyggðunum á Jórdansvæðinu, á eyðisléttunum á móts við Súf, í grennd við Paran, Tófel, Laban, Haserót og Dí Sabab. 2 Frá Hóreb til Kades Barnea+ eru 11 dagleiðir ef farin er leiðin til Seírfjalla. 3 Á 40. árinu,+ á fyrsta degi 11. mánaðarins, ávarpaði Móse Ísraelsmenn og sagði þeim allt sem Jehóva hafði falið honum að flytja þeim. 4 Þetta var eftir að hann sigraði Síhon,+ konung Amoríta sem bjó í Hesbon, og vann sigur á Óg,+ konungi í Basan, við Edreí, en hann bjó í Astarót.+ 5 Það var á Jórdansvæðinu í Móabslandi sem Móse tók að útskýra lögin.+ Hann sagði:
6 „Jehóva Guð okkar sagði við okkur við Hóreb: ‚Þið hafið verið nógu lengi í þessu fjalllendi.+ 7 Leggið nú af stað í átt að fjalllendi Amoríta+ og að nágrannasvæðum þeirra, það er Araba,+ fjalllendinu, Sefela, Negeb og sjávarströndinni,+ í átt að landi Kanverja og Líbanon,*+ allt til fljótsins mikla, Efrat.+ 8 Ég læt ykkur landið í té. Farið og takið landið sem Jehóva sór að gefa feðrum ykkar, Abraham, Ísak+ og Jakobi,+ og afkomendum þeirra.‘+
9 Ég sagði við ykkur á þeim tíma: ‚Ég get ekki borið ábyrgð á ykkur einn.+ 10 Jehóva Guð ykkar hefur fjölgað ykkur svo að nú eruð þið eins mörg og stjörnur himins.+ 11 Megi Jehóva, Guð forfeðra ykkar, fjölga ykkur+ þúsundfalt og megi hann blessa ykkur eins og hann hefur lofað.+ 12 Hvernig get ég einn borið ábyrgð á ykkur og tekið á vandamálum ykkar og kvörtunum?+ 13 Veljið vitra, skynsama og reynda menn úr ættkvíslum ykkar og ég mun skipa þá forystumenn meðal ykkar.‘+ 14 Þið svöruðuð mér: ‚Þetta er góð hugmynd hjá þér.‘ 15 Ég sótti þá höfðingja ættkvísla ykkar, vitra og reynda menn, og skipaði þá forystumenn meðal ykkar, höfðingja yfir þúsund, yfir hundrað, yfir fimmtíu og yfir tíu og skipaði umsjónarmenn í ættkvíslum ykkar.+
16 Ég gaf dómurum ykkar þessi fyrirmæli: ‚Þegar þið takið fyrir mál milli bræðra ykkar eigið þið að fella réttláta dóma,+ hvort heldur þið dæmið milli tveggja Ísraelsmanna eða Ísraelsmanns og útlendings.+ 17 Verið ekki hlutdrægir í dómi.+ Hlustið jafnt á lága sem háa.+ Óttist ekki menn+ því að þið dæmið í umboði Guðs+ og ef mál er ykkur ofviða skuluð þið skjóta því til mín og ég tek það fyrir.‘+ 18 Ég gaf ykkur fyrirmæli um allt sem þið áttuð að gera.
19 Síðan héldum við frá Hóreb og fórum gegnum þessar miklu og ógurlegu óbyggðir+ sem þið sáuð, leiðina til fjalllendis Amoríta,+ eins og Jehóva Guð okkar hafði sagt okkur að gera. Að lokum komum við til Kades Barnea.+ 20 Þá sagði ég við ykkur: ‚Þið eruð komin að fjalllendi Amoríta sem Jehóva Guð okkar gefur okkur. 21 Jehóva Guð ykkar hefur gefið ykkur landið. Farið og takið það eins og Jehóva, Guð forfeðra ykkar, hefur sagt ykkur að gera.+ Óttist ekki né skelfist.‘
22 En þið komuð öll til mín og sögðuð: ‚Sendum menn á undan okkur til að kanna landið og segja okkur síðan hvaða leið við eigum að fara og hvers konar borga við komum til.‘+ 23 Mér þótti það góð hugmynd svo að ég valdi 12 menn úr ykkar hópi, einn úr hverri ættkvísl.+ 24 Þeir fóru upp í fjalllendið,+ komu í Eskoldal og könnuðu hann. 25 Þeir tóku með sér dálítið af ávöxtum landsins og færðu okkur, og þeir sögðu: ‚Það er gott land sem Jehóva Guð okkar gefur okkur.‘+ 26 En þið neituðuð að fara þangað og gerðuð uppreisn gegn fyrirmælum Jehóva Guðs ykkar.+ 27 Þið nöldruðuð í tjöldum ykkar og sögðuð: ‚Jehóva hatar okkur. Þess vegna leiddi hann okkur út úr Egyptalandi til að selja okkur í hendur Amorítum og útrýma okkur. 28 Á hvers konar stað erum við eiginlega að fara? Bræður okkar drógu úr okkur kjark*+ og sögðu: „Fólkið er stærra og sterkara en við og borgirnar eru stórar og með himinháum múrum+ og svo sáum við Anakíta+ þar.“‘
29 Þá sagði ég við ykkur: ‚Óttist ekki. Látið þá ekki skelfa ykkur.+ 30 Jehóva Guð ykkar fer á undan ykkur og berst fyrir ykkur+ rétt eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi.+ 31 Í óbyggðunum sáuð þið hvernig Jehóva Guð ykkar bar ykkur hvert sem þið fóruð þangað til þið komuð hingað, rétt eins og maður ber son sinn.‘ 32 En þrátt fyrir allt þetta treystuð þið ekki á Jehóva Guð ykkar+ 33 sem fór á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann birtist í eldi á nóttinni og skýi á daginn til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að fara.+
34 Jehóva heyrði allan tímann hvað þið sögðuð og hann reiddist og sór hátíðlega:+ 35 ‚Enginn maður af þessari illu kynslóð fær að sjá landið góða sem ég sór að gefa feðrum ykkar+ 36 nema Kaleb Jefúnneson. Hann fær að sjá það og ég gef honum og sonum hans landið þar sem hann gekk vegna þess að hann hefur fylgt Jehóva af heilum hug.*+ 37 (Jehóva reiddist mér jafnvel vegna ykkar og sagði: „Þú færð ekki heldur að fara þangað.+ 38 Jósúa Núnsson þjónn þinn*+ fær að ganga inn í landið.+ Stappaðu í hann stálinu*+ því að hann mun fara fyrir Ísraelsmönnum þegar þeir taka landið.“) 39 Og börn ykkar, sem þið sögðuð að yrðu tekin herfangi,+ og synir ykkar, sem kunna ekki enn að greina gott frá illu, fá að fara inn í landið og ég gef þeim það til eignar.+ 40 Þið skuluð hins vegar snúa við og fara út í óbyggðirnar, leiðina til Rauðahafs.‘+
41 Þá sögðuð þið við mig: ‚Við höfum syndgað gegn Jehóva. Nú skulum við fara og berjast eins og Jehóva Guð okkar hefur skipað okkur!‘ Þið herklæddust allir og hélduð að það yrði hægðarleikur að komast upp í fjalllendið.+ 42 En Jehóva sagði mér að segja ykkur: ‚Þið skuluð ekki fara og berjast því að ég verð ekki með ykkur.+ Ef þið farið bíðið þið ósigur fyrir óvinum ykkar.‘ 43 Ég sagði ykkur þetta en þið hlustuðuð ekki heldur gerðuð uppreisn gegn skipun Jehóva og sýnduð þann hroka að reyna að komast upp í fjalllendið. 44 Amorítarnir sem bjuggu í fjalllendinu réðust þá gegn ykkur, eltu ykkur eins og býflugur, tvístruðu ykkur í Seír og hröktu ykkur allt til Horma. 45 Þið sneruð til baka og grétuð frammi fyrir Jehóva en Jehóva hlustaði ekki á ykkur og gaf ykkur engan gaum. 46 Þess vegna dvöldust þið svona lengi í Kades.
2 Síðan snerum við aftur út í óbyggðirnar eftir veginum til Rauðahafs eins og Jehóva hafði sagt mér að gera+ og við vorum lengi á ferð um fjalllendi Seír. 2 Að lokum sagði Jehóva við mig: 3 ‚Þið hafið verið nógu lengi á ferð um þetta fjalllendi. Haldið nú í norður. 4 Gefðu fólkinu þessi fyrirmæli: „Bráðlega farið þið meðfram landamærum bræðra ykkar, afkomenda Esaú+ sem búa í Seír.+ Þeir munu óttast ykkur+ og þið verðið að fara mjög varlega. 5 Stofnið ekki til ófriðar við þá* því að ég gef ykkur ekkert af landi þeirra, ekki svo mikið sem þverfet. Ég hef gefið Esaú Seírfjöll til eignar.+ 6 Þið skuluð borga þeim fyrir matinn sem þið borðið og vatnið sem þið drekkið+ 7 því að Jehóva Guð ykkar hefur blessað ykkur í öllu sem þið hafið gert. Hann hefur haft auga með ykkur á göngunni um þessar miklu óbyggðir. Jehóva Guð ykkar hefur verið með ykkur þessi 40 ár og ykkur hefur ekki skort neitt.“‘+ 8 Við fórum því fram hjá bræðrum okkar, afkomendum Esaú+ sem búa í Seír, og forðuðumst Arabaveginn, Elat og Esjón Geber.+
Við beygðum síðan og fórum leiðina til óbyggða Móabs.+ 9 Jehóva sagði þá við mig: ‚Stofnið ekki til ófriðar eða átaka við Móab því að ég gef ykkur ekkert af landi hans til eignar. Ég hef gefið afkomendum Lots+ borgina Ar til eignar. 10 (Emítar+ bjuggu þar áður, voldugir, fjölmennir og stórvaxnir eins og Anakítar. 11 Refaítar+ litu einnig út eins og Anakítar+ og Móabítar kölluðu þá líka Emíta. 12 Áður bjuggu Hórítar+ í Seír en afkomendur Esaú tóku landið, útrýmdu þeim og settust þar að+ eins og Ísraelsmenn munu gera við eignarland sitt sem Jehóva ætlar að gefa þeim.) 13 Farið nú þvert yfir Sereddal.‘ Við fórum þá yfir Sereddal.+ 14 Það liðu 38 ár frá því að við fórum frá Kades Barnea þar til við fórum yfir Sereddal. Þá var öll kynslóð vopnfærra manna í búðunum dáin eins og Jehóva hafði svarið.+ 15 Hönd Jehóva var gegn þeim og upprætti þá úr búðunum þar til enginn þeirra var eftir.+
16 Þegar allir vopnfærir menn meðal fólksins voru dánir+ 17 talaði Jehóva aftur við mig og sagði: 18 ‚Í dag skuluð þið fara fram hjá yfirráðasvæði Móabs, það er að segja Ar. 19 Þegar þið nálgist Ammóníta skuluð þið ekki áreita þá né ögra þeim því að ég gef ykkur ekkert af landi Ammóníta til eignar. Ég hef gefið það afkomendum Lots til eignar.+ 20 Það var líka talið vera land Refaíta.+ (Refaítar bjuggu þar áður, en Ammónítar kölluðu þá Samsúmmíta. 21 Þeir voru voldugir, fjölmennir og stórvaxnir eins og Anakítar+ en Jehóva sigraði þá frammi fyrir Ammónítum og Ammónítar ráku þá burt og settust þar að í stað þeirra. 22 Það var það sama og hann gerði fyrir afkomendur Esaú, sem búa nú í Seír,+ þegar hann útrýmdi Hórítum+ svo að þeir gætu tekið landið og búið þar fram á þennan dag. 23 Avítar höfðu búið í bæjum á Gasasvæðinu+ þar til Kaftórítar,+ sem komu frá Kaftór,* útrýmdu þeim og settust þar að í stað þeirra.)
24 Takið ykkur upp og farið yfir Arnondal.+ Ég hef gefið Amorítann Síhon,+ konung í Hesbon, ykkur á vald. Hefjist handa við að leggja land hans undir ykkur og farið í stríð við hann. 25 Frá og með deginum í dag vek ég ótta og skelfingu við ykkur meðal allra þjóða undir himninum sem heyra um ykkur. Þær verða kvíðnar og skjálfa af ótta við ykkur.‘*+
26 Þá sendi ég menn úr óbyggðum Kedemót+ með þessi friðsamlegu boð+ til Síhons, konungs í Hesbon: 27 ‚Leyfðu mér að fara gegnum land þitt. Ég skal halda mig á veginum og hvorki víkja til hægri né vinstri.+ 28 Ég skal kaupa af þér matinn sem ég borða og vatnið sem ég drekk. Leyfðu mér bara að fara fótgangandi gegnum landið 29 – eins og afkomendur Esaú sem búa í Seír og Móabítar sem búa í Ar leyfðu mér – svo að ég geti farið yfir Jórdan inn í landið sem Jehóva Guð okkar gefur okkur.‘ 30 En Síhon, konungur í Hesbon, meinaði okkur að fara gegnum landið því að Jehóva Guð ykkar leyfði honum að verða þrjóskur+ og herða hjarta sitt til að geta gefið hann í ykkar hendur eins og nú er orðið.+
31 Síðan sagði Jehóva við mig: ‚Ég hef þegar hafist handa við að gefa Síhon og land hans í ykkar hendur. Leggið nú undir ykkur land hans.‘+ 32 Þegar Síhon kom á móti okkur með öllu herliði sínu til að berjast við okkur við Jahas+ 33 gaf Jehóva Guð hann okkur á vald og við sigruðum hann, syni hans og allt herlið hans. 34 Við tókum allar borgir hans og eyddum þeim og útrýmdum* körlum, konum og börnum. Við létum engan komast undan.+ 35 Það eina sem við tókum handa okkur var búféð og herfangið úr borgunum sem við höfðum unnið. 36 Frá Aróer,+ sem stendur á brún Arnondals (að borginni í dalnum meðtalinni), alla leið til Gíleaðs var engin borg sem okkur var ókleift að vinna. Jehóva Guð okkar gaf okkur þær allar.+ 37 Þið komuð þó ekki nálægt landi Ammóníta,+ svæðinu meðfram Jabbokdal+ og borgunum í fjalllendinu, né nokkrum öðrum stað sem Jehóva Guð okkar bannaði okkur að taka.
3 Síðan héldum við sem leið lá eftir veginum til Basans. Óg, konungur í Basan, kom á móti okkur með öllu herliði sínu til að berjast við okkur við Edreí.+ 2 Þá sagði Jehóva við mig: ‚Óttastu hann ekki því að ég ætla að gefa hann og alla menn hans og land í þínar hendur. Farðu með hann eins og þú fórst með Síhon, konung Amoríta sem bjó í Hesbon.‘ 3 Jehóva Guð okkar gaf síðan Óg, konung í Basan, og allt herlið hans í okkar hendur. Við felldum hann og menn hans og enginn komst undan. 4 Við tókum síðan allar borgir hans. Engin borg var undanskilin. Þetta voru 60 borgir, allt Argóbsvæðið, ríki Ógs í Basan.+ 5 Allar þessar borgir voru víggirtar með háum múrum, hliðum og slagbröndum. Auk þess tókum við fjölmörg þorp. 6 En við eyddum þeim*+ eins og við höfðum gert hjá Síhon, konungi í Hesbon. Við eyddum hverri einustu borg og útrýmdum* körlum, konum og börnum.+ 7 En allt búféð og herfangið úr borgunum tókum við handa okkur.
8 Við tókum sem sagt land beggja Amorítakonunganna+ á Jórdansvæðinu, frá Arnondal allt að Hermonfjalli+ 9 (fjallinu sem Sídoningar kölluðu Sirjon og Amorítar Senír), 10 allar borgirnar á hásléttunni, allt Gíleað og allt Basan alla leið til Salka og Edreí,+ borganna í ríki Ógs í Basan. 11 Óg, konungur í Basan, var síðasti Refaítinn. Líkbörur* hans voru úr járni* og er enn að finna í Rabba, borg Ammóníta. Þær eru níu álnir* á lengd og fjórar á breidd, mælt með stöðluðu alinmáli. 12 Þetta er landið sem við tókum til eignar: svæðið frá Aróer+ sem er við Arnondal og hálft fjalllendi Gíleaðs. Borgirnar þar hef ég gefið Rúbenítum og Gaðítum.+ 13 Það sem eftir er af Gíleað og allt Basan, ríki Ógs, hef ég gefið hálfri ættkvísl Manasse.+ Allt Argóbsvæðið, sem tilheyrir Basan, var kallað land Refaíta.
14 Jaír+ sonur Manasse tók allt Argóbsvæðið,+ allt að landamörkum Gesúríta og Maakatíta,+ og nefndi þessi þorp í Basan eftir sjálfum sér og þau heita Havót Jaír*+ enn þann dag í dag. 15 Ég hef gefið Makír Gíleað.+ 16 Og Rúbenítum og Gaðítum+ hef ég gefið svæðið frá Gíleað að Arnondal, með landamörk í miðjum dalnum, og allt að Jabbokdal sem er á landamærum Ammóníta, 17 svo og Araba, Jórdan og austurbakkann frá Kinneret að Arabavatni, Saltasjó,* undir Pisgahlíðum austan megin.+
18 Ég gaf ykkur þá þessi fyrirmæli: ‚Jehóva Guð ykkar hefur gefið ykkur þetta land til eignar. Allir hugrakkir menn meðal ykkar skulu vopnbúast og fara yfir Jórdan fremstir í flokki meðal bræðra ykkar, Ísraelsmanna.+ 19 Aðeins konur ykkar, börn og búfé (ég veit vel að þið eigið mikið búfé) skulu vera eftir í borgunum sem ég hef gefið ykkur 20 þar til Jehóva veitir bræðrum ykkar hvíld eins og ykkur og þeir hafa líka tekið til eignar landið sem Jehóva Guð ykkar gefur þeim hinum megin við Jórdan. Þá skuluð þið snúa aftur, hver til landareignar sinnar sem ég hef gefið ykkur.‘+
21 Þá gaf ég Jósúa+ þessi fyrirmæli: ‚Þú hefur séð með eigin augum hvað Jehóva Guð þinn hefur gert við þessa tvo konunga. Eins mun Jehóva fara með öll konungsríkin sem þú ferð til handan árinnar.+ 22 Þið skuluð ekki óttast þau því að Jehóva Guð ykkar berst sjálfur fyrir ykkur.‘+
23 Ég bað síðan innilega til Jehóva og sagði: 24 ‚Alvaldur Drottinn Jehóva, þú hefur þegar sýnt þjóni þínum hve mikill þú ert og máttug hönd þín.+ Hvaða guð á himni eða jörð vinnur máttarverk sem jafnast á við þín?+ 25 Viltu leyfa mér að fara yfir ána og sjá landið góða hinum megin við Jórdan, þetta góða fjalllendi og Líbanon.‘+ 26 En Jehóva var enn reiður út í mig vegna ykkar+ og hlustaði ekki á mig. Jehóva sagði við mig: ‚Nú er nóg komið! Nefndu þetta aldrei framar við mig. 27 Farðu upp á Pisgatind+ og horfðu til vesturs, norðurs, suðurs og austurs og sjáðu landið með eigin augum því að þú færð ekki að fara yfir Jórdan.+ 28 Skipaðu Jósúa leiðtoga,+ hvettu hann og stappaðu í hann stálinu því að það er hann sem fer fyrir þessu fólki yfir ána+ og sér til þess að það taki landið sem þú færð að sjá.‘ 29 Allt þetta gerðist meðan við dvöldumst í dalnum á móts við Bet Peór.+
4 Hlustið nú, Ísraelsmenn, á lögin og ákvæðin sem ég kenni ykkur að halda. Þá munuð þið lifa+ og komast inn í landið sem Jehóva, Guð forfeðra ykkar, gefur ykkur og taka það til eignar. 2 Þið megið ekki bæta neinu við þau fyrirmæli sem ég gef ykkur né sleppa neinu+ heldur skuluð þið halda boðorð Jehóva Guðs ykkar sem ég flyt ykkur.
3 Þið hafið séð með eigin augum hvað Jehóva gerði í máli Baals Peórs. Jehóva Guð ykkar upprætti úr hópi ykkar alla þá sem fylgdu Baal Peór.+ 4 En þið sem hafið haldið ykkur fast við Jehóva Guð ykkar eruð öll á lífi fram á þennan dag. 5 Ég hef kennt ykkur lög og ákvæði+ eins og Jehóva Guð minn hefur sagt mér að gera til að þið fylgið þeim í landinu sem þið takið nú til eignar. 6 Þið skuluð fylgja þeim vandlega+ því að þá munu þjóðirnar sem heyra um öll þessi ákvæði átta sig á að þið eruð vitur+ og skynsöm+ og segja: ‚Fólk af þessari miklu þjóð er greinilega viturt og skynsamt.‘+ 7 Hvaða stórþjóð á guði sem eru eins nálægir henni og Jehóva Guð er okkur þegar við áköllum hann?+ 8 Og hvaða stórþjóð hefur eins réttlát lög og ákvæði og þau lög sem ég legg fyrir ykkur í dag?+
9 Vertu varkár og gættu þín svo að þú gleymir ekki því sem þú hefur séð með eigin augum. Varðveittu það í hjarta þér alla ævidaga þína og segðu börnum þínum og barnabörnum frá því.+ 10 Daginn sem þú stóðst frammi fyrir Jehóva Guði þínum við Hóreb sagði Jehóva við mig: ‚Kallaðu saman fólkið svo að ég geti látið það heyra orð mín+ og það læri að óttast mig+ eins lengi og það lifir í landinu og geti kennt börnum sínum.‘+
11 Þið komuð þá og stóðuð við fjallsræturnar, og fjallið stóð í ljósum logum og eldurinn teygði sig allt til himins.* Það var myrkur og himinninn var þakinn dimmum skýjum.+ 12 Jehóva talaði til ykkar úr eldinum.+ Þið heyrðuð orðin en sáuð engan+ – þið heyrðuð bara rödd.+ 13 Og hann birti ykkur sáttmála sinn+ og sagði ykkur að halda hann – boðorðin tíu.*+ Síðan skrifaði hann þau á tvær steintöflur.+ 14 Jehóva sagði mér þá að kenna ykkur lög og ákvæði sem þið eigið að halda í landinu sem þið farið inn í og takið til eignar.
15 Þið sáuð enga mynd daginn sem Jehóva talaði til ykkar úr eldinum við Hóreb. Gætið ykkar því vandlega 16 svo að þið gerið ekkert skaðvænlegt með því að gera ykkur úthöggvið líkneski í einhverri mynd, hvort heldur af karli eða konu,+ 17 eftirmynd af nokkru dýri á jörðinni eða fugli sem flýgur um loftið+ 18 eða eftirmynd af nokkru sem skríður á jörðinni eða nokkrum fiski í vötnunum á jörðinni.+ 19 Og þegar þú horfir til himins og sérð sólina, tunglið og stjörnurnar – allan himinsins her – skaltu ekki láta tælast til að falla fram fyrir þeim og þjóna þeim.+ Jehóva Guð þinn hefur gefið þau öllum þjóðum undir himninum. 20 En ykkur hefur Jehóva leitt út úr járnbræðsluofninum, út úr Egyptalandi, til að þið yrðuð eignarþjóð* hans+ eins og þið eruð í dag.
21 Jehóva reiddist mér vegna ykkar+ og sór að ég fengi ekki að fara yfir Jórdan eða inn í landið góða sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur að erfðahlut.+ 22 Ég á að deyja í þessu landi. Ég fer ekki yfir Jórdan+ en þið farið yfir hana og takið þetta góða land til eignar. 23 Gætið þess að gleyma ekki sáttmálanum sem Jehóva Guð ykkar gerði við ykkur+ og gerið ykkur ekki úthöggvið líkneski, nokkra eftirmynd af því tagi sem Jehóva Guð ykkar bannar ykkur að gera.+ 24 Jehóva Guð ykkar er eyðandi eldur,+ Guð sem krefst óskiptrar hollustu.+
25 Ef svo fer, eftir að þið hafið búið lengi í landinu og eignast börn og barnabörn, að þið hegðið ykkur skaðvænlega og gerið úthöggvið líkneski+ af einhverju tagi og gerið það sem er illt í augum Jehóva Guðs ykkar svo að þið misbjóðið honum+ 26 þá kalla ég himin og jörð til vitnis gegn ykkur í dag um að ykkur verður snarlega útrýmt úr landinu sem þið farið nú inn í yfir Jórdan og takið til eignar. Þá lifið þið ekki lengi þar heldur verður ykkur gereytt.+ 27 Jehóva mun dreifa ykkur meðal þjóðanna+ og aðeins fáein ykkar lifa af+ meðal þeirra þjóða sem Jehóva hrekur ykkur til. 28 Þar þurfið þið að þjóna guðum úr tré og steini sem eru handaverk manna,+ guðum sem hvorki sjá né heyra, borða né finna lykt.
29 Ef þið leitið Jehóva Guðs ykkar þar munuð þið finna hann,+ ef þið leitið hans af öllu hjarta og allri sál.*+ 30 Á ókomnum tíma, þegar allt þetta hefur komið yfir ykkur og þið eruð í nauðum stödd, þá munuð þið snúa aftur til Jehóva Guðs ykkar og hlusta á hann+ 31 því að Jehóva Guð ykkar er miskunnsamur Guð.+ Hann mun ekki yfirgefa ykkur né láta ykkur farast og hann gleymir ekki sáttmálanum sem hann gerði við forfeður ykkar.+
32 Spyrjið um fyrri daga, fyrir ykkar tíð, um það sem hefur gerst síðan Guð skapaði manninn á jörðinni. Leitið frá öðrum endimörkum himins til hinna. Hefur nokkuð jafn stórfenglegt gerst áður eða hefur heyrst um nokkuð slíkt?+ 33 Hefur nokkur önnur þjóð heyrt rödd Guðs út úr eldi eins og þið hafið heyrt og samt haldið lífi?+ 34 Eða hefur Guð nokkurn tíma reynt að ná einni þjóð af annarri með dómum,* táknum, kraftaverkum+ og stríði,+ og með sterkri hendi,+ útréttum handlegg og ógnvekjandi verkum+ eins og Jehóva Guð ykkar gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi? 35 Þið hafið sjálf fengið að sjá þetta til að þið vitið að Jehóva er hinn sanni Guð.+ Enginn er Guð nema hann.+ 36 Hann lét ykkur heyra rödd sína af himni til að leiðrétta ykkur og hann lét ykkur sjá sinn mikla eld á jörðinni, og þið heyrðuð orð hans út úr eldinum.+
37 Hann elskaði forfeður ykkar og valdi afkomendur þeirra.+ Þess vegna hafði hann vakandi auga með ykkur þegar hann leiddi ykkur út úr Egyptalandi með miklum mætti sínum. 38 Hann hrakti burt þjóðir sem voru meiri og voldugri en þið til að leiða ykkur inn í land þeirra og gefa ykkur það að erfðalandi eins og það er nú orðið.+ 39 Þess vegna skuluð þið nú í dag játa og hugfesta að Jehóva er hinn sanni Guð uppi á himnum og niðri á jörð.+ Enginn annar er til.+ 40 Haldið lög hans og boðorð sem ég legg fyrir ykkur í dag til að ykkur og börnum ykkar gangi vel og þið lifið lengi í landinu sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur.“+
41 Um þessar mundir valdi Móse þrjár borgir austan megin við Jórdan.+ 42 Ef maður varð öðrum óviljandi að bana, og hataði hann ekki fyrir,+ átti hann að flýja til einnar af þessum borgum til að halda lífi.+ 43 Borgirnar eru Beser+ í óbyggðunum á hásléttunni fyrir Rúbeníta, Ramót+ í Gíleað fyrir Gaðíta og Gólan+ í Basan fyrir Manassíta.+
44 Þetta eru lögin+ sem Móse lagði fyrir Ísraelsmenn. 45 Þetta eru þær áminningar, ákvæði og lög sem Móse gaf Ísraelsmönnum eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland.+ 46 Þeir voru þá á Jórdansvæðinu, í dalnum á móts við Bet Peór+ í landi Síhons, konungs Amoríta sem bjó í Hesbon,+ en Móse og Ísraelsmenn unnu hann eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland.+ 47 Þeir lögðu undir sig land hans og land Ógs,+ konungs í Basan, Amorítakonunganna tveggja á svæðinu austan við Jórdan. 48 Svæðið náði frá Aróer,+ sem er á brún Arnondals, að Síónfjalli, það er Hermon,+ 49 yfir allt Araba austan við Jórdan og að Arabavatni* undir Pisgahlíðum.+
5 Móse kallaði nú saman allan Ísrael og sagði: „Heyrið, Ísraelsmenn, þau lög og ákvæði sem ég boða ykkur í dag. Þið skuluð læra þau og halda þau vel og vandlega. 2 Jehóva Guð okkar gerði sáttmála við okkur hjá Hóreb.+ 3 Jehóva gerði ekki þennan sáttmála við forfeður okkar heldur við okkur sem nú lifum, okkur öll sem erum hér í dag. 4 Jehóva talaði við ykkur augliti til auglitis á fjallinu, úr eldinum.+ 5 Ég stóð þá milli Jehóva og ykkar+ til að flytja ykkur orð Jehóva því að þið voruð hrædd vegna eldsins og fóruð ekki upp á fjallið.+ Hann sagði:
6 ‚Ég er Jehóva Guð þinn sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.+ 7 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.*+
8 Þú skalt ekki gera þér úthöggvið líkneski+ eða eftirmynd* af nokkru sem er uppi á himnum, niðri á jörðinni eða í vötnunum. 9 Þú skalt ekki falla fram fyrir þeim né láta freistast til að þjóna þeim+ því að ég, Jehóva Guð þinn, er Guð sem krefst óskiptrar hollustu.+ Ég læt refsinguna fyrir syndir feðra koma niður á börnunum í þriðja og fjórða ættlið þeirra sem hata mig+ 10 en sýni afkomendum þeirra sem elska mig og halda boðorð mín tryggan kærleika* í þúsund kynslóðir.
11 Þú skalt ekki nota nafn Jehóva Guðs þíns á óviðeigandi hátt+ því að Jehóva lætur þeim ekki órefsað sem notar nafn hans á óviðeigandi hátt.+
12 Haltu hvíldardaginn heilagan eins og Jehóva Guð þinn hefur sagt þér að gera.+ 13 Þú átt að vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum+ 14 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Jehóva Guði þínum.+ Þá máttu ekkert vinna,+ hvorki þú né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn eða ambátt, né naut þitt, asni eða nokkur af skepnum þínum né útlendingurinn sem býr í borgum þínum.*+ Þannig fá þræll þinn og ambátt að hvílast eins og þú.+ 15 Mundu að þú varst þræll í Egyptalandi og að Jehóva Guð þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum handlegg.+ Þess vegna sagði Jehóva Guð þinn þér að halda hvíldardaginn.
16 Sýndu föður þínum og móður virðingu+ eins og Jehóva Guð þinn hefur sagt þér að gera svo að þú lifir lengi og þér vegni vel í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér.+
17 Þú skalt ekki myrða.+
18 Þú skalt ekki fremja hjúskaparbrot.+
19 Þú skalt ekki stela.+
20 Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.+
21 Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns.+ Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns eða akur, þræl hans eða ambátt, naut hans eða asna né nokkuð sem náungi þinn á.‘+
22 Jehóva gaf öllum söfnuði ykkar þessi boðorð* á fjallinu þegar hann talaði hárri röddu úr eldinum, skýinu og svartamyrkrinu,+ og hann bætti engu við. Síðan skráði hann þau á tvær steintöflur og fékk mér þær.+
23 En þegar þið höfðuð heyrt röddina úr myrkrinu, meðan fjallið stóð í ljósum logum,+ komu allir höfðingjar ættkvísla ykkar til mín ásamt öldungum ykkar. 24 Þið sögðuð: ‚Jehóva Guð okkar hefur sýnt okkur hve dýrlegur og mikill hann er og við höfum heyrt rödd hans úr eldinum.+ Í dag höfum við séð að Guð getur talað við menn og þeir geta þó haldið lífi.+ 25 En hvers vegna ættum við að deyja? Þessi mikli eldur gæti gleypt okkur. Ef við höldum áfram að heyra rödd Jehóva Guðs okkar hljótum við að deyja. 26 Hvaða maður hefur nokkurn tíma heyrt hinn lifandi Guð tala úr eldi eins og við og samt haldið lífi? 27 Farðu einn og hlustaðu á allt sem Jehóva Guð okkar segir. Skýrðu okkur síðan frá öllu sem Jehóva Guð okkar segir þér og við skulum hlusta og hlýða.‘+
28 Jehóva heyrði hvað þið sögðuð við mig og Jehóva sagði við mig: ‚Ég hef heyrt hvað þetta fólk sagði við þig og það hefur rétt fyrir sér.+ 29 Óskandi væri að hjörtu þess hneigðust alltaf til þess að óttast mig+ og halda öll boðorð mín.+ Þá myndi því og börnum þess ganga vel um alla framtíð.+ 30 Farðu og segðu fólkinu: „Snúið aftur til tjalda ykkar.“ 31 En þú skalt vera kyrr hér hjá mér og ég skal flytja þér öll boðorðin, ákvæðin og lögin sem þú átt að kenna fólkinu og það á að fylgja í landinu sem ég gef því til eignar.‘ 32 Gætið þess nú vandlega að fara eftir fyrirmælum Jehóva Guðs ykkar.+ Víkið hvorki til hægri né vinstri.+ 33 Gangið í einu og öllu þann veg sem Jehóva Guð ykkar hefur vísað ykkur á+ til að ykkur vegni vel og þið lifið langa ævi í landinu sem þið takið til eignar.+
6 Þetta eru þau boðorð, ákvæði og lög sem Jehóva Guð ykkar hefur sagt mér að kenna ykkur til að þið haldið þau þegar þið farið inn í landið sem þið eigið að taka til eignar. 2 Þið skuluð óttast Jehóva Guð ykkar alla ævidaga ykkar og halda öll ákvæði hans og boðorð sem ég flyt ykkur – þið, börn ykkar og barnabörn+ – svo að þið verðið langlíf.+ 3 Hlustaðu, Ísrael, og fylgdu þeim vandlega svo að þér vegni vel og ykkur fjölgi stórlega í landinu sem flýtur í mjólk og hunangi eins og Jehóva, Guð forfeðra ykkar, hefur lofað ykkur.
4 Hlustaðu, Ísrael: Jehóva er Guð okkar og það er aðeins einn Jehóva.+ 5 Þú skalt elska Jehóva Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál*+ þinni og öllum mætti þínum.*+ 6 Geymdu í hjarta þér þessi orð sem ég boða þér í dag. 7 Brýndu þau fyrir* börnum* þínum+ og talaðu um þau þegar þú situr heima og þegar þú ert á gangi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú ferð á fætur.+ 8 Þú skalt binda þau á hönd þína til að muna eftir þeim og hafa þau eins og ennisband á höfði þér.*+ 9 Skrifaðu þau á dyrastafi húss þíns og borgarhlið þín.
10 Jehóva Guð þinn leiðir þig nú inn í landið sem hann sór forfeðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi, að gefa þér+ – land með stórum og fögrum borgum sem þú reistir ekki,+ 11 húsum fullum af alls kyns góðum hlutum sem þú vannst ekki fyrir, vatnsþróm sem þú hjóst ekki í klöpp og víngörðum og ólívutrjám sem þú gróðursettir ekki. Þegar þú hefur fengið þetta og borðað þig saddan+ 12 skaltu gæta þess að gleyma ekki Jehóva+ sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 13 Jehóva Guð þinn skaltu óttast,+ honum skaltu þjóna+ og við nafn hans skaltu sverja.+ 14 Þú skalt ekki fylgja öðrum guðum, ekki neinum af guðum þjóðanna sem búa í kringum þig,+ 15 því að Jehóva Guð þinn, sem er mitt á meðal ykkar, er Guð sem krefst óskiptrar hollustu.+ Annars mun reiði Jehóva Guðs ykkar blossa upp gegn ykkur+ og hann eyðir ykkur af yfirborði jarðar.+
16 Þið skuluð ekki ögra Jehóva Guði ykkar+ eins og þið ögruðuð honum í Massa.+ 17 Fylgið í einu og öllu boðorðum Jehóva Guðs ykkar, áminningum hans og ákvæðum sem hann hefur sagt ykkur að fara eftir. 18 Gerið það sem er rétt og gott í augum Jehóva svo að ykkur vegni vel og þið komist inn í landið góða sem Jehóva hét forfeðrum ykkar og getið tekið það.+ 19 Allir óvinir ykkar verða hraktir burt eins og Jehóva hefur lofað.+
20 Þegar sonur þinn spyr þig seinna meir: ‚Af hverju gaf Jehóva Guð ykkur þessar áminningar, ákvæði og lög?‘ 21 þá skaltu svara honum: ‚Við vorum þrælar faraós í Egyptalandi en Jehóva leiddi okkur út úr Egyptalandi með sterkri hendi. 22 Jehóva gerði tákn og kraftaverk fyrir augum okkar, mikil og skæð, sem gengu yfir Egyptaland,+ faraó og allt heimilisfólk hans.+ 23 Hann leiddi okkur út þaðan til að koma með okkur hingað og gefa okkur landið sem hann hafði heitið forfeðrum okkar.+ 24 Síðan sagði Jehóva okkur að fylgja öllum þessum ákvæðum og óttast Jehóva Guð okkar svo að okkur farnaðist alltaf vel+ og við héldum lífi+ eins og nú er raunin. 25 Og við verðum talin réttlát ef við fylgjum öllum þessum boðum vandlega og hlýðum* Jehóva Guði okkar eins og hann hefur gefið okkur fyrirmæli um.‘+
7 Þegar Jehóva Guð þinn leiðir þig inn í landið sem þú ert í þann mund að taka til eignar+ hrekur hann burt undan þér fjölmennar þjóðir:+ Hetíta, Gírgasíta, Amoríta,+ Kanverja, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta,+ sjö þjóðir sem eru fjölmennari og öflugri en þú.+ 2 Jehóva Guð þinn gefur þær þér á vald og þú munt sigra þær.+ Þú skalt útrýma þeim.*+ Þú mátt ekki gera nokkurn sáttmála við þær né sýna þeim miskunn.+ 3 Þú mátt ekki stofna til nokkurra hjúskapartengsla* við þær. Gefðu ekki sonum þeirra dætur þínar og taktu ekki dætur þeirra handa sonum þínum.+ 4 Það myndi snúa sonum ykkar og dætrum frá mér og verða til þess að þau þjónuðu öðrum guðum.+ Þá myndi reiði Jehóva blossa upp gegn ykkur og hann myndi útrýma ykkur snarlega.+
5 Í staðinn skuluð þið gera þetta: Rífið niður ölturu þeirra, brjótið helgisúlur þeirra,+ höggvið niður helgistólpa*+ þeirra og brennið skurðgoð þeirra.+ 6 Þið eruð heilög þjóð í augum Jehóva Guðs ykkar og Jehóva Guð ykkar hefur útvalið ykkur sem þjóð sína, sérstaka* eign sína meðal allra þjóða sem búa á jörðinni.+
7 Það var ekki af því að þið væruð fjölmennust allra þjóða að Jehóva sýndi ykkur ástúð og valdi ykkur,+ því að þið voruð fámennust allra þjóða.+ 8 En Jehóva elskaði ykkur og hélt eiðinn sem hann hafði svarið forfeðrum ykkar.+ Það var þess vegna sem Jehóva leiddi ykkur burt með sterkri hendi til að leysa ykkur úr þrælahúsinu,+ undan valdi* faraós Egyptalandskonungs. 9 Þið vitið vel að Jehóva Guð ykkar er hinn sanni Guð, hinn trúfasti Guð sem heldur sáttmála sinn og sýnir þeim tryggan kærleika í þúsund kynslóðir sem elska hann og halda boðorð hans.+ 10 En þeim sem hata hann refsar hann með því að útrýma þeim.+ Hann hikar ekki við að takast á við þá sem hata hann og refsa þeim. 11 Þess vegna skaltu gæta þess að halda þau boðorð, ákvæði og lög sem ég set þér í dag og lifa eftir þeim.
12 Ef þið haldið áfram að hlýða þessum lögum og fylgja þeim mun Jehóva Guð ykkar halda sáttmálann og sýna tryggan kærleika eins og hann sór forfeðrum ykkar. 13 Hann mun elska ykkur, blessa ykkur og fjölga. Hann mun blessa ykkur með fjölda barna*+ og blessa ávöxt jarðarinnar, korn þitt, nýja vínið, olíuna,+ kálfa hjarða þinna og lömb fénaðarins í landinu sem hann sór forfeðrum ykkar að gefa ykkur.+ 14 Þið hljótið meiri blessun en allar aðrar þjóðir.+ Enginn karl eða kona meðal ykkar verður barnlaus og ekkert af búfé þínu án afkvæmis.+ 15 Jehóva bægir frá ykkur öllum veikindum og leggur ekki á ykkur neina af þeim hræðilegu sjúkdómum sem þið þekktuð í Egyptalandi.+ En hann leggur þá á alla sem hata ykkur. 16 Þið eigið að eyða* öllum þjóðum sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur á vald.+ Þið* skuluð ekki vorkenna þeim+ og þið megið ekki þjóna guðum þeirra+ því að þá gengjuð þið í gildru.+
17 Þið hugsið kannski sem svo: ‚Þessar þjóðir eru fjölmennari en við. Hvernig getum við hrakið þær burt?‘+ 18 En óttist þær ekki.+ Munið hvernig Jehóva Guð ykkar fór með faraó og allt Egyptaland.+ 19 Munið eftir hinum miklu refsidómum* sem þið sáuð, táknunum og kraftaverkunum+ og hvernig Jehóva Guð ykkar leiddi ykkur út þaðan með sterkri hendi og útréttum handlegg.+ Eins fer Jehóva Guð ykkar með allar þjóðirnar sem þið hræðist.+ 20 Jehóva Guð ykkar fyllir þær vanmáttarkennd* þar til þeir sem verða eftir+ og fela sig fyrir ykkur tortímast. 21 Látið þá ekki hræða ykkur því að Jehóva Guð ykkar er með ykkur,+ hinn mikli og mikilfenglegi Guð.+
22 Jehóva Guð ykkar mun hrekja þessar þjóðir burt undan ykkur smám saman.+ Þið fáið ekki að útrýma þeim fljótt svo að villidýrunum fjölgi ekki um of. 23 Jehóva Guð ykkar gefur þær ykkur á vald og gersigrar þær svo að þær hverfa með öllu.+ 24 Hann gefur konunga þeirra ykkur á vald+ og þið munuð afmá nöfn þeirra undir himninum.+ Enginn getur veitt ykkur viðnám+ heldur munuð þið útrýma þeim.+ 25 Brennið skurðgoð þeirra.+ Girnist ekki silfrið eða gullið á þeim og takið það ekki handa sjálfum ykkur+ svo að það verði ekki gildra fyrir ykkur því að Jehóva Guð ykkar hefur viðbjóð á því.+ 26 Þið megið ekki fara með neitt viðbjóðslegt inn í hús ykkar svo að Guð eyði ykkur ekki* ásamt því. Hafið viðbjóð og megna andstyggð á því vegna þess að það á að eyða því.*
8 Gætið þess vandlega að halda öll þau boðorð sem ég gef ykkur í dag svo að þið lifið,+ ykkur fjölgi og þið komist inn í landið sem Jehóva sór að gefa forfeðrum ykkar og takið það til eignar.+ 2 Mundu hvernig Jehóva Guð þinn leiddi þig alla leiðina um óbyggðirnar þessi 40 ár+ til að þú yrðir auðmjúkur og til að reyna þig+ og kanna hvað byggi í hjarta þér,+ hvort þú myndir halda boð hans eða ekki. 3 Hann kenndi þér auðmýkt með því að láta þig finna til hungurs+ og gefa þér manna að borða+ sem hvorki þú né feður þínir þekktu. Hann vildi kenna þér að maðurinn lifir ekki aðeins á brauði heldur á hverju orði sem kemur af munni Jehóva.+ 4 Föt þín slitnuðu ekki og fætur þínir þrútnuðu ekki þessi 40 ár.+ 5 Þú veist vel að Jehóva Guð þinn agaði þig, rétt eins og maður agar son sinn.+
6 Haltu boðorð Jehóva Guðs þíns, gakktu á vegum hans og óttastu hann. 7 Jehóva Guð þinn leiðir þig inn í gott land,+ land með ám, lindum og uppsprettum* sem streyma fram í dölum og á fjöllum, 8 land með hveiti og byggi, vínviði, fíkjutrjám og granateplatrjám,+ land með ólívuolíu og hunangi,+ 9 land þar sem matur verður ekki af skornum skammti og þig skortir ekkert, land þar sem járn er í steinunum og þú grefur kopar úr fjöllunum.
10 Þegar þú hefur borðað þig saddan skaltu lofa Jehóva Guð þinn fyrir þetta góða land sem hann hefur gefið þér.+ 11 Gættu þess að þú gleymir ekki Jehóva Guði þínum og hættir að fylgja boðorðum hans, lögum og ákvæðum sem ég flyt þér í dag. 12 Þegar þú borðar þig saddan, reisir falleg hús og kemur þér fyrir,+ 13 þegar nautgripum þínum og sauðfé fjölgar, þú safnar silfri og gulli og þú hefur meira en nóg af öllu 14 skaltu ekki ofmetnast í hjarta þér+ svo að þú gleymir Jehóva Guði þínum sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.+ 15 Hann leiddi þig um hinar miklu og ógurlegu óbyggðir+ þar sem eru eiturslöngur og sporðdrekar, um skrælnað og vatnslaust land. Hann lét vatn streyma út úr tinnuhörðum kletti+ 16 og gaf þér manna að borða+ í óbyggðunum, mat sem feður þínir þekktu ekki, til að þú yrðir auðmjúkur+ og til að reyna þig svo að þér farnaðist vel í framtíðinni.+ 17 Ef þú hugsaðir með þér: ‚Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin styrk og krafti,‘+ 18 skaltu muna að það er Jehóva Guð þinn sem gefur þér kraft til að afla þér auðæfa.+ Hann hefur gert það allt fram á þennan dag til að standa við sáttmálann sem hann gerði við forfeður þína.+
19 Ef þið gleymið Jehóva Guði ykkar, fylgið öðrum guðum, þjónið þeim og fallið fram fyrir þeim vara ég ykkur við í dag að þið munuð farast.+ 20 Ykkur verður útrýmt eins og þjóðunum sem Jehóva eyðir frammi fyrir ykkur þar sem þið hlustuðuð ekki á Jehóva Guð ykkar.+
9 Hlustaðu, Ísrael. Í dag ferðu yfir Jórdan+ til að vinna land af þjóðum sem eru meiri og voldugri en þú,+ vinna borgir sem eru stórar og með himinháum múrum+ 2 og sigra fólk sem er stórt og sterkt, Anakíta,+ sem þú þekkir og hefur heyrt sagt um: ‚Hver getur staðist gegn Anakítum?‘ 3 Í dag skaltu því vita að Jehóva Guð þinn fer á undan þér.+ Hann er eyðandi eldur+ og hann mun útrýma þjóðunum. Hann yfirbugar þær fyrir augum þínum svo að þú verðir fljótur að hrekja þær burt og eyða þeim eins og Jehóva hefur lofað þér.+
4 Þegar Jehóva Guð þinn hrekur þær burt undan þér skaltu ekki hugsa með þér: ‚Það var vegna réttlætis míns að Jehóva leiddi mig hingað til að taka þetta land til eignar.‘+ Það er öllu heldur vegna illsku þessara þjóða+ sem Jehóva hrekur þær burt undan þér. 5 Það er ekki vegna þess að þú sért réttlátur og einlægur í hjarta sem þú tekur land þeirra til eignar. Jehóva Guð þinn hrekur þessar þjóðir burt undan þér+ vegna illsku þeirra og til að standa við loforðið sem Jehóva sór forfeðrum þínum, Abraham,+ Ísak+ og Jakobi.+ 6 Þú skalt því vita að það er ekki vegna réttlætis þíns að Jehóva Guð þinn gefur þér þetta góða land til að taka það til eignar því að þú ert þrjósk* þjóð.+
7 Munið og gleymið því aldrei hvernig þið ögruðuð Jehóva Guði ykkar í óbyggðunum.+ Frá þeim degi sem þið yfirgáfuð Egyptaland þangað til þið komuð hingað hafið þið gert uppreisn gegn Jehóva.+ 8 Þið ögruðuð Jehóva jafnvel við Hóreb og Jehóva varð svo reiður við ykkur að hann ætlaði að eyða ykkur.+ 9 Þegar ég fór upp á fjallið til að taka við steintöflunum,+ töflum sáttmálans sem Jehóva gerði við ykkur,+ dvaldi ég á fjallinu í 40 daga og 40 nætur+ án þess að borða né drekka nokkuð. 10 Jehóva gaf mér steintöflurnar tvær sem hann hafði skrifað á með fingri sínum, en á þeim stóðu öll orðin sem Jehóva talaði til ykkar á fjallinu úr eldinum daginn sem þið söfnuðust saman.+ 11 Þegar 40 dagar og 40 nætur voru liðnar gaf Jehóva mér steintöflurnar tvær, sáttmálstöflurnar, 12 og Jehóva sagði við mig: ‚Flýttu þér niður héðan því að fólk þitt, sem þú leiddir út úr Egyptalandi, hefur gert nokkuð sem er mjög illt.+ Það fór fljótt út af veginum sem ég sagði því að fylgja. Það hefur gert sér málmlíkneski.‘*+ 13 Síðan sagði Jehóva við mig: ‚Ég hef fylgst með þessu fólki og séð að það er þrjóskt.*+ 14 Farðu nú frá mér. Ég ætla að eyða fólkinu og afmá nafn þess undir himninum og gera þig að voldugri og fjölmennari þjóð en það er.‘+
15 Ég fór niður fjallið meðan það stóð í ljósum logum+ og ég var með báðar sáttmálstöflurnar í höndunum.+ 16 Þá sá ég að þið höfðuð syndgað gegn Jehóva Guði ykkar! Þið höfðuð gert ykkur kálf úr málmi.* Þið voruð fljót að fara út af veginum sem Jehóva sagði ykkur að fylgja.+ 17 Ég greip um báðar töflurnar, kastaði þeim frá mér með báðum höndum og mölvaði þær fyrir augum ykkar.+ 18 Síðan féll ég fram fyrir Jehóva 40 daga og 40 nætur eins og í fyrra skiptið. Ég borðaði hvorki né drakk+ vegna allra þeirra synda sem þið höfðuð drýgt með því að gera það sem var illt í augum Jehóva og misbjóða honum. 19 Ég var skelfingu lostinn vegna þess hve reiður Jehóva var út í ykkur.+ Hann ætlaði að eyða ykkur. En Jehóva hlustaði á mig einnig í þetta sinn.+
20 Jehóva var svo reiður út í Aron að hann ætlaði að eyða honum+ en þá bað ég líka innilega fyrir honum. 21 Síðan tók ég kálfinn+ sem þið gerðuð þegar þið syndguðuð og brenndi hann í eldi. Ég mölvaði hann og muldi í duft, og kastaði því síðan í ána sem rennur niður af fjallinu.+
22 Þið reittuð Jehóva líka til reiði í Tabera,+ Massa+ og Kibrót Hattava.+ 23 Þegar Jehóva sendi ykkur af stað frá Kades Barnea+ og sagði: ‚Farið og takið til eignar landið sem ég gef ykkur,‘ þá risuð þið aftur gegn skipun Jehóva Guðs ykkar,+ sýnduð ekki trú+ á hann og hlýdduð honum ekki. 24 Þið hafið risið gegn Jehóva allt frá því að ég kynntist ykkur.
25 Ég féll fram fyrir Jehóva í 40 daga og 40 nætur.+ Ég gerði það af því að Jehóva sagðist ætla að eyða ykkur. 26 Ég bað innilega til Jehóva og sagði: ‚Alvaldur Drottinn Jehóva, tortímdu ekki þjóð þinni. Hún er eign þín*+ sem þú leystir með miklum mætti þínum og leiddir út úr Egyptalandi með sterkri hendi.+ 27 Minnstu þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Jakobs.+ Horfðu fram hjá þrjósku þessa fólks, illsku þess og synd.+ 28 Annars gæti fólkið í landinu sem þú leiddir okkur út úr sagt: „Jehóva var ekki fær um að leiða þá inn í landið sem hann lofaði þeim og þar sem hann hataði þá fór hann með þá út í óbyggðirnar til að taka þá af lífi.“+ 29 Þetta er fólk þitt og eign þín*+ sem þú leiddir út með miklum mætti þínum og útréttum handlegg.‘+
10 Þá sagði Jehóva við mig: ‚Þú skalt höggva þér tvær steintöflur eins og þær fyrri+ og koma til mín upp á fjallið. Gerðu þér einnig örk* úr tré. 2 Ég ætla að skrifa á þær sömu orð og stóðu á fyrri töflunum, þeim sem þú braust, og þú skalt síðan leggja þær í örkina.‘ 3 Ég gerði þá örk úr akasíuviði og hjó til tvær steintöflur eins og þær fyrri og fór upp á fjallið með báðar töflurnar í hendinni.+ 4 Síðan skrifaði Jehóva á töflurnar sömu orð og hann hafði skrifað áður,+ boðorðin tíu*+ sem hann hafði gefið ykkur munnlega úr eldinum á fjallinu+ daginn sem þið söfnuðust saman.+ Eftir það fékk Jehóva mér þær. 5 Ég fór niður af fjallinu+ og lagði töflurnar í örkina sem ég hafði gert eins og Jehóva hafði gefið mér fyrirmæli um, og þar eru þær enn.
6 Ísraelsmenn fóru síðan frá Beerót Bene Jaakan til Mósera. Þar dó Aron og var jarðaður,+ og Eleasar sonur hans tók við af honum sem prestur.+ 7 Þaðan fóru þeir til Gúdgóda og frá Gúdgóda til Jotbata+ en þar er fjöldi áa og lækja.
8 Þá aðgreindi Jehóva ættkvísl Leví+ frá hinum ættkvíslunum til að bera sáttmálsörk Jehóva,+ standa frammi fyrir Jehóva og þjóna honum og til að blessa í nafni hans+ eins og hún gerir enn í dag. 9 Þess vegna hefur Leví ekki fengið erfða- eða eignarhlut með bræðrum sínum. Jehóva er erfðahlutur hans eins og Jehóva Guð þinn sagði honum.+ 10 Ég dvaldi á fjallinu í 40 daga og 40 nætur+ eins og í fyrra skiptið og Jehóva hlustaði einnig á mig í þetta sinn.+ Jehóva vildi ekki útrýma ykkur. 11 Síðan sagði Jehóva við mig: ‚Gakktu fram fyrir fólkið og láttu það búast til brottfarar svo að það geti tekið landið sem ég sór forfeðrum þess að gefa því.‘+
12 Og nú, Ísrael, til hvers ætlast Jehóva Guð þinn af þér?+ Aðeins að þú óttist Jehóva Guð þinn,+ gangir á öllum vegum hans,+ elskir hann, þjónir Jehóva Guði þínum af öllu hjarta og allri sál*+ 13 og haldir boðorð og ákvæði Jehóva sem ég flyt þér í dag, þér til góðs.+ 14 Himinninn, já, himnar himnanna,* og jörðin og allt sem á henni er tilheyrir Jehóva Guði þínum.+ 15 En það voru aðeins forfeður ykkar sem Jehóva elskaði og tengdist, og hann hefur útvalið ykkur, afkomendur þeirra,+ af öllum þjóðum og nú tilheyrið þið honum. 16 Hreinsið* hjörtu ykkar+ og hættið að vera svona þrjósk*+ 17 því að Jehóva Guð ykkar er Guð guðanna+ og Drottinn drottnanna, hinn mikli, máttugi og mikilfenglegi Guð sem mismunar engum+ og þiggur ekki mútur. 18 Hann sér um að föðurlaus börn* og ekkjur njóti réttlætis+ og hann elskar útlendinginn+ og gefur honum fæði og klæði. 19 Þið skuluð líka elska útlendinginn því að þið voruð sjálf útlendingar í Egyptalandi.+
20 Jehóva Guð þinn skaltu óttast. Þú skalt þjóna honum+ og halda þig fast við hann, og við nafn hans skaltu sverja. 21 Hann áttu að lofa.+ Hann er Guð þinn sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og mikilfenglegu verk sem þú hefur séð með eigin augum.+ 22 Forfeður ykkar voru 70 talsins þegar þeir fóru til Egyptalands+ en nú hefur Jehóva Guð ykkar gert ykkur eins mörg og stjörnur himinsins.+
11 Þú skalt elska Jehóva Guð þinn,+ alltaf gegna skyldum þínum við hann og halda ákvæði hans, lög og boðorð. 2 Þið vitið að í dag ávarpa ég ykkur, ekki börn ykkar sem hafa hvorki séð né kynnst ögun Jehóva Guðs ykkar,+ mikilleik hans,+ sterkri hendi+ og útréttum handlegg. 3 Þau sáu ekki táknin og verkin sem hann vann í Egyptalandi gegn faraó konungi Egyptalands og öllu landi hans+ 4 né hvernig hann fór með her Egypta og hesta faraós og stríðsvagna, hvernig hann lét Rauðahafið steypast yfir þá þegar þeir eltu ykkur. Jehóva eyddi þeim í eitt skipti fyrir öll.+ 5 Þau sáu ekki hvað hann gerði fyrir* ykkur í óbyggðunum áður en þið komuð hingað 6 né hvernig hann fór með Datan og Abíram, syni Elíabs Rúbenssonar, þegar jörðin opnaðist að öllum Ísrael ásjáandi og gleypti þá ásamt fjölskyldum þeirra, tjöldum og öllu lifandi sem fylgdi þeim.+ 7 Þið hafið hins vegar séð með eigin augum öll þau miklu verk sem Jehóva vann.
8 Þið skuluð halda öll boðorðin sem ég gef ykkur í dag svo að þið öðlist styrk og getið lagt undir ykkur landið sem þið farið nú inn í 9 og verðið langlíf+ í landinu sem Jehóva sór að gefa forfeðrum ykkar og afkomendum þeirra,+ landi sem flýtur í mjólk og hunangi.+
10 Landið sem þið takið nú til eignar er ekki eins og Egyptaland sem þið yfirgáfuð. Þar sáðuð þið korni og þurftuð að vökva akrana með fæti ykkar* eins og matjurtagarð. 11 Landið sem þið farið nú inn í og takið til eignar er land með fjöllum og dalsléttum.+ Það drekkur í sig regnið sem fellur af himni.+ 12 Það er land sem Jehóva Guð ykkar annast. Augu Jehóva Guðs ykkar vaka stöðugt yfir því, allt frá ársbyrjun til ársloka.
13 Ef þið hlýðið vandlega boðorðum mínum sem ég legg fyrir ykkur í dag, elskið Jehóva Guð ykkar og þjónið honum af öllu hjarta og allri sál*+ 14 gef ég landi ykkar regn á réttum tíma, haustregn og vorregn, og þið munuð hirða korn ykkar og uppskera nýtt vín og olíu.+ 15 Ég læt gras spretta í haga handa búfé ykkar og þið skuluð líka borða ykkur södd.+ 16 Gætið þess að láta ekki hjartað leiða ykkur afvega svo að þið farið að tilbiðja aðra guði og falla fram fyrir þeim.+ 17 Annars mun reiði Jehóva blossa upp gegn ykkur og hann lokar himninum svo að ekki rigni+ og jörðin gefi ekkert af sér. Þá verður ykkur snarlega útrýmt úr landinu góða sem Jehóva gefur ykkur.+
18 Geymið þessi orð mín í hjarta ykkar og sál,* bindið þau á hönd ykkar til að muna eftir þeim og hafið þau eins og ennisband á höfði ykkar.*+ 19 Kennið þau börnum ykkar, talið um þau þegar þið sitjið heima og þegar þið eruð á gangi, þegar þið leggist til hvíldar og þegar þið farið á fætur.+ 20 Skrifið þau á dyrastafi húsa ykkar og borgarhlið 21 svo að þið og börn ykkar verðið langlíf+ í landinu sem Jehóva sór að gefa forfeðrum ykkar+ svo lengi sem himinn er yfir jörð.
22 Ef þið haldið dyggilega þessi boðorð sem ég gef ykkur og farið eftir þeim, það er að segja elskið Jehóva Guð ykkar,+ gangið á öllum vegum hans og haldið ykkur fast við hann,+ 23 hrekur Jehóva allar þessar þjóðir burt undan ykkur+ og þið munuð sigra þjóðir sem eru voldugri og fjölmennari en þið.+ 24 Þið munuð eignast hvern þann stað sem þið stígið fæti á.+ Land ykkar mun ná frá óbyggðunum að Líbanon og frá Fljótinu, Efrat, að hafinu í vestri.*+ 25 Enginn getur staðið gegn ykkur.+ Jehóva Guð ykkar vekur ótta og skelfingu við ykkur um allt landið+ eins og hann hefur lofað.
26 Ég legg í dag fyrir ykkur blessun og bölvun:+ 27 blessunina ef þið hlýðið boðorðum Jehóva Guðs ykkar sem ég flyt ykkur í dag+ 28 og bölvunina ef þið hlýðið ekki boðorðum Jehóva Guðs ykkar+ heldur farið út af veginum sem ég segi ykkur í dag að ganga og fylgið guðum sem þið þekktuð ekki áður.
29 Þegar Jehóva Guð ykkar leiðir ykkur inn í landið sem þið eigið að fá skuluð þið lýsa yfir* blessuninni á Garísímfjalli og bölvuninni á Ebalfjalli.+ 30 Þau eru handan við Jórdan, í vestri,* í landi Kanverja sem búa í Araba, á móts við Gilgal, hjá stóru trjánum í Móre.+ 31 Þið haldið nú yfir Jórdan til að taka landið sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur til eignar.+ Þegar þið hafið tekið það og sest þar að 32 skuluð þið gæta þess að fylgja öllum þeim lögum og ákvæðum sem ég legg fyrir ykkur í dag.+
12 Þetta eru þau lög og ákvæði sem þið skuluð halda samviskusamlega svo lengi sem þið lifið í landinu sem Jehóva, Guð forfeðra ykkar, gefur ykkur til eignar. 2 Þið skuluð gereyða öllum þeim stöðum þar sem þjóðirnar, sem þið hrekið burt, hafa þjónað guðum sínum,+ hvort heldur það er á háum fjöllum, á hæðum eða undir gróskumiklu tré. 3 Þið skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta helgisúlur þeirra,+ brenna helgistólpa* þeirra og höggva niður skurðgoð þeirra+ þannig að þið afmáið nöfn þeirra af staðnum.+
4 Þið megið ekki tilbiðja Jehóva Guð ykkar á sama hátt og þær tilbiðja guði sína.+ 5 Tilbiðjið heldur Jehóva Guð ykkar á þeim stað meðal allra ættkvísla ykkar sem hann velur að setja nafn sitt á og búa, og farið þangað.+ 6 Þangað eigið þið að fara með brennifórnir ykkar,+ sláturfórnir, tíund,+ framlög,+ heitfórnir, sjálfviljafórnir+ og frumburði nautgripa ykkar, sauðfjár og geita.+ 7 Þar eigið þið og fjölskyldur ykkar að borða frammi fyrir Jehóva Guði ykkar+ og gleðjast yfir öllu sem þið takið ykkur fyrir hendur+ því að Jehóva Guð ykkar hefur blessað ykkur.
8 Þið megið ekki fara að eins og við gerum núna á þessum stað þegar allir gera það sem þeim sjálfum finnst rétt* 9 vegna þess að þið eruð ekki enn komin á hvíldarstaðinn+ og inn í erfðalandið sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur. 10 Þegar þið farið yfir Jórdan+ og setjist að í landinu sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur til eignar veitir hann ykkur frið fyrir öllum óvinum umhverfis ykkur og þið munuð búa við öryggi.+ 11 Þið skuluð koma með allt sem ég segi ykkur á staðinn þar sem Jehóva Guð ykkar velur að láta nafn sitt búa+ – brennifórnir ykkar, sláturfórnir, tíund,+ framlög og allar heitfórnir sem þið heitið Jehóva. 12 Þið skuluð gleðjast frammi fyrir Jehóva Guði ykkar,+ þið, synir ykkar og dætur, þrælar ykkar og ambáttir og Levítarnir sem búa í borgum* ykkar því að þeir hafa hvorki fengið erfða- né eignarhlut meðal ykkar.+ 13 Gættu þess að færa ekki brennifórnir þínar á nokkrum öðrum stað sem þú sérð.+ 14 Þú skalt aðeins færa brennifórnir á staðnum sem Jehóva velur í landi einnar af ættkvíslum ykkar og þar skaltu gera allt sem ég gef þér fyrirmæli um.+
15 En þú mátt slátra skepnu og borða kjöt hvenær sem þú vilt+ eftir þeirri blessun sem Jehóva Guð þinn veitir þér í öllum borgum þínum.* Bæði óhreinir og hreinir mega borða það eins og það væri kjöt af gasellu eða hjartardýri. 16 En þú mátt ekki neyta blóðsins+ heldur áttu að hella því á jörðina eins og vatni.+ 17 Þú mátt ekki neyta tíundarinnar af korni þínu, nýja víninu eða olíunni í borgum þínum* né heldur frumburða nautgripa þinna, sauðfjár eða geita+ eða nokkurra af heitfórnum þínum, sjálfviljafórnum eða framlögum. 18 Þessa áttu að neyta frammi fyrir Jehóva Guði þínum á staðnum sem Jehóva Guð þinn velur+ – þú, synir þínir og dætur, þjónar þínir og þjónustustúlkur og Levítarnir sem búa í borgum þínum* – og þú skalt gleðjast frammi fyrir Jehóva Guði þínum yfir öllu sem þú tekur þér fyrir hendur. 19 Gættu þess að vanrækja ekki Levítann+ svo lengi sem þú lifir í landi þínu.
20 Þegar Jehóva Guð þinn færir út landamæri þín+ eins og hann hefur lofað+ og þig langar að borða kjöt og segir: ‚Mig langar í kjöt,‘ þá máttu borða það hvenær sem þú vilt.+ 21 Ef staðurinn sem Jehóva Guð þinn kýs að setja nafn sitt á+ er langt í burtu áttu að slátra nautgrip, sauð eða geit af hjörðinni sem Jehóva hefur gefið þér eins og ég hef sagt þér að gera, og þú skalt borða kjötið í borg þinni* hvenær sem þig langar til. 22 Þú mátt borða það eins og það væri kjöt af gasellu eða hjartardýri.+ Bæði óhreinir og hreinir mega borða það. 23 Vertu bara ákveðinn í að neyta ekki blóðsins+ því að blóðið er lífið+ og þú mátt ekki neyta lífsins með kjötinu. 24 Þú mátt ekki neyta þess. Þú átt að hella því á jörðina eins og vatni.+ 25 Neyttu þess ekki. Þá mun þér og börnum þínum vegna vel af því að þú gerir það sem er rétt í augum Jehóva. 26 Taktu aðeins með þér helgigjafir þínar og heitfórnir þegar þú ferð á staðinn sem Jehóva velur. 27 Þar áttu að færa brennifórnir þínar, kjötið og blóðið,+ á altari Jehóva Guðs þíns. Blóði fórna þinna skal hellt niður við altari+ Jehóva Guðs þíns en kjötið máttu borða.
28 Gættu þess að hlýða öllum þessum fyrirmælum mínum. Þá mun þér og börnum þínum alltaf vegna vel af því að þú gerir það sem er gott og rétt í augum Jehóva Guðs þíns.
29 Þegar Jehóva Guð þinn útrýmir þjóðunum sem þú átt að hrekja burt+ og þú hefur sest að í landi þeirra 30 skaltu gæta þess að falla ekki í sömu gildru og þær. Þú skalt ekki forvitnast um guði þeirra og spyrja: ‚Hvernig voru þessar þjóðir vanar að þjóna guðum sínum? Ég ætla að fara eins að.‘+ 31 Þú mátt ekki gera Jehóva Guði þínum það vegna þess að það sem þær gera fyrir guði sína er viðurstyggilegt og Jehóva hatar það. Þær brenna jafnvel syni sína og dætur í eldi handa guðum sínum.+ 32 Farið samviskusamlega eftir öllum fyrirmælum mínum.+ Bætið engu við þau og takið ekkert burt.+
13 Segjum að spámaður eða maður sem dreymir fyrir ókomnum atburðum komi fram á meðal ykkar og boði tákn eða beri fram spá 2 og táknið eða spáin sem hann bar fram rætist og hann segir: ‚Við skulum fylgja öðrum guðum,‘ guðum sem þið hafið ekki þekkt áður, ‚og þjóna þeim.‘ 3 Þá skuluð þið ekki hlusta á spámanninn eða dreymandann+ því að Jehóva Guð ykkar reynir ykkur+ til að sjá hvort þið elskið Jehóva Guð ykkar af öllu hjarta og allri sál.*+ 4 Þið skuluð fylgja Jehóva Guði ykkar, óttast hann og halda boðorð hans. Hlustið á hann, þjónið honum og haldið ykkur fast við hann.+ 5 En spámanninn eða dreymandann skal taka af lífi+ því að hann hvatti til uppreisnar gegn Jehóva Guði ykkar sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi og leysti ykkur úr þrælahúsinu. Hann reyndi að beina ykkur út af veginum sem Jehóva Guð ykkar hefur sagt ykkur að ganga. Þið skuluð útrýma hinu illa sem er á meðal ykkar.+
6 Segjum að bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir, ástkær eiginkona þín eða nánasti vinur þinn* reyni að tæla þig með leynd og segi: ‚Förum og þjónum öðrum guðum,‘+ guðum sem hvorki þú né forfeður þínir þekktu, 7 guðum þjóðanna í kring, hvort heldur þær búa nærri eða fjarri, hvar sem er í landinu. 8 Þá skaltu ekki láta undan eða hlusta á hann+ og þú skalt ekki heldur vorkenna honum, hafa samúð með honum eða hlífa honum 9 heldur skaltu taka hann af lífi.+ Þú skalt vera fyrstur til að leggja hönd á hann til að taka hann af lífi og síðan á allt fólkið að gera slíkt hið sama.+ 10 Þú skalt grýta hann til bana+ því að hann reyndi að tæla þig frá Jehóva Guði þínum sem leiddi þig út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 11 Allur Ísrael mun frétta þetta og óttast, og enginn meðal ykkar mun vinna slíkt vonskuverk framar.+
12 Ef þú heyrir sagt í einhverri af borgunum sem Jehóva Guð þinn gefur þér til að búa í: 13 ‚Illmenni hafa komið fram meðal ykkar til að leiða borgarbúa afvega og segja: „Förum og þjónum öðrum guðum,“ guðum sem þið hafið ekki þekkt,‘ 14 skaltu kanna málið, rannsaka það vandlega og spyrjast fyrir.+ Ef það reynist rétt að þessi viðurstyggð hafi átt sér stað á meðal ykkar 15 skaltu fella íbúa borgarinnar með sverði.+ Eyddu+ henni og* öllu sem er í henni, þar á meðal búfénu. 16 Safnaðu síðan saman öllu herfanginu á miðju torginu og brenndu borgina. Herfangið skal vera alfórn handa Jehóva Guði þínum. Borgin á að liggja í rúst um alla framtíð og aldrei verða endurreist. 17 Taktu ekkert sem á að eyða*+ svo að Jehóva láti af brennandi reiði sinni, sýni þér miskunn og samúð og fjölgi þjóðinni eins og hann sór forfeðrum þínum.+ 18 Þú skalt hlýða Jehóva Guði þínum með því að halda öll boðorð hans sem ég flyt þér í dag og gera það sem er rétt í augum Jehóva Guðs þíns.+
14 Þið eruð synir Jehóva Guðs ykkar. Þið skuluð ekki skera ykkur+ eða raka af ykkur augabrúnirnar* vegna látinnar manneskju.+ 2 Þið eruð heilög þjóð+ í augum Jehóva Guðs ykkar og Jehóva hefur útvalið ykkur sem þjóð sína, sérstaka* eign sína meðal allra þjóða sem búa á jörðinni.+
3 Þið megið ekki borða neitt viðbjóðslegt.+ 4 Þessi dýr megið þið borða:+ naut, sauðfé, geitur, 5 hjartardýr, gasellur, rádýr, villigeitur, antilópur, villisauði og fjallasauði. 6 Þið megið borða öll dýr sem eru með alklofnar klaufir og jórtra. 7 En þið megið ekki borða eftirfarandi dýr sem jórtra eða eru með klaufir: úlfaldann, hérann og klettagreifingjann því að þau jórtra en eru ekki með klaufir. Þau eru ykkur óhrein.+ 8 Hið sama er að segja um svínið því að það er með klaufir en jórtrar ekki. Það er ykkur óhreint. Þið megið hvorki borða kjöt þessara dýra né snerta hræ þeirra.
9 Af öllu sem lifir í vötnunum megið þið borða eftirfarandi: Allt sem er með ugga og hreistur megið þið borða.+ 10 En þið megið ekki borða neitt sem er ekki með ugga og hreistur. Það er ykkur óhreint.
11 Þið megið borða alla hreina fugla. 12 Þessa megið þið þó ekki borða: örninn, gjóðinn, kuflgamminn,+ 13 svölugleðuna, vatnagleðuna eða aðrar gleður, 14 hrafna af nokkru tagi, 15 strútinn, ugluna, mávinn, fálka af nokkru tagi, 16 kattugluna, eyrugluna, svaninn, 17 pelíkanann, hrægamminn, skarfinn, 18 storkinn, hegra af nokkru tagi, herfuglinn og leðurblökuna. 19 Öll vængjuð skordýr eru ykkur líka óhrein. Þau má ekki borða. 20 Öll fleyg dýr sem eru hrein megið þið borða.
21 Þið megið ekki borða sjálfdautt dýr.+ Þið megið gefa það útlendingum sem búa í borgum* ykkar og þeir mega borða það, og það má selja það útlendingi. En þið eruð heilög þjóð í augum Jehóva Guðs ykkar.
Þú mátt ekki sjóða kiðling í mjólk móður sinnar.+
22 Á hverju ári skaltu gefa tíund af allri uppskerunni sem þú færð af akri þínum.+ 23 Þú skalt neyta tíundarinnar af korni þínu, nýja víninu og olíunni, og frumburða nautgripa þinna, sauðfjár og geita frammi fyrir Jehóva Guði þínum á staðnum þar sem hann velur að láta nafn sitt búa,+ til að þú lærir að óttast Jehóva Guð þinn alla daga.+
24 En ef staðurinn sem Jehóva Guð þinn velur handa nafni sínu+ er of langt frá þér og leiðin of löng til að flytja allt þetta þangað (því að Jehóva Guð þinn mun blessa þig) 25 skaltu koma því í verð og taka peningana með þér á staðinn sem Jehóva Guð þinn velur. 26 Þú mátt síðan nota peningana í hvað sem þig lystir – naut, sauðfé, geitur, vín og annað áfengi, já, hvað sem þig langar í. Þú skalt neyta þess þar frammi fyrir Jehóva Guði þínum og gleðjast með fjölskyldu þinni.+ 27 Og vanræktu ekki Levítana sem búa í borgum þínum+ því að þeir hafa ekki fengið erfða- eða eignarhlut með þér.+
28 Í lok þriðja hvers árs skaltu taka til alla tíundina af uppskeru þinni það árið og safna inn í borgir þínar.+ 29 Þá geta Levítarnir, sem hafa hvorki fengið erfða- né eignarhlut með þér, útlendingarnir, föðurlausu börnin* og ekkjurnar sem búa í borgum þínum komið og borðað nægju sína+ svo að Jehóva Guð þinn blessi þig í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.+
15 Í lok sjöunda hvers árs skaltu fella niður skuldir.+ 2 Svona skaltu fara að: Hver lánardrottinn á að gefa náunga sínum eftir skuldina sem hann hefur stofnað til. Hann á ekki að krefja náunga sinn eða bróður um greiðslu þar sem niðurfellingin er gerð Jehóva til heiðurs.+ 3 Þú mátt krefja útlending um greiðslu+ en þú átt að gefa bróður þínum eftir allt sem hann skuldar þér. 4 Enginn á meðal ykkar á þó að þurfa að verða fátækur því að Jehóva mun blessa þig+ í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér að erfðalandi 5 en aðeins ef þú hlýðir Jehóva Guði þínum og heldur samviskusamlega öll þau boðorð sem ég gef þér í dag.+ 6 Jehóva Guð þinn blessar þig eins og hann hefur lofað. Þú munt lána* mörgum þjóðum en sjálfur þarftu ekki að taka lán.+ Og þú munt ríkja yfir mörgum þjóðum en þær munu ekki ríkja yfir þér.+
7 Ef einhver bræðra þinna í einni af borgunum í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér verður fátækur skaltu ekki herða hjarta þitt né vera nískur við fátækan bróður þinn.+ 8 Ljúktu fúslega upp hendi þinni+ og lánaðu honum* hvað sem hann þarfnast eða skortir. 9 Gættu þess að ala ekki þessa illu hugsun í brjósti þér: ‚Það er stutt í sjöunda árið, lausnarárið,‘+ svo að þú verðir nískur við fátækan bróður þinn og gefir honum ekkert. Ef hann hrópar til Jehóva út af þér verður það reiknað þér til syndar.+ 10 Vertu örlátur við hann+ og gefðu* honum ekki með ólund. Þá mun Jehóva Guð þinn blessa allt sem þú gerir og tekur þér fyrir hendur.+ 11 Það verða alltaf einhverjir fátækir í landinu.+ Þess vegna segi ég þér: ‚Ljúktu fúslega upp hendi þinni fyrir bágstöddum og fátækum bróður þínum í landinu.‘+
12 Ef samlandi þinn, hebreskur karl eða kona, er seldur þér og hefur þjónað þér í sex ár áttu að veita honum frelsi á sjöunda árinu.+ 13 Og þegar þú veitir honum frelsi skaltu ekki láta hann fara tómhentan frá þér. 14 Vertu örlátur og gefðu honum eitthvað af hjörð þinni, af þreskivelli þínum og úr olíu- og vínpressu þinni. Gefðu honum í samræmi við þá blessun sem Jehóva Guð þinn hefur veitt þér. 15 Mundu að þú varst þræll í Egyptalandi og að Jehóva Guð þinn frelsaði* þig. Þess vegna segi ég þér í dag að gera þetta.
16 En ef þrællinn segir við þig: ‚Ég vil ekki fara frá þér,‘ af því að hann elskar þig og fjölskyldu þína og honum hefur liðið vel hjá þér+ 17 skaltu taka al og stinga honum gegnum eyra hans og í hurðina. Hann verður þá þræll þinn til æviloka. Eins skaltu gera við ambátt þína. 18 Láttu þér ekki gremjast að þurfa að veita þrælnum frelsi og sjá á bak honum því að störf hans fyrir þig á sex árum voru tvöfalt meira virði en störf launamanns og Jehóva Guð þinn hefur blessað þig í öllu sem gert var.
19 Helgaðu Jehóva Guði þínum alla karlkyns frumburði af nautgripum þínum, sauðfé og geitum.+ Þú mátt ekki nota frumburði nautgripa þinna til vinnu né rýja frumburði sauða þinna. 20 Á hverju ári skaltu borða þá með fjölskyldu þinni frammi fyrir Jehóva Guði þínum á staðnum sem Jehóva velur.+ 21 En ef skepnan er með galla – er hölt, blind eða með annan slæman galla – máttu ekki færa hana Jehóva Guði þínum að fórn.+ 22 Þú átt að borða hana í borg þinni.* Bæði óhreinn maður og hreinn mega borða hana eins og hún væri gasella eða hjartardýr.+ 23 En þú mátt ekki neyta blóðsins.+ Þú skalt hella því á jörðina eins og vatni.+
16 Mundu eftir abíbmánuði* og haltu Jehóva Guði þínum páska+ því að það var nótt eina í abíbmánuði sem Jehóva Guð þinn leiddi þig út úr Egyptalandi.+ 2 Þú skalt færa Jehóva Guði þínum páskafórnina+ af sauðfé, geitum og nautgripum+ á staðnum þar sem Jehóva velur að láta nafn sitt búa.+ 3 Þú mátt ekki borða neitt með henni sem er sýrt.+ Í sjö daga áttu að borða ósýrt brauð, neyðarbrauð, vegna þess að þú yfirgafst Egyptaland í flýti.+ Gerðu þetta alla ævi til að minnast dagsins sem þú yfirgafst Egyptaland.+ 4 Ekkert súrdeig má fyrirfinnast neins staðar í landi þínu í sjö daga+ og ekkert af kjötinu sem þú fórnar að kvöldi fyrsta dagsins má vera eftir til morguns.+ 5 Þú mátt ekki færa páskafórnina í hvaða borg sem er af þeim sem Jehóva Guð þinn gefur þér. 6 Gerðu það á staðnum sem Jehóva Guð þinn velur að láta nafn sitt búa. Færðu páskafórnina að kvöldi um leið og sólin sest,+ daginn sem þú yfirgafst Egyptaland. 7 Þú skalt elda hana og borða+ á staðnum sem Jehóva Guð þinn velur+ og morguninn eftir máttu snúa aftur til tjalda þinna. 8 Í sex daga áttu að borða ósýrt brauð og sjöunda daginn er haldin hátíðarsamkoma, Jehóva Guði þínum til heiðurs. Þá máttu ekkert vinna.+
9 Teldu sjö vikur frá þeim tíma þegar þú byrjaðir að slá kornið með sigðinni.+ 10 Síðan skaltu halda Jehóva Guði þínum viknahátíðina+ og færa sjálfviljafórn í samræmi við þá blessun sem Jehóva Guð þinn veitir þér.+ 11 Þú skalt gleðjast frammi fyrir Jehóva Guði þínum, þú, sonur þinn og dóttir, þræll þinn og ambátt, Levítinn sem býr í borg þinni,* útlendingurinn, föðurlausa barnið* og ekkjan sem búa á meðal ykkar. Gleðjist á staðnum þar sem Jehóva Guð þinn velur að láta nafn sitt búa.+ 12 Mundu að þú varst þræll í Egyptalandi+ og haltu þessi ákvæði og fylgdu þeim.
13 Haltu laufskálahátíðina+ í sjö daga þegar þú hefur hirt uppskeruna af þreskivelli þínum og úr olíu- og vínpressu þinni. 14 Gleðjist á hátíðinni,+ þú, sonur þinn og dóttir, þræll þinn og ambátt, Levítinn, útlendingurinn, föðurlausa barnið og ekkjan sem búa í borgum ykkar. 15 Haltu Jehóva Guði þínum hátíð í sjö daga+ á staðnum sem Jehóva velur því að Jehóva Guð þinn mun blessa alla uppskeru þína og allt sem þú gerir+ og þú fyllist gleði.+
16 Þrisvar á ári eiga allir karlmenn að koma fram fyrir Jehóva Guð þinn á staðnum sem hann velur: á hátíð ósýrðu brauðanna,+ viknahátíðinni+ og laufskálahátíðinni.+ Enginn þeirra má koma tómhentur fram fyrir Jehóva. 17 Hver og einn á að koma með gjöf í samræmi við þá blessun sem Jehóva Guð þinn hefur veitt honum.+
18 Skipaðu dómara+ og embættismenn fyrir hverja ættkvísl í öllum borgunum* sem Jehóva Guð þinn gefur þér. Þeir eiga að dæma fólkið með réttlæti. 19 Þú mátt ekki fella óréttláta dóma,+ vera hlutdrægur+ eða þiggja mútur því að mútur blinda augu viturra manna+ og koma réttlátum manni til að breyta ákvörðun sinni. 20 Hafðu réttlætið eitt að markmiði+ svo að þú megir lifa og taka til eignar landið sem Jehóva Guð þinn gefur þér.
21 Þú mátt ekki gróðursetja neins konar tré sem helgistólpa*+ nálægt altarinu sem þú reisir handa Jehóva Guði þínum.
22 Þú mátt ekki heldur reisa þér helgisúlu+ því að slíkt hatar Jehóva Guð þinn.
17 Þú mátt ekki fórna Jehóva Guði þínum nauti eða sauð sem er skaddaður eða er með galla því að Jehóva Guð þinn myndi hafa viðbjóð á því.+
2 Segjum að karl eða kona meðal ykkar, í einhverri af borgunum sem Jehóva Guð þinn gefur þér, geri það sem er illt í augum Jehóva Guðs þíns og brjóti gegn sáttmála hans,+ 3 fari og tilbiðji aðra guði og falli fram fyrir þeim eða fyrir sólinni, tunglinu eða öllum himinsins her+ þó að ég hafi bannað það.*+ 4 Þegar þér er sagt frá því eða þú fréttir það skaltu rannsaka málið vandlega. Ef það reynist rétt+ að þessi viðurstyggð hafi átt sér stað í Ísrael 5 skaltu fara með karlinn eða konuna sem hefur gert hið illa að borgarhliðinu og hann eða hún skal grýtt til bana.+ 6 Til að fullnægja dauðadómi þarf framburð tveggja eða þriggja vitna.+ Enginn skal tekinn af lífi eftir framburði eins vitnis.+ 7 Vitnin skulu vera fyrst til að leggja hönd á hann til að taka hann af lífi og síðan á allt fólkið að gera slíkt hið sama. Þú skalt útrýma hinu illa sem er á meðal ykkar.+
8 Ef upp kemur mál í einhverri af borgum ykkar sem þú ræður ekki við að dæma í, hvort sem um er að ræða blóðsúthellingar,+ ofbeldisverk sem framið hefur verið, málssókn eða annað deilumál, skaltu fara til staðarins sem Jehóva Guð þinn velur.+ 9 Farðu til Levítaprestanna og dómarans+ sem gegnir embætti þá. Leggðu málið fyrir þá og þeir skera úr því.+ 10 Farðu svo eftir úrskurðinum sem þeir kveða upp á staðnum sem Jehóva velur. Gættu þess að fara eftir öllum fyrirmælum þeirra. 11 Fylgdu lögunum sem þeir benda þér á og úrskurðinum sem þeir fella.+ Víktu ekki frá úrskurði þeirra, hvorki til hægri né vinstri.+ 12 Sá sem sýnir þann hroka að hlusta ekki á prestinn sem þjónar Jehóva Guði þínum né á dómarann skal deyja.+ Þú skalt útrýma hinu illa úr Ísrael.+ 13 Allt fólkið mun frétta það og enginn þorir að sýna hroka framar.+
14 Þegar þú ferð inn í landið sem Jehóva Guð þinn gefur þér, þú hefur tekið það og sest þar að og segir: ‚Ég vil fá konung eins og allar þjóðirnar í kring,‘+ 15 þá skaltu útnefna konung sem Jehóva Guð þinn velur.+ Hann á að vera Ísraelsmaður eins og þú. Þú mátt ekki setja yfir þig útlending, mann sem er ekki bróðir þinn. 16 Konungurinn má ekki eignast marga hesta+ eða senda fólk aftur til Egyptalands til að útvega fleiri hesta+ því að Jehóva sagði við ykkur: ‚Þið skuluð aldrei snúa aftur þessa leið.‘ 17 Hann má ekki taka sér margar konur svo að hjarta hans leiði hann ekki afvega.+ Hann má ekki heldur safna sér ógrynni af silfri og gulli.+ 18 Þegar hann er sestur í hásæti í ríki sínu á hann að gera handa sér afrit af þessum lögum í bók.* Hann á að skrifa afritið eftir lögbókinni sem Levítaprestarnir varðveita.+
19 Hann á að hafa bókina hjá sér og lesa í henni alla ævidaga sína+ svo að hann læri að óttast Jehóva Guð sinn, haldi allt sem stendur í þessum lögum og fylgi ákvæðum þeirra.+ 20 Þá mun hann ekki upphefja sig yfir bræður sína og ekki víkja frá boðorðunum, hvorki til hægri né vinstri, og hann mun ríkja lengi í Ísrael, bæði hann og synir hans.
18 Enginn Levítaprestur og reyndar enginn af ættkvísl Leví skal fá eignar- eða erfðahlut með öðrum í Ísrael. Þeir eiga að borða af eldfórnunum handa Jehóva sem eru erfðahlutur hans.+ 2 Þeir fá sem sagt engan erfðahlut meðal bræðra sinna. Jehóva er erfðahlutur þeirra eins og hann hefur lofað þeim.
3 Prestarnir skulu hafa þessi réttindi hjá fólkinu: Sá sem færir fórn, hvort heldur naut eða sauð, á að gefa prestinum bóginn, kjammana og vömbina. 4 Þú átt að gefa honum frumgróðann af korni þínu, nýja víninu og olíunni og fyrstu ullina af sauðfé þínu.+ 5 Jehóva Guð þinn hefur valið Leví og syni hans af öllum ættkvíslum þínum til að þjóna í nafni Jehóva alla daga.+
6 En ef Levíti yfirgefur borgina í Ísrael þar sem hann býr+ og vill fara til staðarins sem Jehóva velur*+ 7 má hann þjóna þar í nafni Jehóva Guðs síns eins og allir bræður hans, Levítarnir, sem gegna þjónustu þar frammi fyrir Jehóva.+ 8 Hann á að fá jafn stóran hlut og þeir til matar,+ óháð því sem hann fær þegar hann selur föðurarfleifð sína.
9 Þegar þú ert kominn inn í landið sem Jehóva Guð þinn gefur þér máttu ekki taka upp viðurstyggilega siði þjóðanna þar.+ 10 Enginn má fyrirfinnast meðal ykkar sem fórnar syni sínum eða dóttur í eldi,*+ enginn sem fer með spákukl,+ stundar galdra+ eða leitar fyrirboða,+ enginn særingamaður,+ 11 enginn sem beitir galdraþulum, enginn sem leitar ráða hjá andamiðli+ eða spásagnarmanni+ og enginn sem leitar til hinna dánu.+ 12 Hver sem gerir þetta er viðurstyggilegur í augum Jehóva, og það er vegna þessara viðurstyggða sem Jehóva Guð ykkar hrekur þjóðir landsins burt undan ykkur. 13 Þú skalt vera óaðfinnanlegur frammi fyrir Jehóva Guði þínum.+
14 Þessar þjóðir, sem þú hrekur burt, hlusta á þá sem stunda galdra+ og spásagnir+ en Jehóva Guð þinn hefur ekki leyft þér að gera neitt slíkt. 15 Jehóva Guð ykkar mun velja handa ykkur spámann eins og mig úr hópi bræðra ykkar. Þið skuluð hlusta á hann.+ 16 Það er svar við því sem þið báðuð Jehóva Guð ykkar um við Hóreb daginn sem þið söfnuðust saman+ og þið sögðuð: ‚Láttu okkur ekki heyra rödd Jehóva Guðs okkar eða sjá þennan mikla eld framar svo að við deyjum ekki.‘+ 17 Þá sagði Jehóva við mig: ‚Þeir hafa nokkuð til síns máls. 18 Ég mun velja handa þeim spámann eins og þig+ úr hópi bræðra þeirra. Ég legg honum orð mín í munn+ og hann mun flytja þeim allt sem ég gef honum fyrirmæli um.+ 19 Ég dreg hvern þann mann til ábyrgðar sem hlustar ekki á orð mín sem hann flytur í mínu nafni.+
20 Ef spámaður vogar sér að segja eitthvað í mínu nafni sem ég hef ekki gefið honum fyrirmæli um eða talar í nafni annarra guða skal hann deyja.+ 21 En þú hugsar kannski með þér: „Hvernig vitum við að þessi orð eru ekki frá Jehóva?“ 22 Ef það sem spámaðurinn segir í nafni Jehóva kemur ekki fram eða rætist ekki er það ekki frá Jehóva. Spámaðurinn hefur þá talað af ofdirfsku sinni. Þú skalt ekki óttast hann.‘
19 Þegar Jehóva Guð þinn eyðir þjóðunum í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér og þú hefur hrakið þær burt og sest að í borgum þeirra og húsum+ 2 skaltu taka frá þrjár borgir í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér til eignar.+ 3 Skiptu landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér til eignar í þrennt og bættu vegina þannig að sá sem verður manni að bana geti flúið til einnar af þessum borgum.
4 Eftirfarandi gildir um þann sem verður manni að bana og flýr þangað til að halda lífi: Ef hann verður náunga sínum óviljandi að bana en hann hataði hann ekki,+ 5 til dæmis ef hann fer með honum út í skóg til að safna viði og reiðir öxina til að höggva tré en öxin gengur af skaftinu og lendir á manninum svo að hann deyr, þá á banamaðurinn að flýja til einnar af þessum borgum til að halda lífi.+ 6 Ef borgin væri of langt í burtu gæti sá sem á blóðs að hefna+ elt hann uppi, náð honum og drepið hann í reiði sinni.* Hann átti þó ekki skilið að deyja fyrst hann hataði ekki manninn.+ 7 Þess vegna segi ég þér: ‚Taktu frá þrjár borgir.‘
8 Jehóva Guð þinn færir út landamæri þín eins og hann sór forfeðrum þínum+ og gefur þér allt landið sem hann lofaði að gefa forfeðrum þínum,+ 9 svo framarlega sem þú heldur dyggilega öll þessi boðorð sem ég gef þér í dag, elskar Jehóva Guð þinn og gengur alltaf á vegum hans.+ Þegar land þitt stækkar skaltu bæta þrem borgum við þessar þrjár.+ 10 Þannig er komið í veg fyrir að saklausu blóði sé úthellt+ í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér til eignar og að þú verðir blóðsekur.+
11 En ef maður hatar náunga sinn,+ bíður færis að ráðast á hann og særir hann svo að hann hlýtur bana af og ef maðurinn flýr síðan til einnar af þessum borgum 12 eiga öldungarnir í heimaborg hans að sækja hann þangað og láta hann í hendur hefnandans. Hann skal deyja.+ 13 Þú* skalt ekki vorkenna honum heldur skaltu hreinsa Ísrael af sök vegna saklauss blóðs+ svo að þér farnist vel.
14 Þegar þú færð erfðahlut þinn í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér til eignar máttu ekki færa landamerki nágranna þíns+ þaðan sem forfeðurnir settu þau.
15 Eitt vitni nægir ekki til að sakfella* mann fyrir nokkurt afbrot eða synd sem hann kann að hafa framið.+ Það þarf að staðfesta brotið með framburði tveggja eða þriggja vitna.+ 16 Ef einhver ber vitni með illt í huga og sakar annan mann um brot+ 17 eiga báðir mennirnir sem eiga hlut að máli að ganga fram fyrir Jehóva, prestana og dómarana sem gegna embætti þá.+ 18 Dómararnir eiga að rannsaka málið vandlega+ og ef sá sem bar vitni reynist vera ljúgvottur og hefur borið bróður sinn upplognum sökum 19 skuluð þið fara með hann eins og hann ætlaði að fara með bróður sinn.+ Þið skuluð uppræta hið illa á meðal ykkar.+ 20 Fólkið mun frétta það og ekki voga sér að gera nokkuð slíkt framar.+ 21 Sýndu* enga meðaumkun:+ Þú skalt láta líf fyrir líf,* auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd og fót fyrir fót.+
20 Þegar þú ferð í stríð gegn óvinum þínum og sérð að þeir eru með fleiri hesta, stríðsvagna og hermenn en þú skaltu ekki óttast þá því að Jehóva Guð þinn, sem leiddi þig út úr Egyptalandi, er með þér.+ 2 Áður en þið farið í stríð á presturinn að ganga fram og ávarpa hermennina.+ 3 Hann á að segja við þá: ‚Heyrið, Ísraelsmenn. Þið eruð í þann mund að fara í stríð við óvini ykkar. Missið ekki kjarkinn, óttist ekki né skelfist. Hræðist þá ekki 4 því að Jehóva Guð ykkar er með ykkur í för til að berjast fyrir ykkur gegn óvinunum og bjarga ykkur.‘+
5 Forystumennirnir eiga líka að ávarpa mennina og segja: ‚Hefur einhver byggt hús en ekki vígt það? Þá má hann snúa heim til sín. Annars gæti hann fallið í bardaga og annar maður vígt það. 6 Hefur einhver plantað víngarð en ekki notið uppskerunnar? Þá má hann snúa aftur heim til sín. Annars gæti hann fallið í bardaga og annar maður fengið uppskeruna. 7 Hefur einhver trúlofast en er ekki búinn að giftast konunni? Þá má hann snúa heim til sín.+ Annars gæti hann fallið í bardaga og annar maður gifst henni.‘ 8 Forystumennirnir eiga einnig að spyrja mennina: ‚Er einhver hræddur og kjarklítill?+ Hann á að snúa heim til sín til að hann dragi ekki kjarkinn úr bræðrum sínum.‘+ 9 Þegar forystumennirnir eru búnir að tala við mennina eiga þeir að skipa liðsforingja til að fara fyrir liðinu.
10 Þegar þú kemur að borg til að herja á hana áttu að bjóða henni friðarskilmála.+ 11 Ef hún fellst á friðarskilmálana og opnar borgarhliðin eiga allir borgarbúar að tilheyra þér, vinna nauðungarvinnu og þjóna þér.+ 12 En ef hún neitar að semja frið við þig og kýs að berjast við þig skaltu setjast um hana 13 og Jehóva Guð þinn mun gefa hana þér á vald. Þú skalt fella alla karlmenn í borginni með sverði. 14 Þú mátt hins vegar taka konur, börn, búfé og allt annað sem er í borginni að herfangi handa sjálfum þér.+ Þú skalt taka öll verðmæti óvina þinna sem Jehóva Guð þinn hefur gefið þér.+
15 Þannig áttu að fara með allar fjarlægar borgir sem tilheyra ekki þjóðunum hér í grennd. 16 En í borgum þeirra þjóða, borgunum sem Jehóva Guð þinn gefur þér að erfðahlut, máttu ekki þyrma neinu sem dregur andann.+ 17 Þú átt að eyða þessum þjóðum* með öllu, Hetítum, Amorítum, Kanverjum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum,+ eins og Jehóva Guð þinn hefur gefið þér fyrirmæli um. 18 Annars gætu þær kennt þér alla þá viðurstyggilegu siði sem þær fylgja í guðsdýrkun sinni og komið þér til að syndga gegn Jehóva Guði þínum.+
19 Ef þú sest um borg til að taka hana og hefur herjað lengi á hana máttu ekki eyða trjánum með því að bera öxi að þeim. Þú mátt borða ávexti þeirra en ekki höggva þau.+ Af hverju ættirðu að sitja um tré merkurinnar eins og þau væru menn? 20 Þú mátt aðeins fella tré sem þú veist að bera ekki æta ávexti. Þú mátt fella þau og reisa virki um borgina sem á í stríði við þig þar til hún fellur.
21 Ef einhver finnst myrtur úti á víðavangi í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér til eignar og ekki er vitað hver drap hann 2 eiga öldungarnir og dómararnir+ að fara og mæla fjarlægðina frá líkinu til borganna í kring. 3 Síðan eiga öldungarnir í borginni sem er næst líkinu að velja kvígu sem hefur aldrei verið notuð til vinnu og aldrei gengið undir oki. 4 Öldungar borgarinnar eiga að fara með kvíguna niður í dal með rennandi vatni þar sem hvorki hefur verið plægt né sáð og hálsbrjóta hana þar í dalnum.+
5 Levítaprestarnir eiga að vera viðstaddir því að Jehóva Guð þinn hefur valið þá til að þjóna sér+ og blessa í nafni Jehóva.+ Þeir eiga að lýsa yfir hvernig leysa eigi úr öllum deilum sem varða ofbeldisverk.+ 6 Allir öldungar borgarinnar sem er næst líkinu skulu síðan þvo hendur sínar+ yfir kvígunni sem var hálsbrotin í dalnum 7 og lýsa yfir: ‚Hendur okkar úthelltu ekki þessu blóði og augu okkar sáu ekki þegar því var úthellt. 8 Jehóva, kallaðu ekki þjóð þína, Ísrael, sem þú leystir,+ til ábyrgðar fyrir þetta og láttu ekki sekt vegna saklauss blóðs hvíla á þjóð þinni, Ísrael.‘+ Þá verður hún ekki dregin til ábyrgðar fyrir blóðskuldina. 9 Þannig gerirðu það sem er rétt í augum Jehóva og hreinsar þig af sök vegna saklauss blóðs.
10 Ef þú ferð í stríð við óvini þína, Jehóva Guð þinn sigrar þá og þú tekur fanga+ 11 og sérð fallega konu meðal fanganna, laðast að henni og vilt taka hana þér fyrir konu 12 þá máttu fara með hana heim til þín. Hún á að raka af sér hárið, klippa neglurnar, 13 fara úr fötunum sem hún var í þegar hún var tekin til fanga og búa hjá þér. Hún á að syrgja föður sinn og móður í heilan mánuð+ og eftir það máttu eiga mök við hana. Þú verður eiginmaður hennar og hún verður eiginkona þín. 14 En ef þú ert ekki ánægður með hana skaltu leyfa henni að fara+ hvert sem hún vill. Þú mátt þó ekki selja hana eða vera harðneskjulegur við hana þar sem þú hefur niðurlægt hana.
15 Segjum að maður eigi tvær konur og elski aðra meira en hina* og báðar hafi alið honum syni og frumburðurinn sé sonur þeirrar sem hann elskar minna.+ 16 Daginn sem hann skiptir arfi með sonum sínum má hann ekki koma fram við son konunnar sem hann elskar meira eins og hann væri frumburðurinn. Hann má ekki taka hann fram yfir frumburðinn, son konunnar sem hann elskar minna. 17 Hann á að viðurkenna frumburðinn, son konunnar sem hann elskar minna, með því að gefa honum tvöfaldan hlut af öllu sem hann á því að hann er frumgróði karlmennsku hans. Frumburðarrétturinn tilheyrir honum.+
18 Ef maður á son sem er þrjóskur og uppreisnargjarn og hlýðir ekki föður sínum eða móður+ og þau hafa reynt að leiðrétta hann en hann hlustar ekki á þau+ 19 eiga þau að fara með hann til öldunganna við borgarhliðið 20 og segja við öldunga borgarinnar: ‚Þessi sonur okkar er þrjóskur og uppreisnargjarn og hlýðir okkur ekki. Hann er mathákur+ og drekkur í óhófi.‘+ 21 Þá eiga allir borgarmenn að grýta hann til bana. Þannig skaltu útrýma hinu illa á meðal ykkar og allur Ísrael mun frétta það og óttast.+
22 Ef maður drýgir synd sem dauðarefsing liggur við, hann er tekinn af lífi+ og þú hengir hann á staur+ 23 má líkið ekki hanga næturlangt á staurnum.+ Þú skalt jarða hann samdægurs því að sá sem er hengdur á staur er bölvaður af Guði+ og þú mátt ekki óhreinka landið sem Jehóva Guð þinn gefur þér að erfðahlut.+
22 Ef þú sérð naut eða sauð bróður þíns á flækingi skaltu ekki hunsa það+ heldur fara með skepnuna til bróður þíns. 2 En ef bróðir þinn býr ekki í grenndinni eða þú veist ekki hver á skepnuna skaltu fara með hana heim til þín og hafa hana hjá þér þangað til bróðir þinn fer að leita að henni. Þá skaltu láta hann fá hana.+ 3 Eins skaltu fara með asna bróður þíns, föt hans og allt annað sem hann týnir og þú finnur. Láttu það ekki afskiptalaust.
4 Ef þú sérð asna eða naut bróður þíns detta á veginum skaltu ekki hunsa það. Hjálpaðu honum að reisa skepnuna á fætur.+
5 Kona má ekki klæðast karlmannsfötum og karlmaður ekki kvenfatnaði. Sá sem gerir það er viðurstyggilegur í augum Jehóva Guðs þíns.
6 Ef þú gengur fram á fuglshreiður með ungum eða eggjum við veginn, hvort heldur uppi í tré eða á jörðinni, og móðirin liggur á ungunum eða eggjunum máttu ekki taka móðurina með ungunum.+ 7 Leyfðu móðurinni að fara en þú mátt taka ungana. Þá mun þér farnast vel og þú verður langlífur.
8 Ef þú byggir hús skaltu gera handrið á þakbrúninni til að enginn detti ofan af þakinu+ og þú bakir húsi þínu blóðskuld.
9 Þú mátt ekki sá neinu innan um vínviðinn í víngarði þínum.+ Annars rennur bæði uppskeran af því sem þú sáðir og af vínviðnum til helgidómsins.
10 Þú mátt ekki plægja með nauti og asna saman.+
11 Þú mátt ekki ganga í fötum sem eru ofin úr bæði ull og hör.+
12 Þú skalt festa skúfa á fjögur horn fatnaðar þíns.+
13 Segjum að maður taki sér konu og hafi samfarir við hana en fái síðan óbeit á henni.* 14 Hann sakar hana um ósæmilega hegðun, spillir mannorði hennar og segir: ‚Ég giftist þessari konu en þegar ég hafði mök við hana fann ég ekki merki þess að hún væri hrein mey.‘ 15 Foreldrar stúlkunnar eiga þá að leggja sönnunargagn fyrir öldungana við borgarhliðið um að hún hafi verið hrein mey. 16 Faðir stúlkunnar á að segja við öldungana: ‚Ég gaf þessum manni dóttur mína fyrir eiginkonu en hann hefur óbeit á* henni. 17 Hann sakar hana um ósæmilega hegðun og segir: „Ég hef komist að raun um að dóttir þín var ekki hrein mey.“ En þetta er sönnun þess að dóttir mín hafi verið hrein mey.‘ Foreldrarnir eiga síðan að breiða úr klæðinu frammi fyrir öldungum borgarinnar. 18 Öldungar borgarinnar+ eiga þá að taka manninn og refsa honum.+ 19 Þeir skulu sekta hann um 100 sikla* silfurs og afhenda þá föður stúlkunnar því að maðurinn kom óorði á mey í Ísrael.+ Hún skal vera eiginkona hans áfram og hann má aldrei skilja við hana.
20 En ef ásökunin reynist rétt og engin sönnun er fyrir því að stúlkan hafi verið hrein mey 21 á að fara með hana að húsdyrum föður hennar og borgarmenn skulu grýta hana til bana því að hún framdi svívirðingu+ í Ísrael með því að gerast sek um kynferðislegt siðleysi* í húsi föður síns.+ Þannig skaltu útrýma hinu illa á meðal ykkar.+
22 Ef maður er staðinn að því að hafa samfarir við konu annars manns skulu bæði tekin af lífi, maðurinn sem hafði samfarir við konuna og konan sjálf.+ Þannig skaltu útrýma hinu illa úr Ísrael.
23 Ef hrein mey er trúlofuð manni og annar maður hittir hana í borginni og hefur samfarir við hana 24 skaltu fara með þau bæði út að borgarhliðinu og grýta þau til bana, stúlkuna af því að hún hrópaði ekki á hjálp í borginni og manninn af því að hann niðurlægði konu annars manns.+ Þannig skaltu útrýma hinu illa á meðal ykkar.
25 En ef maðurinn hittir trúlofuðu stúlkuna úti á víðavangi, tekur hana með valdi og hefur samfarir við hana skal maðurinn einn deyja. 26 Þú mátt ekki gera stúlkunni neitt því að hún drýgði ekki synd sem varðar dauðarefsingu. Þetta er sambærilegt við að maður ráðist á náunga sinn og myrði hann+ 27 því að hann hitti trúlofuðu stúlkuna úti á víðavangi og hún hrópaði en það var enginn þar til að bjarga henni.
28 Ef maður hittir hreina mey sem er ekki trúlofuð, tekur hana og hefur samfarir við hana og það kemst upp um þau+ 29 skal maðurinn sem hafði samfarir við stúlkuna greiða föður hennar 50 sikla silfurs og hún verður eiginkona hans.+ Þar sem hann niðurlægði hana má hann aldrei skilja við hana.
30 Enginn má giftast konu föður síns svo að hann vanvirði ekki föður sinn.*+
23 Enginn geldingur með kramin eistu eða afskorinn getnaðarlim má tilheyra söfnuði Jehóva.+
2 Enginn sem er óskilgetinn má tilheyra söfnuði Jehóva.+ Enginn afkomandi hans, ekki einu sinni í tíunda lið, má vera í söfnuði Jehóva.
3 Enginn Ammóníti eða Móabíti má tilheyra söfnuði Jehóva.+ Enginn afkomandi þeirra, ekki einu sinni í tíunda lið, má nokkurn tíma vera í söfnuði Jehóva 4 vegna þess að þeir gáfu ykkur hvorki mat né vatn þegar þið voruð á leið frá Egyptalandi+ og þeir réðu Bíleam Beórsson frá Petór í Mesópótamíu til að bölva* ykkur.+ 5 En Jehóva Guð ykkar hlustaði ekki á Bíleam+ heldur sneri Jehóva Guð ykkar bölvuninni í blessun+ því að Jehóva Guð ykkar elskaði ykkur.+ 6 Þið skuluð aldrei nokkurn tíma stuðla að farsæld þeirra og velgengni.+
7 Þú skalt ekki hata Edómítann því að hann er bróðir þinn.+
Þú skalt ekki hata Egyptann því að þú bjóst sem útlendingur í landi hans.+ 8 Börn þeirra í þriðja ættlið mega tilheyra söfnuði Jehóva.
9 Þegar þú ferð í stríð við óvini þína og ert í herbúðum skaltu forðast allt sem myndi gera þig óhreinan.*+ 10 Ef maður verður óhreinn út af sáðlátum að nóttu+ á hann að fara út fyrir búðirnar og má ekki koma inn í þær aftur 11 fyrr en um kvöldið þegar hann hefur þvegið sér með vatni. Hann má koma aftur inn í búðirnar um sólsetur.+ 12 Velja skal afvikinn stað* fyrir utan búðirnar þar sem menn geta gert þarfir sínar. 13 Þú skalt hafa prik meðal áhalda þinna. Þegar þú sest á hækjur þínar úti við skaltu grafa holu með því og hylja síðan hægðirnar. 14 Jehóva Guð þinn gengur um búðir þínar+ til að frelsa þig og gefa óvini þína í hendur þér. Búðirnar verða því að vera heilagar+ svo að hann sjái ekkert ógeðfellt hjá þér og snúi sér burt frá þér.
15 Þú skalt ekki framselja þræl í hendur húsbónda sínum ef hann hefur flúið frá honum til þín. 16 Hann má búa meðal ykkar hvar sem hann vill í borgum ykkar. Þú mátt ekki fara illa með hann.+
17 Engin af dætrum Ísraels má stunda musterisvændi+ né heldur nokkur af sonum Ísraels.+ 18 Þú mátt ekki koma með laun vændiskonu eða laun* vændismanns* inn í hús Jehóva Guðs þíns til að efna heit því að Jehóva Guð þinn hefur viðbjóð á hvoru tveggja.
19 Þú mátt ekki taka vexti af bróður þínum,+ hvorki af peningum, matvælum né nokkru öðru sem hægt er að leggja vexti á. 20 Þú mátt taka vexti af útlendingi+ en af bróður þínum skaltu ekki taka vexti.+ Þá mun Jehóva Guð þinn blessa þig í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur í landinu sem þú tekur til eignar.+
21 Ef þú vinnur Jehóva Guði þínum heit+ skaltu ekki vera seinn að efna það+ því að Jehóva Guð þinn ætlast til að þú efnir það. Annars drýgirðu synd.+ 22 En ef þú sleppir því að vinna heit syndgarðu ekki.+ 23 Stattu við orðin sem koma af vörum þínum+ og við það sem þú hefur lofað að færa Jehóva Guði þínum af fúsum og frjálsum vilja.+
24 Ef þú kemur inn í víngarð annars manns máttu borða eins og þig lystir af vínberjum en þú mátt ekki setja neitt í körfu þína.+
25 Ef þú ferð inn á kornakur annars manns máttu tína þroskuð öxin með höndunum en þú mátt ekki bera sigð að korni hans.+
24 Ef maður giftist konu en vill ekki eiga hana lengur af því að hann finnur eitthvað fráhrindandi í fari hennar á hann að skrifa skilnaðarbréf,+ afhenda henni það og láta hana fara af heimilinu.+ 2 Eftir að hún er farin af heimili hans má hún giftast öðrum.+ 3 Ef seinni maðurinn fær óbeit á* henni, skrifar skilnaðarbréf, afhendir henni það og lætur hana fara af heimilinu eða ef seinni maðurinn hennar deyr 4 má fyrri maðurinn sem lét hana fara ekki taka hana aftur fyrir eiginkonu. Hún er honum óhrein og Jehóva myndi hafa viðbjóð á því. Þú mátt ekki leiða synd inn í landið sem Jehóva Guð þinn gefur þér að erfðahlut.
5 Nýgiftur maður á ekki að þjóna í hernum og það á ekki að fela honum önnur skyldustörf. Hann á að vera undanþeginn slíku í eitt ár og vera heima, eiginkonu sinni til ánægju.+
6 Enginn má taka handkvörn eða efri kvarnarstein að veði fyrir láni*+ því að þá væri verið að taka lífsviðurværi manns* að veði.
7 Ef upp kemst að maður hefur rænt bróður sínum, Ísraelsmanni, farið illa með hann og selt hann+ skal ræninginn deyja.+ Þú skalt útrýma hinu illa meðal ykkar.+
8 Þegar holdsveiki* kemur upp skaltu gæta þess vandlega að fylgja öllum fyrirmælum Levítaprestanna.+ Farðu nákvæmlega eftir því sem ég gaf þeim fyrirmæli um. 9 Mundu hvað Jehóva Guð þinn gerði Mirjam þegar þú varst á leiðinni frá Egyptalandi.+
10 Ef þú lánar náunga þínum eitthvað+ máttu ekki fara inn í hús hans til að sækja það sem hann hefur boðið að veði. 11 Bíddu fyrir utan og láttu manninn sem fékk lán hjá þér færa þér það sem hann leggur að veði. 12 Og ef maðurinn er fátækur máttu ekki halda veðinu þegar þú ferð að sofa.+ 13 Skilaðu honum veðinu fyrir sólsetur. Þá getur hann skýlt sér með flíkinni þegar hann fer að sofa+ og hann mun blessa þig. Jehóva Guð þinn lítur á það sem réttlæti af þinni hálfu.
14 Þú mátt ekki hafa neitt af þurfandi og fátækum launamanni, hvort sem hann er bróðir þinn eða útlendingur búsettur í landinu, í einni af borgum þínum.*+ 15 Greiddu honum laun sín samdægurs,+ fyrir sólsetur, því að hann er fátækur og líf hans er undir laununum komið. Annars hrópar hann til Jehóva út af þér og þú verður sekur um synd.+
16 Feður skulu ekki teknir af lífi fyrir það sem börn þeirra gera né börnin fyrir það sem feður þeirra gera.+ Aðeins má taka mann af lífi fyrir eigin syndir.+
17 Þú mátt ekki fella ranglátan dóm yfir útlendingi eða föðurlausu barni*+ og þú mátt ekki taka föt ekkju að veði fyrir láni.*+ 18 Mundu að þú varst þræll í Egyptalandi og að Jehóva Guð þinn frelsaði* þig þaðan.+ Þess vegna segi ég þér að gera þetta.
19 Þegar þú hirðir uppskeruna af akri þínum og gleymir kornknippi á akrinum skaltu ekki snúa aftur og sækja það. Skildu það eftir handa útlendingnum, föðurlausa barninu og ekkjunni+ til að Jehóva Guð þinn blessi þig í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.+
20 Þegar þú hefur slegið ólívurnar af greinum ólívutrésins skaltu ekki fara til baka og endurtaka það. Útlendingurinn, föðurlausa barnið og ekkjan mega fá það sem eftir er.+
21 Þegar þú hefur tínt vínberin í víngarði þínum skaltu ekki fara til baka og tína það sem eftir er. Skildu það eftir handa útlendingnum, föðurlausa barninu og ekkjunni. 22 Mundu að þú varst þræll í Egyptalandi. Þess vegna segi ég þér að gera þetta.
25 Þegar deila kemur upp milli manna mega þeir leita til dómaranna.+ Þeir kveða upp dóm og sýkna hinn saklausa en sakfella hinn seka.+ 2 Ef hinn seki verðskuldar hýðingu+ á dómarinn að láta hann leggjast niður og síðan á að hýða hann að dómaranum viðstöddum. Hann á að fá eins mörg högg og hæfir vonskuverki hans. 3 Það má hýða hann allt að 40 höggum+ en ekki fleirum. Ef bróðir þinn væri hýddur umfram það yrði hann niðurlægður fyrir augum þínum.
4 Þú skalt ekki múlbinda naut þegar það þreskir korn.+
5 Ef bræður búa í grennd hver við annan og einn þeirra deyr án þess að hafa eignast son á ekkja hins látna ekki að giftast manni utan fjölskyldunnar. Mágur hennar á að ganga inn til hennar og gegna skyldu sinni með því að giftast henni.+ 6 Fyrsti sonurinn sem hún eignast skal bera nafn bróðurins sem lést+ svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael.+
7 Ef maðurinn vill ekki giftast ekkju bróður síns á hún að fara til öldunganna við borgarhliðið og segja: ‚Mágur minn neitar að viðhalda nafni bróður síns í Ísrael. Hann fellst ekki á að gegna mágskyldunni og giftast mér.‘ 8 Öldungarnir í borg hans skulu kalla hann fyrir sig og tala við hann. Ef hann stendur fast á sínu og segir: ‚Ég vil ekki giftast henni,‘ 9 á ekkja bróður hans að ganga að honum frammi fyrir öldungunum, taka sandalann af fæti hans,+ hrækja framan í hann og segja: ‚Svona á að fara með mann sem vill ekki viðhalda ætt bróður síns.‘ 10 Þaðan í frá skal ætt* hans í Ísrael kallast ‚Ætt hins skólausa‘.
11 Ef tveir menn slást og kona annars þeirra skerst í leikinn til að hjálpa manni sínum, réttir út höndina og grípur um kynfæri hins 12 skaltu höggva af henni höndina. Þú* skalt ekki vorkenna henni.
13 Þú mátt ekki vera með tvenns konar vogarsteina í poka þínum,+ annan þungan en hinn léttan. 14 Þú mátt ekki vera með tvenns konar mæliker*+ í húsi þínu, annað stórt en hitt lítið. 15 Vertu með nákvæman og réttan vogarstein og nákvæmt og rétt mæliker svo að þú verðir langlífur í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér.+ 16 Jehóva Guð þinn hefur andstyggð á þeim sem eru óheiðarlegir og gera slíkt.+
17 Mundu hvað Amalekítar gerðu ykkur þegar þið voruð á leiðinni frá Egyptalandi,+ 18 hvernig þeir komu á móti ykkur á leiðinni og réðust á alla sem drógust aftur úr þegar þið voruð þreytt og uppgefin. Þeir óttuðust ekki Guð. 19 Þegar Jehóva Guð þinn hefur gefið þér frið fyrir öllum óvinum umhverfis þig í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér til eignar+ skaltu afmá Amalekíta af jörðinni svo að þeirra verði aldrei minnst framar.+ Gleymdu því ekki.
26 Þegar þú ert kominn inn í landið sem Jehóva Guð þinn gefur þér að erfðahlut og þú hefur tekið það til eignar og ert sestur þar að 2 skaltu taka nokkuð af frumgróðanum af allri uppskeru* jarðarinnar í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér og láta það í körfu. Farðu síðan á staðinn þar sem Jehóva Guð þinn velur að láta nafn sitt búa.+ 3 Farðu til prestsins sem gegnir embætti á þeim tíma og segðu við hann: ‚Ég staðfesti frammi fyrir Jehóva Guði þínum í dag að ég er kominn inn í landið sem Jehóva sór forfeðrum okkar að gefa okkur.‘+
4 Presturinn skal þá taka við körfunni af þér og setja hana niður fyrir framan altari Jehóva Guðs þíns. 5 Síðan áttu að segja frammi fyrir Jehóva Guði þínum: ‚Faðir minn var Aramei+ sem flakkaði um.* Hann fór til Egyptalands+ og bjó þar sem útlendingur með fámennri fjölskyldu sinni.+ En þar varð hann að mikilli, voldugri og fjölmennri þjóð.+ 6 Egyptar fóru illa með okkur, kúguðu okkur og hnepptu okkur í þunga þrælavinnu.+ 7 Þá hrópuðum við til Jehóva, Guðs forfeðra okkar, og Jehóva heyrði hróp okkar og sá þjáningar okkar, hve kvalin við vorum og kúguð.+ 8 Að lokum leiddi Jehóva okkur út úr Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum handlegg+ og með ógnvekjandi verkum, táknum og kraftaverkum.+ 9 Síðan leiddi hann okkur hingað og gaf okkur þetta land, land sem flýtur í mjólk og hunangi.+ 10 Nú er ég kominn með frumgróðann af uppskeru jarðarinnar sem Jehóva hefur gefið mér.‘+
Þú skalt setja körfuna niður frammi fyrir Jehóva Guði þínum og falla fram fyrir Jehóva Guði þínum. 11 Síðan skaltu gleðjast yfir öllu því góða sem Jehóva Guð þinn hefur gefið þér og fjölskyldu þinni, þú, Levítinn og útlendingurinn sem býr á meðal ykkar.+
12 Á þriðja árinu, ári tíundarinnar, þegar þú hefur safnað saman allri tíundinni+ af uppskeru þinni, áttu að gefa hana Levítanum, útlendingnum, föðurlausa barninu* og ekkjunni og þau fá að borða nægju sína í borgum þínum.*+ 13 Síðan skaltu segja frammi fyrir Jehóva Guði þínum: ‚Ég hef farið með þessar heilögu gjafir úr húsi mínu og gefið þær Levítanum, útlendingnum, föðurlausa barninu og ekkjunni+ eins og þú gafst mér fyrirmæli um. Ég hef ekki brotið eða sniðgengið boðorð þín. 14 Ég hef ekki borðað af hinu heilaga meðan ég hef syrgt, ekki snert það meðan ég var óhreinn og ekki gefið neitt af því vegna látinnar manneskju. Ég hef hlýtt þér, Jehóva Guði mínum, og gert allt sem þú gafst mér fyrirmæli um. 15 Líttu nú niður frá heilögum bústað þínum, frá himnum, og blessaðu þjóð þína, Ísrael, og landið sem þú hefur gefið okkur+ eins og þú sórst forfeðrum okkar,+ landið sem flýtur í mjólk og hunangi.‘+
16 Jehóva Guð þinn segir þér í dag að fylgja þessum ákvæðum og lögum. Þú skalt halda þau og fylgja þeim af öllu hjarta+ og allri sál.* 17 Í dag hefur þú fengið loforð Jehóva fyrir því að hann verði Guð þinn ef þú gengur á vegum hans og heldur ákvæði hans,+ boðorð+ og lög,+ og ef þú hlustar á hann. 18 Og í dag hefur Jehóva fengið loforð þitt fyrir því að þú verðir þjóð hans, sérstök* eign hans,+ rétt eins og hann hefur lofað þér, og að þú haldir öll boðorð hans. 19 Eins og hann hefur lofað mun hann upphefja þig hátt yfir allar aðrar þjóðir sem hann hefur myndað+ og veita þér lof, frægð og heiður ef þú reynist heilög þjóð frammi fyrir Jehóva Guði þínum.“+
27 Móse og öldungar Ísraels gáfu nú fólkinu þessi fyrirmæli: „Haldið öll þau boðorð sem ég gef ykkur í dag. 2 Daginn sem þið haldið yfir Jórdan inn í landið sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur skuluð þið reisa stóra steina og kalkbera* þá.+ 3 Skrifið þessi lög á þá þegar þið eruð komin yfir ána. Þá fáið þið að fara inn í landið sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur, land sem flýtur í mjólk og hunangi eins og Jehóva, Guð forfeðra ykkar, hefur lofað ykkur.+ 4 Þegar þið eruð komin yfir Jórdan skuluð þið reisa þessa steina á Ebalfjalli+ og kalkbera* þá eins og ég gef ykkur fyrirmæli um í dag. 5 Þar skuluð þið einnig reisa Jehóva Guði ykkar altari úr steinum. Höggvið þá ekki til með járnverkfærum.+ 6 Reisið altari Jehóva Guðs ykkar úr óhöggnum steinum og færið Jehóva Guði ykkar brennifórnir á því. 7 Þið skuluð færa samneytisfórnir+ og borða þær þar+ og gleðjast frammi fyrir Jehóva Guði ykkar.+ 8 Og skrifið lögin skýrt og greinilega á steinana.“+
9 Móse og Levítaprestarnir ávörpuðu síðan allan Ísrael og sögðu: „Vertu hljóður, Ísrael, og hlustaðu. Í dag ertu orðinn þjóð Jehóva Guðs þíns.+ 10 Hlustaðu á Jehóva Guð þinn og fylgdu boðorðum hans+ og ákvæðum sem ég flyt þér í dag.“
11 Þennan dag gaf Móse fólkinu þessi fyrirmæli: 12 „Þegar þið eruð komin yfir Jórdan eiga þessar ættkvíslir að standa á Garísímfjalli+ og blessa fólkið: Símeon, Leví, Júda, Íssakar, Jósef og Benjamín. 13 Og þessar ættkvíslir eiga að standa á Ebalfjalli+ til að lýsa yfir bölvun: Rúben, Gað, Asser, Sebúlon, Dan og Naftalí. 14 Levítarnir skulu síðan svara öllum Ísraelsmönnum hárri röddu:+
15 ‚Bölvaður er sá maður sem býr til úthöggvið líkneski+ eða málmlíkneski,*+ verk handverksmanns,* og felur það. Jehóva hefur andstyggð á slíku.‘+ (Og allt fólkið skal svara: ‚Amen!‘*)
16 ‚Bölvaður er sá sem sýnir föður sínum eða móður fyrirlitningu.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
17 ‚Bölvaður er sá sem færir til landamerki nágranna síns.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
18 ‚Bölvaður er sá sem leiðir blindan mann afvega.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
19 ‚Bölvaður er sá sem fellir ranglátan dóm+ í máli útlendings, föðurlauss barns* eða ekkju.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
20 ‚Bölvaður er sá sem hefur samfarir við konu föður síns því að hann vanvirðir föður sinn.‘*+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
21 ‚Bölvaður er sá sem hefur samfarir við nokkurt dýr.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
22 ‚Bölvaður er sá sem hefur samfarir við systur sína, hvort heldur dóttur föður síns eða móður sinnar.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
23 ‚Bölvaður er sá sem hefur samfarir við tengdamóður sína.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
24 ‚Bölvaður er sá sem liggur í launsátri fyrir náunga sínum og drepur hann.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
25 ‚Bölvaður er sá sem lætur múta sér til að drepa saklausan mann.‘*+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
26 ‚Bölvaður er sá sem virðir ekki þessi lög og fer ekki eftir þeim.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
28 Ef þú hlustar á Jehóva Guð þinn og ferð vandlega eftir öllum boðorðum hans sem ég flyt þér í dag mun Jehóva Guð þinn upphefja þig hátt yfir allar aðrar þjóðir á jörðinni.+ 2 Allar þessar blessanir munu ná til þín og koma fram á þér+ því að þú hlustar alltaf á Jehóva Guð þinn:
3 Blessaður sértu í borginni og blessaður sértu á akrinum.+
4 Blessuð séu börn þín,*+ ávöxtur jarðar þinnar og afkvæmi búfjár þíns, kálfar þínir og lömb.+
5 Blessuð séu karfa þín+ og deigskál.+
6 Blessaður sértu þegar þú gengur inn og blessaður sértu þegar þú ferð út.
7 Jehóva lætur óvini þína sem rísa gegn þér bíða ósigur fyrir þér.+ Þeir munu ráðast á þig úr einni átt en flýja undan þér í sjö áttir.+ 8 Jehóva lýsir blessun yfir birgðageymslum þínum+ og öllu sem þú tekur þér fyrir hendur og blessar þig í landinu sem Jehóva Guð þinn gefur þér. 9 Jehóva gerir þig að heilagri þjóð sinni+ eins og hann sór þér+ vegna þess að þú heldur boðorð Jehóva Guðs þíns og gengur á vegum hans. 10 Allar þjóðir jarðar munu skilja að þú berð nafn Jehóva+ og þær munu óttast þig.+
11 Jehóva gefur þér ríkulega af öllu, fjölda barna og búfjár og frjósama jörð+ í landinu sem Jehóva sór forfeðrum þínum að gefa þér.+ 12 Jehóva opnar fyrir þér ríkulegt forðabúr sitt, himininn, til að gefa landi þínu regn á réttum tíma+ og blessa allt sem þú gerir. Þú munt lána mörgum þjóðum en sjálfur þarftu ekki að taka lán.+ 13 Jehóva gerir þig að höfði en ekki hala og þú verður öðrum fremri+ en ekki síðri ef þú hlýðir alltaf boðorðum Jehóva Guðs þíns sem ég flyt þér í dag og segi þér að halda. 14 Þú mátt ekki víkja frá neinum þeim fyrirmælum sem ég gef þér í dag, hvorki til hægri né vinstri,+ og fylgja öðrum guðum og þjóna þeim.+
15 En ef þú hlustar ekki á Jehóva Guð þinn og gætir þess ekki að halda öll boðorð hans og ákvæði sem ég flyt þér í dag munu allar þessar bölvanir ná til þín og koma yfir þig:+
16 Bölvaður sértu í borginni og bölvaður sértu á akrinum.+
17 Bölvuð séu karfa þín+ og deigskál.+
18 Bölvuð séu börn þín,*+ ávöxtur jarðar þinnar og kálfar þínir og lömb.+
19 Bölvaður sértu þegar þú gengur inn og bölvaður sértu þegar þú ferð út.
20 Jehóva sendir bölvun, ringulreið og refsingu yfir þig í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur. Þér verður skyndilega eytt og þú afmáður vegna vondra verka þinna og vegna þess að þú yfirgafst mig.+ 21 Jehóva lætur sjúkdóma loða við þig þar til hann hefur útrýmt þér úr landinu sem þú munt taka til eignar.+ 22 Jehóva slær þig með berklum, sótthita,+ bólgum, brennandi hita, sverði,+ sviðnum gróðri og mjölsvepp+ og það mun ásækja þig þar til þú verður að engu. 23 Himinninn yfir höfði þér verður eins og kopar og jörðin undir þér eins og járn.+ 24 Jehóva breytir regninu í landi þínu í sand og ryk sem fellur á þig af himni þar til þér hefur verið gereytt. 25 Jehóva lætur þig bíða ósigur fyrir óvinum þínum.+ Þú munt ráðast á þá úr einni átt en flýja undan þeim í sjö áttir. Öll ríki jarðar mun hrylla við að sjá hvernig fer fyrir þér.+ 26 Lík ykkar verða æti handa öllum fuglum himins og dýrum jarðar og enginn fælir þau burt.+
27 Jehóva slær þig með graftarkýlum Egyptalands, gyllinæð, exemi og útbrotum og enginn getur læknað þig. 28 Jehóva slær þig með vitfirringu, blindu+ og óráði.* 29 Þú munt fálma um miðjan dag eins og blindur maður fálmar í myrkri+ og þér tekst ekki neitt sem þú ætlar þér. Þú verður svikinn og rændur í sífellu og enginn bjargar þér.+ 30 Þú trúlofast konu en annar maður nauðgar henni. Þú byggir hús en færð ekki að búa í því.+ Þú plantar víngarð en færð ekki að njóta ávaxtarins.+ 31 Nauti þínu verður slátrað fyrir augunum á þér en þú færð ekki að borða neitt af því. Asna þínum verður stolið fyrir framan nefið á þér og þú sérð hann ekki framar. Óvinir þínir taka sauði þína en enginn hjálpar þér. 32 Önnur þjóð tekur syni þína og dætur+ að þér ásjáandi. Þú saknar þeirra stöðugt en ert máttvana. 33 Þjóð sem þú þekkir ekki borðar ávöxt jarðar þinnar og allan afrakstur erfiðis þíns+ og þú verður stöðugt svikinn og kúgaður. 34 Það sem þú horfir upp á gerir þig vitstola.
35 Jehóva slær þig með kvalafullum og ólæknandi kýlum á hnjám og fótleggjum, frá hvirfli til ilja. 36 Jehóva hrekur þig og konunginn sem þú tekur þér til þjóðar sem þú og forfeður þínir hafa ekki þekkt+ og þar muntu þjóna öðrum guðum, guðum úr tré og steini.+ 37 Og allar þjóðirnar sem Jehóva hrekur þig til mun hrylla við þér, þær munu fyrirlíta þig* og gera gys að þér.+
38 Þú sáir miklu korni í akurinn en uppskerð lítið+ því að engisprettur éta það. 39 Þú plantar og yrkir víngarða en færð ekkert vín að drekka og uppskerð ekkert+ því að maðkurinn étur allt. 40 Ólívutré munu vaxa á öllu landsvæði þínu en þú smyrð þig ekki með olíu því að ólívurnar detta af trjánum. 41 Þú eignast syni og dætur en færð ekki að halda þeim því að þau verða hneppt í ánauð.+ 42 Skordýr* herja á öll tré þín og ávöxt lands þíns. 43 Útlendingurinn sem býr hjá þér verður sífellt voldugri en völd þín dvína jafnt og þétt. 44 Hann mun lána þér en þú lánar ekki honum.+ Hann verður höfuðið en þú halinn.+
45 Allar þessar bölvanir+ munu ásækja þig, ná til þín og koma yfir þig þar til þér hefur verið gereytt+ vegna þess að þú hlustaðir ekki á Jehóva Guð þinn og hélst ekki boðorð hans og ákvæði sem hann setti þér.+ 46 Þær munu fylgja þér og afkomendum þínum sem varanlegt tákn og fyrirboði+ 47 af því að þú þjónaðir ekki Jehóva Guði þínum með fögnuði og glöðu hjarta meðan þú hafðir meira en nóg af öllu.+ 48 Jehóva sendir óvini þína gegn þér og þú munt þjóna þeim+ svangur+ og þyrstur, illa klæddur og allslaus. Hann leggur járnok á háls þér þar til hann hefur gereytt þér.
49 Jehóva sendir gegn þér þjóð frá fjarlægu landi,+ frá endimörkum jarðar. Hún steypir sér yfir þig eins og örninn,+ þjóð sem talar mál sem þú skilur ekki,+ 50 þjóð sem er grimmileg að sjá og tekur hvorki tillit til aldraðra né hlífir hinum ungu.+ 51 Hún borðar afkvæmi búfjár þíns og ávöxt landsins þar til þér hefur verið útrýmt. Hún skilur hvorki eftir handa þér korn, nýtt vín eða olíu, kálfa né lömb. Hún linnir ekki látum fyrr en hún hefur tortímt þér.+ 52 Hún sest um þig og lokar þig inni í öllum borgum þínum* í landinu þar til hinir háu og rammgerðu múrar sem þú treystir á falla. Já, hún sest um allar borgir þínar í landinu sem Jehóva Guð þinn hefur gefið þér.+ 53 Umsátrið og hörmungarnar sem óvinurinn veldur munu ganga svo nærri þér að þú neyðist til að borða þín eigin börn,* hold sona þinna og dætra+ sem Jehóva Guð þinn hefur gefið þér.
54 Jafnvel veikbyggðasti og viðkvæmasti maður á meðal ykkar finnur ekki til með bróður sínum, elskaðri eiginkonu eða sonum sínum sem eftir eru. 55 Hann gefur ekki neinu þeirra af holdi barna sinna sem hann borðar, enda leggst umsátrið og hörmungarnar sem óvinurinn veldur svo þungt á borgirnar að hann á ekkert annað.+ 56 Og veikbyggð og viðkvæm kona+ á meðal ykkar sem dettur ekki í hug að tylla fæti á jörðina finnur ekki til með ástkærum eiginmanni sínum, syni sínum eða dóttur. 57 Hún gefur þeim ekki neitt af holdi barnsins sem hún fæðir og ekki einu sinni af fylgjunni sem kemur út af kviði hennar. Umsátrið og hörmungarnar sem óvinurinn veldur leggjast svo þungt á borgirnar að hún borðar þetta sjálf í laumi.
58 Ef þú ferð ekki vandlega eftir þessum lögum sem eru skráð í þessari bók+ og þú óttast ekki hið dýrlega og mikilfenglega nafn+ Jehóva+ Guðs þíns 59 leggur Jehóva hræðilegar plágur á þig og afkomendur þína, miklar og þrálátar plágur+ og alvarlega og langvinna sjúkdóma. 60 Hann leggur á þig alla sjúkdóma Egyptalands sem þú varst hræddur við og þú losnar ekki við þá. 61 Jehóva mun líka leggja á þig alla sjúkdóma og plágur sem ekki eru nefndar í þessari lögbók þar til þér hefur verið útrýmt. 62 Þótt þið séuð orðin eins mörg og stjörnur himins+ verða mjög fá ykkar eftir+ vegna þess að þið hlustuðuð ekki á Jehóva Guð ykkar.
63 Rétt eins og Jehóva hafði ánægju af að veita ykkur velgengni og láta ykkur fjölga, eins mun Jehóva hafa ánægju af að eyða ykkur og útrýma. Þið verðið rifin burt úr landinu sem þið takið nú til eignar.
64 Jehóva mun tvístra þér meðal allra þjóða frá öðrum endimörkum jarðar til hinna+ og þar verður þú að þjóna guðum úr tré og steini sem hvorki þú né forfeður þínir þekktu.+ 65 Þú færð engan frið meðal þessara þjóða+ og finnur engan hvíldarstað handa fæti þínum. Jehóva gefur þér kvíðið hjarta,+ lúin augu og örvilna sál.+ 66 Þú verður í bráðri lífshættu og dauðskelfdur dag og nótt. Þú veist ekki hvort þú kemst lífs af. 67 Að morgni segirðu: ‚Ég vildi að það væri komið kvöld!‘ og að kvöldi segirðu: ‚Ég vildi að það væri kominn morgunn!‘ vegna óttans í hjarta þér og vegna þess sem þú horfir upp á. 68 Og Jehóva mun flytja þig aftur til Egyptalands með skipi, leiðina sem ég sagði þér að þú myndir aldrei sjá framar. Þar þurfið þið að selja ykkur óvinum sem þræla og ambáttir en enginn kaupir ykkur.“
29 Þetta eru orð sáttmálans sem Jehóva sagði Móse að gera við Ísraelsmenn í Móabslandi, auk sáttmálans sem hann gerði við þá hjá Hóreb.+
2 Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði: „Þið hafið séð allt sem Jehóva gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi gegn faraó, öllum þjónum hans og öllu landi hans.+ 3 Þið sáuð hina miklu refsidóma,* hin miklu tákn og kraftaverk.+ 4 En allt fram á þennan dag hefur Jehóva ekki gefið ykkur hjarta til að skilja, augu til að sjá né eyru til að heyra.+ 5 ‚Þau 40 ár sem ég leiddi ykkur um óbyggðirnar+ slitnuðu hvorki fötin sem þið klæddust né sandalarnir á fótum ykkar.+ 6 Þið átuð ekki brauð og drukkuð ekki vín né annað áfengi. Ég annaðist ykkur til að þið skilduð að ég er Jehóva Guð ykkar.‘ 7 Þið komuð loks hingað og Síhon, konungur í Hesbon,+ og Óg, konungur í Basan,+ komu á móti okkur til að berjast við okkur en við sigruðum þá.+ 8 Við tókum síðan land þeirra og gáfum það Rúbenítum, Gaðítum og hálfri ættkvísl Manasse að erfðahlut.+ 9 Farið því eftir orðum þessa sáttmála og hlýðið þeim svo að ykkur gangi vel í öllu sem þið gerið.+
10 Þið standið öll frammi fyrir Jehóva Guði ykkar í dag: höfðingjar ættkvísla ykkar, öldungar ykkar, umsjónarmenn og allir karlmenn í Ísrael, 11 börn ykkar og eiginkonur+ og útlendingar+ sem eru í búðum ykkar, allt frá þeim sem safnar viði til þess sem sækir vatn. 12 Þið eruð hér til að gangast undir sáttmála Jehóva Guðs ykkar og eiðinn sem Jehóva Guð ykkar sver ykkur í dag.+ 13 Þar með gerir hann ykkur að fólki sínu+ svo að hann verði Guð ykkar+ eins og hann lofaði ykkur og sór forfeðrum ykkar, Abraham,+ Ísak+ og Jakobi.+
14 En það er ekki aðeins við ykkur sem ég geri þennan eiðfesta sáttmála 15 heldur bæði við þá sem standa hér með okkur í dag frammi fyrir Jehóva Guði okkar og við þá sem eru ekki hér með okkur í dag. 16 (Þið vitið vel hvernig lífið var í Egyptalandi og hvernig við fórum um lönd ýmissa þjóða á leið okkar.+ 17 Þið sáuð allar viðurstyggðir þeirra og viðbjóðsleg skurðgoð* þeirra+ úr tré og steini, silfri og gulli.) 18 Gætið þess að ekki sé meðal ykkar í dag karl eða kona, ætt eða ættkvísl sem snýr hjarta sínu frá Jehóva Guði okkar til að þjóna guðum þessara þjóða.+ Á meðal ykkar má ekki finnast nokkur rót sem ber eitraðan ávöxt og malurt.+
19 En ef einhver heyrir þennan eið, stærir sig í hjarta sínu og hugsar: ‚Mér gengur vel þó að ég láti mitt eigið hjarta ráða ferðinni,‘ þá eyðileggur hann allt* í kringum sig 20 og Jehóva mun ekki fyrirgefa honum.+ Reiði Jehóva mun öllu heldur blossa upp gegn þeim manni og öll sú bölvun sem skráð er í þessari bók kemur yfir hann.+ Jehóva afmáir nafn hans af jörðinni. 21 Jehóva mun síðan skilja hann frá öllum ættkvíslum Ísraels og láta ógæfu koma yfir hann í samræmi við alla bölvun sáttmálans sem skráð er í þessari lögbók.
22 Komandi kynslóð, börn ykkar, og útlendingurinn frá fjarlægu landi munu sjá plágurnar og hörmungarnar sem Jehóva hefur leitt yfir landið 23 – brennistein, salt og eld svo að engu verður sáð í landinu, ekkert spírar þar og enginn gróður vex, ekki frekar en í Sódómu og Gómorru+ eða Adma og Sebóím+ sem Jehóva eyddi í reiði sinni og heift. 24 Þá munu þau og allar þjóðir spyrja: ‚Hvers vegna fór Jehóva svona með þetta land?+ Hvað olli þessari miklu og brennandi reiði?‘ 25 Og þeim verður svarað: ‚Menn sneru baki við sáttmála Jehóva,+ Guðs forfeðra sinna, sem hann gerði við þá þegar hann leiddi þá út úr Egyptalandi.+ 26 Þeir fóru að þjóna öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim, guðum sem þeir þekktu ekki og hann hafði ekki leyft þeim að tilbiðja.*+ 27 Þá blossaði reiði Jehóva upp gegn landinu og hann lét alla bölvunina sem skráð er í þessari bók koma yfir það.+ 28 Jehóva sleit þá upp úr jarðvegi þeirra í reiði sinni,+ heift og gremju og sendi þá í útlegð til annars lands þar sem þeir eru enn í dag.‘+
29 Það sem er hulið tilheyrir Jehóva Guði okkar+ en það sem er opinberað tilheyrir okkur og afkomendum okkar að eilífu svo að við getum fylgt hverju orði þessara laga.+
30 Þegar allt þetta er komið yfir þig, blessunin og bölvunin sem ég hef lagt fyrir þig,+ og þú minnist þessara orða*+ meðal allra þjóðanna sem Jehóva Guð þinn hefur hrakið þig til+ 2 og þú snýrð aftur til Jehóva Guðs þíns+ af öllu hjarta og allri sál,*+ hlustar á hann og gerir allt sem ég segi þér í dag, bæði þú og börn þín, 3 þá mun Jehóva Guð þinn leiða þig heim úr útlegðinni,+ sýna þér miskunn+ og safna þér saman frá öllum þjóðunum sem Jehóva Guð þinn hefur hrakið þig til.+ 4 Jafnvel þótt þú hafir dreifst allt til endimarka himins mun Jehóva Guð þinn safna þér þaðan og flytja þig heim.+ 5 Jehóva Guð þinn leiðir þig inn í landið sem feður þínir tóku til eignar og þú sest þar að. Hann veitir þér velgengni og lætur þér fjölga meira en feðrum þínum.+ 6 Jehóva Guð þinn hreinsar* hjarta þitt og hjörtu afkomenda þinna+ svo að þú elskir Jehóva Guð þinn af öllu hjarta og allri sál* og fáir að lifa.+ 7 Jehóva Guð þinn lætur þá allar þessar bölvanir koma yfir óvini þína sem hötuðu þig og ofsóttu.+
8 Þú ferð aftur að hlusta á Jehóva og halda öll boðorð hans sem ég flyt þér í dag. 9 Jehóva Guð þinn mun veita þér ríkulega velgengni í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.+ Hann gefur þér fjölda barna og búfjár og margfalda uppskeru. Jehóva hefur yndi af að blessa þig eins og hann hafði yndi af forfeðrum þínum.+ 10 Þá hlustarðu á Jehóva Guð þinn og heldur boðorð hans og ákvæði sem eru skráð í þessari lögbók, og þú snýrð aftur til Jehóva Guðs þíns af öllu hjarta og allri sál.*+
11 Þetta boðorð, sem ég gef þér í dag, er ekki of þungt fyrir þig og ekki utan seilingar.*+ 12 Það er ekki á himnum svo að þú þurfir að spyrja: ‚Hver stígur upp til himins og sækir það handa okkur svo að við getum heyrt það og haldið?‘+ 13 Það er ekki heldur handan hafsins svo að þú þurfir að spyrja: ‚Hver fer yfir hafið og sækir það handa okkur svo að við getum heyrt það og haldið?‘ 14 Nei, orðið er mjög nálægt þér, í munni þínum og hjarta,+ svo að þú getur farið eftir því.+
15 Ég legg fyrir þig í dag líf og gæfu, dauða og ógæfu.+ 16 Ef þú hlustar á boðorð Jehóva Guðs þíns sem ég gef þér í dag með því að elska Jehóva Guð þinn,+ ganga á vegum hans og halda boðorð hans, ákvæði og lög muntu lifa+ og þér mun fjölga, og Jehóva Guð þinn mun blessa þig í landinu sem þú tekur til eignar.+
17 En ef þið snúið hjörtum ykkar frá Guði,+ hlustið ekki og látið tælast til að falla fram fyrir öðrum guðum og þjóna þeim+ 18 segi ég ykkur í dag að ykkur verður útrýmt.+ Þá lifið þið ekki lengi í landinu sem þið haldið nú inn í yfir Jórdan til að taka til eignar. 19 Ég kalla himin og jörð til vitnis í dag um að ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun.+ Veldu lífið svo að þið lifið,+ þú og afkomendur þínir,+ 20 með því að elska Jehóva Guð þinn,+ hlusta á hann og halda þig fast við hann+ því að Jehóva gefur þér líf og langa ævi í landinu sem hann sór að gefa forfeðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi.“+
31 Móse fór nú út og talaði til alls Ísraels. 2 Hann sagði: „Ég er orðinn 120 ára.+ Ég get ekki lengur veitt ykkur forystu* því að Jehóva hefur sagt við mig: ‚Þú færð ekki að fara yfir Jórdan.‘+ 3 Jehóva Guð ykkar fer sjálfur yfir ána á undan ykkur og hann mun eyða þessum þjóðum frammi fyrir ykkur svo að þið getið tekið land þeirra til eignar.+ Það er Jósúa sem fer fyrir ykkur yfir ána+ eins og Jehóva hefur sagt. 4 Jehóva fer með þessar þjóðir eins og hann fór með Síhon+ og Óg,+ konunga Amoríta, og land þeirra þegar hann eyddi þeim.+ 5 Jehóva sigrar þær fyrir ykkur og þið skuluð fara með þær samkvæmt þeim fyrirmælum sem ég hef gefið ykkur.+ 6 Verið hugrökk og sterk.+ Verið ekki hrædd og látið ekki skelfast frammi fyrir þeim+ því að Jehóva Guð ykkar fer sjálfur með ykkur. Hann mun hvorki bregðast ykkur né yfirgefa ykkur.“+
7 Móse kallaði síðan á Jósúa og sagði við hann í augsýn alls Ísraels: „Vertu hugrakkur og sterkur+ því að þú átt að leiða þetta fólk inn í landið sem Jehóva sór forfeðrum þess að gefa því, og þú skalt gefa því landið að erfðahlut.+ 8 Jehóva fer sjálfur á undan þér og verður með þér.+ Hann mun hvorki bregðast þér né yfirgefa þig. Vertu ekki hræddur og láttu ekki skelfast.“+
9 Móse skráði þessi lög+ og fékk þau Levítaprestunum, sem bera sáttmálsörk Jehóva, og öllum öldungum Ísraels. 10 Hann gaf þeim eftirfarandi fyrirmæli: „Í lok sjöunda hvers árs, á tilsettum tíma á lausnarárinu,+ á laufskálahátíðinni+ 11 þegar allur Ísrael gengur fram fyrir Jehóva+ Guð þinn á staðnum sem hann velur, skaltu lesa upp þessi lög í áheyrn alls Ísraels.+ 12 Safnaðu fólkinu saman,+ körlum, konum, börnum og útlendingum sem búa í borgum þínum,* til að það geti hlustað, kynnst Jehóva Guði þínum betur og lært að óttast hann, og gæti þess að fylgja öllu sem stendur í lögunum. 13 Þá munu börn ykkar sem þekkja ekki lögin hlusta+ og læra að óttast Jehóva Guð ykkar svo lengi sem þið lifið í landinu sem þið haldið nú inn í yfir Jórdan til að taka til eignar.“+
14 Jehóva sagði síðan við Móse: „Nú styttist í að þú deyir.+ Kallaðu á Jósúa og gangið að* samfundatjaldinu svo að ég geti skipað hann leiðtoga.“+ Móse og Jósúa gengu þá að samfundatjaldinu. 15 Jehóva birtist við tjaldið í skýstólpanum og skýstólpinn nam staðar við tjalddyrnar.+
16 Jehóva sagði nú við Móse: „Bráðum muntu deyja* og þetta fólk á eftir að stunda andlegt vændi með útlendum guðum landsins sem það er á leið til.+ Það mun yfirgefa mig+ og rjúfa sáttmálann sem ég hef gert við það.+ 17 Þá mun reiði mín blossa upp gegn fólkinu.+ Ég yfirgef það+ og hyl andlit mitt fyrir því+ þar til því hefur verið tortímt. Eftir miklar hörmungar og neyð+ mun fólkið segja: ‚Eru þessar hörmungar ekki komnar yfir okkur af því að Guð okkar er ekki á meðal okkar?‘+ 18 En ég hyl andlit mitt áfram á þeim degi vegna alls þess illa sem það gerði þegar það sneri sér til annarra guða.+
19 Skrifið nú niður þetta ljóð+ og kennið Ísraelsmönnum það.+ Látið þá læra ljóðið* svo að það minni þá á viðvaranir mínar.+ 20 Þegar ég leiði þá inn í landið sem ég sór forfeðrum þeirra+ – land sem flýtur í mjólk og hunangi+ – og þeir borða sig sadda og dafna*+ munu þeir snúa sér til annarra guða og þjóna þeim. Þeir munu vanvirða mig og rjúfa sáttmála minn.+ 21 Þegar miklar hörmungar og neyð kemur yfir þá+ minnir þetta ljóð þá á viðvaranir mínar. (Afkomendur þeirra mega ekki gleyma því.) Ég veit nú þegar hvert hugur þeirra hneigist,+ jafnvel áður en ég leiði þá inn í landið sem ég hef lofað þeim.“
22 Móse skrifaði niður ljóðið þann dag og kenndi Ísraelsmönnum það.
23 Hann* skipaði síðan Jósúa+ Núnsson leiðtoga og sagði: „Vertu hugrakkur og sterkur+ því að þú átt að leiða Ísraelsmenn inn í landið sem ég lofaði þeim+ og ég verð með þér.“
24 Þegar Móse hafði lokið við að skrifa þessi lög í heild sinni í bók+ 25 gaf hann Levítunum sem bera sáttmálsörk Jehóva þessi fyrirmæli: 26 „Takið þessa lögbók+ og leggið hana við hliðina á sáttmálsörk+ Jehóva Guðs ykkar. Hún skal vera þar til vitnis gegn ykkur. 27 Ég veit vel hve uppreisnargjörn+ og þrjósk*+ þið eruð. Þið hafið sýnt Jehóva mikinn mótþróa meðan ég hef verið með ykkur. Hvernig verðið þið þá eftir að ég er dáinn! 28 Kallið til mín alla öldunga ættkvísla ykkar og umsjónarmenn svo að þeir fái að heyra þessi orð. Ég kalla himin og jörð til vitnis gegn þeim.+ 29 Ég veit vel að eftir dauða minn munuð þið gera það sem er illt+ og víkja út af veginum sem ég hef sagt ykkur að fylgja. Þið munuð upplifa hörmungar+ á komandi tímum af því að þið gerið það sem er illt í augum Jehóva og misbjóðið honum með verkum ykkar.“
30 Móse flutti síðan þetta ljóð frá upphafi til enda í áheyrn alls safnaðar Ísraels:+
32 „Hlustið, himnar, og ég mun tala,
jörðin heyri orðin af munni mér.
2 Fræðsla mín streymi sem regnið,
orð mín drjúpi eins og döggin,
eins og milt regn á grasið,
eins og helliskúrir á gróðurinn.
Segið frá hve Guð okkar er mikill!+
5 Það eru þeir sem eru spilltir.+
Þeir eru ekki börn hans, þeir hafa sjálfir brugðist.+
Þeir eru svikul og rangsnúin kynslóð.+
Er hann ekki faðir þinn sem skapaði þig,+
sá sem myndaði þig og gerði þig að þjóð?
7 Minnstu fyrri daga,
hugsaðu um árin þegar fyrri kynslóðir voru uppi.
Spyrðu föður þinn og hann getur sagt þér frá,+
öldungana og þeir geta frætt þig.
8 Þegar Hinn hæsti gaf þjóðunum erfðaland,+
þegar hann aðskildi syni Adams,*+
setti hann þjóðunum landamæri+
miðað við fjölda Ísraelssona.+
11 Eins og örn kemur ungum sínum úr hreiðrinu,
svífur yfir nýfleygum ungunum,
þenur út vængina og grípur þá,
ber þá á flugfjöðrum sínum,+
Enginn framandi guð var með honum.+
Hann nærði hann á hunangi úr kletti
og olíu úr tinnusteini,
14 smjöri úr kúnum og mjólk úr sauðfénu,
ásamt bestu sauðunum,*
hrútum Basans og geithöfrum
Þú drakkst vín úr blóði* vínberja.
15 Þegar Jesjúrún* fitnaði sparkaði hann þrjóskulega.
Þú fitnaðir, varðst digur og útblásinn.+
Þá yfirgaf hann Guð sem skapaði hann+
og fyrirleit klettinn sem bjargaði honum.
17 Þeir færðu fórnir illum öndum en ekki Guði,+
guðum sem þeir höfðu ekki þekkt,
nýjum guðum, nýtilkomnum,
guðum sem forfeður þínir þekktu ekki.
19 Jehóva sá það og hafnaði þeim+
því að synir hans og dætur misbuðu honum.
20 Hann sagði: ‚Ég hyl andlit mitt fyrir þeim,+
ég ætla að sjá hvernig fer fyrir þeim
því að þeir eru spillt kynslóð,+
synir sem engin tryggð býr í.+
21 Þeir hafa reitt mig til reiði* með því sem er ekki guð,+
misboðið mér með einskis nýtum goðum sínum.+
22 Reiði mín hefur kveikt bál+
sem brennur niður í djúp grafarinnar,*+
það gleypir jörðina og afurðir hennar
og kveikir í undirstöðum fjalla.
23 Ég hrúga yfir þá hörmungum,
eyði á þá öllum örvum mínum.
Ég sendi á þá vígtennt villidýr+
og eiturslöngur sem skríða á jörðinni.
26 Ég ætlaði að segja: „Ég tvístra þeim,
ég afmái minningu þeirra meðal manna.“
Þeir hefðu getað sagt: „Við sigruðum í eigin krafti,+
það var ekki Jehóva sem gerði allt þetta.“
29 Bara að þeir væru vitrir!+ Þá myndu þeir íhuga þetta.+
Þeir myndu hugleiða hvernig færi fyrir þeim.+
30 Hvernig gæti einn elt 1.000
32 Vínviður þeirra er af vínviði Sódómu
og af gróðurstöllum Gómorru.+
Vínber þeirra eru eitruð
og klasar þeirra beiskir.+
33 Vín þeirra er slöngueitur,
banvænt eitur kóbrunnar.
34 Er það ekki geymt hjá mér,
innsiglað í geymsluhúsi mínu?+
Ógæfudagur þeirra er í nánd
og það sem bíður þeirra gerist innan skamms.‘
36 Jehóva mun dæma fólk sitt+
og finna til með* þjónum sínum+
þegar hann sér að kraftur þeirra dvínar
og engir eru eftir nema hjálparvana og veikburða menn.
37 Þá mun hann spyrja: ‚Hvar eru guðir þeirra,+
kletturinn þar sem þeir leituðu athvarfs,
38 þeir sem átu fitu fórna* þeirra
og drukku vín drykkjarfórna þeirra?+
Komi þeir nú og hjálpi ykkur,
verði þeir athvarf ykkar.
Ég deyði og ég lífga.+
40 Ég lyfti hendi minni til himins
og sver: „Svo sannarlega sem ég lifi að eilífu“+
41 – þegar ég brýni blikandi sverð mitt
og bý mig undir að fullnægja dómi+
kem ég fram hefndum á fjandmönnum mínum+
og endurgeld þeim sem hata mig.
42 Ég geri örvar mínar drukknar af blóði,
af blóði fallinna og fanga,
og sverð mitt skal éta hold,
höfuðin af leiðtogum óvinanna.‘
43 Gleðjist, þið þjóðir, með fólki hans+
því að hann hefnir blóðs þjóna sinna,+
kemur fram hefndum á andstæðingum sínum+
og friðþægir fyrir* land fólks síns.“
44 Móse kom og flutti þetta ljóð í heild í áheyrn fólksins,+ hann og Hósea*+ Núnsson. 45 Eftir að Móse hafði flutt öllum Ísrael þessi orð 46 sagði hann: „Hugfestið viðvörun mína sem ég flyt ykkur í dag+ svo að þið brýnið fyrir börnum ykkar að halda vandlega allt sem stendur í þessum lögum.+ 47 Þetta eru ekki innantóm orð heldur er líf ykkar undir þeim komið+ og ef þið hlýðið þeim lifið þið lengi í landinu sem þið haldið nú inn í yfir Jórdan til að taka til eignar.“
48 Þennan sama dag sagði Jehóva við Móse: 49 „Farðu upp á Abarímfjall,+ fjallið Nebó,+ sem er í Móabslandi á móts við Jeríkó og horfðu yfir Kanaansland sem ég gef Ísraelsmönnum til eignar.+ 50 Þú munt deyja á fjallinu sem þú gengur upp á og safnast til fólks þíns* eins og Aron bróðir þinn dó á Hórfjalli+ og safnaðist til fólks síns 51 því að þið brugðust mér báðir meðal Ísraelsmanna við Meríbavötn+ í Kades í óbyggðum Sin. Þið helguðuð mig ekki frammi fyrir Ísraelsmönnum.+ 52 Þú færð að sjá landið í fjarska en sjálfur færðu ekki að ganga inn í landið sem ég gef Ísraelsmönnum.“+
33 Móse, maður hins sanna Guðs, blessaði Ísraelsmenn með þessum orðum áður en hann dó.+ 2 Hann sagði:
„Jehóva – hann kom frá Sínaí+
og skein yfir þá frá Seír.
Dýrð hans ljómaði frá fjalllendi Paran+
og heilagar þúsundir* voru með honum,+
stríðsmenn hans á hægri hönd honum.+
5 Guð varð konungur í Jesjúrún*+
þegar höfðingjar fólksins söfnuðust saman+
ásamt öllum ættkvíslum Ísraels.+
7 Hann blessaði Júda með þessum orðum:+
„Jehóva, heyrðu rödd Júda+
og leiddu hann aftur til fólks síns.
Hendur hans hafa varið það* sem tilheyrir honum.
Hjálpaðu honum gegn andstæðingum hans.“+
8 Um Leví sagði hann:+
Þú barðist gegn honum við Meríbavötn,+
9 manninum sem sagði við föður sinn og móður: ‚Ég tek ekki tillit til þeirra.‘
Hann viðurkenndi ekki bræður sína+
og gaf sonum sínum engan gaum
því að hann fór eftir orðum þínum
og hélt sáttmála þinn.+
11 Blessaðu, Jehóva, kraft hans
og hafðu ánægju af verkum handa hans.
Brjóttu fætur* þeirra sem rísa gegn honum
svo að hatursmenn hans standi ekki upp aftur.“
12 Um Benjamín sagði hann:+
„Sá sem Jehóva elskar búi óhultur hjá honum.
Hann skýlir honum allan daginn,
hann býr milli axla hans.“
13 Um Jósef sagði hann:+
„Jehóva blessi land hans+
með gæðum himins,
með dögg og vatni úr djúpum lindum,+
14 með því besta sem þroskast í sólinni
og úrvalsuppskeru í hverjum mánuði,+
15 með því besta af ævafornum fjöllum*+
og því besta af eilífum hæðum,
16 með gæðum jarðar og því sem á henni er+
og með velþóknun hans sem býr í þyrnirunnanum.+
Megi þetta koma yfir höfuð Jósefs,
hvirfil hans sem er útvalinn meðal bræðra sinna.+
17 Hann er tignarlegur eins og frumburður nautsins
og horn hans eru horn villinautsins.
Með þeim hrekur* hann þjóðirnar allar
allt til endimarka jarðar.
Þau eru tugþúsundir Efraíms,+
þau eru þúsundir Manasse.“
18 Um Sebúlon sagði hann:+
„Gleðstu, Sebúlon, þegar þú ferð út
og þú, Íssakar, í tjöldum þínum.+
19 Þeir kalla þjóðir til fjallsins.
Þar færa þeir réttlætisfórnir.
20 Um Gað sagði hann:+
„Blessaður sé sá sem færir út landamæri Gaðs.+
Hann liggur þar eins og ljón,
tilbúinn að slíta sundur handlegg og höfuð.
Höfðingjar fólksins safnast saman.
Hann framfylgir réttlæti Jehóva
og úrskurðum hans varðandi Ísrael.“
22 Um Dan sagði hann:+
„Dan er ljónshvolpur.+
Hann kemur stökkvandi frá Basan.“+
23 Um Naftalí sagði hann:+
„Naftalí er saddur af velþóknun
og mettur af blessun Jehóva.
Sestu að í vestri og suðri.“
24 Um Asser sagði hann:+
„Guð hefur veitt Asser marga syni.
Hann sé elskaður af bræðrum sínum.
Dýfi* hann fótum sínum í olíu.
26 Enginn jafnast á við Guð+ Jesjúrúns+
sem ríður yfir himininn til að hjálpa þér,
sem ríður á skýjunum í hátign sinni.+
28 Ísrael býr óhultur
og lind Jakobs út af fyrir sig
í landi með korni og nýju víni+
þar sem döggin drýpur af himni.+
29 Farsæll ertu, Ísrael!+
Hann er verndarskjöldur þinn+
og voldugt sverð.
34 Móse gekk síðan frá eyðisléttum Móabs á Nebófjall,+ upp á Pisgatind+ sem er gegnt Jeríkó.+ Jehóva sýndi honum allt landið frá Gíleað til Dans,+ 2 allt Naftalí og land Efraíms og Manasse, allt land Júda að hafinu í vestri,*+ 3 Negeb+ og Jórdansvæðið,+ þar á meðal dalinn hjá Jeríkó, pálmaborginni, allt til Sóar.+
4 Jehóva sagði nú við hann: „Þetta er landið sem ég sór Abraham, Ísak og Jakobi þegar ég sagði: ‚Ég gef afkomendum þínum það.‘+ Ég hef leyft þér að sjá það með eigin augum en þú færð ekki að fara þangað yfir.“+
5 Síðan dó Móse þjónn Jehóva þar í Móabslandi eins og Jehóva hafði sagt.+ 6 Hann jarðaði hann í dalnum í Móabslandi gegnt Bet Peór og enn þann dag í dag veit enginn hvar gröf hans er.+ 7 Móse var 120 ára þegar hann dó.+ Hann var ekki orðinn sjóndapur og styrkur hans hafði ekki dvínað. 8 Ísraelsmenn grétu og syrgðu Móse á eyðisléttum Móabs í 30 daga.+ Þá var sorgartíminn á enda.
9 Jósúa Núnsson var fullur visku* því að Móse hafði lagt hendur yfir hann.+ Ísraelsmenn fóru nú að hlusta á hann og gerðu eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.+ 10 En aldrei hefur komið fram annar eins spámaður í Ísrael og Móse+ sem Jehóva umgekkst augliti til auglitis.+ 11 Hann gerði öll táknin og kraftaverkin sem Jehóva hafði sent hann til að gera í Egyptalandi gegn faraó, öllum þjónum hans og landi,+ 12 og með sterkri hendi vann hann mikil máttarverk í augsýn alls Ísraels.+
Það er, Líbanonsfjallgarðinum.
Orðrétt „létu hjörtu okkar bráðna“.
Orðrétt „fullkomlega“.
Orðrétt „sem stendur frammi fyrir þér“.
Eða hugsanl. „Guð hefur styrkt hann“.
Eða „Ögrið þeim ekki“.
Það er, Krít.
Eða „og kveljast eins og af fæðingarhríðum vegna ykkar“.
Eða „borgir hans og helguðum þær eyðingu ásamt“. Sjá orðaskýringar.
Eða „helguðum þær eyðingu“. Sjá orðaskýringar.
Eða „Við helguðum hverja einustu borg eyðingu ásamt“.
Eða „Steinkista; Líkkista“.
Eða hugsanl. „svörtu basalti“.
Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.
Sem þýðir ‚tjaldþorp Jaírs‘.
Það er, Dauðahafi.
Orðrétt „upp í hjarta himinsins“.
Orðrétt „orðin tíu“.
Eða „erfðaþjóð“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „prófraunum“.
Það er, Saltasjó (Dauðahafi).
Eða „til að ögra mér“. Orðrétt „gegn andliti mínu“.
Eða „táknmynd“.
Eða „ástúðlega umhyggju“.
Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.
Orðrétt „orð“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „allri atorku þinni; allri getu þinni“.
Eða „Ítrekaðu þau við“.
Orðrétt „sonum“.
Orðrétt „milli augna þinna“.
Orðrétt „frammi fyrir“.
Eða „helga þær eyðingu“. Sjá orðaskýringar.
Eða „ekki mægjast“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „dýrmæta“.
Orðrétt „hendi“.
Orðrétt „blessa ávöxt kviðar þíns“.
Orðrétt „gleypa“.
Orðrétt „Auga þitt“.
Eða „prófraunum“.
Eða hugsanl. „ofsahræðslu; skelfingu“.
Eða „helgi ykkur ekki eyðingu“.
Eða „helga það eyðingu“.
Eða „djúpum lindum“.
Orðrétt „harðsvíruð“.
Eða „steypt líkneski“.
Orðrétt „harðsvírað fólk“.
Eða „steyptan kálf“.
Eða „arfur þinn“.
Eða „arfur þinn“.
Eða „kistu“.
Orðrétt „orðin tíu“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „hæstu himnar“.
Orðrétt „Umskerið“.
Orðrétt „verið ekki harðsvíruð lengur“.
Eða „munaðarleysingjar“.
Eða „hvernig hann fór með“.
Það er, annaðhvort með fótstignu vatnshjóli eða með því að beita fótum til að stjórna áveitu.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „milli augna ykkar“.
Það er, Hafinu mikla, Miðjarðarhafi.
Eða „veita“.
Eða „á móti sólsetrinu“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „það sem er rétt í þeirra eigin augum“.
Orðrétt „innan borgarhliða“.
Orðrétt „innan allra borgarhliða þinna“.
Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.
Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.
Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „eða vinur þinn sem er eins og sál þín“.
Eða „Helgaðu hana eyðingu ásamt“. Sjá orðaskýringar.
Eða „er helgað banni“.
Eða „raka á ykkur ennið“. Orðrétt „raka ykkur milli augnanna“.
Eða „dýrmæta“.
Orðrétt „innan borgarhliða“.
Eða „munaðarleysingjarnir“.
Eða „lána gegn veði“.
Eða „lánaðu honum gegn veði“.
Orðrétt „hjarta þitt gefi“.
Eða „leysti“.
Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.
Sjá viðauka B15.
Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.
Eða „munaðarleysinginn“.
Orðrétt „innan allra borgarhliða þinna“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „sem ég hef ekki gefið fyrirmæli um“.
Eða „á bókrollu“.
Það er, staðarins sem Jehóva velur að tilbeiðslumiðstöð.
Orðrétt „lætur son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn“.
Orðrétt „því að hjarta hans er heitt“.
Orðrétt „Auga þitt“.
Orðrétt „rísa gegn“.
Orðrétt „Auga þitt sýni“.
Eða „sál fyrir sál“.
Eða „helga þessar þjóðir eyðingu“. Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „tvær konur, aðra elskaða og hina hataða“.
Eða „hafni henni síðan“.
Eða „hafnar“.
Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.
Eða „vændi“.
Orðrétt „fletti ekki upp kyrtilfaldi föður síns“.
Eða „formæla“.
Eða „allt illt“.
Það er, kamar.
Eða „tekjur“.
Orðrétt „hunds“.
Eða „hafnar“.
Eða „að tryggingu“.
Eða „líf“.
Hebreska orðið sem þýtt er „holdsveiki“ hefur breiða merkingu og getur náð yfir ýmsa smitnæma húðsjúkdóma. Það getur einnig náð yfir ýmsar sýkingar í húsum eða fatnaði.
Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.
Eða „munaðarleysingja“.
Eða „að tryggingu“.
Eða „leysti“.
Orðrétt „nafn“.
Orðrétt „Auga þitt“.
Orðrétt „vera með efu og efu“. Sjá viðauka B14.
Orðrétt „öllum ávexti“.
Eða hugsanl. „sem var í lífshættu“.
Eða „munaðarleysingjanum“.
Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „dýrmæt“.
Eða „hvítkalka“.
Eða „hvítkalka“.
Eða „steypt líkneski“.
Eða „tré- og málmsmiðs“.
Eða „Verði svo!“
Eða „munaðarleysingja“.
Orðrétt „flettir upp kyrtilfaldi föður síns“.
Eða „sál saklauss blóðs“.
Orðrétt „Blessaður sé ávöxtur kviðar þíns“.
Orðrétt „Bölvaður sé ávöxtur kviðar þíns“.
Eða „sturlun í hjarta“.
Orðrétt „hafa þig að máltæki“.
Eða „Suðandi skordýr“.
Orðrétt „innan allra borgarhliða þinna“.
Orðrétt „ávöxt kviðar þíns“.
Eða „hinar miklu prófraunir“.
Hebreska orðið lýsir fyrirlitningu. Hugsanlegt er að það sé skylt orði sem merkir ‚mykja‘.
Orðrétt „hið vökvaða ásamt hinu þurra“.
Orðrétt „ekki úthlutað þeim“.
Eða „þú rifjar þessi orð upp í hjarta þér“.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „umsker“.
Sjá orðaskýringar.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „ekki fjarlægt“.
Orðrétt „gengið út og inn“.
Orðrétt „innan borgarhliða þinna“.
Eða „takið ykkur stöðu við“.
Orðrétt „leggjast hjá feðrum þínum“.
Orðrétt „Leggið það þeim í munn“.
Orðrétt „fitna“.
Greinilega er átt við Guð.
Orðrétt „harðsvíruð“.
Eða hugsanl. „mannkynið“.
Það er, Jakob.
Orðrétt „fitu sauðanna“.
Orðrétt „nýrnafitu hveitisins“.
Eða „safa“.
Sem þýðir ‚hinn ráðvandi‘. Heiðurstitill gefinn Ísrael.
Eða „vakið afbrýði mína“.
Á hebr. Sheol, það er, sameiginleg gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.
Eða hugsanl. „sem heyrir ekki ráð“.
Eða „sjá eftir“.
Eða „bestu fórnir“.
Orðrétt „hann“.
Eða „hreinsar“.
Upprunalegt nafn Jósúa. Hósea er stytting nafnsins Hósaja sem merkir ‚bjargað af Jah; Jah hefur bjargað‘.
Ljóðræn lýsing á dauðanum.
Eða „tugþúsundir heilagra“.
Sem þýðir ‚hinn ráðvandi‘. Heiðurstitill gefinn Ísrael.
Eða „barist fyrir því“.
Fornafnið „þú“ í þessu versi vísar til Guðs.
Orðrétt „í nefi þér“.
Eða „mjaðmir“.
Eða hugsanl. „af fjöllunum í austri“.
Eða „stangar“.
Orðrétt „sjúga“.
Eða „fjársjóði“.
Eða „Baði“.
Orðrétt „og styrkur þinn verður eins og dagar þínir“.
Eða hugsanl. „hæðum“.
Það er, Hafinu mikla, Miðjarðarhafi.
Eða „visku sem andi Guðs veitti honum“.