Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt 1. Konungabók 1:1-22:53
  • 1. Konungabók

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • 1. Konungabók
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
1. Konungabók

FYRRI KONUNGABÓK

1 Davíð konungur var nú orðinn gamall+ og aldurhniginn og gat ekki haldið á sér hita þótt breidd væru yfir hann teppi. 2 Þjónar hans sögðu því við hann: „Við skulum finna handa þér stúlku, herra okkar og konungur, hreina mey sem getur þjónað þér og hjúkrað. Hún skal liggja í faðmi þínum til að hlýja herra okkar og konungi.“ 3 Síðan var leitað að fallegri stúlku í öllu landi Ísraels og menn fundu Abísag+ frá Súnem+ og fóru með hana til konungs. 4 Stúlkan var gullfalleg. Hún hjúkraði konungi og þjónaði honum en konungur hafði ekki mök við hana.

5 Adónía+ sonur Haggítar hreykti sér upp og sagði: „Ég vil verða konungur!“ Hann útvegaði sér vagn og riddara og 50 menn sem hlupu á undan honum.+ 6 En faðir hans hafði aldrei látið hann standa fyrir máli sínu* og spurt: „Hvers vegna gerirðu þetta?“ Adónía var auk þess mjög myndarlegur og hann fæddist næstur á eftir Absalon. 7 Hann ráðfærði sig við Jóab Serújuson og Abjatar+ prest og þeir lofuðu að styðja hann.+ 8 En Sadók+ prestur, Benaja+ Jójadason, Natan+ spámaður, Símeí,+ Reí og stríðskappar Davíðs+ studdu ekki Adónía.

9 Einhverju sinni fórnaði+ Adónía sauðum, nautum og alikálfum hjá Sóheletsteini sem er rétt hjá Rógellind. Hann bauð öllum bræðrum sínum, sonum konungs, og öllum Júdamönnum sem voru í þjónustu konungs. 10 En hann bauð hvorki Natan spámanni, Benaja og stríðsköppunum né Salómon bróður sínum. 11 Þá sagði Natan+ við Batsebu+ móður Salómons:+ „Hefurðu ekki heyrt að Adónía+ sonur Haggítar er orðinn konungur? Og Davíð herra okkar hefur ekki hugmynd um það. 12 Ég skal gefa þér ráð svo að þú getir bjargað lífi þínu og lífi Salómons sonar þíns.+ 13 Farðu inn til Davíðs konungs og segðu við hann: ‚Herra minn og konungur, vannstu mér ekki eið og sagðir: „Salómon sonur þinn verður konungur eftir mig og hann mun sitja í hásæti mínu“?+ Hvers vegna er þá Adónía orðinn konungur?‘ 14 Ég kem síðan inn á eftir þér meðan þú ert enn að tala við konung og staðfesti orð þín.“

15 Batseba fór þá til konungs í svefnherbergi hans. En konungur var mjög gamall og Abísag+ frá Súnem þjónaði honum. 16 Batseba hneigði sig og laut konungi. „Hvað get ég gert fyrir þig?“ spurði konungur. 17 Hún svaraði: „Herra, þú vannst mér þennan eið við Jehóva Guð þinn: ‚Salómon sonur þinn verður konungur eftir mig og hann mun sitja í hásæti mínu.‘+ 18 En nú er Adónía orðinn konungur án þess að þú vitir af því,+ herra minn og konungur. 19 Hann hefur fórnað fjölda nauta, alikálfa og sauða og boðið öllum sonum konungs og Abjatar presti og Jóab hershöfðingja+ en hann bauð ekki Salómon þjóni þínum.+ 20 Herra minn og konungur, nú beinast augu allra Ísraelsmanna að þér. Fólkið bíður eftir að þú tilkynnir hver eigi að sitja í hásæti þínu eftir þinn dag. 21 Ef þú gerir það ekki verðum við Salómon sonur minn álitin svikarar þegar þú, herra minn og konungur, hefur lagst til hvíldar hjá forfeðrum þínum.“

22 Meðan hún var enn að tala við konung kom Natan spámaður.+ 23 Konungi var tilkynnt: „Natan spámaður er kominn.“ Hann gekk fyrir konung, laut honum og féll á grúfu. 24 Natan sagði: „Herra minn og konungur, sagðir þú: ‚Adónía verður konungur eftir mig og hann mun sitja í hásæti mínu‘?+ 25 Í dag fór hann nefnilega niður eftir til að fórna+ fjölda nauta, alikálfa og sauða. Hann bauð öllum sonum konungs, herforingjunum og Abjatar presti+ og nú borða þeir og drekka með honum og segja: ‚Lengi lifi Adónía konungur!‘ 26 En mér, þjóni þínum, bauð hann ekki og ekki heldur Sadók presti, Benaja+ Jójadasyni né Salómon þjóni þínum. 27 Hefur þú, herra minn og konungur, fyrirskipað þetta án þess að segja mér hver eigi að sitja í hásæti þínu eftir þinn dag?“

28 Davíð konungur svaraði: „Kallið á Batsebu.“ Hún gekk þá inn til konungs og þegar hún stóð frammi fyrir honum 29 vann hann þennan eið: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem hefur bjargað mér úr öllum erfiðleikum,+ 30 mun ég í dag halda eiðinn sem ég vann þér frammi fyrir Jehóva Guði Ísraels þegar ég sagði: ‚Salómon sonur þinn verður konungur eftir mig og hann mun sitja í hásæti mínu í minn stað.‘“ 31 Þá hneigði Batseba sig, féll á grúfu frammi fyrir konungi og sagði: „Megi herra minn, Davíð konungur, lifa að eilífu!“

32 Davíð konungur sagði þegar í stað: „Kallið á Sadók prest, Natan spámann og Benaja+ Jójadason.“+ Þeir gengu fyrir konung 33 og hann sagði við þá: „Takið þjóna mína með ykkur og látið Salómon son minn setjast á bak múldýri mínu+ og farið með hann til Gíhon.+ 34 Þar skulu Sadók prestur og Natan spámaður smyrja hann+ til konungs yfir Ísrael. Blásið síðan í horn og segið: ‚Lengi lifi Salómon konungur!‘+ 35 Því næst skuluð þið fylgja honum hingað. Hann skal ganga inn og setjast í hásæti mitt. Hann verður konungur í minn stað og ég skipa hann leiðtoga yfir Ísrael og Júda.“ 36 Benaja Jójadason svaraði konungi: „Amen! Jehóva, Guð herra míns, konungsins, leggi blessun sína yfir þessa ákvörðun. 37 Jehóva veri með Salómon,+ alveg eins og hann var með herra mínum, konunginum. Megi hann gera hásæti hans enn voldugra en hásæti herra míns, Davíðs konungs.“+

38 Sadók prestur, Natan spámaður og Benaja+ Jójadason fóru síðan niður eftir ásamt Keretunum og Peletunum.+ Þeir létu Salómon setjast á bak múldýri Davíðs konungs+ og fóru með hann til Gíhon.+ 39 Sadók prestur tók olíuhornið+ úr tjaldinu+ og smurði Salómon.+ Síðan blésu þeir í horn og allt fólkið hrópaði: „Lengi lifi Salómon konungur!“ 40 Allt fólkið fylgdi honum síðan upp eftir með flautuleik og svo miklum fagnaðarlátum að jörðin nötraði.*+

41 Adónía og allir gestir hans heyrðu lætin þegar þeir höfðu lokið máltíðinni.+ „Hvaða hróp og köll eru þetta í borginni?“ sagði Jóab þegar hann heyrði hornablásturinn. 42 Hann hafði varla sleppt orðinu þegar Jónatan,+ sonur Abjatars prests, birtist. „Komdu inn,“ sagði Adónía, „því að þú ert góður maður* og hlýtur að færa góðar fréttir.“ 43 „Nei,“ svaraði Jónatan, „herra okkar, Davíð konungur, hefur gert Salómon að konungi. 44 Konungurinn sendi með honum Sadók prest, Natan spámann, Benaja Jójadason og Keretana og Peletana og þeir létu hann setjast á bak múldýri konungs.+ 45 Sadók prestur og Natan spámaður smurðu hann síðan til konungs við Gíhon. Því næst fóru þeir aftur upp eftir með miklum fögnuði og nú ætlar allt um koll að keyra í borginni. Það eru lætin sem þið heyrðuð. 46 Salómon er meira að segja sestur í hásæti konungs. 47 Og þjónar konungs komu til að óska herra okkar, Davíð konungi, til hamingju og sögðu: ‚Megi Guð þinn gera nafn Salómons enn dýrlegra en nafn þitt og hásæti hans enn voldugra en hásæti þitt.‘ Síðan laut konungur höfði í rúmi sínu 48 og sagði: ‚Lofaður sé Jehóva Guð Ísraels sem hefur í dag sett son minn í hásæti mitt og leyft mér að sjá það með eigin augum.‘“

49 Gestir Adónía urðu allir skelfingu lostnir, spruttu á fætur og fóru hver sína leið. 50 Adónía varð líka hræddur við Salómon. Hann stóð upp og fór og greip um horn altarisins.+ 51 Salómon bárust þessi boð: „Adónía er hræddur við Salómon konung. Hann heldur um horn altarisins og segir: ‚Ég fer ekki fet fyrr en Salómon konungur hefur svarið mér að taka ekki þjón sinn af lífi með sverði.‘“ 52 Þá sagði Salómon: „Ef hann sýnir að hann er traustsins verður mun ekki eitt einasta hár á höfði hans falla til jarðar. En ef hann fer illa að ráði sínu+ skal hann deyja.“ 53 Salómon konungur lét síðan sækja hann og leiða hann burt frá altarinu. Adónía kom og hneigði sig fyrir Salómon konungi sem sagði við hann: „Farðu heim til þín.“

2 Þegar Davíð átti skammt eftir ólifað gaf hann Salómon syni sínum þessi fyrirmæli: 2 „Ég er að dauða kominn.* Vertu því sterkur+ og sýndu karlmennsku.+ 3 Gættu skyldu þinnar við Jehóva Guð þinn með því að ganga á vegum hans og halda lög hans, boðorð, skipanir og fyrirmæli sem eru skráð í lögum Móse.+ Þá vegnar þér vel* í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur og hvert sem þú snýrð þér. 4 Og Jehóva efnir þetta loforð sem hann gaf mér: ‚Ef synir þínir gæta að hegðun sinni og þjóna mér í trúfesti, af öllu hjarta og allri sál,*+ mun einn af afkomendum þínum alltaf sitja í hásæti Ísraels.‘+

5 Þú veist vel hvað Jóab Serújuson gerði mér, hvað hann gerði tveim hershöfðingjum Ísraels, þeim Abner+ Nerssyni og Amasa+ Jeterssyni. Hann drap þá og úthellti þannig blóði+ á friðartímum eins og það væri stríð. Hann ataði blóði beltið um mitti sér og sandalana á fótum sér eins og hann væri í stríði. 6 Þú skalt sýna dómgreind og koma í veg fyrir að gráar hærur hans fari í friði niður í gröfina.*+

7 En sýndu sonum Barsillaí+ Gíleaðíta tryggan kærleika. Leyfðu þeim að matast við borð þitt því að þannig studdu þeir mig+ þegar ég flúði undan Absalon bróður þínum.+

8 Símeí Gerason Benjamíníti frá Bahúrím er einnig hjá þér. Það var hann sem bölvaði mér og svívirti+ þegar ég var á leiðinni til Mahanaím.+ En þegar hann kom á móti mér niður að Jórdan vann ég honum þennan eið við Jehóva: ‚Ég skal ekki drepa þig með sverði.‘+ 9 Láttu hann ekki sleppa við refsingu+ því að þú ert skynsamur maður og veist hvað þú átt að gera við hann. Sendu gráar hærur hans blóði drifnar niður í gröfina.“*+

10 Síðan var Davíð lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður í Davíðsborg.+ 11 Davíð ríkti yfir Ísrael í 40 ár, 7 ár í Hebron+ og 33 ár í Jerúsalem.+

12 Salómon settist í hásæti Davíðs föður síns og ríki hans varð mjög öflugt.+

13 Dag nokkurn kom Adónía sonur Haggítar til Batsebu móður Salómons. Batseba spurði: „Kemurðu í friðsamlegum tilgangi?“ „Já,“ svaraði hann 14 og bætti við: „Ég þarf að tala við þig.“ „Talaðu,“ svaraði hún. 15 Þá sagði hann: „Þú veist að ég átti að hljóta konungdóminn og allur Ísrael bjóst við að ég yrði konungur.+ En konungdómurinn gekk mér úr greipum. Hann kom í hlut bróður míns því að það var vilji Jehóva.+ 16 Nú er bara eitt sem ég vil biðja þig um. Vísaðu mér ekki frá.“ „Haltu áfram,“ sagði hún. 17 Þá sagði hann: „Biddu Salómon konung að gefa mér Abísag+ frá Súnem fyrir eiginkonu. Hann vísar þér ekki frá.“ 18 „Gott og vel,“ svaraði Batseba, „ég skal tala við konunginn fyrir þig.“

19 Batseba fór nú inn til Salómons konungs til að tala við hann fyrir hönd Adónía. Konungur stóð þegar í stað upp, gekk til hennar og hneigði sig fyrir henni. Síðan settist hann í hásæti sitt og lét sækja annað hásæti fyrir konungsmóðurina til að hún gæti setið honum á hægri hönd. 20 „Mig langar að biðja þig um eitt smáræði,“ sagði hún. „Vísaðu mér ekki frá.“ „Segðu mér hvað þú vilt, móðir mín,“ svaraði konungur. „Ég vísa þér ekki frá.“ 21 Þá sagði hún: „Gefðu Adónía bróður þínum Abísag frá Súnem fyrir eiginkonu.“ 22 Salómon konungur svaraði móður sinni: „Af hverju biðurðu um Abísag frá Súnem handa Adónía? Þú gætir alveg eins beðið um konungdóminn handa honum+ enda er hann eldri bróðir minn+ og Abjatar prestur og Jóab+ Serújuson+ standa með honum.“

23 Síðan vann Salómon konungur þennan eið við Jehóva: „Guð refsi mér harðlega ef þessi beiðni Adónía kostar hann ekki lífið. 24 Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem hefur sett mig í hásæti Davíðs föður míns og fest mig í sessi+ og stofnað handa mér konungsætt*+ eins og hann hafði lofað, þá skal Adónía tekinn af lífi+ í dag.“ 25 Salómon konungur sendi Benaja+ Jójadason tafarlaust af stað og hann fór og hjó Adónía til bana.*

26 En við Abjatar+ prest sagði konungur: „Farðu aftur til jarða þinna í Anatót.+ Þú átt að vísu skilið að deyja en í dag þyrmi ég lífi þínu því að þú barst örk Jehóva, hins alvalda Drottins, frammi fyrir Davíð föður mínum+ og gekkst í gegnum sömu raunir og faðir minn þurfti að þola.“+ 27 Salómon rak síðan Abjatar burt og leyfði honum ekki lengur að þjóna sem prestur Jehóva. Þannig rættist orð Jehóva sem hann talaði gegn ætt Elí+ í Síló.+

28 Þegar Jóab frétti þetta flúði hann í tjald Jehóva+ og greip um horn altarisins, en Jóab hafði verið stuðningsmaður Adónía+ þó að hann hefði ekki stutt Absalon.+ 29 Salómon konungi var sagt: „Jóab er flúinn í tjald Jehóva og stendur við altarið.“ Salómon sendi þá Benaja Jójadason af stað og sagði: „Farðu og dreptu hann!“ 30 Benaja kom til tjalds Jehóva og sagði við Jóab: „Konungurinn skipar þér að koma út.“ En hann svaraði: „Nei, ég vil deyja hérna!“ Benaja fór þá aftur til konungs og sagði honum hverju Jóab hefði svarað. 31 Konungur sagði við Benaja: „Gerðu eins og hann segir. Dreptu hann og jarðaðu. Þannig hreinsarðu mig og ætt föður míns af því saklausa blóði sem Jóab hefur úthellt.+ 32 Jehóva lætur blóðið sem hann úthellti koma honum í koll. Hann hjó tvo menn sem voru réttlátari og betri en hann sjálfur og drap þá með sverði án þess að Davíð faðir minn vissi af því. Það voru þeir Abner+ Nersson hershöfðingi Ísraels+ og Amasa+ Jetersson hershöfðingi Júda.+ 33 Blóð þeirra mun koma Jóab í koll og afkomendum hans að eilífu.+ En Davíð og afkomendur hans, ætt* hans og hásæti hljóti frið frá Jehóva að eilífu.“ 34 Benaja Jójadason fór þá og hjó Jóab til bana. Hann var jarðaður hjá húsi sínu í óbyggðunum. 35 Konungur setti Benaja+ Jójadason yfir herinn í stað Jóabs og lét Sadók+ prest taka við embætti Abjatars.

36 Konungur sendi nú eftir Símeí+ og sagði við hann: „Byggðu þér hús í Jerúsalem og búðu þar. Þú mátt ekki yfirgefa borgina. 37 Ef þú ferð þaðan og gengur yfir Kedrondal+ máttu vera viss um að þú munt deyja. Dauði þinn verður þá sjálfum þér að kenna.“* 38 Símeí svaraði konungi: „Það sem þú segir er sanngjarnt. Þjónn þinn mun gera eins og herra minn og konungur hefur sagt.“ Símeí bjó síðan lengi í Jerúsalem.

39 En þrem árum síðar struku tveir þrælar Símeí til Akíss+ Maakasonar, konungs í Gat. Um leið og Símeí frétti að þrælarnir væru í Gat 40 lagði hann á asna sinn og rauk af stað til Akíss í Gat til að leita að þrælunum. Þegar hann var kominn með þá heim 41 var Salómon sagt: „Símeí yfirgaf Jerúsalem og fór til Gat en er kominn aftur heim.“ 42 Konungur sendi þá eftir Símeí og sagði við hann: „Lét ég þig ekki sverja við Jehóva og varaði ég þig ekki við og sagði: ‚Ef þú yfirgefur borgina og ferð eitthvað annað máttu vera viss um að þú munt deyja‘? Þú svaraðir: ‚Það sem þú segir er sanngjarnt. Ég geri eins og þú segir.‘+ 43 Hvers vegna hélstu þá hvorki eiðinn sem þú vannst frammi fyrir Jehóva né hlýddir skipun minni?“ 44 Konungur hélt áfram: „Þú veist innst inni hve illa þú fórst með Davíð föður minn.+ Nú lætur Jehóva illvirki þitt koma þér í koll.+ 45 En Jehóva mun blessa Salómon konung+ og láta hásæti Davíðs standa stöðugt að eilífu.“ 46 Konungur skipaði síðan Benaja Jójadasyni að drepa Símeí og hann fór og hjó hann til bana.+

Þannig festist Salómon konungur í sessi.+

3 Salómon stofnaði til hjúskapartengsla við faraó Egyptalandskonung. Hann giftist* dóttur faraós+ og kom með hana til Davíðsborgar+ þar sem hún bjó þangað til hann hafði lokið við að byggja sér hús,+ byggja Jehóva musteri+ og reisa múrinn kringum Jerúsalem.+ 2 Í þá daga færði fólkið fórnir á fórnarhæðunum+ því að enn var ekki búið að reisa hús nafni Jehóva til heiðurs.+ 3 Salómon elskaði Jehóva og sýndi það með því að fylgja skipunum Davíðs föður síns. Samt færði hann sláturfórnir og lét þær líða upp í reyk á fórnarhæðunum.+

4 Salómon konungur fór til Gíbeon til að færa sláturfórnir því að þar var helsta fórnarhæðin.*+ Þar færði hann 1.000 brennifórnir á altarinu.+ 5 Nótt eina í Gíbeon birtist Jehóva Salómon í draumi. „Hvað viltu að ég gefi þér?“ spurði Guð.+ 6 Salómon svaraði: „Þú sýndir þjóni þínum, Davíð föður mínum, mikla góðvild* því að hann gekk frammi fyrir þér í trúfesti og réttlæti og hjartans einlægni. Þú sýnir honum enn þessa miklu góðvild* og hefur gefið honum son sem situr nú í hásæti hans.+ 7 Jehóva Guð minn, þú hefur gert mig, þjón þinn, að konungi í stað Davíðs föður míns þó að ég sé bæði ungur og óreyndur.+ 8 Þjónn þinn ríkir yfir útvalinni þjóð þinni,+ þjóð sem er svo fjölmenn að ekki er hægt að telja hana. 9 Gefðu því þjóni þínum hlýðið hjarta til að geta dæmt þjóð þína+ og greint milli góðs og ills.+ Hver gæti annars dæmt þessa fjölmennu* þjóð þína?“

10 Það gladdi Jehóva að Salómon skyldi biðja um þetta.+ 11 Guð sagði við hann: „Þar sem þú baðst um þetta, en baðst ekki um langlífi, auð eða líf* óvina þinna heldur um skilning til að dæma í málum manna,+ 12 þá vil ég verða við beiðni þinni.+ Ég gef þér viturt og skynugt hjarta+ svo að enginn jafnist á við þig, hvorki á undan þér né eftir þig.+ 13 En ég ætla líka að gefa þér það sem þú hefur ekki beðið um,+ bæði auð og heiður,+ svo að enginn konungur jafnist á við þig alla þína ævi.*+ 14 Og ef þú gengur á vegum mínum með því að halda skipanir mínar og boðorð eins og Davíð faðir þinn gerði+ mun ég einnig gefa þér langlífi.“*+

15 Þegar Salómon vaknaði gerði hann sér grein fyrir að þetta hafði verið draumur. Hann fór til Jerúsalem og gekk fram fyrir sáttmálsörk Jehóva. Þar færði hann brennifórnir og samneytisfórnir+ og sló upp veislu handa öllum þjónum sínum.

16 Einhverju sinni komu tvær vændiskonur og gengu fyrir konung. 17 Önnur þeirra sagði: „Herra minn, ég bý í sama húsi og þessi kona. Ég fæddi barn meðan hún var heima. 18 Á þriðja degi eftir að ég fæddi eignaðist þessi kona líka barn. Við vorum þar saman. Enginn var í húsinu nema við tvær. 19 Um nóttina dó sonur þessarar konu því að hún hafði lagst ofan á hann. 20 Hún fór fram úr um miðja nótt og tók son minn frá mér meðan ég, ambátt þín, svaf. Hún lagði hann hjá sér* en dáinn son sinn lagði hún hjá mér. 21 Þegar ég fór á fætur um morguninn til að gefa syni mínum brjóst sá ég að hann var dáinn. Ég virti hann betur fyrir mér og sá að þetta var ekki sonur minn sem ég hafði fætt.“ 22 En hin konan sagði: „Nei, það er sonur minn sem er lifandi, þinn sonur er dáinn.“ En sú fyrri sagði: „Nei, það er sonur þinn sem er dáinn, minn sonur er lifandi.“ Þannig rifust þær frammi fyrir konungi.

23 Að lokum sagði konungur: „Önnur segir: ‚Það er sonur minn sem er lifandi en sonur þinn er dáinn,‘ en hin segir: ‚Nei, það er sonur þinn sem er dáinn en sonur minn er lifandi.‘“ 24 Konungur hélt áfram: „Færið mér sverð.“ Og honum var fært sverð. 25 Síðan sagði konungur: „Höggvið lifandi barnið í tvennt og gefið konunum sinn helminginn hvorri.“ 26 Móðurástin brann þá í brjósti konunnar sem átti lifandi soninn og hún grátbað konung: „Nei, herra minn! Gefðu henni barnið sem lifir! Dreptu það ekki!“ En hin konan sagði: „Hvorug okkar skal eiga það. Höggvið það í tvennt!“ 27 Þá sagði konungur: „Gefið fyrri konunni barnið sem lifir. Drepið það ekki því að hún er móðir þess.“

28 Allir Ísraelsmenn fréttu af dómi konungs og þeir fylltust lotningu* fyrir honum+ því að þeir skildu að Guð hafði gefið honum visku til að dæma af réttvísi.+

4 Salómon konungur ríkti yfir öllum Ísrael.+ 2 Þetta voru æðstu embættismenn* hans: Asarja Sadóksson+ var prestur, 3 Elíhoref og Ahía Sísasynir voru ritarar,+ Jósafat+ Ahílúðsson var ríkisritari,* 4 Benaja+ Jójadason var yfirmaður hersins, Sadók og Abjatar+ voru prestar, 5 Asarja Natansson+ var yfir héraðsstjórunum, Sabúð Natansson var prestur og vinur konungs,+ 6 Ahísar var hirðstjóri og Adóníram+ Abdason var yfir þeim sem unnu kvaðavinnu.+

7 Salómon hafði 12 héraðsstjóra yfir öllum Ísrael sem sáu honum og hirð hans fyrir mat. Hver þeirra átti að sjá fyrir mat einn mánuð á ári.+ 8 Héraðsstjórarnir voru þessir: sonur Húrs í Efraímsfjöllum; 9 sonur Dekers í Makas, Saalbím,+ Bet Semes og Elon Bet Hanan; 10 sonur Heseðs í Arúbbót (hann hafði umsjón með Sókó og öllu Heferslandi); 11 sonur Abínadabs á Dórshæðum (hann giftist Tafat dóttur Salómons); 12 Baana Ahílúðsson í Taanak, Megiddó+ og öllu Bet Sean+ sem er hjá Saretan fyrir neðan Jesreel, frá Bet Sean til Abel Mehóla og allt til Jokmeamhéraðs;+ 13 sonur Gebers í Ramót í Gíleað+ (hann hafði umsjón með tjaldþorpum Jaírs+ Manassesonar í Gíleað+ og einnig með Argóbhéraði+ í Basan+ – 60 stórum borgum með múrum og koparslagbröndum); 14 Ahínadab Iddósson í Mahanaím;+ 15 Akímaas í Naftalí (hann giftist Basmat dóttur Salómons); 16 Baana Húsaíson í Asser og Bealót; 17 Jósafat Parúason í Íssakar; 18 Símeí+ Elason í Benjamín+ 19 og Geber Úríson í Gíleaðlandi+ sem var áður undir stjórn Síhons+ Amorítakonungs og Ógs,+ konungs í Basan. Auk þess var einn héraðsstjóri yfir öllum þessum héraðsstjórum í landinu.

20 Íbúar Júda og Ísraels voru eins margir og sandkorn á sjávarströnd.+ Þeir átu og drukku og voru glaðir.+

21 Salómon ríkti yfir öllum ríkjum frá Fljótinu*+ til lands Filistea og að landamærum Egyptalands. Íbúar þessara ríkja greiddu skatt og þjónuðu Salómon meðan hann lifði.+

22 Daglegur matarskammtur Salómons og hirðar hans var 30 kór* af fínu mjöli og 60 kór af venjulegu mjöli, 23 10 alinaut, 20 hagagengin naut og 100 sauðir, auk nokkurra hjarta, gasellna, rádýra og aligauka, 24 enda ríkti hann yfir öllu svæðinu hérna megin við Fljótið,*+ frá Tífsa til Gasa,+ og yfir öllum konungunum á þessu svæði. Friður ríkti í öllum héruðum hans allt um kring.+ 25 Íbúar Júda og Ísraels, frá Dan til Beerseba, bjuggu við öryggi meðan Salómon lifði. Hver og einn sat undir sínum vínviði og sínu fíkjutré.

26 Salómon hafði 4.000* bása fyrir vagnhesta sína og átti 12.000 hesta.*+

27 Héraðsstjórarnir sáu Salómon konungi og öllum sem mötuðust við borð hans fyrir mat. Þeir sáu um sinn mánuðinn hver og gengu úr skugga um að ekkert vantaði.+ 28 Þeir útveguðu líka bygg og hálm handa hestunum og vagnhestunum hvar sem þörf var á. Hver og einn útvegaði það sem hann var beðinn um.

29 Guð gaf Salómon visku og dómgreind í ríkum mæli og fyllti hjarta hans skilningi sem var eins og sandur á sjávarströnd.+ 30 Salómon var vitrari en allir Austurlandabúar og allir Egyptar.+ 31 Enginn var eins vitur og hann. Hann var vitrari en Etan+ Esrahíti og Heman,+ Kalkól+ og Darda Mahólssynir. Hann varð frægur meðal allra nágrannaþjóðanna.+ 32 Hann samdi 3.000 spakmæli+ og 1.005 ljóð.+ 33 Hann talaði um trén, allt frá sedrustrjánum í Líbanon til ísópsins+ sem vex á múrnum. Hann talaði einnig um dýrin,+ fuglana,*+ skriðdýrin*+ og fiskana. 34 Fólk af öllum þjóðum kom til að heyra visku Salómons, þar á meðal konungar alls staðar að úr heiminum sem höfðu heyrt um visku hans.+

5 Híram, konungur í Týrus,+ sendi þjóna sína til Salómons þegar hann frétti að Salómon hefði verið smurður til konungs í stað föður síns, en Híram hafði alltaf verið vinur Davíðs.*+ 2 Salómon sendi þá þessi boð til Hírams:+ 3 „Eins og þú veist gat Davíð faðir minn ekki reist hús til heiðurs nafni Jehóva Guðs síns vegna þess að hann átti í stríði við óvini sína allt í kring þar til Jehóva lagði þá undir iljar hans.+ 4 En núna hefur Jehóva Guð minn tryggt frið allt umhverfis mig.+ Enginn stendur gegn mér og engin hætta steðjar að.+ 5 Ég ætla því að reisa hús til heiðurs nafni Jehóva Guðs míns eins og Jehóva lofaði Davíð föður mínum þegar hann sagði: ‚Sonur þinn sem ég set í hásæti þitt í þinn stað mun reisa hús nafni mínu til heiðurs.‘+ 6 Segðu þess vegna þjónum þínum að höggva handa mér sedrustré í Líbanon.+ Þjónar mínir munu vinna með þjónum þínum og ég greiði þjónum þínum þau laun sem þú ákveður, enda veistu að enginn okkar hér kann að höggva tré eins og Sídoningar.“+

7 Híram varð mjög glaður þegar hann heyrði orð Salómons. „Lofaður sé Jehóva í dag,“ sagði hann, „því að hann hefur gefið Davíð vitran son til að ríkja yfir þessari miklu* þjóð.“+ 8 Síðan sendi hann þessi boð til Salómons: „Ég hef fengið skilaboðin sem þú sendir mér. Ég skal verða við öllum óskum þínum og útvega þér sedrusvið og einivið.+ 9 Þjónar mínir koma með viðinn frá Líbanon niður til sjávar. Síðan læt ég gera úr honum fleka og fleyti þeim þangað sem þú óskar. Þar læt ég taka flekana í sundur svo að þú getir sótt viðinn. Í staðinn skaltu sjá hirð minni fyrir þeim mat sem ég bið um.“+

10 Híram lét Salómon fá allan þann sedrusvið og einivið sem hann óskaði eftir. 11 Og Salómon gaf Híram 20.000 kór* af hveiti til matar handa hirð hans og 20 kór af fyrsta flokks ólívuolíu. Salómon gaf Híram þetta á hverju ári.+ 12 Og Jehóva gaf Salómon visku eins og hann hafði lofað honum.+ Friður ríkti milli Hírams og Salómons og þeir gerðu sáttmála sín á milli.

13 Salómon konungur kallaði 30.000 menn úr öllum Ísrael til kvaðavinnu.+ 14 Hann sendi þá til skiptis til Líbanons, 10.000 í hverjum mánuði. Þeir voru einn mánuð í Líbanon og tvo mánuði heima. Adóníram+ hafði umsjón með kvaðavinnunni. 15 Salómon hafði 70.000 óbreytta verkamenn* og 80.000 steinhöggvara+ í fjöllunum,+ 16 auk 3.300 yfirhéraðsstjóra+ sem voru verkstjórar yfir verkamönnunum. 17 Konungur skipaði þeim að brjóta stóra, dýra steina+ til að hægt væri að leggja grunn+ að húsinu með tilhöggnu grjóti.+ 18 Smiðir Salómons og Hírams auk Gebalíta+ hjuggu steinana og undirbjuggu viðinn og steinana til byggingarinnar.

6 Á 480. árinu eftir að Ísraelsmenn fóru frá Egyptalandi,+ á fjórða árinu eftir að Salómon varð konungur yfir Ísrael, í mánuðinum sív*+ (það er öðrum mánuðinum), hófst hann handa við að byggja hús Jehóva.*+ 2 Húsið* sem Salómon konungur reisti handa Jehóva var 60 álnir* á lengd, 20 álnir á breidd og 30 álnir á hæð.+ 3 Forsalurinn+ fyrir framan hið heilaga* var 20 álnir á breidd, jafn breiður og húsið, og lengd hans var tíu álnir, mæld frá framhlið hússins.

4 Hann setti glugga á húsið með víkkandi opi.+ 5 Hann reisti einnig viðbyggingu með hliðarherbergjum meðfram veggjum hússins+ sem náði í kringum hið heilaga* og innsta herbergið.+ 6 Hliðarherbergin á neðstu hæðinni voru fimm álnir á breidd, á miðhæðinni sex álnir á breidd og á efstu hæðinni sjö álnir. Hann hafði reist veggina allt í kringum húsið í stöllum til að ekki þyrfti að festa burðarbita í þá.+

7 Húsið var byggt úr steinum sem höfðu verið höggnir til í grjótnámunni.+ Þess vegna heyrðist hvorki í hamri, öxi né nokkru öðru járnverkfæri meðan á byggingunni stóð. 8 Inngangurinn að neðstu hliðarherbergjunum var á suðurhlið* hússins.+ Hringstigi var upp á miðhæðina og frá miðhæðinni upp á efstu hæð. 9 Salómon hélt framkvæmdunum áfram þar til hann lauk við að reisa húsið.+ Hann setti á það þak úr bjálkum og þiljum sem voru úr sedrusviði.+ 10 Hann reisti hliðarherbergin allt í kringum húsið.+ Þau voru öll fimm álnir á hæð og tengd við húsið með sedrusviði.

11 Orð Jehóva kom til Salómons: 12 „Ef þú heldur ákvæði mín, ferð eftir fyrirmælum mínum og hlýðir öllum boðorðum mínum með því að lifa í samræmi við þau+ mun ég efna við þig loforðið sem ég gaf Davíð föður þínum+ um húsið sem þú ert að byggja. 13 Ég mun búa mitt á meðal Ísraelsmanna+ og ekki yfirgefa þjóð mína, Ísrael.“+

14 Salómon lagði nú lokahönd á húsið. 15 Hann klæddi veggina að innan með sedrusviði frá gólfi og upp að þaksperrum og lagði gólfið einiviði.+ 16 Innst í húsinu gerði hann herbergi sem var 20 álnir á lengd og afmarkaði það með sedrusviði frá gólfi og upp að þaksperrum. Þetta var innsta herbergið,+ hið allra helgasta.+ 17 Fyrir framan það var hið heilaga,*+ 40 álnir á lengd. 18 Sedrusviðurinn inni í húsinu var útskorinn með graskerum+ og útsprungnum blómum.+ Allt var klætt sedrusviði, hvergi sást í stein.

19 Hann útbjó innsta herbergi+ hússins til að koma þar fyrir sáttmálsörk Jehóva.+ 20 Innsta herbergið var 20 álnir á lengd, 20 álnir á breidd og 20 álnir á hæð.+ Hann lagði það hreinu gulli og klæddi altarið+ sedrusviði. 21 Salómon klæddi húsið að innan með hreinu gulli+ og setti gullkeðjur fyrir framan innsta herbergið+ sem hann hafði lagt gulli. 22 Hann klæddi allt húsið gulli í hólf og gólf. Hann lagði líka gulli allt altarið+ sem stóð við innsta herbergið.

23 Í innsta herberginu gerði hann tvo kerúba+ úr furu,* tíu álna háa.+ 24 Vængir annars kerúbsins voru hvor um sig fimm álnir og vænghafið því tíu álnir. 25 Hinn kerúbinn var líka tíu álnir. Kerúbarnir voru jafn stórir og eins að lögun. 26 Annar kerúbinn var tíu álnir á hæð og hinn var jafn hár. 27 Hann kom kerúbunum+ fyrir í innsta herberginu. Þeir voru með þanda vængi svo að vængur annars þeirra snerti annan vegginn en vængur hins snerti hinn vegginn. Vængirnir sem sneru að miðju herberginu snertu hvor annan. 28 Hann lagði kerúbana gulli.

29 Hann skar út myndir af kerúbum,+ pálmum+ og útsprungnum blómum+ á alla veggi hússins, hringinn í kring, bæði í innra herberginu og því ytra.* 30 Og hann lagði gólf hússins gulli, bæði í innra herberginu og því ytra. 31 Fyrir innsta herbergið gerði hann vængjahurð úr furu ásamt hliðarsúlum og dyrastöfum sem fimmta hluta.* 32 Á báða hurðarvængina, sem voru úr furu, skar hann út kerúba, pálma og útsprungin blóm. Síðan lagði hann þá gulli og hamraði það yfir kerúbunum og pálmunum. 33 Við inngang hins heilaga* gerði hann á sama hátt dyrastafi úr furu sem tilheyrðu fjórða hluta.* 34 Og hann gerði vængjahurð úr einiviði. Hvor hurðarvængurinn var úr tveim hlutum sem snerust á hjörum.+ 35 Hann skar út kerúba, pálma og útsprungin blóm og þakti útskurðinn með gullþynnu.

36 Hann reisti múrinn í kringum innri forgarðinn+ úr þrem lögum af tilhöggnum steinum og einu lagi af sedrusbjálkum.+

37 Á fjórða árinu, í sívmánuði,* var grunnurinn að húsi Jehóva lagður.+ 38 Og á ellefta árinu, í mánuðinum búl* (það er áttunda mánuðinum), var húsið fullgert að öllu leyti í samræmi við það sem hafði verið ákveðið.+ Það tók hann því sjö ár að byggja það.

7 Salómon byggði sér höll+ og var 13 ár að fullgera hana.+

2 Hann byggði Líbanonsskógarhúsið+ sem var 100 álnir* á lengd, 50 álnir á breidd og 30 álnir á hæð. Það stóð á fjórum röðum af sedrusstólpum og ofan á þeim voru bjálkar úr sedrusviði.+ 3 Þiljur úr sedrusviði voru ofan á burðarbitunum sem hvíldu á stólpunum. Þeir* voru 45 talsins, 15 í hverri röð. 4 Á húsinu voru þrjár raðir af gluggum með gluggakörmum. Gluggarnir stóðust á, þrír og þrír í lóðréttri röð. 5 Allar dyr og dyrastafir voru með ferhyrnda umgjörð og einnig gluggarnir sem stóðust á, þrír og þrír í lóðréttri röð.

6 Hann byggði einnig Súlnasalinn. Hann var 50 álna langur og 30 álna breiður og fyrir framan hann var forsalur með súlum og skyggni.

7 Hann byggði líka Hásætissalinn,+ einnig kallaður Dómssalurinn,+ þar sem hann kvað upp dóma. Hann var þiljaður sedrusviði frá gólfi og upp að þaksperrum.

8 Höllin þar sem hann átti að búa var í hinum forgarðinum,+ á bak við salinn,* og var byggð á svipaðan hátt. Salómon reisti einnig hús sem líktist salnum handa dóttur faraós sem hann hafði tekið sér fyrir konu.+

9 Allar byggingarnar voru hlaðnar úr dýrum steinum+ frá grunni og upp á veggbrúnir. Þeir voru höggnir til eftir máli og skornir til með steinsög að innan- og utanverðu. Það sama var gert við alla steina úti fyrir, allt að stóra forgarðinum.+ 10 Undirstöðurnar voru úr stórum, dýrum steinum. Sumir þeirra voru tíu álnir en aðrir átta álnir. 11 Ofan á þeim voru dýrir steinar, höggnir til eftir máli, og sedrusviður. 12 Múrinn í kringum stóra forgarðinn var úr þrem lögum af tilhöggnum steinum og einu lagi af sedrusbjálkum, rétt eins og múrinn í kringum innri forgarðinn+ við hús Jehóva og forsal hússins.*+

13 Salómon konungur sendi eftir Híram+ frá Týrus. 14 Hann var sonur ekkju af ættkvísl Naftalí en faðir hans var Týrverji og hafði verið koparsmiður.+ Híram kunni vel til verka+ og var með mikla reynslu í alls kyns koparsmíði.* Hann kom til Salómons konungs og vann öll þau verk sem hann fól honum.

15 Hann steypti koparsúlurnar tvær.+ Hvor þeirra var 18 álnir á hæð og 12 álnir að ummáli.*+ 16 Hann steypti einnig tvö súlnahöfuð úr kopar til að setja ofan á súlurnar. Hvort þeirra var fimm álnir á hæð. 17 Á báðum súlnahöfðunum var net úr fléttuðum keðjum,+ sjö á hvoru höfði. 18 Utan um netið á hvoru súlnahöfði gerði hann granatepli í tveim röðum sem umluktu höfuðið. 19 Höfuðin á súlunum við forsalinn voru í laginu eins og liljur sem voru fjögurra álna háar. 20 Þessi hluti höfðanna á hvorri súlu var ofan á bungunni þar sem netið var. Granateplin voru 200 talsins í röðum umhverfis hvort súlnahöfuð.+

21 Hann reisti súlurnar við forsal musterisins.*+ Aðra þeirra reisti hann hægra* megin og nefndi hana Jakín* en hina reisti hann vinstra* megin og nefndi hana Bóas.*+ 22 Efst voru súlurnar í laginu eins og liljur. Þar með var smíði súlnanna lokið.

23 Því næst gerði hann hafið.* Það var hringlaga úr steyptum málmi.+ Tíu álnir voru á milli barmanna. Það var 5 álnir á dýpt og 30 álnir að ummáli.*+ 24 Fyrir neðan barminn var hafið skreytt graskerum+ allan hringinn, tíu á hverja alin hringinn í kring. Graskerin voru í tveim röðum og steypt í sama móti og hafið. 25 Hafið stóð á 12 nautum.+ Þrjú þeirra sneru í norður, þrjú í vestur, þrjú í suður og þrjú í austur. Það hvíldi á nautunum og bakhlutar þeirra sneru inn að miðju. 26 Hafið var þverhönd* á þykkt og barmurinn var eins og bikarbarmur, eins og útsprungin lilja. Það tók 2.000 böt.*

27 Síðan gerði hann tíu vagna*+ úr kopar. Þeir voru fjögurra álna langir, fjögurra álna breiðir og þriggja álna háir. 28 Þannig voru vagnarnir gerðir: Á hliðunum voru spjöld sem voru römmuð inn í grindina. 29 Hliðarspjöldin í grindinni voru skreytt með ljónum,+ nautum og kerúbum+ og sömu skreytingar voru á grindinni sjálfri. Fyrir ofan og neðan ljónin og nautin voru skrautsveigar. 30 Á hverjum vagni voru fjögur koparhjól og koparöxlar sem tengdust hornstoðunum fjórum. Kerið hvíldi á stoðunum sem voru með skrautsveiga steypta í hliðarnar. 31 Opið á kerinu var hringlaga og utan um það var umgjörð með skraut grafið í barmana. Frá botni kersins og upp að umgjörðinni var ein alin en umgjörðin og stoðirnar voru samtals ein og hálf alin á hæð. Spjöldin á hliðum umgjarðarinnar voru ekki hringlaga heldur ferköntuð. 32 Hjólin fjögur voru undir hliðarspjöldunum á vagninum og hjólafestingarnar voru áfastar vagninum. Hvert hjól var ein og hálf alin. 33 Hjólin voru gerð eins og vagnhjól. Festingarnar, gjarðirnar, teinarnir og nafirnar var allt steypt úr málmi. 34 Á hverjum vagni voru fjórar stoðir, ein á hverju horni. Stoðirnar voru steyptar í sama móti og vagninn. 35 Efst á vagninum var hringlaga gjörð, hálf alin á breidd. Rammarnir og spjöldin efst á vagninum voru steypt í sama móti og vagninn. 36 Á rammana og spjöldin gróf hann kerúba, ljón og pálma eftir því sem pláss leyfði og hafði skrautsveiga allt í kring.+ 37 Þannig gerði hann vagnana tíu.+ Þeir voru allir steyptir á sama hátt+ og voru eins að stærð og lögun.

38 Hann gerði tíu ker úr kopar,+ eitt fyrir hvern af vögnunum tíu. Hvert um sig var fjórar álnir* og tók 40 böt. 39 Hann setti fimm vagna hægra megin við húsið og fimm vinstra megin. Hafinu kom hann fyrir hægra megin við húsið, í suðaustri.+

40 Híram+ gerði auk þess kerin, skóflurnar+ og skálarnar.+

Þar með lauk hann við allt verk sitt við hús Jehóva sem hann vann fyrir Salómon konung:+ 41 súlurnar tvær+ og skálarlaga súlnahöfuðin, bæði netin+ utan um súlnahöfuðin, 42 granateplin 400+ sem voru sett í tvær raðir á hvort net utan um skálarlaga súlnahöfuðin, 43 vagnana tíu+ og kerin tíu+ sem voru á þeim, 44 hafið+ og nautin 12 undir því 45 og einnig föturnar, skóflurnar, skálarnar og öll áhöldin. Híram gerði allt þetta úr fægðum kopar fyrir hús Jehóva eins og Salómon konungur bað hann um. 46 Konungur lét steypa þetta allt í leirmótum á Jórdansléttu, á milli Súkkót og Saretan.

47 Áhöldin voru svo mörg að Salómon lét aldrei vigta þau. Ekki var vitað hve þungur koparinn var.+ 48 Salómon gerði öll áhöldin fyrir hús Jehóva: gullaltarið,+ gullborðið+ undir skoðunarbrauðin, 49 ljósastikurnar+ úr hreinu gulli fyrir framan innsta herbergið, fimm hægra megin og fimm vinstra megin, og blómin,+ lampana og ljósaskærin,* allt úr gulli,+ 50 kerin, skarklippurnar,+ skálarnar, bikarana+ og eldpönnurnar+ úr hreinu gulli og gullhjarirnar fyrir hurðir innsta hluta hússins,+ það er að segja hins allra helgasta, og fyrir hurðir hins heilaga.*+

51 Salómon konungur lauk þannig öllu verki sínu við hús Jehóva. Hann sótti munina sem Davíð faðir hans hafði helgað+ og kom silfrinu, gullinu og gripunum fyrir í fjárhirslum húss Jehóva.+

8 Salómon kallaði nú saman+ öldunga Ísraels, alla höfðingja ættkvísla og ætta Ísraels.+ Þeir komu til Salómons konungs í Jerúsalem til að flytja sáttmálsörk Jehóva upp eftir frá Davíðsborg,+ það er Síon.+ 2 Allir Ísraelsmenn komu saman hjá Salómon konungi á hátíðinni* í etanímmánuði,* það er sjöunda mánuðinum.+ 3 Þegar allir öldungar Ísraels voru komnir lyftu prestarnir örkinni.+ 4 Þeir fluttu örk Jehóva upp eftir ásamt samfundatjaldinu+ og öllum heilögu áhöldunum sem voru í tjaldinu. Það voru prestarnir og Levítarnir* sem fluttu þetta upp eftir. 5 Salómon konungur og allur söfnuður Ísraels, sem var samankominn hjá honum, stóðu frammi fyrir örkinni. Þeir fórnuðu+ fjölda sauða og nauta, fleirum en hægt var að telja eða kasta tölu á.

6 Síðan fluttu prestarnir sáttmálsörk Jehóva á sinn stað,+ inn í innsta herbergi hússins, hið allra helgasta, undir vængi kerúbanna.+

7 Kerúbarnir þöndu út vængina yfir staðnum þar sem örkin stóð og skyggðu þannig á örkina og stangir hennar.+ 8 Stangirnar+ voru svo langar að það sást í enda þeirra frá hinu heilaga fyrir framan innsta herbergið, en þær sáust ekki utan frá. Þær eru þar enn þann dag í dag. 9 Í örkinni var ekkert nema steintöflurnar tvær+ sem Móse hafði lagt í hana+ við Hóreb þegar Jehóva gerði sáttmála+ við Ísraelsmenn á leið þeirra frá Egyptalandi.+

10 Þegar prestarnir komu út úr helgidóminum fyllti ský+ hús Jehóva.+ 11 Prestarnir gátu ekki gegnt þjónustu sinni fyrir skýinu því að dýrð Jehóva fyllti hús Jehóva.+ 12 Þá sagði Salómon: „Jehóva sagðist ætla að búa í svartamyrkrinu.+ 13 Nú hef ég reist þér veglegt hús, aðsetur þar sem þú getur búið að eilífu.“+

14 Síðan sneri konungur sér við og blessaði allan söfnuð Ísraels, en allur söfnuðurinn stóð.+ 15 Hann sagði: „Lofaður sé Jehóva Guð Ísraels. Hann efndi með hendi sinni það sem hann lofaði Davíð föður mínum með munni sínum þegar hann sagði: 16 ‚Frá þeim degi sem ég leiddi þjóð mína, Ísrael, út úr Egyptalandi hef ég ekki valið borg meðal nokkurrar af ættkvíslum Ísraels til að reisa þar hús, þar sem nafn mitt gæti búið.+ En nú hef ég valið Davíð til að fara fyrir þjóð minni, Ísrael.‘ 17 Davíð faðir minn óskaði þess af öllu hjarta að reisa hús til heiðurs nafni Jehóva Guðs Ísraels.+ 18 En Jehóva sagði við Davíð föður minn: ‚Þú óskaðir þess af öllu hjarta að reisa hús nafni mínu til heiðurs og þú átt hrós skilið fyrir það. 19 En þú átt ekki að byggja þetta hús heldur sonur þinn sem þú munt eignast.* Hann er sá sem á að reisa hús nafni mínu til heiðurs.‘+ 20 Jehóva hefur staðið við loforð sitt því að ég hef tekið við af Davíð föður mínum og sit nú í hásæti Ísraels eins og Jehóva lofaði. Ég hef einnig reist hús til heiðurs nafni Jehóva Guðs Ísraels+ 21 og búið örkinni þar stað. Í henni er sáttmálinn+ sem Jehóva gerði við forfeður okkar þegar hann leiddi þá út úr Egyptalandi.“

22 Salómon tók sér nú stöðu fyrir framan altari Jehóva í viðurvist alls safnaðar Ísraels. Hann lyfti höndum til himins+ 23 og sagði: „Jehóva Guð Ísraels, enginn guð er eins og þú,+ hvorki á himni né á jörð. Þú heldur sáttmála þinn og sýnir þjónum þínum tryggan kærleika,+ þeim sem ganga frammi fyrir þér af öllu hjarta.+ 24 Þú hefur staðið við loforðið sem þú gafst þjóni þínum, Davíð föður mínum. Það sem þú lofaðir með munni þínum hefur þú í dag efnt með hendi þinni.+ 25 Jehóva Guð Ísraels, efndu nú líka loforðið sem þú gafst þjóni þínum, Davíð föður mínum, þegar þú sagðir: ‚Einn af afkomendum þínum mun alltaf sitja frammi fyrir mér í hásæti Ísraels svo framarlega sem synir þínir gæta að hegðun sinni og þjóna mér í trúfesti eins og þú hefur gert.‘+ 26 Guð Ísraels, ég bið þig nú að standa við loforðið sem þú gafst þjóni þínum, Davíð föður mínum.

27 En getur Guð búið á jörðinni?+ Himinninn og himnanna himnar rúma þig ekki einu sinni,+ hvað þá þetta hús sem ég hef byggt.+ 28 Hlustaðu nú á bæn þjóns þíns og sýndu mér velvild, Jehóva Guð minn. Heyrðu ákall mitt um hjálp og bænina sem þjónn þinn ber fram fyrir þig í dag. 29 Megi augu þín vaka yfir þessu húsi dag og nótt, yfir staðnum sem þú sagðir um: ‚Þar skal nafn mitt vera,‘+ svo að þú heyrir bænina sem þjónn þinn biður meðan hann snýr sér í átt að þessum stað.+ 30 Og hlustaðu á bæn þjóns þíns um velvild og bæn þjóðar þinnar, Ísraels, sem snýr í átt að þessum stað. Hlustaðu á himnum þar sem þú býrð,+ já, viltu hlusta og fyrirgefa.+

31 Ef einhver er sakaður um að hafa brotið gegn náunga sínum og er látinn sverja eið að sakleysi sínu* og hann gengur fram fyrir altari þitt í þessu húsi meðan hann er eiðbundinn*+ 32 leggðu þá við hlustir á himnum, láttu til þín taka og dæmdu í máli þjóna þinna. Sakfelldu hinn brotlega og láttu verk hans koma honum sjálfum í koll en sýknaðu hinn réttláta og launaðu honum eftir réttlæti hans.+

33 Ef þjóð þín, Ísrael, bíður ósigur fyrir óvini af því að hún hefur syndgað ítrekað gegn þér+ og snýr sér síðan aftur til þín, lofar nafn þitt+ og biður og sárbænir þig um blessun í þessu húsi+ 34 leggðu þá við hlustir á himnum. Fyrirgefðu synd þjóðar þinnar, Ísraels, og leiddu hana aftur til landsins sem þú gafst forfeðrum hennar.+

35 Ef himinninn lokast og ekki rignir+ af því að Ísraelsmenn syndguðu ítrekað gegn þér+ og þeir biðja og snúa sér í átt að þessum stað, lofa nafn þitt og snúa baki við synd sinni af því að þú auðmýktir þá+ 36 leggðu þá við hlustir á himnum og fyrirgefðu synd Ísraels, þjóna þinna og þjóðar. Fræddu þá+ um hinn góða veg sem þeir eiga að ganga og láttu rigna á landið+ sem þú gafst þjóð þinni í arf.

37 Ef hungursneyð verður í landinu,+ drepsótt brýst út, gróður sviðnar eða mjölsveppur+ og gráðugar engisprettur herja á landið, ef óvinur sest um einhverja af borgum landsins eða önnur plága eða sjúkdómur ríður yfir+ 38 og ef einhver lyftir höndum í átt að þessu húsi, ákallar þig og biður um velvild,+ hvort sem það er einstaklingur eða öll þjóð þín, Ísrael, (því að hver og einn þekkir kvöl hjarta síns)+ 39 leggðu þá við hlustir á himnum þar sem þú býrð+ og fyrirgefðu þeim.+ Láttu til þín taka og launaðu hverjum og einum eftir verkum hans+ því að þú þekkir hjartalag hans. (Þú einn gerþekkir hjörtu allra manna.)+ 40 Þá munu þeir óttast þig eins lengi og þeir lifa í landinu sem þú gafst forfeðrum okkar.

41 Og þegar útlendingur sem er ekki af þjóð þinni, Ísrael, kemur frá fjarlægu landi vegna nafns* þíns+ 42 (því að fólk mun heyra um þitt mikla nafn,+ máttuga hönd þína og útréttan arm), þegar hann kemur, snýr sér í átt að þessu húsi og biður, 43 leggðu þá við hlustir á himnum þar sem þú býrð+ og gerðu allt sem útlendingurinn biður þig um. Þá munu allar þjóðir jarðar þekkja nafn þitt og óttast þig+ eins og þjóð þín, Ísrael. Þær munu þá vita að þetta hús sem ég hef byggt er kennt við nafn þitt.

44 Ef þjóð þín heldur í stríð gegn óvini sínum og fer þangað sem þú sendir hana+ og hún biður til þín,+ Jehóva, og snýr sér í átt að borginni sem þú hefur valið+ og í átt að húsinu sem ég hef reist nafni þínu til heiðurs+ 45 heyrðu þá á himnum ákall hennar og bæn um velvild og komdu henni til hjálpar.

46 Ef þjóð þín syndgar gegn þér (því að enginn maður er til sem syndgar ekki)+ og þú reiðist henni og gefur hana á vald óvinum hennar sem taka hana til fanga og flytja til lands síns, fjær eða nær,+ 47 og hún sér að sér í landinu sem hún var flutt til,+ snýr sér til þín+ og grátbiður um miskunn þar sem henni er haldið fanginni+ og segir: ‚Við höfum syndgað og brotið af okkur, við höfum gert það sem er illt,‘+ 48 og hún snýr sér til þín af öllu hjarta+ og allri sál* í landi óvina sinna sem fluttu hana nauðuga burt, og hún biður til þín og snýr sér í átt að landinu sem þú gafst forfeðrum hennar og borginni sem þú valdir og húsinu sem ég reisti nafni þínu til heiðurs,+ 49 leggðu þá við hlustir á himnum þar sem þú býrð,+ heyrðu ákall hennar og bæn um velvild og komdu henni til hjálpar. 50 Fyrirgefðu þjóð þinni sem hefur syndgað gegn þér. Fyrirgefðu öll afbrot hennar gegn þér. Sjáðu til þess að þeir sem tóku hana til fanga finni til með henni og sýni henni miskunn+ 51 (því að hún er þjóð þín og eign þín+ sem þú leiddir út úr Egyptalandi,+ út úr járnbræðsluofninum).+ 52 Viltu hlusta á* bæn þjóns þíns um velvild+ og bæn þjóðar þinnar, Ísraels. Hlustaðu hvenær sem hún ákallar þig.*+ 53 Þú valdir hana fram yfir allar aðrar þjóðir jarðar+ svo að hún yrði eign þín eins og þú, alvaldur Drottinn Jehóva, sagðir fyrir milligöngu Móse þjóns þíns þegar þú leiddir forfeður okkar út úr Egyptalandi.“

54 Þegar Salómon hafði lokið þessu ákalli sínu til Jehóva og bæn um velvild stóð hann upp frammi fyrir altari Jehóva þar sem hann hafði kropið og lyft höndum til himins.+ 55 Hann stóð og blessaði allan söfnuð Ísraels hárri röddu og sagði: 56 „Lofaður sé Jehóva sem hefur gefið þjóð sinni, Ísrael, hvíldarstað eins og hann lofaði.+ Ekki eitt orð hefur brugðist af öllum þeim góðu loforðum sem hann gaf fyrir milligöngu Móse þjóns síns.+ 57 Jehóva Guð okkar sé með okkur eins og hann var með forfeðrum okkar.+ Megi hann hvorki snúa baki við okkur né yfirgefa okkur.+ 58 Hann snúi hjörtum okkar til sín+ svo að við göngum á vegum hans og höldum boðorð hans, lög og ákvæði sem hann sagði forfeðrum okkar að halda. 59 Megi þessi bæn mín um blessun Jehóva vera nálæg Jehóva Guði okkar dag og nótt svo að hann komi þjóni sínum og þjóð sinni, Ísrael, til hjálpar á hverjum degi eftir því sem þörf er á. 60 Þá munu allar þjóðir jarðar vita að Jehóva er hinn sanni Guð+ og enginn annar.+ 61 Þjónið því Jehóva Guði okkar af heilu og óskiptu hjarta+ og haldið lög hans og boðorð eins og þið gerið í dag.“

62 Síðan færði konungur ásamt öllum Ísrael margar sláturfórnir frammi fyrir Jehóva.+ 63 Salómon færði Jehóva samneytisfórnir.+ Hann fórnaði 22.000 nautum og 120.000 sauðum. Þannig vígði konungur og allir Ísraelsmenn hús Jehóva.+ 64 Þennan dag helgaði konungur miðhluta forgarðsins sem er fyrir framan hús Jehóva því að þar átti hann að færa brennifórnirnar, kornfórnirnar og fitustykki samneytisfórnanna, en koparaltarið+ sem stóð frammi fyrir Jehóva var of lítið til að rúma brennifórnirnar, kornfórnirnar og fitustykki+ samneytisfórnanna. 65 Síðan hélt Salómon hátíðina+ ásamt öllum Ísrael. Mikill söfnuður var samankominn frá svæði sem náði frá Lebó Hamat* til Egyptalandsár.*+ Þeir héldu hátíðina frammi fyrir Jehóva Guði okkar í 7 daga og síðan 7 daga í viðbót, samtals 14 daga. 66 Daginn eftir* sendi hann fólkið burt. Menn óskuðu konunginum blessunar Guðs og fóru heim til sín í góðu skapi og glaðir yfir öllu því góða+ sem Jehóva hafði gert fyrir Davíð þjón sinn og þjóð sína, Ísrael.

9 Um leið og Salómon hafði lokið við að reisa hús Jehóva, konungshöllina+ og allt annað sem hann hafði hug á að gera+ 2 birtist Jehóva honum öðru sinni eins og hann hafði birst honum í Gíbeon.+ 3 Jehóva sagði við hann: „Ég hef heyrt ákall þitt og bæn um velvild sem þú barst fram fyrir mig. Þetta hús sem þú hefur reist hef ég helgað með því að láta nafn mitt búa þar að eilífu.+ Augu mín og hjarta munu alltaf vera þar.+ 4 Ef þú gengur frammi fyrir mér eins og Davíð faðir þinn gerði,+ af heilu og einlægu hjarta,+ gerir allt sem ég hef falið þér+ og heldur lög mín og ákvæði+ 5 þá mun ég láta hásæti konungdóms þíns yfir Ísrael standa að eilífu eins og ég lofaði Davíð föður þínum þegar ég sagði: ‚Einn af afkomendum þínum mun alltaf sitja í hásæti Ísraels.‘+ 6 En ef þið og synir ykkar hættið að fylgja mér og haldið ekki boðorð mín og þau lagaákvæði sem ég hef sett ykkur heldur farið að þjóna öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim+ 7 þá mun ég uppræta Ísraelsmenn úr landinu sem ég gaf þeim.+ Ég mun hafna húsinu sem ég hef helgað nafni mínu og ekki líta við því,+ og allar þjóðir munu fyrirlíta Ísrael* og gera gys að honum.+ 8 Þetta hús verður rústir einar.+ Allir sem fara þar hjá horfa undrunaraugum á það, blístra og segja: ‚Hvers vegna fór Jehóva svona illa með þetta land og þetta hús?‘+ 9 Þá segja menn: ‚Vegna þess að þeir yfirgáfu Jehóva Guð sinn sem leiddi forfeður þeirra út úr Egyptalandi. Þeir tóku sér aðra guði, féllu fram fyrir þeim og þjónuðu þeim. Þess vegna hefur Jehóva leitt alla þessa ógæfu yfir þá.‘“+

10 Það tók Salómon 20 ár að reisa bæði húsin, hús Jehóva og konungshöllina.+ 11 Híram,+ konungur í Týrus, hafði séð Salómon fyrir sedrusviði og einiviði og öllu því gulli sem hann óskaði sér.+ Salómon konungur gaf því Híram 20 borgir í Galíleu. 12 En þegar Híram kom frá Týrus til að skoða borgirnar sem Salómon hafði gefið honum leist honum ekki á þær. 13 Hann sagði: „Hvers konar borgir eru þetta eiginlega sem þú hefur gefið mér, bróðir minn?“ Þess vegna var héraðið nefnt Kabúl* og heitir það enn þann dag í dag. 14 Híram sendi konungi 120 talentur* af gulli.+

15 Nú verður skýrt frá kvaðavinnunni sem Salómon konungur kom á+ til að byggja hús Jehóva,+ höll sína, Milló,*+ múra Jerúsalem, Hasór,+ Megiddó+ og Geser.+ 16 (Faraó Egyptalandskonungur hafði komið og tekið Geser, brennt hana í eldi og drepið Kanverjana+ sem bjuggu í borginni. Síðan gaf hann dóttur sinni+ hana í kveðjugjöf,* en hún var eiginkona Salómons.) 17 Salómon endurreisti* Geser, Neðri-Bet Hóron,+ 18 Baalat+ og Tamar í óbyggðunum í Ísrael.* 19 Salómon reisti einnig allar birgðaborgirnar, borgirnar fyrir stríðsvagnana+ og borgirnar fyrir riddarana og allt sem hann hafði hug á að byggja í Jerúsalem, Líbanon og öllu ríki sínu. 20 Í landinu voru enn einhverjir eftir af Amorítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum,+ þjóðflokkum sem voru ekki af Ísraelsþjóðinni.+ 21 Salómon lagði kvaðavinnu á afkomendur þeirra, þá sem Ísraelsmönnum hafði ekki tekist að eyða.* Þeir eru þrælar enn þann dag í dag.+ 22 En Salómon gerði enga Ísraelsmenn að þrælum.+ Þeir voru hermenn hans, þjónar, embættismenn, liðsforingjar og foringjar yfir vagnköppum hans og riddurum. 23 Æðstu héraðsstjórarnir, sem höfðu umsjón með verki Salómons, voru 550 talsins. Þeir voru verkstjórar yfir verkamönnunum.+

24 Dóttir faraós+ flutti frá Davíðsborg+ í húsið sem Salómon hafði reist handa henni. Eftir það byggði hann Milló.*+

25 Þrisvar á ári+ færði Salómon brennifórnir og samneytisfórnir á altarinu sem hann hafði reist handa Jehóva.+ Hann lét fórnarreyk stíga upp af altarinu sem var frammi fyrir Jehóva og lagði lokahönd á húsið.+

26 Salómon konungur smíðaði einnig fjölda skipa í Esjón Geber+ sem er við Elót á strönd Rauðahafs í Edómslandi.+ 27 Híram sendi þjóna sína, reynda sjófara, á skipin+ ásamt þjónum Salómons. 28 Þeir fóru til Ófír+ og tóku þaðan 420 talentur af gulli og færðu Salómon konungi.

10 Drottningin af Saba heyrði það orð sem fór af Salómon og að frægð hans væri nafni Jehóva að þakka.+ Hún kom því til að reyna hann með erfiðum spurningum.*+ 2 Hún kom til Jerúsalem ásamt miklu fylgdarliði+ og hafði með sér úlfalda sem voru klyfjaðir balsamolíu,+ miklu gulli og eðalsteinum. Hún gekk fyrir Salómon og talaði við hann um allt sem henni var hugleikið. 3 Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Ekkert vafðist fyrir* konungi heldur gat hann útskýrt allt fyrir henni.

4 Þegar drottningin af Saba hafði séð alla visku Salómons,+ húsið sem hann hafði byggt,+ 5 matinn á borði hans,+ sætaskipan embættismanna hans, hvernig þjónar hans þjónuðu til borðs og voru klæddir, drykkjarþjónana og brennifórnirnar sem hann færði stöðugt í húsi Jehóva varð hún agndofa af undrun. 6 Hún sagði við konung: „Það sem ég heyrði í landi mínu um afrek* þín og visku var satt. 7 En ég trúði ekki því sem ég heyrði fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Mér hafði þó ekki verið sagt frá helmingnum! Viska þín og velmegun er miklu meiri en ég hafði heyrt um. 8 Menn þínir og þjónar eru lánsamir að vera alltaf hjá þér og heyra visku þína.+ 9 Lofaður sé Jehóva Guð þinn+ sem setti þig í hásæti Ísraels af því að hann hafði velþóknun á þér. Jehóva gerði þig að konungi til að tryggja rétt og réttlæti af því að hann elskar Ísrael ævinlega.“

10 Síðan gaf hún konungi 120 talentur* af gulli, afar mikið af balsamolíu+ og eðalsteina.+ Aldrei framar kom eins mikið af balsamolíu og drottningin af Saba gaf Salómon konungi.

11 Skipafloti Hírams, sem kom með gull frá Ófír,+ flutti einnig þaðan eðalsteina og afar mikið af algúmmímviði.+ 12 Úr algúmmímviðnum gerði konungur stoðir fyrir hús Jehóva og konungshöllina og einnig hörpur og önnur strengjahljóðfæri handa söngvurunum.+ Slíkur algúmmímviður hefur hvorki borist hingað né sést fram á þennan dag.

13 Salómon konungur gaf drottningunni af Saba allt sem hún óskaði sér og bað um, auk þess sem hann gaf henni af örlæti sínu. Síðan sneri hún aftur heim til lands síns ásamt þjónum sínum.+

14 Gullið sem Salómon fékk á hverju ári vó 666 talentur.+ 15 Auk þess hagnaðist hann á viðskiptum kaupmanna og verslunarmanna og á öllum konungum Araba og héraðsstjórum landsins.

16 Salómon konungur gerði 200 stóra skildi úr gullblendi,+ en 600 siklar* af gulli fóru í hvern skjöld.+ 17 Hann gerði einnig 300 litla skildi* úr gullblendi, en þrjár mínur* af gulli fóru í hvern þeirra. Konungur kom þeim síðan fyrir í Líbanonsskógarhúsinu.+

18 Konungur gerði einnig stórt hásæti+ úr fílabeini og lagði það skíragulli.+ 19 Sex þrep voru upp að hásætinu og bak við það var bogadreginn himinn. Sætisarmar voru báðum megin á hásætinu og ljón+ stóð við hvorn þeirra. 20 Á þrepunum sex stóðu 12 ljón, sex hvorum megin. Ekkert þessu líkt hafði verið gert í nokkru öðru ríki.

21 Öll drykkjarílát Salómons konungs voru úr gulli og allur borðbúnaður í Líbanonsskógarhúsinu+ var úr hreinu gulli. Ekkert var úr silfri því að silfur var einskis metið á dögum Salómons+ 22 enda átti konungur fjölda Tarsisskipa+ úti á hafi sem sigldu með skipum Hírams. Þriðja hvert ár komu Tarsisskipin hlaðin silfri og gulli, fílabeini,+ öpum og páfuglum.

23 Salómon konungur var ríkari+ og vitrari+ en allir aðrir konungar jarðar+ 24 og fólk alls staðar að úr heiminum leitaði til Salómons til að heyra þá visku sem Guð hafði lagt í hjarta hans.+ 25 Allir komu með gjafir ár eftir ár: silfur- og gullgripi, fatnað, vopn, balsamolíu, hesta og múldýr.

26 Salómon kom sér upp vögnum og hestum.* Hann átti 1.400 vagna og 12.000 hesta.*+ Hann geymdi þá í vagnaborgunum og hjá sér í Jerúsalem.+

27 Konungur gerði silfur eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins algengan og mórfíkjutrén í Sefela.+

28 Hestar Salómons voru fluttir inn frá Egyptalandi.* Kaupmenn konungs keyptu þá í hjörðum* á föstu verði.+ 29 Vagnarnir sem voru fluttir inn frá Egyptalandi kostuðu 600 silfursikla hver og hver hestur 150 sikla. Síðan voru þeir fluttir út til allra konunga Hetíta+ og konunga Sýrlands.

11 En Salómon konungur elskaði margar útlendar konur+ auk dóttur faraós.+ Það voru konur komnar af Móabítum,+ Ammónítum,+ Edómítum, Sídoningum+ og Hetítum.+ 2 Þær voru af þjóðunum sem Jehóva hafði sagt um við Ísraelsmenn: „Þið megið ekki eiga náin samskipti við þær* og þær mega ekki eiga náin samskipti við ykkur því að þær munu snúa hjörtum ykkar til guða sinna.“+ En Salómon bast þeim sterkum böndum og elskaði þær.* 3 Hann átti 700 eiginkonur sem voru tignarkonur og 300 hjákonur, og smám saman sneru konurnar hjarta hans burt frá Guði.* 4 Þegar Salómon var kominn á efri ár+ sneru konurnar hjarta hans til annarra guða.+ Hjarta hans var ekki heilt gagnvart Jehóva Guði hans eins og hjarta Davíðs föður hans hafði verið. 5 Salómon fylgdi Astarte+ gyðju Sídoninga og Milkóm,+ hinum viðbjóðslega guði Ammóníta. 6 Salómon gerði það sem var illt í augum Jehóva og fylgdi ekki Jehóva heils hugar eins og Davíð faðir hans hafði gert.+

7 Um þetta leyti reisti Salómon fórnarhæð+ handa Kamosi, hinum viðbjóðslega guði Móabs, á fjallinu rétt hjá Jerúsalem og einnig handa Mólek,+ hinum viðbjóðslega guði Ammóníta.+ 8 Hið sama gerði hann fyrir allar útlendu eiginkonurnar sem létu reykinn af brennifórnum sínum stíga upp til guða sinna.

9 Jehóva varð ofsareiður út í Salómon vegna þess að hann hafði snúið hjarta sínu frá Jehóva Guði Ísraels+ sem hafði birst honum tvisvar+ 10 og varað hann við því að fylgja öðrum guðum.+ En Salómon hlýddi ekki fyrirmælum Jehóva. 11 Jehóva sagði því við Salómon: „Fyrst þú hefur gert þetta og ekki haldið sáttmála minn og fyrirmælin sem ég gaf þér mun ég hrifsa af þér konungsríkið og gefa það einum af þjónum þínum.+ 12 Vegna Davíðs föður þíns ætla ég þó ekki að gera það meðan þú ert á lífi heldur mun ég hrifsa það af syni þínum.+ 13 En ég ætla ekki að hrifsa af honum allt ríkið.+ Ég ætla að gefa syni þínum eina ættkvísl+ vegna Davíðs þjóns míns og vegna Jerúsalem sem ég hef valið.“+

14 Jehóva lét óvin rísa gegn Salómon,+ Hadad Edómíta sem var af konungsættinni í Edóm.+ 15 Þegar Davíð hafði sigrað Edóm+ fór Jóab hershöfðingi upp eftir til að jarða hina föllnu og hann reyndi að drepa alla karlmenn* í Edóm. 16 (Jóab og allur Ísrael var þar í sex mánuði þar til hann hafði útrýmt öllum karlmönnum í Edóm.) 17 En Hadad flúði til Egyptalands ásamt nokkrum Edómítum sem höfðu þjónað föður hans. Hadad var þá bara lítill drengur. 18 Þeir héldu af stað frá Midían og komu til Paran.+ Þeir tóku með sér menn þaðan og komu loks til Egyptalands, til faraós Egyptalandskonungs. Hann gaf Hadad hús, sá honum fyrir mat og fékk honum land. 19 Faraó líkaði svo vel við Hadad að hann gaf honum mágkonu sína að eiginkonu, en hún var systir Takpenesar drottningar.* 20 Að nokkrum tíma liðnum fæddi systir Takpenesar honum soninn Genúbat og Takpenes ól hann upp* í húsi faraós. Genúbat bjó því meðal sona faraós í húsi faraós.

21 Meðan Hadad var í Egyptalandi frétti hann að Davíð hefði verið lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum+ og að Jóab hershöfðingi væri dáinn.+ Þá sagði Hadad við faraó: „Leyfðu mér að fara heim til lands míns.“ 22 En faraó svaraði honum: „Hvað skortir þig hjá mér fyrst þú vilt fara heim til lands þíns?“ „Ekkert,“ sagði hann, „en leyfðu mér samt að fara.“

23 Guð lét annan óvin rísa gegn Salómon,+ Resón Eljadason sem hafði flúið frá húsbónda sínum, Hadadeser,+ konungi í Sóba. 24 Þegar Davíð hafði sigrað mennina frá Sóba*+ safnaði Resón liði og gerðist foringi ræningjaflokks. Þeir fóru til Damaskus+ þar sem þeir settust að og komust til valda. 25 Alla stjórnartíð Salómons var hann óvinur Ísraels og olli miklum skaða, rétt eins og Hadad. Resón ríkti yfir Sýrlandi og hafði andstyggð á Ísrael.

26 Jeróbóam+ Nebatsson, Efraímíti frá Sereda, gerði einnig uppreisn* gegn konungi.+ Hann var þjónn Salómons+ og móðir hans hét Serúa og var ekkja. 27 Kveikjan að uppreisn hans gegn konungi var þessi: Salómon hafði byggt Milló*+ og lokað skarðinu í borg Davíðs föður síns.+ 28 Jeróbóam var hörkuduglegur. Salómon sá hve vinnusamur þessi ungi maður var og setti hann yfir+ kvaðavinnuna sem var lögð á afkomendur* Jósefs. 29 Dag einn, þegar Jeróbóam fór frá Jerúsalem, mætti hann Ahía+ spámanni frá Síló á veginum. Ahía var í nýrri yfirhöfn og þeir voru þarna tveir einir á bersvæði. 30 Ahía þreif í nýju yfirhöfnina sem hann var í og reif hana í 12 hluta. 31 Síðan sagði hann við Jeróbóam:

„Taktu tíu hluta handa sjálfum þér því að Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Ég hrifsa konungsríkið úr höndum Salómons og gef þér tíu ættkvíslir.+ 32 En hann fær að halda einni ættkvísl+ vegna Davíðs þjóns míns+ og vegna Jerúsalem, borgarinnar sem ég hef valið úr öllum ættkvíslum Ísraels.+ 33 Þetta ætla ég að gera vegna þess að fólk mitt hefur yfirgefið mig+ og fellur fram fyrir Astarte gyðju Sídoninga, Kamosi guði Móabs og Milkóm guði Ammóníta. Það hefur ekki gengið á vegum mínum og hvorki gert það sem er rétt í mínum augum né haldið lög mín og ákvæði eins og Davíð faðir Salómons gerði. 34 En ég tek ekki allt ríkið af honum heldur leyfi ég honum að ríkja sem þjóðhöfðingi meðan hann lifir vegna Davíðs þjóns míns sem ég valdi,+ en hann hlýddi fyrirmælum mínum og boðorðum. 35 Ég ætla hins vegar að taka konungsríkið af syni hans og gefa þér það, það er að segja tíu ættkvíslir.+ 36 Ég gef syni hans eina ættkvísl svo að Davíð þjónn minn hafi alltaf lampa* frammi fyrir mér í Jerúsalem,+ borginni sem ég hef valið til að setja nafn mitt á. 37 Ég vel þig til að ríkja yfir öllu sem þú þráir og þú verður konungur yfir Ísrael. 38 Ef þú hlýðir öllum fyrirmælum mínum og gengur á vegum mínum, gerir það sem er rétt í mínum augum og heldur lög mín og boðorð eins og Davíð þjónn minn gerði+ þá verð ég líka með þér. Ég festi konungsætt þína í sessi* eins og ég gerði fyrir Davíð,+ og ég gef þér Ísrael. 39 Ég mun auðmýkja afkomendur Davíðs vegna þessa,+ en ekki að eilífu.‘“+

40 Salómon reyndi nú að drepa Jeróbóam en Jeróbóam flúði til Egyptalands, til Sísaks+ Egyptalandskonungs,+ og var þar um kyrrt þangað til Salómon dó.

41 Það sem er ósagt af sögu Salómons, öllu sem hann gerði og visku hans, er skráð í bókinni um sögu Salómons.+ 42 Salómon ríkti í Jerúsalem yfir öllum Ísrael í 40 ár. 43 Síðan var Salómon lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður í borg Davíðs föður síns. Rehabeam+ sonur hans varð konungur eftir hann.

12 Rehabeam fór til Síkem+ því að allur Ísrael var kominn þangað til að gera hann að konungi.+ 2 Jeróbóam Nebatsson frétti það. (Hann bjó enn í Egyptalandi eftir að hafa flúið þangað undan Salómon konungi.)+ 3 Nú var sent eftir Jeróbóam og hann og allur söfnuður Ísraels kom til Rehabeams og sagði: 4 „Faðir þinn lagði á okkur þungt ok.+ En ef þú léttir erfiðisvinnuna og hið þunga ok sem faðir þinn lagði á okkur munum við þjóna þér.“

5 Hann svaraði þeim: „Farið nú og komið aftur til mín eftir þrjá daga.“ Og fólkið fór.+ 6 Rehabeam konungur ráðfærði sig þá við gömlu mennina* sem höfðu þjónað Salómon föður hans meðan hann var á lífi og spurði: „Hverju mælið þið með að ég svari fólkinu?“ 7 Þeir svöruðu honum: „Ef þú gerist þjónn þessa fólks í dag, tekur vel í beiðni þess og verður við henni mun það alltaf þjóna þér.“

8 En hann hafnaði ráði gömlu mannanna* og ráðfærði sig við ungu mennina sem höfðu alist upp með honum og voru nú þjónar hans.+ 9 Hann spurði þá: „Hverju mælið þið með að ég svari fólkinu sem sagði við mig: ‚Léttu okið sem faðir þinn lagði á okkur‘?“ 10 Ungu mennirnir sem höfðu alist upp með honum svöruðu: „Þannig skaltu svara fólkinu sem sagði við þig: ‚Faðir þinn lagði á okkur þungt ok en þú skalt létta það.‘ Segðu við það: ‚Litlifingur minn verður sverari en mjaðmir föður míns. 11 Faðir minn lagði á ykkur þungt ok en ég mun gera það enn þyngra. Faðir minn refsaði ykkur með svipum en ég mun refsa ykkur með gaddasvipum.‘“

12 Jeróbóam kom ásamt öllu fólkinu til Rehabeams á þriðja degi eins og konungurinn hafði sagt: „Komið aftur til mín eftir þrjá daga.“+ 13 En konungurinn svaraði fólkinu með hörku og fór ekki að þeim ráðum sem gömlu mennirnir* höfðu gefið honum. 14 Hann fór að ráði ungu mannanna og sagði: „Faðir minn lagði á ykkur þungt ok en ég mun gera það enn þyngra. Faðir minn refsaði ykkur með svipum en ég mun refsa ykkur með gaddasvipum.“ 15 Konungur hlustaði ekki á fólkið því að Jehóva stýrði gangi mála+ til að það rættist sem Jehóva hafði sagt við Jeróbóam Nebatsson fyrir milligöngu Ahía frá Síló.+

16 Þegar allir Ísraelsmenn sáu að konungurinn vildi ekki hlusta á þá sögðu þeir við hann: „Hvað kemur Davíð okkur við?* Við eigum ekkert sameiginlegt með* syni Ísaí. Ísraelsmenn, snúið nú til guða ykkar. Þú getur gætt þíns eigin húss, Davíð.“ Síðan fóru Ísraelsmenn heim til sín.*+ 17 En Rehabeam ríkti áfram yfir þeim Ísraelsmönnum sem bjuggu í borgum Júda.+

18 Rehabeam konungur sendi nú Adóram,+ yfirmann þeirra sem unnu kvaðavinnu, til Ísraelsmanna en allur Ísrael grýtti hann til bana. Rehabeam konungi tókst að komast upp í vagn sinn og flýja til Jerúsalem.+ 19 Ísraelsmenn hafa staðið gegn+ ætt Davíðs allt fram á þennan dag.

20 Þegar Ísraelsmenn fréttu að Jeróbóam væri snúinn aftur boðuðu þeir hann til fundar við sig og gerðu hann að konungi yfir öllum Ísrael.+ Enginn hélt tryggð við ætt Davíðs nema ættkvísl Júda.+

21 Þegar Rehabeam kom til Jerúsalem kallaði hann strax saman alla Júdaætt og ættkvísl Benjamíns, 180.000 þjálfaða* hermenn. Þeir áttu að berjast við ætt Ísraels og ná konungdóminum aftur undir Rehabeam son Salómons.+ 22 Þá kom orð hins sanna Guðs til Semaja+ sem var maður hins sanna Guðs: 23 „Segðu við Rehabeam Salómonsson Júdakonung og alla ætt Júda og Benjamíns og allt fólkið: 24 ‚Jehóva segir: „Farið ekki upp eftir til að berjast við bræður ykkar, Ísraelsmenn. Farið allir heim til ykkar því að það er ég sem stend á bak við það sem hefur gerst.“‘“+ Þeir hlýddu Jehóva og fóru aftur heim, rétt eins og Jehóva hafði sagt þeim að gera.

25 Jeróbóam víggirti* Síkem+ í Efraímsfjöllum og settist þar að. Þaðan fór hann og víggirti* Penúel.+ 26 Jeróbóam hugsaði með sér: „Nú gæti konungdómurinn lent aftur undir ætt Davíðs.+ 27 Ef fólkið heldur áfram að fara upp til húss Jehóva í Jerúsalem til að færa sláturfórnir+ mun hjarta þess hverfa aftur til Rehabeams Júdakonungs, húsbónda þess. Fólkið mun drepa mig og snúa aftur til Rehabeams Júdakonungs.“ 28 Eftir að konungur hafði talað við ráðgjafa sína gerði hann tvo gullkálfa+ og sagði við fólkið: „Það er of mikið ómak fyrir ykkur að fara upp til Jerúsalem. Hér er Guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út úr Egyptalandi.“+ 29 Síðan kom hann öðrum kálfinum fyrir í Betel+ og hinum í Dan.+ 30 Þetta varð til þess að fólkið syndgaði.+ Það fór alla leið til Dan til að tilbiðja kálfinn sem var þar.

31 Jeróbóam reisti hof á fórnarhæðunum og skipaði presta úr hópi almennings sem voru ekki Levítar.+ 32 Hann stofnaði einnig til hátíðar 15. dag áttunda mánaðarins sem var eins og hátíðin í Júda.+ Á altarinu sem hann hafði reist í Betel+ færði hann kálfunum sem hann hafði gert sláturfórnir, og hann skipaði presta í Betel til að gegna þjónustu á fórnarhæðunum sem hann hafði reist. 33 Á 15. degi áttunda mánaðarins, mánaðarins sem hann hafði sjálfur valið, tók hann að færa fórnir á altarinu sem hann hafði reist í Betel og kom á fót hátíð fyrir Ísraelsmenn. Hann gekk upp að altarinu til að færa fórnir og láta fórnarreykinn stíga upp.

13 Á meðan Jeróbóam stóð við altarið+ og lét fórnarreyk stíga upp kom guðsmaður nokkur+ frá Júda til Betel að boði Jehóva. 2 Hann hrópaði að altarinu eins og Jehóva hafði skipað honum að gera. „Altari, altari!“ sagði hann. „Jehóva segir: ‚Sonur að nafni Jósía+ mun fæðast í ætt Davíðs. Hann mun fórna á þér prestum fórnarhæðanna, þeim sem láta fórnarreyk stíga upp af þér, og hann mun brenna mannabein á þér.‘“+ 3 Hann gaf tákn* þennan dag og sagði: „Þetta er tákn þess að Jehóva hefur talað: Altarið mun rifna og askan* á því steypast niður.“

4 Þegar Jeróbóam konungur heyrði hvað maður hins sanna Guðs hrópaði gegn altarinu í Betel rétti hann út höndina frá altarinu og sagði: „Grípið hann!“+ En höndin sem hann rétti út visnaði* þegar í stað og hann gat ekki dregið hana aftur að sér.+ 5 Síðan rifnaði altarið og askan á því steyptist niður í samræmi við táknið sem maður hins sanna Guðs hafði boðað eftir skipun Jehóva.

6 Þá sagði konungur við mann hins sanna Guðs: „Biddu Jehóva Guð þinn að sýna mér miskunn.* Biddu fyrir mér svo að höndin verði aftur heil.“+ Guðsmaðurinn bað þá Jehóva að sýna honum miskunn og hönd konungs varð jafn góð og áður. 7 Síðan sagði konungurinn við mann hins sanna Guðs: „Komdu heim með mér og fáðu þér að borða. Ég ætla líka að gefa þér gjöf.“ 8 En maður hins sanna Guðs svaraði konungi: „Þótt þú gæfir mér helminginn af eigum þínum kæmi ég ekki með þér og fengi mér hvorki brauð að borða né vatn að drekka á þessum stað 9 því að Jehóva gaf mér þessi fyrirmæli: ‚Þú mátt hvorki fá þér brauð að borða né vatn að drekka og þú mátt ekki fara heim sömu leið og þú komst.‘“ 10 Hann fór því annan veg og sneri ekki aftur sömu leið og hann hafði komið til Betel.

11 Í Betel bjó gamall spámaður. Synir hans komu heim og sögðu honum frá öllu sem maður hins sanna Guðs hafði gert þann dag í Betel og frá því sem hann hafði sagt við konunginn. Þegar þeir höfðu sagt föður sínum þetta 12 spurði hann þá: „Hvaða leið fór hann?“ Synir hans sýndu honum leiðina sem guðsmaðurinn frá Júda hafði farið. 13 Þá sagði hann við syni sína. „Leggið á asnann fyrir mig.“ Þeir lögðu á asnann fyrir hann og hann steig á bak.

14 Hann fór á eftir manni hins sanna Guðs og fann hann þar sem hann sat undir stóru tré. Hann spurði: „Ert þú maður hins sanna Guðs sem kom frá Júda?“+ Hann svaraði: „Já, ég er hann.“ 15 Spámaðurinn sagði þá við hann: „Komdu heim með mér og fáðu þér að borða.“ 16 En hann svaraði: „Ég get ekki þegið boð þitt og snúið við með þér og ég get hvorki borðað né drukkið með þér á þessum stað 17 því að Jehóva sagði við mig: ‚Þar máttu hvorki fá þér brauð að borða né vatn að drekka. Þú mátt ekki fara heim sömu leið og þú komst.‘“ 18 Hann svaraði honum: „Ég er spámaður eins og þú. Engill gaf mér þessi fyrirmæli frá Jehóva: ‚Farðu með hann heim til þín svo að hann geti fengið brauð að borða og vatn að drekka.‘“ (Hann laug að honum.) 19 Hann sneri þá við með honum og át og drakk í húsi hans.

20 Meðan þeir sátu til borðs kom orð Jehóva til spámannsins sem hafði fengið hann til að snúa við. 21 Hann hrópaði til guðsmannsins frá Júda: „Jehóva segir: ‚Þú hefur risið gegn skipun Jehóva og óhlýðnast fyrirmælunum sem Jehóva Guð þinn gaf þér. 22 Þú snerir við og fékkst þér brauð að borða og vatn að drekka á staðnum þar sem hann hafði bannað þér að borða og drekka. Þess vegna verður lík þitt ekki lagt í gröf forfeðra þinna.‘“+

23 Eftir máltíðina lagði gamli spámaðurinn á asnann fyrir spámanninn sem hann hafði fengið til að snúa við. 24 Síðan lagði hann af stað. En ljón varð á vegi hans og drap hann.+ Lík hans lá á veginum og asninn stóð hjá því. Ljónið stóð líka hjá því. 25 Menn sem áttu þar leið hjá sáu líkið liggja á veginum og ljónið standa hjá því. Þeir fóru inn í borgina þar sem gamli spámaðurinn bjó og sögðu frá þessu.

26 Um leið og spámaðurinn sem hafði fengið guðsmanninn til að snúa við heyrði þetta sagði hann: „Þetta er maður hins sanna Guðs sem reis gegn skipun Jehóva.+ Jehóva hefur gefið hann ljóninu svo að það gæti rifið hann sundur og drepið hann. Það sem Jehóva sagði við hann hefur ræst.“+ 27 Síðan sagði hann við syni sína: „Leggið á asnann fyrir mig.“ Og þeir gerðu það. 28 Hann lagði af stað og fann líkið þar sem það lá á veginum. Asninn og ljónið stóðu hjá því, en ljónið hafði hvorki étið líkið né drepið asnann. 29 Spámaðurinn tók lík guðsmannsins og lagði það á asnann. Hann fór með hann aftur til borgar sinnar til að jarða hann og syrgja. 30 Hann lagði líkið í sína eigin gröf og menn grétu yfir honum og hrópuðu: „En hræðilegt, bróðir minn!“ 31 Þegar hann hafði jarðað hann sagði hann við syni sína: „Þegar ég dey skuluð þið jarða mig í gröfinni þar sem maður hins sanna Guðs er grafinn. Leggið bein mín við hliðina á beinum hans.+ 32 Það sem hann hrópaði að boði Jehóva gegn altarinu í Betel og gegn öllum hofunum á fórnarhæðunum+ í borgum Samaríu mun vissulega rætast.“+

33 Þrátt fyrir þetta sneri Jeróbóam ekki af sínum vonda vegi heldur hélt áfram að skipa presta á fórnarhæðirnar úr hópi almennings.+ Hann vígði til prestsþjónustu* hvern þann sem vildi og sagði: „Hann skal gegna prestsþjónustu á fórnarhæðunum.“+ 34 Þessi synd leiddi til þess að ætt Jeróbóams+ var þurrkuð út og afmáð af yfirborði jarðar.+

14 Um þetta leyti veiktist Abía sonur Jeróbóams. 2 Þá sagði Jeróbóam við konu sína: „Dulbúðu þig svo að enginn viti að þú sért kona Jeróbóams og farðu til Síló. Ahía spámaður er þar, hann sem sagði að ég yrði konungur yfir þessu fólki.+ 3 Taktu með þér tíu brauð, kökur og hunangskrukku og farðu til hans. Hann mun segja þér hvað verður um drenginn.“

4 Kona Jeróbóams gerði eins og hann sagði. Hún lagði af stað til Síló+ og kom heim til Ahía. Ahía var orðinn gamall og hann sá ekki því að augu hans voru stirðnuð.

5 En Jehóva hafði sagt við Ahía: „Kona Jeróbóams er á leiðinni til að leita svara hjá þér um son sinn því að hann er veikur. Ég skal segja þér hverju þú átt að svara henni.* En þegar hún kemur til þín mun hún þykjast vera önnur en hún er.“

6 Þegar Ahía heyrði fótatak hennar við dyrnar sagði hann: „Komdu inn, kona Jeróbóams. Hvers vegna þykistu vera önnur en þú ert? Mér hefur verið falið að flytja þér slæmar fréttir. 7 Farðu og segðu við Jeróbóam: ‚Jehóva Guð Ísraels segir: „Ég valdi þig úr þjóðinni og gerði þig að leiðtoga yfir þjóð minni, Ísrael.+ 8 Ég hrifsaði konungsríkið af ætt Davíðs og gaf þér það.+ En þú hefur ekki verið eins og þjónn minn, Davíð, sem hélt boðorð mín og fylgdi mér af öllu hjarta og gerði það eitt sem var rétt í mínum augum.+ 9 Þú hefur verið verri en allir sem voru á undan þér. Þú gerðir þér annan guð og málmlíkneski* til þess að særa mig.+ Þú hefur snúið baki við mér.+ 10 Þess vegna ætla ég að leiða ógæfu yfir ætt Jeróbóams. Ég mun tortíma öllum karlmönnum* af ætt Jeróbóams, jafnvel hinum vesælu og veikburða í Ísrael. Ég mun sópa burt ætt Jeróbóams+ eins og sora er sópað burt þar til ekkert er eftir. 11 Hundar munu éta hvern þann af ætt Jeróbóams sem deyr í borginni og fuglar himins hvern þann sem deyr úti á víðavangi því að Jehóva hefur sagt það.“‘

12 Farðu nú heim. Þegar þú stígur fæti inn í borgina mun drengurinn deyja. 13 Allur Ísrael mun syrgja hann og jarða. Af allri ætt Jeróbóams verður hann einn lagður í gröf því að hann er sá eini í ætt Jeróbóams sem Jehóva Guð Ísraels hefur fundið eitthvað gott í. 14 Jehóva mun skipa konung yfir Ísrael sem mun afmá ætt Jeróbóams+ þegar dagurinn rennur upp, ef ekki nú þegar. 15 Jehóva mun slá Ísrael svo að hann svigni eins og reyr í vatni. Hann mun uppræta Ísraelsmenn úr þessu góða landi sem hann gaf forfeðrum þeirra+ og dreifa þeim handan við Fljótið*+ af því að þeir misbuðu Jehóva með helgistólpunum*+ sem þeir gerðu. 16 Hann mun yfirgefa Ísrael vegna þeirra synda sem Jeróbóam hefur drýgt og fengið Ísrael til að drýgja.“+

17 Þá stóð kona Jeróbóams upp, lagði af stað og kom til Tirsa. Þegar hún steig yfir þröskuld hússins dó drengurinn. 18 Hann var jarðaður og allur Ísrael syrgði hann eins og Jehóva hafði sagt fyrir milligöngu Ahía spámanns, þjóns síns.

19 Það sem er ósagt af sögu Jeróbóams, hvernig hann háði stríð+ og hvernig hann ríkti, er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga. 20 Jeróbóam ríkti í 22 ár og var síðan lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum.+ Nadab sonur hans varð konungur eftir hann.+

21 Rehabeam sonur Salómons var konungur í Júda. Rehabeam var 41 árs þegar hann varð konungur og hann ríkti í 17 ár í Jerúsalem, borginni sem Jehóva hafði valið+ úr öllum ættkvíslum Ísraels til að setja nafn sitt á.+ Móðir Rehabeams hét Naama og var frá Ammón.+ 22 Júdamenn gerðu það sem var illt í augum Jehóva+ og þeir vöktu reiði hans enn meir en forfeður þeirra höfðu gert með þeim syndum sem þeir drýgðu.+ 23 Einnig þeir reistu sér fórnarhæðir, helgisúlur og helgistólpa*+ á hverjum háum hól+ og undir hverju laufmiklu tré.+ 24 Auk þess voru menn í landinu sem stunduðu musterisvændi.+ Fólkið líkti eftir viðbjóðslegu háttalagi þjóðanna sem Jehóva hafði hrakið burt undan Ísraelsmönnum.

25 Á fimmta stjórnarári Rehabeams konungs hélt Sísak+ Egyptalandskonungur í herferð gegn Jerúsalem.+ 26 Hann tók dýrgripina úr húsi Jehóva og konungshöllinni.+ Hann tók allt saman, þar á meðal alla gullskildina sem Salómon hafði gert.+ 27 Rehabeam konungur gerði koparskildi í þeirra stað og fól þá foringjum lífvarðanna* til umsjónar en þeir gættu dyra konungshallarinnar. 28 Í hvert skipti sem konungur gekk í hús Jehóva báru verðirnir skildina og skiluðu þeim síðan aftur í lífvarðaherbergið.

29 Það sem er ósagt af sögu Rehabeams og öllu sem hann gerði er skráð í bókinni um sögu Júdakonunga.+ 30 Rehabeam og Jeróbóam áttu stöðugt í stríði hvor við annan.+ 31 Rehabeam var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður hjá þeim í Davíðsborg.+ Móðir hans hét Naama og var frá Ammón.+ Abíam*+ sonur hans varð konungur eftir hann.

15 Á 18. stjórnarári Jeróbóams+ Nebatssonar konungs varð Abíam konungur yfir Júda.+ 2 Hann ríkti í þrjú ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka+ og var dótturdóttir Absalons.* 3 Hann drýgði allar sömu syndir og faðir hans hafði áður drýgt og hjarta hans var ekki heilt gagnvart Jehóva Guði hans eins og hjarta Davíðs forföður hans hafði verið. 4 En Jehóva Guð hans gaf honum samt lampa* í Jerúsalem+ með því að gera son hans að konungi eftir hann og láta Jerúsalem standa. Þetta gerði hann vegna Davíðs+ 5 því að Davíð gerði það sem var rétt í augum Jehóva og aldrei á ævi sinni vék hann frá neinu sem hann lagði fyrir hann, nema í máli Úría Hetíta.+ 6 Rehabeam átti í stríði við Jeróbóam eins lengi og hann lifði.+

7 Það sem er ósagt af sögu Abíams og öllu sem hann gerði er skráð í bókinni um sögu Júdakonunga.+ Abíam og Jeróbóam áttu einnig í stríði hvor við annan.+ 8 Abíam var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður í Davíðsborg. Asa+ sonur hans varð konungur eftir hann.+

9 Á 20. stjórnarári Jeróbóams, konungs í Ísrael, varð Asa konungur yfir Júda. 10 Hann ríkti í Jerúsalem í 41 ár. Amma hans hét Maaka+ og var dótturdóttir Absalons.* 11 Asa gerði það sem var rétt í augum Jehóva+ eins og Davíð forfaðir hans. 12 Hann rak úr landi mennina sem stunduðu musterisvændi+ og fjarlægði öll viðbjóðslegu skurðgoðin* sem forfeður hans höfðu gert.+ 13 Hann svipti jafnvel Maöku+ ömmu sína konungsmóðurtign sinni því að hún hafði gert ógeðfellt skurðgoð til að nota við tilbeiðslu helgistólpans.* Asa hjó skurðgoðið niður+ og brenndi það í Kedrondal.+ 14 En fórnarhæðirnar fengu að standa.+ Engu að síður var hjarta Asa heilt gagnvart Jehóva alla ævi hans. 15 Hann flutti í hús Jehóva munina sem hann og faðir hans höfðu helgað – silfur, gull og ýmiss konar áhöld.+

16 Asa og Basa+ Ísraelskonungur áttu stöðugt í stríði hvor við annan. 17 Basa Ísraelskonungur hélt í herferð gegn Júda og hófst handa við að víggirða* Rama+ til að enginn kæmist til eða frá Asa Júdakonungi.*+ 18 Þá tók Asa allt silfrið og gullið sem var eftir í fjárhirslum húss Jehóva og fjárhirslum konungshallarinnar og fékk það þjónum sínum. Asa konungur sendi þá til Benhadads Sýrlandskonungs,+ sonar Tabrimmons Hesíonssonar, sem bjó í Damaskus. Þeir áttu að flytja honum þessi boð: 19 „Sáttmáli er milli mín og þín og milli föður míns og föður þíns. Ég sendi þér þetta silfur og gull að gjöf. Rjúfðu nú sáttmála þinn við Basa, konung í Ísrael, svo að hann dragi sig til baka frá mér.“ 20 Benhadad gerði eins og Asa konungur bað um og sendi hershöfðingja sína til að ráðast á borgir Ísraels. Þeir tóku Íjón,+ Dan,+ Abel Bet Maaka, allt Kinneret og allt land Naftalí. 21 Um leið og Basa frétti þetta hætti hann að víggirða Rama og var um kyrrt í Tirsa.+ 22 Asa konungur kallaði síðan saman alla Júdamenn – enginn var undanskilinn. Þeir fluttu burt steinana og timbrið sem Basa hafði notað til að víggirða Rama. Asa konungur notaði það síðan til að víggirða* Geba+ í Benjamín og Mispa.+

23 Það sem er ósagt af sögu Asa, öllu sem hann afrekaði og gerði og borgunum sem hann víggirti,* er skráð í bókinni um sögu Júdakonunga. Á sínum efri árum þjáðist Asa af fótaveiki.+ 24 Hann var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður hjá þeim í borg Davíðs forföður síns. Jósafat+ sonur hans varð konungur eftir hann.

25 Nadab+ sonur Jeróbóams varð konungur í Ísrael á öðru stjórnarári Asa Júdakonungs. Hann ríkti yfir Ísrael í tvö ár. 26 Hann gerði það sem var illt í augum Jehóva, fetaði í fótspor föður síns+ og drýgði sömu syndir og hann hafði fengið Ísrael til að drýgja.+ 27 Basa, sonur Ahía af ættkvísl Íssakars, gerði samsæri gegn honum og drap hann við Gibbeton+ sem Filistear áttu. En Nadab og allur Ísrael sat þá um Gibbeton. 28 Basa drap hann á þriðja stjórnarári Asa Júdakonungs og varð konungur eftir hann. 29 Hann var ekki fyrr orðinn konungur en hann drap alla ætt Jeróbóams. Hann lét engan af ætt Jeróbóams halda lífi heldur tortímdi henni allri eins og Jehóva hafði sagt fyrir milligöngu Ahía þjóns síns frá Síló.+ 30 Þetta gerðist vegna þeirra synda sem Jeróbóam hafði drýgt og fengið Ísrael til að drýgja og af því að hann hafði misboðið Jehóva Guði Ísraels gróflega. 31 Það sem er ósagt af sögu Nadabs og öllu sem hann gerði er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga. 32 Asa og Basa Ísraelskonungur áttu stöðugt í stríði hvor við annan.+

33 Á þriðja stjórnarári Asa Júdakonungs varð Basa Ahíason konungur í Tirsa. Hann ríkti yfir öllum Ísrael í 24 ár.+ 34 Hann gerði það sem var illt í augum Jehóva,+ fetaði í fótspor Jeróbóams og drýgði sömu syndir og hann hafði fengið Ísrael til að drýgja.+

16 Nú kom orð Jehóva gegn Basa til Jehú+ Hananísonar:+ 2 „Ég reisti þig úr duftinu og gerði þig að leiðtoga yfir þjóð minni, Ísrael.+ En þú fetaðir í fótspor Jeróbóams og fékkst þjóð mína, Ísrael, til að syndga og misbjóða mér með syndum sínum.+ 3 Þess vegna ætla ég að sópa burt Basa og ætt hans. Ég mun fara eins með ætt hans og ætt Jeróbóams+ Nebatssonar. 4 Hundar munu éta hvern þann af ætt Basa sem deyr í borginni og fuglar himins hvern þann sem deyr úti á víðavangi.“

5 Það sem er ósagt af sögu Basa, því sem hann gerði og afrekaði, er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga. 6 Basa var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður í Tirsa.+ Ela sonur hans varð konungur eftir hann. 7 Jehóva hafði boðað dómsboðskap yfir Basa og ætt hans fyrir milligöngu spámannsins Jehú Hananísonar. Það var vegna þess að hann misbauð Jehóva með öllu því illa sem hann gerði frammi fyrir honum eins og ætt Jeróbóams hafði gert, og einnig vegna þess að hann drap Nadab.*+

8 Á 26. stjórnarári Asa Júdakonungs varð Ela sonur Basa konungur yfir Ísrael. Hann ríkti í Tirsa í tvö ár. 9 Simrí þjónn hans, foringi yfir helmingi vagnliðsins, gerði samsæri gegn honum. Þegar Ela var í Tirsa og drakk sig drukkinn heima hjá Arsa, hallarráðsmanni í Tirsa, 10 kom Simrí inn til hans og hjó hann til bana.+ Þetta var á 27. stjórnarári Asa Júdakonungs. Simrí varð konungur eftir Ela. 11 Um leið og hann var orðinn konungur og sestur í hásæti drap hann alla ætt Basa. Hann þyrmdi ekki einum einasta karlmanni,* hvorki skyldmennum* hans né vinum. 12 Simrí tortímdi allri ætt Basa eins og Jehóva hafði boðað fyrir milligöngu Jehú spámanns.+ 13 Það var vegna allra þeirra synda sem Basa og Ela sonur hans höfðu drýgt og fengið Ísrael til að drýgja. Þeir misbuðu Jehóva Guði Ísraels með einskis nýtum skurðgoðum sínum.+ 14 Það sem er ósagt af sögu Ela og öllu sem hann gerði er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga.

15 Á 27. stjórnarári Asa Júdakonungs varð Simrí konungur. Hann ríkti í sjö daga í Tirsa á meðan herinn sat um Gibbeton+ sem Filistear áttu. 16 Nú frétti umsátursherinn að Simrí hefði gert samsæri gegn konunginum og drepið hann. Sama dag gerði allur Ísrael Omrí+ hershöfðingja að konungi yfir Ísrael þar í herbúðunum. 17 Síðan fór Omrí og allur Ísrael frá Gibbeton og settist um Tirsa. 18 Þegar Simrí sá að borgin var unnin fór hann inn í turn konungshallarinnar, kveikti í höllinni og lét þar lífið.+ 19 Þetta gerðist vegna þeirra synda sem hann hafði drýgt með því að gera það sem var illt í augum Jehóva og feta í fótspor Jeróbóams, en einnig vegna þeirra synda sem hann hafði fengið Ísrael til að drýgja.+ 20 Það sem er ósagt af sögu Simrí og samsæri hans er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga.

21 Um þetta leyti varð klofningur meðal Ísraelsmanna. Helmingur fólksins studdi Tibní Gínatsson og vildi gera hann að konungi en hinn helmingurinn studdi Omrí. 22 Stuðningsmenn Omrí höfðu betur en stuðningsmenn Tibní Gínatssonar. Tibní lét lífið og Omrí varð konungur.

23 Á 31. stjórnarári Asa Júdakonungs varð Omrí konungur yfir Ísrael. Hann ríkti í 12 ár, þar af sex ár í Tirsa. 24 Hann keypti Samaríufjall af Semer fyrir tvær talentur* af silfri og reisti borg á fjallinu. Hann nefndi borgina Samaríu*+ eftir Semer, fyrri eiganda* fjallsins. 25 Omrí gerði það sem var illt í augum Jehóva og var verri en allir forverar hans.+ 26 Hann fetaði í fótspor Jeróbóams Nebatssonar og drýgði sömu syndir og hann hafði fengið Ísraelsmenn til að drýgja. Þeir misbuðu Jehóva Guði Ísraels með einskis nýtum skurðgoðum sínum.+ 27 Það sem er ósagt af sögu Omrí, verkum hans og þrekvirkjum, er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga. 28 Omrí var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og jarðaður í Samaríu. Akab+ sonur hans varð konungur eftir hann.

29 Akab Omríson varð konungur yfir Ísrael á 38. stjórnarári Asa Júdakonungs. Hann ríkti yfir Ísrael í Samaríu+ í 22 ár. 30 Í augum Jehóva var Akab Omríson verri en allir forverar hans.+ 31 Hann lét sér ekki nægja að drýgja sömu syndir og Jeróbóam+ Nebatsson heldur tók hann sér Jesebel,+ dóttur Etbaals konungs Sídoninga,+ að konu og fór að tilbiðja Baal+ og falla fram fyrir honum. 32 Hann reisti altari handa Baal í Baalsmusterinu*+ sem hann hafði byggt í Samaríu. 33 Hann gerði einnig helgistólpa.*+ Akab gerði margt sem misbauð Jehóva Guði Ísraels, meira en allir Ísraelskonungar á undan honum.

34 Á hans dögum endurreisti Híel frá Betel Jeríkó. Hann missti Abíram, frumburðinn, þegar hann lagði grunninn að borginni og Segúb, yngsta soninn, þegar hann reisti hlið hennar. Það var í samræmi við það sem Jehóva hafði boðað fyrir milligöngu Jósúa Núnssonar.+

17 Elía*+ frá Tisbe í Gíleað+ sagði við Akab: „Svo sannarlega sem Jehóva Guð Ísraels lifir, sá sem ég þjóna,* skal hvorki falla dögg né regn næstu árin nema ég skipi svo fyrir.“+

2 Jehóva sagði við Elía: 3 „Farðu héðan, haltu í austur og feldu þig í Krítardal* sem er austan við Jórdan. 4 Þú skalt drekka úr læknum og ég mun skipa hröfnunum að færa þér mat.“+ 5 Hann lagði strax af stað og gerði það sem Jehóva hafði sagt honum. Hann fór og settist að í Krítardal, austan við Jórdan. 6 Hrafnarnir færðu honum brauð og kjöt á morgnana og brauð og kjöt á kvöldin, og hann drakk úr læknum.+ 7 En að nokkrum tíma liðnum þornaði lækurinn upp+ því að það hafði ekki rignt í landinu.

8 Þá sagði Jehóva við Elía: 9 „Haltu af stað og farðu til Sarefta sem tilheyrir Sídon og vertu þar um kyrrt. Ég mun segja ekkju nokkurri sem býr þar að gefa þér að borða.“+ 10 Hann lagði þá af stað og fór til Sarefta. Þegar hann kom að borgarhliðinu var þar ekkja nokkur að tína saman eldivið. Hann kallaði til hennar og sagði: „Færðu mér vatnssopa að drekka.“+ 11 Þegar hún fór að sækja vatnið kallaði hann á eftir henni: „Færðu mér líka brauðbita.“ 12 En hún svaraði: „Svo sannarlega sem Jehóva Guð þinn lifir á ég ekkert brauð. Ég á aðeins hnefafylli af mjöli í stórri krukku og örlitla olíu í lítilli krús.+ Þegar ég hef tínt saman nokkur sprek fer ég heim að matbúa handa mér og syni mínum svo að við getum borðað og síðan dáið.“

13 Þá sagði Elía við hana: „Vertu ekki hrædd. Farðu heim og gerðu eins og þú sagðir. En bakaðu fyrst handa mér lítið brauð úr því sem þú átt og færðu mér það hingað. Síðan geturðu matbúið eitthvað handa þér og syni þínum 14 því að Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Mjölkrukkan mun ekki tæmast og olían í krúsinni ekki klárast fyrr en Jehóva lætur rigna á jörðina.‘“+ 15 Hún fór og gerði eins og Elía sagði. Þau fjölskyldan og Elía höfðu nóg að borða í langan tíma.+ 16 Stóra mjölkrukkan tæmdist ekki og olían í litlu krúsinni kláraðist ekki, rétt eins og Jehóva hafði sagt fyrir milligöngu Elía.

17 Nokkru síðar veiktist sonur konunnar sem átti húsið. Hann varð fárveikur og dó að lokum.*+ 18 Þá sagði hún við Elía: „Hvað hef ég gert þér, þú maður hins sanna Guðs? Komstu til að minna mig á synd mína og drepa son minn?“+ 19 En hann svaraði: „Láttu mig fá son þinn.“ Síðan tók hann drenginn úr fangi hennar, bar hann upp í þakherbergið þar sem hann gisti og lagði hann á rúmið sitt.+ 20 Hann hrópaði til Jehóva: „Jehóva Guð minn,+ ætlarðu nú líka að leiða ógæfu yfir ekkjuna sem ég gisti hjá og svipta son hennar lífi?“ 21 Síðan teygði hann sig þrisvar yfir drenginn og hrópaði til Jehóva: „Jehóva Guð minn, gefðu drengnum lífið aftur.“ 22 Jehóva bænheyrði Elía+ og drengurinn lifnaði við.+ 23 Elía tók þá drenginn og bar hann úr þakherberginu niður í húsið, gaf hann móður hans og sagði: „Sjáðu, sonur þinn er lifandi!“+ 24 Þá sagði konan við Elía: „Nú veit ég fyrir víst að þú ert guðsmaður+ og að orð Jehóva sem þú flytur er sannleikur.“

18 Nokkru síðar, á þriðja árinu,+ sagði Jehóva við Elía: „Farðu til Akabs. Ég ætla að láta rigna á jörðina.“+ 2 Elía lagði þá af stað til Akabs, en hungursneyðin var mikil+ í Samaríu.

3 Um sama leyti boðaði Akab Óbadía hallarráðsmann á sinn fund. (Óbadía bar djúpa lotningu fyrir Jehóva.* 4 Þegar Jesebel+ ætlaði að útrýma spámönnum Jehóva faldi Óbadía 100 spámenn í tveim hellum, 50 í hvorum, og sá þeim fyrir brauði og vatni.) 5 Akab sagði við Óbadía: „Farðu um landið og kannaðu allar vatnslindir og alla dali. Ef til vill finnum við nóg gras til að halda hestunum og múldýrunum á lífi og koma í veg fyrir að öll dýrin drepist.“ 6 Síðan skiptu þeir með sér landinu til yfirferðar. Akab fór einn síns liðs í aðra áttina en Óbadía einn í hina.

7 Þegar Óbadía var á leiðinni mætti Elía honum og Óbadía þekkti hann um leið. Hann féll á grúfu og sagði: „Ert þetta þú, Elía herra minn?“+ 8 „Já, það er ég,“ svaraði hann. „Farðu og segðu herra þínum að ég sé kominn.“ 9 En Óbadía svaraði: „Hvað hef ég gert rangt? Ef þú gefur mig í hendur Akabs drepur hann mig! 10 Svo sannarlega sem Jehóva Guð þinn lifir hefur herra minn látið leita að þér meðal allra þjóða og ríkja. Ef sagt var: ‚Hann er ekki hér,‘ lét hann ríkið eða þjóðina sverja að enginn hefði fundið þig.+ 11 Og nú segir þú mér að fara og láta herra minn vita að þú sért kominn! 12 Þegar ég fer frá þér mun andi Jehóva bera þig burt,+ og ég veit ekki hvert. Þegar ég læt síðan Akab vita og hann finnur þig ekki drepur hann mig. Ég, þjónn þinn, hef óttast Jehóva frá unga aldri. 13 Hefur enginn sagt þér, herra minn, hvað ég gerði þegar Jesebel drap spámenn Jehóva? Ég faldi 100 spámenn Jehóva í tveim hellum, 50 í hvorum, og sá þeim fyrir brauði og vatni.+ 14 En nú segirðu mér að fara og láta herra minn vita að þú sért kominn. Hann á eftir að drepa mig!“ 15 En Elía sagði: „Svo sannarlega sem Jehóva hersveitanna lifir, sá sem ég þjóna,* mun ég fara til Akabs í dag.“

16 Óbadía fór til Akabs og lét hann vita. Akab hélt þá af stað til að hitta Elía.

17 Þegar Akab sá Elía sagði hann: „Þarna ertu, þú sem hefur leitt allar þessar hörmungar yfir Ísrael!“

18 En hann svaraði: „Það er ekki ég sem hef leitt hörmungar yfir Ísrael heldur þú og ætt föður þíns. Þið hafið snúið baki við fyrirmælum Jehóva og fylgið Baölunum.+ 19 Kallaðu nú allan Ísrael til mín á Karmelfjall+ ásamt þeim 450 spámönnum Baals og þeim 400 spámönnum helgistólpans*+ sem matast við borð Jesebelar.“ 20 Akab sendi þá boð til allra Ísraelsmanna og stefndi spámönnunum til Karmelfjalls.

21 Elía gekk fram fyrir allt fólkið og sagði: „Hversu lengi ætlið þið að haltra til beggja hliða?*+ Ef Jehóva er hinn sanni Guð, fylgið honum.+ En ef Baal er það, fylgið þá honum.“ En fólkið svaraði honum ekki einu orði. 22 Þá sagði Elía við fólkið: „Ég er eini spámaður Jehóva sem er eftir+ en spámenn Baals eru 450. 23 Sækið handa okkur tvö ungnaut. Þeir skulu velja sér annað nautið, hluta það sundur og leggja það á viðinn. En þeir mega ekki leggja eld að því. Ég mun sjá um hitt nautið og leggja það á viðinn en ekki leggja eld að því. 24 Síðan skuluð þið ákalla nafn guðs ykkar+ og ég mun ákalla nafn Jehóva. Sá Guð sem svarar með eldi er hinn sanni Guð.“+ Allt fólkið svaraði: „Þetta er góð hugmynd.“

25 Þá sagði Elía við spámenn Baals: „Þar sem þið eruð svo margir fáið þið að byrja. Veljið ykkur annað ungnautið og hafið það til reiðu. Ákallið síðan nafn guðs ykkar en kveikið ekki eld.“ 26 Þeir tóku þá við ungnautinu sem varð fyrir valinu og undirbjuggu það. Síðan ákölluðu þeir nafn Baals frá morgni til hádegis. „Baal, svaraðu okkur!“ hrópuðu þeir. En engin rödd heyrðist og enginn svaraði.+ Þeir dönsuðu haltrandi í kringum altarið sem þeir höfðu gert. 27 Um hádegi fór Elía að hæðast að þeim og sagði: „Hrópið hærra! Hann er nú einu sinni guð!+ Hann er kannski djúpt hugsi eða hefur þurft að ganga erinda sinna.* Eða kannski sefur hann og einhver þarf að vekja hann.“ 28 Þá hrópuðu þeir eins hátt og þeir gátu og skáru sig með rýtingum og spjótum, eins og siður þeirra var, þar til þeir voru útataðir í blóði. 29 Hádegið leið og þeir létu eins og óðir væru* allt fram á kvöld þegar færa átti kornfórnina. En engin rödd heyrðist og enginn svaraði. Þeir fengu engin viðbrögð.+

30 Loks sagði Elía við allt fólkið: „Komið til mín.“ Og fólkið gerði það. Síðan endurreisti hann altari Jehóva sem hafði verið rifið niður.+ 31 Elía tók 12 steina, jafn marga og ættkvíslir sona Jakobs sem Jehóva hafði sagt við: „Þú skalt heita Ísrael.“+ 32 Úr steinunum reisti hann altari+ nafni Jehóva til heiðurs. Síðan gerði hann skurð í kringum altarið. Reiturinn var nógu stór til að taka tvær seur* sáðkorns. 33 Hann raðaði viðnum á altarið, hlutaði ungnautið sundur og lagði það á viðinn.+ Síðan sagði hann: „Fyllið fjórar stórar krukkur af vatni og hellið því yfir brennifórnina og viðinn.“ 34 Því næst sagði hann: „Gerið þetta aftur“. Og þeir gerðu það. Síðan sagði hann: „Gerið það í þriðja sinn.“ Og þeir gerðu það í þriðja sinn. 35 Vatnið flæddi allt í kringum altarið og hann fyllti einnig skurðinn af vatni.

36 Þegar kominn var tími til að færa kornfórnina um kvöldið+ gekk Elía spámaður fram og sagði: „Jehóva, Guð Abrahams,+ Ísaks+ og Ísraels, gerðu öllum ljóst í dag að þú ert Guð í Ísrael og að ég er þjónn þinn og geri allt þetta samkvæmt fyrirmælum þínum.+ 37 Svaraðu mér, Jehóva! Svaraðu mér svo að þessu fólki verði ljóst að þú, Jehóva, ert hinn sanni Guð og að þú vilt snúa hjörtum þess aftur til þín.“+

38 Þá féll eldur Jehóva niður og gleypti brennifórnina,+ viðinn, steinana og moldina og sleikti upp vatnið í skurðinum.+ 39 Þegar fólkið sá þetta féll það á grúfu og sagði: „Jehóva er hinn sanni Guð! Jehóva er hinn sanni Guð!“ 40 Þá sagði Elía við fólkið: „Grípið spámenn Baals! Látið engan þeirra sleppa!“ Fólkið greip spámennina þegar í stað og Elía fór með þá niður að Kísoná+ þar sem hann drap þá.+

41 Síðan sagði Elía við Akab: „Farðu upp eftir, borðaðu og drekktu, því að ég heyri dyn af hellirigningu.“+ 42 Akab fór þá upp eftir til að borða og drekka en Elía fór upp á tind Karmelfjalls og grúfði sig niður á jörðinni með andlitið milli hnjánna.+ 43 Síðan sagði hann við þjón sinn: „Farðu upp og horfðu í áttina að hafinu.“ Hann fór upp og litaðist um en sagði: „Það er ekkert að sjá.“ Elía sagði honum sjö sinnum að fara þangað aftur. 44 Í sjöunda skiptið sagði þjónninn: „Ég sé lítið ský á stærð við mannshönd stíga upp úr hafinu.“ Þá sagði Elía: „Farðu og segðu við Akab: ‚Spenntu fyrir vagninn og aktu niður eftir svo að regnið hindri ekki för þína.‘“ 45 Fyrr en varði hrönnuðust skýin upp og himinninn myrkvaðist, það tók að hvessa og hellirigna.+ Akab lagði af stað og ók til Jesreel.+ 46 En Jehóva styrkti Elía með hendi sinni. Hann batt upp kyrtilinn um mittið og hljóp á undan Akab alla leið til Jesreel.

19 Akab+ sagði Jesebel+ frá öllu sem Elía hafði gert og að hann hefði drepið alla spámennina með sverði.+ 2 Þá sendi Jesebel mann til Elía með þessi skilaboð: „Guðirnir refsi mér harðlega ef ég hef ekki um þetta leyti á morgun farið með þig eins og þú fórst með spámennina.“ 3 Elía varð hræddur og flúði til að bjarga lífi sínu.+ Hann kom til Beerseba+ sem tilheyrir Júda+ og skildi þjón sinn eftir þar. 4 Hann fór síðan sjálfur eina dagleið út í óbyggðirnar, settist þar undir runna og óskaði þess að hann mætti deyja. Hann sagði: „Ég get ekki meir! Taktu nú líf mitt,+ Jehóva, því að ég er engu betri en forfeður mínir.“

5 Síðan lagðist hann og sofnaði undir runnanum. En skyndilega kom engill og snerti hann.+ „Stattu upp og borðaðu,“ sagði hann.+ 6 Elía litaðist um og sá þá brauð á glóðarsteinum og vatnskrús við höfðalagið. Hann át og drakk og lagðist síðan aftur niður. 7 Nú kom engill Jehóva í annað skipti, snerti hann og sagði: „Stattu upp og borðaðu því að þú átt langa ferð fyrir höndum.“ 8 Hann stóð þá upp og át og drakk. Máltíðin gaf honum svo mikinn kraft að hann gat gengið í 40 daga og 40 nætur þar til hann kom að Hóreb, fjalli hins sanna Guðs.+

9 Hann fór inn í helli+ og var þar um nóttina. Allt í einu spurði Jehóva hann: „Hvað ertu að gera hér, Elía?“ 10 Hann svaraði: „Ég hef þjónað Jehóva, Guði hersveitanna, af brennandi ákafa+ því að Ísraelsmenn hafa snúið baki við sáttmála þínum,+ rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði.+ Ég er einn eftir og nú sitja þeir um líf mitt.“+ 11 En Guð svaraði: „Farðu út og taktu þér stöðu á fjallinu frammi fyrir Jehóva.“ Síðan gekk Jehóva fram hjá+ og mikill og öflugur stormur klauf fjöll og molaði kletta frammi fyrir Jehóva.+ En Jehóva var ekki í storminum. Þegar storminn lægði varð jarðskjálfti+ en Jehóva var ekki í jarðskjálftanum. 12 Eftir jarðskjálftann kom eldur+ en Jehóva var ekki í eldinum. Eftir eldinn heyrðist blíð, lágvær rödd.+ 13 Þegar Elía heyrði röddina huldi hann andlitið með yfirhöfn sinni.*+ Hann fór út og tók sér stöðu við hellismunnann. Síðan heyrði hann rödd sem spurði: „Hvað ertu að gera hér, Elía?“ 14 Hann svaraði: „Ég hef þjónað Jehóva, Guði hersveitanna, af brennandi ákafa því að Ísraelsmenn hafa snúið baki við sáttmála þínum,+ rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði. Ég er einn eftir og nú sitja þeir um líf mitt.“+

15 Jehóva sagði við hann: „Snúðu við og farðu til óbyggða Damaskus. Þegar þú kemur þangað skaltu smyrja Hasael+ til konungs yfir Sýrlandi. 16 Þú átt líka að smyrja Jehú+ sonarson Nimsí til konungs yfir Ísrael og Elísa* Safatsson frá Abel Mehóla skaltu smyrja til spámanns í þinn stað.+ 17 Hvern þann sem kemst undan sverði Hasaels+ mun Jehú drepa+ og hvern þann sem kemst undan sverði Jehú mun Elísa drepa.+ 18 Ég á enn þá 7.000 í Ísrael+ sem hafa hvorki kropið fyrir Baal+ né kysst hann.“+

19 Þá fór Elía þaðan og kom að Elísa Safatssyni þar sem hann var að plægja. Tólf tvíeyki nauta fóru á undan honum en sjálfur var hann með því tólfta. Elía gekk til hans og kastaði yfirhöfn sinni*+ yfir hann. 20 Þá yfirgaf hann nautin, hljóp á eftir Elía og sagði: „Leyfðu mér að kveðja föður minn og móður með kossi. Síðan skal ég fylgja þér.“ Hann svaraði: „Farðu heim. Ég ætla ekki að stöðva þig.“ 21 Hann sneri þá við og tók tvíeyki nauta og slátraði* þeim. Hann notaði plóginn og aktygin sem eldivið til að sjóða kjötið og gaf fólkinu að borða. Síðan bjóst hann til ferðar, fylgdi Elía og varð þjónn hans.+

20 Benhadad+ Sýrlandskonungur+ safnaði nú saman öllum her sínum. Hann hélt af stað ásamt 32 öðrum konungum, hestum þeirra og stríðsvögnum, settist um+ Samaríu+ og herjaði á hana. 2 Síðan sendi hann menn inn í borgina til Akabs+ Ísraelskonungs með þessi skilaboð: „Benhadad segir: 3 ‚Silfur þitt og gull er mitt og einnig fallegustu konur þínar og synir.‘“ 4 Ísraelskonungur svaraði: „Eins og þú vilt, herra minn og konungur. Ég og allt sem ég á er þitt.“+

5 En sendiboðarnir komu aftur og sögðu: „Benhadad segir: ‚Ég hef sent þér þessi skilaboð: „Þú skalt gefa mér silfur þitt og gull, konur þínar og syni.“ 6 En um þetta leyti á morgun sendi ég þjóna mína til þín. Þeir munu leita hátt og lágt í húsi þínu og húsum hirðmanna þinna og hafa á burt með sér allt sem er þér dýrmætt.‘“

7 Þá kallaði Ísraelskonungur saman alla öldunga landsins og sagði: „Þið sjáið að þessi maður vill steypa okkur í ógæfu. Hann hefur heimtað að ég gefi honum konur mínar og syni, silfur mitt og gull og ég neitaði honum ekki um það.“ 8 Allir öldungarnir og allt fólkið sagði við hann: „Gerðu ekki eins og hann segir, láttu ekki undan.“ 9 Þá sagði Akab við sendiboða Benhadads: „Segið við herra minn og konung: ‚Allt sem þú krafðist af þjóni þínum í fyrra skiptið mun ég gera en þetta get ég ekki gert.‘“ Síðan fóru sendiboðarnir og færðu honum svarið.

10 Þá sendi Benhadad honum þessi skilaboð: „Guðirnir refsi mér harðlega ef ryk Samaríu nægir til að fylla lúkur allra þeirra sem fylgja mér.“ 11 En Ísraelskonungur svaraði: „Segið honum: ‚Sá sem herklæðist ætti ekki að hreykja sér eins og sá sem leggur herklæðin frá sér.‘“+ 12 Benhadad heyrði þetta svar þegar hann sat að drykkju með konungunum í tjöldunum.* Hann skipaði mönnum sínum þegar í stað að búast til árásar, og þeir bjuggust til að ráðast á borgina.

13 Þá kom spámaður nokkur til Akabs+ Ísraelskonungs og sagði: „Jehóva segir: ‚Hefurðu séð þennan mikla herafla? Ég ætla að gefa hann í þínar hendur í dag. Þá muntu komast að raun um að ég er Jehóva.‘“+ 14 Akab spurði: „Með hjálp hvers?“ Spámaðurinn svaraði: „Jehóva segir: ‚Með hjálp aðstoðarmanna héraðshöfðingjanna.‘“ „Hver á að hefja bardagann?“ spurði Akab þá. „Þú,“ svaraði spámaðurinn.

15 Þá taldi Akab aðstoðarmenn héraðshöfðingjanna og þeir reyndust vera 232. Síðan taldi hann alla Ísraelsmenn. Þeir voru 7.000. 16 Þeir fóru út úr borginni um hádegi en Benhadad og konungarnir 32 sem höfðu slegist í lið með honum sátu þá og drukku sig drukkna í tjöldunum.* 17 Aðstoðarmenn héraðshöfðingjanna komu fyrstir út úr borginni. Benhadad sendi þá út njósnara sem sögðu honum að menn væru lagðir af stað frá Samaríu. 18 Hann sagði: „Hvort sem þeir eru komnir til að semja frið eða til að berjast skuluð þið taka þá lifandi til fanga.“ 19 En þegar aðstoðarmenn héraðshöfðingjanna og herinn sem fylgdi þeim komu út úr borginni 20 hjuggu þeir andstæðinga sína til bana. Þá flúðu Sýrlendingar+ og Ísraelsmenn eltu þá. Benhadad Sýrlandskonungur komst hins vegar undan á hesti ásamt nokkrum riddurum. 21 Nú hélt Ísraelskonungur af stað, réðst á hestana og vagnana og gersigraði Sýrlendinga.

22 Nokkru síðar kom spámaðurinn+ aftur til Ísraelskonungs og sagði við hann: „Styrktu varnir þínar og hugleiddu vandlega hvað þú ætlar að gera+ því að í byrjun næsta árs* mun Sýrlandskonungur halda gegn þér.“+

23 Ráðgjafar Sýrlandskonungs sögðu nú við hann: „Guð þeirra er fjallaguð. Þess vegna sigruðu þeir okkur. En ef við berjumst við þá á jafnsléttu munum við sigra þá. 24 Þetta skaltu líka gera: Settu landstjóra yfir herinn í stað konunganna.+ 25 Safnaðu saman jafn fjölmennum her og þú misstir, með jafn mörgum hestum og stríðsvögnum. Síðan skulum við berjast við þá á jafnsléttu. Þá vinnum við öruggan sigur.“ Benhadad hlustaði á ráð þeirra og gerði eins og þeir lögðu til.

26 Í byrjun næsta árs* safnaði Benhadad saman Sýrlendingum og hélt upp til Afek+ til að berjast við Ísrael. 27 Ísraelsmönnum var einnig safnað saman. Þeir fengu vistir og héldu út á móti þeim. Ísraelsmenn slógu upp búðum andspænis þeim og voru eins og tvær litlar geitahjarðir en Sýrlendingar þöktu landið.+ 28 Maður hins sanna Guðs kom þá til Ísraelskonungs og sagði: „Jehóva segir: ‚Þar sem Sýrlendingar sögðu: „Jehóva er fjallaguð en ekki sléttuguð,“ ætla ég að gefa allan þennan fjölda í þínar hendur.+ Þá munuð þið komast að raun um að ég er Jehóva.‘“+

29 Þeir voru í herbúðunum hvorir andspænis öðrum í sjö daga en á sjöunda degi kom til bardaga. Ísraelsmenn felldu 100.000 sýrlenska fótgönguliða á einum degi. 30 Þeir sem komust undan flúðu til Afek,+ inn í borgina. En borgarmúrinn hrundi yfir 27.000 þeirra sem komust undan. Benhadad hafði líka flúið inn í borgina og falið sig í skúmaskoti í húsi nokkru.

31 Ráðgjafar hans sögðu við hann: „Við höfum heyrt að konungar Ísraels séu miskunnsamir konungar.* Við skulum vefja hærusekk um mjaðmirnar og binda reipi um höfuðið og fara á fund Ísraelskonungs. Ef til vill þyrmir hann lífi þínu.“+ 32 Síðan vöfðu þeir hærusekk um mjaðmirnar og bundu reipi um höfuðið og fóru á fund Ísraelskonungs. Þeir sögðu: „Benhadad þjónn þinn biður þig að þyrma lífi sínu.“ Akab svaraði: „Er hann enn á lífi? Hann er bróðir minn.“ 33 Mennirnir töldu þetta vita á gott og voru fljótir að taka undir það sem hann sagði. „Benhadad er bróðir þinn,“ sögðu þeir. Þá sagði Akab: „Farið og sækið hann.“ Benhadad kom til Akabs og hann lét hann stíga upp í vagninn.

34 Benhadad sagði við hann: „Ég ætla að skila borgunum sem faðir minn tók af föður þínum og þú mátt koma á fót mörkuðum* í Damaskus eins og faðir minn gerði í Samaríu.“

Akab svaraði: „Með þessum skilyrðum læt ég þig lausan.“

Síðan gerði hann sáttmála við hann og leyfði honum að fara.

35 Einn af sonum spámannanna*+ sagði við félaga sinn að boði Jehóva: „Sláðu mig.“ En hann vildi ekki slá hann. 36 Þá sagði hann: „Þar sem þú hlustaðir ekki á Jehóva mun ljón drepa þig um leið og þú gengur burt frá mér.“ Þegar hann var farinn frá honum kom ljón á móti honum og drap hann.

37 Hann gekk upp að öðrum manni og sagði: „Sláðu mig.“ Maðurinn sló hann svo að það sá á honum.

38 Síðan fór spámaðurinn og beið við veginn eftir konungi. Hann batt fyrir augun til að þekkjast ekki. 39 Þegar konungurinn fór fram hjá hrópaði spámaðurinn til hans: „Ég, þjónn þinn, var í miðjum bardaga þegar einhver maður kom til mín með fanga og sagði: ‚Gættu þessa manns. Ef hann sleppur þarftu að gjalda fyrir líf hans með lífi þínu+ eða greiða talentu* af silfri.‘ 40 En þegar ég þurfti að sinna öðru slapp fanginn.“ Ísraelskonungur sagði við hann: „Þú hefur sjálfur kveðið upp dóminn yfir þér.“ 41 Þá reif hann sárabindið frá augunum og Ísraelskonungur sá að þetta var einn af spámönnunum.+ 42 Spámaðurinn sagði við hann: „Jehóva segir: ‚Þar sem þú lést manninn sleppa sem ég hafði ákveðið að ætti að deyja+ skalt þú deyja í hans stað+ og þjóð þín í stað þjóðar hans.‘“+ 43 Síðan fór Ísraelskonungur heim til Samaríu,+ önugur og þungur í skapi.

21 Nokkru síðar gerðist þetta: Nabót frá Jesreel átti víngarð í Jesreel,+ rétt hjá höll Akabs Samaríukonungs. 2 Dag einn sagði Akab við Nabót: „Láttu mig fá víngarðinn svo að ég geti notað hann sem matjurtagarð því að hann er nálægt húsinu mínu. Ég skal láta þig fá betri víngarð í staðinn eða greiða þér andvirði hans í peningum ef þú vilt það frekar.“ 3 En Nabót svaraði Akab: „Það kemur ekki til greina að ég gefi þér erfðaland forfeðra minna. Jehóva hefur bannað það.“+ 4 Akab fór þá aftur heim, óánægður og fúll yfir því að Nabót frá Jesreel hafði svarað honum: „Ég vil ekki láta þig fá erfðaland forfeðra minna.“ Síðan lagðist hann á rúmið, sneri sér upp að vegg og vildi ekkert borða.

5 Jesebel+ kona hans kom inn til hans og spurði: „Af hverju ertu svona leiður og vilt ekkert borða?“ 6 Hann svaraði henni: „Ég sagði við Nabót frá Jesreel: ‚Láttu mig fá víngarð þinn fyrir peninga. Ég get líka látið þig fá annan víngarð í staðinn ef þú vilt það frekar.‘ En hann sagði: ‚Ég vil ekki láta þig fá víngarðinn minn.‘“ 7 Jesebel kona hans sagði við hann: „Ert þú ekki konungur yfir Ísrael? Stattu upp, fáðu þér að borða og vertu glaður. Ég skal útvega þér víngarð Nabóts frá Jesreel.“+ 8 Síðan skrifaði hún bréf í nafni Akabs, innsiglaði þau með innsigli hans+ og sendi þau til öldunga+ og tignarmanna sem bjuggu í sömu borg og Nabót. 9 Í bréfunum skrifaði hún: „Boðið föstu og látið Nabót sitja frammi fyrir fólkinu. 10 Látið tvo skúrka sitja á móti honum. Þeir skulu vitna gegn honum+ og segja: ‚Þú hefur formælt Guði og konunginum!‘+ Farið síðan með hann út og grýtið hann til bana.“+

11 Öldungarnir og tignarmennirnir sem bjuggu í borg Nabóts gerðu eins og Jesebel hafði fyrirskipað í bréfunum sem hún sendi þeim. 12 Þeir boðuðu föstu og létu Nabót sitja frammi fyrir fólkinu. 13 Því næst komu tveir skúrkar og fengu sér sæti á móti honum. Þeir vitnuðu gegn honum frammi fyrir fólkinu og sögðu: „Nabót hefur formælt Guði og konunginum!“+ Síðan var hann leiddur út fyrir borgina og grýttur til bana.+ 14 Að því loknu voru þessi skilaboð send til Jesebelar: „Nabót hefur verið grýttur til bana.“+

15 Um leið og Jesebel frétti að Nabót hefði verið grýttur til bana sagði hún við Akab: „Nabót frá Jesreel+ er ekki lengur á lífi. Hann er dauður. Farðu nú og sláðu eign þinni á víngarðinn sem hann vildi ekki selja þér.“ 16 Þegar Akab heyrði að Nabót væri dáinn fór hann rakleiðis niður í víngarðinn til að slá eign sinni á hann.

17 En Jehóva sagði við Elía+ frá Tisbe: 18 „Leggðu af stað og farðu niður eftir til Akabs Ísraelskonungs sem ríkir í Samaríu.+ Hann er í víngarði Nabóts og er kominn þangað til að slá eign sinni á hann. 19 Segðu við hann: ‚Jehóva segir: „Hefurðu myrt manninn+ og tekið landið hans í þokkabót?“‘+ Segðu síðan: ‚Jehóva segir: „Á sama stað og hundarnir sleiktu upp blóð Nabóts munu hundar sleikja upp blóð þitt.“‘“+

20 Akab sagði við Elía: „Þú fannst mig, óvinur minn!“+ „Já, ég fann þig,“ svaraði Elía. „Guð segir: ‚Af því að þú ert ákveðinn í* að gera það sem er illt í augum Jehóva+ 21 ætla ég að leiða ógæfu yfir þig. Ég mun sópa burt afkomendum þínum og tortíma öllum karlmönnum* af ætt Akabs,+ jafnvel hinum vesælu og veikburða í Ísrael.+ 22 Ég fer með ætt þína eins og ætt Jeróbóams+ Nebatssonar og ætt Basa+ Ahíasonar því að þú hefur reitt mig til reiði og fengið Ísrael til að syndga.‘ 23 Og um Jesebel hefur Jehóva sagt: ‚Hundar munu éta Jesebel á landareign Jesreel.+ 24 Hundar munu éta hvern þann af ætt Akabs sem deyr í borginni og fuglar himins hvern þann sem deyr úti á víðavangi.+ 25 Aldrei hefur nokkur maður verið eins og Akab.+ Hann var ákveðinn í* að gera það sem var illt í augum Jehóva af því að Jesebel kona hans hvatti hann til þess.+ 26 Hann lagðist jafnvel svo lágt að elta hin viðbjóðslegu skurðgoð* eins og Amorítar höfðu gert sem Jehóva hrakti burt undan Ísraelsmönnum.‘“+

27 Þegar Akab heyrði þetta reif hann föt sín og klæddist hærusekk yfir bert holdið. Hann fastaði, lagðist fyrir í hærusekknum og gekk um gólf í örvæntingu sinni. 28 Þá sagði Jehóva við Elía frá Tisbe: 29 „Hefurðu séð hvernig Akab auðmýkir sig frammi fyrir mér?+ Þar sem hann hefur auðmýkt sig frammi fyrir mér ætla ég ekki að leiða ógæfuna yfir ætt hans meðan hann er á lífi. Ég mun leiða ógæfuna yfir ætt hans á dögum sonar hans.“+

22 Í þrjú ár var ekkert stríð milli Sýrlands og Ísraels. 2 Á þriðja árinu fór Jósafat+ Júdakonungur niður eftir til Ísraelskonungs.+ 3 Þá sagði Ísraelskonungur við þjóna sína: „Vitið þið ekki að við eigum Ramót í Gíleað?+ Samt veigrum við okkur við að ná henni aftur af Sýrlandskonungi.“ 4 Síðan spurði hann Jósafat: „Viltu koma með mér í herferð til Ramót í Gíleað?“ Jósafat svaraði Ísraelskonungi: „Ég stend með þér. Mitt fólk er þitt fólk og mínir hestar eru þínir hestar.“+

5 Jósafat sagði síðan við Ísraelskonung: „En ráðfærðu þig fyrst+ við Jehóva.“+ 6 Ísraelskonungur safnaði þá saman spámönnunum, um 400 mönnum, og spurði þá: „Á ég að halda í stríð gegn Ramót í Gíleað eða á ég að hætta við það?“ Þeir svöruðu: „Farðu. Jehóva mun gefa borgina í hendur konungs.“

7 Þá sagði Jósafat: „Er ekki einhver spámaður Jehóva hér? Spyrjum hann líka hvað Guð segir.“+ 8 Ísraelskonungur svaraði Jósafat: „Jú, það er enn þá einn eftir sem getur spurt Jehóva fyrir okkur.+ En mér er meinilla við hann+ því að hann spáir mér aldrei neinu góðu, bara illu.+ Hann heitir Míkaja Jimlason.“ Þá sagði Jósafat: „Svona ætti konungur ekki að tala.“

9 Ísraelskonungur kallaði þá á hirðmann og sagði: „Sæktu Míkaja Jimlason tafarlaust.“+ 10 Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur sátu nú hvor í sínu hásæti klæddir konunglegum skrúða á þreskivellinum við borgarhlið Samaríu, og allir spámennirnir spáðu frammi fyrir þeim.+ 11 Sedekía Kenaanason gerði sér horn úr járni og sagði: „Jehóva segir: ‚Með þessum hornum muntu stanga Sýrlendinga þangað til þú hefur útrýmt þeim.‘“ 12 Allir hinir spámennirnir spáðu því sama og sögðu: „Farðu upp til Ramót í Gíleað og þú munt sigra. Jehóva mun gefa borgina í hendur konungs.“

13 Sendiboðinn sem hafði farið til að sækja Míkaja sagði við hann: „Allir spámennirnir spá konungi góðu gengi. Gerðu það líka og spáðu konungi í vil.“+ 14 En Míkaja svaraði: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir segi ég aðeins það sem Jehóva talar til mín.“ 15 Þegar hann kom á fund konungs spurði konungur hann: „Míkaja, eigum við að halda í stríð gegn Ramót í Gíleað eða eigum við að hætta við það?“ Hann svaraði um hæl: „Farðu og þú munt sigra. Jehóva mun gefa borgina í hendur konungs.“ 16 Þá sagði konungur við hann: „Hversu oft þarf ég að láta þig sverja að segja mér eingöngu sannleikann í nafni Jehóva?“ 17 Þá sagði Míkaja: „Ég sé alla Ísraelsmenn dreifða um fjöllin+ eins og sauði án hirðis. Jehóva sagði: ‚Þeir hafa engan herra. Þeir skulu hver og einn fara heim til sín í friði.‘“

18 Ísraelskonungur sagði þá við Jósafat: „Hvað sagði ég ekki? Hann spáir mér aldrei góðu, bara illu.“+

19 Míkaja hélt áfram: „Hlustaðu nú á orð Jehóva. Ég sá Jehóva sitja í hásæti sínu+ og allan her himinsins standa honum á hægri og vinstri hönd.+ 20 Jehóva spurði: ‚Hver vill lokka Akab til að fara upp til Ramót í Gíleað og falla þar?‘ Þá sagði einn þetta og annar hitt. 21 Loks steig andi* nokkur+ fram, nam staðar frammi fyrir Jehóva og sagði: ‚Ég skal lokka hann.‘ ‚Hvernig ætlarðu að fara að?‘ spurði Jehóva. 22 Hann svaraði: ‚Ég fer og verð lygaandi í munni allra spámanna hans.‘+ Þá sagði Guð: ‚Þú skalt lokka hann og þér mun takast það. Farðu og gerðu þetta.‘ 23 Nú hefur Jehóva lagt lygaanda í munn allra spámanna þinna.+ En sannleikurinn er sá að Jehóva hefur ákveðið að leiða yfir þig ógæfu.“+

24 Nú gekk Sedekía Kenaanason fram, sló Míkaja utan undir og sagði: „Ertu að segja að andi Jehóva hafi yfirgefið mig til að tala við þig?“+ 25 Míkaja svaraði: „Þú kemst að raun um það daginn sem þú felur þig í innsta herbergi hússins.“ 26 Ísraelskonungur sagði þá: „Takið Míkaja og farið með hann til Amons borgarstjóra og Jóasar konungssonar. 27 Segið við þá: ‚Konungur skipar svo fyrir: „Varpið þessum manni í fangelsi.+ Gefið honum brauð og vatn af skornum skammti þar til ég kem aftur heill á húfi.“‘“ 28 En Míkaja sagði: „Ef þú kemur aftur heill á húfi hefur Jehóva ekki talað við mig.“+ Og hann bætti við: „Heyrið það, allir saman.“

29 Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur héldu síðan af stað til Ramót í Gíleað.+ 30 Ísraelskonungur sagði við Jósafat: „Ég ætla að dulbúa mig áður en ég held út í bardagann en þú skalt klæðast konungsskrúðanum.“ Konungur Ísraels dulbjó sig+ og hélt út í bardagann. 31 Sýrlandskonungur hafði gefið vagnliðsforingjum sínum 32+ þessi fyrirmæli: „Berjist ekki við neinn, hvorki háan né lágan, nema konung Ísraels.“ 32 Þegar vagnliðsforingjarnir sáu Jósafat hugsuðu þeir með sér: „Þetta hlýtur að vera Ísraelskonungur.“ Þeir héldu því gegn honum til að ráðast á hann. Þá hrópaði Jósafat á hjálp. 33 Þegar vagnliðsforingjarnir sáu að þetta var ekki Ísraelskonungur hættu þeir að elta hann.

34 Maður nokkur skaut handahófskennt af boga sínum og hæfði Ísraelskonung gegnum samskeyti á brynju hans. Konungur sagði þá við vagnstjóra sinn: „Snúðu við og komdu mér úr bardaganum því að ég er illa særður.“+ 35 Bardaginn geisaði allan daginn og konungur þurfti hjálp til að standa uppréttur í vagninum andspænis Sýrlendingum. Blóðið úr sárinu rann niður í vagninn og hann dó um kvöldið.+ 36 Um sólsetur barst hróp um herbúðirnar: „Allir fari heim í borg sína og land sitt!“+ 37 Þannig dó konungurinn. Hann var fluttur til Samaríu og jarðaður þar. 38 Þegar vagninn var skolaður við Samaríutjörn sleiktu hundar upp blóðið og vændiskonur böðuðu sig þar* eins og Jehóva hafði sagt.+

39 Það sem er ósagt af sögu Akabs og öllu sem hann gerði, fílabeinshúsinu*+ sem hann reisti og öllum borgunum sem hann byggði er skráð í bókinni um sögu Ísraelskonunga. 40 Akab var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum+ og Ahasía+ sonur hans varð konungur eftir hann.

41 Jósafat+ sonur Asa varð konungur yfir Júda á fjórða stjórnarári Akabs Ísraelskonungs. 42 Jósafat var 35 ára þegar hann varð konungur og hann ríkti í 25 ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Asúba Silhídóttir. 43 Hann fetaði í fótspor Asa+ föður síns í einu og öllu og vék ekki frá þeim. Hann gerði það sem var rétt í augum Jehóva.+ En fórnarhæðirnar fengu að standa. Fólkið hélt áfram að færa fórnir og láta fórnarreyk stíga upp á hæðunum.+ 44 Jósafat hélt frið við Ísraelskonung.+ 45 Það sem er ósagt af sögu Jósafats, þrekvirkjum hans og hvernig hann háði stríð, er skráð í bókinni um sögu Júdakonunga. 46 Hann upprætti úr landinu mennina sem stunduðu musterisvændi+ og höfðu orðið eftir á dögum Asa föður hans.+

47 Á þessum tíma var enginn konungur í Edóm.+ Héraðsstjóri ríkti sem konungur.+

48 Jósafat smíðaði einnig Tarsisskip* sem áttu að fara til Ófír að sækja gull.+ En þau komust ekkert því að þau brotnuðu við Esjón Geber.+ 49 Um þetta leyti sagði Ahasía Akabsson við Jósafat: „Mínir menn geta farið með þínum mönnum á skipunum.“ En Jósafat vildi það ekki.

50 Jósafat var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum+ og jarðaður hjá þeim í borg Davíðs forföður síns. Jóram+ sonur hans varð konungur eftir hann.

51 Ahasía+ Akabsson varð konungur í Samaríu yfir Ísrael á 17. stjórnarári Jósafats Júdakonungs. Hann ríkti yfir Ísrael í tvö ár. 52 Hann gerði það sem var illt í augum Jehóva og fetaði í fótspor föður síns+ og móður+ og Jeróbóams Nebatssonar sem hafði fengið Ísrael til að syndga.+ 53 Hann þjónaði Baal+ og féll fram fyrir honum og misbauð Jehóva Guði Ísraels,+ alveg eins og faðir hans hafði gert.

Eða „ávítað hann“.

Orðrétt „rifnaði“.

Eða „sómamaður“.

Orðrétt „Ég geng veg allrar veraldar“.

Eða „sýnirðu visku“.

Sjá orðaskýringar.

Á hebr. Sheol, það er, sameiginleg gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.

Á hebr. Sheol, það er, sameiginleg gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „reist mér hús“.

Eða „réðst á Adónía og drap hann“.

Orðrétt „hús“.

Orðrétt „Blóð þitt verður yfir þínu eigin höfði“.

Eða „tók“.

Orðrétt „hin mikla fórnarhæð“.

Eða „tryggan kærleika í ríkum mæli“.

Eða „þennan trygga kærleika í ríkum mæli“.

Eða hugsanl. „erfiðu“. Orðrétt „þungu“.

Eða „sálir“.

Orðrétt „daga“.

Orðrétt „lengja daga þína“.

Orðrétt „við brjóst sér“.

Orðrétt „ótta“.

Eða „voru höfðingjar“.

Eða „sagnaritari“.

Það er, Efrat.

Kór jafngilti 220 l. Sjá viðauka B14.

Það er, vestan við Efrat.

Þessa tölu er að finna í sumum handritum og hliðstæðri frásögn. Í öðrum handritum stendur 40.000.

Eða „riddara“.

Eða „fleygu dýrin“.

Hugsanlega er átt við skriðdýr og skordýr.

Eða „þótt vænt um Davíð“.

Eða „fjölmennu“.

Kór jafngilti 220 l. Sjá viðauka B14.

Eða „burðarmenn“.

Sjá viðauka B15.

Sjá viðauka B8.

Það er, hið heilaga og hið allra helgasta.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Orðrétt „musteri hússins“.

Orðrétt „musterið“.

Orðrétt „hægri hlið“.

Orðrétt „musterið“.

Orðrétt „olíuviði“, hugsanlega aleppófuru.

Orðrétt „að innan og utan“.

Vísar hugsanlega til smíði dyrakarmsins eða stærðar dyranna.

Orðrétt „musterisins“.

Vísar hugsanlega til smíði dyrakarmsins eða stærðar dyranna.

Sjá viðauka B15.

Sjá viðauka B15.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Óvíst er hvort átt er við burðarbitana, stólpana eða herbergin.

Sennilega er átt við Hásætissalinn.

Eða hugsanl. „hallarinnar“.

Eða „bronssmíði“. Í þessum kafla getur kopar einnig átt við brons.

Eða „12 álna mælisnúru þurfti til að ná utan um hvora þeirra“.

Hér er átt við hið heilaga.

Eða „sunnan“.

Sem þýðir ‚megi hann [það er, Jehóva] staðfesta‘.

Eða „norðan“.

Merkir hugsanl. ‚með krafti‘.

Eða „vatnskerið“.

Eða „30 álna mælisnúru þurfti til að ná utan um það“.

7,4 cm. Sjá viðauka B14.

Bat jafngilti 22 l. Sjá viðauka B14.

Eða „vatnsvagna“.

Eða „fjórar álnir í þvermál“.

Eða „tangirnar“.

Orðrétt „musterishússins“.

Það er, laufskálahátíðinni.

Sjá viðauka B15.

Eða „Það voru Levítaprestarnir“.

Orðrétt „sem kemur af lendum þínum“.

Eða „og hinn síðarnefndi leggur bölvun á hann“. Það er, eið sem hafði í för með sér bölvun ef hann var rangur eða hann rofinn.

Eða „meðan bölvun hvílir á honum“.

Eða „orðstírs“.

Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „Augu þín veri opin fyrir“.

Eða „Hlustaðu sama hvað hún biður þig um“.

Eða „staðnum þar sem farið er inn í Hamat“.

Eða „Egyptalandsflóðdals“. Sjá orðaskýringar, „flóðdalur“.

Orðrétt „Á áttunda degi“, það er, daginn eftir síðari sjö dagana.

Orðrétt „hafa Ísrael að máltæki“.

Eða hugsanl. „Landið einskis nýta“.

Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.

Sem þýðir ‚jarðfylling‘. Hugsanlega var þetta einhvers konar virki.

Eða „brúðkaupsgjöf; heimanmund“.

Eða „víggirti“.

Orðrétt „í landinu“, það er, innan landamæra Ísraels.

Eða „helga eyðingu“. Sjá orðaskýringar.

Sem þýðir ‚jarðfylling‘. Hugsanlega var þetta einhvers konar virki.

Eða „með gátum“.

Orðrétt „Ekkert var hulið“.

Eða „orð“.

Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.

Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.

Eða „buklara“. Buklari var lítill skjöldur, gjarnan borinn af bogaskyttum.

Mína í Hebresku ritningunum jafngilti 570 g. Sjá viðauka B14.

Eða „riddurum“.

Eða „riddara“.

Eða hugsanl. „frá Egyptalandi og Kóe“. Ef til vill er átt við Kilikíu.

Eða hugsanl. „frá Kóe“.

Eða „mægjast við þær“.

Getur einnig vísað í falsguðina.

Eða „og konurnar höfðu sterk áhrif á hann“.

Orðrétt „allt karlkyns“.

Hún var ekki ríkjandi drottning.

Eða hugsanl. „vandi hann af brjósti“.

Orðrétt „drepið þá“.

Orðrétt „lyfti einnig hendi sinni“.

Sem þýðir ‚jarðfylling‘. Hugsanlega var þetta einhvers konar virki.

Orðrétt „hús“.

Það er, afkomanda.

Orðrétt „reisi þér varanlegt hús“.

Eða „öldungana“.

Eða „öldunganna“.

Eða „öldungarnir“.

Eða „Hvaða hlutdeild eigum við í Davíð?“

Eða „engan erfðahlut í“.

Orðrétt „til tjalda sinna“.

Orðrétt „útvalda“.

Eða „vann að uppbyggingu“.

Eða „vann að uppbyggingu“.

Eða „fyrirboða“.

Eða „fituaskan“, það er, aska blönduð fitu fórnardýranna.

Eða „lamaðist“.

Eða „Mildaðu Jehóva Guð þinn“.

Orðrétt „fyllti hönd“.

Eða „Svo og svo skaltu svara henni“.

Eða „steypt líkneski“.

Orðrétt „öllum sem pissa utan í vegg“. Niðrandi hebreskt orðasamband notað um karlmenn.

Það er, Efrat.

Sjá orðaskýringar.

Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „hlauparanna“.

Einnig nefndur Abía.

Orðrétt „Abísalóms“, annar ritháttur.

Það er, afkomanda.

Orðrétt „Abísalóms“, annar ritháttur.

Hebreska orðið lýsir fyrirlitningu. Hugsanlegt er að það sé skylt orði sem merkir ‚mykja‘.

Sjá orðaskýringar.

Eða „endurreisa“.

Eða „til að koma í veg fyrir að nokkur yfirgæfi eða kæmist inn á svæði Asa Júdakonungs“.

Eða „endurreisa“.

Eða „endurreisti“.

Orðrétt „hann“.

Orðrétt „einum einasta sem pissar utan í vegg“. Niðrandi hebreskt orðasamband notað um karlmenn.

Eða „blóðhefnendum“.

Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.

Sem þýðir ‚í eigu Semersættar‘.

Orðrétt „herra“.

Orðrétt „húsi Baals“.

Sjá orðaskýringar.

Sem þýðir ‚Guð minn er Jehóva‘.

Orðrétt „stend frammi fyrir“.

Eða „flóðdalnum Krít“.

Orðrétt „enginn andardráttur var eftir í honum“.

Orðrétt „óttaðist Jehóva mjög“.

Orðrétt „stend frammi fyrir“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „á tveim hækjum“.

Eða hugsanl. „farinn í ferð“.

Eða „létu eins og spámenn“.

Sea jafngilti 7,33 l. Sjá viðauka B14.

Eða „spámannsklæðum sínum“.

Sem þýðir ‚Guð er hjálpræði‘.

Eða „spámannsklæðum sínum“.

Orðrétt „fórnaði“.

Eða „laufskálunum“.

Eða „laufskálunum“.

Það er, um vorið.

Það er, um vorið.

Eða „séu konungar sem sýna tryggan kærleika“.

Eða „götum“.

„Synir spámannanna“ virðast hafa verið hópur sem fékk spámannsmenntun eða samfélag spámanna.

Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.

Orðrétt „hefur selt þig til“.

Orðrétt „öllum sem pissa utan í vegg“. Niðrandi hebreskt orðasamband notað um karlmenn.

Orðrétt „seldi sig til“.

Hebreska orðið lýsir fyrirlitningu. Hugsanlegt er að það sé skylt orði sem merkir ‚mykja‘.

Eða „engill“.

Eða hugsanl. „við Samaríutjörn, þar sem vændiskonurnar voru vanar að baða sig, sleiktu hundar upp blóðið“.

Eða „fílabeinshöllinni“.

Sjá orðaskýringar.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila