Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Jeremía 1:1-52:34
  • Jeremía

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jeremía
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Jeremía

JEREMÍA

1 Þetta eru orð Jeremía* sonar Hilkía sem var einn af prestunum í Anatót+ í landi Benjamíns. 2 Orð Jehóva kom til hans á dögum Jósía+ Amónssonar+ Júdakonungs, á 13. stjórnarári hans. 3 Það kom einnig á dögum Jójakíms+ Jósíasonar Júdakonungs og allt til loka 11. stjórnarárs Sedekía+ Jósíasonar Júdakonungs, allt þar til Jerúsalembúar voru fluttir í útlegð í fimmta mánuðinum.+

4 Orð Jehóva kom til mín:

 5 „Ég þekkti* þig áður en ég mótaði þig í móðurkviði+

og helgaði* þig áður en þú fæddist.+

Ég gerði þig að spámanni þjóðanna.“

 6 En ég sagði: „Æ, alvaldur Drottinn Jehóva!

Ég kann ekki að tala+ því að ég er svo ungur.“+

 7 Þá sagði Jehóva við mig:

„Segðu ekki: ‚Ég er svo ungur,‘

því að þú átt að fara til allra sem ég sendi þig til

og þú átt að segja þeim allt sem ég fel þér.+

 8 Láttu útlit þeirra ekki hræða þig+

því að ‚ég er með þér til að bjarga þér‘,+ segir Jehóva.“

9 Síðan rétti Jehóva út höndina og snerti munn minn.+ Jehóva sagði við mig: „Ég legg orð mín þér í munn.+ 10 Í dag hef ég sett þig yfir þjóðirnar og konungsríkin til að uppræta og rífa niður, til að eyða og brjóta niður, til að byggja og gróðursetja.“+

11 Orð Jehóva kom aftur til mín: „Hvað sérðu, Jeremía?“ „Ég sé möndluviðargrein,“* svaraði ég.

12 Jehóva sagði við mig: „Þú hefur séð rétt því að ég er glaðvakandi til að hrinda orðum mínum í framkvæmd.“

13 Orð Jehóva kom til mín í annað sinn: „Hvað sérðu?“ „Ég sé sjóðandi pott* sem hallast úr norðri,“ svaraði ég. 14 Þá sagði Jehóva við mig:

„Úr norðri munu hörmungarnar brjótast fram

og hellast yfir alla íbúa landsins+

15 því að ‚ég stefni saman öllum ættkvíslum konungsríkjanna í norðri‘, segir Jehóva.+

‚Þær koma og hver konungur reisir hásæti sitt

fyrir utan borgarhlið Jerúsalem,+

á móti múrum hennar hringinn í kring

og á móti öllum borgum í Júda.+

16 Ég mun kveða upp dóma yfir íbúum þeirra vegna allrar illsku þeirra,

vegna þess að þeir hafa yfirgefið mig.+

Þeir láta fórnarreyk stíga upp til annarra guða+

og falla fram fyrir handaverkum sínum.‘+

17 Vertu viðbúinn,*

stattu upp og segðu þeim allt sem ég fel þér.

Vertu ekki hræddur við þá,+

annars læt ég þig verða hræddan frammi fyrir þeim,

18 því að í dag hef ég gert þig að víggirtri borg,

járnstólpa og koparveggjum svo að þú getir staðist fyrir öllu landinu,+

konungum Júda og höfðingjum þess,

prestunum og íbúum landsins.+

19 Þeir munu berjast gegn þér

en ekki sigra þig

því að ‚ég er með þér‘,+ segir Jehóva, ‚til að bjarga þér‘.“

2 Orð Jehóva kom til mín: 2 „Farðu og boðaðu Jerúsalem þetta: ‚Jehóva segir:

„Ég man eftir tryggð* æsku þinnar,+

kærleikanum sem þú sýndir þegar þú varst trúlofuð,+

hvernig þú fylgdir mér í óbyggðunum,

í landi þar sem ekkert var ræktað.+

 3 Ísrael var heilagur í augum Jehóva,+ frumgróði uppskeru hans.“‘

‚Allir sem reyndu að gleypa hann í sig urðu sekir.

Hörmungar komu yfir þá,‘ segir Jehóva.“+

 4 Heyrið orð Jehóva, ætt Jakobs

og allar ættkvíslir Ísraelsþjóðarinnar.

 5 Jehóva segir:

„Hvað höfðu forfeður ykkar á móti mér+

fyrst þeir villtust svo langt frá mér,

eltust við einskis nýt skurðgoð+ og urðu sjálfir einskis nýtir?+

 6 Þeir spurðu ekki: ‚Hvar er Jehóva

sem flutti okkur burt frá Egyptalandi+

og leiddi okkur gegnum óbyggðirnar,

gegnum land eyðimarka+ og sprungna,

land þurrka+ og niðamyrkurs,

land sem enginn ferðast um

og enginn maður býr í?‘

 7 Ég leiddi ykkur inn í land aldingarða

til að þið gætuð notið ávaxta þess og gæða.+

En þið óhreinkuðuð landið mitt þegar þið komuð inn í það,

þið gerðuð erfðaland mitt að viðbjóði.+

 8 Prestarnir spurðu ekki: ‚Hvar er Jehóva?‘+

Þeir sem sáu um lögin þekktu mig ekki,

hirðarnir gerðu uppreisn gegn mér,+

spámennirnir spáðu í nafni Baals,+

þeir fylgdu guðum sem gátu ekkert gert fyrir þá.

 9 ‚Þess vegna ætla ég aftur að höfða mál gegn ykkur,‘+ segir Jehóva,

‚og ég höfða mál gegn sonarsonum ykkar.‘

10 ‚Farið yfir til stranda* Kitta+ og grennslist fyrir.

Sendið boð til Kedars+ og hugleiðið málið vandlega,

kannið hvort nokkuð þessu líkt hafi áður gerst.

11 Hefur nokkur þjóð skipt út guðum sínum fyrir guði sem eru ekki til?

En þjóð mín hefur látið dýrð mína í skiptum fyrir það sem er gagnslaust.+

12 Furðið ykkur yfir því sem þið sjáið, þið himnar,

skjálfið af óhug,‘ segir Jehóva,

13 ‚því að þjóð mín hefur gert tvennt sem er illt:

Hún hefur yfirgefið mig, uppsprettu lifandi vatns,+

og grafið* sér brunna,*

ónýta brunna sem halda ekki vatni.‘

14 ‚Er Ísrael þjónn eða heimafæddur þræll?

Hvers vegna er hann þá orðinn að herfangi?

15 Ungljón öskra á hann+

og láta í sér heyra.

Þau gerðu land hans að óhugnanlegum stað.

Kveikt var í borgum hans og enginn getur búið þar.

16 Íbúar Nóf*+ og Takpanes+ reyta hárin af höfði þínu.

17 Hefurðu ekki kallað þetta yfir þig sjálfur

með því að yfirgefa Jehóva Guð þinn+

þegar hann leiddi þig á veginum?

18 Hvers vegna viltu fara veginn til Egyptalands+

og drekka vatn úr Síkor?*

Hvers vegna viltu fara veginn til Assýríu+

og drekka vatn úr Fljótinu?*

19 Illska þín ætti að aga þig

og ótryggð þín áminna þig.

Þú skalt skilja og gera þér ljóst hve vont og beisklegt það er+

að þú yfirgafst Jehóva Guð þinn,

þú óttaðist mig ekki,‘+ segir alvaldur Drottinn, Jehóva hersveitanna.

20 ‚Fyrir löngu braut ég ok þitt+

og reif af þér fjötrana.

En þú sagðir: „Ég vil ekki þjóna þér.“

Á hverjum háum hól og undir hverju laufmiklu tré+

lástu með fæturna glennta sundur og stundaðir vændi.+

21 Ég gróðursetti þig sem rauðan gæðavínvið,+ eintómt úrvalsfræ.

Hvernig gastu breyst í úrkynjaðan villivínvið?‘+

22 ‚Þótt þú þvægir þér með þvottasóda og miklum lút*

væri sekt þín enn blettur fyrir mér,‘+ segir alvaldur Drottinn Jehóva.

23 Hvernig geturðu sagt: ‚Ég hef ekki óhreinkað mig.

Ég hef ekki fylgt Baölunum‘?

Hugleiddu hvernig þú hefur hagað þér í dalnum,

hugsaðu um hvað þú hefur gert.

Þú ert eins og ung og spretthörð úlfaldahryssa

sem hleypur stefnulaust hingað og þangað.

24 Þú ert eins og villiasna sem er vön óbyggðunum

og þefar út í loftið í losta sínum.

Hver getur hamið hana þegar hún er reiðubúin til mökunar?

Þeir sem leita að henni þurfa ekki að þreyta sig,

þeir finna hana á fengitímanum.*

25 Gættu þín að verða ekki berfætt

og hlífðu hálsinum við þorsta.

En þú sagðir: ‚Nei, það er vonlaust!+

Ég er orðin ástfangin af ókunnugum*+

og vil fylgja þeim.‘+

26 Eins og þjófur má skammast sín þegar hann er gripinn,

þannig hafa Ísraelsmenn orðið sér til skammar,

þeir, konungar þeirra og höfðingjar,

prestar þeirra og spámenn.+

27 Þeir segja við tréð: ‚Þú ert faðir minn,‘+

og við steininn: ‚Þú fæddir mig.‘

En við mér snúa þeir bakinu, ekki andlitinu.+

Þegar ógæfan dynur yfir segja þeir:

‚Komdu og bjargaðu okkur!‘+

28 Hvar eru nú guðir þínir sem þú gerðir þér?+

Þeir skulu koma þegar ógæfan dynur yfir og bjarga þér ef þeir geta

því að guðir þínir, Júda, eru orðnir jafn margir og borgir þínar.+

29 ‚Hvers vegna ásakið þið mig?

Hvers vegna hafið þið öll gert uppreisn gegn mér?‘+ segir Jehóva.

30 Ég sló syni ykkar til einskis,+

þeir vildu ekki taka við aga.+

Sverð ykkar gleypti spámennina+

eins og ljón í árásarham.

31 Þú kynslóð, veittu orði Jehóva athygli.

Er ég orðinn eins og óbyggðir fyrir Ísrael

eða land þrúgandi myrkurs?

Hvers vegna segir þjóð mín: ‚Við förum þangað sem okkur sýnist

og snúum ekki aftur til þín‘?+

32 Gleymir meyja skartgripum sínum,

brúður brjóstborða* sínum?

Samt hefur þjóð mín gleymt mér í óralangan tíma.+

33 Mikið ertu góð í að leita uppi elskhuga þína!

Þú hefur tamið þér að ganga vegi illskunnar.+

34 Jafnvel klæðafaldar þínir eru ataðir blóði saklausra fátæklinga+

þótt þeir hafi ekki verið staðnir að verki við innbrot.

Allir faldar þínir eru ataðir blóði.+

35 En þú segir: ‚Ég er saklaus.

Hann hlýtur að hafa snúið reiði sinni frá mér.‘

Nú læt ég þig svara til saka

af því að þú segir: ‚Ég hef ekki syndgað.‘

36 Hvers vegna er það svona lítið mál fyrir þig að breyta um stefnu?

Þú munt skammast þín fyrir Egyptaland,+

rétt eins og þú skammaðist þín fyrir Assýríu.+

37 Einnig þess vegna muntu fara burt með hendur á höfði+

því að Jehóva hefur hafnað þeim sem þú treystir á,

þeir koma þér ekki til hjálpar.“

3 Fólk spyr: „Ef maður rekur konu sína burt og hún fer frá honum og giftist öðrum manni, getur hann þá snúið aftur til hennar?“

Er landið ekki orðið gerspillt?+

„Þú hefur gerst sek um vændi með mörgum elskhugum.+

Ættir þú nú að geta snúið aftur til mín?“ segir Jehóva.

 2 „Líttu á gróðurlausu hæðirnar.

Hvar hefur þér ekki verið nauðgað?

Þú sast við vegina og beiðst eftir þeim

eins og hirðingi* í óbyggðunum.

Þú spillir landinu

með vændi þínu og illsku.+

 3 Þess vegna er hætt að rigna+

og ekkert regn fellur á vorin.

Þú ert blygðunarlaus á svipinn* eins og gift kona sem stundar vændi,

þú skammast þín ekki.+

 4 En nú hróparðu til mín:

‚Faðir minn, þú ert æskuvinur minn!+

 5 Ætlarðu að erfa þetta við mig að eilífu,

vera alltaf gramur?‘

Þetta segirðu

en heldur áfram að fremja alla þá óhæfu sem þú getur.“+

6 Á dögum Jósía+ konungs sagði Jehóva við mig: „‚Hefurðu séð hvað hin ótrúa Ísrael hefur gert? Hún fór upp á hvert hátt fjall og undir hvert laufmikið tré til að stunda vændi.+ 7 Jafnvel eftir að hún hafði gert allt þetta bað ég hana hvað eftir annað að snúa aftur til mín+ en hún sneri ekki aftur, og Júda fylgdist með svikulli systur sinni.+ 8 Þegar ég sá þetta sendi ég hina ótrúu Ísrael burt með skilnaðarbréf+ vegna hjúskaparbrots hennar.+ En Júda, hin svikula systir hennar, lét það ekki hræða sig. Hún fór líka út og lagðist í vændi.+ 9 Hún leit vændið léttvægum augum, spillti landinu og framdi hjúskaparbrot með steinum og trjám.+ 10 Þrátt fyrir allt þetta sneri Júda, hin svikula systir hennar, ekki aftur til mín af öllu hjarta heldur þóttist bara gera það,‘ segir Jehóva.“

11 Jehóva sagði síðan við mig: „Hin ótrúa Ísrael hefur reynst réttlátari en hin svikula Júda.+ 12 Farðu og hrópaðu þessi orð í norður:+

‚„Snúðu aftur, þú fráhverfa Ísrael,“ segir Jehóva.‘+ ‚„Ég mun ekki líta reiðilega til þín+ því að ég er trúfastur,“ segir Jehóva.‘ ‚„Ég er ekki gramur að eilífu. 13 Viðurkenndu aðeins sekt þína því að þú hefur gert uppreisn gegn Jehóva Guði þínum. Þú bauðst ókunnugum* blíðu þína undir hverju laufmiklu tré en á mig vildirðu ekki hlusta,“ segir Jehóva.‘“

14 „Snúið aftur, þið fráhverfu synir,“ segir Jehóva, „því að ég er réttmætur húsbóndi* ykkar. Ég sæki ykkur, einn úr hverri borg og tvo úr hverri ætt, og flyt ykkur til Síonar.+ 15 Ég gef ykkur hirða eftir mínu hjarta+ og þeir munu veita ykkur þekkingu og skilning.* 16 Þið verðið fjölmennir og frjósamir í landinu á þeim dögum,“ segir Jehóva.+ „Enginn minnist lengur á sáttmálsörk Jehóva. Hún kemur engum í hug, enginn man eftir henni eða saknar hennar og engin önnur verður gerð. 17 Þá verður Jerúsalem kölluð hásæti Jehóva+ og öllum þjóðum verður safnað saman til að heiðra nafn Jehóva í Jerúsalem.+ Þær fylgja ekki framar sínu þrjóska og illa hjarta.“

18 „Á þeim dögum munu Júdamenn og Ísraelsmenn ganga saman,+ hlið við hlið, og saman munu þeir koma úr landinu í norðri til landsins sem ég gaf forfeðrum ykkar að erfðahlut.+ 19 Ég hugsaði: ‚Það gladdi mig að setja þig meðal sonanna og gefa þér þetta dásamlega land, fallegasta erfðalandið meðal þjóðanna!‘+ Ég hélt að þú myndir kalla mig föður og aldrei hætta að fylgja mér. 20 ‚Eins og svikul kona fer frá eiginmanni sínum, þannig hafið þið, Ísraelsmenn, svikið mig,‘+ segir Jehóva.“

21 Á gróðurlausu hæðunum heyrist hljóð:

kvein og grátbeiðni Ísraelsmanna

því að þeir hafa farið út á ranga braut,

þeir hafa gleymt Jehóva Guði sínum.+

22 „Snúið aftur, þið fráhverfu synir.

Ég ætla að lækna ykkar fráhverfa hjarta.“+

„Hér erum við! Við komum til þín

af því að þú, Jehóva, ert Guð okkar.+

23 Hávaðinn á hæðunum og glaumurinn á fjöllunum er tóm blekking.+

Það er aðeins Jehóva Guð okkar sem getur bjargað Ísrael.+

24 En allt frá æskuárum okkar hefur svívirðingin* gleypt allt sem forfeður okkar strituðu fyrir,+

sauði þeirra og nautgripi,

syni þeirra og dætur.

25 Leggjumst niður í skömm,

smánin hylji okkur

því að við höfum syndgað gegn Jehóva Guði okkar,+

við og feður okkar, frá æskuárum okkar og fram á þennan dag,+

og við höfum ekki hlýtt Jehóva Guði okkar.“

4 „Ef þú snýrð aftur, Ísrael,“ segir Jehóva,

„ef þú snýrð aftur til mín

og fjarlægir þín viðbjóðslegu skurðgoð úr augsýn minni

þá þarftu ekki að vera á flækingi.+

 2 Og ef þú sverð í sannleika, réttvísi og réttlæti:

‚Svo sannarlega sem Jehóva lifir,‘

þá hljóta þjóðirnar blessun hans

og hreykja sér af honum.“+

3 Jehóva segir við Júdamenn og Jerúsalembúa:

„Plægið land til ræktunar

og hættið að sá meðal þyrna.+

 4 Umskerið ykkur fyrir Jehóva

og fjarlægið forhúð hjartna ykkar,+

þið Júdamenn og Jerúsalembúar.

Annars blossar heift mín upp eins og eldur

vegna illskuverka ykkar

og brennur eins og bál sem enginn getur slökkt.“+

 5 Tilkynnið þetta í Júda og boðið það í Jerúsalem,

hrópið og blásið í horn um allt landið,+

hrópið hátt og segið: „Safnist saman!

Flýjum inn í víggirtu borgirnar.+

 6 Reisið merki* sem vísar veginn til Síonar.

Leitið skjóls, standið ekki kyrr,“

því að ég læt hörmungar koma úr norðri,+ mikla ógæfu.

 7 Hann er stiginn fram eins og ljón úr kjarri sínu,+

sá sem tortímir þjóðum er lagður af stað.+

Hann er farinn að heiman til að gera land þitt að hryllilegri auðn.

Borgir þínar verða rústir einar, enginn mun búa þar.+

 8 Klæðist því hærusekk,+

syrgið* og kveinið

því að brennandi reiði Jehóva er ekki horfin frá okkur.

 9 „Á þeim degi,“ segir Jehóva, „missir konungurinn kjarkinn+

og höfðingjarnir sömuleiðis.

Prestarnir verða skelfingu lostnir og spámennirnir agndofa.“+

10 Þá sagði ég: „Æ, alvaldur Drottinn Jehóva! Þú hefur algerlega blekkt þetta fólk+ og Jerúsalem. Þú sagðir: ‚Þið munuð njóta friðar,‘+ þótt sverðið væri reitt að hálsi okkar.“

11 Á þeim tíma verður sagt við þetta fólk og Jerúsalem:

„Brennheitur vindur frá gróðurlausum hæðum eyðimerkurinnar

mun skella á dótturinni,* þjóð minni.

Þetta er ekki vindur til að vinsa korn eða hreinsa.

12 Vindurinn kemur af öllu afli samkvæmt skipun minni.

Nú kveð ég upp dóm yfir þeim.

13 Óvinurinn kemur eins og regnský

og vagnar hans eru eins og stormur.+

Hestar hans eru skjótari en ernir.+

Aumingja við! Það er úti um okkur!

14 Hreinsaðu illskuna úr hjarta þínu, Jerúsalem, svo að þú bjargist.+

Hversu lengi ætlarðu að ganga með illar hugsanir?

15 Rödd flytur fréttirnar frá Dan+

og boðar hörmungar frá Efraímsfjöllum.

16 Segið þjóðunum frá þessu,

boðið Jerúsalem þetta.“

„Njósnarar* koma frá fjarlægu landi

og reka upp heróp gegn borgum Júda.

17 Þeir umkringja hana eins og verðir sem vakta akur+

því að hún hefur gert uppreisn gegn mér,“+ segir Jehóva.

18 „Hegðun þín og verk koma þér í koll.+

Ógæfa þín er skelfileg

því að mótþrói þinn hefur fest rætur í hjartanu.“

19 Ég er þjáður,* ég er þjáður!

Sársauki nístir hjarta mitt.

Hjartað hamast í brjósti mér.

Ég get ekki þagað

því að ég hef heyrt hornaþytinn,

herblásturinn.*+

20 Fréttir berast af hörmungum á hörmungar ofan

því að allt landið hefur verið lagt í rúst.

Tjöldum mínum verður eytt skyndilega,

tjalddúkum mínum á augabragði.+

21 Hversu lengi þarf ég að horfa á merkið,*

heyra hornaþytinn?+

22 „Þjóð mín er heimsk+

og kærir sig ekkert um mig.

Þeir eru heimskir synir og skilja ekki neitt.

Þeir eru nógu klókir til að gera illt

en kunna ekki að gera gott.“

23 Ég leit yfir landið og það var autt og tómt.+

Ég horfði til himins og þar var ekkert ljós.+

24 Ég leit á fjöllin og þau nötruðu,

hæðirnar skulfu.+

25 Ég leit í kringum mig og engan mann var að sjá,

fuglar himins voru allir flúnir.+

26 Ég sá að aldingarðurinn var orðinn að óbyggðum

og borgirnar höfðu allar verið lagðar í rúst.+

Það var Jehóva sem olli þessu,

brennandi reiði hans.

27 Jehóva segir: „Allt landið verður lagt í eyði+

en ég mun ekki gereyða það.

28 Þess vegna mun landið syrgja+

og himinninn myrkvast.+

Ég hef talað, ég hef ákveðið það,

ég mun ekki skipta um skoðun* né hætta við það.+

29 Við hávaðann frá riddurunum og bogaskyttunum

flýr öll borgin.+

Menn skríða inn í kjarrið

og klifra upp í klettana.+

Allar borgirnar standa auðar

og enginn maður býr í þeim.“

30 Hvað ætlarðu að gera nú þegar þú hefur verið svipt öllu?

Þú varst vön að klæðast skarlati,

skreyta þig með skartgripum úr gulli

og nota svartan farða* til að augun virtust stærri.

En það var til einskis að þú gerðir þig fallega+

því að þeir sem girntust þig hafa hafnað þér,

þeir vilja drepa þig.+

31 Ég heyri hljóð eins og í sárþjáðri konu,

stunur eins og í konu sem er að fæða sitt fyrsta barn.

Þetta er dóttirin Síon sem berst við að ná andanum.

Hún fórnar höndum+ og segir:

„Það er úti um mig, morðingjarnir hafa gert mig örmagna!“

5 Gangið um stræti Jerúsalem,

lítið vandlega í kringum ykkur.

Leitið á torgunum og kannið

hvort þið finnið nokkurn sem stundar réttlæti+

og leitast við að vera trúfastur.

Þá mun ég fyrirgefa borginni.

 2 Þótt menn segi: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir,“

sverja þeir samt falskan eið.+

 3 Jehóva, leita augu þín ekki að trúfesti?+

Þú slóst þá en það hafði ekkert að segja.

Þú gerðir næstum út af við þá en þeir streittust á móti aganum.+

Þeir gerðu andlit sín harðari en stein+

og vildu ekki snúa við.+

 4 En ég hugsaði með mér: „Þetta hlýtur að vera lágstéttarfólk.

Það hegðar sér heimskulega af því að það þekkir ekki veg Jehóva,

kröfur Guðs síns.

 5 Ég ætla að fara til stórmennanna og tala við þau.

Þau hljóta að þekkja veg Jehóva,

kröfur Guðs síns.+

En þau hafa öll brotið okið

og rifið af sér fjötrana.“*

 6 Þess vegna kemur ljón úr skóginum og ræðst á þau,

úlfur úr eyðimörkinni og herjar á þau.

Hlébarði liggur í leyni við borgir þeirra.

Allir sem fara út úr þeim verða rifnir í sundur

því að afbrot þeirra eru mörg,

ótrúmennska þeirra mikil.+

 7 Hvernig get ég fyrirgefið þér þetta?

Synir þínir hafa yfirgefið mig

og þeir sverja við falsguð.+

Ég gaf þeim allt sem þeir þurftu

en þeir frömdu hjúskaparbrot hvað eftir annað

og flykktust að húsi vændiskonu.

 8 Þeir eru eins og taumlausir graðhestar

og hneggja eftir konu annars manns.+

 9 „Ætti ég ekki að draga þá til ábyrgðar fyrir þetta?“ segir Jehóva.

„Ætti ég ekki að hefna mín á þjóð sem hegðar sér svona?“+

10 „Farið og eyðileggið víngarðsstalla hennar

en gereyðið þeim ekki.+

Takið burt nýsprottnar greinar hennar

því að þær tilheyra ekki Jehóva.

11 Ísraelsmenn og Júdamenn

hafa svikið mig illa,“ segir Jehóva.+

12 „Þeir hafa afneitað Jehóva og segja:

‚Hann gerir ekkert.*+

Engin ógæfa kemur yfir okkur,

við munum hvorki sjá sverð né hungursneyð.‘+

13 Spámennirnir blaðra út í loftið

og orðið* býr ekki í þeim.

Orð þeirra komi þeim í koll!“

14 Þess vegna segir Jehóva, Guð hersveitanna:

„Af því að þessir menn segja þetta

geri ég orð mín að eldi í munni þínum.+

Þetta fólk er viðurinn

sem eldurinn gleypir.“+

15 „Ísraelsmenn, ég leiði gegn ykkur þjóð sem býr langt í burtu,“+ segir Jehóva.

„Þessi þjóð er gamalgróin,

hún er ævaforn.

Þið kunnið ekki tungumál hennar

og skiljið ekki hvað hún segir.+

16 Örvamælir hennar er eins og opin gröf,

þeir eru allir stríðskappar.

17 Þeir gleypa í sig uppskeru þína og brauð,+

syni þína og dætur.

Þeir gleypa í sig sauði þína og nautgripi,

vínviði þína og fíkjutré.

Með sverði tortíma þeir víggirtu borgunum sem þú treystir á.“

18 „En jafnvel þá,“ segir Jehóva, „mun ég ekki gereyða ykkur.+ 19 Þegar fólk spyr: ‚Af hverju hefur Jehóva Guð okkar gert okkur allt þetta?‘ skaltu svara: ‚Þið yfirgáfuð mig til að þjóna útlendum guði í landi ykkar. Þess vegna munuð þið þjóna útlendingum í landi sem er ekki ykkar.‘“+

20 Tilkynnið þetta meðal afkomenda Jakobs

og boðið það í Júda:

21 „Hlustaðu á þetta, þú heimska og óskynsama þjóð:+

Þið hafið augu en sjáið ekki,+

eyru en heyrið ekki.+

22 ‚Óttist þið mig ekki?‘ segir Jehóva.

‚Ættuð þið ekki að skjálfa frammi fyrir mér?

Ég setti sandinn sem mörk fyrir hafið,

varanlegan tálma sem það kemst ekki yfir.

Þótt öldurnar komi með miklum ofsa bíða þær alltaf ósigur,

þótt þær drynji komast þær ekki yfir hann.+

23 En þetta fólk er þrjóskt og uppreisnargjarnt í hjarta sínu.

Það hefur beygt út af veginum og fer sínar eigin leiðir.+

24 Það hugsar ekki með sér:

„Óttumst Jehóva Guð okkar,

hann sem gefur regn á réttum tíma,

haustregnið og vorregnið,

hann sem tryggir okkur ákveðnar uppskeruvikur.“+

25 Afbrot ykkar hafa hrifsað þetta frá ykkur,

syndir ykkar svipt ykkur því sem er gott.+

26 Illmenni eru meðal þjóðar minnar.

Þau fylgjast með bráðinni eins og fuglafangarar í felum.

Þau leggja dauðagildrur

og veiða menn.

27 Eins og búr full af fuglum,

þannig eru hús þeirra full af svikum.+

Þess vegna eru þau orðin voldug og rík.

28 Þau eru feit og með stinna húð,

þau eru uppfull af illsku.

Þau verja ekki mál hinna föðurlausu+

heldur hugsa bara um eigin velgengni.

Þau leyfa hinum fátæku ekki að ná rétti sínum.‘“+

29 „Ætti ég ekki að draga þau til ábyrgðar fyrir þetta?“ segir Jehóva.

„Ætti ég ekki að hefna mín á þjóð sem hegðar sér svona?

30 Það sem á sér stað í landinu er skelfilegt og hryllilegt:

31 Spámennirnir bera fram lygar+

og prestarnir beita valdi sínu til að drottna yfir fólkinu,

og þjóð minni líkar það vel.+

En hvað ætlið þið að gera þegar endalokin koma?“

6 Leitið í skjól, Benjamínssynir, og flýið frá Jerúsalem.

Blásið í hornið+ í Tekóa,+

kveikið eldmerki yfir Bet Kerem

því að ógæfa er yfirvofandi úr norðri, miklar hörmungar.+

 2 Dóttirin Síon er eins og falleg ofdekruð kona.+

 3 Hirðarnir koma með hjarðir sínar.

Þeir slá upp tjöldum hringinn í kringum hana+

og hver þeirra heldur hjörð sinni á beit.+

 4 „Búið* ykkur til bardaga gegn henni!

Standið upp! Ráðumst á hana um hádegið!“

„Það er um seinan því að nú er áliðið

og kvöldskuggarnir farnir að lengjast!“

 5 „Standið upp! Gerum árás í nótt

og brjótum niður virkisturna hennar.“+

 6 Jehóva hersveitanna segir:

„Fellið tré og reisið umsátursvirki gegn Jerúsalem.+

Borgin verður að sæta ábyrgð,

hún er gegnsýrð af kúgun.+

 7 Eins og vatnsþró heldur vatninu fersku,

þannig heldur hún illsku sinni ferskri.

Ofbeldi og eyðing ómar í henni,+

sjúkdómar og plágur blasa sífellt við mér.

 8 Láttu þér segjast, Jerúsalem,

annars sný ég baki við þér fullur viðbjóðs,+

ég geri þig að auðn, að landi sem enginn býr í.“+

 9 Jehóva hersveitanna segir:

„Þeir munu tína þá sem eftir eru af Ísrael eins og síðustu berin á vínviði.

Berðu höndina aftur upp að vínviðnum eins og sá sem tínir vínber.“

10 „Við hvern á ég að tala og hvern á ég að vara við?

Hver hlustar?

Eyru þeirra eru lokuð* svo að þeir geta ekki tekið eftir.+

Þeir fyrirlíta orð Jehóva,+

það veitir þeim enga gleði.

11 Ég er fullur af reiði Jehóva

og þreyttur á að byrgja hana inni.“+

„Helltu henni yfir barnið á strætinu+

og yfir unglingahópana.

Allir verða teknir til fanga, karlarnir og konur þeirra,

hinir öldruðu og háöldruðu.+

12 Hús þeirra verða fengin öðrum

og sömuleiðis akrar þeirra og eiginkonur+

því að ég rétti út hönd mína gegn íbúum landsins,“ segir Jehóva.

13 „Allir afla sér rangfengins gróða,+ jafnt háir sem lágir,

allir svíkja og pretta, jafnt spámenn sem prestar.+

14 Þeir reyna að lækna sár* þjóðar minnar með auðveldum* hætti og segja:

‚Það er friður! Það er friður!‘

þegar enginn friður er.+

15 Skammast þeir sín fyrir viðbjóðslega hegðun sína?

Þeir skammast sín ekki neitt!

Þeir vita ekki einu sinni hvað það er að finna til skammar.+

Þess vegna falla þeir með þeim sem falla,

þeir hrasa þegar ég refsa þeim,“ segir Jehóva.

16 Jehóva segir:

„Standið við vegamótin og lítið í kringum ykkur.

Spyrjið um fornu göturnar,

spyrjið hvar góði vegurinn sé og gangið hann.+

Þá finnið þið hvíld.“

En þeir segja: „Við ætlum ekki að ganga hann.“+

17 „Ég skipaði varðmenn+ sem sögðu:

‚Takið eftir hornablæstrinum!‘“+

En þeir sögðu: „Við viljum það ekki.“+

18 „Heyrið því, þjóðir,

og þú, mannsöfnuður, skalt vita

hvað kemur fyrir þá.

19 Hlustaðu, jörð!

Ég leiði ógæfu yfir þessa þjóð.+

Það er ávöxturinn af ráðabruggi hennar

því að hún lét orð mín sem vind um eyru þjóta

og hafnaði lögum mínum.“*

20 „Ég kæri mig ekki um hvíta reykelsið sem þið komið með frá Saba

og sæta ilmreyrinn frá fjarlægu landi.

Brennifórnir ykkar eru óviðunandi

og ég hef ekki velþóknun á sláturfórnum ykkar.“+

21 Þess vegna segir Jehóva:

„Ég legg hrösunarhellur fyrir þessa þjóð

og hún hrasar um þær,

bæði feður og synir,

nágranninn og vinur hans,

þeir farast allir.“+

22 Jehóva segir:

„Þjóð kemur frá landinu í norðri.

Stórþjóð lætur til skarar skríða frá fjarlægustu byggðum jarðar.+

23 Þeir bera boga og kastspjót.

Þeir eru grimmir og miskunnarlausir.

Hróp þeirra eru eins og drunur hafsins

og þeir koma ríðandi á hestum.+

Þeir fylkja liði gegn þér eins og einn maður, dóttirin Síon.“

24 Við höfum frétt af þessu.

Hendur okkar missa máttinn,+

örvænting hefur gripið okkur,

kvöl* eins og hjá konu í barnsburði.+

25 Farðu ekki út á akurinn

og gakktu ekki á veginum

því að óvinurinn er vopnaður sverði,

skelfing er allt um kring.

26 Æ, dóttirin, þjóð mín,

klæðstu hærusekk+ og veltu þér í ösku.

Syrgðu og gráttu beisklega eins og þú hafir misst einkason+

því að eyðandinn ræðst skyndilega á okkur.+

27 „Ég hef falið þér* að kanna þjóð mína eins og maður metur málm

og kannar hann vel og vandlega.

Þú skalt kynna þér og grandskoða hegðun þeirra.

28 Þeir eru allir mestu þverhausar,+

þeir ganga um og bera út róg.+

Þeir eru eins og kopar og járn,

spilltir allir sem einn.

29 Físibelgirnir eru sviðnaðir.

Úr eldinum kemur aðeins blý.

Sá sem bræðir hamast til einskis,+

hinir illu skiljast ekki frá.+

30 Fólk kallar þá ónothæft silfur

því að Jehóva hefur hafnað þeim.“+

7 Þetta er orðið sem kom til Jeremía frá Jehóva: 2 „Taktu þér stöðu í hliðinu að húsi Jehóva og flyttu þennan boðskap: ‚Heyrið orð Jehóva, allir Júdamenn, þið sem gangið inn um þessi hlið til að falla fram fyrir Jehóva. 3 Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: „Breytið líferni ykkar og hegðun. Þá leyfi ég ykkur að búa áfram á þessum stað.+ 4 Treystið ekki á blekkingarorð og segið ekki: ‚Þetta er* musteri Jehóva, musteri Jehóva, musteri Jehóva!‘+ 5 Ef þið breytið líferni ykkar og hegðun fyrir alvöru, ef þið hafið réttlætið í heiðri þegar menn eiga í deilum,+ 6 ef þið kúgið ekki útlendinga sem búa á meðal ykkar, munaðarlausa* og ekkjur,+ ef þið úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og ef þið fylgið ekki öðrum guðum ykkur til tjóns+ 7 þá leyfi ég ykkur að búa áfram á þessum stað, í landinu sem ég gaf forfeðrum ykkar til eignar um alla eilífð.“‘“*

8 „En þið treystið á blekkingarorð.+ Það kemur ykkur að engu gagni. 9 Þið stelið,+ myrðið, fremjið hjúskaparbrot, sverjið falskan eið,+ færið Baal fórnir*+ og fylgið guðum sem þið þekktuð ekki áður. 10 Hvernig getið þið aðhafst allan þennan ósóma og samt komið og staðið frammi fyrir mér í þessu húsi sem er kennt við nafn mitt og sagt: ‚Okkur er borgið‘? 11 Er þetta hús, sem er kennt við nafn mitt, ræningjabæli í ykkar augum?+ Ég sé hvað þið aðhafist,“ segir Jehóva.

12 „‚Farið nú til helgistaðar míns í Síló,+ þar sem ég lét nafn mitt fyrst búa,+ og sjáið hvað ég gerði við hann vegna illsku þjóðar minnar, Ísraels.+ 13 En þið hélduð áfram að gera allt þetta,‘ segir Jehóva. ‚Þið hlustuðuð ekki þótt ég talaði til ykkar hvað eftir annað.*+ Ég kallaði á ykkur en þið svöruðuð ekki.+ 14 Ég ætla að fara með þetta hús, sem er kennt við nafn mitt+ og þið treystið á,+ eins og ég fór með Síló,+ og einnig þennan stað sem ég gaf ykkur og forfeðrum ykkar. 15 Ég fleygi ykkur burt úr augsýn minni eins og ég fleygði burt öllum bræðrum ykkar, öllum afkomendum Efraíms.‘+

16 Þú skalt ekki biðja fyrir þessu fólki. Þú skalt hvorki hrópa, biðjast fyrir né sárbæna mig þeirra vegna+ því að ég mun ekki hlusta á þig.+ 17 Sérðu ekki hvað fólkið gerir í borgum Júda og á strætum Jerúsalem? 18 Synirnir safna eldiviði, feðurnir kveikja eld og konurnar hnoða deig í fórnarkökur handa himnadrottningunni.*+ Þau færa öðrum guðum drykkjarfórnir til að særa mig.*+ 19 ‚En særa þau mig?‘ segir Jehóva. ‚Vinna þau ekki frekar sjálfum sér mein, sér til skammar?‘+ 20 Þess vegna segir alvaldur Drottinn Jehóva: ‚Reiði minni og heift verður úthellt yfir þennan stað,+ yfir menn og skepnur, tré landsins og ávexti jarðarinnar. Reiði mín mun brenna og ekki slokkna.‘+

21 Þetta segir Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels: ‚Bætið brennifórnum ykkar við hinar fórnirnar og borðið kjötið sjálf.+ 22 Daginn sem ég leiddi forfeður ykkar út úr Egyptalandi talaði ég ekki við þá um brennifórnir og sláturfórnir og gaf þeim engin fyrirmæli um þær.+ 23 En ég gaf þeim þessi fyrirmæli: „Hlýðið mér, þá verð ég Guð ykkar og þið verðið fólk mitt.+ Gangið veginn sem ég vísa ykkur á svo að ykkur vegni vel.“‘+ 24 En þeir hlustuðu ekki og gáfu mér engan gaum+ heldur fóru sínar eigin leiðir,* þrjóskuðust við og fylgdu sínu illa hjarta.+ Þeim fór aftur, þeir bættu sig ekki. 25 Þannig hefur það verið frá þeim degi sem forfeður ykkar yfirgáfu Egyptaland og allt til þessa.+ Þess vegna sendi ég til ykkar alla þjóna mína, spámennina. Ég sendi þá dag eftir dag, aftur og aftur.*+ 26 En fólkið vildi ekki hlusta á mig og gaf mér engan gaum.+ Það var þrjóskt og hegðaði sér verr en forfeður þess!

27 Þegar þú segir þeim allt þetta+ munu þeir ekki hlusta á þig. Þegar þú hrópar til þeirra munu þeir ekki svara þér. 28 Segðu við þá: ‚Þetta er þjóðin sem hlýddi ekki Jehóva Guði sínum og lét sér ekki segjast. Trúfestin er horfin, enginn minnist á hana.‘*+

29 Skerðu* af þér óskorið* hárið og fleygðu því burt, syngdu sorgarljóð á gróðurlausu hæðunum því að Jehóva hefur hafnað þessari kynslóð sem reitti hann til reiði og hann mun yfirgefa hana. 30 ‚Júdamenn hafa gert það sem er illt í mínum augum,‘ segir Jehóva. ‚Þeir hafa reist viðbjóðsleg skurðgoð sín í húsinu sem er kennt við nafn mitt til að vanhelga það.+ 31 Þeir hafa reist fórnarhæðir í Tófet í Hinnomssonardal*+ til þess að brenna syni sína og dætur í eldi.+ Ég hafði ekki sagt þeim að gera það og slíkt hvarflaði aldrei að mér.‘+

32 ‚Þess vegna koma þeir dagar,‘ segir Jehóva, ‚þegar þessi staður verður ekki lengur kallaður Tófet eða Hinnomssonardalur* heldur Drápsdalur. Fólk verður grafið í Tófet þar til ekkert pláss er eftir.+ 33 Lík þessa fólks verða æti handa fuglum himins og dýrum jarðar og enginn fælir þau burt.+ 34 Ég þagga niður í fagnaðarlátum og gleðihrópum í borgum Júda og á strætum Jerúsalem. Köll brúðguma og brúðar þagna+ því að landið verður lagt í rúst.‘“+

8 „Á þeim tíma,“ segir Jehóva, „verða bein Júdakonunga, bein höfðingjanna, bein prestanna, bein spámannanna og bein Jerúsalembúa tekin úr gröfum þeirra. 2 Þeim verður dreift móti sólinni og tunglinu og öllum her himinsins sem þeir elskuðu, þjónuðu og fylgdu, leituðu til og féllu fram fyrir.+ Menn safna þeim hvorki saman né grafa þau. Þau verða að áburði fyrir jarðveginn.“+

3 „Allir sem lifa af og verða eftir af þessari illu þjóð munu kjósa dauðann frekar en lífið á öllum þeim stöðum sem ég læt þá hrökklast til,“ segir Jehóva hersveitanna.

4 „Þú skalt segja við þá: ‚Þetta segir Jehóva:

„Standa menn ekki upp aftur ef þeir falla?

Ef einhver snýr við, snýr þá ekki annar líka við?

 5 Hvers vegna vilja Jerúsalembúar ekki láta af ótrúmennsku sinni?

Þeir halda fast við svik,

neita að snúa við.+

 6 Ég tók eftir og hlustaði en það sem þeir sögðu var ekki satt.

Ekki einn einasti iðraðist illsku sinnar eða spurði: ‚Hvað hef ég gert?‘+

Allir halda áfram að fylgja fjöldanum eins og hestur sem geysist fram til bardaga.

 7 Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir,

turtildúfan, svölungurinn og þrösturinn* snúa aftur á réttum tíma.

En þjóð mín veit ekki hvenær Jehóva dæmir.“‘+

 8 ‚Hvernig getið þið sagt: „Við erum vitrir og við höfum lög* Jehóva“?

Raunin er sú að lygapenni*+ fræðimannanna* er aðeins notaður til að skrifa lygar.

 9 Hinir vitru hafa orðið sér til skammar,+

þeir skelfast og verða fangaðir.

Þeir hafa hafnað orði Jehóva,

hvaða visku hafa þeir þá?

10 Þess vegna gef ég öðrum mönnum eiginkonur þeirra

og akra þeirra fæ ég í hendur nýjum eigendum+

því að allir afla sér rangfengins gróða, jafnt háir sem lágir,+

allir svíkja og pretta, jafnt spámenn sem prestar.+

11 Þeir reyna að lækna sár* dótturinnar, þjóðar minnar, með auðveldum* hætti og segja:

„Það er friður! Það er friður!“

þegar enginn friður er.+

12 Skammast þeir sín fyrir viðbjóðslega hegðun sína?

Þeir skammast sín ekki neitt!

Þeir vita ekki einu sinni hvað það er að finna til skammar.+

Þess vegna falla þeir með þeim sem falla,

þeir hrasa þegar ég refsa þeim,‘+ segir Jehóva.

13 ‚Þegar ég safna þeim saman mun ég eyða þeim,‘ segir Jehóva.

‚Engin vínber verða eftir á vínviðnum, engar fíkjur á fíkjutrénu og laufin visna.

Þeir glata öllu sem ég gaf þeim.‘“

14 „Af hverju sitjum við hér?

Söfnumst saman, förum inn í víggirtu borgirnar+ og deyjum þar.

Jehóva Guð okkar gerir út af við okkur

og gefur okkur eitrað vatn að drekka+

af því að við höfum syndgað gegn Jehóva.

15 Við vonuðumst eftir friði en ekkert gott kom,

lækningartíma en skelfing hefur gripið um sig!+

16 Frá Dan heyrist frýsið í hestum hans.

Þegar stríðshestar hans hneggja

nötrar allt landið.

Þeir koma og gleypa í sig landið og allt sem í því er,

borgina og íbúa hennar.“

17 „Ég sendi höggorma gegn ykkur,

eiturslöngur sem ekki er hægt að temja,*

og þeir munu bíta ykkur,“ segir Jehóva.

18 Sorg mín er ólæknandi,

hjarta mitt sjúkt.

19 Frá fjarlægu landi heyrist neyðaróp

dótturinnar, þjóðar minnar:

„Er Jehóva ekki í Síon?

Er konungur hennar ekki þar?“

„Hvers vegna hefur fólkið misboðið mér með skurðgoðum sínum,

með einskis nýtum útlendum guðum sínum?“

20 „Uppskeran er liðin, sumarið á enda,

en okkur hefur ekki verið bjargað!“

21 Ég er niðurbrotinn yfir hruni dótturinnar, þjóðar minnar.+

Ég er miður mín,

gripinn skelfingu.

22 Er ekkert balsam* í Gíleað?+

Er enginn læknir þar?+

Af hverju er dóttirin, þjóð mín, ekki orðin heil heilsu?+

9 Æ, hvað ég vildi að höfuð mitt væri tjörn,

augu mín táralind!+

Þá gréti ég dag og nótt

yfir hinum föllnu meðal þjóðar minnar.

 2 Ég vildi að ég vissi um húsaskjól fyrir ferðalanga í óbyggðunum!

Þá yfirgæfi ég þjóð mína og færi burt frá henni

því að þeir fremja allir hjúskaparbrot+

og eru svikahyski.

 3 Þeir spenna tunguna eins og boga,

lygar ríkja í landinu en ekki trygglyndi.+

„Þeir fremja hvert illskuverkið á fætur öðru

og taka ekkert mark á mér,“+ segir Jehóva.

 4 „Varið ykkur hver á öðrum

og treystið ekki einu sinni bróður ykkar

því að hver einasti bróðir er svikari+

og hver einasti vinur rógberi.+

 5 Þeir blekkja allir hver annan

og enginn segir sannleikann.

Þeir hafa þjálfað tungu sína í að fara með lygar,+

þeir strita við að gera það sem er rangt.

 6 Þú býrð mitt á meðal svikara.

Þeir ljúga og vilja ekki þekkja mig,“ segir Jehóva.

 7 Þess vegna segir Jehóva hersveitanna:

„Ég ætla að bræða þá og reyna þá+

því að hvað annað get ég gert við dótturina, þjóð mína?

 8 Tunga þeirra er banvæn ör sem fer með blekkingar.

Með munninum tala þeir um frið við náunga sinn

en í hjartanu íhuga þeir launsátur.“

 9 „Ætti ég ekki að draga þá til ábyrgðar fyrir þetta?“ segir Jehóva.

„Ætti ég ekki að hefna mín á þjóð sem hegðar sér svona?+

10 Ég græt og kveina yfir fjöllunum

og syng sorgarljóð vegna beitilandanna í óbyggðunum

því að þau eru sviðin og enginn fer þar um

og menn heyra ekki lengur í búfénu.

Fuglar himins og villidýrin eru flúin, þau eru á bak og burt.+

11 Ég geri Jerúsalem að grjóthrúgum,+ að bæli sjakala,+

og borgir Júda að auðn þar sem enginn býr.+

12 Hver er nógu vitur til að skilja þetta?

Við hvern hefur Jehóva talað svo að hann geti boðað það?

Hvers vegna er landið í eyði?

Hvers vegna er það sviðið eins og óbyggðirnar

svo að enginn fer þar um?“

13 Jehóva svaraði: „Vegna þess að þeir hafa hafnað lögunum* sem ég gaf þeim. Þeir fylgdu þeim ekki og hlýddu mér ekki 14 heldur þrjóskuðust við og fylgdu sínu eigin hjarta.+ Þeir tilbáðu Baalslíkneskin eins og feður þeirra höfðu kennt þeim.+ 15 Þess vegna segir Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels: ‚Ég læt þessa þjóð borða malurt og drekka eitrað vatn.+ 16 Ég tvístra þeim meðal þjóða sem hvorki þeir né feður þeirra þekktu+ og sendi sverð á eftir þeim þar til ég hef útrýmt þeim.‘+

17 Jehóva hersveitanna segir:

‚Sýnið skynsemi.

Kallið á konurnar sem syngja sorgarljóð+

og sendið eftir grátkonunum færu.

18 Þær skulu flýta sér og hefja harmakvein yfir okkur

svo að augu okkar flói í tárum

og þau streymi niður kinnarnar.+

19 Kveinstafir heyrast frá Síon:+

„Við höfum verið illa leikin!

Skömm okkar er mikil

því að við höfum yfirgefið landið og hús okkar verið jöfnuð við jörðu.“+

20 Þið konur, heyrið orð Jehóva,

eyru ykkar meðtaki orðin af munni hans.

Kennið dætrum ykkar þetta harmkvæði

og kennið hver annarri þetta sorgarljóð+

21 því að dauðinn er kominn inn um glugga okkar,

hann ruddist inn í virkisturna okkar

til að hrifsa burt börnin af strætunum

og unglingana af torgunum.‘+

22 Segðu: ‚Jehóva segir:

„Líkin munu liggja á jörðinni eins og mykja,

eins og nýskorið korn sem liggur eftir kornskurðarmanninn

og enginn tínir upp.“‘“+

23 Jehóva segir:

„Hinn vitri ætti ekki að stæra sig af visku sinni+

né hinn sterki af styrk sínum

né hinn ríki af auði sínum.“+

24 „Sá sem stærir sig ætti frekar að stæra sig af þessu:

að hann skilji og þekki mig,+

að hann viti að ég er Jehóva, sá sem sýnir tryggan kærleika, réttvísi og réttlæti á jörðinni+

því að ég hef yndi af því,“+ segir Jehóva.

25 „Þeir dagar koma,“ segir Jehóva, „þegar ég dreg alla til ábyrgðar sem eru umskornir en samt óumskornir,+ 26 Egypta,+ Júdamenn,+ Edómíta,+ Ammóníta,+ Móabíta+ og alla sem hafa skorið hár sitt við gagnaugun og búa í óbyggðunum,+ því að allar þjóðirnar eru óumskornar og allir Ísraelsmenn eru óumskornir á hjarta.“+

10 Heyrið orðið sem Jehóva hefur talað gegn ykkur, Ísraelsmenn. 2 Jehóva segir:

„Takið ekki upp háttalag þjóðanna+

og hræðist ekki himintáknin

þótt þjóðirnar hræðist þau.+

 3 Siðir þjóðanna eru sjálfsblekking.*

Handverksmaður heggur tré í skóginum

og sker það út með verkfæri sínu.+

 4 Menn skreyta það silfri og gulli+

og festa það með hamri og nöglum svo að það detti ekki um koll.+

 5 Þessi skurðgoð geta ekki talað,+ ekkert frekar en fuglahræða á gúrkuakri.

Menn þurfa að bera þau því að þau geta ekki gengið.+

Óttist þau ekki því að þau geta ekki gert neitt mein

og heldur ekki neitt gott.“+

 6 Enginn er eins og þú, Jehóva.+

Þú ert mikill og nafn þitt er mikið og máttugt.

 7 Ættu ekki allir að óttast þig, þú konungur þjóðanna?+

Þú átt það skilið því að meðal allra vitringa þjóðanna og í öllum konungsríkjum þeirra

jafnast enginn á við þig.+

 8 Þeir eru allir óskynsamir og heimskir.+

Það er alger sjálfsblekking* að ráðfæra sig við trjádrumb.+

 9 Silfurplötur eru fluttar inn frá Tarsis+ og gull frá Úfas,

efniviður handverksmanns og málmsmiðs.

Skurðgoðin klæðast bláu garni og purpuralitri ull.

Þau eru öll gerð af hæfileikafólki.

10 En Jehóva er hinn sanni Guð.

Hann er lifandi Guð+ og eilífur konungur.+

Jörðin nötrar undan reiði hans+

og engin þjóð stenst heift hans.

11* Þetta skuluð þið segja þeim:

„Guðirnir sem sköpuðu ekki himin og jörð

munu hverfa af jörðinni og undan himninum.“+

12 Hann skapaði jörðina með mætti sínum,

grundvallaði heiminn með visku sinni+

og þandi út himininn með þekkingu sinni.+

13 Þegar hann lætur rödd sína hljóma

ókyrrast vötnin á himni+

og hann lætur ský* stíga upp frá endimörkum jarðar.+

Hann lætur eldingar leiftra í regninu*

og hleypir vindinum út úr forðabúrum sínum.+

14 Hver einasti maður er óskynsamur og lætur heimsku sína í ljós.

Allir málmsmiðir munu skammast sín fyrir skurðgoðin+

því að málmlíkneski* þeirra eru blekking

og enginn andi* er í þeim.+

15 Þau eru einskis nýt,* hlægileg.+

Þau farast á degi uppgjörsins.

16 Hann sem er hlutdeild Jakobs er ekki eins og þau

því að hann skapaði allt

og Ísrael er stafur hans, erfðahlutur hans.*+

Jehóva hersveitanna er nafn hans.+

17 Taktu böggul þinn upp af jörðinni,

þú kona sem býrð við umsátur,

18 því að Jehóva segir:

„Núna fleygi ég íbúum landsins burt+

og læt þá líða mikla neyð.“

19 Aumingja ég því að hrun mitt er mikið,+

sár mitt er ólæknandi.

Ég sagði: „Þetta er sjúkdómur minn og ég þarf að þola hann.

20 Tjald mitt er eyðilagt og tjaldstögin öll slitin sundur.+

Synir mínir hafa yfirgefið mig og eru ekki lengur hér.+

Enginn er eftir til að reisa tjald mitt og festa upp tjalddúkana.

21 Hirðarnir höguðu sér heimskulega+

og leituðu ekki til Jehóva.+

Þess vegna sýndu þeir ekki visku

og öll hjörð þeirra tvístraðist.“+

22 Hlustið! Fréttir voru að berast!

Miklar drunur heyrast frá landinu í norðri.+

Borgir Júda verða lagðar í eyði, gerðar að bæli sjakala.+

23 Ég veit, Jehóva, að það er ekki mannsins að velja leið sína.

Hann getur ekki einu sinni stýrt skrefum sínum á göngunni.*+

24 Agaðu mig, Jehóva, af sanngirni

en ekki í reiði+ svo að þú gerir ekki út af við mig.+

25 Úthelltu reiði þinni yfir þjóðirnar sem hunsa þig+

og yfir ættirnar sem ákalla ekki nafn þitt

því að þær hafa gleypt Jakob,+

já, gleypt hann og næstum eytt honum,+

og lagt land hans í eyði.+

11 Þetta er orðið sem kom til Jeremía frá Jehóva: 2 „Heyrið orð þessa sáttmála!

Flyttu* þau Júdamönnum og íbúum Jerúsalem 3 og segðu við þá: ‚Jehóva Guð Ísraels segir: „Bölvaður er sá maður sem hlýðir ekki orðum þessa sáttmála+ 4 sem ég gerði við forfeður ykkar daginn sem ég leiddi þá út úr Egyptalandi,+ út úr járnbræðsluofninum.+ Ég sagði: ‚Hlýðið mér og gerið allt sem ég segi ykkur. Þá verðið þið fólk mitt og ég verð Guð ykkar+ 5 svo að ég geti haldið eiðinn sem ég sór forfeðrum ykkar, að gefa þeim landið sem flýtur í mjólk og hunangi,‘+ og sú er raunin í dag.“‘“

Ég svaraði: „Amen,* Jehóva.“

6 Síðan sagði Jehóva við mig: „Boðaðu öll þessi orð í borgum Júda og á strætum Jerúsalem: ‚Hlustið á orð þessa sáttmála og farið eftir þeim. 7 Ég hef varað forfeður ykkar eindregið við frá þeim degi sem ég leiddi þá út úr Egyptalandi og fram á þennan dag. Ég varaði þá við hvað eftir annað* og sagði: „Hlýðið mér.“+ 8 En þeir lokuðu eyrunum og hlustuðu ekki heldur þrjóskuðust við og hver og einn fylgdi sínu illa hjarta.+ Þess vegna lét ég rætast á þeim öll orð þessa sáttmála sem ég sagði þeim að halda en þeir héldu ekki.‘“

9 Því næst sagði Jehóva við mig: „Júdamenn og Jerúsalembúar hafa gert samsæri. 10 Þeir hafa snúið aftur til synda forfeðra sinna sem vildu ekki hlýða mér.+ Þeir fylgja öðrum guðum og þjóna þeim.+ Ísraelsmenn og Júdamenn hafa rofið sáttmálann sem ég gerði við forfeður þeirra.+ 11 Þess vegna segir Jehóva: ‚Nú leiði ég yfir þá ógæfu+ sem þeir komast ekki undan. Þegar þeir hrópa til mín á hjálp mun ég ekki hlusta á þá.+ 12 Þeir sem búa í borgum Júda og Jerúsalem fara þá til guðanna sem þeir færa fórnir* og hrópa á hjálp,+ en þeir geta engan veginn bjargað þeim þegar hörmungarnar dynja yfir. 13 Guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar og þú hefur reist svívirðingunni* eins mörg ölturu og strætin eru í Jerúsalem, ölturu til að færa Baal fórnir.‘+

14 Þú* skalt ekki biðja fyrir þessu fólki. Þú skalt hvorki hrópa né biðjast fyrir þeirra vegna+ því að ég mun ekki hlusta þegar þeir kalla til mín í neyð sinni.

15 Hvaða rétt hefur mín ástkæra þjóð til að vera í húsi mínu

þegar svo margir fremja illskuverk?

Geta þeir afstýrt ógæfu þinni með heilögu fórnarkjöti?

Muntu fagna þegar hún dynur yfir?

16 Einu sinni kallaði Jehóva þig frjósamt ólívutré,

fallegt og með góðan ávöxt.

En nú hefur hann kveikt í því með miklum hvin

og greinar þess hafa verið brotnar af.

17 Jehóva hersveitanna, sem gróðursetti þig,+ hefur sagt að hörmungar komi yfir þig vegna illsku Ísraelsmanna og Júdamanna sem misbuðu mér með því að færa Baal fórnir.“+

18 Jehóva upplýsti mig svo að ég vissi hvað var að gerast.

Þú leiddir mér fyrir sjónir hvað þeir aðhöfðust.

19 Ég var eins og hlýðið lamb sem er leitt til slátrunar.

Ég vissi ekki að þeir lögðu á ráðin gegn mér:+

„Skemmum tréð og ávöxt þess,

upprætum hann úr landi hinna lifandi

svo að enginn muni eftir nafni hans framar.“

20 En Jehóva hersveitanna dæmir með réttlæti.

Hann rannsakar hjartað og innstu hugsanir mannsins.*+

Sýndu mér hefnd þína á þeim

því að ég legg mál mitt í þínar hendur.

21 Þess vegna segir Jehóva um mennina frá Anatót+ sem vilja drepa þig og segja: „Hættu að spá í nafni Jehóva,+ annars drepum við þig,“ 22 já, þess vegna segir Jehóva hersveitanna: „Nú dreg ég þá til ábyrgðar. Ungu mennirnir falla fyrir sverði+ og synir þeirra og dætur deyja úr hungri.+ 23 Enginn þeirra verður eftir því að ég leiði hörmungar yfir mennina frá Anatót+ árið sem þeir verða dregnir til ábyrgðar.“

12 Þú ert réttlátur, Jehóva,+ þegar ég kvarta við þig,

þegar ég tala við þig um mál sem varða réttvísi.

En hvers vegna gengur hinum illu allt í haginn+

og hvers vegna eru hinir svikulu áhyggjulausir?

 2 Þú gróðursettir þá og þeir hafa fest rætur,

þeir dafna og bera ávöxt.

Þú ert á vörum þeirra en víðs fjarri huga* þeirra.+

 3 En þú þekkir mig, Jehóva,+ og sérð mig.

Þú hefur rannsakað hjarta mitt og séð að það er heilt gagnvart þér.+

Skildu þá úr eins og sauði til slátrunar

og taktu þá frá fyrir drápsdaginn.

 4 Hve lengi á landið að visna

og gróður merkurinnar að skrælna?+

Skepnur og fuglar eru á bak og burt

vegna illsku þeirra sem búa þar.

Þeir segja: „Hann sér ekki hvað verður um okkur.“

 5 Ef þú þreytist af að hlaupa með fótgangandi mönnum,

hvernig geturðu þá keppt við hesta?+

Þú finnur til öryggis í friðsælu landi

en hvernig ætlarðu að fara að í þéttu kjarrinu meðfram Jórdan?

 6 Jafnvel bræður þínir, fjölskylda föður þíns,

hafa svikið þig.+

Þeir hafa öskrað á eftir þér.

Treystu þeim ekki

þótt þeir tali fallega við þig.

 7 „Ég hef yfirgefið húsið mitt,+ sagt skilið við eign mína.+

Ég hef selt mína heittelskuðu í hendur óvina hennar.+

 8 Eign mín er orðin eins og ljón í skógi,

hún öskrar gegn mér.

Þess vegna hata ég hana.

 9 Eign mín er eins og marglitur* ránfugl.

Hinir ránfuglarnir ráðast á hann úr öllum áttum.+

Komið, safnist saman, öll villt dýr merkurinnar,

komið og étið.+

10 Margir hirðar hafa eyðilagt víngarð minn,+

traðkað á landareign minni.+

Þeir hafa gert mína dýrmætu landareign að mannlausri eyðimörk.

11 Hún er orðin að auðn,

hún er skrælnuð*

og liggur í eyði frammi fyrir mér.+

Allt landið hefur verið lagt í eyði

en enginn lætur sig það varða.+

12 Eyðendurnir hafa farið um allar troðnar slóðir óbyggðanna

því að sverð Jehóva eyðir landið frá einum enda til annars.+

Enginn býr við frið.

13 Menn sáðu hveiti en uppskáru þyrna,+

þeir hafa unnið baki brotnu en til einskis.

Þeir munu skammast sín fyrir uppskeru sína

vegna brennandi reiði Jehóva.“

14 Jehóva segir: „Ég uppræti alla illa nágranna mína úr landi þeirra,+ þá sem snerta erfðalandið sem ég gaf þjóð minni, Ísrael,+ og ég uppræti Júdamenn sem eru á meðal þeirra. 15 En þegar ég hef upprætt þá sýni ég þeim aftur miskunn og leiði þá alla heim til erfðahlutar síns og lands.“

16 „Og ef þeir einsetja sér að læra siði þjóðar minnar og sverja við nafn mitt: ‚Svo sannarlega sem Jehóva lifir,‘ eins og þeir kenndu þjóð minni að sverja við Baal, þá munu þeir ná fótfestu meðal þjóðar minnar. 17 En ef einhver þjóð vill ekki hlýða uppræti ég hana fyrir fullt og allt og eyði henni,“ segir Jehóva.+

13 Jehóva sagði við mig: „Farðu og kauptu þér línbelti og bittu það um mittið en dýfðu því ekki í vatn.“ 2 Ég keypti því belti eins og Jehóva hafði sagt og batt það um mittið. 3 Þá kom orð Jehóva til mín í annað sinn: 4 „Taktu beltið sem þú keyptir og hefur um þig og leggðu af stað til Efrat. Feldu það þar í klettaskoru.“ 5 Ég fór þá og faldi það við Efrat eins og Jehóva hafði beðið mig um.

6 En löngu seinna* sagði Jehóva við mig: „Leggðu af stað til Efrat og sæktu beltið sem ég sagði þér að fela þar.“ 7 Ég fór þá að Efrat, gróf upp beltið og tók það þaðan sem ég hafði falið það. Ég sá að beltið var ónýtt, algerlega ónothæft.

8 Þá kom orð Jehóva til mín: 9 „Jehóva segir: ‚Á sama hátt mun ég eyða hroka Júda og hinum gífurlega hroka Jerúsalem.+ 10 Þessi vonda þjóð vill ekki hlýða mér+ heldur fylgir sínu þrjóska hjarta,+ eltir aðra guði, þjónar þeim og fellur fram fyrir þeim. Hún verður eins og þetta belti sem er algerlega ónothæft.‘ 11 ‚Eins og belti liggur þétt um mitti mannsins þannig lét ég alla Ísraelsmenn og alla Júdamenn bindast mér nánum böndum,‘ segir Jehóva. ‚Þeir áttu að vera fólk mitt,+ mér til frægðar, lofs og prýði.+ En þeir hlýddu ekki.‘+

12 Segðu við þá: ‚Jehóva Guð Ísraels segir: „Allar stórar krukkur skulu fylltar víni.“‘ Þeir munu svara þér: ‚Heldurðu að við vitum ekki að allar stórar krukkur eiga að vera fylltar víni?‘ 13 Segðu þá við þá: ‚Jehóva segir: „Ég ætla að fylla alla íbúa þessa lands svo að þeir verði drukknir,+ konungana sem sitja í hásæti Davíðs, prestana og spámennina og alla Jerúsalembúa. 14 Ég mölva þá hvern með öðrum, jafnt feður sem syni,“ segir Jehóva.+ „Ég mun hvorki finna til með þeim, vorkenna þeim né sýna þeim nokkra miskunn. Ekkert getur komið í veg fyrir að ég eyði þeim.“‘+

15 Hlustið og takið eftir.

Verið ekki hrokafull því að Jehóva hefur talað.

16 Gefið Jehóva Guði ykkar dýrðina

áður en hann lætur myrkrið færast yfir

og áður en þið hrasið í rökkrinu á fjöllunum.

Þið vonist eftir ljósi

en hann breytir því í niðdimmu,

gerir það að svartamyrkri.+

17 Ef þið hlustið ekki

mun ég gráta í leyni yfir hroka ykkar.

Ég mun fella mörg tár, já, augu mín munu flóa í tárum,+

því að hjörð Jehóva+ verður tekin til fanga.

18 Segðu við konunginn og konungsmóðurina:+ ‚Setjist í óæðri sæti

því að fögur kórónan mun falla af höfðum ykkar.‘

19 Borgirnar í suðri eru lokaðar* og enginn er til að opna þær.

Allir Júdamenn hafa verið fluttir í útlegð, fluttir burt allir sem einn.+

20 Líttu upp og sjáðu þá sem koma úr norðri.+

Hvar er hjörðin sem þér var gefin, fallegu sauðirnir?+

21 Hvað ætlarðu að segja þegar þú hlýtur refsingu

af hendi þeirra sem þú hefur alltaf talið nána vini þína?+

Færðu þá ekki hríðir eins og kona í barnsburði?+

22 Og þegar þú hugsar með þér: ‚Hvers vegna kemur þetta fyrir mig?‘+

þá skaltu vita að vegna þinnar miklu syndar hefur pilsið verið rifið af þér+

og hælar þínir þolað illa meðferð.

23 Getur Kúsíti* breytt húðlit sínum eða hlébarði blettum sínum?+

Ef svo væri gætuð þið líka gert gott,

þið sem hafið vanist að gera illt.

24 Þess vegna tvístra ég ykkur eins og stráum sem fjúka í eyðimerkurvindinum.+

25 Þetta er hlutskipti þitt, skammturinn sem ég hef úthlutað þér,“ segir Jehóva,

„af því að þú hefur gleymt mér+ og treystir lygum.+

26 Þess vegna lyfti ég pilsi þínu yfir andlit þitt

svo að blygðun þín verði bersýnileg,+

27 hjúskaparbrot þín+ og losti,*

þitt viðurstyggilega* vændi.

Ég hef séð hversu viðbjóðslega þú hegðar þér

á hæðunum og úti á víðavangi.+

Þú ert aumkunarverð, Jerúsalem!

Hve lengi ætlarðu að vera óhrein?“+

14 Þetta er orð Jehóva sem kom til Jeremía varðandi þurrkana:+

 2 Júda syrgir+ og borgarhliðin eru í niðurníðslu.

Þau falla til jarðar af sorg

og angistaróp stígur upp frá Jerúsalem.

 3 Húsbændur senda þjóna sína eftir vatni.

Þeir fara að vatnsþrónum en finna ekkert vatn.

Þeir snúa heim með tóm ílát,

skömmustulegir og vonsviknir,

og hylja höfuð sín.

 4 Jarðvegurinn er sprunginn

því að ekkert regn fellur í landinu.+

Bændurnir eru örvæntingarfullir og hylja höfuð sín.

 5 Jafnvel hindin í haganum yfirgefur nýborinn kálf sinn

því að hvergi er gras að finna.

 6 Villiasnar standa á gróðurlausum hæðunum.

Þeir eru móðir og másandi eins og sjakalar,

augu þeirra eru orðin sljó því að hvergi er gróður að finna.+

 7 Syndir okkar vitna gegn okkur

en láttu samt til þín taka vegna nafns þíns, Jehóva.+

Við höfum ítrekað verið þér ótrú+

og gegn þér höfum við syndgað.

 8 Þú sem ert von Ísraels, frelsari hans+ á neyðartímum,

af hverju ertu eins og útlendingur í landinu,

eins og ferðalangur sem gistir aðeins eina nótt?

 9 Hvers vegna ertu eins og stjarfur maður,

eins og stríðshetja sem engum getur bjargað?

Þú ert þó mitt á meðal okkar, Jehóva,+

og við berum nafn þitt.+

Yfirgefðu okkur ekki.

10 Jehóva segir um þessa þjóð: „Þeir hafa yndi af að reika um,+ þeir ráða ekki við fætur sína.+ Þess vegna hefur Jehóva enga velþóknun á þeim.+ Nú minnist hann afbrota þeirra og dregur þá til ábyrgðar fyrir syndir þeirra.“+

11 Síðan sagði Jehóva við mig: „Þú skalt ekki biðja um að þessu fólki vegni vel.+ 12 Þegar þeir fasta hlusta ég ekki á bænir þeirra+ og þegar þeir færa brennifórnir og kornfórnir hef ég enga ánægju af þeim.+ Ég mun útrýma þeim með sverði, hungursneyð og drepsótt.“*+

13 Þá sagði ég: „Æ, alvaldur Drottinn Jehóva! Spámennirnir segja við þá: ‚Þið munuð hvorki sjá sverð né hungursneyð heldur færi ég ykkur sannan frið á þessum stað.‘“+

14 Jehóva sagði þá við mig: „Spámennirnir fara með lygar í mínu nafni.+ Ég hef hvorki sent þá, gefið þeim fyrirmæli né talað til þeirra.+ Það sem þeir boða ykkur eru uppspunnar sýnir, gagnslausar spásagnir og blekkingar þeirra eigin hjartna.+ 15 Þess vegna segir Jehóva um spámennina sem spá í mínu nafni þótt ég hafi ekki sent þá, þá sem segja að hvorki sverð né hungursneyð muni herja á þetta land: ‚Sverð og hungursneyð verður þessum spámönnum að bana.+ 16 Og mönnunum sem hlusta á spár þeirra verður fleygt út á stræti Jerúsalem því að þeir falla úr hungri og fyrir sverði. Enginn jarðar þá+ – hvorki þá, konur þeirra, syni né dætur. Ég úthelli yfir þá þeirri ógæfu sem þeir verðskulda.‘+

17 Segðu við þá:

‚Augu mín skulu flóa í tárum dag og nótt, linnulaust,+

því að meyjan, dóttir þjóðar minnar, hefur orðið fyrir þungu höggi+

og hlotið alvarlega áverka.

18 Þegar ég fer út á bersvæði og litast um

sé ég þá sem hafa fallið fyrir sverði!+

Þegar ég kem inn í borgina

sé ég þá sem eru illa haldnir af hungri!+

Bæði spámennirnir og prestarnir reika um land sem þeir þekkja ekki.‘“+

19 Hefurðu hafnað Júda með öllu og hefurðu óbeit á Síon?+

Af hverju hefurðu slegið okkur af svo miklu afli að við komumst ekki aftur til heilsu?+

Við vonuðumst eftir friði en ekkert gott kom,

lækningartíma en skelfing hefur gripið um sig!+

20 Við játum illskuverk okkar, Jehóva,

og sekt forfeðra okkar.

Við höfum syndgað gegn þér.+

21 Hafnaðu okkur ekki vegna nafns þíns,+

fyrirlíttu ekki dýrlegt hásæti þitt.

Mundu eftir sáttmálanum sem þú gerðir við okkur og rjúfðu hann ekki.+

22 Geta nokkur af hinum einskis nýtu skurðgoðum þjóðanna gefið regn

eða getur himinninn sent regnskúrir af sjálfsdáðum?

Ert þú ekki sá eini sem getur það, Jehóva Guð okkar?+

Við setjum von okkar á þig

því að þú einn hefur gert þetta allt.

15 Þá sagði Jehóva við mig: „Jafnvel þótt Móse og Samúel stæðu frammi fyrir mér+ myndi ég ekki sýna þessu fólki miskunn. Rektu það burt frá mér svo að það fari. 2 Og ef það spyr þig: ‚Hvert eigum við að fara?‘ skaltu svara: ‚Þetta segir Jehóva:

„Til drepsóttar sá sem drepsóttinni er ætlaður!

Til sverðsins sá sem sverðinu er ætlaður!+

Til hungurs sá sem hungursneyðinni er ætlaður!

Til útlegðar sá sem útlegðinni er ætlaður!“‘+

3 ‚Ég leiði yfir þá ferns konar hörmungar,‘*+ segir Jehóva, ‚sverð til að drepa þá, hunda til að draga þá burt og fugla himins og dýr jarðar til að éta þá og gera að engu.+ 4 Ég læt öll ríki jarðar hrylla við þeim+ vegna þess sem Manasse Hiskíason Júdakonungur gerði í Jerúsalem.+

 5 Hver mun finna til með þér, Jerúsalem,

hver mun vorkenna þér

og hver staldrar við til að spyrja hvernig þú hafir það?‘

 6 ‚Þú hefur yfirgefið mig,‘ segir Jehóva,+

‚þú hefur snúið baki við mér.+

Þess vegna ætla ég að rétta út höndina gegn þér og eyða þér.+

Ég er orðinn þreyttur á að vorkenna þér.

 7 Ég kasta þeim í loft upp með varpkvísl í borgarhliðum landsins.

Ég geri fólk mitt barnlaust+

og eyði þjóð minni

því að hún vildi ekki snúa af sinni röngu braut.+

 8 Ekkjur hennar verða fleiri en sandkorn sjávarins.

Ég sendi eyðanda gegn mæðrum og ungum mönnum um hábjartan dag.

Á svipstundu leiði ég yfir þau angist og skelfingu.

 9 Sjö barna móðirin er máttfarin,

hún berst við að ná andanum.

Sól hennar er sest þótt enn sé dagur,

henni til smánar og svívirðu.‘*

‚Og þá fáu sem eftir eru

læt ég falla fyrir sverði óvina sinna,‘ segir Jehóva.“+

10 Æ, móðir mín, bara að þú hefðir aldrei fætt mig,+

mann sem á í deilum og þrætum við alla landsbúa.

Ég hef engum lánað né fengið nokkuð að láni

en samt bölva mér allir.

11 Jehóva sagði: „Ég mun styðja þig

og tala máli þínu við óvininn

á tíma neyðarinnar, þegar ógæfan skellur á.

12 Er hægt að mölva járn,

járn að norðan, og kopar?

13 Verðmæti þín og fjársjóði gef ég að herfangi,+

endurgjaldslaust, vegna allra þeirra synda sem þú hefur drýgt í öllum héruðum þínum.

14 Ég gef það óvinum þínum

og þeir flytja það til lands sem þú þekkir ekki+

því að reiði mín hefur kveikt bál

sem brennur gegn ykkur.“+

15 Þú veist þetta, Jehóva.

Minnstu mín og hjálpaðu mér.

Komdu fram hefndum á þeim sem ofsækja mig.+

Vertu ekki svo seinn til reiði að ég farist.*

Mundu að þín vegna er ég smánaður.+

16 Þegar orð þín komu til mín gleypti ég þau+

og orð þitt varð gleði og fögnuður hjarta míns

því að ég ber nafn þitt, Jehóva, Guð hersveitanna.

17 Ég sit ekki og gleðst með þeim sem skemmta sér.+

Ég sit einn því að hönd þín hvílir yfir mér

og þú hefur fyllt mig reiði.*+

18 Af hverju er þjáning mín varanleg og sár mitt ólæknandi?

Það vill ekki gróa.

Muntu reynast mér svikul lind

sem ekki er hægt að treysta á?

19 Þess vegna segir Jehóva:

„Ef þú snýrð við lækna ég þig

svo að þú haldir áfram að þjóna* mér.

Ef þú aðskilur hið dýrmæta frá hinu einskisverða

þá verður þú munnur* minn.

Þeir þurfa að snúa sér til þín

en þú þarft ekki að snúa þér til þeirra.“

20 „Ég geri þig að rammgerðum koparvegg gagnvart þessu fólki.+

Það mun vissulega berjast gegn þér

en ekki sigra þig+

því að ég er með þér til að bjarga þér og frelsa þig,“ segir Jehóva.

21 „Ég bjarga þér úr greipum illra manna

og frelsa þig úr höndum hinna miskunnarlausu.“

16 Orð Jehóva kom aftur til mín: 2 „Þú mátt ekki giftast og ekki eignast syni og dætur á þessum stað 3 því að þetta segir Jehóva um þá syni og dætur sem fæðast hér og um mæðurnar sem fæða þau og feðurna sem geta þau í þessu landi: 4 ‚Þau deyja úr banvænum sjúkdómum+ en enginn mun syrgja þau né jarða, þau verða eins og áburður fyrir jarðveginn.+ Þau falla fyrir sverði og deyja úr hungri+ og lík þeirra verða æti handa fuglum himins og dýrum jarðar.‘

 5 Jehóva segir:

‚Gakktu ekki inn í sorgarhús,

farðu ekki þangað til að gráta né sýna samúð‘+

‚því að ég hef tekið frið minn frá þessu fólki,‘ segir Jehóva,

‚og eins tryggan kærleika minn og miskunn.+

 6 Jafnt háir sem lágir munu deyja í þessu landi.

Þeir verða ekki jarðaðir,

enginn mun syrgja þá

og enginn skera sig né krúnuraka sig þeirra vegna.*

 7 Enginn færir syrgjendum mat

til að hugga þá vegna hinna látnu

og enginn réttir þeim huggunarbikar

til að drekka úr eftir föður- eða móðurmissinn.

 8 Þú skalt ekki heldur ganga inn í hús þar sem veisla er haldin

til að setjast með fólkinu og borða og drekka.‘

9 Því að þetta segir Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels: ‚Hér á þessum stað, á ykkar dögum og fyrir augum ykkar mun ég þagga niður í fagnaðar- og gleðihrópum, köllum brúðguma og brúðar.‘+

10 Þegar þú segir fólkinu allt þetta mun það spyrja þig: ‚Hvers vegna hefur Jehóva boðað okkur allar þessar miklu hörmungar? Hvað höfum við gert rangt og hvaða synd höfum við drýgt gegn Jehóva Guði okkar?‘+ 11 Þú skalt svara: ‚„Það er vegna þess að forfeður ykkar yfirgáfu mig,“+ segir Jehóva, „og fylgdu öðrum guðum, þjónuðu þeim og féllu fram fyrir þeim.+ En þeir yfirgáfu mig og héldu ekki lög mín.+ 12 Og þið hafið hegðað ykkur enn verr en forfeður ykkar.+ Hvert og eitt ykkar fylgir þrjósku síns illa hjarta í stað þess að hlýða mér.+ 13 Þess vegna ætla ég að fleygja ykkur úr þessu landi til lands sem hvorki þið né forfeður ykkar hafið þekkt.+ Þar verðið þið að þjóna öðrum guðum dag og nótt+ því að ég sýni ykkur enga miskunn.“‘

14 ‚En þeir dagar koma,‘ segir Jehóva, ‚þegar menn segja ekki lengur: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi!“+ 15 heldur: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem leiddi Ísraelsmenn út úr landinu í norðri og öllum þeim löndum sem hann hafði hrakið þá til!“ Ég mun leiða þá aftur til lands síns sem ég gaf forfeðrum þeirra.‘+

16 ‚Ég ætla að senda eftir mörgum fiskimönnum,‘ segir Jehóva,

‚og þeir munu veiða þá.

Síðan sendi ég eftir mörgum veiðimönnum

og þeir munu veiða þá á hverju fjalli og hverri hæð

og í klettaskorunum

17 því að ég hef auga með öllu sem þeir gera.*

Þeir geta ekki falið sig fyrir mér

og sekt þeirra er ekki hulin augum mínum.

18 Fyrst mun ég gjalda þeim að fullu fyrir sekt þeirra og synd+

því að þeir hafa vanhelgað land mitt með lífvana styttum sínum, viðbjóðslegum skurðgoðum sínum,*

og fyllt erfðaland mitt með viðurstyggðum sínum.‘“+

19 Jehóva, styrkur minn og vígi,

athvarf mitt á degi neyðarinnar,+

til þín munu þjóðirnar koma frá endimörkum jarðar

og segja: „Forfeður okkar fengu eintómar blekkingar í arf,

fánýti sem ekkert gagn er í.“+

20 Getur maðurinn gert sér guði?

Það væru engir guðir!+

21 „Þess vegna ætla ég að kenna þeim,

í þetta sinn sýni ég þeim styrk minn og mátt

og þeir munu vita að nafn mitt er Jehóva.“

17 „Synd Júdamanna er skráð með járngriffli.

Með demantsoddi er hún grafin í töflur hjartna þeirra

og á altarishorn þeirra.

 2 Synir þeirra muna eftir ölturum þeirra og helgistólpum*+

hjá laufmiklum trjám, á háu hæðunum,+

 3 á fjöllunum úti á landi.

Verðmæti þín, alla fjársjóði þína, gef ég að herfangi,+

já, fórnarhæðir þínar vegna þeirrar syndar sem þú hefur drýgt um öll héruð þín.+

 4 Þú munt láta af hendi erfðalandið sem ég gaf þér.+

Og ég læt þig þjóna óvinum þínum í landi sem þú þekkir ekki+

því að þú hefur tendrað reiði mína eins og eld*+

og hún brennur um alla eilífð.“

 5 Jehóva segir:

„Bölvaður er sá maður* sem setur traust sitt á menn,+

reiðir sig á mannlegan mátt+

og snýr hjarta sínu frá Jehóva.

 6 Hann verður eins og stakt tré í eyðimörkinni.

Hann upplifir aldrei neitt gott

heldur býr á skrælnuðum svæðum í óbyggðunum,

í söltu og ólífvænlegu landi.

 7 Blessaður er sá maður* sem setur traust sitt á Jehóva,

sem treystir algerlega á Jehóva.+

 8 Hann verður eins og tré gróðursett hjá vatni

og teygir rætur sínar að læknum.

Hann finnur ekki fyrir hitanum þegar hann kemur

og blöð hans eru sígræn.+

Í þurru árferði er hann áhyggjulaus

og ber ávöxt án afláts.

 9 Hjartað er svikulla en nokkuð annað og örvæntingarfullt.*+

Hver skilur það?

10 Ég, Jehóva, rannsaka hjartað,+

kanna innstu hugsanir mannsins,*

til að launa hverjum og einum eftir breytni hans,

eftir ávexti verka hans.+

11 Sá sem aflar illa fengins auðs+

er eins og akurhæna sem liggur á eggjum sem hún hefur ekki verpt.

Hann glatar honum á miðri ævi

og að lokum stendur hann uppi sem heimskingi.“

12 Hið dýrlega hásæti, hátt upp hafið frá upphafi,

er staður helgidóms okkar.+

13 Jehóva, von Ísraels,

allir sem yfirgefa þig verða sér til skammar.

Þeir sem snúa baki við þér* verða skráðir í duftið+

því að þeir hafa yfirgefið Jehóva, uppsprettu lifandi vatns.+

14 Læknaðu mig, Jehóva, svo að ég verði heill heilsu.

Hjálpaðu mér svo að ég bjargist+

því að þú ert sá sem ég lofa.

15 Fólk segir við mig:

„Hvað varð um orð Jehóva?+

Á það ekki að rætast?“

16 En ég hljópst ekki undan því að vera hirðir og fylgja þér

né þráði ég hörmungadaginn.

Þú veist hvað varir mínar hafa sagt,

ég sagði það allt fyrir augliti þínu.

17 Skelfdu mig ekki.

Þú ert athvarf mitt á ógæfudeginum.

18 Láttu þá sem ofsækja mig skammast sín+

en láttu mig ekki þurfa að skammast mín.

Láttu þá skelfast

en láttu mig ekki skelfast.

Sendu ógæfudaginn yfir þá,+

sundurmolaðu þá og gereyddu þeim.*

19 Jehóva sagði við mig: „Farðu og taktu þér stöðu í hliði þjóðarinnar sem Júdakonungar fara inn og út um, og í öllum borgarhliðum Jerúsalem.+ 20 Segðu við þá sem þar eru: ‚Heyrið orð Jehóva, þið Júdakonungar, allir Júdamenn og allir Jerúsalembúar sem gangið inn um þessi hlið. 21 Þetta segir Jehóva: „Gætið ykkar. Berið engar byrðar á hvíldardegi og komið ekki með þær inn um hlið Jerúsalem.+ 22 Þið megið ekki bera neinar byrðar út úr húsum ykkar á hvíldardegi og þið megið ekkert vinna.+ Haldið hvíldardaginn heilagan eins og ég fyrirskipaði forfeðrum ykkar.+ 23 En þeir lokuðu eyrunum og hlustuðu ekki. Þeir þrjóskuðust við og vildu hvorki hlýða né láta sér segjast.“‘+

24 ‚„En ef þið hlýðið mér í einu og öllu,“ segir Jehóva, „og berið engar byrðar inn um borgarhliðin á hvíldardegi heldur haldið hvíldardaginn heilagan með því að vinna ekkert þann dag+ 25 þá munu konungar og höfðingjar sem sitja í hásæti Davíðs+ koma inn um hlið þessarar borgar, akandi í vögnum og ríðandi á hestum, þeir og höfðingjar þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar.+ Og þessi borg verður byggð um alla eilífð. 26 Fólk mun koma úr borgum Júda, úr nágrenni Jerúsalem, frá Benjamínslandi,+ af láglendinu,+ frá fjalllendinu og frá Negeb.* Það mun koma með brennifórnir,+ sláturfórnir,+ kornfórnir,+ reykelsi og þakkarfórnir til húss Jehóva.+

27 En ef þið hlýðið ekki fyrirmælum mínum um að halda hvíldardaginn heilagan og berið byrðar inn um hlið Jerúsalem á hvíldardegi þá kveiki ég í hliðum hennar og eldurinn mun gleypa virkisturna Jerúsalem+ og ekki slokkna.“‘“+

18 Þetta er orðið sem kom til Jeremía frá Jehóva: 2 „Farðu niður í hús leirkerasmiðsins.+ Þar ætla ég að tala við þig.“

3 Þá fór ég niður í hús leirkerasmiðsins þar sem hann var að vinna við leirkerahjólið. 4 En kerið sem hann var að vinna úr leirnum misheppnaðist. Hann mótaði þá úr því nýtt ker eins og honum þótti best.

5 Þá kom orð Jehóva til mín: 6 „‚Get ég ekki farið með ykkur Ísraelsmenn eins og þessi leirkerasmiður?‘ segir Jehóva. ‚Þið Ísraelsmenn eruð í höndum mínum eins og leirinn í höndum leirkerasmiðsins.+ 7 Þegar ég segist ætla að uppræta, rífa niður og eyða þjóð eða ríki+ 8 en sú þjóð snýr af sinni illu braut sem ég fordæmdi, þá hætti ég við þær hörmungar* sem ég hafði ákveðið að leiða yfir hana.+ 9 Og þegar ég segist ætla að byggja upp og gróðursetja þjóð eða ríki 10 en hún gerir það sem er illt í augum mínum og hlýðir mér ekki, þá hætti ég við það góða* sem ég hafði ákveðið að gera fyrir hana.‘

11 Segðu nú við Júdamenn og Jerúsalembúa: ‚Þetta segir Jehóva: „Ég bý ykkur ógæfu* og legg á ráðin gegn ykkur. Snúið af ykkar vondu braut og bætið líferni ykkar og hegðun.“‘“+

12 En þeir sögðu: „Það er vonlaust!+ Við gerum eins og okkur sýnist og fylgjum okkar þrjóska og illa hjarta.“+

13 Þess vegna segir Jehóva:

„Spyrjist fyrir meðal þjóðanna.

Hefur nokkur heyrt annað eins?

Meyjan Ísrael hefur gert hræðilega hluti.+

14 Hverfur snjórinn af grýttum hlíðum Líbanons?

Eða þorna lækirnir svölu sem renna langar leiðir?

15 En þjóð mín hefur gleymt mér.+

Hún færir einskis nýtum skurðgoðum fórnir*+

svo að menn hrasa á vegum sínum, fornu brautunum,+

og ganga grýtta og torfæra* hliðarvegi.

16 Þess vegna verður landið að hryllilegum stað+

sem menn hæðast* að um alla framtíð.+

Hver einasti sem fer þar um verður skelfingu lostinn og hristir höfuðið.+

17 Ég mun tvístra þeim fyrir óvinunum eins og austanvindurinn,

snúa í þá bakinu en ekki andlitinu á hörmungadegi þeirra.“+

18 Menn sögðu: „Komið, leggjum á ráðin gegn Jeremía+ því að við munum alltaf hafa presta sem fræða okkur um lögin, spekinga til að gefa ráð og spámenn sem boða orð Guðs. Komið, ráðumst á hann með orðum* og hlustum ekki á það sem hann segir.“

19 Hlustaðu á mig, Jehóva,

og heyrðu hvað andstæðingar mínir segja.

20 Má launa gott með illu?

Þeir hafa grafið mér gryfju til að drepa mig.+

Mundu að ég stóð frammi fyrir þér og talaði vel um þá

til að snúa reiði þinni frá þeim.

21 Láttu því syni þeirra verða hungrinu að bráð

og gefðu þá sverðinu á vald.+

Gerðu konur þeirra að barnlausum ekkjum.+

Menn þeirra deyi úr drepsótt

og ungir menn þeirra falli fyrir sverði í bardaga.+

22 Láttu skelfingaróp heyrast úr húsum þeirra

þegar þú sigar ránsflokkum skyndilega á þá

því að þeir hafa grafið gryfju til að fanga mig

og lagt gildrur fyrir fætur mína.+

23 En þú, Jehóva,

þekkir allt ráðabrugg þeirra um að drepa mig.+

Fyrirgefðu ekki afbrot þeirra

og afmáðu ekki synd þeirra fyrir augum þínum.

Láttu þá hrasa frammi fyrir þér+

þegar þú lætur til skarar skríða gegn þeim í reiði þinni.+

19 Jehóva sagði: „Farðu og kauptu leirkrukku hjá leirkerasmiði.+ Taktu með þér nokkra af öldungum þjóðarinnar og nokkra af forystumönnum prestanna 2 og farðu út í Hinnomssonardal.+ Taktu þér stöðu við Leirbrotahliðið. Þar skaltu flytja þau orð sem ég tala til þín 3 og segja: ‚Heyrið orð Jehóva, þið Júdakonungar og Jerúsalembúar. Þetta segir Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels:

„Ég ætla að leiða slíka ógæfu yfir þennan stað að það mun óma í eyrum allra sem heyra um það. 4 Þetta geri ég af því að þeir hafa yfirgefið mig+ og gert þennan stað óþekkjanlegan.+ Hér færa þeir öðrum guðum fórnir, guðum sem hvorki þeir, forfeður þeirra né Júdakonungar höfðu áður þekkt, og þeir hafa fyllt þennan stað af blóði saklausra.+ 5 Þeir reistu Baalsfórnarhæðir til að brenna syni sína í eldi sem brennifórn handa Baal.+ Ég hafði hvorki sagt þeim að gera það né minnst á það og slíkt hvarflaði aldrei að mér.“‘+

6 ‚„Þess vegna koma þeir dagar,“ segir Jehóva, „þegar þessi staður verður ekki lengur kallaður Tófet eða Hinnomssonardalur heldur Drápsdalur.+ 7 Ég geri áform Júdamanna og Jerúsalembúa að engu á þessum stað. Ég læt þá falla fyrir sverði óvina sinna og fyrir hendi þeirra sem vilja drepa þá. Ég gef fuglum himins og dýrum jarðar lík þeirra að æti.+ 8 Ég geri þessa borg að hryllilegum stað sem menn hæðast* að. Hver einasti sem fer hér um verður skelfingu lostinn og hæðist að henni vegna allra hörmunga hennar.+ 9 Ég læt menn borða hold sona sinna og dætra. Þeir munu fyllast örvæntingu og borða hold hver annars þegar óvinir þeirra og þeir sem vilja drepa þá sitja um borgina og þrengja að þeim.“‘+

10 Síðan skaltu brjóta krukkuna fyrir augum mannanna sem fara með þér 11 og segja við þá: ‚Jehóva hersveitanna segir: „Svona mun ég brjóta þessa þjóð og þessa borg, eins og þegar leirker er brotið svo að ekki sé hægt að gera við það. Hinir látnu verða jarðaðir í Tófet þar til ekkert pláss er eftir til að jarða þá.“‘+

12 ‚Þannig fer ég með þennan stað og íbúa hans,‘ segir Jehóva, ‚svo að þessi borg verði eins og Tófet. 13 Húsin í Jerúsalem og hús Júdakonunga verða óhrein eins og þessi staður, Tófet,+ já, öll húsin þar sem öllum her himinsins voru færðar fórnir á þökunum+ og þar sem öðrum guðum voru færðar drykkjarfórnir.‘“+

14 Þegar Jeremía kom aftur frá Tófet, þangað sem Jehóva hafði sent hann til að spá, tók hann sér stöðu í forgarði húss Jehóva og sagði við allt fólkið: 15 „Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Ég ætla að leiða yfir þessa borg og alla bæi hennar alla þá ógæfu sem ég hef boðað henni því að íbúarnir hafa þrjóskast við og neitað að hlýða orðum mínum.‘“+

20 Pashúr Immersson, prestur og yfirumsjónarmaður í húsi Jehóva, heyrði Jeremía flytja þennan spádóm. 2 Þá sló Pashúr Jeremía spámann og setti hann síðan í gapastokkinn+ sem var hjá Efra-Benjamínshliði við hús Jehóva. 3 En þegar Pashúr sleppti Jeremía úr gapastokknum daginn eftir sagði Jeremía við hann:

„Jehóva kallar þig ekki Pashúr heldur ‚Skelfing allt um kring‘+ 4 því að Jehóva segir: ‚Ég geri þig og alla vini þína skelfingu lostna yfir því sem kemur fyrir þig og þú munt horfa á þá falla fyrir sverði óvina sinna.+ Ég gef alla Júdamenn í hendur Babýlonarkonungs. Hann mun flytja þá í útlegð til Babýlonar og drepa þá með sverði.+ 5 Ég gef allan auð þessarar borgar, allar eignir hennar og dýrgripi og alla fjársjóði Júdakonunga í hendur óvina þeirra.+ Þeir munu taka það herfangi og flytja til Babýlonar.+ 6 Og þú, Pashúr, verður herleiddur ásamt öllum sem búa í húsi þínu. Þú ferð til Babýlonar þar sem þú deyrð og verður grafinn ásamt öllum vinum þínum því að þú hefur boðað þeim lygar.‘“+

 7 Þú gabbaðir mig, Jehóva, og ég lét gabbast.

Þú beittir styrk þínum gegn mér og barst sigur úr býtum.+

Ég er hafður að athlægi allan liðlangan daginn,

allir gera grín að mér.+

 8 Í hvert skipti sem ég tala þarf ég að hrópa og kalla:

„Ofbeldi og eyðilegging!“

Orð Jehóva hefur orðið til þess að ég er hafður að háði og spotti daginn út og daginn inn.+

 9 Ég hugsaði með mér: „Ég ætla ekki að minnast á hann

og ég ætla aldrei aftur að tala í nafni hans.“+

En orð hans brann eins og eldur í hjarta mínu og læsti sig í bein mín.

Ég gat ekki streist á móti,

ég þoldi ekki lengur við.+

10 Ég heyrði að margir baktöluðu mig,

ógn steðjaði að mér úr öllum áttum.+

„Látum hann heyra það, látum hann heyra það!“

Allir sem þóttust vera vinir mínir biðu eftir að ég félli:+

„Kannski verða honum á heimskuleg mistök,

þá getum við yfirbugað hann og hefnt okkar á honum.“

11 En Jehóva var með mér eins og ógnvekjandi stríðskappi.+

Þess vegna hrasa þeir sem ofsækja mig og þeir yfirbuga mig ekki.+

Þeir verða sér til háborinnar skammar því að þeim tekst ekki það sem þeir ætla sér.

Þeir hljóta eilífa niðurlægingu sem gleymist aldrei.+

12 En þú, Jehóva hersveitanna, rannsakar hinn réttláta.

Þú sérð hjartað og innstu hugsanir mannsins.*+

Sýndu mér hefnd þína á þeim+

því að ég legg mál mitt í þínar hendur.+

13 Syngið fyrir Jehóva! Lofið Jehóva

því að hann hefur bjargað hinum fátæka úr höndum illmenna.

14 Bölvaður sé dagurinn þegar ég fæddist!

Dagurinn sem móðir mín fæddi mig sé ekki blessaður!+

15 Bölvaður sé maðurinn sem færði föður mínum gleðifréttirnar:

„Þú hefur eignast son!“

og gladdi hann ákaflega með því.

16 Sá maður verði eins og borgirnar sem Jehóva eyddi án nokkurrar eftirsjár.

Hann heyri neyðaróp að morgni og heróp um hádegi.

17 Hvers vegna lét hann mig ekki deyja í móðurkviði

svo að móðir mín yrði gröf mín

og yrði þunguð að eilífu?+

18 Hvers vegna þurfti ég að koma úr kviði hennar

til þess eins að sjá eymd og erfiðleika

og enda ævina í skömm?+

21 Orð Jehóva kom til Jeremía þegar Sedekía+ konungur sendi til hans Pashúr+ Malkíason og Sefanía+ Maasejason prest með þessa beiðni: 2 „Leitaðu ráða hjá Jehóva fyrir okkur því að Nebúkadnesar* konungur Babýlonar herjar á okkur.+ Kannski vinnur Jehóva eitt af sínum stórkostlegu kraftaverkum fyrir okkur svo að hann hörfi frá okkur.“+

3 Jeremía sagði við þá: „Skilið þessu til Sedekía: 4 ‚Jehóva Guð Ísraels segir: „Ég sný vopnunum í höndum ykkar gegn ykkur, þeim sem þið notið til að berjast við konung Babýlonar+ og Kaldeana sem eru fyrir utan múrana og sitja um ykkur. Ég ætla að safna þeim saman í miðri borginni. 5 Ég mun sjálfur berjast gegn ykkur+ með útréttri hendi og sterkum handlegg, með reiði, heift og mikilli bræði.+ 6 Ég mun slá íbúa þessarar borgar, bæði menn og skepnur. Þeir munu deyja úr skæðri drepsótt.“‘*+

7 ‚„Eftir það,“ segir Jehóva, „gef ég Sedekía Júdakonung, þjóna hans og íbúa þessarar borgar – þá sem lifa af drepsóttina, sverðið og hungursneyðina – í hendur Nebúkadnesars* Babýlonarkonungs, í hendur óvina þeirra og í hendur þeirra sem vilja drepa þá.+ Hann mun drepa þá með sverði og hvorki finna til með þeim, kenna í brjósti um þá né sýna þeim nokkra miskunn.“‘+

8 Og þú skalt segja þessu fólki: ‚Jehóva segir: „Ég legg fyrir ykkur veg lífsins og veg dauðans. 9 Þeir sem verða eftir í borginni falla fyrir sverði, hungursneyð og drepsótt. En allir sem fara út og gefast upp fyrir Kaldeunum sem sitja um ykkur munu halda lífi og fá líf sitt að herfangi.“‘*+

10 ‚„Ég hef snúið andliti mínu gegn þessari borg, henni til ógæfu en ekki til blessunar,“+ segir Jehóva. „Hún verður gefin í hendur Babýlonarkonungs+ sem brennir hana til grunna.“+

11 Til allra í húsi Júdakonungs: Heyrið orð Jehóva. 12 Þú ætt Davíðs, þetta segir Jehóva:

„Varðveitið réttlætið hvern morgun

og bjargið þeim sem er rændur úr höndum svikahrappsins+

svo að heift mín blossi ekki upp eins og eldur+

vegna illskuverka ykkar

og brenni eins og bál sem enginn getur slökkt.“‘+

13 ‚Ég snýst gegn þér, þú sem býrð í dalnum,*

þú sem ert klettur á sléttunni,‘ segir Jehóva.

‚Þið segið: „Hver getur ráðist á okkur?

Og hver getur ruðst inn í híbýli okkar?“

14 Ég dreg ykkur til ábyrgðar

fyrir það sem þið hafið gert,‘+ segir Jehóva.

‚Ég kveiki í skógi þínum

og eldurinn skal gleypa allt sem er í kringum þig.‘“+

22 Jehóva segir: „Farðu niður í höll* Júdakonungs og flyttu þennan boðskap: 2 ‚Hlustaðu á orð Jehóva, þú Júdakonungur sem situr í hásæti Davíðs, þú, þjónar þínir og fólk þitt, þeir sem ganga inn um þessi hlið. 3 Jehóva segir: „Varðveitið réttlæti og réttvísi og bjargið þeim sem er rændur úr höndum svikahrappsins. Farið ekki illa með útlendinga, föðurlaus börn* og ekkjur.+ Gerið þeim ekki mein og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað.+ 4 Ef þið farið vandlega eftir þessum fyrirmælum munu konungarnir sem sitja í hásæti Davíðs+ koma inn um hallarhliðin, akandi í vögnum og ríðandi á hestum, þeir ásamt þjónum sínum og fólki.“‘+

5 ‚En ef þið hlýðið ekki þessum fyrirmælum sver ég við sjálfan mig,‘ segir Jehóva, ‚að þessi höll verður lögð í rúst.‘+

6 Þetta segir Jehóva um höll Júdakonungs:

‚Þú ert mér sem Gíleað,

sem Líbanonstindur.

En ég geri þig að auðn,

enginn mun búa í borgum þínum.+

 7 Ég sendi* eyðendur gegn þér,

hvern með sín vopn.+

Þeir munu höggva niður bestu sedrustré þín

og kasta þeim á eld.+

8 Margar þjóðir munu fara fram hjá þessari borg og menn segja hver við annan: „Hvers vegna fór Jehóva svona með þessa miklu borg?“+ 9 Þeim verður svarað: „Fólkið sneri baki við sáttmála Jehóva Guðs síns, féll fram fyrir öðrum guðum og þjónaði þeim.“‘+

10 Grátið ekki hinn látna

og syrgið hann ekki.

Grátið miklu frekar þann sem fer burt

því að hann mun aldrei aftur snúa heim og sjá fæðingarland sitt.

11 Þetta segir Jehóva um Sallúm*+ Jósíason Júdakonung sem varð konungur eftir Jósía föður sinn+ og er farinn burt frá þessum stað: ‚Hann kemur hingað aldrei aftur 12 því að hann mun deyja á þeim stað, þangað sem hann var fluttur í útlegð. Hann mun aldrei framar sjá þetta land.‘+

13 Illa fer fyrir þeim sem byggir hús sitt með ranglæti

og loftstofur sínar með óréttlæti,

þeim sem lætur náunga sinn vinna kauplaust

og neitar að greiða honum laun.+

14 Hann segir: ‚Ég ætla að byggja mér stórt hús

með rúmgóðum loftstofum.

Ég set í það glugga,

þilja það með sedrusviði og mála það fagurrautt.‘

15 Ertu öruggur í sessi af því að þú notar meiri sedrusvið en aðrir?

Faðir þinn át líka og drakk

en hann stóð vörð um réttlæti og réttvísi+

og honum vegnaði vel.

16 Hann lét bágstadda og fátæka ná rétti sínum

og allt gekk vel.

‚Er það ekki að þekkja mig?‘ segir Jehóva.

17 ‚En augu þín og hjarta eru gagntekin af illa fengnu fé,

að úthella saklausu blóði

og svíkja og kúga.‘

18 Þess vegna segir Jehóva um Jójakím+ Jósíason Júdakonung:

‚Enginn mun syrgja hann og segja:

„Æ, bróðir minn! Æ, systir mín!“

Enginn mun syrgja hann og segja:

„Æ, herra! Æ, hans hátign!“

19 Hann verður grafinn eins og asni.+

Hann verður dreginn út fyrir borgarhlið Jerúsalem

og honum kastað burt.‘+

20 Farðu upp á Líbanon og hrópaðu,

brýndu raustina í Basan

og hrópaðu frá Abarím+

því að allir elskhugar þínir hafa verið molaðir sundur.+

21 Ég talaði til þín þegar allt virtist leika í lyndi.

En þú sagðir: ‚Ég vil ekki hlýða.‘+

Þannig hefurðu verið frá æsku,

þú hefur ekki hlýtt mér.+

22 Vindurinn mun feykja burt öllum hirðum þínum*+

og ástríðufullir elskhugar þínir fara í útlegð.

Þá muntu þola smán og niðurlægingu vegna allra hörmunganna sem þú verður fyrir.

23 Þú sem býrð á Líbanon+

og gerir þér hreiður í sedrustrjánum,+

þú munt kveina þegar þú færð hríðir

og kvelst eins og kona í barnsburði!“+

24 „‚Svo sannarlega sem ég lifi,‘ segir Jehóva, ‚þótt þú, Konja*+ Jójakímsson+ Júdakonungur, værir innsiglishringur á hægri hendi minni myndi ég rífa þig af! 25 Ég gef þig í hendur þeirra sem vilja drepa þig, í hendur þeirra sem þú óttast, í hendur Nebúkadnesars* Babýlonarkonungs og í hendur Kaldea.+ 26 Ég fleygi þér og móður þinni sem fæddi þig til annars lands, lands þar sem þið fæddust ekki, og þar munuð þið deyja. 27 Þið snúið aldrei aftur til landsins sem þið saknið svo sárt.+

28 Er þessi Konja bara fyrirlitlegt og brotið ker,

ílát sem enginn vill?

Hvers vegna er honum og afkomendum hans fleygt burt

og varpað til lands sem þeir þekkja ekki?‘+

29 Þú jörð,* jörð, jörð, heyrðu orð Jehóva.

30 Þetta segir Jehóva:

‚Skráið þennan mann barnlausan,

mann sem áorkar engu um ævina,*

því að enginn afkomenda hans

mun setjast í hásæti Davíðs og ríkja framar í Júda.‘“+

23 „Illa fer fyrir hirðunum sem tortíma og tvístra sauðunum á beitilandi mínu!“ segir Jehóva.+

2 Þess vegna segir Jehóva Guð Ísraels um hirðana sem gæta þjóðar hans: „Þið hafið tvístrað sauðum mínum. Þið hafið sundrað þeim en ekki annast þá.“+

„Þess vegna ætla ég að refsa ykkur fyrir illskuverk ykkar,“ segir Jehóva.

3 „Síðan safna ég saman þeim sem eftir eru af sauðum mínum frá öllum þeim löndum sem ég hef tvístrað þeim til.+ Ég leiði þá aftur á beitiland þeirra+ og þeir verða frjósamir og þeim fjölgar.+ 4 Ég set hirða yfir þá og þeir munu gæta þeirra vel.+ Þeir verða ekki framar hræddir né óttaslegnir og engan þeirra mun vanta,“ segir Jehóva.

5 „Þeir dagar koma,“ segir Jehóva, „þegar ég læt réttlátan sprota* vaxa af ætt Davíðs.+ Konungur mun ríkja+ með skynsemi og standa vörð um réttlæti og réttvísi í landinu.+ 6 Á hans dögum verður Júda bjargað+ og Ísrael mun búa við öryggi.+ Þetta er nafnið sem honum verður gefið: ‚Jehóva er réttlæti okkar.‘“+

7 „Þeir dagar munu því koma,“ segir Jehóva, „þegar menn segja ekki lengur: ‚Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi!‘+ 8 heldur: ‚Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem leiddi afkomendur Ísraelsmanna út úr landinu í norðri og öllum þeim löndum sem hann hafði hrakið þá til og flutti þá heim!‘ Þeir munu búa í sínu eigin landi.“+

9 Um spámennina:

Hjartað í brjósti mér er brostið.

Öll bein mín skjálfa.

Ég er eins og drukkinn maður,

eins og maður sem er bugaður af víndrykkju

vegna Jehóva og vegna hans heilögu orða.

10 Landið er fullt af ótrúum mönnum,*+

landið syrgir vegna bölvunarinnar+

og beitilönd óbyggðanna eru skrælnuð.+

Þeir ganga illskunnar braut og misbeita valdi sínu.

11 „Bæði spámenn og prestar eru spilltir.*+

Jafnvel í húsi mínu hef ég horft upp á illsku þeirra,“+ segir Jehóva.

12 „Þess vegna verður gata þeirra hál og dimm,+

þeim verður hrint svo að þeir falla

því að ég leiði ógæfu yfir þá

á ári uppgjörsins,“ segir Jehóva.

13 „Ég sá spámenn Samaríu+ hegða sér á andstyggilegan hátt.

Þeir spáðu í nafni Baals

og afvegaleiddu þjóð mína, Ísrael.

14 Og ég hef séð spámenn Jerúsalem gera hryllilega hluti.

Þeir fremja hjúskaparbrot+ og fara með eintómar lygar.+

Þeir styðja þá* sem fremja illskuverk

og þeir snúa sér ekki frá illsku sinni.

Fyrir mér eru þeir allir eins og Sódóma+

og íbúarnir eins og Gómorra.“+

15 Þess vegna segir Jehóva hersveitanna um spámennina:

„Ég gef þeim malurt að borða

og eitrað vatn að drekka+

því að frá spámönnum Jerúsalem hefur fráhvarf breiðst út um allt landið.“

16 Jehóva hersveitanna segir:

„Hlustið ekki á það sem spámennirnir segja ykkur.+

Þeir villa um fyrir ykkur.*

Sýnirnar sem þeir segja frá eru sprottnar úr þeirra eigin hjarta+

en ekki munni Jehóva.+

17 Þeir segja æ ofan í æ við þá sem fyrirlíta mig:

‚Jehóva segir: „Þið munuð njóta friðar.“‘+

Og við alla sem fylgja sínu þrjóska hjarta segja þeir:

‚Engin ógæfa kemur yfir ykkur.‘+

18 Hver hefur verið í innsta hring Jehóva

og séð og heyrt orð hans?

Hver hefur lagt við hlustir til að heyra orð hans?

19 Stormur Jehóva, reiði hans, brýst fram,

hann þyrlast yfir höfuð hinna illu eins og hvirfilbylur.+

20 Reiði Jehóva linnir ekki

fyrr en hann hefur framfylgt áformum hjarta síns og komið þeim til leiðar.

Þið munuð skilja það til fulls á síðustu dögum.

21 Ég sendi ekki spámennina en samt hlupu þeir af stað.

Ég talaði ekki til þeirra en samt spáðu þeir.+

22 En hefðu þeir verið í mínum innsta hring

hefðu þeir flutt þjóð minni orð mín

og beint henni af illskubrautinni, snúið henni frá vondum verkum sínum.“+

23 „Er ég aðeins Guð þegar ég er nálægur?“ segir Jehóva. „Er ég ekki líka Guð þegar ég er langt í burtu?“

24 „Getur nokkur maður falið sig þar sem ég sé hann ekki?“+ spyr Jehóva.

„Fylli ég ekki bæði himin og jörð?“+ spyr Jehóva.

25 „Ég hef heyrt hvað spámennirnir sem boða lygar í mínu nafni segja: ‚Mig dreymdi draum! Mig dreymdi draum!‘+ 26 Hve lengi ætla spámennirnir að halda áfram að fara með lygar? Spár þeirra eru blekkingar þeirra eigin hjartna.+ 27 Þeir reyna að fá fólk mitt til að gleyma nafni mínu með draumunum sem þeir segja hver öðrum, alveg eins og feður þeirra gleymdu nafni mínu vegna Baals.+ 28 Sá spámaður sem dreymir draum skal segja drauminn en sá sem hefur orð mitt skal vera sannorður þegar hann flytur það.“

„Hvað er sameiginlegt með strái og korni?“ segir Jehóva.

29 „Er ekki orð mitt eins og eldur,“+ segir Jehóva, „og eins og sleggja sem mölvar klettinn?“+

30 „Þess vegna snýst ég gegn spámönnunum,“ segir Jehóva, „sem stela orðum mínum hver frá öðrum.“+

31 „Ég snýst gegn spámönnunum,“ segir Jehóva, „sem segja með tungu sinni: ‚Þetta segir hann!‘“+

32 „Ég snýst gegn spámönnunum sem segja uppspunna drauma,“ segir Jehóva, „og afvegaleiða fólk mitt með lygum sínum og gorti.“+

„Ég sendi þá ekki og gaf þeim engin fyrirmæli. Þess vegna gera þeir fólkinu ekkert gagn,“+ segir Jehóva.

33 „Þegar þetta fólk, einhver spámaður eða prestur spyr þig: ‚Hver er byrði* Jehóva?‘ skaltu svara: ‚„Þið eruð byrðin! Og ég fleygi ykkur af mér,“+ segir Jehóva.‘ 34 Ef spámaður eða prestur eða einhver af þessu fólki segir: ‚Þetta er byrði* Jehóva!‘ þá snýst ég gegn þeim manni og fjölskyldu hans. 35 Hver og einn ykkar spyr náunga sinn og bróður: ‚Hverju hefur Jehóva svarað? Og hvað hefur Jehóva sagt?‘ 36 En þið skuluð aldrei aftur minnast á byrði* Jehóva því að byrðin er ykkar eigin orð og þið hafið afbakað orð hins lifandi Guðs, Jehóva hersveitanna, Guðs okkar.

37 Segðu við spámanninn: ‚Hvaða svar hefur Jehóva gefið þér? Og hvað hefur Jehóva sagt? 38 En ef þið haldið áfram að segja: „Byrði* Jehóva!“ þá segir Jehóva: „Þið segið: ‚Þessi orð eru byrði Jehóva,‘ þótt ég hafi bannað ykkur að segja: ‚Byrði Jehóva!‘ 39 Þess vegna lyfti ég ykkur upp og fleygi ykkur burt frá mér og sömuleiðis borginni sem ég gaf ykkur og forfeðrum ykkar. 40 Ég leiði yfir ykkur eilífa smán og eilífa niðurlægingu sem mun aldrei gleymast.“‘“+

24 Jehóva sýndi mér tvær körfur með fíkjum sem stóðu fyrir framan musteri Jehóva. Þetta gerðist eftir að Nebúkadnesar* konungur Babýlonar hafði flutt Jekonja*+ Jójakímsson+ Júdakonung í útlegð ásamt höfðingjum Júda, handverksmönnum og málmsmiðum.* Hann flutti þá frá Jerúsalem til Babýlonar.+ 2 Í annarri körfunni voru mjög góðar fíkjur sem líktust snemmþroska fíkjum en í hinni körfunni voru mjög vondar fíkjur, svo vondar að þær voru óætar.

3 Jehóva spurði mig: „Hvað sérðu, Jeremía?“ Ég svaraði: „Fíkjur. Góðu fíkjurnar eru mjög góðar en þær vondu eru mjög vondar, svo vondar að þær eru óætar.“+

4 Þá kom orð Jehóva til mín: 5 „Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Útlagarnir frá Júda, sem ég hef sent burt frá þessum stað til lands Kaldea, eru eins og þessar góðu fíkjur. Ég lít á þá með velþóknun. 6 Ég vaki yfir þeim, þeim til góðs, og leiði þá aftur til þessa lands.+ Ég byggi þá upp og ríf þá ekki niður. Ég gróðurset þá og ríf þá ekki upp með rótum.+ 7 Ég gef þeim hjarta sem vill þekkja mig, að ég er Jehóva.+ Þeir verða fólk mitt og ég verð Guð þeirra+ því að þeir munu snúa sér til mín af öllu hjarta.+

8 En þetta segir Jehóva um vondu fíkjurnar sem eru svo vondar að þær eru óætar:+ „Þannig lít ég á Sedekía+ Júdakonung, höfðingja hans og þá sem eftir eru af Jerúsalembúum, bæði þá sem eru enn í þessu landi og þá sem búa í Egyptalandi.+ 9 Ég leiði slíkar hörmungar yfir þá að öll ríki jarðar hryllir við þeim.+ Þeir verða smánaðir, hafðir að máltæki og menn munu gera gys að þeim og bölva þeim+ á öllum þeim stöðum sem ég tvístra þeim til.+ 10 Ég sendi sverð,+ hungursneyð og drepsótt* gegn þeim+ þar til þeim hefur verið útrýmt úr landinu sem ég gaf þeim og forfeðrum þeirra.“‘“

25 Þetta er orðið sem kom til Jeremía varðandi alla Júdamenn á fjórða stjórnarári Jójakíms+ Jósíasonar Júdakonungs, en það var fyrsta stjórnarár Nebúkadnesars* Babýlonarkonungs. 2 Jeremía spámaður sagði um* alla Júdamenn og alla Jerúsalembúa:

3 „Frá 13. stjórnarári Jósía+ Amónssonar Júdakonungs og til þessa dags, í 23 ár, hefur orð Jehóva komið til mín. Ég hef talað til ykkar hvað eftir annað* en þið hlustuðuð ekki.+ 4 Og Jehóva sendi alla þjóna sína, spámennina, til ykkar. Hann sendi þá hvað eftir annað* en þið lokuðuð eyrunum og hlustuðuð ekki.+ 5 Þeir sögðu: ‚Snúið ykkur, hvert og eitt, af ykkar illu braut og frá ykkar vondu verkum.+ Þá munuð þið búa lengi í landinu sem Jehóva gaf ykkur og forfeðrum ykkar endur fyrir löngu. 6 Eltið ekki aðra guði, þjónið þeim ekki og fallið ekki fram fyrir þeim. Misbjóðið mér ekki með handaverkum ykkar svo að ég leiði ekki ógæfu yfir ykkur.‘

7 ‚En þið hlustuðuð ekki á mig,‘ segir Jehóva, ‚heldur misbuðuð mér með handaverkum ykkar, sjálfum ykkur til ógæfu.‘+

8 Þess vegna segir Jehóva hersveitanna: ‚„Af því að þið hlýdduð ekki orðum mínum 9 mun ég senda eftir öllum ættkvíslum norðursins,“+ segir Jehóva, „og eftir þjóni mínum, Nebúkadnesari* Babýlonarkonungi.+ Ég sendi þá gegn þessu landi,+ íbúum þess og öllum þjóðunum í kring.+ Ég helga þá eyðingu* og geri þá að eilífum rústum sem fólk hryllir við og hæðist* að. 10 Ég þagga niður í fagnaðarlátum þeirra og gleðihrópum,+ köllum brúðguma og brúðar+ og hljóðinu frá handkvörninni og slekk ljós lampans. 11 Allt landið verður rústir einar og hryllilegur staður, og þessar þjóðir verða að þjóna konungi Babýlonar í 70 ár.“‘+

12 ‚En þegar 70 ár eru liðin+ dreg ég Babýlonarkonung og þjóð hans til ábyrgðar* fyrir synd þeirra,‘+ segir Jehóva, ‚og ég geri land Kaldea að mannlausri auðn um alla eilífð.+ 13 Ég læt allt rætast sem ég hef talað gegn þessu landi, allt sem Jeremía hefur spáð um allar þjóðir og er skráð í þessari bók. 14 Margar þjóðir og voldugir konungar+ munu gera þá að þrælum+ og ég mun gjalda þeim fyrir breytni þeirra og verk handa þeirra.‘“+

15 Jehóva Guð Ísraels sagði við mig: „Taktu þennan bikar með reiðivíni sem ég rétti þér og láttu allar þjóðirnar sem ég sendi þig til drekka það. 16 Þær munu drekka og skjögra og láta eins og vitfirringar vegna sverðsins sem ég sendi gegn þeim.“+

17 Þá tók ég við bikarnum sem Jehóva rétti mér og lét allar þjóðirnar sem Jehóva sendi mig til drekka:+ 18 Ég byrjaði á Jerúsalem og borgunum í Júda,+ konungum hennar og höfðingjum, svo að þær yrðu að rústum, stað sem fólk hryllir við, hæðist að og nefnir í bölbænum sínum+ eins og nú er tilfellið. 19 Síðan sneri ég mér að faraó Egyptalandskonungi, þjónum hans og höfðingjum og öllu hans fólki+ 20 og öllum útlendingunum sem búa meðal þeirra; öllum konungunum í Úslandi; öllum konungunum í landi Filistea,+ í Askalon,+ Gasa og Ekron og konungi þeirra sem eftir eru í Asdód; 21 Edómítum,+ Móabítum+ og Ammónítum;+ 22 öllum konungum Týrusar, öllum konungum Sídonar+ og konungum eyjunnar í hafinu; 23 Dedan,+ Tema, Bús og öllum sem hafa hárið skorið við gagnaugun;+ 24 öllum konungum Araba+ og öllum konungum hinna ólíku þjóða sem búa í óbyggðunum; 25 öllum konungunum í Simrí, öllum konungunum í Elam+ og öllum konungum Meda;+ 26 öllum konungunum í norðri, bæði nær og fjær, hverjum á eftir öðrum, og öllum öðrum konungsríkjum jarðar. En konungurinn í Sesak*+ mun drekka á eftir þeim.

27 „Þú skalt segja við þá: ‚Þetta segir Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels: „Drekkið ykkur drukkna þar til þið ælið og dettið og getið ekki staðið upp aftur+ vegna sverðsins sem ég sendi gegn ykkur.“‘ 28 En ef þeir neita að taka við bikarnum sem þú réttir þeim til að drekka skaltu segja við þá: ‚Þetta segir Jehóva hersveitanna: „Þið verðið að drekka! 29 Ég byrja á því að leiða ógæfu yfir borgina sem er kennd við nafn mitt.+ Hvers vegna ættuð þið þá að sleppa við refsingu?“‘+

‚Þið sleppið ekki við refsingu því að ég kalla út sverð gegn öllum íbúum jarðar,‘ segir Jehóva hersveitanna.

30 Þú skalt flytja þeim öll þessi spádómsorð og segja:

‚Frá hæðum öskrar Jehóva

og frá sínum heilaga bústað lætur hann rödd sína heyrast.

Hann öskrar hátt gegn heimkynnum sínum.

Hann hrópar eins og þeir sem troða vínber,

syngur sigursöng yfir öllum íbúum jarðar.‘

31 ‚Hávaðinn berst til endimarka jarðar

því að Jehóva sækir þjóðirnar til saka.

Hann fellir sjálfur dóm yfir öllum mönnum*+

og lætur hina illu verða sverðinu að bráð,‘ segir Jehóva.

32 Þetta segir Jehóva hersveitanna:

‚Sjáið! Ógæfa berst frá einni þjóð til annarrar+

og öflugur stormur brýst fram frá fjarlægustu stöðum jarðar.+

33 Þeir sem Jehóva fellir þann dag munu liggja frá einum enda jarðar til annars. Enginn mun syrgja þá, safna þeim saman né jarða þá. Þeir verða að áburði fyrir jarðveginn.‘

34 Æpið, þið hirðar, og kveinið!

Veltið ykkur í öskunni, þið leiðtogar hjarðarinnar,

því að tíminn er kominn að ykkur verði slátrað og tvístrað.

Þið fallið um koll eins og verðmætt ker!

35 Hirðarnir geta hvergi flúið

og leiðtogar hjarðarinnar eiga sér enga undankomuleið.

36 Heyrið hvernig hirðarnir kveina

og leiðtogar hjarðarinnar æpa

því að Jehóva eyðileggur beitiland þeirra.

37 Allt líf er horfið frá hinum friðsælu heimkynnum

vegna brennandi reiði Jehóva.

38 Hann er kominn út úr bæli sínu eins og ljón*+

og land þeirra er orðið að hryllilegum stað

vegna sverðsins sem engum hlífir

og vegna brennandi reiði hans.“

26 Í upphafi stjórnar Jójakíms+ Jósíasonar Júdakonungs kom þetta orð frá Jehóva: 2 „Jehóva segir: ‚Taktu þér stöðu í forgarði húss Jehóva og talaðu til allra* sem koma frá borgum Júda til að tilbiðja* í húsi Jehóva. Segðu þeim allt sem ég fel þér og dragðu ekkert undan. 3 Kannski hlusta þeir og snúa hver og einn af sinni illu braut. Þá hætti ég við þær hörmungar* sem ég hef ákveðið að leiða yfir þá vegna illskuverka þeirra.+ 4 Segðu við þá: „Þetta segir Jehóva: ‚Ef þið hlustið ekki á mig og fylgið ekki lögum mínum* sem ég hef lagt fyrir ykkur 5 og hlustið ekki á orð þjóna minna, spámannanna, sem ég hef sent til ykkar hvað eftir annað en þið hlustuðuð ekki á,+ 6 þá fer ég með þetta hús eins og Síló+ og þessi borg verður nefnd í bölbænum allra þjóða jarðar.‘“‘“+

7 Prestarnir og spámennirnir og allt fólkið heyrði Jeremía flytja þessi orð í húsi Jehóva.+ 8 Þegar Jeremía hafði lokið við að flytja öllu fólkinu allt sem Jehóva hafði falið honum gripu prestarnir, spámennirnir og fólkið hann og sögðu: „Þú skalt deyja. 9 Hvers vegna hefurðu spáð í nafni Jehóva og sagt: ‚Þetta hús verður eins og Síló og þessi borg verður lögð í rúst og enginn mun búa þar‘?“ Og allt fólkið þyrptist í kringum Jeremía í húsi Jehóva.

10 Þegar höfðingjar Júda heyrðu þetta komu þeir frá konungshöllinni* upp til húss Jehóva og settust þar sem gengið er inn um nýja hliðið að húsi Jehóva.+ 11 Prestarnir og spámennirnir sögðu við höfðingjana og allt fólkið: „Þessi maður á dauðarefsingu skilið+ því að hann hefur spáð gegn þessari borg eins og þið hafið heyrt með eigin eyrum.“+

12 Þá sagði Jeremía við alla höfðingjana og allt fólkið: „Jehóva sendi mig til að flytja öll þau spádómsorð sem þið hafið heyrt, gegn þessu húsi og þessari borg.+ 13 Bætið nú líferni ykkar og hegðun og hlýðið Jehóva Guði ykkar. Þá hættir Jehóva við hörmungarnar* sem hann hefur boðað ykkur.+ 14 En ég er á ykkar valdi. Farið með mig eins og ykkur þykir gott og rétt. 15 En þið skuluð vita fyrir víst að ef þið takið mig af lífi kallið þið saklaust blóð yfir ykkur og yfir þessa borg og íbúa hennar því að það er dagsatt að Jehóva hefur sent mig til ykkar til að flytja ykkur öll þessi orð.“

16 Þá sögðu höfðingjarnir og allt fólkið við prestana og spámennina: „Þessi maður á ekki skilið dauðarefsingu því að hann hefur talað til okkar í nafni Jehóva Guðs okkar.“

17 Því næst stigu nokkrir af öldungum landsins fram og sögðu við allt fólkið sem var samankomið: 18 „Míka+ frá Móreset spáði á dögum Hiskía,+ konungs í Júda. Hann sagði við alla Júdamenn: ‚Þetta segir Jehóva hersveitanna:

„Síon verður plægð eins og akur,

Jerúsalem verður rústir einar+

og musterisfjallið eins og skógi vaxnar hæðir.“‘+

19 Létu Hiskía Júdakonungur og allir Júdamenn taka hann af lífi? Óttaðist hann ekki Jehóva og sárbændi Jehóva um miskunn* svo að Jehóva hætti við hörmungarnar* sem hann hafði boðað þeim?+ Við erum í þann mund að kalla yfir okkur miklar hörmungar.

20 Annar maður sem spáði einnig í nafni Jehóva var Úría Semajason frá Kirjat Jearím.+ Hann spáði gegn þessari borg og gegn þessu landi á sama hátt og Jeremía. 21 Jójakím+ konungur og allir stríðskappar hans og höfðingjar heyrðu orð hans og konungurinn vildi taka hann af lífi.+ Þegar Úría frétti það varð hann hræddur og flúði til Egyptalands. 22 Jójakím konungur sendi þá Elnatan+ Akbórsson til Egyptalands ásamt nokkrum öðrum mönnum. 23 Þeir fluttu Úría frá Egyptalandi og fóru með hann til Jójakíms konungs sem drap hann með sverði+ og fleygði líkinu í grafreit almúgans.“

24 En Ahíkam+ Safansson+ studdi Jeremía svo að hann var ekki framseldur fólkinu sem vildi drepa hann.+

27 Í upphafi stjórnar Jójakíms* Jósíasonar Júdakonungs kom þetta orð til Jeremía frá Jehóva: 2 „Jehóva sagði við mig: ‚Gerðu þér reipi og ok og leggðu á háls þinn. 3 Sendu þau síðan konunginum í Edóm,+ konunginum í Móab,+ konungi Ammóníta,+ konunginum í Týrus+ og konunginum í Sídon+ með sendiboðunum sem eru komnir til Sedekía Júdakonungs í Jerúsalem. 4 Segðu þeim að flytja húsbændum sínum þessi fyrirmæli:

„Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir að þið skuluð flytja húsbændum ykkar þessi skilaboð: 5 ‚Ég er sá sem skapaði jörðina, mennina og dýrin á jörðinni með mínum mikla mætti og útréttum handlegg, og ég gef það hverjum sem ég vil.+ 6 Nú hef ég gefið öll þessi lönd í hendur þjóns míns, Nebúkadnesars+ Babýlonarkonungs. Ég hef jafnvel gefið honum villt dýr merkurinnar til að þau þjóni honum. 7 Allar þjóðir munu þjóna honum, syni hans og sonarsyni þar til tími hans eigin lands rennur upp+ og margar þjóðir og voldugir konungar gera hann að þræli sínum.‘+

8 ‚Ef nokkur þjóð eða ríki neitar að þjóna Nebúkadnesari Babýlonarkonungi og beygja háls sinn undir ok hans mun ég refsa þeirri þjóð með sverði,+ hungursneyð og drepsótt,‘* segir Jehóva, ‚þar til ég hef gereytt henni með hendi hans.‘

9 ‚Hlustið því ekki á spámenn ykkar, spásagnarmenn, draumamenn, galdramenn og særingamenn sem segja við ykkur: „Þið munuð ekki þjóna konungi Babýlonar.“ 10 Þeir boða ykkur lygar og þess vegna verðið þið flutt burt, langt frá landi ykkar. Ég tvístra ykkur svo að þið farist.

11 En þeirri þjóð sem beygir háls sinn undir ok Babýlonarkonungs og þjónar honum leyfi ég að vera um kyrrt* í landi sínu,‘ segir Jehóva, ‚til að rækta það og búa í því.‘“‘“

12 Ég sagði það sama við Sedekía+ Júdakonung: „Beygið háls ykkar undir ok Babýlonarkonungs. Þjónið honum og þjóð hans, þá munuð þið halda lífi.+ 13 Hvers vegna ættir þú og þjóð þín að falla fyrir sverði,+ hungursneyð+ og drepsótt+ eins og Jehóva hefur boðað þeirri þjóð sem vill ekki þjóna Babýlonarkonungi? 14 Hlustið ekki á orð spámannanna sem segja við ykkur: ‚Þið munuð ekki þjóna konungi Babýlonar,‘+ því að þeir boða ykkur lygar.+

15 ‚Ég hef ekki sent þá,‘ segir Jehóva. ‚Þeir fara með lygar í mínu nafni og það leiðir til þess að ég tvístra ykkur svo að þið farist ásamt spámönnunum sem spá fyrir ykkur.‘“+

16 Og við prestana og allt þetta fólk sagði ég: „Jehóva segir: ‚Hlustið ekki á orð spámanna ykkar sem spá fyrir ykkur og segja: „Sjáið til. Áhöldin úr húsi Jehóva verða mjög fljótlega flutt hingað aftur frá Babýlon!“+ Þeir boða ykkur lygar.+ 17 Hlustið ekki á þá. Þjónið konungi Babýlonar svo að þið haldið lífi.+ Hvers vegna ætti þessi borg að leggjast í rúst? 18 En ef þeir eru spámenn og ef orð Jehóva er hjá þeim ættu þeir að biðja Jehóva hersveitanna að þau áhöld sem eftir eru í húsi Jehóva, í höll* Júdakonungs og í Jerúsalem verði ekki flutt burt til Babýlonar.‘

19 Jehóva hersveitanna segir um súlurnar,+ hafið,*+ vagnana+ og áhöldin sem eftir eru í þessari borg, 20 þau sem Nebúkadnesar Babýlonarkonungur tók ekki þegar hann flutti Jekonja Jójakímsson Júdakonung í útlegð frá Jerúsalem til Babýlonar ásamt öllu tignarfólkinu í Júda og Jerúsalem,+ 21 já, Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir um áhöldin sem eftir eru í húsi Jehóva, í höll* Júdakonungs og í Jerúsalem: 22 ‚„Til Babýlonar verða þau flutt+ og þar verða þau til þess dags þegar ég sný mér að þeim,“ segir Jehóva. „Þá sæki ég þau og flyt þau aftur á þennan stað.“‘“+

28 Þetta sama ár, í upphafi stjórnar Sedekía+ Júdakonungs, í fimmta mánuði fjórða ársins, kom Hananja Assúrsson, spámaður frá Gíbeon,+ að máli við mig í húsi Jehóva og sagði við mig í viðurvist prestanna og alls fólksins: 2 „Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Ég brýt ok Babýlonarkonungs.+ 3 Áður en tvö ár eru liðin flyt ég hingað aftur öll áhöldin úr húsi Jehóva sem Nebúkadnesar Babýlonarkonungur tók héðan og flutti til Babýlonar.‘+ 4 ‚Ég flyt líka Jekonja+ Jójakímsson+ Júdakonung aftur hingað og alla útlagana frá Júda sem eru farnir til Babýlonar,‘+ segir Jehóva, ‚því að ég brýt ok Babýlonarkonungs.‘“

5 Jeremía spámaður svaraði Hananja spámanni í viðurvist prestanna og alls fólksins sem stóð í húsi Jehóva. 6 Jeremía spámaður sagði: „Amen!* Vonandi gerir Jehóva þetta. Jehóva láti spádóm þinn rætast og flytji áhöldin úr húsi Jehóva og alla útlagana aftur hingað frá Babýlon. 7 En hlustaðu nú á það sem ég segi þér og öllu fólkinu. 8 Spámennirnir sem voru uppi endur fyrir löngu, á undan mér og undan þér, spáðu mörgum löndum og voldugum ríkjum stríði, ógæfu og drepsótt.* 9 Ef spámaður spáir friði og orð hans rætast, þá er ljóst að Jehóva sendi þann spámann.“

10 Þá tók Hananja spámaður okið af hálsi Jeremía spámanns og braut það.+ 11 Síðan sagði Hananja í viðurvist alls fólksins: „Jehóva segir: ‚Þannig brýt ég ok Nebúkadnesars Babýlonarkonungs af hálsi allra þjóðanna áður en tvö ár eru liðin.‘“+ En Jeremía spámaður fór leiðar sinnar.

12 Eftir að Hananja spámaður hafði brotið okið af hálsi Jeremía spámanns kom orð Jehóva til Jeremía: 13 „Farðu og segðu við Hananja: ‚Jehóva segir: „Þú braust ok úr viði+ en í staðinn skaltu gera ok úr járni,“ 14 því að Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: „Ég legg járnok á háls allra þessara þjóða svo að þær þjóni Nebúkadnesari Babýlonarkonungi. Já, þær verða að þjóna honum.+ Ég gef honum jafnvel villt dýr merkurinnar.“‘“+

15 Jeremía spámaður sagði þá við Hananja+ spámann: „Hlustaðu nú, Hananja! Jehóva hefur ekki sent þig. Þú hefur villt um fyrir þessu fólki svo að það treystir á lygar.+ 16 Þess vegna segir Jehóva: ‚Ég afmái þig af yfirborði jarðar. Þú deyrð á þessu ári því að þú hefur hvatt til uppreisnar gegn Jehóva.‘“+

17 Hananja spámaður dó á því ári, í sjöunda mánuðinum.

29 Þetta stóð í bréfinu sem Jeremía spámaður sendi frá Jerúsalem til þeirra sem voru eftir af öldungum útlaganna, til prestanna, spámannanna og allra þeirra sem Nebúkadnesar hafði flutt í útlegð frá Jerúsalem til Babýlonar. 2 Hann sendi bréfið eftir að Jekonja+ konungur, konungsmóðirin,+ hirðmennirnir, höfðingjarnir í Júda og Jerúsalem og handverksmennirnir og málmsmiðirnir* höfðu yfirgefið Jerúsalem.+ 3 Bréfið sendi hann til Babýlonar með Elasa Safanssyni+ og Gemaría Hilkíasyni sem Sedekía+ Júdakonungur sendi til Nebúkadnesars Babýlonarkonungs. Þar stóð:

4 „Þetta segir Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, við alla útlagana sem hann sendi í útlegð frá Jerúsalem til Babýlonar: 5 ‚Byggið hús og búið í þeim. Gróðursetjið garða og borðið ávöxt þeirra. 6 Takið ykkur konur og eignist syni og dætur. Finnið konur handa sonum ykkar og giftið dætur ykkar svo að þær eignist líka syni og dætur. Ykkur skal fjölga þar en ekki fækka. 7 Stuðlið að friði borgarinnar sem ég hef herleitt ykkur til, og biðjið til Jehóva fyrir henni því að friður hennar er friður ykkar.+ 8 Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: „Látið hvorki spámenn né spásagnarmenn sem eru á meðal ykkar blekkja ykkur+ og hlustið ekki á draumana sem þá dreymir 9 því að ‚þeir boða ykkur lygar í mínu nafni. Ég hef ekki sent þá,‘+ segir Jehóva.“‘

10 Þetta segir Jehóva: ‚Þegar 70 ár eru liðin í Babýlon mun ég snúa mér að ykkur.+ Ég mun efna loforð mitt og flytja ykkur aftur til þessa staðar.‘+

11 ‚Ég veit vel hvað ég hef í hyggju fyrir ykkur,‘ segir Jehóva, ‚að veita ykkur frið en ekki óhamingju.+ Ég vil gefa ykkur von og góða framtíð.+ 12 Þið munuð kalla til mín og koma og biðja til mín, og ég hlusta á ykkur.‘+

13 ‚Þið munuð leita mín og finna mig+ því að þið leitið mín af öllu hjarta.+ 14 Ég læt ykkur finna mig,‘+ segir Jehóva. ‚Ég ætla að flytja útlaga ykkar aftur heim og safna ykkur saman frá öllum þeim þjóðum og stöðum sem ég hef tvístrað ykkur til,‘+ segir Jehóva. ‚Ég leiði ykkur aftur til þess staðar sem ég hrakti ykkur burt frá.‘+

15 En þið segið: ‚Jehóva hefur gefið okkur spámenn í Babýlon.‘

16 Jehóva segir við konunginn sem situr í hásæti Davíðs+ og allt fólkið sem býr í þessari borg, bræður ykkar sem voru ekki fluttir í útlegð með ykkur: 17 ‚Jehóva hersveitanna segir: „Ég sendi sverð, hungursneyð og drepsótt* gegn þeim+ og læt þá verða eins og rotnar* fíkjur sem eru svo vondar að þær eru óætar.“‘+

18 ‚Ég elti þá með sverði,+ hungursneyð og drepsótt og læt öll ríki jarðar hrylla við þeim.+ Allar þjóðirnar sem ég tvístra þeim til munu bölva þeim, undrast yfir þeim, hæðast* að þeim+ og smána þá+ 19 af því að þeir hafa ekki hlustað á orð mín sem ég lét þjóna mína, spámennina, flytja þeim,‘ segir Jehóva. ‚Ég sendi þá hvað eftir annað.‘*+

‚En þið* hlustuðuð ekki,‘+ segir Jehóva.

20 Heyrið því orð Jehóva, þið öll sem ég hef sent í útlegð frá Jerúsalem til Babýlonar. 21 Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir um Ahab Kólajason og um Sedekía Maasejason sem boða ykkur lygar í mínu nafni:+ ‚Ég gef þá í hendur Nebúkadnesars* Babýlonarkonungs og hann mun drepa þá fyrir augum ykkar. 22 Afdrif þeirra verða nefnd í bölbænum allra Júdamanna sem eru útlagar í Babýlon: „Jehóva fari með þig eins og Sedekía og Ahab sem Babýlonarkonungur steikti yfir eldi!“ 23 Þeir hegðuðu sér svívirðilega í Ísrael,+ héldu fram hjá með eiginkonum annarra manna og fóru með lygar í mínu nafni gegn vilja mínum.+

„Ég veit það og er vitni að því,“+ segir Jehóva.‘“

24 „Þetta skaltu segja við Semaja+ frá Nehalam: 25 ‚Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: „Þú sendir bréf í eigin nafni til allra sem búa í Jerúsalem, til Sefanía+ Maasejasonar prests og til allra hinna prestanna og sagðir: 26 ‚Jehóva hefur gert þig að presti í stað Jójada prests. Þú átt að hafa umsjón með húsi Jehóva, hafa stjórn á öllum vitfirringum sem láta eins og spámenn og setja þá í stokk og hálsjárn.+ 27 Hvers vegna hefurðu þá ekki ávítað Jeremía frá Anatót+ sem lætur eins og spámaður meðal ykkar?+ 28 Hann sendi okkur í Babýlon meira að segja þessi boð: „Þetta mun vara lengi! Byggið hús og búið í þeim. Gróðursetjið garða og borðið ávöxt þeirra+ …“‘“‘“

29 Þegar Sefanía+ prestur las þetta bréf fyrir Jeremía spámann 30 kom orð Jehóva til Jeremía: 31 „Sendu þessi boð til allra útlaganna: ‚Þetta segir Jehóva um Semaja frá Nehalam: „Semaja hefur spáð fyrir ykkur þótt ég hafi ekki sent hann. Hann hefur reynt að villa um fyrir ykkur svo að þið treystið á lygar.+ 32 Þess vegna segir Jehóva: ‚Ég mun refsa Semaja frá Nehalam og afkomendum hans. Enginn af ætt hans mun halda lífi og hann mun ekki sjá það góða sem ég ætla að gera fyrir þjóð mína,‘ segir Jehóva, ‚því að hann hefur hvatt til uppreisnar gegn Jehóva.‘“‘“

30 Orðið sem kom til Jeremía frá Jehóva: 2 „Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Skrifaðu í bók öll þau orð sem ég segi við þig. 3 „Þeir dagar koma,“ segir Jehóva, „þegar ég safna saman útlögum þjóðar minnar, Ísraels og Júda,“+ segir Jehóva. „Ég flyt þá aftur til landsins sem ég gaf forfeðrum þeirra og þeir eignast það á ný.“‘“+

4 Þetta eru orðin sem Jehóva flutti Ísrael og Júda.

 5 Jehóva segir:

„Við heyrum skelfingaróp,

óttinn er allsráðandi og friðurinn enginn.

 6 Spyrjið ykkur: Getur karlmaður fætt barn?

Hvers vegna sé ég þá alla sterka menn halda um kviðinn*

eins og kona í barnsburði?+

Hvers vegna eru öll andlit orðin náföl?

 7 Æ! Sá dagur er hræðilegur,*+

ólíkur öllum öðrum.

Þetta er neyðarstund fyrir Jakob

en honum verður bjargað.“

8 „Á þeim degi,“ segir Jehóva hersveitanna, „brýt ég okið af hálsi þínum og slít reipin* sundur. Aldrei aftur munu ókunnugir* gera þá* að þrælum sínum. 9 Þeir munu þjóna Jehóva Guði sínum og Davíð konungi sínum sem ég set yfir þá.“+

10 „Vertu ekki hræddur, þjónn minn, Jakob,“ segir Jehóva,

„og óttastu ekki, Ísrael,+

því að ég frelsa þig úr fjarlægu landi

og afkomendur þína úr landinu þar sem þeir eru í útlegð.+

Jakob snýr aftur heim og býr við frið og öryggi,

enginn mun hræða hann.“+

11 „Ég er með þér,“ segir Jehóva, „til að bjarga þér.

Ég útrými öllum þeim þjóðum sem ég tvístraði þér til+

en þér mun ég ekki útrýma.+

Ég aga þig* að hæfilegu marki

en læt þér engan veginn órefsað.“+

12 Jehóva segir:

„Brot þitt grær ekki,+

sár þitt er ólæknandi.

13 Enginn tekur að sér mál þitt,

við meininu er engin lækning.

Þú nærð ekki bata.

14 Allir ákafir elskhugar þínir hafa gleymt þér.+

Þeir hafa enga þörf fyrir þig lengur

því að ég hef slegið þig eins og óvinur,+

refsað þér eins og grimmur maður

því að sekt þín er mikil og syndir þínar margar.+

15 Af hverju æpirðu vegna meiðsla þinna?

Kvöl þín er ólæknandi.

Ég hef gert þér þetta

því að sekt þín er mikil og syndir þínar margar.+

16 En öllum sem eyða þér verður vissulega eytt+

og allir óvinir þínir verða líka fluttir í útlegð.+

Þeir sem ræna þig verða rændir

og ég læt þá sem stela frá þér verða þjófum að bráð.“+

17 „En ég lækna þig og græði sár þín,“+ segir Jehóva,

„þótt menn hafi kallað þig ‚hina útskúfuðu‘,

‚Síon sem enginn hefur þörf fyrir‘.“+

18 Jehóva segir:

„Ég kem aftur til tjalda Jakobs og safna saman útlögunum,+

ég miskunna mig yfir bústaði hans.

Borgin verður endurreist á hæð sinni+

og hallarvirkið mun standa á sínum fyrri stað.

19 Þaðan mun heyrast þakkarsöngur og hlátrasköll.+

Ég læt þeim fjölga og þeir verða ekki fáir.+

Ég geri þá fjölmenna*

og þeir verða ekki lítilfjörlegir.+

20 Synir hans verða eins og áður fyrr

og söfnuður hans verður stöðugur frammi fyrir mér.+

Ég dreg til ábyrgðar alla sem kúga hann.+

21 Leiðtogi hans mun koma af honum

og valdhafi hans verður úr hans eigin röðum.

Ég leyfi honum að nálgast mig og hann mun koma til mín.“

„Hver myndi annars þora að* nálgast mig?“ segir Jehóva.

22 „Þið verðið þjóð mín+ og ég verð Guð ykkar.“+

23 Stormur Jehóva, reiði hans, brýst fram,+

stormsveipur þyrlast yfir höfuð hinna illu.

24 Brennandi reiði Jehóva linnir ekki

fyrr en hann hefur framfylgt áformum hjarta síns og komið þeim til leiðar.+

Þið munuð skilja það á síðustu dögum.+

31 „Á þeim tíma,“ segir Jehóva, „verð ég Guð allra ætta Ísraels og þær verða þjóð mín.“+

 2 Jehóva segir:

„Fólkið sem komst undan sverðinu naut velvildar í óbyggðunum.

Ísrael hélt til hvíldarstaðar síns.“

 3 Jehóva birtist mér úr fjarlægð og sagði:

„Ég hef elskað þig með eilífri ást.

Þess vegna hef ég dregið þig til mín með tryggum kærleika.*+

 4 Ég endurreisi þig á ný og þú verður endurreist.+

Meyjan Ísrael, þú tekur aftur fram tambúrínur þínar

og gengur út dansandi af gleði.*+

 5 Þú munt aftur gróðursetja víngarða á fjöllum Samaríu.+

Þeir sem gróðursetja þá munu sjálfir njóta ávaxtar þeirra.+

 6 Sá dagur kemur þegar varðmennirnir á Efraímsfjöllum hrópa:

‚Komið, við skulum fara upp til Síonar, til Jehóva Guðs okkar,‘“+

 7 því að Jehóva segir:

„Kallið með gleði til Jakobs.

Hrópið af fögnuði því að þið eruð fremstir meðal þjóðanna.+

Berið út boðskapinn, lofið Guð og segið:

‚Jehóva, frelsaðu fólk þitt, þá sem eftir eru af Ísrael.‘+

 8 Ég leiði þá aftur heim frá landinu í norðri.+

Ég safna þeim saman frá fjarlægustu byggðum jarðar.+

Blindir og haltir verða á meðal þeirra,+

barnshafandi konur og þær sem eru að því komnar að fæða.

Stór söfnuður snýr hingað aftur.+

 9 Þeir koma grátandi.+

Þeir biðja um miskunn og ég leiði þá.

Ég fylgi þeim að vatnslækjum+

eftir sléttum stíg þar sem þeir hrasa ekki

því að ég er faðir Ísraels og Efraím er frumburður minn.“+

10 Heyrið orð Jehóva, þið þjóðir,

boðið það á fjarlægum eyjum+ og segið:

„Sá sem tvístraði Ísrael safnar honum saman.

Hann mun vaka yfir honum eins og hirðir yfir hjörð sinni.+

11 Jehóva leysir* Jakob+

og bjargar honum úr höndum þess sem er honum sterkari.+

12 Þeir koma og hrópa af fögnuði á Síonarhæð+

og ljóma af gleði yfir góðvild* Jehóva,

yfir korninu, nýja víninu+ og olíunni,

yfir ungu sauðunum og nautunum.+

Þeir verða eins og vökvaður garður+

og örmagnast aldrei framar.“+

13 „Þá stíga meyjarnar gleðidans,

einnig ungu mennirnir með þeim gömlu.+

Ég breyti sorg þeirra í fögnuð.+

Ég hugga þá svo að hryggð þeirra snýst í gleði.+

14 Ég gef prestunum fylli sína*

og fólk mitt mettast af góðvild minni,“+ segir Jehóva.

15 „Þetta segir Jehóva:

‚Rödd heyrist í Rama,+ harmakvein og beiskur grátur:

Rakel grætur syni sína.*+

Hún vill ekki láta huggast vegna sona sinna

því að þeir eru ekki lengur á lífi.‘“+

16 Þetta segir Jehóva:

„‚Hættu að gráta og haltu aftur af tárunum

því að þú færð umbun fyrir verk þitt,‘ segir Jehóva.

‚Þeir snúa aftur heim úr landi óvinarins.‘+

17 ‚Þú getur horft vonglöð til framtíðar,‘+ segir Jehóva.

‚Synir þínir snúa aftur til lands síns.‘“+

18 „Ég hef heyrt kvein Efraíms:

‚Þú agaðir mig og ég lærði af því

eins og ótaminn kálfur.

Hjálpaðu mér að snúa aftur til þín, þá sný ég hiklaust við

því að þú ert Jehóva Guð minn.

19 Þegar ég sneri við iðraðist ég,+

eftir að ég hlaut skilning sló ég á lærið af sorg.

Ég skammaðist mín og fannst ég niðurlægður+

því að ég burðaðist með skömm æsku minnar.‘“

20 „Er Efraím mér ekki dýrmætur sonur, elskað barn?+

Þótt ég hafi margsinnis ávítað hann minnist ég hans enn.

Þess vegna bærast sterkar tilfinningar innra með mér*+

og ég mun sýna honum meðaumkun,“ segir Jehóva.+

21 „Reistu þér vegamerki

og settu upp vegvísa.+

Hafðu augun á brautinni, leiðinni sem þú þarft að fara.+

Snúðu aftur, meyjan Ísrael, snúðu aftur til borga þinna.

22 Hversu lengi ætlarðu að reika um, þú ótrúa dóttir?

Jehóva hefur skapað nýjung á jörðinni:

Kona sækist eftir hylli karls.“

23 Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: „Þegar ég flyt útlagana aftur heim verður sagt á ný í Júdalandi og borgum þess: ‚Jehóva blessi þig, réttláti bústaður,+ heilaga fjall.‘+ 24 Íbúar Júda og allra borga landsins munu búa þar saman, bændur og hirðar,+ 25 því að ég styrki hinn þreytta og metta hinn örmagna.“+

26 Við þetta vaknaði ég og opnaði augun. Svefninn hafði verið notalegur.

27 „Þeir dagar koma,“ segir Jehóva, „þegar ég læt ætt Ísraels og ætt Júda verða fjölmennar og fjölga búfénaði þeirra.“+

28 „Ég mun vaka yfir þeim til að byggja upp og gróðursetja,+ rétt eins og ég vakti yfir þeim til að uppræta, brjóta niður, rífa niður, eyðileggja og valda skaða,“+ segir Jehóva. 29 „Á þeim dögum verður ekki lengur sagt: ‚Feðurnir borðuðu súr vínber og tennur sonanna urðu sljóar.‘+ 30 Nei, hver og einn mun deyja fyrir sína eigin synd. Sá sem borðar súr vínber fær sljóar tennur.“

31 „Þeir dagar koma,“ segir Jehóva, „þegar ég geri nýjan sáttmála við Ísraelsmenn og Júdamenn.+ 32 Hann verður ekki eins og sáttmálinn sem ég gerði við forfeður þeirra daginn sem ég tók í hönd þeirra og leiddi þá út úr Egyptalandi.+ ‚Þeir rufu þann sáttmála+ þótt ég væri réttmætur húsbóndi* þeirra,‘ segir Jehóva.“

33 „Þetta er sáttmálinn sem ég geri við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir,“ segir Jehóva. „Ég legg lög mín þeim í brjóst+ og skrifa þau á hjörtu þeirra.+ Ég verð Guð þeirra og þeir verða fólk mitt.“+

34 „Enginn þeirra mun þá lengur kenna náunga sínum eða bróður og segja: ‚Kynnstu Jehóva,‘+ því að þeir munu allir þekkja mig, jafnt háir sem lágir,“+ segir Jehóva. „Ég mun fyrirgefa afbrot þeirra og ekki framar minnast synda þeirra.“+

35 Þetta segir Jehóva

sem skapaði sólina til að lýsa á daginn

og setti tunglinu og stjörnunum lög til að lýsa á nóttinni,

sem æsir upp hafið og lætur öldurnar drynja,

já, hann sem ber nafnið Jehóva hersveitanna:+

36 „‚Ef þessi lögmál skyldu nokkurn tíma bregðast,‘ segir Jehóva,

‚aðeins þá myndu afkomendur Ísraels hætta að vera þjóð frammi fyrir mér um aldur og ævi.‘“+

37 Jehóva segir: „‚Ef hægt væri að mæla himininn og kanna undirstöður jarðar, aðeins þá gæti ég hafnað öllum afkomendum Ísraels vegna alls þess sem þeir hafa gert,‘ segir Jehóva.“+

38 „Þeir dagar koma,“ segir Jehóva, „þegar borgin verður endurreist+ handa Jehóva frá Hananelturni+ að Hornhliðinu.+ 39 Mælisnúran+ mun liggja beint að Garebhæð og beygja síðan í átt að Góa. 40 Allur dalurinn með hræjunum og öskunni* og allir gróðurstallarnir að Kedrondal,+ allt að horni Hrossahliðsins+ í austri, verða helgaðir Jehóva.+ Borgin verður aldrei framar eyðilögð né rifin niður.“

32 Orðið sem kom til Jeremía frá Jehóva á 10. stjórnarári Sedekía Júdakonungs, en það var 18. stjórnarár Nebúkadnesars.*+ 2 Á þeim tíma sátu hersveitir Babýlonarkonungs um Jerúsalem og Jeremía spámaður var í haldi í Varðgarðinum+ í höll* Júdakonungs. 3 Sedekía Júdakonungur hafði hneppt hann í varðhald+ og sagt: „Hvers vegna spáirðu á þennan hátt? Þú segir: ‚Þetta segir Jehóva: „Ég gef þessa borg í hendur Babýlonarkonungs og hann skal hernema hana+ 4 og Sedekía Júdakonungur sleppur ekki undan Kaldeum. Hann verður gefinn í hendur Babýlonarkonungs og mun tala við hann munni til munns og sjá hann augliti til auglitis.“‘+ 5 ‚Hann flytur Sedekía til Babýlonar þar sem hann verður þar til ég beini sjónum mínum að honum,‘ segir Jehóva. ‚Þótt þið berjist við Kaldea tekst ykkur ekki að sigra.‘“+

6 Jeremía sagði: „Orð Jehóva kom til mín: 7 ‚Hanamel, sonur Sallúms föðurbróður þíns, mun koma til þín og segja: „Kauptu jörðina mína í Anatót+ því að þú átt réttinn á að leysa hana til þín.“‘“+

8 Hanamel, sonur föðurbróður míns, kom til mín eins og Jehóva hafði sagt. Hann kom í Varðgarðinn og sagði við mig: „Kauptu jörðina mína í Anatót í Benjamínslandi því að þú átt réttinn á að eignast hana og leysa hana til þín. Kauptu hana.“ Þá vissi ég að þetta var orð frá Jehóva.

9 Þess vegna keypti ég jörðina í Anatót af Hanamel, syni föðurbróður míns. Ég vó peningana+ og greiddi honum sjö sikla* og tíu silfurpeninga. 10 Síðan skrifaði ég kaupsamning,+ innsiglaði hann, kallaði til votta+ og vó peningana á voginni. 11 Því næst tók ég kaupsamninginn, bæði þann sem var innsiglaður í samræmi við lög og reglur og hinn sem var ekki innsiglaður, 12 og rétti hann Barúk,+ syni Nería+ Mahasejasonar, í viðurvist Hanamels, sonar föðurbróður míns, vottanna sem undirrituðu samninginn og allra Gyðinganna sem sátu í Varðgarðinum.+

13 Ég gaf Barúk þessi fyrirmæli í viðurvist þeirra: 14 „Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Taktu við þessum kaupsamningi, bæði innsiglaða eintakinu og því óinnsiglaða, og settu þau í leirker svo að þau varðveitist lengi,‘ 15 því að Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Menn munu aftur kaupa hús, jarðir og víngarða í þessu landi.‘“+

16 Eftir að ég hafði afhent Barúk Neríasyni kaupsamninginn bað ég til Jehóva: 17 „Æ, alvaldur Drottinn Jehóva! Þú skapaðir himin og jörð með þínum mikla mætti+ og útréttum handlegg. Ekkert er þér ofviða. 18 Þú sýnir þúsundum tryggan kærleika en lætur synina gjalda fyrir syndir feðranna.*+ Þú ert hinn sanni Guð, hinn mikli og voldugi, sem berð nafnið Jehóva hersveitanna. 19 Þú hefur stórfengleg áform* og ert máttugur í verkum þínum.+ Augu þín fylgjast með öllum vegum mannanna+ til að launa hverjum og einum eftir hegðun hans og verkum.+ 20 Þú gerðir tákn og kraftaverk í Egyptalandi sem fólk þekkir enn í dag. Þannig gerðirðu nafn þitt frægt í Ísrael og meðal allra manna,+ eins og það er nú í dag. 21 Og þú leiddir þjóð þína, Ísrael, út úr Egyptalandi með táknum og kraftaverkum og með máttugri hendi, útréttum handlegg og ógnvekjandi verkum.+

22 Seinna gafstu þeim þetta land sem þú sórst að gefa forfeðrum þeirra,+ land sem flýtur í mjólk og hunangi.+ 23 Þeir komu og lögðu það undir sig. En þeir hlýddu þér ekki og fylgdu ekki lögum þínum. Þeir gerðu ekkert af því sem þú fyrirskipaðir þeim og þess vegna leiddirðu yfir þá allar þessar hörmungar.+ 24 Nú eru Kaldear komnir hingað með umsátursvirki sín til að ná borginni á sitt vald.+ Sverð,+ hungursneyð og drepsótt*+ verður til þess að borgin fellur í hendur Kaldea sem herja á hana. Allt sem þú sagðir fyrir er komið fram eins og þú sérð. 25 En þú, alvaldur Drottinn Jehóva, sagðir við mig: ‚Kauptu þér jörð fyrir fé og kallaðu til votta,‘ þótt borgin falli í hendur Kaldea.“

26 Þá kom orð Jehóva til Jeremía: 27 „Ég er Jehóva, Guð alls mannkyns.* Er mér eitthvað ofviða? 28 Þess vegna segir Jehóva: ‚Ég gef þessa borg í hendur Kaldea og Nebúkadnesars* Babýlonarkonungs og hann mun ná henni á sitt vald.+ 29 Kaldear, sem herja á borgina, munu ryðjast inn í hana, kveikja í henni og brenna hana til grunna+ ásamt húsunum þar sem Baal voru færðar fórnir á þökunum og þar sem öðrum guðum voru færðar drykkjarfórnir til að misbjóða mér.‘+

30 ‚Allt frá æsku hafa Ísraelsmenn og Júdamenn einungis gert það sem er illt í mínum augum.+ Ísraelsmenn misbjóða mér ítrekað með verkum sínum,‘ segir Jehóva. 31 ‚Þessi borg hefur ekki gert annað en að vekja reiði mína og heift frá þeim degi sem hún var reist og fram á þennan dag.+ Ég verð að fjarlægja hana úr augsýn minni+ 32 vegna allra þeirra illskuverka sem Ísraelsmenn og Júdamenn hafa framið til að misbjóða mér – þeir, konungar þeirra,+ höfðingjar,+ prestar og spámenn,+ Júdamenn og Jerúsalembúar. 33 Þeir sneru við mér bakinu, ekki andlitinu.+ Ég reyndi margsinnis að kenna þeim* en enginn þeirra vildi hlusta né taka aga.+ 34 Þeir komu viðbjóðslegum skurðgoðum sínum fyrir í húsinu sem er kennt við nafn mitt og vanhelguðu það.+ 35 Þeir reistu líka Baalsfórnarhæðir í Hinnomssonardal*+ til að fórna sonum sínum og dætrum í eldi* fyrir Mólek.+ Ég hafði ekki sagt þeim að gera það+ og það hvarflaði aldrei að mér að þeir skyldu fremja slíkan viðbjóð og fá Júda til að syndga.‘

36 Þess vegna segir Jehóva Guð Ísraels um þessa borg sem þið segið að verði gefin í hendur Babýlonarkonungs með sverði, hungursneyð og drepsótt: 37 ‚Ég safna þeim saman frá öllum þeim löndum sem ég tvístraði þeim til í reiði minni, heift og mikilli bræði.+ Ég flyt þá aftur hingað og læt þá búa við öryggi.+ 38 Þeir verða fólk mitt og ég verð Guð þeirra.+ 39 Ég gef þeim eitt hjarta+ og einn veg svo að þeir óttist mig ávallt, þeim sjálfum til góðs og börnum þeirra eftir þá.+ 40 Ég geri við þá eilífan sáttmála+ um að ég hætti aldrei að gera þeim gott.+ Ég legg ótta við mig í hjörtu þeirra svo að þeir snúi ekki frá mér.+ 41 Ég gleðst yfir þeim og geri þeim gott+ og gróðurset þá í þessu landi+ af öllu hjarta og allri sál.‘“*

42 „Jehóva segir: ‚Eins og ég leiddi allar þessar miklu hörmungar yfir þessa þjóð mun ég líka leiða yfir hana allt það góða sem ég lofa henni.+ 43 Í þessu landi verða aftur keyptar jarðir+ þótt þið segið: „Það er auðn þar sem hvorki búa menn né skepnur. Það er fallið í hendur Kaldea.“‘

44 ‚Jarðir verða keyptar fyrir fé, kaupsamningar gerðir og innsiglaðir og vottar kallaðir til í Benjamínslandi,+ í nágrenni Jerúsalem, í borgum Júda,+ í borgunum í fjalllendinu og á láglendinu+ og í borgunum í suðri því að ég læt útlagana snúa aftur heim,‘+ segir Jehóva.“

33 Orð Jehóva kom til Jeremía í annað skipti meðan hann var enn í haldi í Varðgarðinum:+ 2 „Þetta segir Jehóva skapari jarðar, Jehóva sem mótaði hana og grundvallaði – Jehóva er nafn hans: 3 ‚Hrópaðu til mín. Ég svara þér og segi þér fúslega frá miklum og óskiljanlegum hlutum sem þú hefur ekki þekkt áður.‘“+

4 „Þetta segir Jehóva Guð Ísraels um húsin í þessari borg og hús Júdakonunga sem hafa verið rifin niður til að verjast umsátursvirkjunum og sverðinu,+ 5 um þá sem eru komnir til að berjast við Kaldea og um staðina þar sem líkin hrannast upp, lík þeirra sem ég felldi í reiði minni og heift, en vegna illsku þeirra huldi ég andlit mitt fyrir þessari borg: 6 ‚Ég hlúi að sárum borgarinnar og græði þau.+ Ég lækna íbúana og opinbera þeim hafsjó friðar og sannleika.+ 7 Ég leiði útlagana frá Júda og Ísrael aftur heim+ og byggi þá upp svo að þeir verði eins og áður.+ 8 Ég hreinsa þá af allri þeirri sekt sem þeir hafa bakað sér með því að syndga á móti mér.+ Ég fyrirgef þeim allar syndir þeirra og afbrot gegn mér.+ 9 Borgin verður mér til frægðar, gleði, lofs og prýði meðal allra þjóða jarðar sem frétta af öllu því góða sem ég veiti fólki mínu.+ Þær munu skjálfa af ótta+ vegna allrar þeirrar góðvildar sem ég sýni henni og friðarins sem ég veiti henni.‘“+

10 „Jehóva segir: ‚Þið munuð kalla þennan stað auðn þar sem hvorki búa menn né skepnur. En í borgum Júda og á strætum Jerúsalem, sem liggja í eyði, mannlausar og án búfjár, munu aftur heyrast 11 fagnaðarlæti og gleðihróp,+ köll brúðguma og brúðar, raddir þeirra sem segja: „Þakkið Jehóva hersveitanna því að Jehóva er góður,+ tryggur kærleikur hans varir að eilífu!“‘+

‚Þakkarfórnir verða færðar í húsi Jehóva+ því að ég leiði útlaga landsins aftur heim svo að allt verði eins og áður,‘ segir Jehóva.

12 Jehóva hersveitanna segir: ‚Í þessari auðn þar sem hvorki búa menn né skepnur og í öllum borgunum verða aftur beitilönd þar sem hirðar hvíla hjarðir sínar.‘+

13 ‚Í borgunum í fjalllendinu og á láglendinu, í borgunum í suðri, í Benjamínslandi, í nágrenni Jerúsalem+ og í borgum Júda+ munu sauðir á nýjan leik ganga fram hjá þeim sem telur þá,‘ segir Jehóva.“

14 „‚Þeir dagar koma,‘ segir Jehóva, ‚þegar ég efni loforðið góða sem ég gaf um Ísraelsmenn og Júdamenn.+ 15 Á þeim dögum og á þeim tíma læt ég réttlátan sprota*+ vaxa af ætt Davíðs og hann mun framfylgja réttvísi og réttlæti í landinu.+ 16 Á þeim dögum verður Júda bjargað+ og Jerúsalem mun búa við öryggi.+ Hún verður kölluð: Jehóva er réttlæti okkar.‘“+

17 „Jehóva segir: ‚Einn af afkomendum Davíðs mun alltaf sitja í hásæti Ísraels+ 18 og aldrei mun vanta Levítaprest frammi fyrir mér til að færa brennifórnir, brenna kornfórnir og bera fram sláturfórnir.‘“

19 Orð Jehóva kom aftur til Jeremía: 20 „Jehóva segir: ‚Ef þið gætuð rofið sáttmála minn við daginn og sáttmála minn við nóttina svo að dagur og nótt kæmu ekki á réttum tíma,+ 21 aðeins þá væri hægt að rjúfa sáttmála minn við Davíð þjón minn+ svo að enginn af sonum hans ríkti sem konungur í hásæti hans.+ Hið sama má segja um sáttmála minn við Levítaprestana, þjóna mína.+ 22 Svo sannarlega sem her himinsins verður ekki talinn og sandur sjávarins verður ekki mældur mun ég fjölga afkomendum Davíðs þjóns míns og Levítunum sem þjóna mér.‘“

23 Orð Jehóva kom aftur til Jeremía: 24 „Hefurðu ekki tekið eftir hvað þetta fólk segir: ‚Jehóva mun hafna báðum ættunum sem hann valdi‘? Menn vanvirða fólk mitt og líta ekki lengur á það sem þjóð.

25 Jehóva segir: ‚Svo sannarlega sem ég gerði sáttmála við daginn og nóttina+ og setti himninum og jörðinni lög+ 26 mun ég aldrei hafna afkomendum Jakobs né Davíðs þjóns míns. Ég vel höfðingja af afkomendum hans og þeir skulu ríkja yfir afkomendum Abrahams, Ísaks og Jakobs. Ég flyt útlagana aftur heim+ og sýni þeim meðaumkun.‘“+

34 Orðið sem kom til Jeremía frá Jehóva þegar Nebúkadnesar* Babýlonarkonungur herjaði á Jerúsalem og allar borgirnar í kring ásamt öllum her sínum, öllum ríkjum jarðar undir hans stjórn og öllum þjóðum:+

2 „Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Farðu og talaðu við Sedekía+ Júdakonung og segðu við hann: „Jehóva segir: ‚Ég gef þessa borg í hendur Babýlonarkonungs og hann mun brenna hana til grunna.+ 3 Þú munt ekki ganga honum úr greipum. Þú verður handsamaður og framseldur í hendur hans.+ Þú munt horfast í augu við Babýlonarkonung og hann mun tala við þig augliti til auglitis, og þú verður fluttur til Babýlonar.‘+ 4 En heyrðu orð Jehóva, Sedekía Júdakonungur: ‚Jehóva segir um þig: „Þú fellur ekki fyrir sverði. 5 Þú munt deyja í friði+ og reykelsi verður brennt þér til heiðurs eins og gert var fyrir feður þína, konungana sem voru á undan þér, og menn munu syrgja þig og segja: ‚Æ, herra!‘ því að ‚ég hef talað‘, segir Jehóva.“‘“‘“

6 Jeremía spámaður flutti Sedekía Júdakonungi öll þessi orð í Jerúsalem 7 þegar hersveitir Babýlonarkonungs herjuðu á Jerúsalem og borgir Júda sem enn voru eftir,+ Lakís+ og Aseka.+ Það voru einu víggirtu borgirnar sem voru eftir í Júda.

8 Orð kom frá Jehóva til Jeremía eftir að Sedekía konungur hafði gert sáttmála við alla íbúa Jerúsalem um að boða þrælum frelsi.+ 9 Allir áttu að láta hebreska þræla sína lausa, bæði karla og konur. Enginn Gyðingur mátti hafa landa sinn sem þræl. 10 Allir höfðingjarnir og íbúarnir hlýddu. Þeir gengust undir sáttmálann um að hver og einn skyldi gefa þrælum sínum og ambáttum frelsi og ekki halda þeim lengur í þrældómi. Þeir hlýddu og létu þau laus. 11 En seinna sóttu þeir þrælana og ambáttirnar sem þeir höfðu gefið frelsi og hnepptu þau aftur í þrældóm. 12 Þá kom orð Jehóva til Jeremía. Jehóva sagði við hann:

13 „Þetta segir Jehóva Guð Ísraels: ‚Ég gerði sáttmála við forfeður ykkar+ daginn sem ég leiddi þá út úr Egyptalandi, úr þrælahúsinu.+ Ég sagði: 14 „Að sjö árum liðnum á hver og einn ykkar að láta lausan hebreskan bróður sinn sem seldi sig ykkur og hefur þjónað ykkur í sex ár. Þið skuluð gefa honum frelsi.“+ En forfeður ykkar lokuðu eyrunum og hlustuðu ekki á mig. 15 Nýlega* breyttuð þið um stefnu og gerðuð það sem var rétt í augum mínum með því að boða löndum ykkar frelsi. Þið gerðuð sáttmála frammi fyrir mér í húsinu sem er kennt við nafn mitt. 16 En síðan snerist ykkur hugur og þið köstuðuð rýrð á nafn mitt+ með því að sækja aftur þræla ykkar og ambáttir sem þið höfðuð gefið frelsi svo að þau gætu farið frjáls ferða sinna. Þið hnepptuð þau aftur í þrældóm.‘

17 Þess vegna segir Jehóva: ‚Þið hafið ekki hlýtt mér. Enginn ykkar hefur boðað bróður sínum og landa frelsi.+ Ég ætla því að boða ykkur frelsi,‘ segir Jehóva, ‚svo að þið fallið fyrir sverði, drepsótt* og hungursneyð.+ Ég læt öll ríki jarðar hrylla við ykkur.+ 18 Svona fer fyrir þeim sem rufu sáttmála minn og héldu ekki orð sáttmálans sem þeir gerðu frammi fyrir mér þegar þeir skáru kálfinn í tvennt og gengu á milli helminganna,+ 19 já, svona fer fyrir höfðingjum Júda, höfðingjum Jerúsalem, hirðmönnunum, prestunum og öllum íbúum í landinu sem gengu á milli kálfshelminganna: 20 Ég framsel þá óvinum þeirra og þeim sem vilja drepa þá. Lík þeirra verða æti handa fuglum himins og dýrum jarðar.+ 21 Ég gef Sedekía Júdakonung og höfðingja hans í hendur óvinanna og þeirra sem vilja drepa þá og í hendur hersveita Babýlonarkonungs+ sem hörfa nú frá ykkur.‘+

22 ‚Ég gef þeim skipun,‘ segir Jehóva, ‚og læt þá snúa aftur til þessarar borgar. Þeir munu herja á hana, vinna hana og brenna til grunna.+ Og borgirnar í Júda geri ég að mannlausri auðn.‘“+

35 Orðið sem kom til Jeremía frá Jehóva á dögum Jójakíms+ Jósíasonar Júdakonungs: 2 „Farðu til Rekabítanna,+ talaðu við þá og farðu með þá inn í hús Jehóva, inn í einn af matsölunum.* Bjóddu þeim síðan vín að drekka.“

3 Þá sótti ég Jaasanja, son Jeremía Habasinjasonar, bræður hans, alla syni hans og alla ætt Rekabíta 4 og fór með þá inn í hús Jehóva, inn í matsal sona Hanans Jigdaljasonar, manns hins sanna Guðs. Salurinn var við hliðina á matsal höfðingjanna sem var fyrir ofan matsal Maaseja, sonar Sallúms hliðvarðar. 5 Síðan setti ég bikara og krúsir fullar af víni fyrir framan mennina af ætt Rekabíta og sagði við þá: „Drekkið vín.“

6 En þeir sögðu: „Við drekkum ekki vín því að Jónadab+ Rekabsson forfaðir okkar gaf okkur þessa fyrirskipun: ‚Þið megið aldrei drekka vín, hvorki þið né synir ykkar. 7 Og þið megið hvorki byggja hús né sá korni og hvorki gróðursetja né eignast víngarð heldur skuluð þið alltaf búa í tjöldum svo að þið lifið lengi í landinu þar sem þið búið sem aðkomumenn.‘ 8 Við hlýðum enn öllu sem Jónadab, sonur Rekabs forföður okkar, skipaði okkur. Við drekkum aldrei vín – hvorki við, eiginkonur okkar, synir né dætur. 9 Við byggjum ekki heldur hús til að búa í og eigum ekki víngarða, akra né sáðkorn. 10 Við búum í tjöldum og hlýðum í einu og öllu því sem Jónadab forfaðir okkar skipaði okkur. 11 En þegar Nebúkadnesar* Babýlonarkonungur réðst inn í landið+ sögðum við: ‚Komið, við skulum fara inn í Jerúsalem til að komast undan her Kaldea og Sýrlendinga,‘ og þess vegna búum við nú í Jerúsalem.“

12 Orð Jehóva kom til Jeremía: 13 „Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Farðu og segðu við Júdamenn og Jerúsalembúa: „Voruð þið ekki ítrekað hvattir til að hlýða orðum mínum?“+ segir Jehóva. 14 „Jónadab Rekabsson fyrirskipaði afkomendum sínum að halda sig frá víni og þeir hafa fylgt orðum hans með því að drekka ekki vín fram á þennan dag. Þannig hafa þeir hlýtt skipun forföður síns.+ En þið hafið ekki hlýtt mér þó að ég hafi talað til ykkar hvað eftir annað.*+ 15 Ég sendi til ykkar alla þjóna mína, spámennina. Ég sendi þá hvað eftir annað*+ til að segja: ‚Snúið af ykkar illu braut+ og gerið það sem er rétt! Eltið ekki aðra guði og þjónið þeim ekki. Þá fáið þið að búa áfram í landinu sem ég gaf ykkur og forfeðrum ykkar.‘+ En þið hlustuðuð ekki og gáfuð mér engan gaum. 16 Afkomendur Jónadabs Rekabssonar hafa fylgt skipun forföður síns+ en þetta fólk hefur ekki hlustað á mig.“‘“

17 „Þess vegna segir Jehóva, Guð hersveitanna, Guð Ísraels: ‚Ég leiði yfir Júda og alla íbúa Jerúsalem allar þær hörmungar sem ég hef varað þá við.+ Ég talaði til þeirra en þeir hlustuðu ekki, ég hrópaði til þeirra en þeir svöruðu ekki.‘“+

18 En Jeremía sagði við Rekabítana: „Þetta segir Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels: ‚Þið hafið hlýtt skipun Jónadabs forföður ykkar og þið fylgið enn öllum fyrirmælum hans og farið eftir öllu sem hann lagði fyrir ykkur. 19 Þess vegna segir Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels: „Einhver af afkomendum Jónadabs Rekabssonar mun alltaf þjóna frammi fyrir mér.“‘“

36 Á fjórða stjórnarári Jójakíms+ Jósíasonar Júdakonungs kom þetta orð til Jeremía frá Jehóva: 2 „Taktu bókrollu og skrifaðu á hana öll þau orð sem ég hef talað til þín um Ísrael og Júda+ og allar þjóðir,+ frá því að ég talaði fyrst til þín á dögum Jósía og fram á þennan dag.+ 3 Þegar Júdamenn heyra um allar þær hörmungar sem ég ætla að leiða yfir þá snúa þeir kannski baki við illsku sinni svo að ég fyrirgefi sekt þeirra og synd.“+

4 Jeremía kallaði þá á Barúk+ Neríason. Jeremía las honum fyrir öll þau orð sem Jehóva hafði talað til hans og Barúk skrifaði þau á bókrolluna.+ 5 Jeremía gaf síðan Barúk þessi fyrirmæli: „Mér hefur verið bannað að fara inn í hús Jehóva. 6 Þess vegna verður þú að fara þangað og lesa upp úr bókrollunni orð Jehóva sem þú skrifaðir upp eftir mér. Lestu þau fyrir fólkið í húsi Jehóva daginn sem það fastar. Þannig fá allir Júdamenn sem koma þangað úr borgum sínum að heyra það sem þú lest. 7 Kannski heyrir Jehóva þegar þeir biðja um miskunn og kannski snúa þeir baki við illsku sinni því að Jehóva hefur boðað þessu fólki mikla reiði og heift.“

8 Barúk Neríason gerði allt sem Jeremía spámaður bað hann um. Hann las orð Jehóva upp úr bókrollunni* í húsi Jehóva.+

9 Á fimmta stjórnarári Jójakíms+ Jósíasonar Júdakonungs, í níunda mánuðinum, var lýst yfir að allir Jerúsalembúar og allt fólkið sem var komið til Jerúsalem úr borgum Júda skyldi fasta frammi fyrir Jehóva.+ 10 Þá las Barúk orð Jeremía upp úr bókrollunni* fyrir allt fólkið í húsi Jehóva, í herbergi* Gemaría,+ sonar Safans+ afritara,* í efri forgarðinum þar sem gengið er inn um nýja hliðið að húsi Jehóva.+

11 Þegar Míkaja, sonur Gemaría Safanssonar, heyrði öll orð Jehóva sem stóðu á bókrollunni* 12 gekk hann niður til konungshallarinnar,* inn í herbergi ritarans. Þar sátu allir höfðingjarnir:* Elísama+ ritari, Delaja Semajason, Elnatan+ Akbórsson,+ Gemaría Safansson, Sedekía Hananjason og allir hinir höfðingjarnir. 13 Míkaja sagði þeim frá öllu sem hann hafði heyrt Barúk lesa upp úr bókrollunni* fyrir fólkið.

14 Þá sendu allir höfðingjarnir Jahúdí, son Netanja, sonar Selemja, sonar Kúsí, til Barúks með þessi skilaboð: „Komdu og taktu með þér bókrolluna sem þú last fyrir fólkið.“ Barúk Neríason tók með sér bókrolluna og fór til þeirra. 15 Þeir sögðu við hann: „Fáðu þér sæti og lestu hana fyrir okkur.“ Og Barúk gerði það.

16 Þegar þeir höfðu heyrt allan boðskapinn litu þeir skelfingu lostnir hver á annan og sögðu við Barúk: „Við verðum að segja konunginum frá öllu þessu.“ 17 Þeir spurðu Barúk: „Segðu okkur hvernig þú skrifaðir allt þetta. Sagði Jeremía þér að gera það?“ 18 Barúk svaraði: „Hann las mér fyrir öll þessi orð og ég skrifaði þau með bleki á þessa bókrollu.“* 19 Höfðingjarnir sögðu við Barúk: „Farið í felur, þú og Jeremía, og látið engan vita hvar þið eruð.“+

20 Síðan skildu þeir bókrolluna eftir í herbergi Elísama ritara og fóru á fund konungs í hallargarðinum. Þeir sögðu honum allt sem þeir höfðu heyrt.

21 Konungur sendi þá Jahúdí+ eftir bókrollunni og hann sótti hana í herbergi Elísama ritara. Jahúdí las hana síðan fyrir konunginn og alla höfðingjana sem stóðu hjá honum. 22 Konungur sat í vetrarhúsinu. Þetta var í níunda mánuðinum* og eldur logaði í eldstæðinu fyrir framan hann. 23 Þegar Jahúdí hafði lesið þrjá eða fjóra dálka skar konungurinn þá af með hnífi ritarans og fleygði þeim í eldinn sem logaði í eldstæðinu. Þetta gerði hann þar til öll bókrollan var komin í eldinn. 24 Hvorki konungur né nokkur af þjónum hans sem heyrðu öll þessi orð urðu hræddir og þeir rifu ekki föt sín. 25 Elnatan,+ Delaja+ og Gemaría+ báðu konung eindregið að brenna ekki bókrolluna en hann hlustaði ekki á þá 26 heldur skipaði Jerahmeel konungssyni, Seraja Asríelssyni og Selemja Abdeelssyni að taka Barúk ritara og Jeremía spámann til fanga, en Jehóva faldi þá.+

27 Eftir að konungur hafði brennt bókrolluna með boðskapnum sem Barúk hafði skrifað upp eftir Jeremía+ kom orð Jehóva aftur til Jeremía: 28 „Taktu aðra bókrollu og skrifaðu á hana allt sem stóð á fyrri bókrollunni sem Jójakím Júdakonungur brenndi.+ 29 Segðu um Jójakím Júdakonung: ‚Jehóva segir: „Þú brenndir þessa bókrollu og sagðir: ‚Hvers vegna hefurðu skrifað á hana að Babýlonarkonungur ætli að koma og leggja landið í rúst og útrýma úr því mönnum og skepnum?‘+ 30 Þess vegna segir Jehóva um Jójakím Júdakonung: ‚Hann mun ekki eiga neinn afkomanda sem situr í hásæti Davíðs+ og lík hans mun liggja úti í hitanum á daginn og frostinu á nóttinni.+ 31 Ég dreg hann og afkomendur hans og þjóna til ábyrgðar fyrir afbrot þeirra og leiði yfir þá og Jerúsalembúa og Júdamenn allar þær hörmungar sem ég hef boðað þeim+ því að þeir hlustuðu ekki.‘“‘“+

32 Þá tók Jeremía aðra bókrollu og rétti hana Barúk Neríasyni ritara.+ Hann skrifaði upp eftir Jeremía allt sem hafði staðið á bókrollunni* sem Jójakím Júdakonungur hafði brennt.+ Auk þess var mörgu bætt við af sama toga.

37 Sedekía+ Jósíason varð konungur í stað Konja*+ Jójakímssonar því að Nebúkadnesar* Babýlonarkonungur gerði hann að konungi í Júda.+ 2 En hvorki hann, þjónar hans né íbúar landsins hlustuðu á orð Jehóva sem Jeremía spámaður flutti.

3 Sedekía konungur sendi Jehúkal+ Selemjason og Sefanía,+ son Maaseja prests, til Jeremía spámanns með þessi skilaboð: „Biddu fyrir okkur til Jehóva Guðs okkar.“ 4 Jeremía var frjáls ferða sinna meðal fólksins því að hann hafði enn ekki verið hnepptur í fangelsi.+ 5 Her faraós var nú lagður af stað frá Egyptalandi+ og þegar Kaldear, sem sátu um Jerúsalem, fréttu það hörfuðu þeir frá Jerúsalem.+ 6 Þá kom orð Jehóva til Jeremía spámanns: 7 „Jehóva Guð Ísraels segir: ‚Segið við Júdakonung sem sendi ykkur til mín til að leita leiðsagnar minnar: „Her faraós sem er lagður af stað til að hjálpa ykkur mun neyðast til að snúa aftur heim í land sitt, Egyptaland,+ 8 og Kaldear munu koma aftur og herja á þessa borg. Þeir vinna hana og brenna til grunna.“+ 9 Þetta segir Jehóva: „Blekkið ekki sjálfa ykkur með því að segja: ‚Það er öruggt mál að Kaldear koma ekki aftur,‘ því að þeir munu koma aftur. 10 Þótt ykkur tækist að fella allan her Kaldea sem herjar á ykkur og aðeins særðir menn væru eftir myndu þeir koma úr tjöldum sínum og brenna þessa borg til grunna.“‘“+

11 Þegar her Kaldea hafði hörfað frá Jerúsalem undan her faraós+ 12 ætlaði Jeremía að fara frá Jerúsalem til Benjamínslands+ til að taka við erfðahlut sínum meðal fólks síns. 13 En þegar hann kom að Benjamínshliði var foringi varðliðsins þar en hann hét Jería og var sonur Selemja Hananjasonar. Hann þreif í Jeremía spámann og sagði: „Þú ætlar að ganga í lið með Kaldeum!“ 14 En Jeremía svaraði: „Það er ekki satt! Ég ætla ekki að ganga í lið með Kaldeum.“ En Jería hlustaði ekki á hann heldur handtók hann og fór með hann til höfðingjanna. 15 Höfðingjarnir voru bálreiðir út í Jeremía,+ börðu hann og settu í varðhald+ í húsi Jónatans ritara sem hafði verið breytt í fangelsi. 16 Jeremía var settur í fangaklefa í dýflissunni og sat þar dögum saman.

17 Dag einn lét Sedekía konungur sækja hann og spurði hann með leynd í höll sinni:*+ „Hefur Jehóva sagt eitthvað?“ „Já,“ svaraði Jeremía og hélt áfram: „Þú verður gefinn í hendur Babýlonarkonungs!“+

18 Jeremía sagði síðan við Sedekía konung: „Hvernig hef ég syndgað gegn þér og gegn þjónum þínum og þessari þjóð fyrst þið hafið varpað mér í fangelsi? 19 Hvar eru spámenn ykkar núna sem spáðu: ‚Konungur Babýlonar ræðst ekki á ykkur og þetta land‘?+ 20 Hlustaðu nú, herra minn og konungur. Ég bið þig að sýna mér miskunn og senda mig ekki aftur í hús Jónatans+ ritara því að annars dey ég þar.“+ 21 Sedekía konungur fyrirskipaði þá að Jeremía yrði hafður í haldi í Varðgarðinum.+ Honum var gefinn brauðhleifur á hverjum degi úr bakarastrætinu+ þar til ekkert brauð var eftir í borginni.+ Og Jeremía var áfram í Varðgarðinum.

38 Sefatja Mattansson, Gedalja Pashúrsson, Júkal+ Selemjason og Pashúr+ Malkíason heyrðu það sem Jeremía sagði við allt fólkið: 2 „Jehóva segir: ‚Sá sem verður um kyrrt í þessari borg fellur fyrir sverði, hungursneyð og drepsótt.*+ En sá sem gefst upp fyrir Kaldeum* heldur lífi. Hann fær líf sitt að herfangi og kemst lífs af.‘+ 3 Jehóva segir: ‚Þessi borg verður gefin her Babýlonarkonungs á vald og hann vinnur hana.‘“+

4 Höfðingjarnir sögðu við konung: „Láttu taka þennan mann af lífi.+ Hann dregur úr baráttuhug* hermannanna sem eftir eru í borginni og alls fólksins með því að tala á þessa leið. Þessi maður vill ekki að fólkið búi við frið heldur hörmungar.“ 5 Sedekía konungur svaraði: „Hann er á ykkar valdi því að konungurinn getur ekkert gert til að stöðva ykkur.“

6 Þá tóku þeir Jeremía og hentu honum í gryfju* Malkía konungssonar í Varðgarðinum.+ Þeir létu Jeremía síga niður í reipum. Í gryfjunni var ekkert vatn, bara leðja, og Jeremía sökk ofan í leðjuna.

7 Ebed Melek,+ eþíópískur geldingur* í konungshöllinni,* frétti að Jeremía hefði verið hent ofan í gryfjuna. Konungur sat þá í Benjamínshliði+ 8 og Ebed Melek fór úr konungshöllinni* til að tala við konung. Hann sagði: 9 „Herra minn og konungur, það sem þessir menn hafa gert Jeremía spámanni er hræðilegt! Þeir hentu honum í gryfjuna þar sem hann á eftir að deyja úr hungri því að ekkert brauð er eftir í borginni.“+

10 Konungur skipaði þá Ebed Melek Eþíópíumanni: „Taktu með þér 30 menn héðan og hífðu Jeremía spámann upp úr gryfjunni áður en hann deyr.“ 11 Ebed Melek tók þá mennina með sér og fór inn í konungshöllina,* inn í herbergi undir fjárhirslunni,+ og þeir tóku þaðan slitna fataræfla og gamla tötra og létu þá síga í reipum niður í gryfjuna til Jeremía. 12 Síðan sagði Ebed Melek Eþíópíumaður við Jeremía: „Settu fataræflana og tötrana milli handarkrikanna og reipanna.“ Jeremía gerði það 13 og þeir hífðu hann upp með reipunum og drógu hann upp úr gryfjunni. Jeremía var síðan áfram í Varðgarðinum.+

14 Sedekía konungur sendi eftir Jeremía spámanni og lét hann koma til sín að þriðja innganginum í húsi Jehóva. Konungur sagði við Jeremía: „Mig langar að spyrja þig að svolitlu. Leyndu mig engu.“ 15 Jeremía svaraði Sedekía: „Þú drepur mig ef ég svara þér og ef ég gef þér ráð hlustarðu ekki á mig.“ 16 Þá sór Sedekía konungur Jeremía leynilegan eið: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem gaf okkur lífið, mun ég ekki drepa þig og ekki gefa þig í hendur þessara manna sem sækjast eftir lífi þínu.“

17 Jeremía sagði þá við Sedekía: „Jehóva, Guð hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Ef þú gefst upp fyrir höfðingjum Babýlonarkonungs heldurðu lífi og þessi borg verður ekki brennd til grunna. Bæði þér og heimilisfólki þínu verður þyrmt.+ 18 En ef þú gefst ekki upp fyrir höfðingjum Babýlonarkonungs verður þessi borg gefin í hendur Kaldea. Þeir munu brenna hana til grunna+ og þú kemst ekki undan þeim.‘“+

19 Þá sagði Sedekía konungur við Jeremía: „Ég er hræddur við Gyðingana sem hafa gengið í lið með Kaldeum. Þeir gætu farið illa með mig ef ég verð gefinn í hendur þeirra.“ 20 En Jeremía sagði: „Þú verður ekki gefinn í hendur þeirra. Hlýddu rödd Jehóva með því að gera það sem ég segi þér. Þá farnast þér vel og þú heldur lífi. 21 En ef þú neitar að gefast upp hefur Jehóva opinberað mér þetta: 22 Allar konurnar sem eru eftir í höll* Júdakonungs verða leiddar út til höfðingja Babýlonarkonungs.+ Þær segja:

‚Mennirnir sem þú treystir* hafa blekkt þig og borið þig ofurliði.+

Þeirra vegna eru fætur þínir sokknir í leðjuna.

Nú hafa þeir hörfað frá þér.‘

23 Allar konur þínar og synir verða leidd út til Kaldea og þú kemst ekki undan þeim heldur mun konungur Babýlonar taka þig til fanga+ og þín vegna verður þessi borg brennd til grunna.“+

24 Þá sagði Sedekía við Jeremía: „Enginn má vita um þetta því að annars deyrðu. 25 Ef höfðingjarnir frétta að ég hafi talað við þig og koma til þín og segja: ‚Segðu okkur hvað þú sagðir við konunginn. Leyndu okkur engu, þá þyrmum við lífi þínu.+ Hvað sagði konungurinn við þig?‘ 26 þá skaltu svara þeim: ‚Ég bað konung að senda mig ekki aftur í hús Jónatans til að deyja þar.‘“+

27 Ekki leið á löngu þar til allir höfðingjarnir komu til Jeremía og spurðu hann. Hann sagði þeim nákvæmlega það sem konungur hafði skipað honum að segja. Þeir létu hann þá í friði því að enginn hafði heyrt samtalið. 28 Jeremía var áfram í Varðgarðinum+ allt til þess dags þegar Jerúsalem var unnin. Já, hann var þar enn þegar Jerúsalem var unnin.+

39 Á níunda stjórnarári Sedekía Júdakonungs, í tíunda mánuðinum, kom Nebúkadnesar* konungur Babýlonar ásamt öllum her sínum til Jerúsalem og settist um hana.+

2 Á 11. stjórnarári Sedekía, á níunda degi fjórða mánaðarins, var brotið skarð í borgarmúrinn.+ 3 Allir höfðingjar Babýlonarkonungs komu inn í borgina og settust niður í Miðhliðinu.+ Það voru þeir Nergalsareser samgar,* Nebúsarsekím yfirhirðstjóri,* Nergalsareser rabmag* og allir hinir höfðingjar Babýlonarkonungs.

4 Þegar Sedekía Júdakonungur og allir hermennirnir sáu þá lögðu þeir á flótta+ og yfirgáfu borgina um nóttina. Þeir fóru í gegnum garð konungs og út um hliðið milli múranna tveggja og héldu í átt að Araba.+ 5 En her Kaldea elti þá og náði Sedekía á eyðisléttum Jeríkó.+ Þeir tóku hann til fanga og fóru með hann til Nebúkadnesars* Babýlonarkonungs í Ribla+ í Hamathéraði+ þar sem hann kvað upp dóm yfir honum. 6 Konungur Babýlonar lét drepa syni Sedekía fyrir augum hans þar í Ribla. Hann lét einnig drepa alla tignarmenn í Júda.+ 7 Síðan blindaði hann Sedekía og setti hann í koparhlekki til að flytja hann til Babýlonar.+

8 Því næst brenndu Kaldear höll* konungs og hús almennings+ og rifu niður múra Jerúsalem.+ 9 Nebúsaradan+ varðforingi flutti þá sem eftir voru í borginni í útlegð til Babýlonar og einnig liðhlaupana sem höfðu slegist í lið með honum og alla aðra sem eftir voru.

10 En Nebúsaradan varðforingi skildi eftir í Júdalandi nokkra af fátækustu íbúunum, þá sem áttu ekki neitt. Á þeim degi gaf hann þeim einnig víngarða og akra til að rækta.*+

11 Nebúkadnesar* Babýlonarkonungur gaf Nebúsaradan varðforingja þessi fyrirmæli um Jeremía: 12 „Sæktu hann og hugsaðu vel um hann. Gerðu honum ekkert mein og gerðu fyrir hann allt sem hann biður þig um.“+

13 Nebúsaradan varðforingi, Nebúsasban yfirhirðstjóri,* Nergalsareser rabmag* og allir forystumenn Babýlonarkonungs sendu þá menn 14 til að sækja Jeremía í Varðgarðinn.+ Þeir fóru með hann til Gedalja,+ sonar Ahíkams+ Safanssonar,+ sem átti að fara með hann heim til sín. Jeremía bjó síðan meðal fólksins.

15 Meðan Jeremía var í haldi í Varðgarðinum+ kom orð Jehóva til hans: 16 „Farðu og segðu við Ebed Melek+ Eþíópíumann: ‚Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: „Ég læt orð mín um þessa borg rætast og færi henni ógæfu en ekki blessun. Daginn sem það gerist verður þú vitni að því.“‘

17 ‚En ég bjarga þér á þeim degi,‘ segir Jehóva, ‚og þú verður ekki gefinn í hendur mannanna sem þú óttast.‘

18 ‚Ég læt þig komast undan og þú munt ekki falla fyrir sverði. Þú færð líf þitt að herfangi*+ af því að þú treystir mér,‘+ segir Jehóva.“

40 Orðið sem kom til Jeremía frá Jehóva eftir að Nebúsaradan+ varðforingi hafði látið hann lausan í Rama.+ Hann hafði flutt hann þangað í handjárnum og þar var hann ásamt öllum útlögunum frá Jerúsalem og Júda sem átti að flytja til Babýlonar. 2 Varðforinginn tók Jeremía afsíðis og sagði við hann: „Jehóva Guð þinn boðaði að þessar hörmungar kæmu yfir þennan stað 3 og Jehóva hefur látið það sem hann sagði rætast af því að þið syndguðuð gegn Jehóva og hlýdduð honum ekki. Þess vegna hafa þessar hörmungar komið yfir ykkur.+ 4 Nú leysi ég af þér handjárnin. Þér er velkomið að koma með mér til Babýlonar ef þú vilt. Ég skal sjá um þig. En ef þú vilt ekki koma með mér til Babýlonar skaltu ekki koma. Allt landið stendur þér til boða. Þú getur farið hvert sem þú vilt.“+

5 Þar sem Jeremía hikaði við að snúa til baka sagði Nebúsaradan: „Farðu aftur til Gedalja,+ sonar Ahíkams+ Safanssonar,+ sem konungur Babýlonar hefur sett yfir borgirnar í Júda. Þú getur búið hjá honum meðal fólksins eða farið hvert sem þú vilt.“

Varðforinginn gaf honum síðan nesti og gjöf og sendi hann burt. 6 Jeremía fór þá til Gedalja Ahíkamssonar í Mispa+ og bjó hjá honum meðal fólksins sem var eftir í landinu.

7 Allir herforingjarnir sem voru dreifðir um landið ásamt mönnum sínum fréttu nú að konungur Babýlonar hefði skipað Gedalja Ahíkamsson landstjóra og sett hann yfir fátæka fólkið í landinu sem hafði ekki verið flutt til Babýlonar, karla, konur og börn.+ 8 Þeir fóru því til Gedalja í Mispa.+ Þetta voru þeir Ísmael+ Netanjason, Jóhanan+ og Jónatan Kareasynir, Seraja Tanhúmetsson, synir Efaí frá Netófa og Jesanja+ sonur Maakatíta og menn þeirra. 9 Gedalja, sonur Ahíkams Safanssonar, vann þeim og mönnum þeirra eið og sagði: „Verið óhræddir að þjóna Kaldeum. Verið um kyrrt í landinu og þjónið konungi Babýlonar. Þá mun ykkur ganga allt í haginn.+ 10 Sjálfur ætla ég að búa áfram í Mispa til að vera fulltrúi ykkar gagnvart* þeim Kaldeum sem koma til okkar. En þið skuluð birgja ykkur upp af víni, sumarávöxtum og olíu og geyma það í kerum ykkar og setjast að í borgunum sem þið hafið lagt undir ykkur.“+

11 Allir Gyðingarnir sem voru í Móab, Ammón og Edóm og einnig þeir sem voru í öllum hinum löndunum fréttu líka að konungur Babýlonar hefði leyft nokkrum að vera eftir í Júda og sett yfir þá Gedalja, son Ahíkams Safanssonar. 12 Þessir Gyðingar sneru þá aftur frá öllum þeim stöðum sem þeir höfðu dreifst um og komu til Júda, til Gedalja í Mispa. Þeir söfnuðu mjög miklum birgðum af víni og sumarávöxtum.

13 Jóhanan Kareason og allir herforingjarnir sem voru dreifðir um landið komu til Gedalja í Mispa 14 og sögðu við hann: „Veistu ekki að Baalis konungur Ammóníta+ hefur sent Ísmael Netanjason til að drepa þig?“+ En Gedalja Ahíkamsson trúði þeim ekki.

15 Þá sagði Jóhanan Kareason við Gedalja í Mispa án þess að nokkur heyrði til: „Leyfðu mér að fara og drepa Ísmael Netanjason. Enginn mun komast að því. Hvers vegna ætti hann að drepa þig og hvers vegna ættu allir Júdamennirnir sem hafa safnast til þín að tvístrast og þeir sem eftir eru af Júdamönnum að líða undir lok?“ 16 En Gedalja+ Ahíkamsson sagði við Jóhanan Kareason: „Þú skalt ekki gera þetta því að það sem þú segir um Ísmael er lygi.“

41 Í sjöunda mánuðinum kom Ísmael,+ sonur Netanja Elísamasonar, sem var af konungsættinni og einn af forystumönnum konungs, til Gedalja Ahíkamssonar í Mispa ásamt tíu mönnum.+ Meðan þeir borðuðu saman í Mispa 2 stóð Ísmael Netanjason upp og mennirnir tíu sem voru með honum og hjuggu Gedalja, son Ahíkams Safanssonar, með sverði. Þannig drap hann manninn sem Babýlonarkonungur hafði sett yfir landið. 3 Ísmael drap einnig alla Gyðingana sem voru hjá Gedalja í Mispa, og eins hermenn Kaldea sem voru þar.

4 Daginn eftir að Gedalja var myrtur og áður en nokkur frétti það 5 komu 80 menn frá Síkem,+ Síló+ og Samaríu.+ Þeir höfðu rakað af sér skeggið, rifið föt sín og skorið sig.+ Þeir voru á leiðinni til húss Jehóva með kornfórnir og reykelsi.*+ 6 Ísmael Netanjason fór út úr Mispa og gekk grátandi á móti þeim. Þegar hann mætti þeim sagði hann við þá: „Komið til Gedalja Ahíkamssonar.“ 7 En Ísmael Netanjason og menn hans drápu þá þegar þeir komu inn í borgina og hentu þeim í gryfju.

8 En meðal þeirra voru tíu menn sem sögðu við Ísmael: „Dreptu okkur ekki því að við höfum falið birgðir af hveiti, byggi, olíu og hunangi úti á akri.“ Þá þyrmdi hann lífi þeirra og drap þá ekki með bræðrum þeirra. 9 Ísmael kastaði öllum líkum mannanna sem hann hafði drepið í stóra gryfju, þá sem Asa konungur hafði gert þegar Basa Ísraelskonungur ógnaði honum.+ Þessa gryfju fyllti Ísmael Netanjason með líkum mannanna sem höfðu verið drepnir.

10 Ísmael tók til fanga allt fólkið sem var eftir í Mispa,+ þar á meðal dætur konungs og alla aðra sem voru eftir í Mispa og Nebúsaradan varðforingi hafði sett í umsjá Gedalja+ Ahíkamssonar. Ísmael Netanjason tók þau til fanga og lagði af stað yfir til Ammóníta.+

11 Þegar Jóhanan+ Kareason og allir herforingjarnir sem voru með honum fréttu af voðaverkunum sem Ísmael Netanjason hafði unnið 12 fóru þeir ásamt öllum mönnum sínum til að berjast við hann og fundu hann við stóra vatnið* í Gíbeon.

13 Allt fólkið sem var með Ísmael gladdist þegar það sá Jóhanan Kareason og alla herforingjana sem fylgdu honum. 14 Allir sem Ísmael hafði flutt með sér frá Mispa+ sneru nú við og fóru yfir til Jóhanans Kareasonar. 15 En Ísmael Netanjason og átta af mönnum hans komust undan Jóhanan og héldu til Ammóníta.

16 Jóhanan Kareason og allir herforingjarnir sem voru með honum tóku með sér alla sem eftir voru af fólkinu frá Mispa, þá sem þeir höfðu bjargað úr höndum Ísmaels Netanjasonar eftir að hann hafði drepið Gedalja+ Ahíkamsson. Þeir fóru með menn, hermenn, konur, börn og hirðmenn frá Gíbeon. 17 Þeir lögðu af stað og höfðu viðdvöl í gistihúsi Kímhams rétt hjá Betlehem.+ Þeir ætluðu að fara til Egyptalands+ 18 til að komast undan Kaldeum því að þeir voru hræddir við þá þar sem Ísmael Netanjason hafði drepið Gedalja Ahíkamsson sem Babýlonarkonungur hafði sett yfir landið.+

42 Nú komu allir herforingjarnir, Jóhanan+ Kareason, Jesanja Hósajason og allt fólkið, jafnt háir sem lágir, 2 og sögðu við Jeremía spámann: „Hlustaðu á beiðni okkar og biddu til Jehóva Guðs þíns fyrir okkur, fyrir öllum þeim sem eru eftir, því að eins og þú sérð erum við aðeins örfá eftir af miklum fjölda.+ 3 Jehóva Guð þinn vísi okkur veginn sem við eigum að fara og segi okkur hvað við eigum að gera.“

4 Jeremía spámaður svaraði þeim: „Gott og vel, ég skal gera eins og þið segið og biðja til Jehóva Guðs ykkar. Ég skal segja ykkur allt sem Jehóva svarar ykkur og ekki leyna ykkur einu einasta orði.“

5 Þeir sögðu þá við Jeremía: „Jehóva sé sannur og trúr vottur gegn okkur ef við fylgjum ekki nákvæmlega leiðbeiningum Jehóva Guðs þíns sem þú flytur okkur. 6 Hvort sem okkur líkar betur eða verr munum við hlýða rödd Jehóva Guðs okkar sem við sendum þig til því að ef við hlýðum Jehóva Guði okkar fer allt vel.“

7 Tíu dögum síðar kom orð Jehóva til Jeremía. 8 Þá kallaði hann á Jóhanan Kareason, alla herforingjana sem voru með honum og allt fólkið, jafnt háa sem lága,+ 9 og sagði: „Þetta segir Jehóva Guð Ísraels sem þið senduð mig til svo að ég bæri fram beiðni ykkar: 10 ‚Ef þið verðið um kyrrt í þessu landi mun ég byggja ykkur upp en ekki rífa ykkur niður, ég mun gróðursetja ykkur en ekki uppræta því að ég iðrast þeirra hörmunga* sem ég hef leitt yfir ykkur.+ 11 Hræðist ekki konung Babýlonar sem þið óttist nú.‘+

‚Hræðist hann ekki,‘ segir Jehóva, ‚því að ég er með ykkur. Ég bjarga ykkur og frelsa ykkur úr höndum hans. 12 Ég verð miskunnsamur við ykkur+ og hann mun sýna ykkur miskunn og leyfa ykkur að snúa aftur heim í land ykkar.

13 En ef þið segið: „Nei, við verðum ekki um kyrrt í þessu landi!“ og óhlýðnist Jehóva Guði ykkar 14 og segið: „Nei, við viljum frekar fara til Egyptalands+ þar sem við þurfum ekki að horfa upp á stríð né heyra hornablástur né hungra eftir brauði, já, þar viljum við búa,“ 15 heyrið þá orð Jehóva, þið sem eruð eftir af Júdamönnum. Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: „Ef þið eruð harðákveðin í að fara til Egyptalands til að búa þar* 16 mun sverðið sem þið óttist ná ykkur þar í Egyptalandi og hungrið sem þið hræðist elta ykkur til Egyptalands og þar munuð þið deyja.+ 17 Allir sem eru ákveðnir í að fara til Egyptalands til að búa þar munu falla fyrir sverði, hungursneyð og drepsótt.* Enginn þeirra mun lifa af eða komast undan hörmungunum sem ég leiði yfir þá.“‘

18 Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Eins og reiði minni og heift var úthellt yfir Jerúsalembúa,+ þannig verður heift minni úthellt yfir ykkur ef þið farið til Egyptalands. Þið verðið nefnd í bölbænum og fólk mun hrylla við ykkur, formæla ykkur og smána+ og þið fáið aldrei aftur að sjá þennan stað.‘

19 Jehóva hefur talað til ykkar sem eruð eftir af Júdamönnum. Farið ekki til Egyptalands. Munið að nú hef ég varað ykkur við 20 að synd ykkar mun kosta ykkur lífið. Þið senduð mig til Jehóva Guðs ykkar og sögðuð: ‚Biddu til Jehóva Guðs okkar fyrir okkur og segðu okkur allt sem Jehóva Guð okkar segir og við skulum fara eftir því.‘+ 21 Í dag hef ég sagt ykkur frá því en þið viljið ekki hlýða Jehóva Guði ykkar né gera nokkuð af því sem hann sendi mig til að segja ykkur.+ 22 Þið skuluð því vita fyrir víst að þið munuð falla fyrir sverði, hungursneyð og drepsótt á þeim stað þar sem þið viljið setjast að.“+

43 Þegar Jeremía var búinn að segja fólkinu allt sem Jehóva Guð þeirra sagði, hvert einasta orð sem Jehóva Guð þeirra hafði falið honum að flytja þeim, 2 sögðu Asarja Hósajason, Jóhanan+ Kareason og allir hrokagikkirnir við Jeremía: „Þú lýgur! Jehóva Guð okkar hefur ekki sent þig til að segja: ‚Farið ekki til Egyptalands til að búa þar,‘ 3 heldur hefur Barúk+ Neríason eggjað þig upp á móti okkur svo að við föllum í hendur Kaldea og verðum drepin eða flutt í útlegð til Babýlonar.“+

4 Jóhanan Kareason, allir herforingjarnir og allt fólkið óhlýðnaðist fyrirmælum Jehóva um að vera um kyrrt í Júda. 5 Jóhanan Kareason og allir herforingjarnir tóku með sér þá sem eftir voru af Júdamönnum og höfðu snúið aftur til Júda frá öllum þeim þjóðum sem þeir höfðu dreifst um.+ 6 Þeir tóku með sér karla, konur og börn, dætur konungs og alla þá sem Nebúsaradan+ varðforingi hafði skilið eftir hjá Gedalja,+ syni Ahíkams+ Safanssonar,+ og þeirra á meðal voru Jeremía spámaður og Barúk Neríason. 7 Þeir fóru til Egyptalands því að þeir óhlýðnuðust fyrirmælum Jehóva og þeir komu til Takpanes.+

8 Nú kom orð Jehóva til Jeremía í Takpanes: 9 „Taktu stóra steina og feldu þá í steinlíminu í múrsteinsstéttinni við innganginn að húsi faraós í Takpanes. Gerðu þetta í viðurvist Gyðinganna. 10 Segðu síðan við þá: ‚Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: „Ég sendi eftir Nebúkadnesari* Babýlonarkonungi, þjóni mínum,+ og set hásæti hans yfir þessa steina sem ég hef falið og hann mun breiða konunglegt tjald sitt yfir þá.+ 11 Hann kemur og ræðst á Egyptaland.+ Sá sem er ætlaður drepsótt ferst úr drepsótt, sá sem er ætlaður útlegð fer í útlegð og sá sem er ætlaður sverði fellur fyrir sverði.+ 12 Ég kveiki í musterum* guða Egyptalands+ og hann mun brenna þau og flytja guðina burt eins og fanga. Hann vefur um sig Egyptalandi eins og hirðir vefur um sig skikkju sinni, og fer þaðan í friði.* 13 Hann mölbrýtur súlurnar* í Bet Semes* í Egyptalandi og brennir musteri* guða Egyptalands til grunna.“‘“

44 Orðið sem kom til Jeremía varðandi alla Gyðingana sem bjuggu í Egyptalandi,+ þá sem bjuggu í Migdól,+ Takpanes,+ Nóf*+ og Patroshéraði:+ 2 „Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Þið hafið séð allar þær hörmungar sem ég leiddi yfir Jerúsalem+ og allar borgirnar í Júda. Í dag eru þær rústir einar og enginn býr þar.+ 3 Það gerðist vegna illskuverkanna sem þeir frömdu til að misbjóða mér. Þeir fóru og færðu öðrum guðum fórnir+ og þjónuðu þeim – guðum sem hvorki þið né forfeður ykkar þekktuð.+ 4 Ég sendi alla þjóna mína, spámennina, hvað eftir annað til ykkar til að segja: „Fremjið ekki þennan viðbjóð sem ég hata.“+ 5 En þeir hlustuðu ekki og gáfu því engan gaum. Þeir sneru ekki baki við illsku sinni og hættu ekki að færa öðrum guðum fórnir.+ 6 Þess vegna úthellti ég heift minni og reiði og hún brann í borgum Júda og á strætum Jerúsalem svo að þær urðu að rústum og auðn eins og þær eru nú í dag.‘+

7 Og nú segir Jehóva, Guð hersveitanna, Guð Ísraels: ‚Hvers vegna kallið þið þessa miklu ógæfu yfir ykkur? Öllum körlum og konum, börnum og ungbörnum verður útrýmt úr Júda. Enginn verður eftir. 8 Hvers vegna viljið þið misbjóða mér með verkum handa ykkar og færa öðrum guðum fórnir í Egyptalandi þar sem þið hafið sest að? Ykkur verður útrýmt og allar þjóðir jarðar munu nefna ykkur í bölbænum sínum og smána ykkur.+ 9 Hafið þið gleymt illskuverkum forfeðra ykkar og illskuverkum Júdakonunga+ og eiginkvenna þeirra+ og illskuverkum sjálfra ykkar og eiginkvenna ykkar+ sem voru framin í Júda og á strætum Jerúsalem? 10 Hingað til hafið þið hvorki auðmýkt ykkur,* óttast mig+ né fylgt lögum mínum og ákvæðum sem ég lagði fyrir ykkur og forfeður ykkar.‘+

11 Þess vegna segir Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels: ‚Ég ætla að leiða ógæfu yfir ykkur og eyða öllum Júdamönnum. 12 Ég gríp þá sem eftir eru af Júdamönnum, þá sem voru ákveðnir í að fara til Egyptalands til að búa þar, og þeir munu allir farast í Egyptalandi.+ Þeir falla fyrir sverði og farast úr hungri. Jafnt háir sem lágir verða sverði og hungursneyð að bráð. Þeir verða nefndir í bölbænum og fólk mun hrylla við þeim, formæla þeim og smána.+ 13 Ég refsa þeim sem búa í Egyptalandi eins og ég refsaði Jerúsalem, með sverði, hungursneyð og drepsótt.*+ 14 Þeir sem eftir eru af Júdamönnum og hafa sest að í Egyptalandi komast ekki undan né lifa af. Þeir munu ekki snúa aftur til Júda þó að þá langi til að fara heim aftur og búa þar. Aðeins örfáir komast undan og snúa aftur heim.‘“

15 Allir mennirnir sem vissu að konur þeirra færðu öðrum guðum fórnir og allar konurnar sem stóðu þar í stórum hópi og allir sem bjuggu í Patros+ í Egyptalandi+ svöruðu Jeremía: 16 „Við viljum ekki hlusta á það sem þú hefur sagt okkur í nafni Jehóva 17 heldur ætlum við að fylgja því sem við höfum sagt: Við ætlum að láta fórnarreyk stíga upp handa himnadrottningunni* og færa henni drykkjarfórnir+ eins og við, forfeður okkar, konungar og höfðingjar gerðum í borgum Júda og á strætum Jerúsalem. Þá áttum við nóg af brauði og höfðum það gott og við þurftum ekki að þola neinar hörmungar. 18 En eftir að við hættum að láta fórnarreyk stíga upp handa himnadrottningunni* og færa henni drykkjarfórnir hefur okkur skort allt og við höfum fallið fyrir sverði og hungursneyð.“

19 Og konurnar bættu við: „Þegar við létum fórnarreyk stíga upp handa himnadrottningunni* og færðum henni drykkjarfórnir þá var það með samþykki eiginmanna okkar að við bökuðum fórnarkökur sem voru í laginu eins og hún og færðum henni drykkjarfórnir.“

20 Þá sagði Jeremía við allt fólkið, karlana og konur þeirra og alla sem höfðu svarað honum: 21 „Fórnirnar sem þið og forfeður ykkar, konungar ykkar, höfðingjar og íbúar landsins færðuð í borgum Júda og á strætum Jerúsalem+ fóru ekki fram hjá Jehóva. Hann gleymdi þeim ekki. 22 Að lokum gat Jehóva ekki lengur umborið vonda hegðun ykkar og viðbjóðsleg verk. Þess vegna varð land ykkar að rústum, að hryllilegum stað sem fólk nefnir í bölbænum sínum, stað þar sem enginn býr eins og nú er raunin.+ 23 Þar sem þið færðuð þessar fórnir og syndguðuð gegn Jehóva með því að óhlýðnast fyrirmælum Jehóva og fylgja ekki lögum hans, ákvæðum og áminningum kom þessi ógæfa yfir ykkur eins og nú er raunin.“+

24 Jeremía hélt áfram og sagði við allt fólkið og allar konurnar: „Heyrið orð Jehóva, allir Júdamenn sem eruð í Egyptalandi. 25 Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Þið hafið efnt með höndunum það sem þið og konur ykkar hafið lofað með munninum. Þið sögðuð: „Við ætlum að halda heit okkar um að láta fórnarreyk stíga upp handa himnadrottningunni* og færa henni drykkjarfórnir.“+ Þið konur ætlið greinilega að halda heit ykkar og efna þau.‘

26 Heyrið því orð Jehóva, allir Júdamenn sem búið í Egyptalandi: ‚„Ég sver við mitt mikla nafn,“ segir Jehóva, „að aldrei framar mun nokkur Júdamaður í öllu Egyptalandi nefna nafn mitt í eiðum sínum+ og segja: ‚Svo sannarlega sem alvaldur Drottinn Jehóva lifir!‘+ 27 Ég vaki yfir þeim til að færa þeim ógæfu en ekki blessun.+ Allir Júdamenn í Egyptalandi munu falla fyrir sverði og hungursneyð þar til enginn er eftir.+ 28 Aðeins örfáir munu komast undan sverðinu og snúa aftur frá Egyptalandi heim til Júda.+ Allir sem eftir eru af Júdamönnum og komu til Egyptalands til að búa þar komast þá að raun um hvort það er mitt orð eða þeirra sem hefur ræst.“‘“

29 „‚Þetta skal vera ykkur tákn,‘ segir Jehóva, ‚um að ég mun refsa ykkur á þessum stað svo að þið komist að raun um að hörmungarnar sem ég hef boðað ykkur verða að veruleika. 30 Jehóva segir: „Ég gef Hofra faraó Egyptalandskonung í hendur óvina hans og þeirra sem vilja drepa hann, rétt eins og ég gaf Sedekía Júdakonung í hendur Nebúkadnesars* Babýlonarkonungs sem var óvinur hans og vildi drepa hann.“‘“+

45 Þennan boðskap flutti Jeremía spámaður Barúk+ Neríasyni þegar hann skrifaði í bók öll þau orð sem Jeremía las honum fyrir+ á fjórða stjórnarári Jójakíms+ Jósíasonar Júdakonungs:

2 „Þetta segir Jehóva Guð Ísraels um þig, Barúk: 3 ‚Þú hefur sagt: „Aumingja ég því að Jehóva hefur bætt sorg við kvöl mína! Ég er þreyttur á að stynja og finn enga ró.“‘

4 Þú skalt segja við hann: ‚Jehóva segir: „Það sem ég hef byggt upp ríf ég niður og það sem ég hef gróðursett uppræti ég um allt landið.+ 5 En þú ætlar þér stóra hluti.* Hættu því.“‘

‚Ég leiði ógæfu yfir alla menn,‘+ segir Jehóva, ‚en ég gef þér líf þitt að herfangi* hvert sem þú ferð.‘“+

46 Þetta er orð Jehóva sem kom til Jeremía spámanns varðandi þjóðirnar:+ 2 gegn Egyptalandi+ varðandi her Nekós+ faraós Egyptalandskonungs sem var við Efratfljót og beið ósigur við Karkemis fyrir Nebúkadnesari* Babýlonarkonungi á fjórða stjórnarári Jójakíms+ Jósíasonar Júdakonungs:

 3 „Hafið til reiðu bæði litlu skildina* og þá stóru

og leggið til bardaga.

 4 Spennið hestana fyrir og stígið á bak, þið riddarar.

Takið ykkur stöðu og setjið á ykkur hjálmana.

Fægið spjótin og klæðist brynjum.

 5 ‚Af hverju sé ég þá lafhrædda?

Þeir hörfa, hermenn þeirra eru gersigraðir.

Þeir flýja í ofboði, hermenn þeirra líta ekki við.

Skelfingin er allt um kring,‘ segir Jehóva.

 6 ‚Hinir fljótu geta ekki flúið og hermennirnir komast ekki undan.

Í norðri, á bökkum Efratfljóts,

hrasa þeir og falla.‘+

 7 Hver brýst fram eins og Níl,

eins og ólgandi fljót?

 8 Egyptaland brýst fram eins og Níl,+

eins og ólgandi fljót,

og segir: ‚Ég ætla að brjótast fram og þekja jörðina,

eyða borginni og íbúum hennar.‘

 9 Af stað, hestar!

Æðið áfram, stríðsvagnar!

Hermennirnir sæki fram,

Kús og Pút sem bera skildi+

og Lúdítar+ sem bera boga og spenna þá.+

10 Þetta er dagur alvalds Drottins, Jehóva hersveitanna, hefndardagur þegar hann hefnir sín á óvinum sínum. Sverðið mun gleypa þá og seðjast og svala þorsta sínum með blóði þeirra því að alvaldur Drottinn, Jehóva hersveitanna, heldur fórnarhátíð* í landinu í norðri, við Efratfljót.+

11 Farðu upp til Gíleaðs og sæktu þér balsam,+

meyjan, dóttirin Egyptaland.

Þú hefur reynt ótal lyf án árangurs

því að engin lækning er til handa þér.+

12 Þjóðirnar hafa frétt af niðurlægingu þinni+

og hróp þitt berst um allt landið.

Einn hermaður hrasar um annan

og þeir falla báðir saman.“

13 Þetta er orðið sem Jehóva flutti Jeremía spámanni um að Nebúkadnesar* Babýlonarkonungur kæmi til að ráðast á Egyptaland:+

14 „Tilkynnið þetta í Egyptalandi, boðið það í Migdól.+

Boðið það í Nóf* og Takpanes.+

Segið: ‚Takið ykkur stöðu og verið viðbúin

því að sverðið mun gleypa allt í kringum ykkur.

15 Hvers vegna hefur sterkum mönnum ykkar verið sópað burt?

Þeir héldu ekki velli

því að Jehóva steypti þeim um koll.

16 Þeir hrasa og falla í hrönnum

og segja hver við annan:

„Stattu upp! Snúum aftur til þjóðar okkar og heimalands

því að sverðið er vægðarlaust.“‘

17 Þar hrópuðu þeir:

‚Faraó Egyptalandskonungur er ekkert nema hávær vindbelgur

sem lét tækifærið* ganga sér úr greipum.‘+

18 ‚Svo sannarlega sem ég lifi,‘ segir konungurinn sem ber nafnið Jehóva hersveitanna:

‚Hann* líkist Tabor+ meðal fjallanna

og Karmel+ við sjóinn þegar hann kemur.

19 Taktu saman farangur þinn fyrir útlegðina,

þú dóttir sem býrð í Egyptalandi,

því að Nóf* verður að hryllilegum stað,

hún verður brennd* og enginn mun búa þar.+

20 Egyptaland er eins og falleg kvíga

en broddflugur ráðast á hana úr norðri.

21 Jafnvel málaliðar hennar eru eins og alikálfar

en þeir hafa einnig snúið við og flúið allir sem einn.

Þeir héldu ekki velli+

því að hörmungadagur þeirra er runninn upp,

tími uppgjörsins.‘

22 ‚Hún hvæsir eins og höggormur sem skríður burt

þegar þeir ráðast gegn henni af alefli og með öxum

eins og skógarhöggsmenn.*

23 Þeir fella skóg hennar,‘ segir Jehóva, ‚þótt hann virðist ómögulegur yfirferðar

því að þeir eru fleiri en engisprettur, óteljandi.

24 Dóttirin Egyptaland verður niðurlægð

og gefin í hendur þjóðarinnar úr norðri.‘+

25 Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir: ‚Nú beini ég sjónum mínum að Amón+ frá Nó*+ og að faraó, að Egyptalandi, guðum þess+ og konungum – já, að faraó og öllum sem treysta á hann.‘+

26 ‚Ég gef þá í hendur þeirra sem vilja drepa þá, í hendur Nebúkadnesars* Babýlonarkonungs+ og þjóna hans. En eftir það verður aftur byggð í Egyptalandi eins og fyrr á tímum,‘ segir Jehóva.+

27 ‚En þú, þjónn minn, Jakob, óttastu ekki

og vertu ekki hræddur, Ísrael,+

því að ég frelsa þig úr fjarlægu landi

og afkomendur þína úr landinu þar sem þeir eru í útlegð.+

Jakob snýr aftur heim og býr við frið og öryggi,

enginn mun hræða hann.+

28 Vertu því ekki hræddur, þjónn minn, Jakob,‘ segir Jehóva, ‚því að ég er með þér.

Ég útrými öllum þeim þjóðum sem ég dreifði þér um+

en þér mun ég ekki útrýma.+

Ég aga þig* að hæfilegu marki+

en læt þér engan veginn órefsað.‘“

47 Þetta er orð Jehóva sem kom til Jeremía spámanns varðandi Filistea+ áður en faraó vann Gasa. 2 Jehóva segir:

„Vatnsflaumur kemur úr norðri

og verður að beljandi fljóti.

Það flæðir yfir landið og allt sem í því er,

borgina og íbúa hennar.

Menn munu æpa

og allir sem búa í landinu hljóða upp yfir sig.

 3 Þegar hófatök hesta hans glymja,

stríðsvagnar hans drynja

og hjól hans hvína

munu feður ekki einu sinni líta við til barna sinna

því að hendur þeirra örmagnast.

 4 Sá dagur nálgast að öllum Filisteum verði eytt.+

Þá verður öllum útrýmt sem eftir eru af bandamönnum Týrusar+ og Sídonar+

því að Jehóva eyðir Filisteum,

öllum sem eftir eru af þeim sem fluttust frá eyjunni Kaftór.*+

 5 Gasa verður sköllótt.*

Askalon er þögnuð.+

Hversu lengi ætlið þið að skera ykkur,+

þið sem eftir eruð á sléttum þeirra?

 6 Ó, sverð Jehóva,+

hvenær ætlarðu að róast?

Farðu aftur í slíðrin.

Dragðu þig í hlé og þagnaðu.

 7 Hvernig getur það verið rólegt

þegar Jehóva hefur skipað því fyrir?

Gegn Askalon og sjávarströndinni,+

þangað hefur hann sent það.“

48 Um Móab.+ Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir:

„Illa er komið fyrir Nebó+ því að henni hefur verið eytt!

Kirjataím+ er niðurlægð og unnin.

Virkið* er til skammar og í molum.+

 2 Enginn dásamar Móab lengur.

Í Hesbon+ lögðu menn á ráðin um að kollvarpa honum:

‚Komið, gerum út af við hann sem þjóð.‘

Þú, Madmen, skalt líka þegja

því að sverðið er á eftir þér.

 3 Angistaróp heyrist frá Hórónaím,+

eyðing og tortíming.

 4 Móab hefur verið lagður í rúst,

börnin hans æpa.

 5 Menn ganga hágrátandi upp Lúkítbrekku.

Á leiðinni niður frá Hórónaím heyrast neyðaróp vegna hörmunganna.+

 6 Forðið ykkur, flýið til að bjarga lífi ykkar!

Verðið eins og einitré í óbyggðunum.

 7 Þar sem þú treystir á verk þín og fjársjóði

verður þú einnig unninn.

Og Kamos+ fer í útlegð

ásamt prestum sínum og höfðingjum.

 8 Eyðandinn ræðst inn í hverja borg,

engin borg kemst undan.+

Dalurinn* verður lagður í rúst

og sléttlendið* eyðilagt, rétt eins og Jehóva hefur sagt.

 9 Setjið upp vegvísi fyrir Móab

því að hann flýr þegar hann verður lagður í rúst.

Borgir hans vekja skelfingu

og verða mannlausar.+

10 Bölvaður sé sá sem vinnur verk Jehóva með hangandi hendi!

Bölvaður sé sá sem meinar sverði sínu að úthella blóði!

11 Móabítar hafa verið látnir í friði frá æsku

eins og vín sem hvílir á dreggjum sínum.

Þeim hefur ekki verið hellt úr einu keri í annað

og þeir hafa aldrei farið í útlegð.

Þess vegna hefur bragðið af þeim haldist óbreytt

og ilmurinn af þeim ekki breyst.

12 ‚Þeir dagar koma því,‘ segir Jehóva, ‚að ég sendi menn til að velta þeim um koll. Þeir hvolfa þeim og tæma ker þeirra og mölbrjóta krukkur þeirra. 13 Móabítar munu skammast sín fyrir Kamos eins og Ísraelsmenn skammast sín fyrir Betel sem þeir lögðu traust sitt á.+

14 Hvernig dirfist þið að segja: „Við erum miklir stríðskappar, tilbúnir til að berjast“?‘+

15 ‚Móab er í rústum,

ráðist var inn í borgir hans+

og bestu ungmennin drepin,‘+

segir konungurinn sem ber nafnið Jehóva hersveitanna.+

16 Hörmungar Móabíta vofa yfir

og fall þeirra nálgast óðum.+

17 Allir nágrannar þeirra munu hafa samúð með þeim,

allir sem þekkja nafn þeirra.

Segið við þá: ‚Æ, stafurinn sterki er brotinn, hinn dýrlegi sproti!‘

18 Stígðu niður úr dýrð þinni

og sestu í þorsta þínum,* þú dóttir sem býrð í Díbon,+

því að eyðandi Móabs heldur gegn þér

og hann brýtur niður vígi þín.+

19 Stattu við veginn og líttu í kringum þig, þú sem býrð í Aróer.+

Spyrðu flóttamanninn og konuna sem hefur komist undan: ‚Hvað gerðist?‘

20 Móab er niðurlægður og gripinn skelfingu.

Æpið og hljóðið.

Tilkynnið í Arnon+ að Móab hafi verið eytt.

21 Dómur er genginn yfir sléttlendið,*+ yfir Hólon, Jahas+ og Mefaat,+ 22 yfir Díbon,+ Nebó+ og Bet Díblataím, 23 yfir Kirjataím,+ Bet Gamúl og Bet Meon,+ 24 yfir Keríót+ og Bosra og allar borgir í Móabslandi, fjær og nær.

25 ‚Styrkur* Móabs hefur verið höggvinn af,

armur hans brotinn,‘ segir Jehóva.

26 ‚Gerið hann drukkinn+ því að hann hefur hreykt sér gegn Jehóva.+

Móab veltir sér í ælu sinni

og er orðinn að athlægi.

27 Hæddist þú ekki að Ísrael?+

Var hann gripinn meðal þjófa

fyrst þú hristir höfuðið yfir honum og gerðir lítið úr honum?

28 Yfirgefið borgirnar og setjist að í klettunum, þið sem búið í Móab,

og verðið eins og dúfa sem gerir sér hreiður í gljúfraveggnum.‘“

29 „Við höfum heyrt um yfirgengilegan hroka Móabs,

um yfirlæti hans, hroka og stolt, og um sjálfumgleði hjarta hans.“+

30 „‚Ég þekki heift hans,‘ segir Jehóva,

‚en stóryrði hans reynast marklaus.

Þeir fá engu áorkað.

31 Þess vegna græt ég yfir Móab,

ég kveina yfir öllum Móab

og hljóða yfir íbúum Kír Heres.+

32 Ég græt meira yfir þér, vínviður Síbma,+

en yfir Jaser.+

Blómlegir sprotar þínir hafa teygt sig yfir hafið,

þeir náðu til hafsins, til Jaser.

Eyðandinn hefur kastað sér yfir sumarávexti þína og vínuppskeru.+

33 Fögnuður og gleði er horfin úr aldingarðinum

og úr Móabslandi.+

Ég lét vínið hætta að flæða úr vínpressunni.

Enginn treður vínber lengur með gleðiópum.

Ópin verða annars konar.‘“+

34 „‚Hrópin í Hesbon+ ná allt til Eleale,+

raddir þeirra berast allt til Jahas,+

frá Sóar til Hórónaím+ og Eglat Selisíu.

Jafnvel Nimrímvötn verða að eyðimörk.+

35 Ég uppræti úr Móab,‘ segir Jehóva,

‚þann sem færir fórn á fórnarhæðinni

og þann sem færir guði sínum sláturfórnir.

36 Þess vegna kveinar* hjarta mitt yfir Móab eins og flauta*+

og hjarta mitt kveinar* yfir íbúum Kír Heres eins og flauta*

því að hann missir auðinn sem hann hefur aflað sér.

37 Hvert höfuð er sköllótt+

og hvert skegg skorið af.

Á öllum handleggjum eru skurðir+

og hærusekkur bundinn um mjaðmirnar!‘“+

38 „‚Á hverju þaki í Móab

og á öllum torgum hans

heyrist ekkert nema harmakvein

því að ég hef brotið Móab

eins og krukku sem enginn vill,‘ segir Jehóva.

39 ‚Hann er skelfingu lostinn! Grátið!

Móab hefur hörfað með skömm!

Móab er orðinn að athlægi,

hann vekur skelfingu meðal allra nágranna sinna.‘“

40 „Þetta segir Jehóva:

‚Hann steypir sér niður eins og örn+

og þenur vængina yfir Móab.+

41 Bæirnir verða herteknir

og virkin unnin.

Á þeim degi verður hjarta hermanna Móabs

eins og hjarta konu í barnsburði.‘“

42 „‚Og Móab verður útrýmt sem þjóð+

því að hann hefur hreykt sér gegn Jehóva.+

43 Skelfing, gryfja og gildra bíða þín,

þú sem býrð í Móab,‘ segir Jehóva.

44 ‚Sá sem flýr skelfinguna fellur í gryfjuna

og sá sem kemst upp úr gryfjunni festist í gildrunni.‘

‚Ég refsa Móab á árinu sem ég hef ákveðið,‘ segir Jehóva.

45 ‚Í skugga Hesbon standa hjálparvana flóttamenn

því að eldur brýst út úr Hesbon

og logi úr Síhon.+

Hann gleypir enni Móabs

og hauskúpur ofbeldismannanna.‘+

46 ‚Það er úti um þig, Móab!

Þjóð Kamoss+ er liðin undir lok

því að synir þínir hafa verið teknir til fanga

og dætur þínar fluttar í útlegð.+

47 En ég leiði útlaga Móabs aftur heim á síðustu dögum,‘ segir Jehóva.

‚Hér lýkur dómsboðskapnum yfir Móab.‘“+

49 Um Ammóníta.+ Jehóva segir:

„Á Ísrael enga syni?

Á hann engan erfingja?

Hvers vegna hefur Malkam*+ lagt undir sig landsvæði Gaðs?+

Og hvers vegna býr þjóð hans í borgum Ísraels?“

 2 „‚Þeir dagar koma því,‘ segir Jehóva,

‚að ég læt blása til atlögu* gegn Rabba,+ borg Ammóníta.+

Hún verður að yfirgefinni grjóthrúgu

og bæirnir umhverfis hana* verða brenndir.‘

‚Og Ísrael endurheimtir landið sem þeir tóku af honum,‘+ segir Jehóva.

 3 ‚Kveinaðu, Hesbon, því að Aí er lögð í rúst!

Hljóðið, bæir umhverfis Rabba,

klæðist hærusekk.

Kveinið og ráfið um meðal steinbyrgjanna*

því að Malkam fer í útlegð

ásamt prestum sínum og höfðingjum.+

 4 Hvers vegna montarðu þig af dölunum,*

af frjósamri sléttu þinni, þú ótrúa dóttir

sem treystir á fjársjóði sína

og segir: „Hver ætti að ráðast á mig?“‘“

 5 „‚Ég leiði yfir þig skelfingu,‘ segir alvaldur Drottinn, Jehóva hersveitanna,

‚úr öllum áttum.

Þið tvístrist í allar áttir

og enginn safnar saman þeim sem flýja.‘“

 6 „‚En seinna safna ég saman útlögum Ammóníta,‘ segir Jehóva.“

7 Um Edóm. Jehóva hersveitanna segir:

„Er engin viska lengur í Teman?+

Eru góð ráð horfin frá hinum skynsömu?

Er viska þeirra rotin?

 8 Flýið, snúið við!

Farið og felið ykkur í djúpum dölum, þið sem búið í Dedan,+

því að ég sendi hörmungar yfir Esaú

þegar sá tími kemur að ég beini sjónum mínum að honum.

 9 Ef menn koma til þín og tína vínber,

skilja þeir ekki eitthvað eftir til eftirtínslu?

Ef þjófar koma að nóttu

skemma þeir aðeins það sem þeir vilja.+

10 En ég geri Esaú allslausan.

Ég afhjúpa felustaði hans

svo að hann geti ekki falið sig.

Börnum hans, bræðrum og nágrönnum verður öllum eytt+

og hann mun heyra sögunni til.+

11 Skildu föðurlausu börnin eftir

og ég sé til þess að þau haldi lífi.

Ekkjur þínar geta treyst á mig.“

12 Jehóva segir: „Fyrst þeir sem hafa ekki verið dæmdir til að drekka bikarinn þurfa að drekka hann, hvers vegna ættir þú þá að sleppa með öllu við refsingu? Þú sleppur ekki við refsingu. Þú verður að drekka hann.“+

13 „Ég hef svarið við sjálfan mig,“ segir Jehóva, „að fólk mun hrylla við Bosra+ og smána hana, henni verður eytt og hún nefnd í bölbænum. Allar borgir hennar verða að eilífum rústum.“+

14 Ég hef heyrt boðskap frá Jehóva,

sendiboði hefur verið sendur til þjóðanna:

„Safnist saman og haldið gegn Edóm.

Búist til bardaga!“+

15 „Ég hef gert þig ómerkilegan meðal þjóðanna,

fyrirlitinn meðal manna.+

16 Skelfingin sem þú ollir hefur blekkt þig,

já, hroki hjarta þíns,

þú sem býrð í skjóli klettanna

og dvelur á hæstu hæðum.

Þó að þú gerir þér hreiður hátt uppi eins og örninn

steypi ég þér niður þaðan,“ segir Jehóva.

17 „Fólk mun hrylla við Edóm.+ Allir sem fara þar fram hjá fyllast óhug og blístra af undrun yfir öllum hörmungum hans. 18 Eins fer fyrir honum og þegar Sódómu og Gómorru og nágrannabæjum þeirra var eytt,“+ segir Jehóva. „Enginn mun búa þar né nokkur maður setjast þar að.+

19 Óvinur ræðst á friðsæl beitilöndin eins og ljón+ sem kemur úr þykku kjarrinu meðfram Jórdan. Ég hrek þá* burt úr landinu á augabragði og set hinn útvalda yfir það því að hver jafnast á við mig og hver getur ákært mig? Hvaða hirðir getur staðist frammi fyrir mér?+ 20 Heyrið því ákvörðun* Jehóva um Edóm og áform hans um íbúa Teman:+

Hinir minnstu í hjörðinni verða dregnir burt.

Hann gerir beitiland þeirra að auðn vegna þeirra.+

21 Jörðin nötrar við hávaðann af falli þeirra.

Neyðaróp heyrast!

Ómurinn berst allt til Rauðahafs.+

22 Hann hefur sig á loft eins og örn og steypir sér niður,+

þenur vængina yfir Bosra.+

Á þeim degi verður hjarta hermanna Edóms

eins og hjarta konu í barnsburði.“

23 Um Damaskus:+

„Hamat+ og Arpad eru niðurlægðar

því að þær hafa heyrt ógnvænlegar fréttir.

Hjörtu þeirra bráðna af ótta.

Hafið er ólgandi og finnur enga ró.

24 Damaskus hefur misst kjarkinn.

Hún snerist á flótta en ofsahræðsla greip hana.

Hún er undirlögð angist og kvöl

eins og kona í barnsburði.

25 Hvers vegna hefur fólk ekki yfirgefið borgina dásömuðu,

borg gleðinnar?

26 Ungir menn hennar munu falla á torgunum

og allir hermennirnir farast á þeim degi,“ segir Jehóva hersveitanna.

27 „Ég kveiki í múrum Damaskus

og eldurinn gleypir virkisturna Benhadads.“+

28 Um Kedar+ og konungsríki Hasórs sem Nebúkadnesar* Babýlonarkonungur vann. Jehóva segir:

„Af stað, farið upp til Kedars

og útrýmið austanmönnum.

29 Tjöld þeirra og hjarðir verða tekin herfangi,

tjalddúkar þeirra og allar eigur.

Úlfaldar þeirra verða teknir

og menn munu hrópa til þeirra: ‚Skelfing er allt um kring!‘

30 Forðið ykkur, flýið langar leiðir!

Farið og felið ykkur í djúpum dölum, þið sem búið í Hasór,“ segir Jehóva,

„því að Nebúkadnesar* Babýlonarkonungur hefur lagt á ráðin gegn ykkur

og er með áætlun um að ráðast á ykkur.“

31 „Af stað! Haldið gegn þjóðinni sem býr við frið

og er örugg um sig,“ segir Jehóva.

„Hún hefur hvorki hurðir né slagbranda og býr út af fyrir sig.

32 Úlfaldar þeirra verða ránsfengur

og aragrúi búfjár þeirra herfang.

Ég tvístra þeim í hverjum vindi,*

þeim sem skera hárið við gagnaugun,+

og leiði hörmungar yfir þá úr öllum áttum,“ segir Jehóva.

33 „Hasór verður að bæli sjakala,

að eilífum eyðirústum.

Enginn mun búa þar

né nokkur maður setjast þar að.“

34 Þetta er orð Jehóva sem kom til Jeremía spámanns varðandi Elam+ í upphafi stjórnartíðar Sedekía+ Júdakonungs: 35 „Jehóva hersveitanna segir: ‚Ég brýt boga Elamíta,+ sterkasta vopn þeirra.* 36 Ég leiði yfir Elamíta vindana fjóra frá fjórum endimörkum himins og tvístra þeim í öllum þessum vindum. Engin þjóð mun fyrirfinnast sem Elamítar hrökklast ekki til.‘“

37 „Ég læt Elamíta fyllast skelfingu frammi fyrir óvinum þeirra og þeim sem vilja drepa þá. Ég leiði yfir þá ógæfu, brennandi reiði mína,“ segir Jehóva. „Ég sendi sverðið á eftir þeim þar til ég hef útrýmt þeim.“

38 „Ég reisi hásæti mitt í Elam+ og eyði þaðan konungi og höfðingjum,“ segir Jehóva.

39 „En á síðustu dögum safna ég saman útlögum Elams,“ segir Jehóva.

50 Boðskapurinn sem Jehóva flutti um Babýlon,+ um land Kaldea, fyrir milligöngu Jeremía spámanns:

 2 „Tilkynnið þetta meðal þjóðanna og boðið það.

Reisið merki* og boðið það.

Dragið ekkert undan!

Segið: ‚Babýlon er unnin.+

Bel er niðurlægður.+

Meródak* er skelfingu lostinn.

Líkneski Babýlonar eru niðurlægð.

Viðbjóðsleg skurðgoð* hennar eru skelfingu lostin.‘

 3 Þjóð hefur ráðist gegn henni úr norðri.+

Hún gerir landið að hryllilegum stað,

enginn býr þar lengur.

Bæði menn og skepnur eru lögð á flótta,

farin burt.“

4 „Á þeim dögum og á þeim tíma,“ segir Jehóva, „munu Ísraelsmenn og Júdamenn koma saman.+ Þeir ganga grátandi+ og saman leita þeir Jehóva Guðs síns.+ 5 Þeir spyrja til vegar til Síonar og stefna þangað.+ Þeir segja: ‚Komið, við skulum bindast Jehóva með eilífum sáttmála sem aldrei gleymist.‘+ 6 Þjóð mín er hjörð týndra sauða.+ Hirðar hennar létu hana villast af leið.+ Þeir leiddu hana afvega uppi í fjöllum svo að sauðirnir reikuðu um fjöll og hæðir. Þeir hafa gleymt hvíldarstað sínum. 7 Allir sem rákust á þá gleyptu þá.+ Og óvinir þeirra sögðu: ‚Við erum saklausir því að þeir hafa syndgað gegn Jehóva, bústað réttlætisins, gegn Jehóva, von forfeðra sinna.‘“

 8 „Flýið frá Babýlon,

farið burt úr landi Kaldea,+

og verið eins og forystusauðir á undan hjörðinni

 9 því að ég vek upp bandalag mikilla þjóða frá landinu í norðri

og stefni því gegn Babýlon.+

Þær sækja gegn henni fylktu liði,

þaðan verður hún unnin.

Örvar þeirra eru eins og örvar stríðskappa

sem ræna foreldra börnum þeirra,+

þær snúa ekki aftur án þess að ná marki sínu.

10 Kaldea verður að herfangi.+

Allir sem ræna hana fá kappnóg,“+ segir Jehóva,

11 „því að þið glöddust+ og fögnuðuð

þegar þið rænduð eign* mína.+

Þið stöppuðuð fótum eins og kvíga úti í haga

og hneggjuðuð eins og stóðhestar.

12 Móðir ykkar er niðurlægð.+

Hún sem fæddi ykkur er vonsvikin.

Hún er síst allra þjóða,

vatnslaus auðn og eyðimörk.+

13 Hún verður óbyggð vegna reiði Jehóva,+

hún verður að algerri auðn.+

Allir sem fara fram hjá Babýlon fyllast óhug

og blístra af undrun yfir öllum hörmungum hennar.+

14 Sækið fylktu liði gegn Babýlon úr öllum áttum,

þið sem spennið bogann.

Skjótið á hana, sparið ekki örvarnar+

því að hún hefur syndgað gegn Jehóva.+

15 Rekið upp heróp gegn henni úr öllum áttum.

Hún hefur gefist upp.*

Súlur hennar eru fallnar, múrar hennar rifnir niður,+

því að þetta er hefnd Jehóva.+

Hefnið ykkar á henni.

Farið með hana eins og hún hefur farið með aðra.+

16 Útrýmið sáðmönnum úr Babýlon

og þeim sem beita sigðinni um uppskerutímann.+

Vegna hins vægðarlausa sverðs snúa allir aftur til þjóðar sinnar,

hver og einn flýr heim í land sitt.+

17 Ísraelsmenn eru tvístraðir sauðir.+ Ljón hafa sundrað þeim.+ Fyrst gleypti Assýríukonungur þá,+ síðan nagaði Nebúkadnesar* Babýlonarkonungur bein þeirra.+ 18 Þess vegna segir Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels: ‚Ég fer með konung Babýlonar og land hans eins og ég fór með konung Assýríu.+ 19 En ég leiði Ísrael aftur á beitiland sitt+ og hann verður á beit á Karmel og í Basan.+ Á fjöllum Efraíms+ og Gíleaðs+ fær hann fylli sína.‘“

20 „Á þeim dögum og á þeim tíma,“ segir Jehóva,

„verður sektar Ísraels leitað

en hún er hvergi

og syndir Júda finnast ekki

því að ég mun fyrirgefa þeim sem ég læt verða eftir.“+

21 „Haltu gegn Marataímlandi og íbúum Pekod.+

Stráfelldu þá og gereyddu þeim,“* segir Jehóva.

„Gerðu allt sem ég hef falið þér.

22 Orrustugnýrinn ómar um landið,

alger eyðilegging.

23 Sleggjan sem sló alla jörðina er höggvin sundur og brotin!+

Babýlon vekur óhug meðal þjóðanna!+

24 Ég lagði snöru fyrir þig, Babýlon, og þú festist í henni

án þess að taka eftir því.

Þú náðist og varst gripin+

því að þú settir þig upp á móti Jehóva.

25 Jehóva hefur opnað vopnabúr sitt

og tekið út vopn heiftar sinnar+

því að alvaldur Drottinn, Jehóva hersveitanna, hefur verk að vinna

í landi Kaldea.

26 Haldið gegn henni frá fjarlægum stöðum.+

Opnið kornhlöður hennar.+

Hrúgið henni upp eins og kornbing.

Gereyðið henni.*+

Enginn verði eftir í henni.

27 Strádrepið öll ungnaut hennar,+

leiðið þau til slátrunar.

Þau eru búin að vera því að dagur þeirra er kominn,

tími uppgjörsins!

28 Það heyrist í þeim sem flýja,

þeim sem komast undan frá landi Babýlonar

til að boða í Síon hefnd Jehóva Guðs okkar,

hefndina fyrir musteri hans.+

29 Stefnið bogaskyttum gegn Babýlon,

öllum sem spenna bogann.+

Sláið upp herbúðum hringinn í kringum hana, látið engan sleppa.

Gjaldið henni eftir verkum hennar.+

Farið með hana eins og hún hefur farið með aðra+

því að hún hefur hrokast upp og risið gegn Jehóva,

gegn Hinum heilaga Ísraels.+

30 Þess vegna munu ungir menn hennar falla á torgum hennar+

og allir hermenn hennar farast* á þeim degi,“ segir Jehóva.

31 „Ég stend gegn þér,+ hrokagikkur,“+ segir alvaldur Drottinn, Jehóva hersveitanna,

„því að dagur þinn kemur, tíminn þegar ég dreg þig til ábyrgðar.

32 Þú munt hrasa og falla, hrokagikkur,

og enginn reisir þig á fætur.+

Ég kveiki í borgum þínum

og eldurinn gleypir allt í kringum þig.“

33 Jehóva hersveitanna segir:

„Ísraelsmenn og Júdamenn eru kúgaðir

og allir sem tóku þá til fanga hafa þá í haldi.+

Þeir vilja ekki sleppa þeim.+

34 En endurlausnari þeirra er sterkur.+

Jehóva hersveitanna er nafn hans.+

Hann mun flytja mál þeirra+

til að veita landinu hvíld+

en koma íbúum Babýlonar í uppnám.“+

35 „Sverð beinist að Kaldeum,“ segir Jehóva,

„að íbúum Babýlonar, höfðingjum hennar og vitringum.+

36 Sverð beinist að þeim sem fara með tómt þvaður* og þeir fara heimskulega að ráði sínu.

Sverð beinist að stríðsköppum hennar og þeir verða skelfingu lostnir.+

37 Sverð beinist að hestum þeirra og stríðsvögnum

og að öllum útlendingunum sem búa í henni

og þeir verða eins og konur.+

Sverð beinist að fjársjóðum hennar og þeim verður rænt.+

38 Eyðing vofir yfir vatni hennar og það þornar upp+

því að þetta er land skurðgoða+

og þeir láta eins og vitfirringar vegna sinna ógnvekjandi sýna.

39 Eyðimerkurdýrin munu því búa þar með ýlfrandi dýrum

og strútar hafast þar við.+

Hún verður aldrei byggð framar,

kynslóð eftir kynslóð skal enginn búa þar.“+

40 „Eins fer fyrir henni og þegar Guð eyddi Sódómu og Gómorru+ og nágrannabæjum þeirra,“+ segir Jehóva. „Enginn mun búa þar né nokkur maður setjast þar að.+

41 Sjáið! Þjóð kemur úr norðri,

mikil þjóð og voldugir konungar+ halda af stað

frá afskekktustu stöðum jarðar.+

42 Þeir eru vopnaðir bogum og kastspjótum.+

Þeir eru grimmir og sýna enga miskunn.+

Hávaðinn frá þeim er eins og drunur hafsins+

þegar þeir koma ríðandi á hestum sínum.

Þeir fylkja liði gegn þér sem einn maður, dóttirin Babýlon.+

43 Konungur Babýlonar hefur frétt af þeim+

og honum fallast hendur.+

Angist grípur hann,

kvöl eins og konu í barnsburði.

44 Óvinur ræðst á friðsæl beitilöndin eins og ljón sem kemur úr þykku kjarrinu meðfram Jórdan. Ég hrek þá burt úr landinu á augabragði og set hinn útvalda yfir það+ því að hver jafnast á við mig og hver getur ákært mig? Hvaða hirðir getur staðist frammi fyrir mér?+ 45 Heyrið því ákvörðun* Jehóva um Babýlon+ og áform hans um land Kaldea:

Hinir minnstu í hjörðinni verða dregnir burt.

Hann gerir beitiland þeirra að auðn vegna þeirra.+

46 Þegar Babýlon verður unnin mun hávaðinn skekja jörðina

og neyðaróp heyrast meðal þjóðanna.“+

51 Jehóva segir:

„Ég vek upp skaðræðisvind

gegn Babýlon+ og íbúum Leb Kamaí.*

 2 Ég sendi menn til að vinsa Babýlon eins og korn,

þeir kasta henni upp í loft og tæma land hennar.

Þeir ráðast á hana úr öllum áttum á ógæfudeginum.+

 3 Bogaskyttan skal ekki spenna bogann

og enginn skal standa upp í brynju sinni.

Sýnið ungum mönnum hennar enga miskunn,+

helgið allan her hennar eyðingu.

 4 Þeir verða vegnir og falla í landi Kaldea,

reknir í gegn á strætum hennar,+

 5 því að Ísrael og Júda eru ekki ekkjur sem Guð þeirra, Jehóva hersveitanna, hefur yfirgefið.+

En land þeirra* er fullt af sekt í augum Hins heilaga Ísraels.

 6 Flýið út úr Babýlon,

forðið ykkur til að bjarga lífi ykkar+

svo að þið farist ekki vegna sektar hennar

því að tíminn er kominn fyrir hefnd Jehóva.

Hann endurgeldur henni fyrir það sem hún hefur gert.+

 7 Babýlon var gullbikar í hendi Jehóva,

hún gerði alla jörðina drukkna.

Þjóðirnar drukku af víni hennar,+

þess vegna misstu þær vitið.+

 8 Skyndilega er Babýlon fallin og í molum.+

Grátið yfir henni!+

Sækið balsam við kvölum hennar, kannski er hægt að lækna hana.“

 9 „Við reyndum að lækna Babýlon en hún var ólæknandi.

Yfirgefið hana. Förum, hver og einn heim í land sitt,+

því að dómurinn yfir henni nær til himins,

teygir sig upp í skýin.+

10 Jehóva hefur látið okkur ná rétti okkar.+

Komið, við skulum segja frá því í Síon hvað Jehóva Guð okkar hefur gert.“+

11 „Fægið örvarnar,+ takið kringlóttu skildina.*

Jehóva hefur blásið konungum Meda í brjóst að láta til skarar skríða+

því að hann ætlar að leggja Babýlon í rúst.

Þetta er hefnd Jehóva, hefndin fyrir musteri hans.

12 Reisið merki*+ gegn múrum Babýlonar.

Styrkið varðliðið, kallið til varðmenn.

Leggist í launsátur.

Jehóva hefur gert hernaðaráætlun

og hann framkvæmir það sem hann hótaði íbúum Babýlonar.“+

13 „Þú kona sem býrð við mörg vötn+

og átt mikla fjársjóði,+

endalok þín eru runnin upp, mælir gróða þíns er fullur.+

14 Jehóva hersveitanna hefur svarið við sjálfan sig:

‚Ég fylli þig mönnum eins og engisprettusveimi

og þeir hrópa sigri hrósandi yfir þér.‘+

15 Hann skapaði jörðina með mætti sínum,

grundvallaði heiminn með visku sinni+

og þandi út himininn með þekkingu sinni.+

16 Þegar hann lætur rödd sína hljóma

ókyrrast vötnin á himni

og hann lætur ský* stíga upp frá endimörkum jarðar.

Hann lætur eldingar leiftra í regninu*

og hleypir vindinum út úr forðabúrum sínum.+

17 Hver einasti maður er óskynsamur og lætur heimsku sína í ljós.

Allir málmsmiðir munu skammast sín fyrir skurðgoðin+

því að málmlíkneski* þeirra eru blekking

og enginn andi* er í þeim.+

18 Þau eru einskis nýt,*+ hlægileg.

Þau farast á degi uppgjörsins.

19 Hann sem er hlutdeild Jakobs er ekki eins og þau

því að hann skapaði allt

og er stafur erfðahlutar síns.*+

Jehóva hersveitanna er nafn hans.“+

20 „Þú ert mér kylfa, stríðsvopn.

Með þér mölva ég þjóðir,

með þér legg ég konungsríki í rúst.

21 Með þér mölva ég hest og riddara,

með þér mölva ég stríðsvagn og vagnstjóra.

22 Með þér mölva ég karl og konu,

með þér mölva ég gamlan mann og ungan,

með þér mölva ég dreng og stúlku.

23 Með þér mölva ég hirði og hjörð hans,

með þér mölva ég bónda og dráttardýr hans,

með þér mölva ég landstjóra og embættismenn.

24 Ég mun gjalda Babýlon og öllum íbúum Kaldeu

fyrir öll þau illskuverk sem þeir frömdu í Síon fyrir augum ykkar,“+ segir Jehóva.

25 „Ég stend gegn þér,+ skaðræðisfjall,“ segir Jehóva,

„þú sem leggur alla jörðina í rúst.+

Ég rétti út höndina gegn þér og velti þér fram af klettunum.

Ég geri þig að uppbrunnu fjalli.“

26 „Fólk sækir hvorki til þín hornstein né undirstöðustein

því að þú verður að eilífri auðn,“+ segir Jehóva.

27 „Reisið merki* í landinu.+

Blásið í horn meðal þjóðanna.

Sendið* þjóðirnar gegn henni.

Stefnið gegn henni konungsríkjunum Ararat,+ Minní og Askenas.+

Skipið liðsforingja gegn henni.

Sendið hestana af stað eins og loðnar engisprettur.

28 Sendið* þjóðirnar gegn henni,

konunga Medíu,+ landstjóra hennar og alla embættismenn

og öll löndin sem þeir ríkja yfir.

29 Jörðin mun nötra og skjálfa

því að fyrirætlun Jehóva um Babýlon nær fram að ganga:

Land Babýlonar skal verða að hryllilegum stað þar sem enginn býr.+

30 Stríðskappar Babýlonar eru hættir að berjast.

Þeir sitja í virkjum sínum,

kraftur þeirra er á þrotum.+

Þeir eru orðnir eins og konur.+

Hús hennar eru í ljósum logum,

slagbrandar hennar brotnir.+

31 Hraðboði hleypur til móts við hraðboða

og sendiboði til móts við sendiboða

til að tilkynna konungi Babýlonar að borg hans sé hertekin á allar hliðar,+

32 að vöðin séu tekin,+

papýrusbátarnir brenndir

og hermennirnir óttaslegnir.“

33 Jehóva hersveitanna, Guð Ísraels, segir:

„Dóttirin Babýlon er eins og þreskivöllur.

Tíminn er kominn til að troða hana rækilega niður.

Uppskerutími hennar nálgast óðum.“

34 „Nebúkadnesar* Babýlonarkonungur hefur rifið mig í sig,+

fyllt mig örvæntingu.

Hann hefur lagt mig frá sér eins og tómt ílát.

Hann hefur gleypt mig eins og stór slanga,+

fyllt vömbina með gersemum mínum.

Hann hefur skolað mér burt.

35 ‚Það ofbeldi sem ég og hold mitt hefur orðið fyrir komi yfir Babýlon!‘ segir Síonarbúinn.+

‚Blóð mitt komi yfir íbúa Kaldeu!‘ segir Jerúsalem.“

36 Þess vegna segir Jehóva:

„Ég flyt mál þitt+

og kem fram hefndum fyrir þig.+

Ég þurrka upp vatn hennar og læt brunna hennar þorna.+

37 Babýlon verður að grjóthrúgu,+

bæli sjakala,+

að hryllilegum stað sem fólk hæðist* að.

Enginn mun búa þar.+

38 Þeir öskra allir eins og ungljón,

urra eins og ljónshvolpar.“

39 „Þegar þeir eru upptendraðir held ég veislu fyrir þá og geri þá drukkna

svo að vel liggi á þeim.+

Síðan falla þeir í ævarandi svefn

og vakna ekki aftur,“+ segir Jehóva.

40 „Ég leiði þá til slátrunar eins og lömb,

eins og hrúta og geithafra.“

41 „Æ! Sesak* var tekin,+

borgin sem öll jörðin dásamaði var unnin!+

Babýlon vekur óhug meðal þjóðanna.

42 Hafið gekk yfir Babýlon,

huldi hana með óteljandi öldum sínum.

43 Borgir hennar eru orðnar að hryllilegum stað, vatnslausu landi og eyðimörk,

landi þar sem enginn býr og enginn maður fer um.+

44 Ég sný mér að Bel+ í Babýlon

og tek úr munni hans það sem hann hefur gleypt.+

Þjóðirnar streyma ekki framar til hans

og borgarmúr Babýlonar fellur.+

45 Farið út úr henni, fólk mitt!+

Bjargið lífi ykkar+ undan brennandi reiði Jehóva!+

46 Missið ekki kjarkinn og hræðist ekki fréttirnar sem berast um landið.

Ein tíðindi heyrast þetta árið

og önnur það næsta:

Ofbeldi ríkir í landinu og valdhafi rís gegn valdhafa.

47 Þess vegna koma þeir dagar

þegar ég sný mér að skurðgoðum Babýlonar.

Allt land hennar verður niðurlægt

og allir vegnir íbúar hennar liggja inni í henni.+

48 Himinn og jörð og allt sem í þeim er

mun hrópa af gleði yfir Babýlon+

því að eyðendurnir koma gegn henni úr norðri,“+ segir Jehóva.

49 „Babýlon varð ekki aðeins Ísraelsmönnum að bana+

heldur voru menn hvaðanæva af jörðinni vegnir í henni.

50 Þið sem komist undan sverðinu, haldið áfram, standið ekki kyrr!+

Munið eftir Jehóva í fjarlægu landi

og hugsið til Jerúsalem.“+

51 „Við erum niðurlægð því að við höfum þurft að heyra háðsglósur.

Smán hylur andlit okkar

því að útlendir* menn hafa ráðist inn í helgidómana í húsi Jehóva.“+

52 „Þess vegna koma þeir dagar,“ segir Jehóva,

„þegar ég sný mér að skurðgoðum hennar

og um allt landið munu særðir menn stynja.“+

53 „Jafnvel þótt Babýlon stígi upp til himins,+

þótt hún styrki himinhá vígi sín

sendi ég eyðendur gegn henni,“+ segir Jehóva.

54 „Hlustið! Neyðaróp heyrast frá Babýlon,+

miklar hörmungar frá landi Kaldea,+

55 því að Jehóva eyðir Babýlon,

þaggar niður í háværri rödd hennar.

Öldur óvinarins drynja eins og ólgandi vatn.

Ómurinn af rödd þeirra heyrist

56 því að eyðandinn kemur yfir Babýlon,+

kappar hennar verða teknir til fanga,+

bogar þeirra brotnir,

því að Jehóva er Guð sem endurgeldur.+

Það er öruggt að hann endurgeldur.+

57 Ég geri höfðingja hennar og vitringa drukkna,+

landstjóra hennar, embættismenn og kappa.

Þeir falla í ævarandi svefn

og vakna ekki aftur,“+ segir konungurinn sem ber nafnið Jehóva hersveitanna.

58 Jehóva hersveitanna segir:

„Hinn þykki múr Babýlonar verður jafnaður við jörðu+

og hin háu hlið hennar brennd í eldi.

Þjóðirnar strita til einskis,

þjóðflokkarnir leggja hart að sér fyrir það sem fuðrar upp í eldi.“+

59 Jeremía spámaður gaf Seraja, syni Nería+ Mahasejasonar, fyrirmæli þegar Seraja fór með Sedekía Júdakonungi til Babýlonar á fjórða stjórnarári hans. Seraja sá um dvalarstaði konungs. 60 Jeremía skrifaði í eina bók allar þær hörmungar sem áttu að koma yfir Babýlon, já, öll þessi orð um Babýlon. 61 Jeremía sagði við Seraja: „Þegar þú sérð Babýlon og kemur þangað skaltu lesa upp öll þessi orð. 62 Segðu síðan: ‚Jehóva, þú hefur sagt um þennan stað að honum verði eytt, að enginn muni búa þar, hvorki menn né skepnur, og að borgin skuli liggja í eyði að eilífu.‘+ 63 Þegar þú ert búinn að lesa bókina skaltu binda stein við hana og kasta henni út í Efrat. 64 Segðu síðan: ‚Þannig mun Babýlon sökkva og aldrei koma upp aftur+ vegna þeirra hörmunga sem ég leiði yfir hana. Íbúar hennar munu lýjast.‘“+

Hér lýkur orðum Jeremía.

52 Sedekía+ var 21 árs þegar hann varð konungur og hann ríkti í 11 ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal+ og var dóttir Jeremía frá Líbna. 2 Hann gerði það sem var illt í augum Jehóva, alveg eins og Jójakím.+ 3 Það sem gerðist í Jerúsalem og Júda vakti reiði Jehóva og að lokum rak hann íbúana burt úr augsýn sinni.+ Sedekía gerði uppreisn gegn Babýlonarkonungi.+ 4 Á níunda stjórnarári Sedekía, á tíunda degi tíunda mánaðarins, kom Nebúkadnesar* konungur Babýlonar til Jerúsalem ásamt öllum her sínum. Þeir settust um borgina og reistu árásarvirki allt í kringum hana.+ 5 Umsátrið stóð fram á 11. stjórnarár Sedekía konungs.

6 Á níunda degi fjórða mánaðarins,+ þegar hungursneyðin var orðin mikil í borginni og landsmenn höfðu ekkert að borða,+ 7 var loks brotið skarð í borgarmúrinn. Um nóttina, meðan Kaldear umkringdu borgina, flúðu allir hermennirnir út úr borginni, um hliðið milli múranna tveggja við garð konungs, og héldu í átt að Araba.+ 8 En her Kaldea elti Sedekía konung og náði honum+ á eyðisléttum Jeríkó. Allir hermenn hans yfirgáfu hann og tvístruðust. 9 Kaldear gripu þá konung og fóru með hann til Babýlonarkonungs í Ribla í Hamathéraði þar sem hann kvað upp dóm yfir honum. 10 Konungur Babýlonar drap syni Sedekía fyrir augunum á honum. Hann drap einnig alla höfðingja Júda þar í Ribla. 11 Konungur Babýlonar blindaði síðan Sedekía,+ setti hann í koparhlekki og flutti hann til Babýlonar þar sem honum var haldið föngnum til dauðadags.

12 Á tíunda degi fimmta mánaðarins, það er á 19. stjórnarári Nebúkadnesars* Babýlonarkonungs, kom Nebúsaradan inn í Jerúsalem, en hann var varðforingi og þjónn Babýlonarkonungs.+ 13 Hann brenndi hús Jehóva,+ konungshöllina* og öll hús í Jerúsalem. Hann brenndi líka öll stórhýsin. 14 Allur her Kaldea sem var undir forystu varðforingjans reif niður múrana umhverfis Jerúsalem.+

15 Nebúsaradan varðforingi flutti í útlegð hluta af lágstéttarfólkinu og þá sem eftir voru í borginni. Hann flutti einnig með sér liðhlaupana sem höfðu slegist í lið með konungi Babýlonar og þá sem eftir voru af handverksmönnunum.+ 16 En Nebúsaradan varðforingi skildi eftir nokkra af fátækustu íbúum landsins til að rækta víngarða og vinna kvaðavinnu.+

17 Kaldearnir brutu koparsúlurnar+ í húsi Jehóva og einnig vagnana+ og koparhafið+ sem voru í húsi Jehóva og fluttu allan koparinn til Babýlonar.+ 18 Þeir tóku líka föturnar, skóflurnar, skarklippurnar, skálarnar,+ bikarana+ og öll koparáhöldin sem voru notuð við þjónustuna í musterinu. 19 Varðforinginn tók kerin,+ eldpönnurnar, skálarnar, föturnar, ljósastikurnar,+ bikarana og skálarnar sem voru úr ekta gulli og silfri.+ 20 Koparinn í súlunum tveim, hafinu, koparnautunum 12+ sem hafið hvíldi á og vögnunum sem Salómon konungur hafði gert fyrir hús Jehóva var svo mikill að ekki var hægt að vigta hann.

21 Súlurnar voru 18 álnir* á hæð og 12 álna mælisnúru þurfti til að ná utan um hvora þeirra.+ Þær voru fjórar fingurbreiddir* á þykkt og holar að innan. 22 Súlnahöfuðin voru úr kopar. Þau voru fimm álnir á hæð+ og netin og granateplin allt í kringum þau voru úr kopar. Súlurnar tvær voru alveg eins, og það voru granateplin líka. 23 Granateplin sem sneru út á við voru 96 talsins. Alls voru 100 granatepli á netinu hringinn í kring.+

24 Varðforinginn flutti einnig með sér Seraja+ yfirprest, Sefanía+ prest, sem var næstur honum, og dyraverðina þrjá.+ 25 Úr borginni tók hann hirðmanninn sem var yfir hermönnunum, sjö af nánustu ráðgjöfum konungs sem fundust í borginni, ritara hershöfðingjans, sem kvaddi landsmenn í herinn, og 60 almúgamenn sem voru enn í borginni. 26 Nebúsaradan varðforingi tók þá og flutti þá til Babýlonarkonungs í Ribla. 27 Konungur Babýlonar lét taka þá af lífi í Ribla+ í Hamathéraði. Þannig voru íbúar Júda fluttir í útlegð úr landi sínu.+

28 Þetta er fjöldi þeirra sem Nebúkadnesar* flutti í útlegð: á sjöunda stjórnarárinu 3.023 Gyðinga.+

29 Á 18. stjórnarári Nebúkadnesars*+ voru 832 fluttir frá Jerúsalem.

30 Á 23. stjórnarári Nebúkadnesars* flutti Nebúsaradan varðforingi 745 Gyðinga í útlegð.+

Alls voru 4.600 manns fluttir í útlegð.

31 Árið sem Evíl Meródak varð konungur í Babýlon lét hann Jójakín+ Júdakonung lausan* og sleppti honum úr fangelsi. Það var á 37. útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, á 25. degi 12. mánaðarins.+ 32 Hann talaði vingjarnlega við hann og veitti honum meiri heiður en hinum konungunum* sem voru hjá honum í Babýlon. 33 Jójakín fór úr fangabúningnum og borðaði hjá konungi það sem eftir var ævinnar. 34 Hann fékk daglegan matarskammt frá Babýlonarkonungi það sem eftir var ævinnar, allt þar til hann dó.

Merkir hugsanl. ‚Jehóva upphefur‘.

Eða „valdi“.

Eða „aðgreindi“.

Hebreskt heiti möndlutrésins merkir ‚sá sem vaknar‘.

Orðrétt „pott sem blásið er á“, það er, til að kynda undir honum.

Orðrétt „Gyrtu mjaðmir þínar“.

Eða „tryggum kærleika“.

Eða „eyja“.

Eða „höggvið“, líklega í berg.

Eða „vatnsþrær“.

Eða „Memfis“.

Kvísl úr Níl.

Það er, Efrat.

Eða „mikilli sápu“.

Orðrétt „í mánuði hennar“.

Eða „útlendum guðum“.

Eða „brúðkaupsbelti sínu“.

Orðrétt „Arabi“.

Orðrétt „ert með enni“.

Eða „útlendum guðum“.

Eða hugsanl. „er eiginmaður“.

Eða hugsanl. „halda ykkur á beit með þekkingu og skilningi“.

Eða „hinn svívirðilegi guð“.

Eða „merkisstöng“.

Eða „berjið ykkur á brjóst“.

Ljóðræn persónugerving, hugsanlega til að tjá vorkunn eða samúð.

Orðrétt „Varðmenn“, það er, menn sem fylgdust með borginni til að ákvarða hvenær gera skyldi árás.

Orðrétt „Innyfli mín“.

Eða hugsanl. „herópið“.

Eða „merkisstöngina“.

Eða „iðrast“.

Eða „augnskugga“.

Orðrétt „böndin“.

Eða hugsanl. „Hann er ekki til“.

Það er, orð Guðs.

Eða „Helgið“.

Orðrétt „Eyra þeirra er óumskorið“.

Eða „beinbrot“.

Eða „yfirborðslegum“.

Eða „fræðslu minni; leiðsögn minni“.

Orðrétt „fæðingarhríðir“.

Það er, Jeremía.

Orðrétt „Þær eru“. Átt er við allar byggingar musterissvæðisins.

Eða „föðurlaus börn“.

Eða „frá eilífð til eilífðar“.

Eða „fórnarreyk“.

Orðrétt „risi upp snemma og talaði“.

Titill gyðju sem fráhverfir Ísraelsmenn tilbáðu. Hún var hugsanlega frjósemisgyðja.

Eða „misbjóða mér; ögra mér“.

Eða „fylgdu sínum eigin ráðum“.

Orðrétt „reis upp snemma dag hvern og sendi þá“.

Orðrétt „upprætt úr munni þeirra“.

Hér er Síon ávörpuð, það er, Jerúsalem.

Eða „vígt“.

Sjá orðaskýringar, „Gehenna“.

Sjá orðaskýringar, „Gehenna“.

Eða hugsanl. „tranan“.

Eða „fræðslu; leiðsögn“.

Eða „lygagriffill“.

Eða „ritaranna“.

Eða „beinbrot“.

Eða „yfirborðslegum“.

Eða „sem særingar vinna ekki á“.

Eða „græðandi smyrsl“.

Eða „fræðslunni; leiðsögninni“.

Eða „tilgangslausir“.

Eða „tilgangslaust“.

Vers 11 var upphaflega skrifað á arameísku.

Eða „gufu“.

Eða hugsanl. „gerir flóðgáttir fyrir regnið“.

Eða „steypt líkneski“.

Eða „andardráttur“.

Eða „blekking“.

Orðrétt „stafur erfðahlutar hans“.

Það er, hann er hvorki fær um það né hefur rétt á því.

Þessum fyrirmælum virðist beint til Jeremía.

Eða „Verði svo“.

Orðrétt „Ég reis upp snemma og varaði þá við“.

Eða „fórnarreyk“.

Eða „hinum svívirðilega guði“.

Það er, Jeremía.

Eða „innstu tilfinningar mannsins“. Orðrétt „nýrun“.

Eða „innstu tilfinningum“. Orðrétt „nýrum“.

Eða „dílóttur“.

Eða hugsanl. „hún syrgir“.

Orðrétt „mörgum dögum seinna“.

Eða „umsetnar“.

Eða „Eþíópíumaður“.

Eða „lostafullt hnegg“.

Eða „skammarlega“.

Eða „sjúkdómi“.

Eða hugsanl. „ferns konar refsidóma“. Orðrétt „fjórar ættir“.

Eða hugsanl. „hún [það er, sólin] skammast sín og fer hjá sér“.

Orðrétt „að þú hrífir mig burt“.

Eða „dómsboðskap“.

Orðrétt „standir frammi fyrir“.

Eða „talsmaður“.

Heiðnir sorgarsiðir sem fráhverfir Ísraelsmenn virðast hafa stundað.

Orðrétt „öllum vegum þeirra“.

Orðrétt „með líkum viðurstyggða sinna“.

Sjá orðaskýringar.

Eða hugsanl. „því að þú brennur eins og eldur í reiði minni“.

Eða „kraftamaður“.

Eða „kraftamaður“.

Eða hugsanl. „ólæknandi“.

Eða „innstu tilfinningar mannsins“. Orðrétt „nýrun“.

Orðrétt „mér“. Greinilega er átt við Jehóva.

Eða „og leiddu yfir þá tvöfalda eyðingu“.

Eða „úr suðri“.

Eða „iðrast ég þeirra hörmunga“.

Eða „iðrast ég þess góða“.

Orðrétt „móta ógæfu“.

Eða „fórnarreyk“.

Eða „óupphækkaða“.

Orðrétt „blístra“.

Orðrétt „sláum hann með tungunni“.

Orðrétt „blístra“.

Eða „innstu tilfinningar mannsins“. Orðrétt „nýrun“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Eða „skæðum sjúkdómi“.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Eða „komast lífs af“.

Eða „á lágsléttunni“.

Orðrétt „hús“.

Eða „munaðarlausa“.

Orðrétt „helga“.

Einnig nefndur Jóahas.

Orðrétt „verður hirðir allra hirða þinna“.

Einnig nefndur Jójakín og Jekonja.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Eða „land“.

Orðrétt „dagana“.

Eða „erfingja“.

Eða „þeim sem fremja hjúskaparbrot“.

Eða „fráhverfir“.

Orðrétt „styrkja hendur þeirra“.

Eða „gefa ykkur falskar vonir“.

Eða „hinn þungi boðskapur“. Hebreska orðið hefur tvíþætta merkingu: ‚þungvægur boðskapur frá Guði‘ eða ‚eitthvað íþyngjandi‘.

Eða „þungur boðskapur“.

Eða „þungan boðskap“.

Eða „Hinn þungi boðskapur“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Einnig nefndur Jójakín og Konja.

Eða hugsanl. „þeim sem reisa varnarvirki“.

Eða „sjúkdóm“.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Eða „við“.

Orðrétt „risið upp snemma og talað“.

Orðrétt „reis upp snemma og sendi þá“.

Orðrétt „Nebúkadresari“, annar ritháttur.

Sjá orðaskýringar.

Orðrétt „blístrar“.

Eða „refsa ég Babýlonarkonungi og þjóð hans“.

Virðist vera dulnefni fyrir Babel (Babýlon).

Orðrétt „öllu holdi“.

Eða „ungljón“.

Eða „varðandi alla“.

Eða „falla fram“.

Eða „iðrast ég þeirra hörmunga“.

Eða „fræðslu minni; leiðsögn minni“.

Orðrétt „húsi konungs“.

Eða „iðrast Jehóva hörmunganna“.

Eða „reyndi að milda Jehóva“.

Eða „iðraðist hörmunganna“.

Eða „Sedekía“, samkvæmt sumum fornum handritum.

Eða „sjúkdómi“.

Orðrétt „hvílast“.

Orðrétt „húsi“.

Það er, koparhafið í musterinu.

Orðrétt „húsi“.

Eða „Verði svo!“

Eða „sjúkdómi“.

Eða hugsanl. „þeir sem reisa varnarvirki“.

Eða „sjúkdóm“.

Eða hugsanl. „sprungnar“.

Orðrétt „blístra“.

Orðrétt „reis upp snemma og sendi þá“.

Það er, útlagarnir.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Eða „lendar sínar“.

Orðrétt „mikill“.

Orðrétt „böndin“.

Eða „útlendingar“.

Orðrétt „hann“.

Eða „refsa þér“.

Eða hugsanl. „læt þá njóta virðingar“.

Orðrétt „leggja hjarta sitt að veði til að“.

Eða „haldið áfram að sýna þér tryggan kærleika“.

Eða „gengur í dans hinna hlæjandi“.

Eða „endurheimtir“.

Eða „því góða sem kemur frá“.

Orðrétt „feiti“.

Eða „börn sín“.

Orðrétt „ólga innyfli mín“.

Eða hugsanl. „væri eiginmaður“.

Eða „fituöskunni“, það er, ösku blandaðri fitu fórnardýranna.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Orðrétt „húsi“.

Sikill jafngilti 11,4 g. Sjá viðauka B14.

Orðrétt „endurgeldur sekt feðranna í barm sona þeirra“.

Eða „ert mikill í ráðum“.

Eða „sjúkdómur“.

Orðrétt „alls holds“.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Orðrétt „reis upp snemma og kenndi“.

Sjá orðaskýringar, „Gehenna“.

Orðrétt „láta syni sína og dætur ganga gegnum eldinn“.

Sjá orðaskýringar.

Eða „erfingja“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Orðrétt „Í dag“.

Eða „sjúkdómi“.

Eða „eitt af herbergjunum“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Orðrétt „risið upp snemma og talað“.

Orðrétt „reis upp snemma og sendi þá“.

Eða „bókinni“.

Eða „bókinni“.

Eða „matsal“.

Eða „fræðimanns“.

Eða „bókinni“.

Orðrétt „húss konungs“.

Eða „hirðmennirnir“.

Eða „bókinni“.

Eða „bók“.

Síðari hluti nóvember og fyrri hluti desember. Sjá viðauka B15.

Eða „bókinni“.

Einnig nefndur Jójakín og Jekonja.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Orðrétt „húsi sínu“.

Eða „sjúkdómi“.

Orðrétt „fer út til Kaldea“.

Orðrétt „veikir hendur“.

Eða „vatnsþró“.

Eða „hirðmaður“.

Orðrétt „húsi konungs“.

Orðrétt „húsi konungs“.

Orðrétt „hús konungs“.

Orðrétt „húsi“.

Eða „sem voru þér vinveittir“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Virðist vera titill.

Eða „rabsaris“. Samkvæmt annarri skiptingu orðanna í hebreska textanum: „Nergalsareser, Samgar Nebú, Sarsekím, Rabsaris.“

Eða „æðsti galdramaður (stjörnuspekingur)“.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Orðrétt „hús“.

Eða hugsanl. „lagði á þá kvaðavinnu“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Eða „rabsaris“.

Eða „æðsti galdramaður (stjörnuspekingur)“.

Eða „kemst lífs af“.

Orðrétt „til að standa frammi fyrir“.

Eða „hvítt reykelsi“.

Eða hugsanl. „stóru tjörnina“.

Eða „harma þær hörmungar“.

Eða „búa þar um tíma“.

Eða „sjúkdómi“.

Orðrétt „Nebúkadresari“, annar ritháttur.

Orðrétt „húsum“.

Eða „heill á húfi“.

Eða „broddsúlurnar“.

Eða „Húsi (musteri) sólarinnar“, það er, Helíópólis.

Orðrétt „hús“.

Eða „Memfis“.

Eða „verið niðurbrotin“.

Eða „sjúkdómi“.

Titill gyðju sem fráhverfir Ísraelsmenn tilbáðu. Hún var hugsanlega frjósemisgyðja.

Titill gyðju sem fráhverfir Ísraelsmenn tilbáðu. Hún var hugsanlega frjósemisgyðja.

Titill gyðju sem fráhverfir Ísraelsmenn tilbáðu. Hún var hugsanlega frjósemisgyðja.

Titill gyðju sem fráhverfir Ísraelsmenn tilbáðu. Hún var hugsanlega frjósemisgyðja.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Eða „væntir mikils“.

Eða „læt þig komast lífs af“.

Orðrétt „Nebúkadresari“, annar ritháttur.

Eða „buklarana“. Buklari var lítill skjöldur, gjarnan borinn af bogaskyttum.

Eða „færir sláturfórn“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Eða „Memfis“.

Orðrétt „hinn ákveðna tíma“.

Það er, sá sem vinnur sigur á Egyptalandi.

Eða „Memfis“.

Eða hugsanl. „að auðn“.

Eða „menn sem safna viði“.

Það er, Þebu.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Eða „refsa þér“.

Það er, Krít.

Það er, íbúarnir munu raka á sér höfuðið af sorg og skömm.

Eða „Fjallavígið“.

Eða „Lágsléttan“.

Eða „hásléttan“.

Eða hugsanl. „á þurra jörðina“.

Eða „hásléttuna“.

Orðrétt „Horn“.

Eða „titrar“.

Það er, flauta sem leikið er á við útför.

Eða „titrar“.

Það er, flauta sem leikið er á við útför.

Sjá orðaskýringar.

Eða hugsanl. „læt heróp óma“.

Eða „sem tilheyra henni“.

Eða „fjárbyrgjanna“.

Eða „lágsléttunum“.

Vísar sennilega til Edómíta.

Eða „fyrirætlun“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Eða „í allar áttir“.

Orðrétt „upphaf máttar þeirra“.

Eða „merkisstöng“.

Sjá orðaskýringar.

Hebreska orðið lýsir fyrirlitningu. Hugsanlegt er að það sé skylt orði sem merkir ‚mykja‘.

Orðrétt „arfleifð“.

Orðrétt „gefið hönd sína“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Eða „helgaðu þá eyðingu“. Sjá orðaskýringar.

Eða „Helgið hana eyðingu“.

Orðrétt „þagna“.

Eða „falsspámönnunum“.

Eða „fyrirætlun“.

Virðist vera dulnefni fyrir Kaldeu.

Það er, land Kaldea.

Eða hugsanl. „fyllið örvamælana“.

Eða „merkisstöng“.

Eða „gufu“.

Eða hugsanl. „gerir flóðgáttir fyrir regnið“.

Eða „steypt líkneski“.

Eða „andardráttur“.

Eða „blekking“.

Eða hugsanl. „þar á meðal staf erfðahlutar síns“.

Eða „merkisstöng“.

Orðrétt „Helgið“.

Orðrétt „Helgið“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Orðrétt „blístrar“.

Virðist vera dulnefni fyrir Babel (Babýlon).

Eða „ókunnugir“.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Orðrétt „hús konungs“.

Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.

Fingurbreidd jafngilti 1,85 cm. Sjá viðauka B14.

Orðrétt „Nebúkadresar“, annar ritháttur.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Orðrétt „Nebúkadresars“, annar ritháttur.

Orðrétt „hóf hann upp höfuð Jójakíns Júdakonungs“.

Eða „setti hásæti hans ofar hásætum hinna konunganna“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila